Heimildasöfnun er eitt, rökrétt ályktun annað

kvöldi 13. maí 2018 sýndi RÚV-Sjónvarp heimildarmynd um laxeldi.  Í myndinni voru fallegar landslagsmyndir, aðallega frá Noregsströnd, Vestur-Skotlandi og Svíþjóð, og einnig frá strönd Washington fylgis á NV-strönd Bandaríkjanna.  Með viðtölum við þarlenda o.fl. var gerð grein fyrir mengun, lúsasmiti og erfðablöndun af völdum laxeldis í sjókvíum á þessum svæðum.

Þetta var allt gott og blessað, en svo snaraðist heldur betur á merinni, þegar tekið var til við að heimfæra ófarir og mistök við laxeldi þarlendra á Ísland.  Við það breyttist fræðslumynd í óheflaða áróðursmynd gegn laxeldi í sjókvíum við Ísland.  Nú skal leitast við að finna þessum orðum stað, m.a. með vísun til fræðimanna.

1) Tökum fyrst mengunina.  Þar er aðallega átt við fóðurleifar og úrgang.  Þetta er í raun áburður og næring fyrir fjarðalífið í grennd við kvíarnar, en menn eru sammála um, að heppilegt sé vegna staðbundinnar níturmyndunar og súrefnisþurrðar, sem af uppsöfnun leiðir, að hvíla eldissvæðin, eins og þurfa þykir, í sumum tilvikum 1 ár af hverjum 3.  Eftirlit er að hálfu starfsleyfishafa haft með umhverfinu, opinberir eftirlitsaðilar gera stakar athuganir, og eru þetta væntanlega nauðsynlegar og nægilegar mótvægisaðgerðir gegn þessari mengun.

2)Gert var mikið úr lúsasmiti villtra stofna af eldislaxinum.  Það blasir við, að sú hætta er hverfandi á Íslandi m.v. nefnda staði erlendis. 

Í fyrsta lagi er sjávarhiti svo lágur við Ísland, að sníkjudýrið laxalús þrífst ekki, nema í undantekningartilvikum.  Þetta getur þó breytzt, ef sjórinn heldur áfram að hlýna við Ísland. Lúsin er mikill vágestur í laxeldi við Noreg og Skotland, en hérlendis er notkun lúsareyðis eða sýklalyfja í lágmarki og ætti að verða tilkynningarskyld til rekstrarleyfisveitanda.

Í öðru lagi er sjókvíaeldi aðeins leyft við Ísland á stöðum í grennd við heimkynni um 1 % íslenzku laxastofnanna.  Það er þess vegna út í hött að bera aðstæður á Íslandi saman við t.d. Noreg eða Skotland, þar sem sjókvíaeldi hefur áratugum saman verið staðsett við mynni helztu laxveiðiáa þessara landa.

3)Það var í téðri "heimildarmynd" mikið fimbulfambað um hættuna á erfðablöndun, ef eldislax nær upp í ár hérlendis til að hrygna.  Áhrif einstaka eldislaxa, sem ná að mynda klak með villtum fiski, eru engin merkjanleg á villta stofninn.  Rannsóknir norska fræðimannsins Kevens Glover o.fl. benda til, að þótt hlutfall sleppifiska í á sé 5 %-10 % af villta stofninum í hálfa öld, verði áhrif erfðablöndunar mjög lítil og hamli í engu vexti og viðgangi stofnsins.  Fyrst við hlutfallið 30 %-50% í hálfa öld verða breytingar á villta stofninum augljósar og til hins verra.  Leikmönnum, sem fullyrða allt annað, duga ekki upphrópanir, því að gríðarlegir almannahagsmunir eiga hér í hlut, þar sem 21 starf/kt verða til við laxeldisstarfsemina (7 bein+14 óbein í Noregi), og jafnvel meira á Íslandi, þar sem framleiðslueiningarnar eru minni.

Við áhættumat sitt beitir Hafrannsóknarstofnun varúðarreglu og miðar við 4 % leyfilegt hámark eldislaxa af villtum löxum í á.  Hún metur burðarþol Ísafjarðardjúps 30 kt/ár í sjókvíum.  Það gætu verið 12 M (M=milljón) fiskar.  Villtir laxar í ám, sem renna út í Ísafjarðardjúp, eru fáir, e.t.v. 600 talsins á ári.  Leyfilegt hámarkshlutfall hrygnandi eldislaxa í ám Ísafjarðardjúps er þá 2 ppm (ppm=hlutar úr milljón) af fiskafjölda í sjókvíum. 

