Færsluflokkur: Fjármál

Afnám hafta

Viðreisnarstjórnin, 1959-1971, var ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins.  Með ráðherrum flokksins voru ráðherrar úr Alþýðuflokki í ríkisstjórninni.  Hún tók við af minnihlutastjórn Alþýðuflokksins, en þar áður hafði setið vinstri stjórn, 1956-1958, undir forsæti framsóknarmannsins Hermanns Jónassonar.  Undir handarjaðri Viðreisnarstjórnarinnar bötnuðu kjör landsmanna mikið, enda hafði hún einstaklingsfrelsi til athafna, virkjun orkulinda í stórum stíl og viðskiptafrelsi, á stefnuskrá sinni. 

Árangur Viðreisnarstjórnarinnar mældur í kjörum almennings er lofsöngur til athafnafrelsis.  Henni entust þó ekki lífdagar til að afnema fjármagnshöftin.  Þau voru afnumin í áföngum á 9. og 10. áratugi 20. aldarinnar eða um tveimur áratugum eftir að Viðreisnarstjórnin sat að völdum.  Þann 10. júlí 2014 voru 44 ár liðin frá hinum voveiflega atburði á Þingvöllum, er forsætisráðherra Viðreisnarstjórnarinnar, Bjarni Benediktsson, brann inni ásamt konu sinni og dóttursyni.  Þetta er einn af þeim atburðum, þar sem staður og stund, er fréttin barst, greyptist í minni.   

Landsmenn hafa nú búið við fjármagnshöft síðan haustið 2008 eða í tæp 6 ár.  Frá því að ríkisstjórnarskipti urðu vorið 2013, hefur hagkerfið hins vegar tekið vel við sér, hagvöxtur er líklega sá mesti í Evrópu þessi misserin, og honum er spáð á rólinu 3 %- 6 % næstu árin.  Þar með eru landsmenn að sækja til bættra lífskjara eftir afturför 2008-2010 og stöðnun tímabilið 2011-2012.  Það er alls ekki sama fyrir hag hins vinnandi manns, hverjir eru við völd í landinu.  Það má nú hver finna á eigin skinni. 

Það fylgir hins vegar böggull skammrifi.  Um þetta skrifar Þorsteinn Víglundsson í Fréttablaðið 8. júlí 2014 undir fyrirsögninni: "Fjármagnshöftin - vernd eða vá":

Fjármagnshöftin eru stærsta ógnin við efnahagslegan stöðugleika hér á landi.  Afnám þeirra er því nauðsynleg forsenda heilbrigðs og stöðugs efnahagslífs og batnandi lífskjara hér á landi.".

Þrýstingshvetjandi og bólumyndandi er allt of mikið peningamagn í umferð.  Það hefur aukizt frá árinu 1998 úr 40 % af VLF (vergri landsframleiðslu) í um 90 % nú eða meira en tvöfaldazt sem hlutfall af stærð hagkerfisins.  Það eru hundruðir milljarða ISK, sem skortir verkefni í lokuðu hagkerfi, og með minnkandi fjármagnsþörf hins opinbera með bættri eignastöðu (minni skuldum) munu þessir peningar sprengja upp eignamarkaðinn og verðlagið í landinu.  Það hefur verið spáð öðru hruni árið 2016, ef fjármagnshöftunum verður ekki aflétt.   

Lífeyrissjóðirnir eru stærstu leikendur á þessu sviði, og þurfa þeir að fjárfesta fyrir 130 milljarða ISK kr á ári.  Það er mikilvægt fyrir framtíðar lífeyri landsmanna, að þetta fé fái verðug verkefni og að fjárfestingar þeirra skili a.m.k. 3,5 % árlegri ávöxtun að jafnaði yfir hvern áratug.  Að öðrum kosti kann að þurfa að hækka aldur lífeyrisréttinda og/eða lækka lífeyrinn.  Höftin snerta hag allra, þó að með misgreinilegum hætti sé.   

Vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms, sem í orði kveðnu vildi uppfylla ákvæði Maastricht-sáttmála ESB-ríkjanna, er snýst um peningamál, gerði ekkert til að losa um fjármagnshöftin, en festi þau fremur í sessi, enda veita þau forsjárhyggjusinnuðum stjórnmálamönnum völd til að deila og drottna.  Við sitjum enn uppi með dýrkeypt dekur vinstri stjórnarinnar við kröfuhafa gömlu bankanna og afhendingu á nýju bönkunum til þeirra ásamt mikilli peningalegri eign, sem talin er munu streyma úr landi sem gjaldeyrir, ef höftin verða afnumin núna.  Stýrinefnd ríkisstjórnarinnar um afnám hafta mun áhættugreina þetta allt saman.  Það er mikilvægt að gæta jafnræðis við afnám hafta í áföngum, og þess vegna er ófýsilegt að opna einvörðungu fyrir fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis.  Afnám hafta þarf að verða fyrir tilstilli almennra aðgerða.  Nóg er að gert með sértækum aðgerðum misheppnaðs Seðlabankastjóra, sem óneitanlega skekkja samkeppnistöðuna í landinu.  

Það þarf að fjármagna "skuldaleiðréttingu" ríkisstjórnarinnar með skattlagningu á þrotabúin, og slíkt mun flýta fyrir uppgjöri þrotabúanna, sem löngu er tímabært.  Þessi þrotabú á ekki síður að taka til gjaldþrotaskipta en önnur.   

Til að draga úr þrýstingi á gengi krónunnar niður á við við afnám haftanna væri ráð fyrst að efna til lokaðs hlutafjárútboðs á bönkunum og á Landsvirkjun, sem væri skilyrt þannig, að kaupin yrðu að minnka peningamagn í umferð á Íslandi og hlutafjárbinding yrði í t.d. 5 ár.  Á því tímabili mættu hinir nýju hluthafar aðeins selja t.d. 1/5 af hlutafé sínu á hverju ári og ríkissjóður ætti forkaupsrétt á þessum hlutabréfum.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (AGS) er varðhundur fjármagnseigenda, og í því ljósi verður að skoða ráðleggingar hans um drátt á afnámi hafta til 2016-2018.  Slíkur dráttur er allt  of dýrkeyptur og algerlega óþarfur.  AGS lætur alltaf eins og allt fjármagn í erlendri eigu hér innanlands muni streyma úr landi við afnám hafta.  Það eru litlar líkur á slíku, ef ríkisstjórnin og Seðlabankinn undir almennilegri stjórn, búa hér til hagfellt fjárfestingarumhverfi, þau hafa í hendi sér að gera.  Á næstu 12 mánuðum á ríkisstjórnin að taka nokkur markviss skref til að draga úr líkum á miklu gengisfalli og síðan að stinga sér til sunds.  Hagkerfið verður eins og sundmaður.  Það mun fljótlega koma upp aftur og taka traust sundtök.  Vilji er allt, sem þarf.

Um vandann af miklu peningamagni í umferð skrifaði Þorsteinn Víglundsson í téðri grein:

"Peningamagn í umferð og eignir lífeyrissjóða hafa nær aldrei verið meiri sem hlutfall af landsframleiðslu.  Þetta fjármagn er læst inni í fjármagnshöftum og getur einvörðungu leitað í innlenda fjárfestingarkosti.  Nægum fjárfestingarkostum innanlands er ekki til að dreifa fyrir allt þetta fjármagn, og það mun þrýsta eignaverði upp á komandi misserum."

Niðurstaða Þorsteins Víglundssonar er, "að lykilforsenda þess, að hægt verði að koma í veg fyrir ofhitnun hagkerfisins, er hratt afnám fjármagnshafta.  Efnahagsleg áhætta afnáms hafta er mun minni en hættan, sem fylgir enn einni rússibanareið íslensks efnahagslífs með kunnuglegri kollsteypu í lok ferðar".  

Þessi niðurstaða Þorsteins er að öllum líkindum rétt, og má í því sambandi minnast á snöggt afnám fjármagnshafta dr Ludwigs Erhards, efnahagsmálaráðherra Vestur-Þýzkalands, sem heppnaðist mun betur en aðstoðarmenn Erhards og vestrænu hernámsveldin bjuggust við.  Búrókratar hafa tilhneigingu til að vilja viðhalda höftum.  Þess vegna þurfa stjórnmálamenn hugrekki til slíkra ákvarðana, og núverandi fjármála- og efnahagsráðherra Íslands hefur það, sem til þarf.  

Karlinn í brúnni í Bonn hafði hins vegar skapað forsendur fyrir "Marktwirtschaft" eða markaðshagkerfi í kjölfar stríðshagkerfis Þriðja ríkisins.  Markið (DEM) stóðst álagið, af því að almenningur trúði á framtíðarstyrk þess.  

Að sama skapi þarf að sýna fram á það, að íslenzka hagkerfið sé svo öflugt, að það geti aflað töluvert (t.d. 10 % á næstu árum) meiri gjaldeyris en neyzlunni nemur.  Þá fyrst skapast grundvöllur trausts á styrk íslenzku krónunnar, en það þarf fleira jákvætt til að skapa stöðugleika.  Háir vextir eiga að slá á þenslu, en þeir draga að spákaupmenn og valda gengisskráningu, sem er útflutningsatvinnuvegunum erfið.  Það verður fróðlegt að hlýða á boðskap nýs Seðlabankastjóra um skilyrði afnáms fjármagnshafta, stöðugleika gengisins og hagvaxtar.  Eitt atriði verður þó að vera fyrir hendi, hvernig sem allt veltist, til að hagstjórn fái góða einkunn: agi.  

 

  

 

 

 

  

 


"Bréf til Ögmundar og Brynjars"

Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, í vinstri stjórninni 2009-2013, hefur borizt bréf.  Það fékk hann sem formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.  Sama bréf var stílað á Brynjar Níelsson, lögfræðing og þingmann sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem situr í sömu nefnd og er formaður undirnefndar téðrar þingnefndar. 

Höfundur bréfsins er hinn vígreifi Víglundur Þorsteinsson, sem einnig er lögfræðingur, og þekktur úr athafnalífinu.  Bréfið var birt í Morgunblaðinu 2. júlí 2014, og er fyrirsögn þessa pistils fengin að láni frá Morgunblaðsgreininni. 

Það er reyfarakenndur bragur á bréfinu og ljóst, að  söguleg uppljóstrun um myrkraverk ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er í farvatninu, enda nefnir Víglundur "nýjan lítinn símamann" til sögunnar. 

Formlega fjallar bréfið um "stofnúrskurð FME (Fjármálaeftirlitsins, innsk. höf.) um stofnefnahag nýju ríkisbankanna frá október 2008", en efnislega er um stórpólitískt mál að ræða, þar sem flett er ofan af vinnubrögðum ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem taka út yfir allan þjófabálk og hljóta að sæta sakamálarannsókn.  Landsdómur hefur verið kvaddur saman að minna tilefni, og var það einmitt gert að frumkvæði aðalsögupersónu þessa furðulega sorgarleiks.   Það er einboðið, að Alþingi fái öll gögn tengd þessu máli til umfjöllunar.  Það er t.d. nauðsynlegt að upplýsa, hvers vegna þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sá sér þann kost vænstan að stofna til "stýrinefndar", hverrar hlutverk virðist aðallega hafa verið að finna leiðir til að ganga á svig við Neyðarlögin og til þess að ganga að ýmsum kröfum kröfuhafa bankanna.  Má ekki kalla slíka sök landráð, ef sönn reynist ?

Víglundur dregur eftirfarandi ályktun eftir að hafa kynnt sér gögnin:

"Þegar þessir úrskurðir eru virtir og horft til þeirrar vinnu, sem fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, setti af stað um samninga við erlendu kröfuhafana, svo og þeir samningar, sem hann gerði við þá í framhaldi af vinnu hinnar sérstöku stýrinefndar og það, sem í kjölfarið fylgdi í öllum þremur bönkunum - aðgerðirnar við að breyta niðurstöðum þessara stofnúrskurða til ábata fyrir erlendu kröfuhafana - fer ekki á milli mála, að upp vakna sterkar og rökstuddar grunsemdir um, að sú vinna hafi verið eitt stórfellt samræmt atferli fjársvika og misneytingar."

Á grundvelli gagna, sem Víglundi hafa borizt eftir duldum leiðum, getur hann ekki orða bundizt, heldur sendir tveimur Alþingismönnum áskorun um að setja af stað rannsókn á máli, þar sem að forgöngu fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, fyrrverandi formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Steingríms Jóhanns Sigfússonar, virðist hafa verið unnið gegn hagsmunum íslenzku þjóðarinnar á bak við tjöldin. 

Rannsaka þarf, hvað vakað hefur fyrir vinstri stjórninni með slíkri þjónkun við erlent bankaauðvald.  Það virðist fullt tilefni til sakamálarannsóknar, og þar sem spjótin í þessu tilviki beinast aðallega að aðalhvatamanni að kvaðningu Landsdóms til starfa á dögum vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, kemur til greina að láta kauða smakka á þeim meðulum, sem hann bruggaði öðrum sjálfur. 

Upplýsingar Víglundar um fjárflutning til kröfuhafanna að frumkvæði ráðherra í ríkisstjórninni 2009-2013 snúast ekki um neinar smáupphæðir:

"Umfang þessarar vinnu/svika/misneytingar er orðið slíkt, að hún hefur fært hinum erlendu kröfuhöfum allt að 400 milljarða kr í ábata umfram Neyðarlögin og úrskurði FME.  Sýnist mér í ljósi þessara nýju upplýsinga, að skoða verði allt þetta mál hjá Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni.  Ef skoðun leiðir til þeirrar niðurstöðu, að rétt sé að kæra allt þetta atferli, er eðlilegast í ljósi umfangs hinna meintu brota og þess, hversu margir þolendurnir eru, að nefndin hafi að því frumkvæði."

Ekki verður öðru trúað, en Brynjar og félagar hans í Sjálfstæðisflokki á Alþingi geri að því gangskör að afla téðra gagna og hafa að því nokkurt frumkvæði að leiða sannleikann í ljós.  Hvort Ögmundur verði gagnlegur við þá vinnu, skal láta ósagt að svo stöddu.  Nægir að vitna til orðtaksins: "lengi skal manninn reyna", en hann kann að eiga óhægt um vik innan VG, gangi hann nú veg sannleikans.  Hér skal gizka á, að þríeykið Jóhanna, Steingrímur og Össur hafi samið umburðarbréf til téðrar stýrinefndar um að þóknast kröfuhöfum í hvívetna í þeirri von, að slíkt mætti greiða fyrir umsókninni um aðild að Evrópusambandinu, og kæmi það upp úr dúrnum, er það enn ein staðfestingin á, hversu mikil óþurftarför sú vegferð öll hefur verið frá upphafi til enda. 

RÚV hefur ekki eytt miklu púðri á þetta mál, og er þó alls enginn sparðatíningur hér á ferð á borð við ýmislegt það, sem landsmönnum er endalaust velt upp úr á vettvangi þessa ríkisfjölmiðils.  Fréttastofa RÚV hefur hingað til reynt að þegja þetta eldfima mál í hel, og ber það rannsóknarblaðamennskunni á þeim bæ ófagurt vitni. 

Það minnir á annað mál, sem hlotið hefur miklu minni umfjöllun RÚV en efni standa til, en það er stóra launadeilumál Seðlabankastjóra.  Þar véluðu fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabankans og Seðlabankastjóri um það að láta bankann borga málskostnað bankans og bankastjórans, þó að í málatilbúnaði bankans fyrir Héraðsdómi og Hæstarétti hafi verið krafizt greiðslu málskostnaðar að hálfu sóknaraðilans. 

Bæði eru þau skötuhjúin talin vera verulega tengd Samfylkingunni, og bæði sýna þau af sér alvarlegt dómgreindarleysi í starfi og beinlínis brot í starfi, að því er virðist.  Bankaráð Seðlabankans er fjölskipað stjórnvald, þar sem formaðurinn má ekki hlaupa með reikninga bankastjórans til gjaldkera bankans og óska eftir greiðslu.  Þessi lögfræðingur og Samfylkingarkona traðkaði þarna heldur betur í salatbeðinu og braut reglur bankans.  Heilög elítan lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna.  

Hvers vegna hefur fréttastofa RÚV ekki gert sér neitt far um að rannsaka þetta mál, nú þegar sá, sem taldi sig hlunnfarinn, vill endilega fá að halda áfram, þó að við blasi eftir 5 ára feril, að nauðsynlegt er að skipta um æðsta stjórnanda Seðlabankans.  Núverandi Seðlabankastjóri er trausti rúinn á Íslandi, hvað sem þau segja í Basel. 

Kapítuli út af fyrir sig er svo "rannsókn" Ríkisendurskoðunar á ferlinu, sem leiddi til þess, að reikningurinn, sem Seðlabankastjóri fékk sendan með pósti heim til sín, var greiddur í algeru heimildarleysi af Seðlabankanum.  Innra eftirlit bankans setti kíkinn fyrir blinda augað og Ríkisendurskoðandi var vanhæfur í málinu vegna venzla við Innri endurskoðandann.  Eftirlitsiðnaðurinn sýnir hvað eftir annað tannleysi sitt og óhæfni.  "Something is rotten in the State of Danemark", var einu sinni skrifað, en hér eru rotnu eplin á hverju strái.   Mestu mistakasmiðir Íslands enn á 21. öldAlþingishúsið 04-10-2010

  

 

 

 

  

 


Að éta eða verða étinn

Markaðurinn er harður húsbóndi.  Barátta fyrirtækja fyrir viðhaldi á samkeppnihæfni sinni eða bættri samkeppnihæfni og aukinni markaðshlutdeild kemur oft niður á þeim, sem sízt skyldi, þ.e. starfsmönnum þessara fyrirtækja og fjölskyldum þeirra. 

Þegar viðfangsefnið er að auka framleiðni framleiðslu úr takmarkaðri auðlind, eins og á við um sjávarútvegsfyrirtækin, er oft ekki fær valkostur að auka framleiðni með því að auka framleiðsluna með sama mannafla og tækjabúnaði, eins og t.d. gert hefur verið í áliðnaðinum á Íslandi, heldur getur reynzt nauðsynlegt að fækka fólki, en það er líka fær leið að bæta nýtingu hráefnisins,t.d. með nýrri tækni, nýjum tækjabúnaði og markaðssetningu á vöru, sem áður var fleygt. 

Sjávarútvegurinn á Íslandi er bezt rekni sjávarútvegur, sem vitað er um, enda hefur hann farið allar þessar leiðir og er nú með hæstu framleiðni, sem þekkist, þó að alvarlegir váboðar séu framundan.  Landsmenn hafa undanfarið fylgzt með viðbrögðum fólks, sem boðizt hefur að fylgja fyrirtæki í annan landsfjórðung, þar sem forráðamenn fyrirtækisins hafa séð sig tilneydda til að þjappa starfseminni saman á einum stað að mestu. 

Í sumum löndum, t.d. í Bandaríkjunum, BNA, hefur alltaf verið mikill hreyfanleiki á starfsfólki, sem fylgt hefur sínu fyrirtæki á milli fylkja eða hefur hiklaust flutt um set, þegar vinnuframboð minnkaði, til fylkja, þar sem uppgangur var. 

Þannig var Innri markaður Evrópusambandsins, ESB, líka hugsaður, með frelsunum fjórum.  Eitt þeirra, frjáls för fólks á Innri markaðinum í atvinnuleit, átti að jafna kjörin, draga úr atvinnuleysi og minnka þenslu.  Það hefur þó innan EES orðið minni tilflutningur á fólki en búizt var við.  Það er aðallega innflutningur fólks frá löndum utan Innri markaðarins, sem veldur ólgu í ESB núna, eins og nýlegar kosningar til Evrópuþingsins, sem er stórt nafn um stóra umgjörð, en lítið innihald, eru til vitnis um.  Miklar áhyggjur eru greinilega á meðal almennings í ESB-löndunum og víðar í Evrópu út af innflytjendum, bæði þeim, sem eru af framandi menningarsvæðum, og hinum.  Allir eru þeir taldir þrýsta niður launum og auka byrðar opinberra velferðarsjóða með réttu eða röngu.  Auðvitað þarf hóf að vera á þessum fólksflutningum, því að annars fer samlögun að gestalandinu í handaskolum.

Uppbótaaðgerðir ríkisvaldsins til að skapa atvinnu í sjávarplássum, sem verða fyrir barðinu á óblíðum markaðskröftunum, eru varasamar og dýrar, því að þær eru allar í ætt við aflóga bæjarútgerðirnar og þess vegna ekki líklegar til eflingar sjávarútvegsins í alþjóðlegri samkeppni. 

Reyndar er sjávarútvegsráðherra handhafi eins stærsta kvótans eða 5,3 % veiðileyfanna. Þessi aflahlutdeild kemur auðvitað til frádráttar veiðileyfum hinna raunverulegu útgerða, sem að langmestu leyti hafa keypt sín veiðileyfi á frjálsum markaði.  Svo stór aflahlutdeild ríkisins orkar þess vegna mjög tvímælis og ætti að draga úr og helzt að afleggja, enda er hún fallin til að draga úr heildarhagkvæmni sjávarútvegs á Íslandi, eins og bent hefur verið á. 

Á hinn bóginn er mikil ásókn í strandveiðar, og þar hefur einkaframtakið blómstrað.  Það er þess vegna íhugunarvert, hvort eigi að leyfa "frjálsar" strandveiðar, e.t.v. takmarkaðar við dagafjölda og að sjálfsögðu við bátsstærð og veiðarfæri,  við landið, upp að ákveðnu sóknarmarki í hverri tegund á hverju svæði og að teknu tilliti til nauðsynlegra verndarráðstafana Hafrannsóknarstofnunar.  

Áhugaverðar hugleiðingar um stjórnun fiskveiða ritaði Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur, í Fiskifréttir, fimmtudaginn 15. maí 2014, undir fyrirsögninni, "Markaður eða ráðstjórn":

"Íslendingar verða að gera upp við sig, hvort þeir vilja reka sjávarútveg sinn á markaðslegum fosendum eða með ráðstjórn, þar sem stjórnmálamenn ákveða, hver veiðir hvað, hvernig og hvar.  Markaðurinn er ekki fullkominn, en hann er forsenda fyrir verðmætasköpun í sjávarútvegi til að standa undir lífskjörum þjóðarinnar.  Grundvöllur verðmætasköpunar er framleiðni, þar sem við hámörkum framleiðslu með lágmarks fyrirhöfn."

Síðan ber Gunnar saman framleiðni íslenzks og norsks sjávarútvegs, þar sem við höfum enn yfirhöndina, en Norðmenn sækja á, af því að þeir fjárfesta tiltölulega meira í sjávarútveginum en Íslendingar, eins og bezt kemur fram í meðalaldri skipastóla landanna.  

Hrottaleg inngrip ríkisvaldsins í fiskveiðistjórnunina ásamt ofurskattlagningu á greinina lamar fjárfestingarvilja og -getu, setur afkomu smáfyrirtækjanna í stórhættu og getur umturnað heilu þorpunum.  Á Íslandi þarf að viðurkenna atvinnufrelsi sjávarútvegsins innan þröngra marka veiðiheimilda og/eða sóknarmarks og rétt hans til jafnréttis á við aðrar atvinnugreinar gagnvart aðgerðum ríkisvaldsins að skattheimtu meðtalinni.   

Í framleiðnisamanburði á milli Íslands og Noregs kom fram hjá Gunnari, að heildarvirðisauki á hvern starfsmann er kUSD 170 (MISK 19) á ári í íslenzka sjávarútveginum eða 21 % hærri en í Noregi.  Fjármagn á hvern starfsmann er kUSD 300 (MISK 34) í hinum íslenzka, sem er 15 % hærra en í hinum norska.  Nýting sjávaraflans er jafnframt mun betri á Íslandi eða 57 %, en 41 % hjá Norðmönnum, og verðmæti veiðanna hér eru 380 kr/kg, en 280 kr/kg þar. 

Að loknum þessum áhugaverða samanburði, sem er lofsöngur um íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið, útgerðarmenn, sjómenn, fiskverkafólk, birgja og markaðsfólk íslenzka sjávarútvegsins, tekur Gunnar sér fyrir hendur að greina veiðigjöldin og afleiðingar þeirra:

"Með núverandi hugmyndum um veiðigjöld munu Íslendingar ekki halda þessari stöðu sinni.  Íslenzki flotinn, ef smábátaútgerðinni er haldið utan sviga, er sá elzti frá upphafi.  Aldur togara er kominn yfir 40 ár og flest stærri línuskip orðin gömul og úrelt.  Vinnsluskip flotans eru flest komin yfir tvítugt og orðin úrelt og úr sér gengin.  Ekki er möguleiki á að halda uppi framleiðni með úreltum skipum.  Lítið hefur verið fjárfest í botnfiskvinnslum á Íslandi, sem mun fyrr en síðar koma niður á samkeppnishæfni Íslendinga gagnvart keppinautum."

Þetta er alvarleg ógnun við stöðu íslenzka sjávarútvegsins og lífsafkomu landsmanna allra, og hið fyrsta verður að létta viðbótar kvöðum af útgerðinni, svo að hún dragist ekki aftur úr samkeppniaðilum í öðrum löndum, sem stöðugt sækja í sig veðrið, enda kveður Gunnar Þórðarson upp dauðadóm yfir þeirri stefnu, sem síðasta ríkisstjórn mótaði á grundvelli fjandskapar við athafnalífið og í algerri fávizku eða skeytingarleysi um lögmál efnahagslífsins og kostnaðarstig sjávarútvegs í nágrannalöndunum.   

Fyrrverandi ríkisstjórn hóf að saga í sundur greinina, sem við öll sitjum á, og núverandi ríkisstjórn hefur því miður enn sem komið er ekki unnizt ráðrúm til að hverfa af þessari óheillabraut og hefja sóknarskeið á öllum vígstöðvum hins íslenzka athafnalífs, enda þröngt um vik. 

Hún hefur samt uppi góða tilburði í þeim efnum, og fjármála- og efnahagsráðherra veit nákvæmlega, hvar skórinn kreppir og hvað þarf til að skapa hér réttu aðstæðurnar fyrir hagvöxt og raunverulegar kjarabætur.  Landsmenn virðast margir hverjir vera vel með á nótunum í þessum efnum, ef marka má úrslit sveitarstjórnarkosninganna 31. maí 2014, er þeir völdu sjálfstæðismenn í 45 % allra sæta í sveitarstjórnum 15 stærstu sveitarfélaga landsins, þó að aðrir séu staurblindir á samband efnahagsstefnu hins opinbera og eigin hags.  Eftirfarandi eru varnaðarorð Gunnars Þórðarsonar í þessum efnum:

"Óvissa í stjórnun fiskveiða og óhófleg veiðigjöld koma í veg fyrir fjárfestingu í sjávarútvegi, sem er forsenda þróunar.  Stjórnmálamenn vilja nota sjávarútveg til að leysa byggða "vanda" og fjárþörf ríkissjóðs, en það verður alltaf á kostnað verðmætasköpunar í greininni."

Í raun er engu við þetta að bæta, en þó skal undirstrika, að verðmætasköpun er lykilatriði fyrir vöxt hagkerfisins og tekjur einstaklinganna og hins opinbera.  Sjálfstæðisflokkurinn setur verðmætasköpun hvarvetna í þjóðfélaginu, á öllum vígstöðvum, á oddinn.  Það merkir, að hann vill virkja fyrirtæki og einstaklinga til verðmætasköpunar fyrir sig sjálf í þeirri vissu, að hámarks verðmætasköpun, að teknu tilliti til sjálfbærni, gagnast hinu opinbera og þjóðinni í heild bezt.

Þess vegna er það stefna flokksins, að aðgerðir hins opinbera hvetji til verðmætasköpunar fremur en að letja til hennar, eins og virtust vera ær og kýr fyrrverandi ríkisstjórnar, sem lengdi í kreppuskeiðinu eftir hrun fjármálakerfisins með forneskjulegri hugmyndafræði sinni um framlegð fyrirtækja og ráðstöfunartekjur einstaklinga.   

Þetta leiðir auðvitað hugann að gjaldeyrishöftunum, en lausn á þeim er nú komin í "nefnd".  Það er vissulega freistandi í þeim efnum að fara leið efnahagsráðherra Vestur-Þýzkalands nokkru eftir stofnun Sambandslýðveldisins, 1949, og stofnsetningu þýzka marksins, DEM, í stað ríkismarksins, Reichsmark, Þriðja ríkisins.  Þá voru illvígar gjaldeyrishömlur við lýði í Vestur-Þýzkalandi, en Dr Ludwig Erhard, efnahagsráðherra og höfundur "Sozial-Marktwirtschaft" eða markaðshagkerfi með félagslegu ívafi, afnam gjaldeyrishöftin á einni nóttu með einu pennastriki.  Með lagasetningu um trektaráhrif á snjóhengjuna er e.t.v. útlátaminnst til lengdar að fylgja fordæmi Dr Erhards ?

 

 

 

 

 

    

 

 


Kjarabaráttan

Tekjudreifingin í þjóðfélaginu verður vinstri sinnuðum stjórnmálamönnum oft að umræðuefni.  Þeim er tekjudreifingin mun hugstæðari en tekjuöflunin, sem hægri mönnum þykir sumum vera merki um músarholulega öfund.  Er þá jafnan viðkvæðið, að ójöfn tekjudreifing sé mikið þjóðfélagslegt böl, og fari vaxandi nú um stundir.  Eðlilegast hlýtur að vera að ákvarða kjör á markaði, og þá að sjálfsögðu án ofbeldis.  Verkfallsofbeldið virðist tíðast koma upp í greinum, þar sem samkeppni er lítil á eftirspurnarhlið eftir vinnukrafti, t.d. hjá hinu opinbera, og í flugstarfseminni, svo að eitthvað sé nefnt.  Er ekki að efa, að meiri vinnufriður yrði, ef hið opinbera byði starfsemina út í verktöku, en væri ekki sjálft að stússa í öllu á milli himins og jarðar.  Á íslenzka flugmarkaðinum voru í gamla daga Loftleiðir, sællar minningar, og Flugfélag Íslands, en eftir sameininguna urðu Flugleiðir og nú Icelandair ráðandi á markaðinum.  Um þetta félag má segja, að margur er knár, þótt hann sé smár, og er þá átt við samanburð við flugfélög, sem það á í höggi við.

Kjarabarátta er áberandi þessar vikurnar, einnig á meðal hinna betur settu, en gagnrýni vinstri manna á þá, sem eru hátt yfir meðallaunum og vilja samt meira en aðrir í prósentum talið, hefur þó ekki verið áberandi, þrátt fyrir allt jafnræðisjaplið. 

Há laun eru ekki gagnrýniverð í sjálfu sér, þó að slíkar raddir heyrist, enda séu þau heiðarlega um samin á frjálsum markaði annaðhvort í félagslegum samningum eða í einkasamningum.  Það fer hins vegar í verra, þegar stéttarfélög gera sér lítið fyrir og taka hópa í gíslingu með verkfallsaðgerðum til þess að knýja vinnuveitendur sína til að ganga að kröfum sínum.  Þá er ekki lengur um frjálsa samninga að ræða fremur en þar sem gíslar eru teknir og krafizt lausnargjalds.  Beiting verkfallsvopnsins er komin út í algjörar ógöngur.  Ef launþegar í þessari stöðu fá ekki laun við sitt hæfi, liggur beint við að segja upp störfum og skipta um vinnuveitanda.  Ef hann finnst bara á erlendri grundu, verður að sjálfsögðu að taka margt með í reikninginn.  Ekki er víst, þegar allt er með reiknað, að markaðurinn sé tilbúinn til að veita viðkomandi betri kjör, þegar allt kemur til alls, en gamli vinnuveitandinn. 

Fórnarlömbin eru t.d. nemendur, aldraðir, samfélag á borð við Vestmannaeyjar eða landið allt, þegar samgöngur að og frá landinu eru lamaðar.  Með þessum hætti hafa stéttir reynt að hrifsa til sín meira en markaðurinn er tilbúinn til að greiða.  Slíkar launahækkanir, sem þvingaðar eru fram með ofbeldi, eru aldrei farsælar og sjaldnast viðvarandi, nema raunveruleg framleiðniaukning eigi sér stað og sé jafnhá eða hærri en launahækkunin. 

Prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritaði athygliverða grein í Morgunblaðið, 2. maí 2014, undir heitinu "Er ójöfn tekjudreifing "stærsta mál samtímans" ?"

Þar deilir hann á öndvegissetrið Eddu, sem "rekið er í Háskóla Íslands og kostað af skattfé".  Þetta setur reynir að koma því inn hjá fólki, að ójöfn tekjudreifing sé "stærsta mál samtímans".  Hér skal aftur á móti halda því fram, að slíkt eigi ekki við, ef markaðurinn er frjáls og tekjudreifingingin er ákvörðuð í óþvinguðum samningum.  Þá munu launin til lengdar ráðast af framboði og eftirspurn.  Tilraunir einstakra stétta til að hrifsa meira til sín en markaðurinn vill samþykkja geta haft voveiflegar afleiðingar fyrir þá og vinnuveitandann til skemmri tíma og munu engu skila til lengri tíma. 

Hannes gerir nýlega bók franska hagfræðingsins Thomas Piketty, "Fjármagn á 21. öld", að umræðuefni.  Piketty þessi er mjög hallur undir forræðishyggju, og sem dæmi um það telur hann, að "kapítalisminn fari sér líklega að voða, sé þróunin í átt til ójafnari tekjudreifingar ekki stöðvuð."  Piketty hyggst koma auðvaldinu til bjargar með alþjóðlegum hátekju- og auðlegðarsköttum, og sé skattfénu síðan endurdreift til fátæks fólks.

Aðaláhyggjuefni Pikettys er, að arður fjármagnseigenda vaxi hraðar en atvinnulífið, því að þá stækki hlutur fjármagnseigenda í þjóðartekjum á kostnað venjulegra launþega. 

Það er rangt að stilla hagsmunum fjármagnseigenda upp  gegn hagsmunum launþega, því að hvorugur getur án hins verið.  Ef fjármagnseigendur fjárfesta ekki, verður stöðnun og afturför og enginn varanlegur hagvöxtur.  Launþegar leggja fram vinnuafl sitt og hugvit til að skapa auðinn.  Þetta er ein kærleikskeðja, þó að sumir kalli það fremur ástar-haturssamband.

Í upphafi 20. aldar var tekjudreifing á Vesturlöndum og raunar um allan heim mjög ójöfn.  Hlutur 1 % auðugasta fólksins í heildartekjum var um 1910 20 % - 25 % víða á Vesturlöndum, en 70 árum seinna var hann kominn niður í 5 % - 8 %, en er um þessar mundir 10 % - 15 %.  Þetta er ekkert sérstakt áhyggjuefni, því að fátækt í heiminum fer hratt minnkandi.

Piketty telur, að dagar hagvaxtarins í heiminum séu taldir.  Því hefur áður verið spáð, en þeir spádómar hafa hingað til orðið sér til skammar.  Margir vinstri menn á Íslandi og annars staðar eru reyndar á móti hagvexti og telja hann vera af hinu illa, af því að hann sé ekki sjálfbær.  Það er bábilja við íslenzkar aðstæður, þar sem megnið af orkunotkun, sem knýr hagkerfið, er að heita má úr endurnýjanlegum orkulindum og segja má, að nýting annarra auðlinda sé yfirleitt sjálfbær, s.s. sjávarauðlindarinnar.

Hagvöxtur er undirstaða verðmætaaukningar og kjarabóta.  Ef hagvöxtur stöðvast, eru kjörin dæmd til að versna, af því að fólkinu fjölgar.  Andstaða við hagvöxt varðar leiðina til ánauðar í fátæktarfjötrum.  Til að tryggja hagvöxt þarf bæði fjárfestingar og hæft vinnuafl.  Ef allt fjármagnið er á einni hendi, þ.e. ríkisins, er voðinn vís, eins og sagan sýnir, samkeppni verður hverfandi, og spilling grasserar, þegar slík einokun ríkir, og reyndar einokun af öllu tagi.

Stétt með stétt.

 

 

 

 

 

 

 

 

    

 


Spillt Evrópusamband

Það er ámáttleg helgislepjan, sem lekur af hérlendum mönnum, sem gengið hafa Evrópusambandinu (ESB) á hönd í andanum, um leið og trúarofsinn virðist vera að drepa þá.  Það mætti halda, að þar væri aldingarðurinn Eden án snáksins af málflutninginum að dæma.  Allt telja þeir vera þar með öðrum og betri brag en hér, en þar má þó svo sannarlega segja, að fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina mikla, þegar betur er að gáð.

Hvað er þá ESB ?   Í stuttu máli er ESB reist á draumsýn nokkurra manna, aðallega Frakka og Þjóðverja, um að treysta frið í Evrópu með því að tengja saman efnahagslega og fjármálalega hagsmuni þessara ríkja og annarra í Evrópu.  Allt er það gott og blessað. Landamærum Evrópu hafði verið breytt í Evrópu í kjölfar Seinni heimsstyrjaldarinnar, Þjóðverjum mjög í óhag, og Frakkar óttuðust hefndaraðgerðir Þjóðverja, þegar þeim yxi fiskur um hrygg, eins og gerðist á dögum Þriðja ríkisins, hvers stofnun og tilvist var bein afleiðing Versalasamninganna 1919, sem voru mjög auðmýjandi fyrir Þýzkaland.  

Síðan sáu menn tækifæri í hagræðingu með því að fella niður viðskiptahindranir innan ESB með stofnun Innri markaðarins.  Lokaskrefið hefur svo verið fólgið í "æ nánari samruna", sem leiði að lokum til stofnunar Sambandsríkis Evrópu.  Á þeirri vegferð eru þó margar vilpurnar, og almenningur fylgir ekki forkólfum að málum þar.

Viljum við Íslendingar hefja vegferð, sem leitt getur til aðildar Íslands að Sambandsríki Evrópu ?  Engin opinber umræða hefur farið fram á þeim nótum á Íslandi.  Í upphafi skyldi endinn skoða.  Á það hefur alltaf skort hjá aðildarsinnum.  Það er enginn hægðarleikur að sleppa úr klóm arnarins. Ef hjárænulegt tal um að "kíkja í pakkann" er tekið einu skrefi lengra, er það að "kíkja inn fyrir þröskuldinn" í Berlaymont og sjá svo til.  Ætli við mundum þá bráðlega heyra frá einhverri mannvitsbrekkunni hina viðteknu upphrópun eftir óvandaðan undirbúning: "þetta reddast" ? 

Það er hins vegar dauðans alvara að ganga í ríkjasamband, hvað þá sambandsríki, sem krefst vandaðrar greiningar á kostum, göllum og áhættum við inngöngu og umræðna á grundvelli greiningarinnar, sem lýkur með þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort sækja beri um.  Önnur nálgun þessa verkefnis er flaustur eitt, og þess vegna ber að skrúfa ferlið aftur á byrjunarreit.  Um það fjallar þingsályktunartillaga utanríkisráðherra.  Umsóknarferlið var og er bastarður, þar sem íslenzkir þátttakendur vor víðs fjarri því að hafa fast land undir fótum, af því að vandaðan og vel grundaðan undirbúning skorti algerlega.  Hámark ábyrgðarleysis og gösslaragangs er að hlaupa til, eins og kvíga að vori, og sækja um aðild að ríkjasambandi, nema einhvers konar neyðarástand ríki.  Neyðin var bara í hugum þeirra heittrúuðu.     

Það er engan veginn verið að loka neinum dyrum með samþykkt þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, eins og sumir virðast halda.  Aðeins verið að biðja um vandaðri vinnubrögð en þau, sem viðhöfð voru áður en núverandi umsókn var send.  "Það varðar mest til allra hluta, að undirstaðan sé réttlig fundin." 

Til að greiða fyrir þróun Innri markaðarins hefur þurft að samræma regluverk og staðla aðildarlandanna, svo að framleiðslukerfin verði einsleit.  Til þessa verks þarf aragrúa embættismanna og starfsfólks þeirra, búrókrata.  Vanrækt var hins vegar að tryggja lýðræðislega ábyrgð innan þessa bákns, þannig að báknið í Berlaymont hefur verið á allt öðru skriði en almenningur í Evrópu.  Myndazt hefur djúp gjá á milli "elítunnar" í Evrópu og annarra íbúa álfunnar, sem staðfest verður í kosningum til Evrópuþingsins nú í maí 2014.  Það er sama uppi á teninginum á Íslandi.  Hálaunamenn af ýmsu tagi og leiðtogar beggja vegna borðs á vinnumarkaðinum láta, eins og þeir vilji inn, en almenningur á Íslandi kærir sig ekki um það. 

Þessi meingallaða uppbygging ríkjasambandsins ber feigðina í sér og býður heim meiri spillingu en flest aðildarlöndin eiga að venjast í sínum heimaranni.  Sönnun þess er, að endurskoðendur ársreiknings ESB hafa ekki séð sér fært að staðfesta þá í um 15 ár vegna þess, að háar fjárhæðir hafa "týnzt".

Hér verða tínd til nokkur nýleg dæmi um spillinguna innan ESB, sem Karlamagnús skrifaði um í The Economist 26. apríl 2014:

Árið 1999 var framkvæmdastjórn undir forystu Santers neydd til afsagnar vegna fjársvika, misnotkunar á aðstöðu og frændhygli. 

Árið 2011 urðu nokkrir þingmenn á Evrópuþinginu uppvísir að því að þiggja fé fyrir tillögugerð um lagabreytingar frá blaðamönnum, sem þóttust vera hagsmunagæzluaðilar ("lobbyists"). 

Árið 2012 féll framkvæmdastjóri heilbrigðismála, John Dalli, frá Möltu, út af reglugerð um tóbaksmál, og er það mál enn sveipað þoku. 

Samt sagði einn hagsmunagæzluaðilinn í Brüssel af þessu tilefni: "Við höfum ekki Jack Abramoff", bandaríska áhrifavaldinn, sem var fangelsaður árið 2006 fyrir fjársvik, margvíslegt svindl og skattsvik í víðtæku hneykslismáli, þar sem við sögu komu bandarísk-indversk spilavíti. 

Alls staðar er spilling fyrir hendi, en hún er mjög misjöfn eftir löndum.  Þjóðverjar héldu t.d., að sér hefði tekizt að byggja upp heiðarlegt og gagnsætt samfélag með stofnun Sambandslýðveldisins 1949 eftir fall lögregluríkis þýzka nazistaflokksins í ógnarblóðbaði, þar sem Hitlersæskan hélt uppi vörnum í lokin vegna skorts á mannafla. Þjóðverjum var brugðið, þegar upplýst var, að ítalska mafían hefði búið um sig í landi þeirra.  Berjast þeir nú með oddi og egg gegn mafíunni, og þeim kann að takast að vinna á þessu aðskotadýri í þýzkri menningu, þó að Ítölum muni aldrei takast það, því að mafían er samgróin Suður-ítalskri menningu um aldaraðir.

Í Evrópu sér stofnunin OLAF um baráttu við fjársvik.  Hún rannsakar hundruði mála á ári hverju, en fæst ekki til að upplýsa, hversu mörg þeirra snerta ESB.  

Úrskurðarráð endurskoðenda (Auditors Court) í ESB hefur áhyggjur af hárri skekkju í bókhaldi ESB, sem nam 4,8 % af allri eyðslu ESB árið 2012.  Endurskoðendurnir taka þó greinilega fram, að þessi tala sé ekki mælikvarði á sóun og svindl, heldur á illa ráðstafað fé, e.t.v. af völdum mistaka eða óhæfni.  80 % fjárins er notað af ríkisstjórnum aðildarlandanna, og þess vegna er spillingin líklega á ábyrgð ríkisstjórnanna, sem leggst þá ofan á spillinguna, sem fyrir var. 

Framkvæmdastjórnin áætlar, að um 120 milljarðar evra (165 milljarðar USD) fari í súg spillingarinnar á hverju ári af fjárveitingum ESB.  Þetta er risaupphæð og svarar til þess, að um ISK 30 milljarðar hyrfu sporlaust út úr ríkisbókhaldinu íslenzka.  Reyndar mundi sú upphæð, sem íslenzka ríkið þyrfti að greiða í sameiginlega sjóði ESB slaga upp í þessa.  Eitthvað kemur til baka, og mundi örugglega hverfa sporlaust, eins og í öllum öðrum aðildarlöndum ESB, en það er ábyggilegt, að Ísland yrði nettó greiðandi inn í þessa gríðarlegu hít, sem fjárreiður Evrópusambandsins eru. 

Rósamál stækra aðildarsinna er að efla þurfi frekara samstarf Íslands við Evrópu.  Skoðun þeirra er, að þá muni stjórnarhættir á Íslandi gjörbreytast til batnaðar, og stöðugleiki hagkerfisins fást sem bónus vegna aðildar.  Þessi grundvöllur að afstöðu til örlagaríks máls er fullkomlega óboðlegur, barnalegur og órökstuddur með öllu.  Þvert á móti benda dæmin hér að ofan til, að spilling og hrossakaup kommissara og búrókrata í Brüssel muni hreinlega leggjast ofan á þá spillingu, sem fyrir er í landinu. 

Sumum aðildarsinnum verður tíðrætt um, að engin eiginleg sjálfstæðisbarátta við Dani hafi farið fram, heldur hafi "elíta" á Íslandi viljað fá meira athafnarými til að kúga almúgann.  Þeir gefa þannig í skyn, að ófrelsið hafi ekki borizt að utan, heldur að innan.

Það eru mikil endemi, vanþakklæti og vanþekking, þegar nútímamenn túlka baráttu 19. aldar manna á borð við Fjölnismenn, Jón Sigurðsson, forseta, Benedikt Sveinsson o.fl. með þeim hætti, að þeir hafi einvörðungu borið hagsmuni forréttindafólks fyrir brjósti, en ekki þjóðarinnar sem heildar.  Síðan bætir fólk með þessi viðrinislegu sjónarmið gráu ofan á svart með því að gera því skóna, að embættismenn í Berlaymont muni ná taki á meintri forréttindastétt á Íslandi, gangi Ísland í ESB, og leiðrétta misréttið.  Allt er þetta alger fásinna, því að hvergi er til þess vitað, að aðild hafi breytt innbyrðis valdahlutföllum í nokkru landi.

Hitt er annað mál, að ýmislegt jákvætt hefur borizt til Íslands í réttarfarslegum efnum, sem rekja má til Evrópuréttarins og samþykkta ESB, skárra væri það nú, og má þar t.d. nefna neytendaréttinn.  Ísland þarf hins vegar ekki að fórna fullveldi sínu til að þróa réttarfar sitt áfram.   

Það hefur ekki verið sýnt fram á með gildum rökum, hvernig ESB gæti aðstoðað við afnám gjaldeyrishaftanna.  Þó láta draumóramenn að því liggja, að staða Íslands sem umsóknarríkis létti eitthvað undir í þessum efnum.  Það hefur enginn sýnt fram á, að nokkuð sé hæft í því.  Þvert á móti er afnám haftanna eitt af skilyrðunum fyrir inngöngu í ESB, enda eru þau brot á reglu Innri markaðarins um frjálsa för fjármagns á milli landa.  Afturköllun umsóknarinnar mun ekkert kosta, hvernig sem aðildarsinnnar mála skrattann á vegginn. 

Þá víkur sögunni að evrunni.  Hún virðist enn hafa mikið aðdráttarafl í hugum sumra, en hefur hún reynzt þeim þjóðum vel, sem tekið hafa hana upp ?  Já og nei.  Hún hefur reynzt þeim vel, sem búið hafa við góðan aga á vinnumarkaðinum, þar sem samstaða hefur náðst um að halda launahækkunum í skefjum, þ.e. í prósentum talið innan framleiðniaukningar í hverri grein, til að þær kyndi ekki undir verðbólgu.  Þetta er kjarni málsins, og stöðugleiki hagkerfisins hefur reynzt á evrusvæðinu, eins og annars staðar, forsenda fyrir raunkjarabótum almennings.  Fullyrða má hins vegar, að evran hafi reynzt mun fleiri þjóðum, sem tekið hafa hana upp, böl en blessun.  Þetta verða einstakir kröfuhópar um viðbótar launahækkanir á Íslandi að hafa í huga.  Vinnustöðvanir þeirra eru blóðtaka fyrir þjóðfélag, sem stendur höllum fæti vegna slæmra viðskiptakjara.  Ábyrgðarhluti þeirra er mikill.  Heilbrigði hagkerfisins er í húfi. 

Gallinn við evrusvæðið er, að mjög misgóður agi ríkir í launamálum á svæðinu.  Suður-Evrópa hefur farið alveg hræðilega út úr verðlagshækkunum frá upptöku evru, sem eyðilagt hafa samkeppnihæfni landanna, svo að hagvöxtur hefur stöðvazt og atvinna hefur stórlega dregizt saman með fjöldaatvinnuleysi sem afleiðingu, þ.e. yfir 20 % í sumum löndum og yfir 50 % á meðal ungs fólks á vinnumarkaði undir þrítugu.  Það er ekki búið að bíta úr nálinni með þetta, og nú er hætta á, að löndin lendi í verðhjöðnun, sem er böl, sem erfitt er að losna við.

Frakkland er sérdæmi.  Það er stórt hagkerfi á evrópskan mælikvarða, sem látið hefur í minni pokann gagnvart Þýzkalandi, af því að Frakkar búa í mjög miðstýrðu samfélagi, og vinnumarkaðurinn er mjög stífur og þrúgaður af reglugerðafargani, sem hefur íþyngt fyrirtækjunum gríðarlega.  Frakkar hafa ekki borið gæfu til umbóta á þessu kerfi, eins og Þjóðverjar undir hinum skemmtanaglaða vini Putins, Gerhard Schröder, fyrrverandi kanzlara jafnaðarmanna, tóku sér þó fyrir hendur. 

Þegar jafnaðarmenn komu til valda í Frakklandi fyrir nokkrum árum með kosningasigri Hollandes, sem nú er óvinsælasti forseti í sögu Frakklands, hvað sem kvennamálum hans líður, þá keyrði allt um þverbak, því að hann hækkaði skattana, sem jók atvinnuleysi og verðbólgu og rýrði enn samkeppnistöðu Frakka.  Ný ríkisstjórn Frakka reynir nú að söðla um og taka upp efnahagsstefnu, sem sé hagvaxtarhvetjandi. 

Við þessar aðstæður hafa komið upp miklar efasemdarraddir í Frakklandi gagnvart ESB og um það, hvort evran henti Frakklandi, þegar allt kemur til alls.  Megn óánægja Frakka mun endurspeglast í miklu fylgi þjóðernissinna Marie le Pen í kosningum til Evrópuþingsins nú í maí 2014, en á stefnuskrá þeirra er að draga Frakkland út úr ESB. 

Maastricht-skilyrði ESB um gjaldmiðlasamstarf ríkjanna áttu að skapa næga samleitni í peningamálum og ríkisfjármálum ríkjanna fyrir sterkan sameiginlegan gjaldmiðil, og þau eru góðra gjalda verð, og Íslendingar ættu að taka þau sér til eftirbreytni, en aðildarlöndin hafa ekki öll staðið við þessa skilmála.  Það má í raun segja, að Þýzkaland og Austurríki haldi nú uppi verðmæti gjaldmiðilsins evru.  Evran er að sönnu veikari en þýzkt mark væri, og það gagnast þýzkum útflutningsiðnaði vel, en hún er miklu sterkari, e.t.v. 30 % sterkari en flest hin ríkin ráða við, og þess vegna er að skapast ógnarspenna innan ESB, eins og frásögnin af Frökkum sýnir. Sú spenna boðar ekki gott fyrir framtíð þessa gjaldmiðilssamstarfs. 

Á meðan sú spenna varir og á meðan íslenzka hagkerfið er jafnbrothætt og raun ber vitni um, er algert óráð að leita inngöngu í myntsamstarf Evrópu, en það á að leita allra leiða til að efla stöðugleikann, svo að hagkerfið geti staðizt slíkt inngöngupróf í framtíðinni, hvaða mynt sem kann að verða fyrir valinu.  Eitt atriðið er að auka erlendar gjaldeyrisskapandi eða gjaldeyrissparandi fjárfestingar, því að skortur á gjaldeyri skapar óstöðugleika í yfirskuldsettu þjóðfélagi. 

Við Íslendingar viljum eiga gott samstarf við Evrópulöndin, enda eigum við í miklu viðskiptasambandi við þau mörg hver.  Síðan árið 1994 eða í 20 ár höfum við verið á Innri markaði EES (Evrópska efnahagssvæðið) með kostum þess og göllum.  Ein af fjölmörgum staðlausum fullyrðingum aðildarsinna er, að réttarstaða Íslands breytist sáralítið við inngöngu.  Þetta er eins og hver annar þvættingur, því að nú erum við í nánu viðskiptasambandi við ríkjasambandið, en erum ekki hluti af því.  Lögfræðilega er staðan sú, að aðild að EES samræmist íslenzku stjórnarskránni, en aðild að ESB gerir það ekki.  Þarf frekari vitnana við ?

Þá halda aðildarsinnar því fram, að ESB muni segja upp EES-samninginum við Ísland, ef umsóknin verður afturkölluð.  Þetta er hugarburður einn, eins og lafði Catherine Ashton, utanríkismálastjóri ESB, staðfesti bréflega nýlega við Evrópuþingið. 

Á hvaða sviði gæti hagur almennings á Íslandi hugsanlega vænkazt við inngöngu ?  Aðildarsinnar halda enn í evruvonina.  Hún er þó hálmstrá, af því að framtíð hennar er óljós, og það er alls óvíst, hvernig íslenzka hagkerfinu mundi reiða af með evru.  Ef landsmenn vilja taka upp erlendan gjaldmiðil í fyllingu tímans, að afléttum gjaldeyrishöftum og náðum efnahagsstöðugleika, en fyrr koma gjaldmiðilsskipti ekki til mála, væri áhættuminna að taka upp sterlingspund eða bandaríkjadal.     

  

   

 

  

    

 

 

 

  

  


Orkumál í ólestri

Því hefur verið haldið fram og það gagnrýnt hér á þessum vettvangi, að gríðarleg vatnsorka væri ónýtanleg í núverandi raforkukerfi Íslands.  Var það rökstutt með því, að mikið vatn rynni óbeizlað til hafs síðsumars eftir fyllingu miðlunarlóna.      

Í framhaldi af því kviknaði sú viðskiptahugmynd hjá einhverri mannvitsbrekkunni að stofna til fjárfestinga upp á a.m.k. ISK 500 milljarða til að framleiða og leggja um 1100 km sæstreng á milli Íslands og Skotlands og tengja hann við afriðils- og áriðilsvirki í báða enda til að gera kleift að flytja orkuna í sitt hvora áttina.  Er þetta einhver fótalausasta hugmynd, sem sézt hefur í seinni tíð, því að þetta ástand varir í mesta lagi 2 mánuði á ári, enda er þessari umræðu líklega ekki ætlað annað hlutverk en að skapa Landsvirkjun sterkari samningsstöðu um sölu raforku.  Með þessari herstjórnarlist geta þau þó aldrei unnið annað en Phyrrosarsigra. 

Allir sjá, að nýtingartími svo dýrs mannvirkis í 1400 klst á ári eða 16 % hefur í för með sér bullandi tap á fjárfestingunni.  Auðvitað er þá hægt að halda áfram að flytja út rafmagn með því að miðla úr lónunum, en hætt er við, að þau mundu þá iðulega tæmast á Þorra eða Góu þrátt fyrir viðbótar virkjanir.  Þá mun víða heyrast hljóð úr horni, þegar þröngt fer að gerast fyrir dyrum hérlendra kotbænda, en erlendir njóta góðs af.   

Þeir, sem farið hafa á flot með þessa furðu hugmynd, hafa nefnt flutning á raforku frá Íslandi sem nemur 5000 GWh/a, sem jafngilda 570 MW meðalafli allt árið um kring eða rúmlega tveimur Búrfellsvirkjunum á fullu afli.  Þetta er svipuð orka og Landsvirkjun getur nú geymt í miðlunum sínum. 

Því er haldið fram, að á ofangreindum 1400 klst, þegar yfirfall varir, sé unnt að framleiða 1650 GWh af raforku, en til þess þarf þá viðbótar aflgetu upp á tæplega 1200 MW, sem er auðvitað fjarri lagi, að sé fyrir hendi, því að allt uppsett vélarafl í vatnsaflsvirkjunum nemur aðeins tæplega 2000 MW.  Það er þess vegna alveg áreiðanlegt, að til þess að flytja utan 5000 GWh/a af raforku um sæstreng, mun þurfa að virkja a.m.k. 5000 GWh/a til þess að vega upp á móti töpum í flutningsmannvirkjunum, sem sennilega munu nema a.m.k. 10 %.  Hvers vegna sitja náttúruverndarsinnar hljóðir hjá á meðan þessi umræða um stórfelldar línulagnir og virkjanir fer fram ?  Er það vegna þess, að þá verða ekki reistar fleiri orkukræfar verksmiðjur á Íslandi ?  Spyr sá, sem ekki veit, en sýnist náttúruverndin vera einvörðungu í nösum hávaðaseggja þar til annað kemur í ljós.     

Téðar mannvitsbrekkur, sem margar hverjar eru á launaskrá hjá opinberum aðilum, hafa kórónað snilli sína, sem minni spámenn hafa ekki náð að fylgja eftir, að hvorki meira né minna en þriðjung þessarar orku (5000 GWh/a) eða 1650 GWh/a þyrfti ekki virkja fyrir afsetningu um sæstrenginn, af því að orkan sú væri hreinlega í kerfinu, en rynni framhjá virkjunum, af því að hvorki miðlunarlónin né íslenzkir notendur raforkunnar næðu að fanga þessa orku.  Hér hafa spákaupmenn farið fram úr sjálfum sér, en standa nú berir úti á víðavangi.  Samt virðast náttúruverndarsinnar hafa bitið á agnið.  Héldu þeir, að orkan yrði send þráðlaust að landtökustað strengsins ?

Það eru engar smáræðis virkjanir og línulagnir, sem þarf fyrir þennan útflutning.  Það hefur lítið sem ekki neitt heyrzt í talsmönnum þeirra, sem hafa sett sig upp á móti nánast öllum framkvæmdum af þessu tagi undanfarin ár og í 5 ár staðið í vegi fyrir bráðnauðsynlegum línulögnum.   

Nú er hins vegar svo komið, að vegna mikils vatnsskorts horfir til neyðarástands í íslenzka raforkukerfinu.  Það er svo lítill vatnsforði og svo lítil miðlunargeta í orkukerfi landsins, að kerfið stendur ekki einu sinni undir afhendingu forgangsorku.  Þetta þýðir, að ekki aðeins athafnalífið líður fyrir stefnu- og framkvæmdaleysi í orkumálum þjóðarinnar, heldur geta almenningsveitur búizt við skerðingum á marga viðskiptavina sinna.  Má heita furðulegt, að ekki skuli hafa borizt almennt ákall til almennings frá stærsta vatnsorkufyrirtækinu, Landsvirkjun, um að spara rafmagn.  Það mundi nú stinga illilega í stúf við áróðurinn um 1650 GWh/a óbeizlaða orku í virkjuðum fallvötnum.  "Keisarinn er ekki í neinu", mundi þá barnið segja.

Það er ljóst, að raforkumálin eru í spennitreyju sérhagsmunaaðila, sem taka í mörgum tilvikum lítið sem ekkert tillit til heildarhagsmuna landsmanna.  Þegar samfélagstjónið, sem af þessu ráðslagi leiðir, er farið að skipta milljarðatugum, eins og í ár, hefur slíkt áhrif á landsframleiðsluna, hagvöxtinn og hag hvers einasta manns í landinu.  Á þessu verður þess vegna að gera bragarbót. 

Nú hafa framkvæmdir til að auka miðlunarrými og flytja orkuna á milli landshluta dregizt úr hömlu, svo að litlu mátti muna í vetur, að grípa þyrfti til orkuskömmtunar til almennings.  Stjórnvöld fyrra kjörtímabils töfðu fyrir framkvæmdum sem mest þau máttu, og þrýstihópar s.k. náttúruverndarsinna lágu ekki á liði sínu.  Þessir aðilar skáka þó í því skjólinu, að verða aldrei dregnir til ábyrgðar á stórtjóni og hreinu ófremdarástandi, sem skapazt getur vegna orkuskorts. 

Þegar skerða þarf forgangsorku árið 2014, er ljóst, að flotið hefur verið að feigðarósi framkvæmdalömunar allt of lengi.  Vatnshæð Þórisvatns er í sögulegu lágmarki, og nú dugar ekki að stinga hausnum í sandinn og halda því fram, að um einstætt vatnsár sé að ræða.  Vatnsbúskapur af þessu tagi getur nú hæglega endurtekið sig nokkur ár í röð.  Það sýnir lág grunnvatnsstaða þar efra. Ef ekkert verður að gert, verður ástandið enn alvarlegra fyrir almenning og athafnalífið, því að álag raforkukerfisins vex jafnt og þétt.  Þar sem orkuskorturinn leggst ofan á lágt afurðaverð í stærstu útflutningsgeirunum, sem stafar af offramboði og efnahagslegri ládeyðu, ekki sízt í Evrópu, svo að ekki sé nú minnzt á stríð Rússlands gegn nágrönnum sínum, getur þessi grafalvarlega staða hreinlega valdið samdrætti hagkerfisins á Íslandi, þvert ofan í spár um góðan hagvöxt.  Ábyrgðarhluti orkufyrirtækjanna á neyðarástandi yrði mikill, og þess vegna er vítavert að eyða enn púðri í ævintýri á borð við sæstreng til Skotlands og vindmyllur. 

Þrennt gerir stöðuna í næstu framtíð viðsjárverða:

 

  1. Það bólar ekkert á framkvæmdum við nýjar miðlunarframkvæmdir, nema ná á síðustu dropunum úr Þórisvatni með dýpkun útrennslis.  Það er örvæntingarfull aðgerð á síðustu stundu.  Það bólar heldur ekkert á næstu virkjun eftir Búðarháls á Þjórsár-Tungnaár-svæðinu til að bæta enn vatnsnýtinguna.  Hefði orkunotkun stóriðju suð-vestanlands verið, eins og upphaflegar áætlanir hljóðuðu, væri Þórisvatn sennilega orðið tómt núna að öðru óbreyttu.  Þá mundu tapast um 400 MW út úr raforkuvinnslukerfinu, sem væri stóráfall (katastrófa) fyrir lifnaðarhætti í landinu og mundi setja efnahagslíf landsins algerlega úr skorðum.  Slíkt mundi hafa eyðileggjandi áhrif á fjárfestingaráhuga erlendra sem innlendra fjárfesta og þannig valda stöðnun og hnignun hagkerfisins þar til tækist að brjótast út úr þessum vítahring.  Hér skall hurð nærri hælum.  Á að stinga hausnum í sandinn ?
  2. Hálslón fylltist sumarið 2013, en engu að síður hefur afgangsorka til viðskiptavina með samninga um afhendingu á henni verið skert eða algerlega afnumin á Austurlandi.  Ekki hefur verið gefin opinber skýring á þessu, sem hátt hafi farið.  Hitt er víst, að Landsvirkjun hefur látið nýta takmarkaða flutningsgetu Landsnets til að flytja orku að austan til að forða stórfelldri orkuskömmtun suðvestanlands.   Hvers eiga þá Austfirðingar að gjalda, sem búa máttu við raforkuskerðingu á árinu 2013 ?  Óstjórn orkumálanna keyrir um þverbak. 
  3. Grunnvatnsstaðan á vatnasviði Þórisvatns er óvenjulág um þessar mundir, sem þýðir, að meira en eitt gott vatnsár þarf til að fylla Þórisvatn.  Af þessu sést, að Landsvirkjun og þjóðin öll eru í slæmri stöðu í orkubúskapinum.  Framkvæmdir Landsnets hafa verið tafðar í 5 ár, og svipaða sögu er að segja af Landsvirkjun, ef frá er skilin Búðarhálsvirkjun, sem forðað hefur neyðarástandi síðvetrar í ár. Hvað er til ráða ?

 

Heildarraforkusala Landsvirkjunar árið 2013 nam um 13,2 TWh (terawattstundir, tera = 1000 gíga).  Heildarmiðlunargeta fyrirtækisins er um 5,2 TWh/a (terawattstundir á ári).  Þetta er aðeins 39 % af af árlegri raforkusölu fyrirtækisins, sem er óviðunandi lágt hlutfall m.v. lengd vetrarveðráttu á Íslandi.  Það þarf að ná 50 %, svo að viðunandi orkuafhendingaröryggi verði náð.  Með öðrum orðum þarf Landsvirkjun að bæta 1,4 TWh/a við forðabúr sín. 

Með Norðlingaölduveitu, sem er mjög hagkvæm framkvæmd, mundi hún ná helminginum af þessari vöntun, þ.e. 0,7 TWh/a, og með virkjun falls úr Hágöngulóni mundi hún ná 0,2 TWh/a.  Það, sem á vantar, mundi Landsvirkjun nokkurn veginn fá með minnstu virkjuninni í Neðri-Þjórsá, Holtavirkjun, sem gæfi rúmlega 0,4 TWh/a. 

Ný stjórn Landsvirkjunar verður nú að slá undir nára í stað þess að fljóta sofandi að feigðarósi.  Það eru auðvitað fleiri kostir fyrir hendi, t.d. gæfu 30 vindmyllur af meðalstærð  500 GWh/a í góðu vindári, en sá kostur og flestir aðrir eru dýrari en þeir, sem nefndir hafa verið.  Það er óvíst, að vindmylluleiðin sé fær hérlendis, því að hún dregur ekkert úr losun koltvíildis, hún mun hækka raforkuverð til notenda, og hún mun vafalaust mæta mótbyr s.k. náttúruverndarsinna, ef og þegar kæmi til stykkisins.

Það er brýnt að bregðast skjótt við nýjum aðstæðum í veðurfarinu, því að afleiðingar aðgerðarleysis verða að öllum líkindum rándýrar og skipta milljarðatugum í krónum talið á ári.  Það er þess vegna engum blöðum að fletta um arðsemina. Vilji er allt, sem þarf, en hvar er hann ?

Það er ljóst, að Austurland bráðvantar aukna miðlunargetu.  Það er auðveldast að afla hennar með 400 kV línu yfir Sprengisand.  Ofangreind aukning orkuvinnslugetu mundi þá geta gagnazt Austurlandi einnig, en mikið tjón á formi tapaðra tekna og aukins vinnslukostnaðar hefur hlotizt af orkuskerðingum Landsvirkjunar í landshlutanum tvö ár í röð og hart aðgöngu fyrir fyrirtæki, sem nýlega hafa fjárfest í búnaði til að nýta raforku í stað innflutts eldsneytis.

Sem mótvægi gegn sjónrænum áhrifum háspennulínu frá Sigöldu/Hrauneyjafossi og norður í Eyjafjarðarsýslu/Þingeyjarsýslur ætti að taka í notkun nýja hönnun staurastæða í stað hefðbundinna stálturna og kappkosta, að mannvirkið verði sem minnst áberandi í umhverfinu með nýjustu tækniþróun á þessu sviði, jafnvel með einfasa jarðstrengjum á um 25 km bili, þar sem lína væri talin vera of áberandi. 

Á haustþingi 2014 er von á frumvarpi frá ráðuneyti iðnaðar og viðskipta, sem móta á stefnuna varðandi jarðstrengi og loftlínur.  Slík stefnumótun hefur þegar farið fram víða erlendis og er löngu tímabær hérlendis, því að jarðstrengir í flutningskerfinu auka flutningskostnaðinn, sem lendir á neytendum.  Ágæt sáttaleið er að auka ekki heildarloftlínulengd í landinu frá því sem var t.d. árið 2010.  Allar línur á 60 kV spennu og lægri yrðu þá leystar af hólmi með jarðstrengjum, helzt á þessum áratugi, en leggja mætti nýjar loftlínur á 132 kV spennu og hærri að þeim mörkum, að heildarlínulengd í landinu aukist ekki.   

  Það er svo mikið hagsmunamál fyrir þjóðarheildina að fá öflugt flutningsmannvirki á milli landshluta, að það verður að gerast.  Má einnig nefna öryggisrök þessu til stuðnings, þar sem meginvirkjanir og línur sunnanlands eru á jarðskjálfta- og eldgosasvæði. 

Loftslagsbreytingar kunna að vera meðvirkandi þáttur í þurrkum á hálendinu.  Það er svo mikið í húfi fyrir hagsmuni almennings og fyrir hagkerfi landsins, að ófullnægjandi er við þessar aðstæður að sitja með hendur í skauti og bíða eftir staðfestingu á því.  Þar sem ofangreindar framkvæmdir munu geta forðað stórfelldu efnahagstjóni, eru þær hagkvæmar.  Engir almennilegir orkusölusamningar munu nást upp á þau býti, að líkur á afgangsorkuskerðingu verði margfaldar á við það, sem verið hefur, t.d. undanfarin 20 ár, og búast megi við forgangsorkuskerðingu ár eftir ár.  Það er verið að gjaldfella íslenzkar orkulindir hrikalega með svo lélegu afhendingaröryggi, enda þarf að leita hliðstæðu til Afríku, þar sem raforkuverð er lægra en hér vegna ófullnægjandi gæða, þ.e. árvissrar skömmtunar.  Eigi veldur sá er varir.  Hangir það e.t.v. á spýtunni með andstöðu við nánast allar nýjar loftlínur og virkjanir að koma í veg fyrir frekari iðnvæðingu landsins ?  Spyr sá, sem ekki veit.     

     

20140215_USC317tungnaa_ofan_sigoldu


Landhelgin er í húfi

Á mæli sumra má skilja, að þeir séu haldnir vantrú á mynt landsmanna, en ofurtrú á hagkerfinu íslenzka.  Þetta samrýmist illa, en lýsir sér þannig, að ýmist lýsa þeir því yfir, að þeir vilji gjarna sjá aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið, ESB, leiddar til lykta, eins og þeir kalla fulla aðlögun, og síðan greiða atkvæði um skilmálana, eða þeir lýsa því blákalt yfir, að þeir vilji skilmálalaust inn í ESB til að landið ætti þess kost að skipta um mynt og innleiða evru í stað krónu.  Til að vist á evrusvæðinu leiði ekki til ófarnaðar, verður hagkerfi viðkomandi lands að vera sterkt og samkeppnihæft, mun öflugra en íslenzka hagkerfið er núna, þó að það stefni í rétta átt undir forystu fjármála- og efnahagsráðherra.  

Hjá ESB-trúboðinu og hælbítum krónunnar rekst hvað á annars horn og ber vitni djúpstæðra ranghugmynda og flótta frá staðreyndum, sem nú er hægt að afla sér eftir útkomu skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ.  Þá erum við kjósendur ekki lengur ofurseld blekkingavef Össurar Skarphéðinssonar og Þorsteins Pálssonar, en umsóknin um aðild strandaði á þeirra vakt af ástæðum, sem hér verða tíundaðar. 

Hér er ekki ætlunin að gera lítið úr samningahæfileikum þeirra félaganna, en hitt er afar gagnrýnivert við þá að leggja sig allan tímann í líma við að telja þjóðinni trú um allt aðra samningsstöðu en uppi er í raun og jafnframt að klappa þann steininn, að Össur hafi gert hlé á viðræðunum í ársbyrjun 2013 vegna Alþingiskosninganna sama ár, þegar staðreyndin er sú, að umsóknin hafði steytt á skeri þá fyrir löngu, og skerið var vegarnesti Alþingis til Össurar, sem var ósamrýmanlegt stjórnkerfi ESB á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.  Það þarf að velta Össuri upp úr tvöfeldni hans á Alþingi.   

Það er hafið yfir vafa, að til að myntskipti, þ.e. í raun upptaka fastgengisstefnu, geti orðið hagkerfinu til styrktar, þ.e. aukið langtíma hagvöxt í landinu, verður hagkerfið að standa traustum fótum.  Ef myntin er evra, eins og ýmsa virðist dreyma um, þá þarf að greiða ríkisskuldir hratt niður, því að þær mega ekki vera hærri en 60 % af VLF í evrulandi.  Til að þetta gangi eftir þarf að verða hár viðskiptajöfnuður við útlönd, t.d. ISK 100 milljarðar á ári, sem verður aðeins í góðæri og með lítilli aukningu á einkaneyzlu.  Þetta útheimtir að sjálfsögðu góðan aga á ríkisfjármálunum, svo að skuldasöfnun hætti og við taki hár greiðslujöfnuður á fjárlögum. 

Verðbólgan þarf að verða með því lægsta, sem gerist í Evrópu.  Ekki er víst, að það verði eftirsóknarvert á næstunni, því að evrusvæðið er að falla í verðhjöðnun, en hún er mikið böl. 

Til að samlaga hagkerfi Íslands hagkerfi evrusvæðisins þurfa vextir Seðlabanka Íslands ennfremur að verða mjög nálægt vöxtum Seðlabanka evrunnar, en þeir eru líklega 0,5 % um þessar mundir. 

Með öðrum orðum þarf styrkur íslenzka hagkerfisins til lengdar að vera svipaður og þýzka hagkerfisins.  Þeir, sem halda, að þetta sé raunhæft, hafa í raun ofurtrú á íslenzka hagkerfinu, og þá er óskiljanlegt, hvers vegna þeir hafa vantrú á íslenzku krónunni, því að hún endurspeglar styrkleika og veikleika hagkerfisins, en lifir ekki sjálfstæðu lífi í frjálsu hagkerfi, eins og allir stefna að, bæði inngöngusinnar og fullveldissinnar.  Ef hagkerfið verður svona sterkt, eins og skilyrði myntskiptanna útheimta, þá verður myntin líka sterk.  Annað væri alger þversögn. 

Með umsókn um aðild að ESB var verið að setja umráðarétt Íslendinga yfir landhelginni, 200 sjómílur frá yztu töngum landsins, í uppnám, og boðskapurinn til ESB er sá á meðan umsóknin er við lýði, að Íslendingar séu til viðræðu við Berlaymont um sameiginleg not af henni með fiskveiðiþjóðum ESB.  Þetta er hart aðgöngu fyrir þá, sem "vilja kíkja í pakkann", en á þetta stöðumat er ekki hægt að bera brigður eftir útkomu skýrslu HHÍ um aðildarumsóknina.  Verður nú gripið niður í einn höfundinn, Ágúst Þór Árnason, lögfræðing og kennara við lagadeild Háskólans á Akureyri:

"Ekki tókst að opna landbúnaðarkaflann og sjávarútvegskaflann, hann sigldi í strand áður en hann komst á það stig, að hægt væri að ljúka rýniskýrslu um hann, og í kjölfarið að hefja viðræður um kaflann.  Ástæðan var sú, að Evrópusambandið vildi setja viðmið um opnun hans, sem hefðu verið óaðgengileg með öllu fyrir Ísland."  Þau hefðu falið í sér, að Ísland undirgengist áætlun um aðlögun að sjávarútvegsstefnu ESB áður en viðræður hæfust um kaflann." 

Þarf frekari vitnana við um, hvert stefndi, og hvers vegna viðræðurnar eru fyrir löngu strandaður, þó að tveir stjórnmálaflokkar á Íslandi og Þorsteinn Pálsson berji enn hausnum við steininn og haldi uppi blekkingariðju um, að nú sé hægt að bruna af stað í viðræður án þess að slá neitt af kröfum Íslands um óskert íslenzkt fullveldi yfir landhelginni umhverfis Ísland ?

Slíku fullveldi er ESB nú þegar búið að hafna.  Íslendingar verða að deila fullveldinu yfir landhelginni með tæplega 30 öðrum þjóðum, þ.á.m. þjóðum með gríðarlegan fiskiskipaflota, sem skortir verkefni, og má þar nefna Spánarflotann til sögunnar.  Það er hinn nöturlegi sannleikur, sem felst í texta lögfræðingsins hér að ofan. 

Heyra menn ekki, hverjum klukkan glymur nú, þegar ESB hefur sýnt sitt rétta andlit í samskiptunum við okkur á sjávarútvegssviðinu ?  Þrátt fyrir fögur fyrirheit í haust um samstöðu gegn Norðmönnum til að tryggja sjálfbærar veiðar á makrílnum, þá snýr Damanaki gjörsamlega við blaðinu nú í marz 2014 og samþykkir stórfelldar veiðar umfram vísindalega ráðgjöf, e.t.v. til að þóknast Norðmönnum, olíusjeikum norðursins, á viðsjárverðum tímum, þegar mál geta þróast með þeim hætti, að Rússar skrúfi fyrir gasflutning til ESB-landa. 

Þetta sýnir, að það er ekki vitglóra í því svo mikið sem að gæla við hugmyndina um nánara samband við Berlaymont, að ganga í ríkjasambandið þeirra, eins og suma virðist dreyma um hérlendis, því að hagsmunir okkar munu aldrei verða virtir, ef þessu ríkjasambandi hentar eitthvað annað þá stundina.  Fiskistofnum er þá hiklaust fórnað á altari stjórnmálanna, þar sem aðrir hagsmunir eru ríkari.  Hvað þurfa menn skýr dæmi fyrir framan sig til að skilja áður en skellur í tönnunum ?  "Heiðra skaltu skúrkinn, til að hann skaði þig ekki" má í þessu tilviki alls ekki túlka þannig, að bezt sé að henda mestu verðmætunum, fullveldi landsins, í faðm skúrksins, en það virðist vera einbeitt afstaða Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Þorsteins Pálssonar. 

Við, sem erum á öndverðum meiði við þetta fólk um þessi málefni, höfum aldrei verið sannfærðari en nú um réttmæti skoðana okkar.  Það er ekki minnsta ástæða til að láta fólk, sem virðist hafa tapað ráði og rænu og er ófært um að halda uppi rökstuddu andófi, en grípur til skrípaláta innan veggja Alþingis og skrílsláta þar utan veggja, setja meirihluta Alþingis í einhvers konar herkví.  Það verður að höggva á hnútinn að hætti Alexanders, mikla, og samþykkja þingsályktunartillöguna um afturköllun umsóknar um aðild Íslands að Evrópusambandinu. 

Það er þungbært fyrir Noregsvin, sem numið hefur og starfað í Noregi og hefur tengsli þangað, að verða vitni að ótrúlegu framferði þeirra í makrílmálinu.  Af einskæru ofstæki í garð Íslendinga fórna þeir orðspori sínu sem fiskveiðiþjóðar, sem setur sjálfbæra nýtingu á vísindalegum grundvelli í öndvegi.  Þeir boða rányrkju á makríl og tekst með offorsi og baktjaldamakki að fá aðrar þjóðir í lið með sér.  Til hvers eru refirnir skornir ?

Ef sú kenning er rétt, að ætlunin sé að bola Íslendingum út úr makrílveiðum og af makrílmörkuðum með því að minnka svo stofninn, að hann syndi ekki lengur í neinum mæli inn í íslenzka lögsögu, þá er mála sannast, að algert ábyrgðarleysi hefur tekið völdin í Ósló, svo að ekki sé nú kveðið svo fast að orði sem vert væri.  Hvaða önnur skýring er í boði ?

Á vettvangi norræns samstarfs verða Íslendingar nú að taka glímu við sína norsku frændur, krefja þá skýringa og núa þeim fjandsemi við "sitt broderfolk der ute i Atlanteren" um nasir á hverjum fundi og á öllum vígstöðvum reyndar.  Norska þjóðin metur meir frændsemi Íslendinga en örlítið meiri markaðshlutdeild í makríl.

Makrílmið

 

      

  

 

 

 

 

 


Hindranir í vegi hagvaxtar

Brandenburger TorÞað hefur gengið hægt að koma af stað bærilegum hagvexti hérlendis.  Forsenda hagvaxtar eru fjárfestingar, og þær hafa afar litlar verið í heild frá bankakreppunni haustið 2008, þó að t.d. útflutningsiðnaðurinn hafi fjárfest töluvert.

Fjárfestingar, sem um munar, koma aðallega úr tveimur áttum, þ.e. frá sjávarútveginum og erlendis frá í iðnfyrirtækjum, en ekki skal vanmeta gildi fjárfestinga í hótelum, gistihúsum og ferðamannaaðstöðu. 

Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, en varðandi fjárfestingar á öllum þessum sviðum urðu gjörðir fyrrverandi ríkisstjórnar, skaðræðisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, til að draga úr hvatanum til fjárfestinga, hvort sem um einbeittan brotavilja, eins og í Icesave- og bankamálunum, eða meðfæddan klaufaskap var að ræða.  Verður nú ymprað á þessum atriðum og síðast en ekki sízt verður drepið á aðra forsendu en fjárfestingar fyrir hagvexti, en hún er þekking og þjálfun á vinnumarkaðinum.  Án hins síðast nefnda verða fjárfestingar unnar fyrir gýg. 

Ofurskattlagning á sjávarútveginn undir rangnefninu veiðigjöld dregur allan mátt úr útgerðinni til þeirrar endurnýjunar á fiskiskipastólnum, sem nú er aðkallandi.  Minni fyrirtækin kikna undan byrðunum og leggja upp laupana, en hin stærri kaupa veiðiheimildirnar, sem losna, en geta ekkert fjárfest í veiðitækjum, sem heitið getur, á meðan stórt skarð er höggvið í framlegðina, sem á að fara til að greiða fastan kostnað og til að fjárfesta.   Það er brýnt, að Alþingi og ríkisstjórn vindi ofan af vitlausri skattlagningu, sem sveltir mjölkurkúna, og fælir þess vegna fjárfesta frá greininni.  Það er að sama skapi nauðsynlegt, að sjávarútvegurinn fái traustan lagalegan starfsgrundvöll.  Að þessu er unnið.  

Núverandi ríkisstjórn, Laugarvatnsstjórnin, færði byrðarnar af botnfiskútgerðunum og yfir á uppsjávarútgerðirnar og létti heildarbyrðarnar dálítið, en betur má, ef duga skal.  Nú lítur út fyrir, að makríllinn sé búinn að hrekja loðnuna að miklu leyti af Íslandsmiðum, sem þýðir allt að 30 mia kr högg fyrir uppsjávarútgerðir og hagkerfi landsins.  Þetta sýnir, hversu varasamt er fyrir skattheimtuvaldið að leggja skatta á útgerðina samkvæmt meðaltalsframlegð í fortíðinni.  Þegar vel árar á útgerðin að fá tækifæri til að fjárfesta, og þegar illa árar þarf hú að geta sótt í varasjóði sína. 

Til að fá hjólin í gang og til að tryggja sjálfbæra og sanngjarna skattheimtu verður að gjörbreyta um skattlagningu á sjávarútveginn, afnema með öllu eignaupptökuaðferðina og samræma skattheimtuna skattlagningu á önnur fyrirtæki í landinu, þ.e. að leggja tekjuskatt á hagnað, e.t.v. dálítið hærri hlutfallstölu en á önnur fyrirtæki á árum, þegar veiðiheimildir eru auknar.  Þetta er sanngirnismál, og að leggja annað til grundvallar en samræmda skattheimtu er ójöfnuður.  Vinstri menn eru reyndar alræmdir fyrir að ryðjast fram með ójöfnuði til að hrifsa til hins opinbera fé í endurdreifingu að eigin geðþótta.  Slíkt veikir undantekningarlaust tekjuöflun samfélagsins sem heildar. 

Hið sama á þá að gilda um orkufyrirtækin, þegar þau hafa hlotið ný virkjunarleyfi skulu þau greiða allt að 10 % hærri hlutfall í tekjuskatt en önnur fyrirtæki næstu 10 árin.  Afránsskattheimta á borð við núverandi veiðigjöld rýrir hins vegar skattstofninn, en hófleg skattheimta leyfir skattstofninum að dafna.  Á vegum Laugarvatnsstjórnarinnar er vinna í gangi við endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins, og vonandi verður þá undið ofan af þessari vinstri vitleysu.  Hvor skattheimtuaðferðin halda menn, að sé betur fallin til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, þegar til lengdar lætur ?  Það er engum blöðum um það að fletta, að leið hófsamlegrar og réttlátrar skattheimtu mun bæta hag ríkissjóðs meira en ofurskattheimta og mismunun.  Með réttlátri skattheimtu er hér einfaldlega átt við, að jafnræðis sé gætt og að skattheimtan sé óháð því í hvaða atvinnugeira fyrirtækið starfar.   

Vinstri stjórnin fór illa með orðspor Íslands gagnvart erlendum fjárfestum.  Þar sem traust verður að ríkja, er afleitt að standa ekki við samninga og að svíkja gefin loforð.  Siðferði vinstri stjórnarinnar var bágborið, og í ljós kom, það sem margir töldu sig vita fyrirfram, að vinstri mönnum var ekki treystandi til að fara með landstjórnina.  Þeir komu aftan að viðsemjendum orkufyrirtækjanna með því að leggja á sérstakan rafskatt, sem nú er orðinn 130 kr/MWh.  Þeir lofuðu að hafa hann tímabundinn, en í stað þess að afnema hann á tilsettum tíma, þá hækkuðu þeir hann. 

Þetta kemur málmframleiðslufyrirtækjunum, t.d. álverunum, afar illa um þessar mundir, þegar afurðaverðið er mjög lágt og afkoman með versta móti.  Þetta kemur þyngst niður á elzta fyrirtækinu í þessum geira, því að orkuverðið til þessa málmframleiðslufyrirtækis er langhæst og ótengt afurðaverðinu.  Slíkir skattar á fyrirtæki, ótengdir afkomu þeirra, eru stórhættulegir og hafa víða leitt til, að þau hafa flosnað upp.  Verður að treysta Laugarvatnsstjórninni til að lækka þennan skatt og láta hann síðan renna sitt skeið á enda, eins og lögin gera ráð fyrir.  Málsmeðferð yfirvalda af þessu tagi er eitt af því, sem grefur undan trausti fjárfesta og gerir þá afhuga fjárfestingum í landinu.  Slíkt er landinu miklu dýrkeyptara en þeir milljarðar kr, sem fást inn með þessum rafskatti.  Að vega slíkt og meta virðist ekki vera á valdi vinstri manna, því að þeir gera ekki ráð fyrir neinni breyttri hegðun við skattahækkun.

Verðlagning raforkunnar hér innanlands breyttist með vinstri stjórninni í Stjórnarráðinu og afkvæmi hennar í Háaleitinu.  Slíkar tilefnislausar snöggar breytingar á heildsöluverði raforku í einu landi auka ekki tiltrú fjárfesta á orkuvinnslufyrirtækjunum og eigendum þeirra.  Óhagræði Íslands vegna veiks raforkukerfis og langra fjarlægða frá hráefnum og afurðamarkaði var nóg fyrir, þó að ekki bættist við óvissa um, hvort landið mundi bjóða samkeppnifært verð á raforkunni.  Þessum veikleika verður aðeins útrýmt með nýrri stjórn Landsvirkjunar og einarðri stjórn í atvinnuvegaráðuneytinu.  Eins og málum er nú háttað er fjárfestum sýnt "listaverð" á raforku frá Landsvirkjun upp á 43 USmill/kWh.  Þetta verð er ekki í neinu samræmi við jaðarkostnað virkjana fyrirtækisins, heldur er rökstutt þannig, að leitast sé við að láta verðlagningu raforku á Íslandi fylgja raforkuverðþróun í Evrópu.  Sú stefnumörkun er auðvitað algerlega út í hött, af því að orkukerfi Íslands er gjörólíkt orkukerfi meginlands Evrópu, og um það gilda þess vegna önnur lögmál.  Aukning á útflutningi orkukræfrar vöru frá Íslandi hefur tilhneigingu til að draga úr gróðurhúsaáhrifum á heimsvísu.   

"Röksemdafærsla" Landsvirkjunar í verðlagsmálum er álíka gáfuleg og röksemdafærsla forstjóra fyrirtækisins fyrir samþykkt Icesave-samninganna, alræmdu.  Hún er fyrir neðan allar hellur og tekur ekkert mið af því, að raforkukerfi Íslands er algrænt, sjálfbært og stækkanlegt með virkjunum endurnýjanlegra auðlinda, en raforkukerfi Evrópu er dökkbrúnt af jarðefnaeldsneyti og þar er reynt að auka hlut endurnýjanlegra og mjög óhagkvæmra orkulinda með stórfelldum niðurgreiðslum. 

Verðlagningarstefna vinstri stjórnanna í Stjórnarráðinu og í Háaleitinu var þess vegna alveg út úr kú miðað við hagsmuni landsmanna af að laða hingað erlenda fjárfesta.  Vinstri stjórn Stjórnarráðsins var í Alþingiskosningunum 27. apríl 2013 fleygt á öskuhauga sögunnar, en enn lafir vinstri stjórnin í Háaleitinu sem hver önnur tímaskekkja.  Á meðan nást engir umtalsverðir nýir orkusamningar, og gamlir viðskiptavinir hafa jafnvel glatazt og súrnað sambandið við aðra.  Neró leikur á fiðlu á meðan Róm brennur, og lýsir þetta sér í hjákátlegum gæluverkefnum á borð við sæstrengi til útlanda og vindmyllum á heiðum uppi. 

Margt bendir nú til, að skortur á hæfu starfsfólki sé orðinn hamlandi fyrir hagvöxtinn.  Þekkingarstig unga fólksins, þegar það kemur út úr skólakerfinu, er svo bágborið að jafnaði, en með góðum undantekningum þó, að við svo búið má ekki standa.  Þekking og færni í meðferð móðurmálsins er í mörgum tilvikum skelfilega léleg, og lesskilningur og skriftargeta í erlendum málum, svo að ekki sé nú minnzt á hæfileikann til að tjá sig á erlendum málum, er algerlega ófullnægjandi.  Verklega getan er heldur ekki upp á marga fiska.  Verkleg þekking tækni- og verkfræðinga er í mörgum tilvikum skaðlega bágborin.

Þetta er ekki séríslenzkt fyrirbæri, og við þurfum ekki að finna upp hjólið til að  bæta úr skák, heldur eigum við að leita í smiðju þeirra, sem bezt hefur tekizt upp í þessum efnum. Eitt slíkra landa er Þýzkaland.  Í brezka tímaritinu "The Economist" gaf þann 12. október 2013 að líta eftirfarandi:

"Í iðandi Siemens risaverksmiðjunni í Berlín eru táningar í bláum samfestingum að læra að setja saman rafeindakort sem fyrsta skref í þriggja ára nemasamningi þeirra.  Auk fræðslu um tækni, þjarkafræði (robotics) og önnur verkfræðileg svið fá nemarnir, 1350 að tölu í þjálfunarmiðstöð fyrirtækisins, þjálfun í að lesa tæknigögn og að fara með talnagögn.  Við útskrift er ætlazt til, að þeir geti gert grein fyrir verkefnum með texta og tölum, og lausn viðfangsefna, á ensku og þýzku.  Þegar lönd leita leiða til að bæta þjálfun á vinnumarkaðinum, m.a. til að auka framleiðnina, þá er gerhygli Siemens-vinnubragðanna fyrirmynd margra.  Kostnaðurinn per nema nemur um kEUR 100, um MISK 16, svo að hér er um meiri háttar fjárfestingu að ræða.  Norbert Giesen, yfirleiðbeinandi, segir, að vegna vaxandi þróunarhraða framleiðsluaðferðanna og hraðari innleiðingar uppfinninga, þá leggi fyrirtækið nú aukna áherzlu á "mjúka" hæfni, t.d. hvernig á að setja saman árangursrík teymi og skipta með sér verkum með sem beztum hætti.  Þessi þekking er nytsamleg, hvernig sem allt veltist." 

Af þessari hugmyndafræði má margt læra.  Samstarf hins opinbera menntakerfis og fyrirtækjanna þarf að efla.  Annars er hætt við, að opinbera menntakerfið dragist aftur úr og mennti ungviði fyrir gærdaginn.  Í tveimur efstu deildum grunnskólans þarf að aðgreina verknáms- og bóknámsleiðir, þó að nemendur geti síðar skipt um brautir.  Með því að koma þannig til móts við ólíkar þarfir nemendanna, verður  dregið úr brottfalli, sem jafngildir að minnka sóun hæfileika.  Fyrirtækin þurfa að koma í ríkari mæli að gerð námskráa og námsefnis og að koma að þjálfun og kennslu, eins og frásögnin hér að ofan frá Berlín ber með sér, að Þjóðverjar gera. 

Þetta er ekki nýtt hjá Þjóðverjum.  Hjá þeim er meistarakerfið enn við lýði.  Íslenzka menntakerfið þarf að verða mun skilvirkara en það er nú.  Það er ekki meira opinbert fé til reiðu í menntakerfið núna, svo að góðar lausnir þurfa að koma fram til að bæta skilvirknina.  Námskráin þarfnast endurnýjunar, fjölbreytni og valfrelsi þarf að auka og atvinnulífið þarf bæði tækifæri og hvata til að taka þátt.  Þó að upphæðin, sem Siemens ver til þjálfunar hvers nema, 16 milljónir kr, virðist há, þá fá þeir áreiðanlega góða ávöxtun á þá fjárfestingu með vinnuframlagi nemanna og með hæfara starfsfólki, þegar að nýráðningum kemur.  Að stokka spilin að nýju í menntakerfinu og víðar er nauðsyn til bættrar afkomu þjóðarbúsins.   

 

 

     

 

 

 


Opið bréf Víglundar

Bréf Víglundar Þorsteinssonar, lögfræðings, til forseta Alþingis, sem hann opinberaði í Morgunblaðinu 24. janúar 2014, sætir stórtíðindum, þó að vinstri menn þykist ekki skilja sakarefnin, sem í bréfinu felast.  Lítið hefur farið fyrir umfjöllun þessa grafalvarlega máls í Kastljósi, Speglinum eða fréttatímum Ríkisútvarpsins, en tímanum fremur varið í þröng mál, jafnvel persónulega harmleiki, sem lítið erindi eiga við alþjóð.  Bréf Víglundar á hins vegar erindi við alla og ber vitni um harmsögulega óhæfni vinstri flokkanna við stjórnun landsins. 

Grafalvarlegar ásakanir á hendur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur koma fram í þessu bréfi, og þær eru rökstuddar með vísunum til fundargerða stýrinefndar stjórnvalda um samninga við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna.  Hér verður gripið niður í hið sögulega bréf.  Efni þess er með þeim hætti, að aðalsökudólginum, fyrrverandi fjármálaráðherra, SJS, má ekki takast að komast upp með neitt múður eða belging, eins og hann gerði sig líklegan til í umræðum um málið á Alþingi og eru hans ær og kýr.

"Efni fundargerðanna á erindi við Alþingi.  Þær staðfesta, að vorið og sumarið 2009 vann framkvæmdavaldið hörðum höndum að því að fara framhjá reglum neyðarlaga nr 125/2008 um endurreisn íslenzku bankanna og meðferð skulda heimila og fyrirtækja." 

Þarna eru nægilega alvarleg sakarefni borin fram fyrir ríkissaksóknara til að fyrirskipa rannsókn. 

"Um mánaðamótin febrúar/marz 2009 ákvað ríkisstjórnin að hefja samningaviðræður við erlenda kröfuhafa bankanna um það, hvernig þeir gætu fengið meira í sinn hlut úr nýju bönkunum, sem stofnaðir höfðu verið með setningu neyðarlaganna nr 125/2008, en neyðarlögin sögðu til um. .... Þegar fundargerðirnar eru lesnar í samfellu, verður ekki annað ráðið en frá upphafi hafi ríkisstjórnin haft í huga að afhenda erlendu kröfuhöfunum alla þrjá nýju bankana til að friðþægja þeim."

Eigi þessar hátternislýsingar á stjórnvöldum þessa tíma við rök að styðjast, er ljóst, að þau hafa dregið taum fjármálaafla gegn hagsmunum íslenzka ríkisins og almennings á Íslandi.  Slíkt framferði eru landráð, og verður að rannsaka þessi sakarefni á hendur stjórnvalda þessa tilgreinda tímabils í því ljósi. 

Í lokakafla bréfs Víglundar stendur eftirfarandi:  

"Þetta þarfnast rannsóknar.  Þessar ákvarðanir hafa í raun valdið miklu af því stórfellda tjóni, sem varð hér á landi eftir hrun.  Hefði neyðarlögunum verið framfylgt eftir efni þeirra og úrskurðum FME haustið 2008, væri okkar þjóðfélag löngu risið úr öskustónni." 

Ályktun Víglundar Þorsteinssonar, lögfræðings, er sem sagt sú, að vinstri stjórnin hafi gert illt ástand enn verra, dýpkað kreppuna og lengt í henni.  Í stað þess að losa um gjaldeyrishöftin, þegar það var enn tiltölulega viðráðanlegt og snjóhengjan minni en nú, þá bætti vinstri stjórnin hundruðum milljarða kr við þessa hengju.  Það verður að fást réttarfarslegur botn í þetta mál, og hinar stjórnmálalegu afleiðingar fyrir Samfylkinguna og Vinstri hreyfinguna grænt framboð þurfa að verða eftir því. 

Það var vitað, að ráðherrar vinstri stjórnarinnar voru óhæfir til að forgangsraða af skynsamlegu viti og að stika út leiðir til lausnar á vandamálum, þó að þeir gætu sett á endalausar tölur, algerlega innihaldslausar.  Það var grautargerð í mörgum pottum samtímis með mismunandi blæbrigðum, en allt reyndist óætt, þegar til kastanna kom.

 Nú eru hins vegar að birtast gögn, sem benda ekki einvörðungu til óhæfni, heldur einbeitts brotavilja gegn hagsmunum íslenzku þjóðarinnar.  Þar er með öðrum orðum um að ræða enn alvarlegri meint brot en meint vanræksla Geirs Hilmars Haarde, sem meintir núverandi brotamenn leiddu fyrir Landsdóm á sinni tíð og höfðu skömm fyrir vegna skorts á sakarefnum.  Nú skortir ekki sakarefnin. Var í Landsdómsmálinu gegn Geir gefið fordæmi, sem ekki verður undan vikizt að fylgja nú ?  Vigdís Hauksdóttir hefur reifað málið á Alþingi af einurð, eins og hennar er von og vísa.  Þingmenn þurfa nú margir hverjir að girða sig í brók og ekki að láta deigan síga fyrr en þeir eru vissir um, að erindi Víglundar Þorsteinssonar, lögfræðings, hafi hlotið nauðsynlega umfjöllun og verðuga afgreiðslu. Fáránleg upphlaup stjórnarandstöðunnar á þingi um þessar mundir eru alger hégómi hjá afgreiðslu þessa alvarlega máls. 

 

 

   

   


Stöðugleiki hér og þar

Eitt af því, sem vinstri stjórninni mistókst hrapallega að ná, var efnahagslegur stöðugleiki, enda má bæði efast um, að þeim dæmalausu ráðherrum hafi verið það sérstakt keppikefli og að þeir hafi gert sér grein fyrir, hvernig efnahagslegum stöðugleika yrði náð. 

Kjarasamningar, sem gerðir voru á hennar skeiði, voru almenningi dýrkeyptir og verri en engir, af því að þeir virkuðu sem olía á eld verðbólgubálsins.  Svo er það annað mál, að loforð Jóhönnustjórnarinnar í tengslum við þá kjarasamninga voru strax svikin, svo að traust aðila vinnumarkaðarins til Jóhönnu og Steingríms varð að engu.  Lánleysi þeirra skötuhjúa var algert.  Þar með var í raun úti um þá ríkisstjórn.

Með hækkunum á virðisaukaskatti, eldsneytisgjaldi, álagningu kolefnisgjalds og hækkunum á öllum gjöldum og sköttum, sem nöfnum tjáir að nefna, kynti vinstri stjórnin undir verðbólgu.  Það var eins og við manninn mælt; skattstofnar ríkissjóðs minnkuðu við þetta, t.d. minnkaði bifreiðaakstur og verzlun dróst saman.  Skattstofnarnir skruppu saman undan ofurskattheimtu upp úr kennslubókum frá Þýzka Alþýðulýðveldinu og færða í búning af Þistilfirðinginum, fyrrverandi formanni vinstri grænna.

Nú bregður meira að segja svo við, að íslenzka krónan braggast skyndilegar og meira en nokkur hagspekingur hafði látið í ljós.  Hefur gildi bandaríkjadals lækkað á einu ári úr u.þ.b.130 kr í u.þ.b. 115 kr. Hvort sem þetta má túlka sem traustsvott á hagstjórnina í landinu eða ekki, þá er þessi þróun mjög hjálpleg við að koma böndum á verðbólguna.  Við viljum stefna að því að uppfylla öll Maastricht-skilyrðin, og þá er frumskilyrði að ná verðbólgunni undir 2,0 % á ári og er reyndar ekki nóg miðað við núverandi ástand á evru-svæðinu, en það er reyndar óheilbrigt núna og ekki eftirsóknarvert, eins og rakið verður í þessum pistli. 

Það er hægt að fullyrða það með vísun til samkeppnihæfni útflutningsatvinnuveganna og með samanburði við evrulönd á borð við Írland, að hefði evran verið við lýði hérlendis, þegar peningakerfi heimsins hrundu, þá hefði endurreisnin gengið enn hægar, og hefur hún þó gengið allt of hægt vegna glataðra tækifæra, ofstækis og mistaka ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Nú óttast margir hagspekingar, en þeir hafa reyndar ekki reynzt góðir í hlutverki völvunnar með krystallskúluna, að vestræn ríki, t.d. evru-svæðið, séu að sogast ofan í hringiðu verðhjöðnunar, sem mjög erfitt geti verið að komast upp úr.  Verðhjöðnun leikur hag almennings jafnvel enn verr en verðbólga.  Það er vandrataður hinn gullni meðalvegur, og leiðin þangað liggur um afkastaaukningu, arðsamari fjárfestingar og þar með aukna verðmætasköpun, en hvorki hókus pókus fjármálagjörninga né peningalegra sjónhverfinga á borð við lögeyrisskipti án réttrar undirstöðu.  Það er hægt að vinna sig út úr vandanum.  

Á evru-svæðinu lækkaði 12 mánaða verðbólga í september 2013 úr 1,1 % í 0,7 % í október.  Fyrir ári var verðbólgan þarna 2,5 %.  Markmið evrópska seðlabankans (ECB) er "undir, en nálægt 2,0 %".  Í maí 2013 lækkaði þessi seðlabanki viðmiðunarvexti sína í 0,5 %, og nýlega voru þeir lækkaðir í 0,25 %, svo að þar á bæ óttast menn greinilega, að aðhaldsaðgerðir og mikil skuldsetning geti sogað ríkin ofan í hringiðu verðhjöðnunar.  ECB berst augsýnilega harðri baráttu við verðhjöðnunarvofuna, en það bendir ýmislegt til, að hann muni tapa þeirri baráttu, og þar með má búast við feykilegu félagslegu og peningalegu umróti á evrusvæðinu, sem getur fækkað aðildarlöndum evrunnar með miklum stjórnmálalegum afleiðingum.   

Merkilegust er nú um stundir hagþróunin í BNA-Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Verðbólgan er þar aðeins rúmlega 1,0 %, en verðbólgumarkmið bandaríska seðlabankans er 2,0 %.  Þetta gerist þrátt fyrir skefjalausa seðlaprentun bankans í 5 ár frá hruni, undanfarið um USD 85 milljarðar á mánuði, sem er miklu meiri seðlaprentun en ECB hefur stundað, enda hafa prússnesk viðhorf til fjármála átt hljómgrunn innan bankaráðsins við Frankafurðu.  Verðhjöðnunar hefur jafnvel gætt suma mánuðina í BNA. 

Hagfræðingar óttast, að þessi gríðarlega seðlaprentun muni valda hagbólu í náinni framtíð, en núna er svo mikill kraftur í bandaríska hagkerfinu, að það össlar áfram á 3,0 % hagvexti á ári og dregur lömuð hagkerfi evrusvæðisins og Japans með sér.  Japanir eru loksins eftir 20 ára verðhjöðnun að ná sér upp úr henni.  Svo mikill vágestur sem verðbólga er, þá er verðhjöðnun jafnvel enn verri, því að launin lækka þá, en skuldirnar standa í stað.  Hagkerfið dregst saman.  Þetta sýnir í hnotskurn, hversu stöðugleikinn er mikils virði.  Íslendingar geta náð stöðugleika í hagkerfinu, en þá verða allir að leggjast á eitt og fórna nokkru fyrir ávinning í náinni framtíð.  Hugmyndum um miklar krónutöluhækkanir í kjarasamningum fjölmennra stétta, opinberra starfsmanna eða annarra, verður að fórna að sinni þar til hinu opinbera vex fiskur um hrygg við lækkun hræðilegrar vaxtabyrðar af skuldum.  

Nú vokir vofa verðhjöðnunar yfir evrusvæðinu og hefur reyndar þegar hafið innreið sína í sum lönd Suður-Evrópu, þar sem laun hafa lækkað mikið, enda er það eina ráðið auk kerfisbreytinga og framleiðniaukningar fyrir þau til að ná sér aftur á strik eftir hrunið.  Á einu ári hefur verðbólgan á evru-svæðinu lækkað úr 1,5 % á ári í 0,8 % á ári og er lækkandi í þeim mæli, að seðlabanki evrópu virðist ekki fá við neitt ráðið.  

Þjóðarframleiðslan á evrusvæðinu í heild dróst saman um 0,4 % árið 2013, og er spáð vexti um 1,1 % í ár samkvæmt tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar 5. nóvember 2013.  Atvinnuleysið er á evru-svæðinu að jafnaði 12,2 % eða tvöfalt hærra að tiltölu á við BNA.  Hin sterka evra virkar hamlandi á efnahaginn vegna bágrar stöðu útflutningsgreina, nema þar sem afköstin eru mest.  Hlutfallið 1 EUR/1 USD = 1,35 er útflutningsgreinum evrusvæðisins þungt í skauti.  Hlutfallið er 5 % hærra en fyrir ári.  Evran dregur þess vegna hagkerfið í átt til verðhjöðnunar.  Mörg ytri skilyrði virka í sömu átt, eins og hér verður rakið.  

Kýpur, Írland, Portúgal og Spánn stríða við háar opinberar og einkaskuldir.  Grikkland og Ítalía búa við háar opinberar skuldir. Nafngildi skuldanna helzt óbreitt í verðhjöðnun, en greiðslugetan rýrnar.  Það mun hrikta gríðarlega í evrusamstarfinu og líklegt, að í það komi brestir, ef eitt eða fleiri þessara landa lenda í verðhjöðnunarbasli.  Evrusamstarfið hangir nú þegar á horriminni, svo að verðhjöðnun gæti riðið því að fullu.     

Meginástæða verðlagslækkananna er lækkun orkuverðs, en það hefur nú hafið lækkunarferli um allan heim vegna hagkerfisslaka og vegna aukins framboðs á olíu og jarðgasi, sem unnin eru með nýjum aðferðum úr sandsteini og leirlögum.  Þetta mun gera dýrustu lindirnir óhagkvæmar og vonlausar í rekstri.  Drekasvæðið er eitt þeirra.  Íslenzkir neytendur hafa orðið varir við eldsneytislækkanir, en enn meiri eldsneytislækkanir hljóta að fylgja fljótlega. 

Eldsneytislækkun hefur áhrif á allt vöruverð, af því að eldsneytið kemur alls staðar við sögu, þó að ekki sé nema flutningskostnaðurinn.  Flutningskostnaðurinn til landsins hlýtur að lækka og flugmiðaverðið sömuleiðis.  Allt á þetta að virka örvandi á íslenzka hagkerfið og auka kaupmátt almennings og draga þar með í sömu átt og skattalækkanir ríkisstjórnarinnar.  

  Við þessar aðstæður væntanlegs verðstöðugleika og hagvaxtar væri það algert ábyrgðarleysi af stéttarfélögum að spenna bogann hærra en um var samið á jólaföstunni 2013.  Það eru svo miklir hagsmunir í húfi hér fyrir þorra landsmanna varðandi framtíðar kjarabætur á traustum grunni, að öllum viðbótar launakröfum, hversu réttmætar sem þær kunna að virðast, verður að hafna af staðfestu og einurð.  Allir verða að bíða þess, að ávextirnir þroskist áður en þeir verða tíndir.    

Seðlabankavextir 2007-2013

 

  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband