Færsluflokkur: Fjölmiðlar
1.12.2019 | 18:51
Rafmagnsverð til fyrirtækja er ósamkeppnisfært
Fullyrðingin í fyrirsögninni er ekki ótímabær forsögn um þróunina hérlendis á næstu árum, heldur staðreynd um raforkuverð núna til fyrirtækja. Rafmagnsverð til heimila hér er hins vegar lægra en víðast hvar annars staðar. Virðist almenningur erlendis vera fórnarlamb hins frjálsa uppboðsmarkaðar raforku, en nauðsynin á að halda uppi samkeppnishæfri framleiðslustarfsemi virðist hafa veitt fyrirtækjum í samkeppnisrekstri kost á hagstæðari samningum en heimilin búa við, e.t.v. í krafti jafnara álags (betri nýtingar aflgetu virkjana, flutnings og dreifikerfis), meiri orkunotkunar yfir árið frá fyrsta ári og þar af leiðandi vegna fullnýtingar fjárfestinga fyrr, langtímasamninga (tryggar tekjur orkufyrirtækja á afskriftartíma fjárfestinga) og hærri aflstuðuls en heimilisnotkun býður upp á.
Íslenzk heimili njóta hins vegar enn góðs af, að langtímasamningar um raforkusölu við stórnotendur hafa staðið undir uppbyggingu raforkukerfisins á Íslandi. Annars gæti raforkuverð til almennings ekki verið lægst hér. Opinberar niðurgreiðslur, sem kunna að fela í sér mismunun neytenda, eru hins vegar bannaðar innan EES, en þó virðist leyfilegt að hygla neytendum eftir búsetu (dreifbýlisívilnun) og fyrirtækjum líka.
Fyrsta dæmið, sem hér verður tekið til að sýna fram á ósamkeppnisfært innlent orkuverð, er aðalfréttin á forsíðu Fréttablaðsins, 11. nóvember 2019, undir fyrirsögninni:
"Telja orkuverð hér allt of hátt":
""Orkuverð í miðborg Stokkhólms er 20 % lægra en það, sem okkur býðst á Íslandi. Sá munur eykst, ef gagnaver eru byggð uppi í Norður-Svíþjóð. Orkuverð hér er orðið allt of hátt eða 25-40 % hærra en t.d. í Svíþjóð og Noregi", segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri íslenska gagnaversfyrirtækisins Advania Data Centers."
Það er ljóður á ráði þessarar frásagnar, að hvorki er getið umsaminna orkuverða erlendis né boðinna orkuverða hérlendis. Þó er ekki ástæða til að rengja staðhæfinguna um, að boðið orkuverð hér, með flutnings- og dreifingarkostnaði eftir atvikum, sé um þriðjungi of hátt til að geta talizt samkeppnishæft við Svíþjóð.
Ef ekki nást neinir samningar við fjárfesta, erlenda eða innlenda, sem valið geta úr staðsetningum í nokkrum löndum og talizt geta til stórnotenda (E>60 GWh/ár), þá verður ekki hægt að ráðast í meðalstóra virkjun og láta almenning njóta góðs af langtímasamningum fyrir hluta orkunnar þaðan, eins og gert hefur verið hérlendis, heldur verður þá orkuverðið til almennings um 40 % hærra en ella frá þeirri virkjun, af því að hún fullnýtist svo seint.
T.d. munu þá virkjanir í Neðri-Þjórsá leiða til töluverðrar verðhækkunar á markaðinum hér. Verst af öllu er þó að aðhafast ekkert, en nú eru í raun og veru engar virkjanir á framkvæmdastigi, sem ráða við eftirspurnaraukninguna á almenna markaðinum að orkuskiptunum meðtöldum, sem er a.m.k. 130 GWh/ár. Það er mikil vá fyrir dyrum, ef sú skoðun er ráðandi í iðnaðarráðuneytinu, að markaðurinn muni hér leysa vandann. Hann gerir það of seint, því að undirbúnings- og framkvæmdatími virkjana og flutningslína er hér tiltölulega mjög langur.
""Ólafur Adolfsson, formaður Þróunarfélags Grundartanga, hefur einnig áhyggjur af háu raforkuverði. Á Grundartanga vinna um 1100 manns hjá 20 stórum og smærri fyrirtækjum, og um 1000 til viðbótar þjónusta svæðið. "Við höfum miklar áhyggjur af háu raforkuverði. Það er varhugaverð þróun, að verið sé að verðleggja íslenzkan iðnað út af samkeppnismörkuðum. Við höfum ítrekað varað við þessu. Þetta lýtur ekki eingöngu að samkeppnishæfni nýrra verkefna. Verja þarf þau störf, sem fyrir eru", segir Ólafur." [Undirstr. BJo.]
Hér talar maður með góða yfirsýn um annað af tveimur stærstu iðnaðarsvæðum landsins, Grundartangann. Hann segir það berum orðum, að hátt raforkuverð í landinu ógni nú atvinnuöryggi þúsunda manna og kvenna. Á tímum vaxandi atvinnuleysis, þegar atvinnuleysisbótaútgjöld ríkisins eru farin að slaga upp í 20 mrdISK/ár, er þetta algerlega óásættanlegt, af því að að það er þarflaust. Það eru ríkisfyrirtæki, sem standa fyrir þessari óheillaþróun á Grundartanga og annars staðar, Landsvirkjun og Landsnet (ON og LV selja NÁ raforku, LV selur Elkem Íslandi raforku). Báðir þessir raforkubirgjar og flutningsfyrirtækið LN hafa skilað arði undanfarin ár, og forstjóri Landsvirkjunar hefur í a.m.k. 5 ár gumað af því, að fyrirtæki hans myndi á "næstu árum" skila ríkisstjóði 20 mrdISK/ár í arðgreiðslum. Hann þarf þess vegna ekki að ganga jafnhart fram og hann gerir við að hækka verð raforku umfram þanþol gjaldeyrisskapandi og atvinnuskapandi fyrirtækja í landinu, sem vilja þó halda starfsemi sinni áfram í von um betri tíð.
Þess er skemmst að minnast, að forstjóri LV stóð í harðvítugum deilum við stjórnendur Elkem Ísland (áður Íslenska járnblendifélagið), sem varð fertugt í sumar, um endurnýjun rafmagnssamnings, sem hafði runnið sitt skeið á enda. Samningar náðust ekki vegna kröfugerðar Landsvirkjunar um hækkun á raforkuverði, sem stjórnendur Elkem Ísland gátu ekki séð, að fyrirtækið gæti staðið undir við gildandi markaðsaðstæður. Fór þá ágreiningurinn fyrir gerðardóm. Hann hefur því miður ekki verið birtur, en í kjölfar hans lýsti forstjóri Landsvirkjunar yfir megnri vanþóknun og fullyrti, að hann væri undir kostnaði Landsvirkjunar við að framleiða rafmagnið til Elkem Ísland.
Hér er býsna djúpt tekið í árinni, og forstjórinn skákar þar í skjóli leyndarinnar, sem hann vill, að hvíli yfir samningum þessa ríkisfyrirtækis. Hér krystallast verðlagningarstefna Landsvirkjunar og um leið sú kúvending, sem orðið hefur á stefnu fyrirtækisins gagnvart atvinnuuppbyggingu og iðnþróun í landinu með þessum forstjóra og núverandi stjórn Landsvirkjunar, án þess að fulltrúar eigendanna, Alþingismenn, hafi komið nálægt þessari stefnumótun, svo að vitað sé.
Forstjórinn getur ekki átt við raunverulegan (meðaltals) vinnslukostnað Landsvirkjunar, því að upphaflegi rafmagnssamningurinn við Íslenska járnblendifélagið var reistur á Sigölduvirkjun. Lán hennar vegna eru upp greidd, og virkjunin hefur að mestu verið bókhaldslega afskrifuð. Vinnslukostnaðurinn nemur þess vegna aðeins rekstrar- og viðhaldskostnaði virkjunarinnar, sem er líklega innan við 0,5 ISK/kWh, en gizka má á, að úrskurður gerðardómsins hafi jafngilt um 4 ISK/kWh fyrir forgangsorku til verksmiðjunnar. Landsvirkjun malar gull á þessum viðskiptum með raforku, þar sem verðið er um áttfaldur tilkostnaðurinn.
Hvað á forstjóri Landsvirkjunar þá við ? Hann fylgir dyggilega fram stefnu Evrópusambandsins, ESB, um verðlagningu raforku, en hún er í stuttu máli þannig, að raforkuverðið eigi að endurspegla kostnað raforku frá næstu virkjun, þ.e. verðið til neytenda á að endurspegla jaðarkostnað vinnslu, flutnings og dreifingar, til að skapa nægan hvata til fjárfestinga í nýjum mannvirkjum (virkjunum, aðveitustöðvum, loftlínum, jarðstrengjum, dreifistöðvum). Þetta er harðsvíruð markaðshyggja Landsvirkjunar, sem mun eyðileggja samkeppnishæfni landsins, því að erlendis njóta fyrirtæki ívilnana til að varðveita verðmætasköpun og atvinnusköpun. Það er afar ólíklegt, að þessi kúvending Landsvirkjunar frá stefnu, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn lögðu blessun sína yfir við stofnun Landsvirkjunar með lögum frá Alþingi árið 1965, njóti nokkurs fylgis í hinu myndarlega steinhúsi við Austurvöll. Þó virðist iðnaðarráðherra láta sér vel líka. Hverju sætir sú værukærð, á meðan Róm brennur ? Með þessa stefnu við stýrið verður erfitt eða ómögulegt að ná samningum á milli Landsvirkjunar og "Paradise Farm", sem hefur á stefnuskrá að reisa 10 ha ylræktarver á Víkursandi við Þorlákshöfn, þar sem rækta á tómata, papriku og salat fyrst í stað, og síðar meir er ætlunin að bæta við suðrænum ávöxtum á borð við papaja og mangó. Það vantar tengipunkt hjá Landsneti fyrir þessi viðskipti, en það er afar eðlilegt að raforkan komi frá tengivirki við virkjun í Neðri-Þjórsá og hugsanlega frá nýrri aðveitustöð, sem sjá mundi jafnframt hinum vaxandi þéttýlisstöðum Árborg og Hveragerði fyrir nýrri orkuleið. Hér er um gjaldeyrisskapandi hagsmunamál fyrir Sunnlendinga og landsmenn alla að ræða, sem þingmenn ættu að fylgjast með. Á tímum mikils nasablásturs yfir kolefnissporum vegna innflutnings er ekki verjandi, að ríkisfyrirtæki dragi lappirnar við að raungera umhverfisvænt verkefni, sem getur dregið úr innflutningi grænmetis, sem ræktað er með stóru kolefnisspori.
Forstjóri Landsvirkjunar tekur rangan pól í hæðina við verðlagningu raforku. Hann virðist horfa framhjá þeirri staðreynd, að við útreikning á kostnaði raforku frá nýrri virkjun skiptir höfuðmáli, hve langan tíma tekur að fullnýta hana. Ef t.d. 1200 GWh/ár virkjun þarf að fá 5,0 ISK/kWh frá almenningsveitum, þá þyrfti hún aðeins 3,6 ISK/kWh frá notanda á borð við Elkem Ísland til að skila sömu arðsemi. Þetta er grundvöllur þess, að íslenzk heimili í þéttbýli njóta líklega lægsta raforkuverðs í heimi án niðurgreiðslna hins opinbera, en það er hins vegar enn þá "svínað" á notendum í dreifbýli eftir innleiðingu Orkupakka #1 árið 2003.
Þetta á sér þó ekki lagastoð í orkupakkanum, því að leyfilegt er að umbuna neytendum á grundvelli búsetu. Hér er þeim hins vegar refsað, bæði heimilum og fyrirtækjum, og felur þetta í sér ólíðandi mismunun innan sömu dreifiveitu.
Fyrsti þingmaður Norð-Vesturkjördæmis, Haraldur Benediktsson, hefur barizt fyrir leiðréttingu á "svínaríinu" á Alþingi. Annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins í sama kjördæmi gegnir embætti iðnaðarráðherra og er þar af leiðandi í lykilstöðu til að hafa forgöngu um breytingar til batnaðar, en hvorki gengur né rekur á þessum bæ. Hvers konar verkstjórn er þar eiginlega við lýði ? Ef embættismenn eru tregir í taumi, þarf einfaldlega að bregða saxi og höggva á hnútinn. Til að bregða saxi þurfti kraft, áræðni og vilja.
Gegndi Haraldur þessu embætti, væri trúlega margt með öðrum brag í þessu ráðuneyti. Góður bóndi, sem kann að taka til hendinni á jörð sinni, getur rekið ráðuneyti með myndarbrag og rekið erindi þess á fundum ríkisstjórnar og Alþingis. Haraldur skrifaði góða grein að vanda í Moggann 17.09.2019,
"Þetta er spurning um sanngirni og jafnræði":
"Afleiðingar af breytingum, sem gerðar voru á raforkumarkaði eftir 2003 hafa sett ljótan blett á breytingar, sem í mörgu voru annars skynsamlegar. En hvað sem hverjum finnst, er samt ekki hægt að segja, að uppstokkun raforkumarkaðar sé um að kenna. Aðskilnaður framleiðslu og flutnings var í sjálfu sér ekki neikvætt skref. En við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að framkvæmdin tókst illa og hefur búið til misvægi milli landsmanna og verið mörgum þungur baggi. Þetta misvægi verður að leiðrétta, og koma á jafnræði milli allra, óháð búsetu."
Það er raunar vafasamt að halda því fram, að uppskipting íslenzka raforkukerfisins í kjölfar innleiðingar Orkupakka #1 frá ESB hafi verið skynsamleg við íslenzkar aðstæður, enda var ESB meðvitað um, að slíkt orkar tvímælis fyrir lítil og einangruð raforkukerfi, og veitti slíkum valfrelsi um þessa framkvæmd. Íslendingum var þess vegna í lófa lagið að leita undanþágu um uppskiptingu Landsvirkjunar og stofnsetningu Landsnets, en slík undanþága var þá Framsóknarflokkinun, sem fór með iðnaðar- og orkumálin, ekki þóknanleg.
Fyrir tíð þessarar uppskiptingar veitti Landsvirkjun ágóða sínum af orkusölu, m.a. til stóriðju, til uppbyggingar flutningskerfisins. Nú greiðir Landsvirkjun arð til ríkissjóðs og Landsnet fjármagnar flutningskerfið með tveimur gjaldskrám, fyrir almenningsveitur og fyrir stórnotendur með langtímasamninga. Af þessum ástæðum er ljóst, að þessi hluti raforkukerfisins er nú neytendum dýrari en hann var. Hið sama á við um dreifikerfið. Þar var áður samþætting raforkuvinnslu og dreifingar, en hún var bönnuð við hina óþörfu innleiðingu Orkupakka #1. Nú þarf dreifikerfið að fjármagna sig sjálft, og það hefur valdið miklum kostnaðarhækkunum fyrir neytendur. Ofan á þetta bætist, að hagkvæmni stærðarinnar, sem þó var fyrir hendi, var fórnað á altari samkeppni, sem aldrei varð og getur ekki orðið í okkar fákeppnisumhverfi. Þetta eru veigamiklar skýringar á hækkun rafmagnsverðs til notenda, sem valdið hefur ósamkeppnishæfni greinarinnar, með alvarlegum afleiðingum fyrir umfang fjárfestinga og afkomu atvinnulífs í landinu.
Um afleiðingarnar á allmarga kjósendur þingmannsins og flokks hans skrifar Haraldur Benediktsson:
"Íbúar dreifðari byggða hafa upplifað miklar hækkanir á orkuverði frá þessum breytingum. Það er staðreynd, sem loksins fékk almennilegt kastljós í umræðu um orkupakka 3.
Veruleikinn er, að íbúar dreifbýlis, á dreifisvæði Rarik, hafa þurft að sæta því, að flutningskostnaður á raforku hækkaði um ríflega 100 % árin 2005-2017. Á sama tíma nutu íbúar á þéttbýlissvæðum Rarik verulegrar raunlækkunar - eða um 44 % hækkunar meðan verðlag hækkaði um 80 %."
Í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, komst hagfræðiprófessorinn Ragnar Árnason að þeirri niðurstöðu, að meðalhækkun til almennings (raforka, flutningur, dreifing) á ofangreindu tímabili (2004-2018) hefði numið um 8 % að raungildi. Það er meðaltalshækkun fyrir öll heimili landsins og er bein afleiðing af skipulagsbreytingu, sem á ekki við íslenzkar aðstæður. Sú mikla hækkun til dreifbýlis, sem Haraldur gerði grein fyrir, er líka sjálfskaparvíti, en er ekki áskilin í orkupökkunum. Þvert á móti er dreifbýlisívilnun viðurkennd, og ESB er að jafna orkuverðið innan vébanda sinna með því að hvetja til öflugra samtenginga á milli orkusvæða. Hérlendis er samtengingu á milli orkusvæða enn ábótavant, sem veldur miklum aukakostnaði. Sleifarlag stjórnvalda við að leiðrétta þetta óréttlæti er óafsakanlegt.
Hér er þá komin að einhverju leyti skýringin á ósamkeppnishæfni Íslands á raforkusviðinu. Hún á rætur að rekja til innleiðingar Íslands á löggjöf ESB á orkusviðinu, s.k. orkupökkum. Vinnslufyrirtækin spenna upp verðið og rembast við að skila sem mestum arði; flutnings-og dreifingarfyrirtækin verða að fjármagna sig sjálf, en eru óhagkvæmar einingar og dreifingarfyrirtækin flest of lítil.
Hvað er til ráða ? Eigendastefnu opinberra raforkuvinnslufyrirtækja þarf að móta þannig, að þau skuli selja sína orku á verði, sem spannar meðalkostnað þeirra, en ekki jaðarkostnað, og að það sé ekki þeirra keppikefli að skila arði. Arðurinn á þess í stað að fara beint til fólks og fyrirtækja, neytendanna. Fjármálalegt frelsi Landsnets þarf að auka og leyfa fyrirtækinu skuldabréfaútgáfu til að fjármagna dýrar framkvæmdir til að dreifa kostnaði og draga úr hækkunarþörf gjaldskráa. Dreifiveitum þarf að fækka, svo að þær stækki, í von um hagkvæmari rekstur.
Þá aftur að tilvitnuðum Fréttablaðsuppslætti:
"Eyjólfur segir, að raforkuhlutinn hér sé almennt ekki langt frá verðunum á Norðurlöndunum, en flutningshlutinn og dreifingin séu miklu dýrari."
Hætti raforkuvinnslufyrirtækin að stefna að sívaxandi arðgreiðslum, geta þau lækkað raunverðið, eftir því sem skuldastaða þeirra batnar. Það getur að nokkru vegið upp á móti háum flutnings- og dreifingarkostnaði og vonandi gert íslenzka raforku aftur samkeppnishæfa.
""Þegar íslenzkir raforkuframleiðendur bera saman verð hér og í viðmiðunarlöndunum, nota þeir gjarnan verð á stundarmörkuðum (spot) Norðurlanda og bera saman við raforkuverð hér, sem bundið er í langtímasamningum. Slíkur samanburður er rangur, því að í langtímasamningum um orkukaup á Norðurlöndum er verð töluvert ódýrara en stundarmarkaðir segja til um", segir Eyjólfur.
Hann segir, að gagnaver og aðrir nýlegir stórnotendur hér á landi greiði umtalsvert hærra verð en uppgefið meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju sé."
Ef það er rétt, að hérlendir raforkuframleiðendur noti meðalverð á "stundarmörkuðum" Nord Pool til að gefa sér viðmiðun um verðlagningu sinnar orku, þá gefa þeir sér, að sértækir samningar við notendur á borð við gagnaver, t.d. 20 MW, 170 GWh/ár, tíðkist ekki á stöðum, þar sem hluti orkunnar er boðinn upp í orkukauphöll. Það er þá gróf yfirsjón hjá þeim, því að fyrirtækjum á svæði Nord Pool (Norð-Vestur Evrópa) bjóðast mun hagstæðari samningar en heimilum og smánotendum (<20 GWh/ár). Þetta hefur t.d. komið í ljós, þegar garðyrkjubændur hér hafa borið saman bækur sínar við starfsbræður í Hollandi, Noregi og Danmörku, en þeir greiða um 6,3 ISK/kWh fyrir raforkuna komna til sín. Ennfremur verða raforkuvinnslufyrirtæki hér að líta til flutningskostnaðarins, því að heildarverð á afhendingarstað er það, sem skiptir viðskiptavininn máli og ræður úrslitum um það, hvort samningar nást.
Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar 2018 nemur vegið meðalverð til stóriðju á Íslandi 28,3 USD/MWh. Ef reiknað er með 15 % hærra verði til gagnavera og flutningsgjaldi samkvæmt gjaldskrá Landsnets, fæst orkuverð P=32,5+5,5=38,0 USD/MWh=4,8 ISK/kWh án dreifingarkostnaðar. Þetta verð ætti að vera ásættanlegt fyrir gagnaver, en ef dreifiveita kemur inn sem milliliður, þá getur verðið hækkað um 2,7 ISK/kWh og orðið 7,5 ISK/kWh, sem er áreiðanlega ósamkeppnishæft við löndin, sem Ísland keppir við um hýsingu gagna.
Það eru miklar ranghugmyndir uppi hérlendis um skynsamlega verðlagningu raforku til stóriðju á Íslandi. Sýnishorn yfirborðslegrar umfjöllunar gat að líta í forystugrein Viðskiptablaðsins 14. nóvember 2019,
"Furðulegar hugmyndir um raforkuverð".
Hún hófst þannig:
"Landsvirkjun hefur unnið að því á undanförnum árum að fá hærra verð fyrir raforkuna og draga út tengingum raforkuverðs við sveiflur í álverði. Hlutfall raforku, sem tengd er við verð á áli, hefur lækkað úr tveimur þriðju, og er nú hlutfallið ríflega þriðjungur. Þessi stefna beri [svo ?] þann árangur, að fyrirtækið geti greitt 10-20 milljarða króna í arð til ríkisins á ári næstu árin. Einnig er stefnt að því, að sérstakur þjóðarsjóður verði stofnaður, fyrst og fremst um arðgreiðslur Landsvirkjunar."
Þarna stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Landsvirkjun hefur ekki beitt hófsemi og forsjálni við verðlagningu á "vöru" sinni, en fyrirtækið og margir viðskiptavinir þess eru í samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum. Ljóst er af dæmum, sem rakin hafa verið af fjárfestum, t.d. á sviði gagnavistunar, að um yfirverðlagningu er að ræða, þannig að ekkert hefur orðið af viðskiptum hérlendis, af því að fjárfestirinn fékk mun hagkvæmari orkusamning, t.d. annars staðar á Norðurlöndunum, jafnvel í miðborg Stokkhólms.
Raforkukaup eru verulegur kostnaðarliður, jafnvel 30 % af heild, hjá álverum. Miklar sveiflur hafa alltaf verið á álverði, og ládeyða eða offramboð á álmörkuðum hefur iðulega valdið lokun álvera á Vesturlöndum, stundum tímabundnum. Samt hefur meðaleftirspurnaraukning áls í heiminum numið 4 %/ár.
Álver skapa fjölbreytileg störf, innan sem utan girðingar, og víða mikil útflutningsverðmæti, t.d. á Íslandi, þar sem verðmætasköpunin er miklu meiri en svarar til andvirðis raforkuviðskiptanna. Það ber að hafa í huga, að víða eru álverin og orkuverin, sem sjá þeim og byggðarlaginu í kring fyrir raforku, t.d. vatnsorkuver í Kanada, í eigu sama aðila. Orkukostnaður þessara álvera er í lágmarki, e.t.v. 15 USD/MWh með flutningi, og sama á við stór álver við Persaflóann, þar sem álverin og gasvinnslan oft á tíðum eru á sömu hendi. Gefur auga leið, að þessi staða gerir öðrum álverum, t.d. á Íslandi, mjög erfitt um vik í samkeppninni.
Þau hafa t.d. brugðizt við með fjárfestingum til að geta framleitt dýrari vöru, sérvöru. Þar af leiðandi var þróuð sú leið, að álver og raforkubirgjar þeirra deildu með sér áhættunni á álmörkuðunum þannig, að einingarverð raforkunnar tæki mið af markaðsverði á áli, t.d. ákveðinni vörutegund á LME (London Metal Exchange) markaðinum. Í ljósi aðstæðna er þetta eðlileg ráðstöfun, sem tryggir orkubirginum þá ávöxtun fjárfestingar sinnar, sem hann telur duga í lægðum, og í hæðum fær hann góða ávöxtun og fleytir rjómann af háu afurðaverði álveranna. Þetta tengir aðila saman á gagnkvæmum hagsmunum.
Núverandi forstjóri Landsvirkjunar, örugglega með stuðningi stjórnar Landsvirkjunar, hefur rifið þetta kerfi niður, þegar eldri samningar hafa runnið sitt skeið, þröngvað fram verulegum hækkunum á grunnverði og síðan vísitölubindingu þess við þætti, sem óskyldir eru afkomu birgis og viðskiptavinar, eins og vísitala neyzluverðs í Bandaríkjunum og vísitala raforkuverðs á Nord Pool uppboðsmarkaðinum. Hið síðara þýðir, að sé gott vatnsár og vindar blási vel í Norð-Vestur Evrópu, þá lækkar raforkuverð til Landsvirkjunar. Það er varla glóra í því. Ekki er vitað til, að umfjöllun um þessa afdrifaríku stefnubreytingu Landsvirkjunar hafi farið fram á meðal fulltrúa eigandans, íslenzku þjóðarinnar, og er þar átt við Alþingi.
Við slíka ákvörðun er margs að gæta og dugar ekki, að gæta einvörðungu skammtíma hagsmuna Landsvirkjunar, heldur þarf að huga að langtíma hagsmunum þjóðarinnar. Umfjöllun Viðskiptablaðsins er mjög einhliða, þar sem ekki er gætt að því, að stefnan hlýtur að vera hámörkun virðisauka í landinu við nýtingu orkulinda í eigu opinberra aðila, og til langframa þarf að gæta gaumgæfilega að samkeppnisstöðunni við útlönd. Það er ófullnægjandi að líta á skammtímagróða einstakra fyrirtækja og arðgreiðslna þeirra í ríkissjóð eða í borgarstjóð.
23.11.2019 | 21:10
Er íslenzk orka ósamkeppnishæf ?
Uggvænlegar fregnir af verðlagningu dótturfyrirtækja Orkuveitu Reykjavíkur, OR, bárust með Bændablaðinu að kvöldi miðvikudagsins 6. nóvember 2019. Ef orkuverðin á heitu vatni og raforku til ylræktar í Reykjavík ganga eftir, eins og fram kemur í viðtali Bændablaðsins við Hafberg Þórisson í Bbl., dags. 7. nóvember 2019, þá stöndum við frammi fyrir eftirfarandi stöðu:
Orkuveita Reykjavíkur (OR) er búin að verðleggja sig út af hitaveitumarkaði stórnotenda, og hér getur á tímum hástemmdra heitstrenginga um að draga úr losun koltvíildis hafizt uppsetning kyndistöðva, sem brenna kolum, plasti og viðarkurli.
Þá er OR alls ekki samkeppnishæf um raforkusölu til ylræktar við raforkuseljendur í Hollandi, Danmörku og Noregi.
Þetta hlýtur að virka sem sprenging inn í loftslagsumræðuna, þótt hún reyndar sé að mestu leyti fótalaus og notuð til að boða lífsháttabreytingar á grundvelli hræðsluáróðurs. Reykjavík talar tungum tveim, þegar viðskiptin við Lambhagabúið eru borin saman við loftkenndar yfirlýsingar stjórnenda borgarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Nú verður vitnað til viðtals Bændablaðsins við Hafberg í Lambhaga:
"Það á að hækka verð á heita vatninu til mín um 97 % frá 1. janúar 2020. Hérna verður verðið eftir hækkun 120 kr fyrir rúmmetrann á vatni (=120 kr/m3), en það er 37 kr/m3 uppi í Mosfellsdal. Við erum að nota um og yfir 100 kt/ár af heitu vatni í Lambhaga. Við erum að borga um 600-800 kkr/mán fyrir heitt vatn. Ef þessi hækkun verður um áramótin, þá fer kostnaðurinn í um 1,4 MISK/mán eða nærri 16,8 MISK/ár. Síðan erum við að nota yfir 60 milljónir kílówattstunda af raforku á ári (=60 GWh/ár)."
Ýmislegt vekur athygli þarna. Mest sláandi er, að OR/Veitur virðast leggja af gróðurhúsataxtann, sem nú er 65,64 ISK/m3, þ.e. 50 % af almenna taxtanum, og taka upp verð fyrir notkun, sem er um 100-föld notkun einbýlishúss, er nemur um 91 % af einingarverði til almennra notenda. Það er augsýnilega afar ósanngjarnt, og getur ekki svarað til kostnaðarhlutfalla við öflun og dreifingu vatns til lítils og stórs notanda.
Það er hægt að fullyrða, að þessi grófa aðgerð á hlut viðskiptavinar sé gerð í skjóli einokunar á markaði fyrir hitaveituvatn og mundi alls ekki ganga upp, ef snefill af samkeppni væri á þessum markaði. Er alveg makalaust, hversu mikla ósvífni OR/Veitur leyfa sér að sýna viðskiptavini sínum, og hlýtur hann að eiga lögverndaðan rétt gegn slíkri árás á hagsmuni hans og atvinnustarfsemi. Eins og fram kemur hér á eftir, er þessi óprúttna verðlagning ekki í neinu samræmi við það, sem viðgengst í a.m.k. 3 samkeppnislöndum íslenzkra grænmetisbænda, sem á sinn hlut í miklu tapi markaðshlutdeildar þeirra hérlendis. Er það stórmál, því að allgóð sátt er um það í landinu, að orkulindir landsins skuli nýta í þágu eflingar íslenzkra atvinnuvega, og ekki má gleyma kolefnisspori flutninganna, mestmegnis með flugi.
Annað atriði í þessum texta sýnir, að OR/Veitur virðast algerlega vera úti á þekju í verðlagningu á vöru/þjónustu sinni. Það sýnir verðið 37 ISK/m3 í Mosfellsdal. Það er rúmlega 28 % af verði til almennings hjá Veitum og um 60 % af núverandi verði OR/Veitna til Lambhaga og verður um 31 % af væntanlegu verði þeirra. Þetta getur bent til, að OR/Veitur taki ekki nægt tillit til lægri kostnaðar á einingu við öflun og dreifingu heits vatns til stórnotenda, heldur okri ótæpilega á þeim. Hvernig stendur á því, að hvorki Samkeppnisstofnun né Orkustofnun grípa í taumana, þegar einokunarfyrirtæki virðist misnota einokunaraðstöðu sína gróflega ?
""Ef þessi hækkun á heitavatnsverði gengur eftir, er aðeins tvennt í stöðunni. Annaðhvort að starfsemin hér leggist af og flytjist annað eða, að sett verði upp kyndistöð við Lambhaga, sem brenni þá plasti, timburkurli og kolum við háan hita, líkt og gert er í Noregi og í Danmörku. Mér finnst sorglegt, að borgin sé að reyna að ýta okkur í burtu með þessum hætti."
Kostnaður við að reisa kyndistöð gæti að mati Hafbergs numið á bilinu MISK 15-20, þannig að hún yrði mjög fljót að borga sig upp miðað við hækkað orkuverð."
Arðsemi kyndistöðvar, sem gæti afkastað um 10 GWh/ár af varmaorku og væri með fastan árlegan kostnað MISK 2,7 m.v. ávöxtunarkröfu 6,0 %/ár út afskriftartíma sinn, 10 ár, fer algerlega eftir árlegum rekstrarkostnaði hennar, sem að mestu leyti er eldsneytiskostnaður. Ef þessi rekstrarkostnaður er undir 14,1 MISK/ár, þá borgar kyndistöðin sig, en það útheimtir mjög ódýrt eldsneyti eða innan við 15,7 kISK/t komið í Lambhaga. Hafberg sagðist í viðtalinu hafa aðgang að ódýrum kolum og viðarkurli, og plasts getur hann væntanlega aflað sér hjá Sorpu.
Að OR skuli ekki sjá sóma sinn í að verðleggja heitt vatn þannig, að það sé hagstæðara en heitt vatn frá lítilli kyndistöð, er reginhneyksli á tímum, þegar keppikefli er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda mjög mikið. Málið sýnir, að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur, sem ræður lögum og lofum í stjórn OR, meinar ekkert með fagurgala sínum um að gera borgina umhverfisvæna og að leggja sitt lóð á vogarskálarnar gegn hlýnun andrúmslofts yfir 2,0°C m.v. 1850. Orð stjórnenda borgarinnar eru eintóm hræsni, og verk þeirra eru umhverfisskaðleg (loftið versnar). Til að takist að ná loftslagsmarkmiðum ríkisins, verður verðlagning á heitu vatni og rafmagni að vera notendum mjög hagstæð. Verðlagning á orku að hálfu stjórnenda Reykjavíkurborgar, sem bera ábyrgð á stjórn OR, sýnir öfugþróun í atvinnu- og umhverfismálum Reykjavíkur.
"Hafberg segir, að raforkuverðið hafi vissulega hækkað mikið, þegar ákveðið var að skipta upp framleiðslu og flutningi á raforku að kröfu Evrópusambandsins. Þeir hafi þó sætt sig við það verð, þótt það sé mun hærra en gróðrarstöðvar bæði í Noregi og Hollandi þurfi að greiða fyrir raforkuna."
Iðnaðarráðherra ætti að hugleiða vel þessi orð Hafbergs, því að hún hefur haldið hinu gagnstæða fram, að stofnun Landsnets og s.k. samkeppni um sölu á rafmagni á heildsölu- og smásölumarkaði, sem tekin var upp með raforkulögum 2003 við innleiðingu Orkupakka #1 frá ESB, hafi gagnazt neytendum. Þessu var alveg þveröfugt varið í raun, eins og heilbrigð skynsemi gæti sagt ráðherranum vegna kostnaðar við sundrun og hærri rekstrarkostnað með minni einingum. Í gamla daga nýtti Landsvirkjun hluta af hagnaði sínum af orkusölu til að fjármagna flutningskerfið. Nú fer arðurinn hins vegar í ríkissjóð, og þjóðin borgar brúsann við flutning raforkunnar. Svipaða sögu er að segja af dreifingunni. Hvort fyrirkomulagið halda menn, að styðji betur við atvinnuöryggi og lífskjör í landinu ?
Þetta var líka staðfest í rannsókn prófessors Ragnars Árnasonar, hagfræðings, sumarið 2019, sem hann skrifaði um í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019. Þar kemur fram, að umrædd kerfisbreyting, sem iðnaðarráðherrann, Þórdís Kolbrún, hefur farið lofsamlegum orðum um, kostaði neytendur að lágmarki 8 % hækkun orkuverðs að raunvirði, og hækkunin varð miklu meiri í dreifbýli. Ekki kæmi á óvart, að kjósendur í Norð-Vesturkjördæmi væru að fá sig fullsadda á fjarvistum þessa þingmanns og ráðherra frá raunveruleikanum.
Nú verður að taka það fram, að samkvæmt OP#1 bar litlum samfélögum á borð við okkar ekki skylda til að fremja þá uppstokkun á starfsemi orkufyrirtækja, sem hér um ræðir, heldur var það þáverandi orku- og iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins og Alþingi þess tíma, sem þessa ákvörðun tóku, vafalaust að ráði embættismanna Stjórnarráðsins. Er þetta eitt dæmi af mörgum um óþarfar og íþyngjandi innleiðingar ESB-löggjafar íslenzkra embættismanna og stjórnmálamanna.
Er vissulega löngu orðið tímabært að hugleiða, að löggjöf fyrir 500 M manna samfélag hentar sjaldan óbreytt 0,36 M manna samfélagi. Neikvæðar afleiðingar af innleiðingu orkupakka ESB eru og munu verða margvíslegar hérlendis, og eina sjáum við hér í því, að garðyrkjumenn í Hollandi, þar sem rafmagn var 2015 að 82 % framleitt með olíu, gasi og kolum, fengu rafmagn á mun lægra verði en íslenzkir starfsbræður þeirra, eða um 6,0 ISK/kWh.
Verðið til heimila í Hollandi 2018 var hins vegar mun hærra en hér, þ.e. 17,07 cEUR/kWh (notkun upp að 2499 kWh/ár) eða 23,6 ISK/kWh (EUR/ISK=138), og til iðnaðar með notkun 20-70 GWh/ár var verðið 8,63 cEUR/kWh eða 11,9 ISK/kWh. Það vekur athygli, að hollenzkur iðnaður með svipaða rafmagnsnotkun og Lambhagi greiðir aðeins 51 % af lágmarksheimilistaxta. Enn meiri undrun vekur, að hollenzkir gróðurhúsabændur greiða minna en 53 % af iðnaðartaxtanum m.v. það, sem fram kemur hjá Hafberg Þórissyni hér á eftir:
"Þrátt fyrir hátt orkuverð segist Hafberg vera með ódýrara salat en t.d. kollegar hans í Noregi. Sýndi Hafberg blaðamanni gögn frá Noregi því til stuðnings. Segir hann, að á meðan hann sé að borga um 10,40 ISK/kWh með flutningi [og væntanlega dreifingu], séu kollegar hans í Noregi að borga ígildi um 6,30 ISK/kWh (m.v. verð í ágúst)."
Það er ekki gefið upp, hvers konar raforkusamning norski bóndinn hefur. Flestir taxtar þar eru sveiflukenndir, og raforkuverðið þar er að jafnaði lægst einmitt síðsumars í venjulegum vatnsárum. Á öðrum ársfjórðungi 2019 nam meðalverð til heimila með flutningi og dreifingu án skatta 76,0 Naur/kWh eða 10,4 ISK/kWh. Ofangreint verð til norska garðyrkjubóndans, 6,3 ISK/kWh, nemur aðeins rúmlega 60 % af heimilistaxtanum, sem er með s.k. netleigu innifalinni. Í Reykjavík er einingarverðið til heimila með flutningi og dreifingu án jöfnunargjalds og skatts um 14,2 ISK/kWh. Lambhagabóndinn borgar 10,4 ISK/kWh, sem er 73 % af almenna taxtanum. Hann er sem sagt látinn borga mun hærra hlutfall af heimilistaxtanum en norski bóndinn, og notar Lambhagabóndinn þó 60 GWh/ár, sem telst vera stórnotkun hérlendis.
Enn meiri ívilnun til garðyrkju kemur í ljós, þegar raforkuverð í Hollandi er skoðað:
""Það kom til okkar í Lambhaga á dögunum viðskiptanefnd frá Hollandi, þar sem m.a. var farið yfir rafmagnsverðið. Þá kom í ljós, að gróðrarstöðvar í Hollandi eru að greiða örlítið lægra verð en sambærilegar stöðvar í Noregi. Í Danmörku er verðið aðeins hærra en í Noregi eða sem svarar um 7,0 ISK/kWh.
Það er því algert bull, að raforkuverðið sé lágt á Íslandi. Það er athyglisvert að skoða, hvar þetta háa orkuverð til okkar verður til. Það er að stórum hluta við flutning orkunnar", segir Hafberg Þórisson."
Dreifingarkostnaðurinn til almennings nemur um 42 % af heildarkostnaðinum hérlendis, og þar er um einokun að ræða. Stórnotendur borga minna fyrir dreifingu á hverja kWh, en sennilega er notanda á borð við garðyrkjustöð alls ekki veittur sanngjarn afsláttur. (Stóriðjan rekur sitt eigið dreifikerfi.)
Raforkuverð til heimila í Hollandi er hærra en hér eða 23,6 ISK/kWh, en garðyrkjustöðvar þar eru að greiða um 6,0 ISK/kWh eða aðeins 25 % af heimilistaxtanum með flutningi og dreifingu. Þetta útheimtir rannsókn, en sýnir svart á hvítu, að hollenzk matvælaframleiðsla nýtur vildarkjara. Á hvaða grundvelli er það m.v. bann ESB við mismunun notenda eftir því til hvers þeir nota orkuna ? Það má aðeins ívilna eftir eðli notkunar, magni, stöðugleika álags, aflstuðli o.þ.h. Margt bendir til, að einokunaraðilar hérlendis fari tiltölulega illa með garðyrkjubændur að þessu leyti. Þetta hefur slæm áhrif á samkeppnisstöðu íslenzkrar ylræktar, eins og fram kemur í sömu frétt Bændablaðsins:
"Þegar skoðaðar eru tölur Hagstofu Íslands um grænmetisneyzluna á Íslandi, þá var hún ríflega 22 kt á árinu 2018. Af því voru íslenzkir framleiðendur með um 52 %, eins og sjá má á bls. 2.
Hlutdeild íslenzkra framleiðenda hefur verið að dragast verulega saman á undanförnum árum eða úr 75 % árið 2010 í 52 % árið 2018. Þá er garðyrkjubændum stöðugt að fækka, m.a. vegna hækkana á orkuverði. Þetta þýðir, að innflutningur á grænmeti, sem hér væri hægt að rækta, mun aukast hröðum skrefum.
Skýtur þetta mjög skökku við yfirlýsingar frá stjórnvöldum, falleg orð ráðherra í garð íslenzks landbúnaðar og áætlanir um að sporna við losun kolefnis út í andrúmsloftið."
Fyrir utan skatta er kostnaðarmunur Lambhagabóndans og hollenzks garðyrkjubónda á kaupum á 60 GWh/ár raforku:
DK=(10,4-6,0)ISK/kWh x 60 GWh/ár = 264 MISK/ár.
Þetta er gríðarupphæð í samanburði við árlegar sölutekjur búsins og hefur úrslitaáhrif á arðsemi og samkeppnishæfni Lambahagabúsins og sjálfsagt gildir hið sama um alla ylræktargreinina, sem notar rafmagn í miklum mæli við sína framleiðslu. Það er mjög ranglega gefið, þegar land með mun hærra raforkuverð til heimila en íslenzk heimili verða aðnjótandi, getur og má láta garðyrkjubændum sínum í té raforku, sem er um 4,4 ISK/kWh ódýrara en til íslenzkra starfsbræðra.
Það ætti að vera innlendum stjórnvöldum keppikefli af öryggis- og heilsufarsástæðum, svo að ekki sé nú minnzt á tíðrætt kolefnisspor, að landið sjái íbúum sínum fyrir eins miklu grænmeti og kostur er. Það er tiltölulega stórt sót- og kolefnisspor, sem flutningur á grænmeti til Íslands hefur í för með sér, af því að mikill hluti þess kemur með flugi, sumt um langan veg, og gróðurhúsaáhrif losunar frá þotuhreyflum í háloftunum eru þreföld á við losun sama magns á jörðu niðri. Það er þess vegna sízt of í lagt, að jafngildislosun muni nema 4 kg CO2eq/kg grænmeti. Ef innlend ræktun er 11,4 kt nú (hún er áreiðanlega meiri, m.a. vegna einkaræktunar, sjálfsþurftarbúskapar, sem Hagstofan fær engar skýrslur um, þá nemur sparnaður koltvíildislosunar um 50 kt CO2/ár, sem m.v. væntanlegt verð á koltvíildiskvótum í Evrópu á næstu árum, 35 EUR/t CO2eq, er virði meira en 240 MISK/ár.
Það er greinilega beitt allt annarri og þjóðhagslega óhagstæðari aðferðarfræði við verðlagningu á orku til garðyrkju á Íslandi en í Hollandi, Danmörku og Noregi, og sennilega almennt til iðnaðar, sem notar yfir 20 GWh/ár af rafmagni.
Garðyrkjan í landinu getur tekið sig saman og óskað tilboða um raforkuhlutann, og e.t.v. gerir hún það, en það er ekki boðið upp á slíkt fyrir einokunarþættina, flutning og dreifingu, og það eru þeir birgjar, sem þurfa að sýna meiri sveigjanleika í verðlagningu m.t.t. umfangs viðskipta. Þá þýðir ekki að bera því við, að slíkt megi ekki vegna EES-samningsins, því að upplýsingar garðyrkjubóndans Hafbergs sýna, að mikil og satt að segja ótrúleg vildarkjör bjóðast öðrum garðyrkjubændum innan EES. Er þetta mál ekki einnar messu virði á hinu háa Alþingi ?
19.11.2019 | 11:18
Farþegaskipin "grænka" hægt
Þann 24. október 2019 birtist aðsend grein í Fréttablaðinu frá aðjunkti nokkrum, þar sem varpað var fram tillögu um að breyta Straumsvík í Hafnarfirði úr athafnasvæði álvers og í viðlegustað fyrir farþegaskip. Var á höfundinum að skilja, að þessi nýting Straumsvíkur væri í senn umhverfisvænni og þjóðhagslega hagkvæmari.
Hið síðara var rækilega hrakið í vefpistlinum ""Arðbærar loftslagsaðgerðir" ?" á þessu vefsetri, og nú verður fyrri fullyrðingin vegin og léttvæg fundin. Þá er fyrst til að taka, að hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands (dr Guðjón Atli Auðunsson) hefur með rannsóknum á kræklingum úti fyrir strönd athafnasvæðis ISAL verið komizt að þeirri niðurstöðu, að engin marktæk ummerki starfseminnar í Straumsvík finnist í lífríkinu þar úti fyrir. Verður erfitt fyrir flota farþegaskipa af misjöfnu sauðahúsi að slá út slíkt heilbrigðisvottorð; sérstaklega má ætla, að það verði erfitt, þegar ummerki farþegaskipa hingað til eru höfð í huga.
Í Bloomberg Businessweek birtist 16. september 2019 greinin:
"The Oh-So-Slow Greening Of Cruises".
Verður hér stuðzt við það, sem þar kom fram, til að vekja athygli á misjöfnu orðspori farþegaskipa á sviði umhverfisverndar.
Vegna mikils ferðamannafjölda og mengunar frá þeim hafa nokkrar borgir Evrópu nú uppi áform um að takmarka fjölda farþegaskipa í hverjum mánuði. Þar á meðal eru Barcelona, vinsælasti viðkomustaður farþegaskipa, og Dubrovnik í Króatíu, einn af tökustöðum "Game of Thrones". Aðalfarþegaskipahöfn Bretlands, Southampton, óskar eftir því, að farþegaskipin verði knúin rafmagni úr landi, þegar þau eru þar í höfn. (Hvenær verða íslenzkar hafnarstjórnir í stakk búnar að fara fram á slíkt ?) Formaður borgarráðs Southamptons, Christopher Hammond, segir, að sveitarstjórnir eigi erfitt með að koma auga á kostina við þessi stóru farþegaskip. "Þetta er mjög sýnilegt: stór reykháfur puðrandi út svörtu sóti og reyk. Fólk hugsar með sér: ég anda öllu þessu að mér."
Flest skipanna brenna þykkri brennisteinshlaðinni blöndu, sem eru afgangar eftir framleiðslu benzíns og annars verðmæts eldsneytis. Þótt sum minni skip gætu gengið fyrir rafmagni, geta rafgeymar enn ekki alfarið knúið áfram hreyfla (mótora) farþegaskipa, sem eru nokkra sólarhringa á hafi úti í einu. Hingað til hefur jarðgas á vökvaformi, LNG, (lágt hitastig, mikill þrýstingur) verið vinsælasti valkosturinn fyrir farþegaskipin, og hann getur minnkað SO2 og NOx mengunina frá skipunum um 90 % og CO2 um 20 %. Stærsta útgerð farþegaskipa, Carnival, hleypti sínum fyrsta LNG-farkosti af stokkunum á þessu ári, 2019, og um 3 tylftir eru í smíðum af slíkum skipum samkvæmt skipaskoðunarfyrirtækinu DNV GL.
Svar útgerðanna við vaxandi kröfum um mengunarvarnir um borð í farþegaskipum hefur hingað til aðallega verið að setja upp hreinsibúnað á útblásturinn, sem fjarlægir megnið af brennisteininum úr reyknum. 268 skip eru gerð út af félögum í "Cruise Lines International Association" og í um helming þeirra er búið að setja hreinsibúnað til að fullnægja alþjóðlegum kröfum um að ná 85 % brennisteinsins úr reyknum. Þetta er þó skammgóður vermir, því að affallið er brennisteinssýra og er varpað í sjóinn.
Hvers konar eftirlit verður með því hérlendis, að farþegaskip hreinsi kerreykinn og varpi ekki sýrunni fyrir borð nærri íslenzkum ströndum ? Tugir borga, þ.á.m. Singapúr og allar kínverskar hafnir, hafa bannað komu slíkra skipa. Hvað gera íslenzk yfirvöld í þessum efnum ? Eru loftslagsmálin mest í nösunum á þeim, eða fylgir einhver alvara öllu orðagjálfrinu um mengunarvarnir og loftslagsvá ?
Frekar virðist gefið í varðandi flugferðir stjórnmálamanna og embættismanna til útlanda. Hvað ætli ein 100 farþegaskip á ári sendi frá sér af koltvíildi og brennisteini út í andrúmsloftið með viðkomu sinni í íslenzkum höfnum og siglingum við strendur landsins ? Hafa umhverfisyfirvöld hérlendis gert mælingar á sýrustigi hafsins í grennd við farþegaskip, sem hreinsa SO2 úr útblæstri sínum ? Er á súrnun sjávar bætandi ? Halda menn, að það sé að tilefnislausu, að sumar hafnir banna komur slíkra skipa og t.d. Norðmenn taka þessi mál föstum tökum, eins og lýst verður síðar í þessum pistli.
Gera má ráð fyrir, að orkunotkun 100 farþegaskipa við strendur Íslands, sem hér leggjast að, sé um 70 GWh/ár. Olíunotkun þeirra er þá um 14,4 kt/ár og losun koltvíildis um 45 kt/ár. Losun brennisteinstvíildis gæti þá numið 0,9 kt/ár (900 t/ár) og losun brennisteinssýru í hafið 1,7 kt/ár. Losun koltvíildis farþegaskipa er þannig aðeins um 5 % af losun vegumferðar á ári, en hafa verður í huga, að hún er aðeins yfir sumartímann og staðbundin loftgæði versna mjög mikið á góðviðrisdögum inni í fjörðum, einkum af völdum SO2 og níturoxíða (NOx), sem eru skaðlegar lofttegundir. Losunin er svo mikil, að íslenzkum yfirvöldum ber að stemma stigu við henni og fylgja í fótspor Norðmanna í þeim efnum.
Til samanburðar losar ISAL í Straumsvík líklega innan við 1,0 kt/ár af SO2 út í andrúmsloftið, sem er svipað og farþegaskipin, en styrkurinn í andrúmslofti er minni, af því að losunin dreifist á þrefalt lengri tíma. Það er ekki geðslegt að fá þrefaldan styrk brennisteinstvíildis og níturoxíð að auki á við það, sem frá álverinu kemur, yfir byggðina í Hafnarfirði, eins og umræddur aðjunkt leggur til. Þetta mundi bætast við sömu gastegundir frá umferðinni á Reykjanesbraut og mundi suma daga hæglega geta farið yfir hættumörk í íbúðabyggð Hafnarfjarðar.
Farþegaskip í höfnum Spánar losa um 14,5 kt/ár SO2, á Ítalíu 13,9 kt/ár, á Grikklandi 7,7 kt/ár, í Frakklandi 5,9 kt/ár, í Noregi 5,3 kt/ár og í Portúgal 5,1 kt/ár, svo að samkvæmt þessu nemur losunin á Íslandi 18 % af sams konar mengun í höfnum Portúgals.
Á síðustu áratugum hafa stóru útgerðarfyrirtækin verið sektuð um tuga milljóna bandaríkjadala fyrir að menga óleyfilega. Í júni 2019 féllst útgerðin Carnival á að borga MUSD 20 (mrdISK 2,5) fyrir að fleygja plastefnum í sjóinn við Bahamaeyjar. Árið 2016 var þetta fyrirtæki sektað um MUSD 40 eftir að hafa játað að hafa í leyfisleysi losað olíublandaðan úrgang í hafið. Það er þess vegna ljóst, að sumar útgerðir farþegaskipa hafa verið umhverfissóðar í slíkum mæli, að það sætir furðu, að aðjunktinn Ingólfur Hjörleifsson skyldi láta sér detta það í hug í Fréttablaðsgrein 24.10.2019 að breyta Straumsvík í Hafnarfirði í viðlegustað farþegaskipa á umhverfisforsendum og af þjóðhagsástæðum. Glóruleysið ríður ekki við einteyming, þegar rétttrúnaðurinn er annars vegar.
Norðmenn hafa nú þegar sett reglur um brennisteinslosun, sem eru mun strangari en nýjar alþjóðlegar reglur. Þeir hafa lýst norska firði brennisteinsfría frá 2026, sem þýðir, að bruni jarðefnaeldsneytis verður þar óleyfilegur. Bátar og skip, sem þar sigla um, verða þar þá knúin árum, seglum, vetni, öðru tilbúnu eldsneyti eða rafmagni frá rafgeymum.
Í marz 2019 sektuðu Norðmenn gríska útgerð farþegaskipa um næstum kUSD 80 (MISK 10) fyrir brot á reglum um brennistein. Íslendingar eru augsýnilega eftirbátar Norðmanna í þessum efnum, því að ekki er vitað um athugasemdir íslenzkra yfirvalda við mengun farþegaskipanna, og þess vegna er almenningur lítt meðvitaður um mengunarhættuna, sem af þeim stafar. Er ekki nauðsynlegt að setja markið á 2030 í þessum efnum, þannig að f.o.m. 2030 ríki nánast brennisteinsbann í íslenzkum fjörðum og flóum gagnvart fartækjum á legi ? Skilyrði er að sjálfsögðu, að þá verði búið að rafvæða hafnirnar fyrir allar stærðir skipa, sem þangað mega koma. Þar verður ríkisvaldið að stíga fram og leggja fram fé úr "kolefnissjóðinum" til styrktar verkefninu.
Norska útgerðarfélagið Hurtigruten vísaði leiðina til framtíðar í þessum efnum með sínu nýja farþegaskipi, MS Roald Amundsen, sem fór í sína jómfrúarferð frá Tromsö, um 320 km norðan við heimskautsbaug, í júlí 2019. Talsmenn Hurtigruten segja, að þessi 530 farþega farkostur sé fyrsta tengiltvinnskipið, sem fær orku frá rafgeymum og er með LNG-knúna vél til vara, þannig að í eldsneytisrekstri losar skipið 20 % minna CO2 en svartolíuskip og 90 % minna SO2 og NOx. Á næstu 2 árum áformar félagið að breyta 11 af 16 skipum sínum í tengiltvinnskip af þessu tagi.
Þetta er hægt, af því að skip Hurtigruten eru tiltölulega lítil, með rúmlega 500 rúm. Það er erfiðara að breyta skipum Carnivals, sem mörg hver taka meira en 5000 farþega. Stærri skipin nota meira afl per tonn eiginvigt en minni skipin, og talsmenn Carnival segja, að rafgeymarnir, sem slík skip útheimta, myndu taka upp megnið af rýminu um borð. Fyrir slík skip er tengiltvinnlausnin ákjósanleg, því að þau mundu þá ganga fyrir rafmagni í höfn og í fjörðunum, en á úthafinu fyrir gasi. Skilyrði er þá, að hafnaryfirvöld hafi nægt rafmagn í boði, allt að 10 MW per skip.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2019 | 22:23
"Arðbærar loftslagsaðgerðir"
Þann 24. október 2019 birtist dæmalaus grein í Fréttablaðinu undir ofangreindri fyrirsögn eftir Ingólf Hjörleifsson, aðjunkt við eitthvert Verkfræði- og náttúruvísindasvið (við hvaða skóla kom ekki fram). Af greininni framgengur draumur stæks vinstri græningja, hvort sem hann fylgir VG að málum eður ei, um afturhvarf til fortíðar, nú í krafti skefjalauss hræðsluáróðurs um náttúruhamfarir af mannavöldum. Dómsdagsspámenn finna sér alltaf ný tilefni til að láta að sér kveða, og andstæðingar iðnvæðingar Íslands hafa alltaf bundið upp í "Zeitgeist" hvers tíma og flengriðið honum gegn framförum landsins í atvinnulegu tilliti.
Fyrsta skotmarkið er fjölskyldubíllinn, sem þó er langflestum fjölskyldum á Íslandi gríðarlega mikilvægur vegna búsetu þeirra, atvinnusóknar, skólasóknar afkomendanna og tómstundaiðkunar fjölskyldunnar. Hann sparar gríðarlegan tíma, eykur þægindi og skapar fjölskyldunni áður óþekkt frelsi. Fjölskyldubíllinn fól í sér byltingu lífsgæðanna til hins betra, og almenningssamgöngur eða reiðhjól koma aldrei í hans stað. Það þarf verulega veruleikafirringu til að láta sér detta það í hug, hvað þá að berjast fyrir því hérlendis. Hann er hins vegar dýr, en vegna orkuskiptanna, sem líka eru nauðsynleg til að varðveita loftgæði, aðallega í þéttbýli, stendur rekstrarkostnaðarhliðin til bóta hérlendis vegna nægra ónýttra endurnýjanlegra orkulinda. Þá mega orkufyrirtækin hér reyndar ekki leika lausum hala. Nú verður litið á skrif téðs aðjunkts:
"Róttækar breytingar í lagaumhverfi bílaflotans. Rafmagnsbílum fjölgar ört eða um 15 - 20 % [af hverju ?] á næstu árum, en það nægir engan veginn til að uppfylla skilyrði Parísarsamkomulagsins frá 2016 [40 % minni losun CO2 árið 2030 en árið 1990 - innsk. BJo]. Tilkoma Borgarlínu er vissulega mótvægisbyggjandi, en takmarkaður þáttur. Ökutækjum á vegum þarf einfaldlega að fækka, svo [að] um munar."
Þessi forræðishyggja er einfaldlega óþolandi og ólíðandi. Það er ekki í verkahring yfirvalda að ákveða, hvers konar samgöngutæki borgararnir velja sér til handa. Dagdraumar um Borgarlínu snúast einmitt um að veita Strætó forgang í umferðinni, og þá er hætt við, að þrengt verði enn að fjölskyldubílnum, sem augljóslega þarf þó fleiri akreinar á stofnbrautum. Reynslan hingað til af auknum fjárveitingum til Strætó til að auka hlutdeild hans í umferð gefur hins vegar sterka vísbendingu um, að fjárfestingar í Borgarlínu verði algerlega misheppnaðar og árangurslausar í þá veru að fækka bílum í umferðinni. Nær væri að verja fénu af skynsemi og fjárfesta í að greiða götu vaxandi fjölda fjölskyldubíla. Það er tæknilega vel framkvæmanlegt og ódýrara en Borgarlínuævintýrið. Viðbárur um, að nýjar akreinar fyllist strax af bílum eru gott dæmi um afturhaldshugsun, sem er eiginlega þéttbýlisfjandsamleg.
Næst kemur stalínistísk sýn Ingólfs á skipulagslausnir:
"Þörf er á nýjum og haldbærum breytingum, sem samtengja bílaeign við búsetu. Nota mætti hlutfall af fermetrastærð fasteigna sem mælistiku fyrir fjölda ökutækja, sem hægt væri að skrá á viðeigandi eign."
Ekki er vaninn að skrá ökutæki á fasteign, heldur á einstakling eða lögaðila. Þetta fyrirkomulag setur einstaklingsfrelsi í landi, þar sem gnótt er landrýmis, allt of miklar og algerlega óþarfar skorður. Þetta er ofstjórn. Á t.d. að meina þremur, sem búa í 60 m2 íbúð, að eiga 3 bíla ?
Í næsta þætti tekur steininn úr, því að þar beinast fordómarnir gegn einu fyrirtæki, sem stundar hér heiðvirða og merka starfsemi, og hefur skapað landinu gríðarlegar gjaldeyristekjur í hálfa öld:
"Straumsvík getur orðið hafnarsvæði fyrir skemmtiferðaskip á höfuðborgarsvæðinu. Þessum fljótandi borgum ætti að vera óheimilt að liggja við landfestar og framleiða rafmagn með brennslu jarðeldsneytis. Ef markmiðið er að þjóna þessum skipum, er þörf fyrir nýtt hafnarstæði, og er Straumsvík ákjósanlegur kostur. Þar eru innviðir með háspennu- og tengivirki til að mæta breyttum þörfum, sem aðlaga þarf að umgjörð hafnarinnar og orkuþörfum skipanna, en væri ekki óyfirstíganlegt verkefni. Ekkert hafnarstæði á höfuðborgarsvæðinu er betur til fallið með minnsta mögulega tilkostnaði."
Þarna leggur Ingólfur Hjörleifsson í raun til að hætta álframleiðslu í Straumsvík og nota innviðina þar til að taka á móti skemmtiferðaskipum og tengja þau við rafkerfi álversins, á meðan á dvöl þeirra stendur. Hann bítur höfuðið af skömminni með því að fullyrða, að slík ráðstöfun yrði hvergi ódýrari. Hið rétta er, að hún yrði óvíða dýrari, því að það eru engar smáræðistekjur, sem tapast. Hér verður litið á nokkra kostnaðar- og tekjuþætti í þessu dæmi:
- Reiknað er með möguleika á landtengingu tveggja stórra farþegaskipa samtímis, og að mesta samtímaaflþörf sé 20 MW.
- Bjartsýnisáætlun um orkusölu til farþegaskipa 4 mánuði á ári gæti gefið 40 GWh/ár. Hana má e.t.v. selja til skipanna á 20 ISK/kWh + vsk. Þá verða brúttótekjur 800 MISK/ár, en til Landsvirkjunar og Landsnets myndu renna 200 MISK/ár, svo að nettótekjur af raforkusölu til farþegaskipanna í Straumsvík yrðu 600 MISK/ár samkvæmt þessu. Með þessum nettótekjum þarf að standa straum af fjárfestingu, viðhaldi og rekstri búnaðarins.
- Þótt innviðir rafmagns séu góðir í Straumsvík, einnig við höfnina, þarf að aðlaga dreifistöðvarnar þar að tengingu við farþegaskip og setja upp tengibúnað við skip. Þetta gæti kostað um MISK 500. Endurgreiðslutíminn er þannig um eitt ár, sem þykir yfirleitt réttlæta fjárfestingu.
- Sá galli er auðvitað á gjöf Njarðar, að forsenda þessa alls er að afleggja núverandi starfsemi í Straumsvík. Það er ofboðslega dýrt og veldur því, að þessi viðskiptahugmynd er dauðadæmd. Höfundur þessa vefpistils gerir t.d. ráð fyrir því, að gjaldeyristekjur af starfsemi álversins í Straumsvík árið 2018 hafi numið a.m.k. mrdISK 65 m.v. núverandi gengi bandaríkjadals 125 ISK/USD, en þessi viðskipti fara fram í þeirri mynt. Af þessari upphæð má, m.v. upplýsingar á vefsetri Samáls, reikna með, að innlendur kostnaður hafi numið um mrdISK 30 og að verðmætasköpunin innanlands hafi verið um mrdISK 27 eða tæplega 1 % af VLF það ár.
Það er þannig arfaslök viðskiptahugmynd að hætta núverandi starfsemi í Straumsvík og taka í staðinn að selja þaðan rafmagn til farþegaskipa. Yfir 500 manns myndu missa vinnuna og sárafá störf skapast í staðinn. Þeir, sem vinnuna missa, geta ekki búizt við að fá jafn vel launuð störf í staðinn, því að áliðnaðurinn á Íslandi borgar meira en meðallaun, sem tíðkast í hverri starfsstétt. A.m.k. 1000 manns til viðbótar á öðrum launaskrám mundu verða fyrir tekjumissi, og hið opinbera yrði fyrir verulegu höggi. Atburður af þessu tagi hefur verulega neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn, sem getur valdið gengissigi, sem skerðir hag allra landsmanna. Það er algerlega ábyrgðarlaust að fitja upp á vitleysu af þessu tagi, en það var ekki allt komið frá aðjunktinum með þessu fimbulfambi hans:
"Svanasöngur álversins í Straumsvík er óumdeilanlegur, og hefur reksturinn seinustu árin ekki gengið vel. Tækjabúnaður er gamall, og með stuttu millibili hafa myndazt svokallaðir ljósbogar í kerskálum verksmiðjunnar. Öll skynsamleg rök eru til staðar fyrir lokun álversins. Spara mætti útsölu þjóðarbúsins á orku til stóriðju og minnka gróðurhúsalofttegundir í sama vetfangi."
Þetta er argasta svartagallsraus, sem á sér enga stoð í veruleikanum, en virðist hafa búið um sig í heila þessa aðjunkts, hvar sem hann starfar, við afar óheilnæmar aðstæður. Í Straumsvík fer ekki fram svanasöngur starfseminnar, enda er langt komið við að endurræsa rafgreiningarkerin, sem ákveðið var að stöðva framleiðslu í í sumar vegna óhentugs hráefnis (og s.k. kaldræsingu lauk 01.11.2019).
Tækjabúnaður er alls ekki allur gamall, því að í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008 fjárfesti Rio Tinto Alcan, eigandi ISAL, fyrir um mrdISK 100 í nýjum búnaði í raforkukerfinu, í steypuskálanum og víðar. Á þessu ári,2019, var nýr súrálslöndunarkrani tekinn í gagnið, og er sá nýi mun afkastameiri en sá gamli. Þannig er enginn uppgjafarhugur í starfsmönnum ISAL, þótt tilvitnaður aðjunkt virðist halda það. Verksmiðjunni hefur verið vel við haldið, og hún hefur verið í fremstu röð sjálfvirknivæðingar. Tæknilegur rekstur verksmiðjunnar hefur að mörgu leyti verið framúrskarandi, og er t.d. koltvíildislosun á hvert framleitt tonn Al með því allægsta í heiminum.
Að reyna að gera sér mat úr ljósbogamyndun til að reyna að koma höggi á ISAL er aulaframkoma. Þessum pistilhöfundi er kunnugt um það, að engin önnur verksmiðja hérlendis eða í eigu Rio Tinto, og þótt víðar væri leitað, býr að jafnfullkominni ljósbogaskynjun og -vörn og ISAL, enda varð mjög takmarkað tjón af völdum téðs ljósboga (gat á þekju), en slíkir ljósbogar hafa valdið margföldu tjóni á við þetta, m.a. í þeim kerskála, sem hér um ræðir, árið eftir gangsetningu hans, enda var ISAL þá ekki búið að innleiða ljósbogavörn sína í nýja kerskálanum, heldur treysti á þá vörn, sem með nýja búnaðinum kom. Frumástæða vandræðanna í sumar var mikill hiti í kerum af völdum gallaðs hráefnis, sem olli miklum skautföllum, en slíkir atburðir framkalla ljósboga.
Það standa engin rök til þess að loka ISAL-verksmiðjunni núna, hvorki til að hægt sé að taka á móti farþegaskipum í Straumsvík eða af öðrum ástæðum. Það eru alger öfugmæli, að í Straumsvík fari fram "útsala" á raforku. ISAL borgar langhæst raforkuverð allra stóriðjuvera landsins, sem eru með langtímasamning, og þetta verð er langt ofan við tilkostnað Landsvirkjunar og Landsnets við öflun og flutning þessarar orku til Straumsvíkur. Verðið er jafnframt hærra en í mörgum álverksmiðjum á Vesturlöndum og miklu hærra en í Miðausturlöndum. Raforkuverðið ógnar samkeppnisstöðu verksmiðjunnar, því að hún verður auk þess að glíma við hærri flutningskostnað en samkeppnisaðilarnir.
Orkuverið, sem í upphafi lá til grundvallar starfseminni, Búrfellsvirkjun, er fyrir löngu uppgreitt með fé frá ISAL og malar nú eiganda sínum gull, vinnslukostnaður virkjunarinnar, sem tengist nýjum orkusamningi við ISAL, Búðarhálsvirkjunar, er einnig mun lægri en nemur orkuverðinu til ISAL.
Það er í raun minni munur á orkuverðinu til ISAL og almennu heildsöluverði raforku í landinu en nemur ávinningi orkufyrirtækis af að virkja vatnsfall einvörðungu fyrir álver miðað við einvörðungu fyrir almennan markað. Langtímasamningur er ein skýring á því (veitir betri lánskjör), önnur er miklu jafnara álag álvers en almenns markaðar og betri nýting fjárfestingarinnar, þriðja er hærri aflstuðull álvera, sem gerir enn meira af heildarorkunni nýtanlega og seljanlega. Þannig hefur stóriðjan lengi staðið undir fjárfestingum í raforkukerfinu og í raun greitt niður orkuverð til almennings, sem er skýringin á því, að almenningur á Íslandi býr við eitt lægsta raforkuverð í heiminum án þess, að það sé greitt niður af hinu opinbera.
Auðvitað fellur aðjunktinn líka í þá forarvilpu að halda því fram, að álver á Íslandi auki við gróðurhúsaáhrifin í andrúmslofti jarðar. Hið rétta er, að álverin 3 á Íslandi draga úr losun heimsins um a.m.k. 12 Mt CO2 á ári, sem jafgildir 2-3 faldri losun íbúa Íslands, miðað við, að sama magn áls yrði framleitt annars staðar, þar sem ekki er völ á kolefnisfríum orkulindum. Þar við bætist, að íslenzku álverin hafa náð tiltölulega mjög góðum tökum á losun CF4 og C2F6, kolflúoríða, sem eru öflugar gróðurhúsalofttegundir, og mengunarvarnir eru allar til fyrirmyndar í Straumsvík. T.d. fjárfesti Rio Tinto Alcan í nýju hreinsivirki fyrir kerreykinn á árunum 2011-2014.
"Bræðsla á málmgrjóti og útblástur olíudrifinna véla eru stærsti orsakavaldur gróðurhúsalofttegunda hérlendis. Málmbræðsla og önnur stóriðja notar á bilinu 85-90 % af endurnýjanlegum orkugjöfum landsins og beinlínis hindrar nýsköpunaratvinnuvegi í að ná rekstrarlegri fótfestu. Þörf er á lagabreytingum, svo [að] við sem þjóðfélag getum haft aðra vitsmunalegri og arðbærari atvinnuvegi en málmbræðslu, sjávarútveg og ferðaþjónustu."
Aðjunktinn er að reyna að koma því inn hjá landsmönnum, að þeir séu syndarar gagnvart heiminum öllum í umhverfismálum, þegar staðreyndum málsins er þveröfugt farið; starfsemi áliðnar á Íslandi sparar lofthjúpnum a.m.k. 12 Mt/ár af CO2 auk þess sparnaðar, sem hlýzt af notkun áls vegna léttleika þess, en hann er auðvitað óháður framleiðslustað. Íslendingar eru einfaldlega að fylgja viðteknum hagfræðikenningum um nýtingu hlutfallslegra yfirburða sinna og landsins, þegar þeir framleiða málma með eins umhverfisvænum hætti og framast er kostur núna, veiða nytjastofna í efnahagslögsögunni og bjóða erlendu ferðafólki að skoða einstæða eyju sína norður undir heimskautsbaug. Boðskapur aðjunktsins er forneskjulegt afturhaldsvæl, sem bíður ekki upp á annað en afturhvarf til fortíðar og fátæktar.
"Brýn þörf er á lagabreytingum, er varða sölu Landsvirkjunar á raforku þjóðarbúsins, og tilkoma sæstrengs mun auka ábata og minnka áhættu orkuframleiðenda hérlendis. Sala á raforku í gegnum sæstreng mun koma fram sem áhættudreifing fyrir Landsvirkjun, þar sem selt er til nýrra aðila og undir öðrum skilmálum. Frá árinu 2016 hafa verið birtar skýrslur (Landsvirkjun, Orkustofnun, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Gamma), sem sýna árlega á fimmta tug milljarða króna í aukinni hagsæld þjóðarbúsins sem tekjur til ríkisins vegna sölu á raforku gegnum sæstreng til Evrópu. Það munar um minna en 50 milljarða."
Hér er farið algerlega með staðlausa stafi. Það hefur einmitt ekki tekizt með trúverðugum hætti í nokkurri skýrslu að sýna fram á þjóðhagslega hagkvæmni þess að selja raforku um sæstreng til útlanda. Það er út af því, að mismunur raforkuverðs í Evrópu og flutningskostnaðar raforku þangað frá Íslandi er ekki nægur til að veita raforkusölu um sæstreng þjóðhagslega hagkvæmni, nema bætt verði meira en 35 EUR/t CO2 við verðlagningu losaðs koltvíildis frá raforkuverum og það endurspeglist í meðalverðinu. Það mun hins vegar aldrei verða svo, því að verðhækkanir munu aðallega koma fram í verði afltoppanna, en aðeins að litlu leyti endurspeglast í meðalverðinu, eins og lesa má um í Skýrslu Orkunnar okkar, útg. 16.08.2019, kafla 6.
Það stappar nærri geggjun að halda því fram, að raforkuútflutningur um sæstreng muni "minnka áhættu orkuframleiðenda hérlendis". Ekkert ríkisvald í Evrópu né ESB er fúst til að ábyrgjast raforkuverð frá Íslandi. Íslenzkir raforkuseljendur munu þurfa að setja alla sína raforku á markað orkukauphallar Nord Pool fyrir Norðvestur-Evrópu, nema þá, sem bundin er með langtímasamningum á Íslandi, og þessi markaður er sveiflukenndur, og verðið mun hrynja, ef/þegar ný tækni brýzt inn á þennan markað, t.d. þóríum-kjarnorkuver, sem verið er að rannsaka í Evrópu, Norður-Ameríku, Austur-Asíu og e.t.v. víðar. Núverandi langtímasamningar um raforkusölu til álveranna á Íslandi eru hins vegar óháðir slíkum sveiflum, en sumir þeirra taka hins vegar mið af markaðsverði áls. Móðurfyrirtæki álveranna standa sem tryggingaraðili að kaupskyldu 80 %- 90 % forgangsorkunnar samkvæmt samningum. Aðjunktinn virðist lifa í raunveruleikafirrtum heimi fordóma og fordæðuskapar.
Tökum dæmi af ISAL: Á árinu 2018 keypti fyrirtækið 3361 GWh af Landsvirkjun og ætla má út frá gögnum Samáls o.fl., að þá hafi verðmætasköpun ISAL innanlands numið mrdISK 27. Hlutfall þessara tveggja stærða gefur verðmætasköpun raforku til ISAL innanlands 8,0 ISK/kWh eða 64 USD/MWh m.v. núverandi gengi. Sala um sæstreng að frádregnum öllum viðbótar kostnaði vegna hennar innanlands, t.d. af uppbyggingu flutningskerfis frá stofnrafkerfinu að landtökustað sæstrengs, verður þá að gefa Landsvirkjun hærri tölu en þetta, svo að sala um sæstreng verði þjóðhagslega hagkvæm. Því fer hins vegar víðs fjarri.
Samkvæmt gögnum frá sæstrengja- og rafbúnaðarframleiðanda myndi kostnaður sæstrengs og endabúnaðar 600 MW kerfis nema mrdUSD 2,5. M.v. 5,0 % ávöxtunarkröfu á ári, meðalafskriftatíma 16,8 ár, 10 % töp í streng og endabúnaði og árlegan viðhaldskostnað 1-2 % af stofnkostnaði, þá fæst árlegur kostnaður fjárfestingarinnar MUSD 48. Sé reiknað með, að seld orka verði 4000 GWh/ár inn á flutningsbúnað við strönd, þá nemur flutningskostnaðurinn 50 USD/MWh auk flutningskostnaðar innanlands. Ef reiknað er með hækkun meðalverðs um 60 % frá núverandi, þ.e. upp í 80 EUR/MWh=90 USD/MWh, þá fær orkuseljandi hér á Íslandi verðið 40 USD/MWh, en á þá eftir að greiða Landsneti fyrir flutninginn innanlands. Sá kostnaður nemur að lágmarki 5 USD/MWh. Landsvirkjun fær þannig í mesta lagi 35 USD/MWh í sæstrengsviðskiptum með ISAL-orkuna og tilfallandi umframorku, en ISAL-orkan er aftur á móti núna að skapa 64 USD/MWh í verðmætum innanlands. Þarna vantar næstum 30 USD/MWh upp á eða 47 %, að sæstrengsviðskiptin ná samjöfnuði við ISAL-orkuviðskiptin.
Þetta bil verður ekki brúað í fyrirsjáanlegri framtíð án verulegra meðlaga, t.d. úr sjóðum Evrópusambandsins, en áhætta slíkra viðskipta er margföld á við áhættu núverandi viðskipta. Það er þess vegna tóm firra, að lofthjúpnum eða þjóðarbúskap landsmanna geti gagnast að loka ISAL og selja raforkuna í staðinn inn á Innri markað ESB um sæstreng.
1.11.2019 | 11:45
Er bjart yfir birtingu gagna ?
Valdhafar hérlendis eru pukurgjarnir með viðfangsefni sín og jafnvel ákvarðanir, eins og þeir væru á mála hjá Miðstjórn sovézka kommúnistaflokksins, en ekki að vinna fyrir 0,36 M manns á eyju norður í Atlantshafi.
Þetta er óttalega heimóttarleg hegðun í samanburði við anda stjórnsýslu- og upplýsingalaga hér og borið saman við nágranna okkar og frændur á hinum Norðurlöndunum, t.d. Norðmenn. Sleifarlagi opinberrar stjórnsýslu er við brugðið, og er sem metnaðarleysi og doði liggi yfir vötnum. Með auknu reglufargani, heimatilbúnu og að utan (EES), hefur keyrt um þverbak, og er Byggingarreglugerðin eitt dæmi. Þunglamaleg stjórnsýsla er rándýr, því að hún sóar tíma fjölda manns, og dregur þannig úr framleiðniaukningu, sem þó er undirstaða lífskjarabata í landinu.
Vakin hefur verið athygli á nokkrum öðrum dæmum um þetta á þessu vefsetri, og nú hefur Umboðsmaður Alþingis ávítað stjórnvöld fyrir tregðu sína við eðlilega upplýsingagjöf og bent á algerlega óeðlilega hátt hlutfall beiðna um upplýsingar frá hinu opinbera, sem lendi hjá áfrýjunarnefnd um upplýsingamál. Sem betur fer er nú komin fram tillaga frá Stjórnarráðinu um að draga nokkrar tennur úr vinstri hvofti eins argasta kerfisdýrsins, Samkeppnisstofnunar. "Kúba norðursins" lét ekki aðeins duga að innleiða hér löggjöf ESB á samkeppnissviði, heldur bætti í kerfishítina, og er það ekki í eina skiptið, sem íslenzkir búrókratar eru á fölskum forsendum látnir komast upp með að gerast kaþólskari en páfinn. Alþingismenn verða að muna, að reglugerðafargan kemur að lokum niður á neytendum, kjósendum þeirra, þannig að þeir verða að standa á bremsunum.
Argvítugum þagnarhjúpi var varpað yfir þá ákvörðun ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar 2016, þar sem Lilja D. Alfreðsdóttir var utanríkisráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir var iðnaðarráðherra, að fallast í einu og öllu á þá kröfu ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) að taka upp nýtt fyrirkomulag við endurnýjun á og útgáfu nýrra orkunýtingarleyfa fyrir orkulindir í eigu hins opinbera.
Markaðurinn skal eftir breytinguna að kröfu ESA ráða því, hver fer með þessi nýtingarleyfi, og þessi markaður er væntanlega Innri markaður EES. Fyrir þessu máli var gerð grein í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, og þar var sterklega varað við þessu á þeim forsendum, að 0,36 M manna samfélag gæti ekki staðið gegn afli 500 M manna markaðar um nýtingu eftirsóknarverðra auðlinda.
Þetta þýðir þá með öðrum orðum, að vegna þessarar ákvörðunar í utanríkisráðherratíð Lilju D. Alfreðsdóttur (utanríkisráðherra fer með EES-mál í samstarfi við fagráðherra) stefnir í, að Íslendingar glutri niður umráðarétti orkulinda ríkisins og sveitarfélaganna, þótt þeir eftir sem áður haldi eignarrétti sínum. Hvers virði er hann, þegar umráðarétturinn er farinn annað ?
Einhver hefði nú haldið, að þetta mál væri einnar messu virði á opinberum vettvangi og að á móti mætti draga úr froðunni og móðursýkinni, sem of mikinn tíma taka, s.k. umbúðastjórnmál, hismi, sem alltaf sneiða hjá kjarna máls. Nei, engin ríkisstjórn frá þessum atburði, sízt núverandi leyndarhyggjustjórn Katrínar Jakobsdóttur, hefur séð ástæðu til að skýra út fyrir þjóðinni þessa grundvallar stefnubreytingu um stjórnun á nýtingu orkulindanna. Stefnir nú í, að hér gæti orðið um kosningamál að ræða, því að iðnaðarráðherra hefur boðað framlagningu máls á 150. löggjafarþinginu, þar sem ríkisstjórnin virðist loks ætla að efna loforðið við ESA (Eftirlitsstofnun EFTA), sem felldi kvörtunarmálið niður í janúar 2017 eftir uppgjöf ríkisstjórnarinnar í þeirri vissu, að staðið yrði við loforðið.
Verður iðnaðarráðherra kápan úr þessu klæði sínu ? Það mun a.m.k. verða lífleg umræða alls staðar á landinu og í öllum frjálsum fjölmiðlum, svo og á þingi. Sú umræða er líkleg til að narta enn af fylgi stjórnarflokkanna, og sá fylgisflótti fer vonandi þangað, sem raunveruleg andstaða er við málið. Hennar er aðeins að vænta af krafti frá Miðflokkinum, en OP#3 flokkarnir hafa væntanlega ekki miklar athugasemdir.
Norska ríkisstjórnin lagði á hinn bóginn ekki upp laupana eftir móttöku bréfs frá ESA 30. apríl 2019 um, að aðferð norska ríkisins við úthlutun nýtingarleyfa orkulinda í eigu ríkisins stríddi gegn Þjónustutilskipun ESB, samkeppnisreglum o.fl., eins og ESA heldur fram. Þann 5. júní 2019 sendi olíu- og orkuráðuneytið snöfurmannlegt bréf til ESA með lögfræðilegum útleggingum á því, að þetta mál kæmi ESA ekki við, væri utan valdsviðs Eftirlitsstofnunarinnar og sneri að fullveldisrétti Noregs til að ráða yfir nýtingu orkulinda Noregs.
Því miður er hér grundvallarmunur á afstöðu Íslands og Noregs til samskipta við ESA, og það er mikið áhyggjuefni fyrir hérlandsmenn, að allur dugur virðist úr íslenzka stjórnkerfinu, þegar kemur að því að standa í lappirnar gagnvart EES/ESB. Er engin döngun lengur í íslenzkum stjórnmálamönnum við völd og embættismönnum þeirra ? Stórþinginu var tilkynnt um bréf norsku ríkisstjórnarinnar til ESA, og lýsti það yfir þverpólitískri samstöðu með ríkisstjórninni, sem er fremur sjaldgæft, en skýrist af því, að Norðmenn telja "erfðasilfur" sitt í húfi.
Þetta er ennfremur mjög athyglisvert í ljósi þess, að norska ríkisstjórnin hefur verið talin fremur höll undir ESB. Enginn veit hins vegar um afstöðu Alþingis til uppgjafarbréfs íslenzku ríkisstjórnarinnar, og það hefur ekki verið birt, en á vef ESA er vitnað til þess og svarbréfið birt, þar sem málinu var þar með sagt lokið. Allt er þetta óboðlegt og til vitnis um pólitískar heybrækur, sem þola ekki dagsljósið hérlendis.
Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 13.09.2019 bar yfirskriftina:
"Bjart er yfir birtingu gagna".
Þar segir svo í undirkaflanum:
"Ólæknandi hræðslupúkar":
"En óttaköstin, sem ákveðin tegund af mönnum verður heltekin af, þegar að skiljanleg rök vilja alls ekki eiga samleið með þeim, er þó erfiðara að botna í en bænakvakið út af hnerranum.
Umræðan um orkupakkann stóð stutt, þótt hún teygðist töluvert yfir almanakið. Þeir, sem gengu erinda þeirra, sem gáfu fyrirmælin um að innleiða tiltekna tilskipun, ræddu málið sárasjaldan og aldrei efnislega. Þeir, sem áttu formsins vegna að vera í forsvari, virtust algerlega ófærir um það og stögluðust því á innihaldslausum klisjum, sem útlitshönnuðum sjónarmiða var borgað af almenningi fyrir að sníða ofan í þá.
Fyrst snerust þær um það, að málið, sem þeir höfðu ekki sett sig inn í, væri algjört smámál. Næst kom þreytta tuggan um, að þau rök, sem meirihluti þjóðarinnar ætti samleið með, "stæðust ekki skoðun". En sú skoðun fór aldrei fram, svo að séð væri. Hvorug þessara aðferða gekk upp.
Að lokum endaði málatilbúnaðurinn með því að segja, að EES-samningurinn myndi fara út um þúfur, yrði þetta "smámál" ekki samþykkt.
Vandinn er sá, að það er sjálfur grundvöllur samningsins, að Ísland geti hafnað slíkum tilskipunum, algjörlega að eigin mati. Gæti þjóðin það ekki, hefði lagasetningarvald Alþingis verið flutt úr landi, sem ekki stæðist stjórnarskrá.
Margoft var um það spurt, hvað menn hefðu fyrir sér um það, að EES-samningurinn hryndi, ef "þetta smámál" yrði ekki samþykkt. Enn hefur ekki komið svar við því. Einhver marktækur hlýtur þó að hafa sett fram slíkar hótanir. Varla hafa þær verið fabúleraðar í heimilisiðnaði.
Og það ömurlega er, að það var á grundvelli þessa hræðsluáróðurs, sem málið var afgreitt, svo lítilfjörlegt sem það er. Málið var rekið áfram á óttanum."
Þetta er einn harðasti dómur yfir stjórnvöldum, sem Morgunblaðið hefur kveðið upp úr með á lýðveldistímanum, og voru þó vinstri stjórninni 1956-1958 ekki vandaðar kveðjurnar. Það er auðvitað jafnframt mikill áfellisdómur yfir framkvæmd EES-samningsins, að ríkisstjórnin skuli, að því er virðist, fara fram með löggjöf Evrópusambandsins gagnvart Alþingi á grundvelli hótana, innlendra eða erlendra, sem hún þó treystir sér ekki til að staðfæra, hvað þá að hún hafi borið það við að færa rök fyrir gagnsemi löggjafarinnar fyrir íslenzka þjóð. Hún greip hins vegar til þess óyndisúrræðis að veifa fremur röngu tré en öngu, þ.e. að innleiðing þess hluta orkulöggjafar ESB, sem OP#3 spannar, skipti þjóðina engu máli. Það var þó margsinnis hrakið, bæði á lögfræðilegum, orkustjórnunarlegum og efnahagslegum forsendum. Að EES-samningurinn sé hér keyrður áfram á svona lágkúrulegum forsendum, færir okkur heim sanninn um, að þetta herra-þræls-samband okkar við ESB um Innri markaðinn er komið að leiðarlokum.
Höfundur Reykjavíkurbréfs gerði síðan að umræðuefni, að baráttan í Bretlandi gegn útgöngu Breta úr Evrópusambandinu væri líka rekin á óttanum. Það hvarflaði þó ekki að aðþrengdum Bretum eftir ósigurinn við Dunkirque vorið 1940 að láta í minni pokann fyrir yfirgangi Berlínar þá, heldur barðist Royal Airforce með kjafti og klóm við Luftwaffe um yfirráðin í lofti.
Wehrmacht og die Kriegsmarine höfðu komizt að þeirri niðurstöðu, að innrás í England myndi mistakast, aðallega vegna brezka flotans, svo að lofthernaðurinn var í raun ekki barátta um England, heldur barátta um yfirráð í lofti yfir Evrópu. Allir vita, hvernig þeirri baráttu lyktaði, og ekki kæmi það á óvart, að Bretar stæðu enn einu sinni uppi með pálmann í höndunum eftir útgönguviðureignina við meginlandið. Þeir munu strax í kjölfarið fá viðamikinn fríverzlunarsamning við Bandaríkin, og vonandi hefur EFTA vit á að gera við þá víðtækan, nútímalegan fríverzlunarsamning.
Höfundur sama Reykjavíkurbréfs gerir Yellowhammer ("gultittling"), verstu sviðsmynd May-stjórnarinnar um afleiðingar BREXIT að umræðuefni. Í lokaundirkafla bréfsins stendur þetta:
"Það eina, sem manni þykir vanta í þessar spár, væri 11.:"Verði farið út án útgöngusamnings, gæti Pence, varaforseti, komið í heimsókn í hálfan dag og umferðaröngþveiti verða í öllum borgum Bretlands og standa í þrjá mánuði, einkum ef það væri starfsdagur í skólum.".
Skýringin á því, að May birti ekki þessa skýrslu, sem hún pantaði, er augljóslega sú, að það reyndist ekkert vera í henni. Þegar beðið var um það á þingi Bretlands, að þessi skýrsla óttans yrði birt, þá var það gert.
Á Íslandi er augljóst, að helztu forystumenn landsins keyptu fullyrðingar um það, að fylgdu þeir ákvæðum EES samningsins og höfnuðu fullgildingu ákvæðis, sem að almenningur er á móti, þá yrði samningurinn að engu ! Það þarf að vísu ótrúlega trúgirni til, því [að] ekki er fótur fyrir þessari kenningu. En þingið hlýtur að krefjast þess, að öll gögn og rökstuðningur "hinna andlitslausu", sem hræddi börnin, verði birt.
Þeir, sem töldu þessi rök góð og gild og létu þau duga til þess að skipta um skoðun á umdeildu máli, geta ekki verið á móti því að birta rökstuðninginn. Fyrst hann var svona öflugur, ætti hann að vera til þess fallinn að afla meiri skilnings á afstöðu, sem enn sætir mikilli tortryggni, sem mun einungis fara vaxandi, eftir því sem tímar líða frá, og þegar ljósar verður, hvers vegna í ósköpunum þetta var gert. Það verður bara verra að bíða. Það er þekkt."
Sagan mun ekki fara mjúkum höndum um þá, sem að þessum ófögnuði stóðu, því að auðvitað verður flett ofan af þeim í fyllingu tímans.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
25.10.2019 | 11:13
Afleiðingar sæstrengsumsóknar
Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, ritaði eina af sínum gagnmerku hugleiðingum í Morgunblaðið 21. september 2019, og hét hún:
"Ótti leiðir í snöru".
Arnar Þór hefur áhyggjur af því, hvernig íslenzk stjórnmál hafa þróazt og raunar allar þrjár greinar ríkisvaldsins, einkum þó löggjafarvaldið. Vitað er, að fjárfestar hafa hug á að leggja og reka aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands og tengja þannig "orkuríkt" Ísland við Innri raforkumarkað ESB, sem sárvantar raforku úr sjálfbærum orkulindum og mun líklega greiða hærra verð fyrir hana á næsta áratugi, þegar orkufyrirtækjunum verður gert að kaupa sér koltvíildiskvóta við síhækkandi verði. Hvernig munu Íslendingar bregðast við slíkri sæstrengsumsókn ?
Í þessu sambandi er áhugavert að fylgjast með þróun sæstrengsmála í Noregi. Tveir stórir (1400 MW) sæstrengir verða teknir í brúk þar 2020-2021, annar til Þýzkalands og hinn til Englands. Afleiðingin verður harðari samkeppni um raforkuna í Noregi, minni varaforði í miðlunarlónum og þar af leiðandi hærra raforkuverð á orkumörkuðum í Noregi (orkukauphöllum).
Þá er beðið með talsverðri eftirvæntingu eftir afgreiðslu umsóknar NorthConnect-félagsins um 1400 MW sæstreng á milli Noregs og Skotlands. Ef af honum verður, mun verðmunur raforku á Bretlandi og í Noregi sennilega þurrkast út með þeim alvarlegu afleiðingum, sem það hefur á samkeppnishæfni Noregs innanlands og utan.
Hvaða afleiðingar telur Arnar Þór, að innleiðing OP#3 hafi á sjálfsákvörðunarrétt Íslands í sæstrengsmálum?:
"Því miður sýnist staðan vera sú, að íslenzk stjórnmál séu föst á milli tveggja elda; til annarrar hliðar ofurseld reglusetningarvaldi ESB í flestu, sem máli skiptir, en stjórnist að hinu leytinu af hræðslu við fjölmiðla og "almannatengla" í málum, sem að nafninu til eiga þó að lúta forræði Alþingis. Hér skal ekki lítið úr því gert, að Evrópuréttur hefur á ýmsan hátt bætt íslenzkan rétt. Það réttlætir þó ekki, að Alþingi víki sér, á ögurstundu, undan því að axla ábyrgð á löggjafarvaldinu og kjósi, þegar upp koma sérlega umdeild mál, eins og O3, að leggja á flótta með því að setja svo misvísandi reglur, að helzt má líkja þeim við óútfylltar ávísanir til dómara."
Dæmið, sem dómarinn tilfærir, sýnir, svo að ekki verður um villzt, í hvílíkar ógöngur löggjafinn ratar, þegar hann stendur frammi fyrir "skítamixi" ráðuneytanna til að sniðganga Stjórnarskrána, svo að á yfirborðinu sé hægt að innleiða gerðir Evrópusambandsins í íslenzka lögbók.
Þetta fyrirkomulag; að taka við yfirgripsmiklum lagabálkum ESB og færa þannig lagalega bindandi ákvörðunarvald til stofnunar Evrópusambandsins, hér ACER, hefur nú gengið sér til húðar, því að þar með erum við í stöðu hjálendu Evrópusambandsins.
Hver er munurinn á þessu fyrirkomulagi og stjórnarháttum einveldistímans á Íslandi, þegar hirðstjóri Danakonungs mætti með tilskipanir og reglugerðir frá Kaupmannahöfn og lagði þær fyrir þingheim á Þingvöllum til samþykktar og innleiðingar í löggjöf landsins ?
"Með innleiðingu O3 í íslenzkan rétt og samhliða séríslenzkum lagalegum fyrirvörum, sem beinast gegn markmiðum O3, hefur sjálft Alþingi brotið gegn því meginmarkmiði réttarríkisins, að lög séu skýr og skiljanleg. Með því að tala tungum tveim í málinu hefur þingið leitt misvísandi reglur í lög og þar með skapað innri lagalegar mótsagnir.
Þá hafa þingmenn með þessu vinnulagi í raun sett afturvirk lög, sem einnig er brot gegn því, sem réttarríkið stendur fyrir. Lagalegri óvissu, sem af þessu leiðir, verður ekki eytt fyrr en dómstóll, að öllum líkindum EFTA-dómstóllinn, hefur kveðið upp úr um það, hvort íslenzka ríkinu sé nokkurt hald í margumræddum lagalegum fyrirvörum Alþingis við O3."
Ef fjárfestar sjá gullið viðskiptatækifæri fólgið í því að tengja saman íslenzka raforkukerfið og Innri markað ESB vegna mikils verðmunar á þessum mörkuðum án tillits til mikils flutningskostnaðar, þá munu þeir búa til verkefni um þá viðskiptahugmynd, og hún verður lögð fyrir landsreglara ACER í sitt hvorum enda tilvonandi sæstrengs.
Höfundi pistilsins þykir líklegt, að verkefnið verði í tveimur áföngum, þ.e. 2x500 kV DC, 600 MW, sæstrengir (sjór og hafsbotn ekki notaðir sem straumleiðari af öryggisástæðum) í hvorum áfanga með viðkomu í Færeyjum, með möguleika á tengingu við færeyska landskerfið, ef Færeyingar kæra sig um.
Kerfi af þessu tagi myndi útheimta fjárfestingu um mrdUSD (2x2,5) með 30 % óvissu. Árlegur kostnaður fjárfestanna í USD/MWh fer eftir því, hversu mikill hluti af endabúnaði sæstrengjanna lendir á flutningsfyrirtækjunum í sitt hvorum enda, og hversu mikill orkuflutningur mun eiga sér stað, og hver borgar flutningstöpin, sem eru umtalsverð með töpum í afriðla- og áriðlabúnaði.
M.v. raforkuverðið 50 EUR/MWh, sem er algengt heildsöluverð á Nord Pool kauphöllinni um þessar mundir, er þetta engan veginn arðsöm orkusala frá Íslandi. M.v. hækkun upp í 80 EUR/MWh (60 % hækkun) vegna koltvíildiskvóta á orkuvinnslufyrirtækin í Þýzkalandi (og kannski víðar) árið 2025 að upphæð 35 EUR/t CO2, þá verður þessi flutningur aðeins arðsamur, ef fjárfestarnir þurfa ekki að borga endabúnaðinn, og með því að fullnýta flutningsgetu strengjanna. Þetta verkefni er miklum vafa undirorpið án styrkja og/eða niðurgreiðslna, sem Evrópusambandið þó vissulega beitir sem lið í orkustefnu sinni, og stefna þess er vissulega að tengja jaðarsvæði Evrópu við Innri markað sinn.
Hins vegar er ljóst, að það er mesta glapræði fyrir orkufyrirtæki á Íslandi, sem eru með langtímasamninga um raforkusölu við iðjufyrirtæki, að setja þá samninga í uppnám með það í huga að græða meira á viðskiptum á Innri markaðinum. Þau eru algerlega undir hælinn lögð og alls engin trygging fyrir háu orkuverði til framtíðar, þótt næsti áratugur geti litið þannig út. Enginn í Evrópu mun tryggja íslenzkum orkubirgjum hátt framtíðarverð fyrir raforku frá Íslandi. Ástæðan er sú, að alger óvissa ríkir um framtíðarverðið. Á næsta áratugi er þó líklegt, að dragi til tíðinda við þróun raforkugjafa, sem jafnvel græningjar geta samþykkt.
Arnar Þór Jónsson benti í grein sinni á líklega sviðsmynd, sem gæti orðið uppi á teninginum þegar á þessu kjörtímabili. Þar er líklega komin snaran í heiti greinarinnar:
"Ef alvarleiki framangreindra atriða nægir ekki til að viðhalda umræðum um það, sem hér hefur gerzt, má vænta þess, að sú umræða lifni af fullum krafti, þegar og ef í ljós kemur, að O3 var ekkert "smámál", eins og meirihluti þingmanna lét þó í veðri vaka. Eins og ég hef áður bent á, gæti það t.a.m. gerzt með því, að höfðað verði samningsbrotamál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum. Ráðherrar, þingmenn og ráðgjafar þeirra, mega þá búast við, að opinbert verði, að þeir hafi farið með staðlausa stafi um mögulega nauðvörn á grunni hafréttarsáttmálans [og] um ómöguleika þess að nýta undanþáguheimildir EES-samningsins eða um óskert fullveldi Íslands yfir raforkulindum. Það væri ekki léttvægur áfellisdómur, sem menn hefðu kveðið upp yfir sjálfum sér, ef í ljós kæmi, að fræðimennskan reyndist innistæðulaus, sjálfsöryggið aðeins gríma, yfirlætið tilraun til að breiða yfir óvissu og fela undirliggjandi ótta."
12.10.2019 | 14:19
Af fylgisflótta og dusilmennum
Síðla septembermánaðar 2019 birtist skoðanakönnun MMR, sem ekki getur hafa verið uppörvandi fyrir stjórnarflokkana né fyrir ríkisstjórnina, sízt af öllu stærsta stjórnarflokkinn, sem mældist í sínu sögulega lágmarki slíkra fylgismælinga. Á því eru auðvitað skýringar, og minntist höfundur Reykjavíkurbréfs á þær 20.09.2019:
"Og svo er hitt augljóst, að eftir því sem flokkur verður ótrúverðugri sjálfum sér og tryggustu kjósendum sínum, gengur sífellt verr að ganga að þeim vísum. Það lögmál er einnig þekkt úr öðrum samböndum."
Þegar kjósendum stjórnmálaflokks finnst í hrönnum, að hann hafi svikið grunngildi sín og hundsað mikilvæg atriði í síðustu Landsfundarsamþykkt sinni, þá er voðinn vís fyrir framtíð flokksins, og hann getur þá breytzt úr breiðum og víðsýnum fjöldaflokki í sértrúarsöfnuð sérhagsmuna. Hver vill það ? Hvers vegna gerist það ? Mun annar stjórnmálaflokkur geta tekið við sem kjölfesta borgaralegra afla í landinu ?
Síðan skrifaði bréfritariinn:
"Villtir leiðsögumenn eru vandræðagemlingar",
í samhengi við dóm Mannréttindadómstóls Evrópu um skipun fyrstu dómaranna í Landsdóm. Furðu sætti vandræðagangur bráðabirgða dómsmálaráðherrans í því máli, hvort vísa ætti úrskurði Neðri deildar til Efri deildar dómsins, þótt Ísland sé ekki bundið að þjóðarétti að hlíta dómnum, heldur dómi Hæstaréttar Íslands, sem dæmt hafði þá þegar skipun að hálfu dómsmálaráðherrans þar á undan (S. Andersen) í dómaraembætti Landsréttar lögmæta með "áferðargöllum" þó.
Bráðabirgðadómsmálaráðherrann gerði þess vegna allt of mikið með dóm Mannréttindadómstólsins, sem auk þess orkar mjög tvímælis sjálfur. Það má heimfæra eftirfarandi orð ritara Reykjavíkurbréfs upp á málatilbúnað sama ráðherra í OP#3 ferlinu líka:
"Til eru þeir lögfræðingar, og það jafnvel í hópi þeirra, sem trúað er fyrir að kenna nýliðum fræðin, sem telja sig mega horfa framhjá grundvallaratriðum eins og því, hvort samningar, sem gerðir hafa verið fyrir landsins hönd, séu bindandi fyrir það eða ekki. Þegar samþykkt er, að landið skuli eiga þátttöku í samstarfi með hópi annarra ríkja, með því fortakslausa skilyrði, að niðurstöður hins yfirþjóðlega valds séu ekki bindandi fyrir það, er það grundvallaratriði, en ekki hortittur. Viðkomandi stofnun, t.d. Mannréttindadómstóllinn, samþykkti þá þátttöku Íslands, og þar með samþykkti hann skilyrðið."
Þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn í janúar 1993 var það vitandi um ákvæði samningsins um, að það gæti og mætti synja samþykktum Sameiginlegu EES-nefndarinnar samþykkis og þyrfti ekki að tilfæra neina sérstaka skýringu á því. Nú segja ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hins vegar við þing og þjóð, að þetta ákvæði sé ónothæft, því að það setji EES-samstarfið á hliðina. Þessi túlkun hefur enn ekki verið útskýrð með viðunandi hætti fyrir þjóðinni, og á meðan verður að líta svo á, að lögmæti EES-samningsins á Íslandi, og reyndar einnig í Noregi, hangi í lausu lofti. Strangt tekið þýðir þetta, að löggjafarvaldi íslenzka ríkisins hafi verið úthýst úr Alþingishúsinu við Austurvöll og til þess húsnæðis í Brüssel, þar sem Sameiginlega EES-nefndin er til húsa. Þessi staða er óviðunandi, og staða stjórnarflokkanna getur þar með varla styrkzt að óbreyttu.
"Óframbærileg og niðurlægjandi afstaða íslenzku ríkisstjórnarinnar í svokölluðu orkupakkamáli er sama eðlis. Augljóst er, að látið hefur verið undan hótunum, sem hvergi hefur þó verið upplýst um, hvaðan komu. Ríkisstjórnin sjálf viðurkenndi í raun, að hún lyppaðist niður fyrir hótunum um, að gerði hún það ekki, væri EES-samningurinn úr sögunni. Ekkert í samningnum sjálfum ýtti þó undir þá niðurstöðu !
En vandinn er sá, að þar sem þessi dusilmennska náði fram að ganga, er stjórnskipulegur tilveruréttur EES-samningsins að engu gerður. Þeir, sem fyrstir allra misstu fótanna í þessu máli, eru augljóslega algerlega vanhæfir til að leggja trúverðugt mat á stöðu EES-samningsins. Og breytir engu, þótt þeir hafi nú verið í heilt ár hjá Guðlaugi Þór við að bera í bætifláka fyrir málatilbúnað hans."
Sjaldan hefur ein ríkisstjórn og eitt handbendi hennar fengið svo hraklega útreið í ritstjórnargrein Morgunblaðsins eins og getur að líta hér að ofan. Dusilmenni verður þar með grafskrift ríkisstjórnarinnar að óbreyttu, og stöðuskýrsla Björns Bjarnasonar og tveggja annarra lögfræðinga um EES-samninginn er algerlega ómarktækt plagg, af því að téður Björn hefur gert sig gjörsamlega vanhæfan til verksins með því að missa fótanna fljótlega í umræðunni um Orkupakka 3, og stunda þar að auki ómerkilegan og rætinn málflutning í anda fyrrum andstæðings síns í prófkjöri, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra. Fyrir vikið er umrædd stöðuskýrsla dæmd til að lenda á öskuhaugum sögunnar, og umræddur Björn hefur í þessum atgangi misst allan trúverðugleika.
Þess má geta, að í ágúst 2019 kom út í Noregi skýrsla Menon Economics: "Norge, EÖS og alternative tilknytningsformer". Menon Economics er rannsóknar-, greiningar- og ráðgjafarfyrirtæki í skurðpunkti rekstrarhagfræði, þjóðhagfræði og atvinnustefnumótunar, virt fyrirtæki, sem t.d. var valið ráðgjafarfyrirtæki ársins í Noregi 2015. Skýrslan er hnitmiðað 45 blaðsíðna rit, margfalt verðmætara og gagnlegra fyrir Íslendinga en skýrsla íslenzku lögfræðinganna þriggja á 301 bls., enda er í norsku skýrslunni fjallað hlutlægt um valkostina við EES-samninginn, sem vissulega eru fyrir hendi og eiga við um öll EFTA-ríkin.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að áhöld eru um það, hvort OP#3 standist Stjórnarskrá. Í fjarveru stjórnlagadómstóls á Íslandi verður hægt að láta reyna á gjörðir Landsreglarans fyrir dómstólum og ekki ólíklegt, að það verði gert, þegar íþyngjandi ákvarðanir hans birtast almenningi.
Það er þó mjög íhugandi í ljósi kæruleysislegrar umgengni margra Alþingismanna við Stjórnarskrána (að láta hana ekki njóta vafans) að fela Hæstarétti jafnframt núverandi skyldum sínum hlutverk stjórnlagadómstóls. Þá gætu þingmenn skotið málum þangað á undan afgreiðslu máls, forseti lýðveldisins fyrir lagastaðfestingu sína og borgararnir eftir staðfestingu laga. Höfundur sama Reykjavíkurbréfs velti þessu fyrir sér:
"Nú hefur dómstólaskipunin breytzt, og álagið á Hæstarétt er orðið skaplegt, og gæti hann því auðveldlega tekið að sér hlutverk stjórnlagadómstóls, sem væri að marki víðtækara en það, sem rétturinn hefur sinnt fram til þessa. Því væri hægt að gera aðgengi að því að fá slíkum spurningum svarað opnara en það er nú, þótt ekki sé verið að mæla með glannalegheitum í þeim efnum."
Það er þörf á formlegra hlutverki Hæstaréttar, þegar kemur að því að úrskurða um stjórnlagalega stöðu lagafrumvarpa og laga. Slíkt yrði til þess fallið að skera úr stjórnlagalegri óvissu. Skemmst er að minnast bosmamikillar umræðu mestallt þetta ár um OP#3, sem að talsverðu leyti snerist um það, hvort innleiðing OP#3, eins og ríkisstjórnin kaus að standa að henni, væri brot á Stjórnarskrá eður ei. Sama umræða mun örugglega koma upp, þegar OP#4 verður til umræðu, og jafnvel einstaka gerðir ESB, sem koma frá Sameiginlegu EES-nefndinni þangað til, og þá yrði mikill léttir að því að geta skotið álitamálinu til Hæstaréttar, jafnvel áður en það fer fyrir Sameiginlegu EES-nefndina.
19.9.2019 | 14:12
Orkumál í höftum
Það kom fram í frétt Morgunblaðsins 6. september 2019, "Minni raforkunotkun", að raforkunotkun 2018 hefði orðið 1,4 % minni en spáð var. Stafar það aðallega af minni raforkunotkun stóriðjunnar en búizt var við, þegar gildandi Orkuspá var samin, 2015. Ástæðurnar eru bæði tæknilegir rekstrarörðugleikar og lélegur markaður.
Þetta er umhugsunarefni í ljósi þess, að Landsnet hefur tilkynnt, að þar á bæ sé búizt við aflskorti þegar veturinn 2020, þótt ekki sé það öruggt, og Orkustofnun sér fram á orkuskort á næstu árum (sem kemur fyrst fram sem aflskortur). Ef hagur strympu braggast í iðnaðinum, má búast við mjög kostnaðarsömum afl- og orkuskerðingum á næstu árum, því að fátt er um feita drætti á virkjanasviðinu núna. Slíkt ástand hefur neikvæð áhrif á allt hagkerfið og dregur úr hagvexti.
Þetta ástand léttir ekki undir með landsmönnum í orkuskiptunum, því að hækkað orkuverð er undanfari og fylgifiskur orkuskorts í markaðskerfi og aukin óvissa um afhendingu raforku gerir orkuskiptin ófýsilegri. Deyfð orkuráðherra og skeytingarleysi um hagsmuni neytenda í þessum efnum vekur undrun. Hvers vegna er ekki hvatt til frekari virkjana, úr því að markaðurinn veitir fyrirtækjunum ekki nægan hvata ?
Sannleikurinn er sá, að orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB) hefur virkað illa hér á landi og þarf engan að undra. Hún hefur hækkað verðið til fjölskyldna að raungildi um 7 % - 8 %, á sama tíma og þjóðin hefði sennilega farið að njóta ávaxtanna af eignum sínum í raforkugeiranum vegna skuldalækkunar hans með lækkun raunraforkuverðs, ef ekki hefði verið tekin sú misráðna ákvörðun 1999 og jafnvel fyrr að planta "aðskotadýri" inn í íslenzka orkulöggjöf, sem getur reyndar virkað vel við réttar aðstæður, en þetta "aðskotadýr" er ekki sniðið fyrir íslenzkar aðstæður. Þess vegna ganga orkumálin á afturfótunum hér, þótt orkuráðherra virðist af greinaskrifum sínum að dæma halda annað.
Birgir Þórarinsson, sem var ræðukóngur 149. löggjafarþingsins, skrifaði grein í Bændablaðið 29. ágúst 2019 undir heitinu:
"Orkupakkar hækka raforkuverð".
Þessi fyrirsögn felur í sér staðreynd, sem leidd var í ljós með skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019. Ályktunin, sem draga ber af þessari staðreynd er sú, að orkulöggjöf ESB, innleidd í íslenzkt umhverfi, hlýtur falleinkunn. Samkeppnin er ekki næg hérlendis til að vega upp á móti þeim kostnaðarauka, sem uppskipting raforkugeirans leiddi af sér. Yfirbyggingin mun bara vaxa með fleiri orkupökkum og óhagræðið sömuleiðis. Verðhækkanir rafmagns umfram verðlag munu vaxa með OP#3 og OP#4 (Hreinorkupakkanum) og um þverbak mun keyra, verði landið tengt Innri markaðinum um sæstreng.
Af þessum sökum ættu stjórnvöld að fitja upp á því, að Ísland fái algera undanþágu frá öllum orkupökkunum frá ESB. Þetta væri ágætisumræðuefni í næstu kosningabaráttu. Einnig mætti spyrja þjóðina að þessu beint í atkvæðagreiðslu samhliða næstu þingkosningum.
Hluta rakanna fyrir þessari stefnubreytingu er að finna í ofannefndri grein Birgis Þórarinssonar, sem hér verður vitnað í:
"Þeir, sem hafa fundið einna mest fyrir hækkun á raforkuverði vegna innleiðingar orkupakka ESB, er það fólk, sem býr á köldum svæðum á Íslandi.
Tveimur árum eftir, að fyrsti orkupakkinn var innleiddur, hafði raforkuverð til húshitunar á veitusvæði Hitaveitu Suðurnesja (nú HS Orku) hækkað á bilinu 74 % - 96 %. Þetta þekki ég af eigin raun, búandi á köldu svæði á Suðurnesjum.
Ástæðan var sú, að Hitaveitan niðurgreiddi sérstaklega raforku til húshitunar. Orkupakkinn stóð í vegi fyrir þessari niðurgreiðslu, og var hún því felld niður.
Maður spyr sig; hvað kom embættismönnum í Brussel það við, að raforka hafi verið sérstaklega niðurgreidd til húshitunar hér á landi ? Ég benti á þessa staðreynd í umræðu á Alþingi og var þá sakaður um að fara með rangt mál af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.
Ég brá þá á það ráð að sýna umræddum þingmönnum gamla raforkureikninga, fyrir og eftir innleiðingu orkupakka eitt, máli mínu til stuðnings. Sló þá þögn á þingmennina, en þeir báðust ekki afsökunar á orðum sínum.
Þetta eitt og sér sýnir, að þeir þingmenn, sem styðja innleiðingu orkupakka ESB, svífast einskis í málflutningi sínum. Óskiljanlegt er, hverra erinda þeir ganga á Alþingi, og hvaða hagsmunir kunna að búa að baki.
Búast má við enn meiri hækkun á orkuverði, fari svo, að þriðji orkupakkinn verði samþykktur og áform fjárfesta um sæstreng verði að veruleika."
Hvar var hin margrómaða neytendavernd orkupakkanna, þegar um 85 % hækkun á rafmagni til húshitunar dundi á Suðurnesjamönnum ? Þetta gerist væntanlega við bókhaldslegan aðskilnað hitaveitunnar og rafveitunnar. Svipað gerðist við sundurlimun Landsvirkjunar. Hagnaði af virkjunum var fyrir sundurlimun varið til uppbyggingar flutningskerfisins. Nú þarf Landsnet að fjármagna þær fjárfestingar með lánum og gjaldskrá, allt saman neytendum í óhag. Án Evrópuréttar á þessu sviði myndi Samkeppnisstofnun gera athugasemdir við markaðsráðandi stöðu og óeðlilega samþættingu samkeppnisrekstrar (raforkuvinnslu) og einokunarstarfsemi (hitaveitu).
Reynslan sýnir, að íslenzki markaðurinn er of lítill til að uppskipting fyrirtækja í anda ESB sé hagkvæm fyrir neytendur. Í íslenzka orkukerfinu er orkuforðinn m.a. háður duttlungum náttúruaflanna, en hjá ESB sjá eldsneytismarkaðir að miklu leyti um þennan þátt. Þess vegna þarf að flétta orkulindastýringu inn í markaðsstýringu ESB hérlendis, svo að ekki fari illa. Ef stjórnvöld (Alþingi) kjósa aðgerðir í átt til jöfnunar aðstöðu fólks á svæðum án jarðhita og með jarðhita, þá er það fullveldismál að ráða því, en svo er ekki lengur, eins og fram kemur í tilvitnaðri grein.
Grein sinni lauk Birgir þannig:
"Íslendingar eru sjálfstæð þjóð í harðbýlu landi og eiga ekki að láta embættismenn í ESB ráða því, hvernig við nýtum okkar mikilvægu raforkuauðlind eða verðleggjum hana. Atkvæðagreiðslan á Alþingi um þriðja orkupakkann fer fram 2. september n.k. [2019]. Þá kemur í ljós, hvaða þingmenn standa með þjóðinni."
Hvort sem landsmenn kjósa að eiga viðskipti við útlönd um sæstreng eða ekki, er óhagstætt fyrir þá að þurfa að beygja sig undir Evrópuréttinn á sviði orkumála. Aðstæður eru hér of ólíkar þeim, sem á meginlandinu eða Bretlandi eru við lýði, til að hagfellt sé að lúta "erkibiskups boðskap" á þessu sviði. Nær væri að fylgja fordæmi höfðingja Oddaverja og fóstra Snorra Sturlusonar á 12. öld, Jóns Loftssonar:
"Heyra má ég erkibiskups boðskap, en ráðinn er ég í að hafa hann að engu."
16.9.2019 | 14:09
Það fer að krauma undir
Jón Gunnarsson, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi (Kraganum), ritaði grein í Morgunblaðið 6. september 2019 og sýndi þar rétt einu sinni, hversu árvökull, athugull og ákveðinn þingmaður hann er, enda er hann nú orðinn ritari flokksins. Hann gerði þar m.a. að umræðuefni aðfarir umhverfisráðherrans við friðlýsingu á öllu vatnasviði Jökulsár á Fjöllum, en þar virðist sá fara offari miðað við lagaheimildir sínar. Ef þingið ekki ómerkir þessa gjörð hans, er hætt við málssóknum á hendur ríkinu og jafnvel skaðabótakröfum. Þarna er flaustur á ferð í stað lýðræðislegra viðræðna við viðkomandi sveitarfélög, hagsmunaaðila og umræðna á Alþingi. Málið hlýtur að hafa verið reifað í ríkisstjórn fyrst, og má furðu gegna, að enginn ráðherra virðist hafa gert athugasemd eða hreyft mótmælum.
Jón segir óstjórn vera á orkumálum landsins og skal taka undir það. Þar hlýtur ANR (auðlinda-, nýsköpunar og ferðamálaráðuneytið), sem hýsir orkumálin, að eiga höfuðsök. Ráðherra þar er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og var tímabært, að þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyndi að ráðsmennsku hennar, sem mest einkennist af þekkingarleysi (OP#3) og athafnaleysi (aflskortur yfirvofandi í vetur samkvæmt Landsneti).
Jón Gunnarsson hóf grein sína:
"Lífið eftir orkupakkann",
þannig:
"Þá er búið að afgreiða orkupakkamálið í bili. Það hefur verið okkur góð lexía um mikilvægi þess, hvernig staðið verður að sambærilegum málum tengdum EES-samningnum í framtíðinni. Ég var einn af efasemdarmönnum í Sjálfstæðisflokknum, en eftir þá vinnu, sem fram fór, voru þær áhyggjur ekki lengur til staðar. Að þessu máli loknu tel ég, að mikilvægasta umræðan sé eftir; það, hvernig við ætlum að tryggja heimilum og fyrirtækjum þessa lands næga raforku á lægsta verði, sem þekkist í þeim löndum, sem við berum okkur saman við."
Textinn þarfnast útleggingar: Orkupakkamálið mun reka á fjörur okkar aftur. Umræðan sýndi, að undirbúningi ráðuneytanna var mjög ábótavant, og það verður að kryfja málin betur næst m.t.t. íslenzkra hagsmuna. Ég óttaðist í upphafi, að hagsmunir Íslands væru fyrir borð bornir, en eftir sameiginlega yfirlýsingu Miguels Canetes og Guðlaugs Þórs og setningu fyrirvara í þingsályktanir og lög tel ég hagsmunum okkar borgið. Nú er málið að hindra afl-og orkuskort og að tryggja áframhaldandi samkeppnisforskot íslenzkra fyrirtækja í krafti lágs raforkuverðs.
Blekbóndi deilir ekki áhyggjuleysi Jóns út af skaðleysi OP#3, en "den tid, den sorg". Framtíðin mun leiða það í ljós. Það er alveg rétt hjá Jóni, að það er verk að vinna á orkumálasviði við að tryggja hagsmuni almennings, heimila og fyrirtækja, því að flotið hefur verið sofandi að feigðarósi, á meðan raforkuverð til heimila hefur hækkað að raunverði um 7 % - 8 %, síðan OP#1 var innleiddur hérlendis. Ef almenningur hefði ekki verið snuðaður um beinan ávöxt eigna sinna sinna í orkugeiranum, hefði raunverðlækkun átt sér stað á þessu 15 ára tímabili. Um allt þetta má lesa í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019.
Framtíðarvandinn er sá, að OP#3 felur í sér hættu á enn meiri raunverðhækkunum á næstu 15 árum, og Jón, Alþingismaður og ritari, mun hafa svipt sig völdum til áhrifa á þessu sviði með því að lúta flokksaga 02.09.2019 á Alþingi.
"Það er kynleg staða og óásættanleg, sem orkumálaráðherra okkar er komin í, þegar hún þarf að ræða útfærslur á skerðingu á afhendingu raforku á næstu árum. Í mínum huga er einfalda svarið við þeirri spurningu, að á vakt Sjálfstæðisflokksins kemur ekki til skerðinga í raforkukerfi okkar. Við munum sjá til þess, að heimili og fyrirtæki í þessu orkuríka landi hafi næga ódýra raforku og að sköpuð verði tækifæri til að byggja upp nýjungar í verðmæta- og atvinnusköpun um allt land."
Þetta er gott og blessað, en staðan er einfaldlega sú núna, að verið er að brenna olíu til raforkuvinnslu vegna staðbundins raforkuskorts, og í vetur býst Landsvirkjun við aflskorti á landsvísu, en veit ekki, hvar hann muni koma niður. Allt gerist þetta á vakt orkuráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem virðist samt hvorki hræra legg né lið.
Þegar Jóhann Már Maríusson var aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar minnist blekbóndi þess, að hann kallaði fulltrúa helztu viðskiptavina fyrirtækisins á sinn fund til að kynna þeim þá stefnu Landsvirkjunar að eiga að lágmarki 250 GWh varaforða í kerfinu. Þessu var mjög vel tekið af viðskiptavinum. Nú þyfti varaforðinn að vera meiri, en þessi stefna Landsvirkjunar hefur hins vegar verið lögð fyrir róða, illu heilli. Hvers vegna koma ekki fyrirmæli frá fulltrúa eiganda Landsvirkjunar, ríkisstjórninni, um, að Landsvirkjun skuli tafarlaust koma sér upp tilteknum varaforða ?
Á sama tíma og forsætisráðherra segir loftslagsmálin hafa algeran forgang í landinu, er minna framboð en spurn eftir endurnýjanlegri orku. Setja verður enn meiri kraft í að afnema alla flöskuhálsa í kerfinu.
"Baráttan um Hvalárvirkjun er kannski skýrasta dæmið, sem við okkur blasir í dag. Í umræðum á Alþingi á sínum tíma bentu þeir, sem skemmst vilja fara mér og öðrum á þennan virkjanakost, sem Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, setti í nýtingarflokk. "Nýtið þennan virkjunarkost áður en þið biðjið um aðra möguleika", var haft á orði. Nú, þegar sá kostur hefur farið allt torsótta ferlið, fer þetta sama fólk í baklás og vill koma í veg fyrir framkvæmdir."
Þetta er réttmæt ábending. Ferlið að framkvæmdaleyfi fyrir virkjanir og flutningsmannvirki er allt of torsótt og seinlegt. Tímafrestir fyrir kærur og úrlausn þeirra eru of rúmir. Núverandi þunglamalega kerfi gerir undirbúning og framkvæmdir óþarflega dýrar, sem auðvitað kemur niður á neytendum. Flokkunin í nýtingu, bið og vernd er of losaraleg. Taka þarf með í reikninginn þjóðfélagslegar og efnahagslegar afleiðingar af að leyfa ekki virkjun. Áður en virkjanakostur er settur í vernd þarf að tiltaka virkjanaútfærsluna, sem miðað er við, svo að hægt sé að endurskoða flokkunina með minna umhverfisraski.
"Umhverfisráðherra hefur ekki getað lagt fram nýja rammaáætlun vegna þess, að hann á rætur sínar í þeim hópi fólks, sem telur, að ekki eigi að virkja meira á Íslandi. Þess sé ekki þörf. Lög um rammaáætlun gera ekki ráð fyrir stöðnun, og auðvitað er það svo, að umræða um þriðja orkupakkann eða önnur umræða um orkuauðlindina væri óþörf, ef slíkri stefnu væri framfylgt. Ég fullyrði, að það var ekki skilningur þingmanna, þegar málið var á sínum tíma afgreitt í víðtækri sátt á Alþingi.
Umhverfisráðherra er upptekinn af því þessa dagana að efna til friðlýsingar á grundvelli þessara laga. Aðferðafræði hans stenzt að mínu mati enga skoðun, og hafa margir hagsmunaaðilar fullyrt, að ekki sé farið að lögum í þeirri útfærslu, sem hann boðar. Ég er sammála því, að verklag hans samræmist ekki lögunum. Í því sambandi má nefna, að dettur einhverjum í hug, að Alþingi hafi framselt slíkt vald til eins manns, að hann geti að eigin geðþótta ákveðið friðlýsingarmörk. Það er annarra að gera það og Alþingis að afgreiða samhliða rammaáætlun hverju sinni."
Það var misráðið að láta umhverfisráðherra eiga frumkvæði að vinnu við Rammaáætlun um vernd og nýtingu virkjanakosta. Eðlilegra er að fela ráðherra orku, iðnaðar, ferðamála og nýsköpunar þetta hlutverk, og viðkomandi þingnefndir ættu auðvitað að geta tekið frumkvæði líka. Þingviljinn á að ráða þessu, og núverandi umhverfisráðherra er ekki þingmaður, sem gerir málið enn ólýðræðislegra. Það er nauðsynlegt að ógilda umræddar gerræðislegar friðlýsingar hans á Jökulsá á Fjöllum; annars er afar líklegt, að málarekstur hefjist gegn ríkinu, og þeim málum mun ríkið líklega tapa, eins og allt er í pottinn búið. Orkumálastjóri tók undir með Jóni Gunnarssyni um þessar friðlýsingar umhverfisráðherra í fjölmiðlaviðtali 7. september 2019, og fjármála- og efnahagsráðherra gerði það efnislega daginn áður.
Formaður þingflokks sjálfstæðismanna hefur að vísu séð ástæðu til að taka fram, að Jón tali ekki fyrir hönd þingflokksins, en vegna þess, að forsætisráðherra ber ábyrgð á þessum umhverfisráðherra og styður hann í vafasömum gjörningum hans, er ljóst, að um alvarlegt mál er að ræða fyrir ríkisstjórnina. Jón Gunnarsson er áreiðanlega ekki einn á báti á meðal stjórnarliða.
13.9.2019 | 13:50
Skrýtin afstaða þingmanna til orkumálanna
Í Morgunblaðinu 2. september 2019 gat að líta skoðun nokkurra þingmanna á umræðunum um Orkupakka #3 (OP#3) undanfarið. Sínum augum lítur hver á silfrið, og ástæða er til að staldra við eitt dæmi:
"Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, segir ekkert hafa komið fram undanfarið, sem gefi tilefni til annars en málið verði samþykkt, eins og stefnt hafi verið að. Birgir telur, að umræða um stefnumótun í orkumálum haldi áfram í framhaldinu. "Mörg af þeim atriðum, sem andstæðingar orkupakkans hafa haldið á lofti, tengjast annarri stefnumótun en þeirri, sem felst í þriðja orkupakkanum sjálfum", segir hann og nefnir, að þar sé t.d. ekki fjallað um eignarhald á orkuauðlindum og -fyrirtækjum og ekki um lagningu sæstrengs."
Með samþykkt Alþingis á OP#3 er Ísland gengið í Orkusamband Evrópu (Energy Union of Europe), sem stjórnað er af framkvæmdastjórn ESB. Þar með hefur Alþingi gert orkustefnu ESB að orkustefnu Íslands varðandi rafmagn (ekki jarðgas). Þeir þingmenn (stjórnarliðsins) eru að vísu til, sem halda því fram, að Orkusamband Evrópu sé ekki til, en þeir ættu að kynna sér málin betur áður en þeir túðra út í loftið:
Í orkustefnu ESB er kveðið á um, að öll aðildarlöndin skuli tengjast Innri orkumarkaðinum. Á honum fara viðskipti fram í orkukauphöllum, og þess vegna þarf Ísland að taka upp markaðsstýringu raforkuvinnslunnar með kostum hennar og göllum. Það verður að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn að t.d. Nord Pool, áður en hann tengist Innri markaði ESB fyrir raforku. Þannig er ekkert val um það, hvort markaðurinn eða t.d. hagsmunir notenda m.t.t. orkuöryggis eiga að ráða ferðinni. Það er þó fullveldisréttur Íslands að ráða þessu, en hann er brotinn með OP#3. Ekkert hefur sézt frá lagaspekingum um þessa hlið fullveldisframsals til ESB með innleiðingu OP#3. Þetta skapar lagalega óvissu (hættu á málshöfðunum) við þá framkvæmd.
Til þess að tryggja "frelsin fjögur" í framkvæmd á þessum markaði vill ESB ganga úr skugga um, að ríkisvaldið hygli ekki fyrirtækjum sínum á þessum markaði. Í því skyni er í raun reynt að ýta ríkisfyrirtækjum út af þessum markaði og reynt að fá einkafyrirtæki inn á hann í staðinn. Þar með eru líkur á, að fjárfestingarvilji í þessum geira aukist, sem er talið einkar mikilvægt varðandi vatnsorkulindina, því að vatnsorkuver geta "spilað" mjög vel með vindorkuverum, sem eru uppistaðan í orkuverum Evrópu án koltvíildislosunar. Til þess þarf hins vegar að auka mjög uppsett afl vél- og rafbúnaðar í vatnsorkuverunum, sem útheimtir mikið fé.
Við þessar aðfarir beita Framkvæmdastjórnin og ESA þremur gögnum fyrir sig gagnvart Noregi, þ.e. þjónustutilskipun 2006/123/EB, tilskipun um opinber innkaup nr 2014/23/EB og ákvæðum um athafnafrelsi í sáttmálanum um virkni ESB, TFEU, gr. 49 og 56. Þessum gögnum er hægt að beita gegn EFTA-löndunum á grundvelli EES-samningsins, en OP#3 kemur þar ekki sérstaklega við sögu. Gagnvart Íslandi var hins vegar beitt EES-samninginum, gr. 61(1) um bann við ríkisaðstoð við fyrirtæki á samkeppnismarkaði og tilskipun 2000/60/EB, sem er hluti af EES-samninginum og var innleidd hér með vatnsnýtingarlögum nr 36/2011. Verður nánari grein gerð fyrir úrskurði ESA nr 075/16/COL um brot á ákvæðinu um bann við ríkisaðstoð við úthlutun orkunýtingarréttinda í vefpistli síðar. Þar kemur fram grundvallarmunur á afstöðu íslenzkra og norskra stjórnvalda til þessara mála.
Því er haldið fram, að þessi barátta Framkvæmdastjórnarinnar og ESA jafngildi ekki kröfu um einkavæðingu vatnsorkuvirkjana. Það er hálmstrá þeirra, sem ríghalda vilja í EES-samninginn, hvað sem tautar og raular. Í reynd fara þessar stofnanir þó fram á útboð á orkunýtingarleyfum vatnsréttinda ríkisins til um 30 ára í senn innan ESA, svo að allir sitji við sama borð og markaðsverð fyrir réttindin séu tryggð.
Allir sjá, að íslenzk fyrirtæki standa höllum fæti á þeim markaði, einnig hin öfluga Landsvirkjun, gagnvart erlendum risum í orkuvinnslugeiranum. Afleiðingin verður, að nýtingarrétturinn til 30 ára og þar með viðkomandi virkjun lendir hjá fjársterkum erlendum einkafyrirtækjum. Slíkt er óviðunandi fyrir Íslendinga, og þessar aðfarir stríða sennilega gegn Stjórnarskrá, því að þær eru þvingaðar fram af erlendu valdi. Þessi erlendu fyrirtæki gætu sótzt eftir að margfalda uppsett afl viðkomandi virkjana, þegar búið væri að tryggja tengingu Íslands við Innri markaðinn. Auðvitað þyrftu þau leyfi Orkustofnunar og fleiri stofnana til þess, en eftir samþykkt OP#3, svo að ekki sé minnzt á "Hreinorkupakkann"-HP (OP#4), munu íslenzk yfirvöld lenda í miklu stímabraki við ESA og jafnvel fjárfestana, sem kann að enda fyrir EFTA-dómstólinum, ef þau ætla að standa í vegi fyrir leyfisveitingum til fjárfestinga í endurnýjanlegum orkulindum.
Það er einkennilegt af Birgi Ármannssyni að segja, að OP#3 fjalli ekki um sæstreng, þótt "submarine cable" komi kannski ekki upp í leitarvélinni hans. OP#3 fjallar að mestu leyti um regluverk fyrir uppbyggingu og rekstur innviða til samtengingar landa við Innri markaðinn. Það eru svo miklar yfirþjóðlegar heimildir í OP#3 til að greiða götu fjárfesta í millilandatengingum, að ólíklegt má telja, að íslenzka ríkið geti staðið í vegi slíks, ef verulegur áhugi er fyrir slíku innan ESB, eins og greinilega kom fram hjá fjölda íslenzkra lögfræðinga í umræðunni í aðdraganda innleiðingar á OP#3.
Hér mun ákæra Framkvæmdastjórnarinnar á hendur belgísku ríkisstjórninni 25.07.2019 fyrir að taka til sín endanlegt ákvörðunarvald um m.a. tengingu belgíska flutningskerfisins við útlönd verða prófmál fyrir Ísland.
Ráðuneytin UTR og ANR halda því samt fram, að engin líkindi séu með belgísku og íslenzku innleiðingunni. Að forminu til er það rétt, en að inntakinu til eiga þessar innleiðingar aðalatriðið sameiginlegt, þ.e. að draga úr völdum Landsreglara í blóra við það, sem fyrirskrifað er í OP#3. ESB-dómstóllinn setur EFTA-dómstólinum fordæmi. Þess vegna veltur á mjög miklu fyrir Ísland, hvernig dómur ESB-dómstólsins fellur. Lítilla tíðinda er að vænta af þessum vettvangi fyrr en eftir þann dóm, e.t.v. 2020.
Því miður virðast þingmenn reiða sig á matreiðslu ráðuneytanna á öllum hliðum þessa orkupakkamáls. Glöggskyggni ráðuneytisfólks hefur þó reynzt alvarlega ábótavant varðandi Evrópuréttinn, eins og "kjötmálið" sýnir, þar sem Alþingi samþykkti regluverk ESB á landbúnaðarsviði með fyrirvara, sem reyndist "húmbúkk", einskis virði, og varð landsmönnum rándýr.