Traustari sjókvíar, bætt vinnubrögð og strangur gæðastjórnunarstaðall hafa dregið úr líkum á, að laxar sleppi úr sjókvíum hér við land, um 98 %.  Þessa verða gagnrýnendur sjókvíaeldis á laxi að taka tillit til í málflutningi sínum, ef eitthvert vit á að vera í honum.  Þegar þar að auki er tekið tillit til, að aðeins hluti sleppifisksins ratar upp í árnar og hrygnir þar með eldislaxi, má gera ráð fyrir, að aðeins 1 ppm eldislax í sjókvíum geri þetta hér við land.  Hann getur samt hvergi gert óskunda með því.  Jafnvel í Ísafjarðardjúpi með 30 kt/ár af eldislaxi í sjókvíum, yrði blöndunin innan öryggismarka Hafrannsóknarstofnunar.  Þess vegna ætti henni ekkert að vera að vanbúnaði með að hækka áhættumörkin upp í burðarþolsmörkin þar, og leyfisveitendum með að veita virðurkenndum aðilum starfsleyfi og rekstrarleyfi, sem gjarna gæti farið stighækkandi á 5 árum upp í 30 kt/ár, í enn frekara varúðarskyni, og stöðvun aukningar, ef tilefni gefst til. 

Þann 8. maí 2018 birtist fróðleg grein í Fréttablaðinu eftir Gunnar Stein Gunnarsson, líffræðing, undir fyrirsögninni:

"Stofnanda áhugamannafélagsins IWF svarað".

Þar skrifaði hann m.a. um rannsóknir Kevens Glover, en af niðurstöðum þeirra má ráða, að áhyggjur m.a. hagsmunaaðila hérlendis, s.s. veiðiréttarhafa í ám, sé ástæðulaus út frá líffræðilegum og erfðafræðilegum forsendum:

"Reyndar mætti Ingólfur lesa fræðigreinar af meiri athygli áður en hann ríður fram á ritvöllinn, en í grein Glovers kemur einmitt fram, að því óskildari sem aðkomulaxinn er villta laxinum, þeim mun ósennilegra er, að hann skilji eftir sig spor.

Í grein Glovers kemur fram, að samsetning ákveðinna þátta, eins og lítill árangur eldislaxins við hrygningu, náttúrulegt val, sem hyglir aðlöguðum fenótýpum/genótýpum frá hinum villtu stofnum, sem og fenótýpiskur sveigjanleiki, dregur úr hraða og stærðargráðu breytinga í fenótýpum/genótýpum og líffræðilegum einkennum villta laxastofnsins, sem hefur upplifað innstreymi frá eldislaxi.

Þetta er í samræmi við niðurstöður annarra aðila í fræðaheiminum, svo sem Hindar, Norsku hafrannsóknarstofnunarinnar og fleiri.  Það þarf mikla, stöðuga og viðvarandi innblöndun af eldislaxi í áratugi til að hætta á erfðablöndun sé raunveruleg (Hindar;2006, 2017).  Um þetta eru fræðimenn nokkuð sammála í Noregi og víðar."

Með öðrum orðum er æxlunargeta eldislaxins dauf og náttúran hyglir hinum aðlagaða, villta stofni umfram stofn, sem í margar kynslóðir hefur verið ræktaður af mönnum til að vaxa hratt og verjast lús fremur en að geta af sér öfluga einstaklinga.  Þar af leiðandi er það fyrst við yfir 30 % "innstreymi" samfleytt áratugum saman, sem erfðafræðilegra breytinga tekur að gæta í villtum laxastofnum.  Slíkt er algerlega útilokað við núverandi aðstæður á Íslandi.  

Þá er rétt í þessu samhengi að vekja athygli á grein tveggja norskra prófessora við Landbúnaðarháskólann að Ási og við Háskólann í Björgvin, Erik Slinde og Harald Kyvi, en þeir hafa áhyggjur af úrkynjun villtra laxastofna, sérstaklega við skyldleikaræktun í ám með fáum löxum.  Grein þeirra:

"Viltu bjarga laxinum ? - leggðu þá flugustönginni", 

birtist í Morgunblaðinu, 12. maí 2018:

"Flestir [göngulaxanna] finna sína á, en um 5 % fara í aðra. Þetta skiptir máli; það hindrar skyldleikaræktun, sem hætta er á, séu fáir fiskar í ánni.  Skyldleikaræktun er ógn við laxastofna.  Sloppnir eldislaxar í Noregi synda sumir einnig upp í ár til hrygningar með sínum villtu ættingjum.  Mjög neikvætt, segja yfirvöld.  En eru til sérstök eldislaxagen, sem eru óheppileg, eða eru genin bara venjuleg, gagnleg laxagen ?

Bara brot þeirra laxa, sem synda til hafs úr hverri á, kemur aftur, og í sumum ám er fjöldinn ótrúlega lítill.  Stærsta ógn laxastofna er því veiðin í ánni.  Með vissu má því segja, að vilji maður bjarga villta laxinum, þá eigi maður að leggja veiðistönginni.  Sumir segja hægt að veiða laxinn og sleppa honum aftur.  Það er dýraníð, en úr því að laxinn gefur ekki frá sér hljóð, þá er það kannski í lagi ?"

Þarna kveður við nýjan tón m.v. mest áberandi umræðu á þessu sviði á Íslandi.  Tveir háskólaprófessorar gera því skóna, að takmörkuð blöndun við aðra stofna, eldislax innifalinn, leiði til æskilegrar erfðafræðilegrar fjölbreytni, sem er nauðsynleg til að hindra skaðlega skyldleikaræktun.

Þá er óhjákvæmilegt að gefa gaum að orðum þeirra um dýraníð, og dýraverndarsamtök, veiðiréttareigendur, dýralæknar og lögfræðingar þurfa að komast að niðurstöðu um það, hvort "veiða-sleppa" aðferðarfræðin samræmist núgildandi íslenzkum lögum um dýravernd og velferð dýra.

Norsku prófessorarnir hnykkja á vangaveltum sínum um veiðina á villtum laxi í lok greinar sinnar:

"Veiðin á villtum laxi í ám er umhugsunarverð og má líta á sem umhverfisfjandsamlega.  Það er tímabært, að yfirvöld skoði stjórnun á erfðaefni laxa og laxveiðiáa.  Yfirvöld ættu að spyrja stofnanir sínar um, hvaða markmið þær hafa sett um stjórnun erfðafjölbreytileika, og það ætti að gilda um öll dýr, ekki bara um lax."

Norður-Atlantshafslaxastofnarnir eiga allir undir högg að sækja.  Hér benda tveir fræðimenn á 2 hugsanlegar skýringar, ofveiði og úrkynjun stofnanna vegna skyldleikaræktar innan smárra stofna.  Það er nær að beina sjónum að raunverulegu vandamáli en að upphefja galdraofsóknir á grundvelli þröngsýni og fáfræði, eins og vanalega, gegn mikilvægri atvinnugrein á Íslandi, sem beitir beztu fáanlegu tækni og staðlaðri gæðastjórnun við sjókvíaeldi á eldislaxi.  Tal um geldingar og landeldi er óraunhæft í núverandi viðskiptaumhverfi.  Geldingar þessar geta flokkazt undir dýraníð og landeldið útheimtir mikla orku, ferskvatn og jarðhita.   

 

 

 

 

 


Ádrepa frá EES í garð Hæstaréttar

Skörin er farin að færast upp í bekkinn, þegar Eftirlitsstofnun EFTA, sem í raun er handlangari Evrópusambandsins, ESB, er farin að senda áminningarbréf til utanríkisráðuneytis Íslands út af því, að Hæstiréttur Íslands láti ekki EES-löggjöf njóta forgangs gagnvart íslenzkri löggjöf, eins og kveðið sé á um í EES-samninginum.  Víst er, að slíkar ádrepur munu verða tíðari, ef Alþingi samþykkir stóra lagabálka á borð við Persónuverndarlagabálkinn og Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem hvor um sig færir innlent vald til yfirþjóðlegrar stofnunar. Sennilega telur Hæstiréttur þessar kröfur ESA stríða gegn Stjórnarskrá. EES-aðildin leiðir til lögfræðilegs kviksyndis. Það er mikill ábyrgðarhluti að hálfu þingheims að leiða landsmenn lengra út í það fúafen.

13. desember 2017 sendi ESA formlegt upphafsbréf til íslenzka utanríkisráðuneytisins um mál, sem snýst um, að Ísland hafi ekki uppfyllt réttarfarslegar skyldur sínar samkvæmt Bókun 35 við EES-samninginn og að þar með hafi Ísland brotið gegn EES-samninginum, grein nr 3. Bréfið sjálft er í viðhengi þessa pistils. 

ESA vísar til nokkurra dóma Hæstaréttar, þar sem hann virðist ekki hafa farið eftir Bókun 35 um, að landsreglan skuli víkja.

Bókun 35: "Í tilviki mögulegra árekstra á milli framkvæmdar á EES-reglum við aðrar lagareglur, skuldbinda EFTA-ríkin sig til, ef nauðsyn reynist, að setja í lög, að EES-reglurnar skuli hafa forgang í slíkum tilvikum." 

Stenzt þetta íslenzku Stjórnarskrána ?

Grein 3 í EES-samninginum hljóðar svo: "Samningsaðilar skulu gera almennar eða sértækar ráðstafanir til að uppfylla skyldur, sem leiða af þessum samningi.  Þeir skulu forðast allt, sem getur ógnað markmiðum þessa samnings.  Þeir skulu ennfremur létta samstarfið innan ramma þessa samnings."

Bókun 35 fyrirskrifar sem sagt, að EES-reglur skuli í framkvæmd njóta forgangs fram yfir aðrar lagareglur.  Þetta felur í sér, að EES-rétturinn almennt nýtur ekki forgangs fram yfir þjóðarrétt, en þegar kemur að framkvæmdinni og velja þarf á milli, er EES-rétturinn þó rétthærri.  Ennfremur merkir þetta, að EES-rétturinn nýtur ekki forgangs gagnvart Stjórnarskrá.  Hlutverk bókunarinnar er, að EES-rétturinn hafi svipað afl í  EFTA-löndunum eins og EES-rétturinn og viðeigandi ESB-reglur í aðildarlöndum ESB, en án þess að valdsvið löggjafans í EFTA-löndunum sé almennt rýrt.

EFTA-dómstóllinn, sem ætíð nýtir dómafordæmi frá ESB-dómstólinum, ef þau finnst, hefur í dómaframkvæmd lýst notkunarsviði þessarar grunnreglu um að veita EES-réttinum forgang þannig, að það gildi um EES-reglur í verki, sem séu nægilega skýlausar og nákvæmar til að veita einkaaðilum réttindi.  

Skýringin á því, að ESA hefur nú undirbúið málssókn gegn Íslandi, er, að Ísland hefur ekki framkvæmt Bókun 35 við grein 3 í EES-löggjöf sinni, sem fyrirskrifar, að "statutes and regulations shall be interpreted, in so far as appropriate, in conformity with the EEA Agreement and the rules laid down therein". 

Að mati ESA gefur íslenzka ákvæðið einvörðungu til kynna, að landsreglur skuli túlka í samræmi við ætlaða meginlagareglu EES.  Ætlaða meginreglan felur í sér, að gert er ráð fyrir, að landsreglur séu í samræmi við kvaðir EES-réttarfars.  Þessi túlkunarmeginregla leysir hins vegar ekki úr tilvikum, þegar staðfest er ósamræmi á milli landsreglunnar og þjóðréttarlegra kvaða.  

Það er athyglisvert, að ESA heldur því fram, að Hæstiréttur Íslands brjóti í bága við Bókun 35, þótt athyglinni sé beint að innleiðingu löggjafans á Bókun 35.  Þetta getur vakið umræðu um, hvort ESA telji Bókun 35 hafa bein áhrif á þjóðréttinn.  

Ísland fékk frest til 13. ágúst 2018 til að svara upphafsbréfi ESA, og verður athyglisvert að sjá viðbrögð Stjórnarráðsins.

Ýmsir hafa fallið í þá gryfju að halda því blákalt fram, eins og Viðskiptablaðið (VB) 14. maí 2018 og nokkrum sinnum áður með vísun til túlkunar "Stjórnarráðsins", að áhrif meiri háttar gjörninga ESB muni "lítil" áhrif hafa á Íslandi, þótt Íslendingar gangist undir lögsögu þessara gjörninga.  Hér er mikil og alvarleg meinloka á ferðinni.  Spyrja má, hvernig slíkar mannvitsbrekkur komust á legg á Íslandi, sem í einu vetfangi sáu slíka meinbugi á lagasmíð ESB, að hún verði bara óvirk við innleiðingu hér norður í Atlantshafi.  Þetta er auðvitað algerlega óboðlegur málflutningur, sem gripið er til af rökþrota mönnum, sem ekki geta tínt til eina góða röksemd fyrir því að taka þá áhættu að stinga hendinni upp í gin ljónsins með skýlausu fullveldisframsali.  

Tilvitnun í VB 14.05.2018:

"Sérfræðingar stjórnarráðsins segja hins vegar, að fyrst að Ísland tengist ekki raforkukerfi Evrópu, hafi orkumálapakkinn ekki mikil áhrif hér á landi."

Það er einfeldningsháttur að halda, að í svo miklu hagsmunamáli fyrir almenning á Íslandi sem það er að hindra, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB öðlist lagagildi hérlendis, sé hægt að skáka í skjóli "sérfræðinga stjórnarráðsins".  Eru þeir sérfræðingar á sviði rafmagnsmála, lögfræði eða annars ?  Kannski þeir séu lögfræðingar, sem sérhæft hafa sig á orkumálasviði, eins og Henrik Björnebye, "norsk ekspert i energirett, EU-rett og EÖS-rett".  VB hefur vitnað í hann, en hann á viðskiptahagsmuna að gæta í norskri orkustarfsemi, sem sér fram á hærra raforkuverð með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins. Hann gerir lítið úr áhrifum innleiðingar Þriðja orkubálksins í Noregi og sér ekkert fullveldisframsal felast í gjörðinni. Það er nauðsynlegt að gæta að viðskiptatengslum, þegar ráðizt er í tilvitnanir út fyrir landsteinana í aðila, sem óþekktir eru hérlendis.    

Það eru margir norskir lagaprófessorar, sem nær væri fyrir VB og aðra hérlendis að vitna til. Þeir gæta fyllstu hlutlægni sem fræðimenn.  Þar má nefna Peter Örebech, lagaprófessor við Háskólann í Tromsö með ESB-rétt sem eina af aðalkennslugreinunum.  Hann er mjög gagnrýninn á fullveldisframsalið, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn og ACER munu hafa í för með sér, verði bálkurinn innleiddur í norska lagasafnið.

Þá væri VB og öðrum, sem fjalla um þetta mál, nær að fjalla um "Ice Link" og skuldbindingarnar, sem af téðri innleiðingu munu leiða, gagnvart Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER í stað innihaldslausts fimbulfambs um "lítil áhrif" Þriðja orkubálksins hérlendis, á meðan Ísland er enn ótengt við raforkukerfi Bretlands og þar með meginlandsins.   

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skuldbindingar Orkusambands ESB

Það hefur lítt stoðað fyrir áhangendur ESB og stuðningsmenn inngöngu Íslands í Orkusamband ESB að hamra á því, að slík innganga hefði nánast engar skuldbindingar í för með sér fyrir landsmenn og mundi litlu sem engu breyta fyrir íslenzka stjórnsýslu á orkumálasviði.

  Í Noregi hefur engum viti bornum manni dottið í hug að halda slíku fram um inngöngu Noregs í Orkusambandið, og á Íslandi hefur þessi innantómi áróður algerlega misst marks. Það er ekki nóg að setja sig á háan hest og þykjast allt vita, en vera í raun bara yfirborðssvamlari í málaflokki orkumála og án innsæis á þýðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB fyrir land og þjóð.

Það má marka af skoðanakönnun Maskínu í um 2 vikur í kringum mánaðamótin apríl-maí 2018, þar sem næstum tífalt fleiri lýstu sig andvíga en fylgjandi því að færa meira vald yfir íslenzkum orkumálum til evrópskra stofnana og tiltölulega fáir voru óákveðnir, að þjóðin er vel með á nótunum í þessu máli og lætur ekki viðmælendur búrókrata í ESB og kratíska áhangendur skrifræðisveldisins þar segja sér fyrir verkum.   

Norsku lagaprófessorarnir Holmöyvik og Haukeland Fredriksen lýsa áhrifunum þannig í hnotskurn fyrir Noreg, og þau má heimfæra á Ísland:

"Bindingaráhrif ákvarðana ESA munu þar að auki koma fram sem regluverk EES, sem mun verða hluti af innanlandsrétti í Noregi.  Norsk pólitísk stjórnvöld munu ekki geta gripið inn í framkvæmd innanlands af spegilákvörðun frá ESA [ESA speglar ACER í EFTA-löndunum - innsk. BJo] án þess að brjóta norsk lög.  Ef landsreglarinn (RME) [útibú ACER] verður með múður, geta væntanlega einkaaðilar framkallað framkvæmd [ákvörðunar ACER] með því að halda því fram gagnvart norskum dómstólum, að norsk lög skyldi landsreglarann til að framkvæma samþykkt ESA."

Síðan slá lögspekingarnir norsku eftirfarandi föstu: "Samkvæmt orðanna hljóðan í Stjórnarskránni, grein nr 115, og hefðum í Stórþinginu, útheimtir samþykkt á aðild Noregs að ACER [Orkustofnun ESB] 3/4 meirihluta í Stórþinginu." 

Peter Örebech - prófessor í réttarfari við Háskólann í Tromsö, bendir einnig á, að landsreglarinn á hvorki að meðtaka dómsuppkvaðningar né pólitísk merki frá Noregi.  Hann er þeirrar skoðunar, að RME-landsreglarinn, sé ekki norsk ríkisstofnun:

"Aðildin að Orkusambandi ESB (og ACER) er reist á því kerfi, að norsk stjórnmálaleg yfirvöld geti ekki gripið inn í gegn óæskilegum afritunarákvörðunum RME/ESA, af því að norsk löggjöf leggur nýja landsreglaranum, RME, það á herðar að framkvæma ákvarðanir ESB.  RME er fjármagnað af Stórþinginu og með yfirstjórn, sem skipuð er af Olíu- og orkuráðuneytinu án þess að vera stofnun á vegum norska ríkisins, heldur á vegum ESB."

Það orkar mjög tvímælis, að þetta fyrirkomulag standist stjórnarskrár Noregs og Íslands, þar sem vald á sviði orkumála, sem áður var hjá innlendu ríkisvaldi, er í raun flutt til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem EFTA-ríkin ekki munu fá fullgildan fulltrúa (með atkvæðisrétti, aðeins áheyrn).  Það getur engum blandazt hugur um það lengur, að aðild Íslands að Orkusambandi ESB mundi fela í sér stórfellda breytingu á íslenzkum rétti og stjórnvaldi, þ.e. um er að ræða aðgerð, sem felur ótvírætt í sér fullveldisframsal á sviði orkumála, sem þjóðin að öllum líkindum er algerlega andsnúin, sbr skoðanakönnun Maskínu, sem birt var 13. maí 2018.

Ríkisstjórnin verður, væntanlega í sumar, að finna lausn á því, hvernig hún kemur þessu máli fyrir kattarnef.  Að biðja Alþingi um að framselja ríkisvald yfir mikilvægum málaflokki til yfirþjóðlegrar stofnunar á fullveldisári verður ríkisstjórninni þyngra í skauti en hún ræður við, enda flögrar það varla að oddvitum ríkisstjórnarinnar.    

 


Stjórnvöld og Stjórnarskráin

Arnaldur Hjartarson, aðjunkt við Lagadeild Háskóla Íslands, ritaði þann 2. júní 2018 grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Stjórnarskráin, EES-samningurinn og reglur um persónuvernd".

Tilefni greinarinnar er frumvarp ríkisstjórnarinnar um innleiðingu nýs umdeilds lagabálks ESB um persónuvernd. Þessi lagabálkur og krafa ESB gagnvart EFTA-ríkjunum um upptöku hans án tveggja stoða fyrirkomulags er enn ein staðfesting á stefnubreytingu ESB til hins verra fyrir EFTA, sem ekki dugar að láta sem ekkert sé.

Það er fengur að grein fræðimanns á sviði lögfræði um þetta viðkvæma mál. Of lítið bitastætt hefur verið í þeim efnum. Það er mikill samhljómur með þessari grein aðjunktsins og greinargerð norsku andófssamtakanna "Nei til EU", sem birtist hér á vefsíðunni 2. júní 2018 undir heitinu "Persónuvernd með fullveldisframsali", https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2217736 .

Það er ekki hægt að bera í bætifláka fyrir þetta frumvarp með þeirri viðbáru, að fullveldisframsalið, sem í því felst breyti litlu fyrir daglegt líf fólksins í landinu, sé "lite inngripende", eins og Norðmenn segja, sbr niðurlagsorð aðjunktsins:

"Þær reglur, sem felast í reglugerð ESB um persónuvernd, eru til þess fallnar að hafa víðtæk áhrif á íslenzkt samfélag.  Alþingi gefst nú tækifæri til að ræða hið nýja frumvarp.  Vonandi gefst nægur tími til að kanna, hvort gætt hafi verið fyllilega að ákvæðum stjórnarskrárinnar í samningaviðræðum ríkisins við viðsemjendur þess á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar."

Þetta er mjög varfærnislega orðað, þótt tilefnið sé ærið, því að í augum leikmanna blasa við gróf stjórnarskrárbrot, ef af þessari innleiðingu verður.  Þar að auki er téðum samningaviðræðum ekki lokið, því að Sameiginlega EES-nefndin hefur enn ekki lokið umfjöllun þessa máls.  Þar af leiðandi hefur ríkisstjórnin farið fram úr sér með framlagningu þessa frumvarps.  ESB á líka eftir að samþykkja aðlaganir gagnvart EFTA.  Frumvarp þetta er vanbúið og ótækt inn í lagasafn Íslands.  Alþingi ber þess vegna að vísa því aftur til ríkisstjórnarinnar eða hreinlega að fella það.  

Aðjunktinn sýnir fram á, að í frumvarpinu felst bæði framsal framkvæmdavalds og dómsvalds til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland á enga aðild.  Hvorki ríkisstjórn né Alþingi hafa umboð til slíks gjörnings:  

"Þessari stofnun ESB [EDPB-Persónuverndarráðinu-innsk. BJo] verður í einhverjum tilvikum heimilað að gefa Persónuvernd bindandi fyrirmæli.  Í þessu felst fyrirætlun um framsal framkvæmdavalds.  

Ákvarðanir stofnunar ESB virðist einungis mega bera undir Evrópudómstólinn, en íslenzka ríkið á ekki aðild að þeim dómstóli.  Þá mun ætlunin með reglugerð ESB jafnframt vera sú að binda hendur íslenzkra dómstóla, þegar kemur að mati á lögmæti þeirra ákvarðana Persónuverndar, sem tengjast ákvörðunum stofnunar ESB, sbr 143. mgr. formálsorða reglugerðarinnar.  Ef þetta er rétt, þá felst í þessu fyrirætlun um framsal dómsvalds."

Það er glapræði að grafa undan réttarríkinu með því að halda áfram á þessari braut spægipylsuðferðar við sniðgöngu íslenzku Stjórnarskrárinnar.  Stjórnvöld verða að leita sér fullnægjandi umboðs áður en lengra er haldið.  Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvert mál af þessu tagi fullveldisframsals er ein leið til að afla fullnægjandi lýðræðislegs umboðs fyrir þessum og öðrum slíkum gjörningum.  Önnur leið er stjórnarskrárbreyting, sem veitir Alþingi slíkar heimildir með skilyrðum, t.d. með ákvæðum um aukinn meirihluta, þegar framsal fullveldis ríkisins á sér stað til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland ekki er fullgildur aðili. 

Festung Europa


Persónuvernd með fullveldisframsali

Hin nýja persónuverndargjörð ESB er óskapnaður, sem á eftir að reynast okkur óþægur ljár í þúfu, þótt ekki væri nema vegna kostnaðarlega mjög íþyngjandi áhrifa á atvinnulíf og opinbera stjórnsýslu.  Ef kostnaðaraukinn svarar til 1 % af launakostnaði fyrirtækjanna, sem er vægt áætlað, er um að ræða 10 miaISK/ár, sem betur væru komnir í launaumslögunum eða í fjárfestingum fyrirtækjanna. Verst kemur þetta niður á minnstu fyrirtækjunum, sprotunum, sem eiga að verða drifkraftar framleiðniaukningar í landinu.

Nú er viðkvæðið, að þessi innleiðing sé óhjákvæmileg.  Það er nauðhyggja, sem stafar af innrætingu Evrópusambandsins. Hvernig fara Svisslendingar að, og hvernig ætla Bretar að skiptast á persónuupplýsingum við fyrrverandi félaga sína í ESB, þegar þeir hafa yfirgefið þá ?  Hvernig verður þessum samskiptum við Bandaríki Norður-Ameríku háttað.  Það er holur hljómur í þessu samræmingarhjali ESB.

Hvað sögðu fulltrúar norsku andófssamtakanna "Nei til EU", þegar þeir mættu hjá viðkomandi nefnd Stórþingsins til að veita umsögn um þetta alræmda persónuverndarfrumvarp.  Það er fróðlegt að kynna sér það.  Þýðing vefbónda fer hér á eftir:

""Nei til EU" heldur því fram, að frumvarpið um framkvæmd persónuverndargjörðarinnar hafi í för með sér valdframsal til ESB, sem er mikið áhyggjuefni og sem ríkisstjórnin virðist allt of lítinn gaum gefa.  Enn einu sinni á að yfirfæra vald til yfirþjóðlegrar stofnunar, í þessu tilviki Persónuverndarráðsins (EDPB).  Frumvarpið gefur ekki sannfærandi tryggingu gegn því, að ESB-dómstóllinn fái hlutverk við dómsúrskurð um samþykktir Persónuverndar (-stofnunarinnar norsku).

Gjörðin er reist á því, að hver starfsemi um sig beri ábyrgð á framkvæmd persónuverndarlöggjafarinnar. Það er ekki lengur tilkynningarskylda til Persónuverndarstofnunar né krafa um fyrirframsamþykki hennar.

Það er óljóst, hvernig jafnræðis verður gætt með þessu móti.  Hver starfsemi um sig verður að túlka og vinna á eigin spýtur eftir reglunum og ákvarða sjálf, hvort orðið skuli við kröfum um að fá að sjá gögn eða að þeim verði eytt. Þá getur auðveldlega orðið um mismunandi framkvæmd að ræða frá einni skrá til annarrar.  Krafa um tilkynningarskyldu til eftirlitsstofnunar mundi trúlega veita fyrirsjáanlegri og gegnsærri stjórnun.  

Yfirfærir vald til ESB-stofnunar:

Vandræðalegast við þessa gjörð er samt, að enn einu sinni er yfirþjóðlegt vald veitt ESB-stofnun, sem kölluð er Persónuverndarráðið (EDPB). Ráðið getur úrskurðað um ágreiningsmál á milli tveggja eða fleiri eftirlitsstofnana einstakra þjóða um meðhöndlun málefnis yfir landamæri, eða þegar deilt er um, hvaða eftirlitsstofnun (hvaða lands) á að sjá um mál fyrirtækis, sem starfar í nokkrum löndum.  Eftirlitsstofnanir í hverju landi eru í mörgum tilvikum skyldaðar til að æskja umsagnar Persónuverndarráðsins, sem getur fylgt máli eftir með bindandi samþykkt, ef skyldurnar eru ekki uppfylltar. 

ESB-stofnunin á að geta gert samþykktir, sem eru bindandi fyrir Persónuverndina í Noregi án þess, að samþykktin fari um hendur eftirlitsstofnunarinnar ESA.  Þetta brýtur gegn tveggja stoða kerfi EES-samningsins, þar sem aðgreining á að vera á milli málsmeðferðar gagnvart EFTA- og ESB-löndum.  Völd á sviði persónuverndar á þannig að flytja beint til ESB-stofnunar (1).  

Persónuverndargjörðin slær föstu, að Persónuvernd skal vera óháð stofnun og að yfirvöld í hverju landi skuli ekki geta gefið fyrirmæli (grein 52).  Persónuvernd er núna óháð stjórnvaldsstofnun, og ríkisstjórnin getur ekki skipað fyrir eða breytt einstökum ákvörðunum hennar.  Þessu er ætlað að tryggja sjálfstæða stöðu persónuverndarinnar.  Við erum þeirrar skoðunar, að það sé þá mótsagnakennt, að norska persónuverndin skuli vera óháð innlendum yfirvöldum, en vera gert að taka við fyrirmælum frá Persónuverndarráði ESB (2).  

Ríkisstjórnin viðurkennir í frumvarpinu, að valdaframsal eigi sér stað, en heldur því fram, að það "breyti litlu", sé "lite inngripende", og þar af leiðandi megi beita grein 26 í Stjórnarskrá (um hreinan meirihluta í Stórþinginu).  "Nei til EU" vill þá vísa til þess, að hin svokallaða kenning um "litlar breytingar" er umdeild í lögfræðinni og að hún styðst ekki við neitt í Stjórnarskrá.  Við teljum frumvarpið ekki geta hlotið afgreiðslu samkvæmt grein 26. Það er heldur ekki hægt að afgreiða það samkvæmt gr. 115 (í Stjórnarskrá um aukinn meirihluta), þar eð Noregur á ekki fullgilda aðild með atkvæðisrétti að Persónuverndarráðinu. Frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að leggja Persónuvernd undir Persónuverndarráð ESB ber þess vegna að hafna (3).  

Málflutningur fyrir ESB-dómstólinum ?:

Í svarbréfi til laganefndar Stórþingsins mælir dómsmálaráðherrann því í mót, að framkvæmd persónuverndargerðar ESB hafi í för með sér, að ESB-dómstóllinn fái nýtt hlutverk sem æðsta dómsvald gagnvart norsku eftirlitsstofnuninni einnig.  Í bréfinu er fullyrðingin: "Ákvarðanir Persónuverndarinnar er einvörðungu hægt að sannreyna fyrir norskum dómstólum."

Er þetta nú víst ?  Það er ESB-dómstóllinn, sem er úrskurðaraðili um ákvarðanir Persónuverndarráðsins.  Eins og komið hefur fram, eru ákvarðanir Persónuverndarráðsins bindandi einnig fyrir norsku Persónuverndina.  Hvernig mun ESB bregðast við því, að norskur dómstóll breyti ákvörðun, sem raunverulega kemur frá Persónuverndarráði ESB (4)?

Í frumvarpinu eru taldar upp nokkrar aðlaganir, sem gera á fyrir Noreg og hin EFTA-löndin.  Aðalatriðið er, að krafan í kafla 58 nr 4 um að fylgja skuli sáttmálum ESB skuli ekki gilda (orðin "í samræmi við sáttmálann").  EES-aðlögunin er ekki samþykkt í ESB.  Það, sem stendur í persónuverndargjörðinni núna þýðir, að ESB-dómstóllinn fær lögsögu í EFTA-löndunum (5).

Í sögu EES-samningsins eru mörg dæmi um einhliða forsendur norskra ríkisstjórna, sem ekki hafa staðizt.    Við erum þeirrar skoðunar, að tekin sé mikil áhætta með innleiðingu persónuverndargjörðarinnar áður en EES-aðlaganir hafa verið samþykktar í æðstu stofnunum ESB.

(1) Persónuverndarráð ESB gerir bindandi samþykktir fyrir persónuverndarstofnun hvers aðildarlands.  Það er gjörsamlega ótækt fyrir EFTA-löndin, brýtur tveggja stoða grunnregluna og er stjórnarskrárbrot á Íslandi og í Noregi.  Þessi innleiðing er þar af leiðandi ólögleg.

(2)  Að Persónuvernd, sem er sjálfstæð gagnvart íslenzkum stjórnvöldum, skuli eiga að lúta boðvaldi Persónuverndarráðs ESB, skýtur skökku við og er frágangssök í þessu máli.

(3)  "Lítil breyting" er heiti á spægipylsuaðferð við fullveldisframsal.  Þessari rökleysu er líka beitt á Íslandi, en hér á hún mun minna erindi en í Noregi.  Ástæðan er sú, að EES-samningurinn var á sínum tíma samþykktur af Stórþinginu með auknum meirihluta, yfir 75 % mættra þingmanna greiddi atkvæði með, en á Alþingi var EES-samningurinn samþykktur í bullandi ágreiningi og fremur mjótt á munum.  Þjóðin hefur aldrei verið spurð álits í þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa aðild.  Þrír eða fjórir lögfræðingar voru fengnir til að meta, hvort samningurinn samræmdist Stjórnarskrá.  Þeir komust að því, að hann væri á mörkunum, væri á "gráu svæði".  Síðan hefur heldur betur snarazt á merinni, og það gengur hreint ekki lengur að halda svona áfram og fótumtroða Stjórnarskrána.

(4)  Hvernig halda menn, að ESB muni bregðast við, ef íslenzkur dómstóll dæmir framkvæmd, sem ættuð er frá Persónuverndarráði ESB, ólöglega ?

(5)  ESB hefur enn ekki samþykkt aðlögun þessar gjörðar að EFTA-ríkjunum.  Þess vegna hefur ESB-dómstóllinn fortakslausa lögsögu þar eftir innleiðingu gjörðarinnar í EES-samninginn.  Er ekki rétt að bíða þessarar staðfestingar ESB ?  Jafnvel Sameiginlega EES-nefndin hefur ekki afgreitt málið.  Það má vel reyna á það hvað gerist, ef samþykkt Alþingis er frestað.  EES-samstarfið er komið á leiðarenda.  

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband