Viðskiptastríð

Það er með ólíkindum, að heimsbyggðin skuli á árinu 2018 upplifa viðskiptastríð stórvelda, þ.á.m. Bandaríkjanna við bandamenn sína, þótt Bandaríkjamenn  berðust ötullegast fyrir viðskiptafrelsi á síðustu öld og lengst af þessari. Þeir voru aðalhöfundar WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, en nú hunza þeir gjörsamlega regluverk hennar.  Þetta er forkastanleg hegðun, enda hafa Bandaríkjamenn grafið undan trausti bandamanna sinna til sín.  Ef fram heldur sem horfir, mun "America first" stefna Bandaríkjastjórnar leiða til einangrunarhyggju þessa mesta stórveldis fyrr og síðar.  Það mun gjörbreyta valdahlutföllum í heiminum.  

Allt er í heiminum hverfult, og nú er skollið á viðskiptastríð á milli rótgróinna bandamanna, þ.e. stríð BNA við ESB, Kanada, Japan o.fl. Forseti BNA hefur jafnvel varpað fram efasemdum um grundvallarreglu NATO, 5. greinina, um að árás á einn jafngildi árás á alla og verði svarað sem stríðsyfirlýsingu á NATO.  Allt þetta hlýtur að draga sögulegan dilk á eftir sér. Eru Bandaríkjamenn enn staðráðnir í að standa við skuldbindingar sínar í varnarsamningi sínum við Ísland ?  Slík spurning hefði verið fráleit fyrir 2 árum, en er hún það nú ?  

Augljóslega er nú kostur fyrir Íslendinga að standa utan ESB og losna þar með við viðsjárvert og kostnaðarsamt viðskiptastríð, en óbeinum afleiðingum viðskiptastríðs losnar þó enginn undan.  Þær eru samdráttur alþjóðlegra viðskipta og fjárfestinga, sem strax leiðir til minni hagvaxtar alls staðar, mun breyta innbyrðis hlutföllum á gengi gjaldmiðla og  getur endað með heimskreppu, eins og gerðist fyrir 90 árum.    

Það vinnur enginn viðskiptastríð. Donald Trump gumar af því, að Bandaríkjamenn vinni þetta viðskiptastríð auðveldlega.  Hann á eftir að komast að öðru. Það ættu Bandaríkjamenn að vita, eins og aðrir, og þeir hafa ekki leyfi til að ganga fram með þessum hætti, gjörsamlega í trássi við "barn sitt", Alþjóða viðskiptastofnunina-WTO. "America first" gengur ekki upp.

Leikritið, sem við horfum á núna, er raunveruleikaþátturinn "Skipbrot bandaríska auðvaldskerfisins", hvorki meira né minna.  Bandaríkin, forysturíki auðvaldsins, kveina nú og kvarta undan frjálsri samkeppni, aðallega við þróunarlandið Kína og "elliheimilið" ESB, og setja í kjölfarið tolla á varning frá þeim án nokkurra viðræðna innan WTO !  Svona gera menn ekki, nema þeir séu ákveðnir í að grafa undan sjálfum sér, því að sér grefur gröf, þótt grafi. 

Það er einfeldningslegt, ef einhver heldur, að tollar á innflutning komi ekki niður á lífskjörum íbúanna, sem látið er í veðri vaka, að verið sé að vernda.  Íslendingar afnámu fyrir 3 árum tolla og vörugjöld á öllum vörum, nema eldsneytisbílum og eldsneyti.  Það bætti kjör landsmanna sannanlega.  Bandaríkjamenn munu fljótlega átta sig á raunveruleikanum og væntanlega taka afstöðu samkvæmt því í þingkosningunum í nóvember 2018.  Gæti þá þessum farsa lokið áður en gengið verður af frjálsum viðskiptum dauðum um langa framtíð.

Lítum á upphafið að þessum ósköpum.  15. júní 2018 gaf Trumpstjórnin út tvo lista með kínverskum vörum, sem hún hugðist skella 25 % tollum á, vöruandvirði miaUSD 50 árið 2017.  Sá fyrri tók gildi 6. júlí 2018.  Kínverjar endurguldu með eigin lista sömu upphæðar. Þá gaf Donald Trump skipun til Roberts Lighthizer, viðskiptafulltrúa BNA (USTR), að útbúa nýjan lista  að virði miaUSD 200, sem á skyldi leggja 10 % toll, og hótaði enn öðrum, að vöruandvirði miaUSD 200.  Heildin, miaUSD 450, er um 80 % af heildarútflutningi Kína til BNA.  Kínverjar flytja hins vegar aðeins inn frá BNA fjórðung af útflutningsverðmætunum þangað.  Það er ein af meinsemdunum, en segir ekki alla söguna.

Kína lítur á upphafsleik BNA sem einhliða brot á alþjóðlegum reglum um viðskipti (WTO).  Lögð hefur verið fram kæra hjá WTO. Teymi Trumps heldur því fram, að Kínverjar hafi hafið þessi átök með því að stela þekkingu frá Bandaríkjamönnum og reka óheiðarlega viðskiptastefnu (undirboð).  Þegar búið er að leggja tolla á, gleymist rétt og rangt og jafnvel hlutverk WTO í málinu.  Dæmigert stríðsástand.

Skrifstofa USTR hefur tekið sér tíma til að velja vörur til tolllagningar.  Hún vill valda bandarískum neytendum lágmarkskostnaði og kínverskum útflytjendum hámarkstjóni. Af vörunum á listum frá 15. júní 2018 voru 95 % af verðgildinu fjárfestingarvörur eða íhlutir.  Það átti að draga úr skammtímaáhrifum á verðlag í BNA, þar sem framleiðslukostnaður hækkar sáralítið við álagninguna.  USTR hefur líka reynt að tryggja, að bandarískir innflytjendur gætu fundið aðra birgja.  Samkvæmt ITC (International Trade Centre) þá nemur hlutdeild Kínverja aðeins 8 % af heildarinnflutningi þessara vara.  

Það fer þó ekki hjá því, að tollarnir skaði bandarísk fyrirtæki, því að þau verða fyrir kostnaði, en ekki alþjóðlegir keppinautar þeirra.  Jafnvel þótt í hlut eigi vörur með lítilli kínverskri hlutdeild, getur verið hægara sagt en gert að skipta um birgi.  Í yfirheyrslum þingnefndar skýrðu fulltrúar risans GE frá því, að sérhæfðir íhlutir þess fari í alls konar gæðaprófanir og opinbert samþykktarferli, en af 34 íhlutum, sem fyrirtækið vildi fjarlægja af tollalistum USTR, var enginn fjarlægður.  

Að valda Kína tjóni gæti líka verið hægara sagt en gert.  Trumpstjórnin vill hemja metnað Kínverja á þýðingarmiklum sviðum, sem þeir kalla "Made in China 2025". Þetta hittir Kanann þó sjálfan fyrir, því að samkvæmt Yang Liang í Syracuse háskólanum og Mary Lovely í Peterson Institute for International Economics, sem er hugveita í Washington DC, komu 55 % af hátækni útflutningsvörum Kínverja 2013 til BNA frá fyrirtækjum að fullu í erlendri eigu í Kína.  miaUSD 3,6 virði hálfleiðara innflutnings frá Kína í eldlínunni eru aðallega frá bandarískum dótturfyrirtækjum, innihalda díóður, transistora og týristora, sem framleiddir eru í BNA og fluttir til Kína vegna tímafrekrar samsetningar og prófana.

Byrjunarandsvar Kínverja snertir landbúnaðarafurðir, sem aðallega koma frá ríkjum, sem studdu Trump 2016, svo að greinilega er stílað inn á kosningarnar í nóvember 2018 í þessu stríði.  Eftir því sem stríðið magnast, dreifist tjónið um samfélagið.  Árið 2017 fluttu Bandaríkjamenn inn vörur frá Kína fyrir miaUSD 505.  Ef tollar verða lagðir á vörur fyrir miaUSD 250, svo að ekki sé minnzt á miaUSD 450, verður ómögulegt að forðast neytendavörur á borð við föt og rafeindatæki.  Vörur með fáa staðgöngubirgja verða fyrir barðinu.  Bandarískum innflytjendum mun reynast erfiðara en áður að forðast verðhækkanir til neytenda.  

Dmitry Grozubinski hjá hugveitunni "International Centre for Trade and Sustainable Development" er með sláandi samlíkingu í greininni "Battle-lines drawn" í "The Economist" 23. júní 2018: "Viðskiptastríði má jafna við það að sprengja upp eigin borgir og blása rykinu og reyknum yfir landamærin í von um, að íbúunum þar (andstæðingunum) súrni í augum."

Árið 2017 fluttu Kinverjar aðeins inn fyrir miaUSD 130 frá Bandaríkjamönnum, svo að þeir hafa minna svigrúm í viðskiptastríði, en geta hins vegar gripið til annarra refsinga.  Þeir gætu stöðvað námsmannaferðir og ferðalög Kínverja til Bandaríkjanna.  Þeir gætu með beitingu reglugerða gert bandarískum fyrirtækjum erfitt fyrir í Kína.  Samkvæmt upplýsingum frá Bandarísk-kínverska viðskiptaráðinu hefur kínverska ríkisstjórnin rætt við kínversk fyrirtæki um að finna staðgönguvörur fyrir bandarískar vörur, sem þau nota.  Þetta mun leiða til minni bandarískra fjárfestinga í Kína, en bandarísk yfirvöld gráta krókódílstárum yfir því. Allt er þetta makalaust.  Adam Smith, höfundur auðgunarstefnunnar, verður væntanlega ekki vært í gröfinni við þessi öfugmæli.   

Þessi yfirferð ætti að sannfæra flesta um, að andstæðan við þá andstyggilegu og viðsjárverðu stöðu, sem upp er komin á milli stórvelda, þ.e. fríverzlun þeirra og annarra á milli, er hagstæðasta fyrirkomulagið.  Leita þarf annarra leiða til að auka samkeppnihæfni landa og minnka viðskiptahalla en að leggja á innflutningsgjöld. 

E.t.v. hefur bandaríkjadalur verið of hátt skráður undanfarið.  Seðlabanki Bandaríkjanna hefur verið að þoka stýrivöxtum sínum upp, sem hefur leitt til fjárstreymis til BNA. Donald Trump hefur fyrstur Bandaríkjaforseta í háa herrans tíð gagnrýnt "Federal Reserve" fyrir vaxtastefnu seðlabankans, og hann hefur sakað ESB um að halda gengi evrunnar niðri til að styrkja viðskiptastöðu evrulandanna.  Samtímis lætur hann skammirnar dynja á Þjóðverjum, enda eru þeir með yfir 5 % viðskiptaafgang af sinni VLF. 

Þetta er mjög ósanngjörn gagnrýni, því að Þjóðverjar hafa verið manna gagnrýnastir á Ítalann Mario Draghi og bankastjórn ECB-evrubankans fyrir peningamálastjórnun bankans, sem Þjóðverjar telja auka of mikið peningamagn í umferð og verða verðbólguhvetjandi, er frá líður, og ræni þýzka sparifjáreigendur sanngjarnri ávöxtun af heiðarlegum sparnaði sínum, t.d. til elliáranna, en hvetji þess í stað til neyzlu.  Þessi gagnrýni hefur t.d. komið frá yfirstjórn Bundesbank, banka ofurmarksins, DEM. 

Þessir atburðir, sem að ofan er lýst, hafa eyðilagt gamalgróið traust, sem ríkt hefur á milli vestrænna ríkja yfir Atlantshafið.  Það verður ekki endurreist í sjónhendingu.  Þetta á líka við öryggis- og varnarmál.  Afleiðingarnar verða stórvægilegar og alvarlegar. 

Íslendingar hafa varnarsamning við Bandaríkin.  Hvers virði er hann ?  Við þessar aðstæður er Íslendingum hollast að reyna að stunda fríverzlun við sem flesta og ekki að loka sig af innan einhverra tollmúra, heldur ekki "Festung Europa", sem aðallega hefur verið fólgin í tæknilegum viðskiptahindrunum út á við á borð við framleiðslu- og gæðastaðla. 

Árið 1918 endaði fyrri heimsstyrjöldin fyrir tilverknað Bandaríkjamanna með uppgjöf Miðveldanna. Woodrow Wilson, þáverandi Bandaríkjaforseti, boðaði árið 1918 sjálfstæði þjóðríkja.  Sá boðskapur varð vatn á myllu íslenzku þingnefndarinnar, sem samdi um fullveldi við danska þingnefnd í Reykjavík 18. júlí 1918. Bandaríkin urðu fyrst til að viðurkenna lýðveldið Ísland 1944 og tryggðu öryggi þess.  Árið 2018 brauzt út viðskiptastríð Bandaríkjanna við umheiminn.  Hvernig fer með fullveldi landsins árið 2018 í hverfulum heimi ?  Það er engum að treysta.  Þjóðir eiga enga vini.  Stundum fara hagsmunir sumra saman, og stundum fara hagsmunir annarra saman.  Ræður íslenzka utanríkisráðuneytið fram úr þessari flóknu stöðu, þannig að hagsmunum Íslands verði borgið í bráð ?  Það má efast.

 

 

 

 


Út úr EES með með samningi á milli EFTA og ESB

Á heimsvísu finnast fjölmargir svæðisbundnir viðskiptaskilmálar.  Þeir eru iðulega reistir á ákvæðum WTO, Alþjóða viðskiptastofnunarinnar.

Þegar árið 2012 hafði EFTA gert 23 fríverzlunarsamninga, sem spönnuðu 32 lönd, og þeim fjölgar stöðugt.  ESB hefur líka gert fjölmarga slíka samninga, svo að í báðum herbúðum er reynsla fyrir slíku.  

Þannig er fullkomlega raunhæft að koma á hefðbundnum viðskipta- og samstarfssamningi á milli EFTA og ESB. Eftir tvenns konar samband EFTA-landanna fjögurra við ESB í aldarfjórðung er fyllilega tímabært að sameina EFTA-löndin í einum samningi við ESB. Segja má, að stærð núverandi EFTA leyfi það ekki, að þessi fríverzlunarsamtök Evrópu gangi klofin til samninga við ESB, annars vegar Ísland, Noregur og Liechtenstein og hins vegar Sviss eitt á báti.  Þótt EFTA-löndin séu tiltölulega fámenn, þá er EFTA samt þriðji mikilvægasti vöruviðskiptaaðilinn fyrir ESB og sá næst mikilvægasti á þjónustusviðinu.

BREXIT-ferlið gengur brösuglega, og það mun hugsanlega leiða til inngöngu BRETA í EFTA, sem þá verður mikilvægasti viðskiptavinur ESB á flestum sviðum.  Bretar hafa eðlilega engan áhuga á EES,  ef frá er skilin Lávarðadeild brezka þingsins, en það gæti orðið góður kostur fyrir alla, að EFTA og ESB mundu leggja niður EES og gera með sér fríverzlunar- og samstarfssamning með Breta í EFTA í staðinn. 

Um það leyti sem inngönguviðræður Íslands við ESB stóðu yfir fyrir um 6 árum, setti ESB af stað mat á EES-samninginum og Svisslandssamningunum og hefur gefið til kynna vilja sinn um endurskoðun hvors tveggja.

Fríverzlunarsamningur EFTA og ESB verður að mynda minnsta samnefnara.  Það þýðir, að nýr samningur þarf að fjalla um atriði, sem sameiginlegir eru EES-samninginum og Svisslandssamningunum.  Þetta þýðir í raun að leggja af stofnanir EES, og að tilskipanir geti ekki komið á færibandi til EFTA-ríkjanna, heldur þurfi samningaviðræður í hvert skipti, sem óskað er breytinga/viðbóta á viðskiptasamninginum.

Vegna Svisslands mun nýi samningurinn í upphafi ekki spanna þjónustusvið. Þá þarf að skilgreina leyfilegar fjárfestingar.  T.d. leyfa Íslendingar ekki erlendar fjárfestingar í fiskiskipaútgerðum, og landakaup verða væntanlega takmörkuð.  Ákvæði um viðskipti með landbúnaðarvörur og unnin matvæli munu ekki fela í sér þrýsting um frjáls viðskipti með þessar vörur, bæði til að vernda eigin landbúnað gegn niðurgreiddum erlendum landbúnaði og vegna smithættu. Væntanlega verður eftirfarandi ákvæði EFTA-samningsins lagt til grundvallar um landbúnaðarvörur:

"Varðandi  vörurnar í viðhengi D, hluta III, lýsa aðildarþjóðirnar sig fúsar til að vinna að samræmdri þróun viðskiptanna, að svo miklu leyti sem landbúnaðarstefna þeirra leyfir slíkt."

Tollaívilnanir og sjúkdómavarnir, sem af þessum  samningi leiða, eru ekki vandamál í líkingu við þau, sem af EES-samninginum leiða.

Þar sem EFTA-ESB viðskiptasamningur verður í raun alveg nýr samningur á milli svæða með að nokkru leyti öðrum löndum við samningaborðið en aðild eiga að EES, verður unnt að fara fram á samningaviðræður við ESB, þótt EES-samninginum hafi þá enn ekki verið sagt upp.  Takist ekki að leiða slíkar samningaviðræður til lykta, verður annaðhvort hægt að halda áfram um sinn með EES-samninginn eða að þrengja gildissvið hans og/eða kveða skýrara að orði um svigrúm EFTA-ríkjanna til að hafna tillögum ESB um nýjar innleiðingar á Evrópugjörðum.  Það verður þá líka hægt að huga að enn öðrum valkostum á borð við samning reistan á reglum WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, tvíhliða viðskiptasamning eða tvíhliða viðskipta- og samstarfssamning við ESB.  

Sé ESB ófúst til að hefja slíka samningaferla, sem drepið hefur verið á hér að ofan, þá er sú leið til, að Ísland, eitt sér eða ásamt hinum EFTA-löndunum tveimur, tilkynni, að ætlunin sé að segja upp EES-samninginum, en semja helzt fyrst við ESB um nýjan svæðissamning, sem reistur sé á Vaduz-sáttmálanum.  Við slíkar aðstæður mun ESB mjög sennilega sjá hag sínum bezt borgið með því, að millibilsástandið, þar sem gamli viðskiptasamningurinn með viðbótum frá WTO-regluverkinu yrði lagður til grundvallar, myndi vara sem stytzt, þar eð Vaduz-sáttmálinn spannar víðtækara samstarf.  

Það eru margir valkostir í stöðunni varðandi samskiptin við ESB, og það er fullkomlega raunhæft að taka upp samningaviðræður við ESB um samning, sem leyst getur hinn meingallaða og í raun úr sér gengna EES-samning af hólmi, samning, sem sumir telja ESB hafa brotið með kröfum um yfirþjóðlega stjórnun málaflokka í EFTA-ríkjunum, eins og í ESB-ríkjunum. 

 


Út úr EES með tvíhliða viðskipta- og samstarfssamning

Það er vel gerlegt að mati höfunda "Alternativrapporten" í Noregi að fá rammasamning við ESB um alla samninga viðkomandi lands við ESB - án þess að slíkur þurfi að fela í sér nánari samruna við ESB, eins og bandalagið þó og ýmsir hérlendir menn, ekki hvað sízt embættismenn, virðast hafa mestan hug á. 

Til þess að slíkur samningur losi Ísland við núverandi stjórnlagalegar efasemdir um lögmæti samstarfsins við ESB, þarf að fjarlægja sérkenni EES-samningsins, þ.e.a.s. ESA, EFTA-dómstólinn og ákvæðin, sem kveða á um, að allar gjörðir, sem ESB merkir sem EES-viðeigandi, séu innleiddar á færibandi á Íslandi.  

Þannig er hægt að stofna til tvíhliða viðskipta- og samstarfssamnings við ESB, sem felur í sér þá þætti EES-samningsins, sem samstaða er um að halda áfram með, þ.e. atriði, sem hagstæð eru báðum aðilum, með gildissvið og innihald, sem er ásættanlegt fyrir báða samningsaðila.  Breytingar á nýja samninginum munu þá einvörðungu eiga sér stað eftir viðræður og samþykki beggja, öfugt við núverandi sjálfvirka fyrirkomulag, sem ógnar fullveldi Íslands og Noregs í ýmsum tilvikum og skapar þess vegna óvissu um lögmæti Evrópugerðanna í þessum tveimur löndum.   

ESB hefur gert yfir 200 viðskiptasamninga við lönd alls staðar í heiminum.  Þeir eru næstum allir tvíhliða og venjulega ekki rammar utan um sjálfvirka upptöku gjörða, eins og EES-samningurinn. Hvers vegna ætti ESB að þverskallast við slíkum samningi við Ísland, nú þegar fullreynt er, að EES-samningurinn verður aldrei neitt stökkbretti landsmanna inn í ESB, eins og margir hugðu, er til var stofnað, m.a. þáverandi stjórnendur ESB ? 

ESB hefur líka gert tvíhliða samninga um annars konar samstarf, t.d. um þátttöku í rannsóknarverkefnum, við fjölmörg lönd.  Sviss er með viðamestu tvíhliða samningana við ESB.  Tilkynning ESB um, að þar á bæ óski menn eftir að breyta samningunum við Sviss í áttina að sjálfvirkara EES-fyrirkomulagi þýðir ekki, að ESB útiloki nýja tvíhliða samninga.  Þetta er aðferð ESB við að hefja samningaviðræður við Svisslendinga, og að baki býr ósk ESB um aukna vitneskju um svissneska bankakerfið. 

ESB hefur verið með samninga í gangi um tvíhliða viðskiptasamninga við m.a. Indland, Kanada, Egyptaland og Japan, sem hvert um sig hefur minna viðskiptalegt vægi fyrir ESB en t.d. Noregur, aðallega vegna ál- og gasútflutnings Norðmanna.

Eðlilegt er að gera ráð fyrir, varðandi nýjan tvíhliða viðskipta- og samstarfssamning við ESB, að aðrir hlutar EES-samningsins en þeir óaðgengilegu verði framlengdir við uppsögn heildarsamningsins.  Gildissvið tvíhliða samningsins verða að vera nákvæmlega skilgreind, og hann verður að vera einvörðungu þjóðréttarlegrar gerðar, svo að hann stangist ekki á við Stjórnarskrá. Samstarfssvið, sem raunhæft er að semja um, eru t.d. rannsóknir, menntun og menning með þátttöku í rammaverkefnum ESB, annaðhvort að fullu eða að hluta, ásamt umhverfisvernd með þátttöku í Evrópsku umhverfisstofnuninni.

  Samningurinn má þó ekki fela í sér fyrirkomulag, sem þrýstir á Ísland um að innleiða nýjar gjörðir frá ESB.  Ef Íslendingar vilja taka upp nýjar reglur frá ESB, þarf að endursemja um samninginn eða bæta umsömdum viðaukum við hann.  

Samningslíkan af þessum toga þýðir, að Ísland getur krafizt einhvers á móti frá ESB gegn því að taka upp nýtt ESB-regluverk.  Þannig kemst á samningsleg jafnstaða samningsaðilanna.  Vald má heldur ekki framselja frá Íslandi til nokkurrar eftirlitsstofnunar á borð við ESA eða EFTA/ESB dómstólana.  Deilur skal leysa á vettvangi stjórnmálanna.  Með því að fjarlægja núverandi fyrirkomulag fjölþjóðlegs framkvæmdavalds, dómsvalds og löggjafarvalds, sem er í EES-samninginum, ásamt "sjálfvirku" ferli markaðsvæðingar á æ fleiri sviðum með innleiðingu nýrra ESB-gerða, má aðgreina tvíhliða samning með skýrum hætti frá EES-samninginum.

Er líklegt, að "breiður" stuðningur verði við slíkan tvíhliða samning Íslands og ESB hér innanlands ?  Það fer dálítið eftir því, hvernig að honum yrði staðið.  Á undirbúningsstigum málsins þarf að kveðja að alla helztu hagsmunaaðila, sem fái tækifæri til að koma að atriðum, sem þeir vilja setja á oddinn, áður en setzt er að samningaborðinu með ESB.  Um slíkan samning gæti náðst góð samstaða í landinu, og um hann gæti orðið langvarandi friður.  Slíkt yrði stórt framfaraspor í samanburði við hinn umdeilanlega, óhagstæða, þrúgandi og að margra mati ólögmæta EES-samning. 

 

 


Nútímalegur viðskiptasamningur við ESB í stað EES-helsis

Á fyrri hluta 8. áratugar 20. aldarinnar gerðu Norðmenn og Íslendingar viðskiptasamning við ESB.  Sá samningur tæki sjálfkrafa gildi við útgöngu úr EES-samstarfinu, ef ekki hefur innan árs frá uppsögn EES-samningsins tekizt að gera fríverzlunarsamning við ESB, t.d. í líkingu við samning ESB við Kanada og Japan.

Á tveimur sviðum var EES-samningurinn ívið hagstæðari Íslandi og Noregi en gamli viðskiptasamningurinn var.  Í fyrsta lagi voru tollar á unnum fiskafurðum ívið lægri samkvæmt EES-samninginum, og í öðru lagi getur ESB ekki gripið til aðgerða gegn meintum undirboðum íslenzks iðnaðar í EES, eins og viðskiptasamningurinn leyfði. Þetta eru þó harla léttvægir kostir.  

 Rannsóknarstjóri við Sjávarútvegsháskóla Noregs, Peter Örebech, reiknaði út í skýrslu um norska valkostaverkefnið (við EES) haustið 2011, að hækkun tollheimtu af unnum fiskafurðum við að hverfa aftur til gamla viðskiptasamningsins gæti að hámarki orðið 1,8 % af útflutningsandvirði þessara afurða.  Örebech komst ennfremur að þeirri niðurstöðu, að þetta hefði engin áhrif á markaðshlutdeild Noregs í ESB á þessu sviði, svo að tekjulækkun sjávarútvegsins yrði engin. Hið sama mun gilda fyrir Ísland. 

Á Íslandi tíðkast enginn opinber stuðningur við útflutningsiðnað, sem ekki er leyfilegur samkvæmt ESA og Evrópurétti, nema þá á sviði raforkumála, þar sem ESA hefur fett fingur út í það, að raforkuvinnslufyrirtækin hafi frían aðgang að orkulindunum.  Þetta er að vísu ekki alls kostar rétt, en má engu að síður bæta úr með auðlindagjaldi eða fasteignagjaldi af vatnsréttindum og gufuréttindum, eins og Hæstiréttur hefur dæmt Fljótsdalshreppi í vil gegn Landsvirkjun, sem er líka sjálfsagt mál til að jafna aðstöðumun atvinnugreina innanlands, sem nýta náttúruauðlindir. Allar eiga þær að greiða sams konar auðlindagjald, þegar auðlindarenta finnst í bókhaldi þeirra. 

Fyrir matvælaiðnaðinn var EES-samningurinn að vissu leyti um tíma betri en viðskiptasamningurinn var.  Annars vegar átti EES-samningurinn að vernda afurðastöðvar landbúnaðarins gegn því að verða undir í samkeppni við innflutning frá ESB, og hins vegar fól hann í sér vissar tollalækkanir fyrir fiskiðnaðinn, sem flutti út vörur til ESB.  

Þessi sviðsmynd er breytt.  Í nokkrum samningalotum við ESB er búið að auka viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur.  Í raun hefur átt sér stað mikil aukning innflutnings landbúnaðarvara frá ESB, en útflutningur slíkra vara hefur að mestu staðið í stað. Í þessu sambandi verður að nefna innflutning á hráu kjöti, mjólkurvörum og eggjum, en ESB hefur sýnt ósveigjanleika og óbilgirni gagnvart röksemdum íslenzkra stjórnvalda um nauðsyn þess að beita sérstökum varúðarráðstöfunum til verndar íslenzkum dýrastofnum og mönnum gagnvart sýkingum frá bakteríum, sem ekki hafa náð fótfestu hérlendis.  Það er gjörsamlega ólíðandi átroðsla að hálfu ESB að hunza ráðleggingar færustu sérfræðinga hér á sviði þessara sýkinga, og myndar sterk rök fyrir uppsögn mjög íþyngjandi samnings E.

Fyrir þjónustustarfsemi hérlendis er erfitt að sýna fram á, að hún hafi unnið stærri markað en hún hefur tapað með EES-samninginum.  Dæmi hafa komið upp um ólöglega og ósiðlega starfsemi hérlendis við útleigu á vinnuafli, sem er nánast meðhöndlað eins og þrælar, í skjóli fjórfrelsisins á Innri markaðinum um frjálsa för fólks.  Mikill innflutningur verkafólks hefur klárlega dregið úr launaskriði hér, en sterkur grunur leikur á um undirboð og reyndar ófá dæmi um þau, sem gera löghlýðnum íslenzkum atvinnurekendum lífið erfitt.  

Uppsögn EES-samningsins og útganga úr Schengen-fyrirbærinu mundi gera slíkri og annarri alþjóðlegri glæpastarfsemi erfiðara um vik, en vinnuveitendur gætu eftir sem áður leitað eftir erlendum vinnukrafti, ef þörf reynist á á toppi hagsveiflunnar.  Við 3 % árlegan hagvöxt eða minni er aðeins þörf fyrir slíkt í undantekningartilvikum.

Þegar öllu er á botninn hvolft, er ekkert viðskiptalegt hagræði af EES-samninginum í samanburði við fríverzlunarsamning.  EES-samningurinn opnar fámennt velferðarsamfélag fyrir straumi efnahagsflóttamanna og glæpagengja.  Hann er mjög íþyngjandi byrði á fyrirtækjum og stjórnkerfi landsins vegna reglugerðafargans, sem hamlar nauðsynlegri framleiðniaukningu á öllum sviðum.  Það er grundvallar misskilningur, að smáþjóð geti með góðum árangri tekið þátt í því risavaxna búrókratíska kerfi, sem ESB er.  Reynslan sýnir það einfaldlega, að gerðir ESB eru hér innleiddar á færibandi gagnrýnislaust, þótt þær eigi hingað ekkert erindi í sinni hráu mynd.  

 

 

 


Viðskipti með jarðir á Íslandi

Landbúnaður á Íslandi á undir högg að sækja, sumpart vegna þess að hann er nú kominn í beina samkeppni við annars konar landbúnað en hér er stundaður, þ.e. niðurgreiddan verksmiðjulandbúnað ESB, sem notar alls konar hjálparmeðul, sem hér eru bönnuð af heilsufarsástæðum eða ekki þörf fyrir. Heilnæmið er þess vegna ósambærilegt, nema bornar séu saman vörur með vottun um lífræna ræktun.  

Íslenzkir bændur hafa aukið framleiðni fyrirtækja sinna, búanna, gríðarlega undanfarin 30 ár, en búin eru samt enn rekin sem fjölskyldufyrirtæki.  Frá sjónarhorni byggðastefnu með eðlilegu og fjölbreyttu mannlífi í hinum dreifðu byggðum landsins er það æskilegasta rekstrarformið.  Vegna stærðarmunar er framleiðni íslenzkra búa yfirleitt minni en framleiðslufyrirtækja landbúnaðarafurða í ESB, en gæðamunur framleiðslunnar er yfirleitt mikill, íslenzkum landbúnaði í vil.  Það er verkefni næstu ára að fá þetta formlega vottað, svo að þessi kostur, sem verður sífellt mikilvægari í augum almennings um allan heim, endurvarpist í verð á útflutningsvöru.

  Loftslagsþróunin gæti og lagzt á sveif með íslenzkum bændum, eins og komið hefur á daginn í sumar með brýnni þörf norrænna bænda fyrir hey, og á Íslandi eru umframhey af góðum gæðum.

Bændum hérlendis hefur fækkað stöðugt á sama tíma og framleiðsluaukning hefur orðið í landbúnaðinum í heild.  Þetta er auðvitað lykillinn að nauðsynlegri framleiðniaukningu.  Bændur hafa við þessar aðstæður fengið fremur lágt verð fyrir jarðir sínar í samanburði við íbúðaverð í þéttbýli, og jarðir hafa jafnvel lagzt í eyði, þegar gamlir bændur bregða búi. Bændur hafa þess vegna gripið fegins hendi tilboð frá fjársterkum aðilum, innlendum og frá jafnsettum erlendum ríkisborgurum samkvæmt EES-samninginum. Stjórnarskráin tryggir bændum (jarðeigendum) rétt til að selja eign sína löglegum bjóðendum.  

Hin hliðin á þessum peningi er, að margar jarðir eru að safnast á fáar hendur, sem ekki vinna þar handtak, hvorki beint né óbeint. Nýju eigendurnir eru þó a.m.k. sumir fúsir til að leigja jarðirnar undir búskap og hafa víst boðið sanngjörn kjör leigutökum.  Við þær aðstæður eru uppfyllt skilyrði um áframhaldandi eðlilegt og fjölbreytt líf í sveit, og eignarhaldið skiptir þá ekki höfuðmáli.  Ef nýir eigendur ekki ætla að stunda atvinnustarfsemi á jörðinni, mætti gera það að skilyrði fyrir kaupum, að þeir leigðu hana til búskapar eða landbóta af einhverju tagi.  

Það virðist sammerkt flestum jörðunum, sem keyptar hafa verið án fyrirætlunar um búskap þar, að það eru hlunnindajarðir, oftast með laxveiðiréttindi.  Veiðiréttarhafar telja veiðihlunnindi til mikilvægra hagsmuna sinna, og þess vegna missir bændastéttin spón úr aski sínum, þegar aðrir kaupa jarðir með veiðihlunnindum.  Það mætti reisa skorður við þessu með því að setja nokkur skilyrði um rekstur eignanna, sem þó mismuna ekki eftir þjóðerni:  

  1. Félag má þá aðeins eiga jörð, eina eða fleiri, ef handhafar meirihlutaeignar í félaginu hafa fasta búsetu á jörð, og/eða þeir reka atvinnustarfsemi á a.m.k. einni jörð árið um kring. Eigendaskrá félagsins skal vera opinber og spanna skýlaust alla eigendur.  Félagið skal hafa heimilisfesti á Íslandi og vera þar skattskylt. Undanþágu frá þessu ákvæði um fasta búsetu og/eða atvinnustarfsemi eiganda á jörð er unnt að veita, ef félagið leigir jarðirnar til ábúðar og hefðbundinna nytja, landgræðslu eða annarrar sprotastarfsemi, innan tveggja ára frá kaupum eða brottflutningi síðasta ábúanda, ella skal viðkomandi sveitarfélag öðlast kauprétt samkvæmt verðmætamati í fasteignaskrá.  
  2. Einstaklingi skal vera heimilt að eiga ótakmarkaðan fjölda jarða, ef hann hefur fasta búsetu á einni þeirri og/eða nytjar jarðirnar til hefðbundins búskapar, landgræðslu, þ.m.t. skógræktar, hrossaræktar e.þ.l.  
 
Aðalinntakið í ofangreindum kvöðum er gegnsæi eignarhalds, skattlagning hérlendis og nýting lands með hefðbundnum hætti eða til landgræðslu.  Þótt megináhugi fjárfesta kunni að beinast að lax- og silungsveiðihlunnindum, verða þeir annaðhvort að stunda atvinnustarfsemi á jörðunum eða að veita öðrum umboð til þess.  Það má sem sagt ekki kaupa jörð til að leggja hana í eyði.
Þann 17. júlí 2018 skrifaði Agnes Bragadóttir Baksviðsgrein í Morgunblaðið, sem hún nefndi:
"Geta falið eignarhaldið ef þeir vilja":
 
"Erlendir auðkýfingar hafa síðustu ár keypt fjölda jarða.  Erfitt er að henda reiður á því, hversu stór hluti íslenzkra jarða er kominn í eigu útlendinga, því að eignarhald erlendra aðila er í ákveðnum tilvikum í gegnum íslenzk fyrirtæki.  Það á t.d. við um eignarhaldið á Hótel Kötlu.  Útlendingar, sem kaupa jarðir í gegnum íslenzk fyrirtæki, geta því falið eignarhald sitt, ef þeim sýnist svo."
Það ætti að vera krafa löggjafans, að eignarhald jarðnæðis á Íslandi sé gegnsætt, þannig að rekja megi eignarhaldið á einfaldan hátt til einstaklinga og að það sé til á reglulega uppfærðri skrá.  
Síðan vitnaði Agnes í viðtal sitt við Stefán Má Stefánsson, lagaprófessor:
""Það er bara spurning um það, hversu langt menn vilja ganga, en fyrst af öllu verða menn að vita, hvar leyfileg mörk liggja.  Það eru möguleikar fyrir okkur að koma upp eins konar varnarmúrum.
Girðingarnar gagnvart þriðju ríkjum eru nokkuð klárar, því að það eru engar skuldbindingar gagnvart þeim.  T.d. gætu Þjóðverjar ekki keypt upp jarðir hér, bara í krafti fjármagns.  [Englendingurinn Ratcliff hefur keypt jarðir í Vopnafirði, bara í krafti fjármagns.  Hvers vegna geta Þjóðverjar það ekki ? - innsk. BJo.]Það væri hægt að setja girðingar gagnvart því.  Öðru máli gegnir, ef fyrirtæki kemur hingað í þeim tilgangi að stofna til atvinnustarfsemi.  Þá væru jarðakaup félaga frá þriðju ríkjum heimil, og sama ætti við um útlendinga, sem kæmu hingað til þess að verða launþegar", sagði Stefán Már.
Ég tel tvímælalaust, að hægt sé að setja búsetuskilyrði í lög í tengslum við sölu á jörðum."
 
Það á ekki að vera keppikefli löggjafans að setja upp girðingar hér gegn erlendum fjárfestingum á þessu sviði né öðrum.  Hins vegar á að hindra jarðakaup, sem einvörðungu snúast um að nýta hlunnindi jarðarinnar.  Með í kaupunum verður að vera alhliða nýting jarðarinnar, svo að samræmi sé við almenna byggðastefnu landsmanna, landbúnaðarstefnu og stefnu um að hefta losun koltvíildis við uppblástur lands og bindingu kolefnis með skógrækt og annarri ræktun. 
 
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra, tengdi ógöngur landsölumála við EES-samninginn í Morgunblaðsgrein sinni 21. júlí 2018:
"Jarðakaup útlendinga eftir aldarfjórðung í EES".
 
Þar lýsir hann skelfilegum lausatökum stjórnmálamanna og embættismanna hérlendra við gerð þessa dæmalausa samnings.  Felst í efnistökum Hjörleifs staðfesting á því, sem haldið hefur verið fram á þessu vefsetri, að Íslendingar hafa einfaldlega færzt of mikið í fang með því að ætla að hafa í fullu tré við risaríkjasamband, sem hér seilist til áhrifa á öllum þremur sviðum ríkisvaldsins:
 
"Það ferli, sem hér er komið á fullt skrið víða um land, á rætur í EES-samningnum og háskalegum vettlingatökum íslenzkra stjórnvalda við gerð hans.  Í opnu bréfi til Steingríms Hermannssonar, forsætisráðherra, sem birtist í Tímanum 1. febrúar 1991, vakti ég athygli á, hvert stefndi, þvert á yfirlýsingar hans við upphaf málsins 1989.  
Í svargrein hans í sama blaði viku síðar vísaði Steingrímur í forkaupsrétt sveitarfélaga og bætti við:
"Allt slíkt er gert ráð fyrir að herða.  Eignarhald erlendra aðila á landi, sem ekki er nauðsynlegt vegna atvinnureksturs, verður ekki leyft."
 
Eftir stjórnarskiptin 1991 var fallið frá flestum fyrirvörum við samninginn af Íslands hálfu og vísað til væntanlegra ákvæða í fjárfestinga-, fasteigna-, jarða- og ábúðarlögum, sem sett voru síðar á árabilinu 1996-2004.  Þegar til kastanna kom, reyndust þau haldlítil eða haldlaus, enda þar að margra mati gengið lengra í að opna fyrir fjárfestingar útlendinga en EES-rétturinn krafðist."
 
 Það er ljóst af lýsingu Hjörleifs, að upphafleg fyrirætlun Steingríms Hermannssonar um að koma í veg fyrir uppkaup á jörðum einvörðungu vegna veiðihlunninda, sem síðan leiðir gjarna til, að jörðin fer í eyði, hefur farið gjörsamlega í handaskolum.  Það er ekki líklegt, þótt Hjörleifur virðist síðar í greininni binda nokkrar vonir við það, að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur takist betur upp við það að búa til kerfi, sem laðar að fjárfesta, sem hefja hér raunverulega atvinnustarfsemi eða leigja bændum jarðir sínar á sanngjörnu verði til hefðbundinnar starfsemi eða nýsköpunar, en láta ekki þar við sitja að kaupa jarðir af bændum eða öðrum til þess einvörðungu að nýta veiðihlunnindi.
 
Til að embættismenn hætti að fara eins og kettir í kringum heitan graut af ótta við athugasemdir ESA og kærur til EFTA-dómstólsins fyrir brot á jafnstöðu þjóðerna innan EES, er eina ráðið að segja EES-samninginum upp.  Það er löngu tímabært og mundi létta alls konar áþján af stjórnsýslu, ráðherrum, Alþingismönnum, dómurum og ekki sízt af atvinnulífinu.  Það er ljóst, að ella verða hér sífelldar uppákomur vegna augljósra stjórnlagabrota, sem þó er reynt að breiða yfir við innleiðingu nýrra Evrópugjörða.   
 

 

 

 

 


Út úr EES-samstarfinu

Norðmenn hafa lagt niður fyrir sér, hvað gæti tekið við af EES og samið um það skýrslur.  Ein þeirra, "Alternativer til dagens EÖS-avtale", kölluð "Alternativrapporten", er sérlega áhugaverð og fróðleg.  Hér verður stuðzt við gr. 1.8 í skýrslunni.

EES-samningurinn er í eðli sínu "svæðasamningur" á milli EFTA og ESB, en hvert EFTA-ríkjanna þriggja, sem samninginn samþykktu á sínum tíma (Sviss hafnaði honum), getur þó sagt honum upp með ársfyrirvara. Ákvæði samningsins um, hvað skal gera, ef eitt EFTA-ríkjanna óskar eftir að hætta, eru skýr og greinileg.  Rétturinn til uppsagnar er skilyrðislaus, og það þarf ekki að gefa neina skýringu á brotthvarfinu.  Engar mótaðgerðir eða refsiaðgerðir hinna eru leyfilegar samkvæmt samninginum.

Úrsögnin fer fram samkvæmt skýrum reglum í EES-samninginum.  Að leggja niður ESA og EFTA-dómstólinn, sem þó gerist aðeins, ef öll EFTA-ríkin kjósa fremur viðskiptasamning án slíkra stofnana, ætti einnig að verða auðvelt viðfangs.  

Lögformleg staða EES á Íslandi gerir úrsagnarferlið hérlendis einfaldara en verið gæti.  Það verður t.d. engin þörf á að breyta Stjórnarskránni.  Megnið af EES-samninginum er tekinn inn í íslenzka lagasafnið með eigin löggjöf, EES-löggjöfinni.  Hana má einfaldlega afnema í heilu lagi ásamt ákvæðum um forgang þessarar löggjafar umfram aðra íslenzka löggjöf. Sá forgangur var að kröfu ESB til að tryggja samleitt réttarfar EFTA- og ESB-ríkjanna. 

Það yrði hins vegar mikið verk að fjarlægja öll ummerki ESB-löggjafar í íslenzkri löggjöf, og það er þarflaust.  Þótt landið hefði staðið utan EES allan tímann, hefðu  margar svipaðar lagabreytingar sennilega farið fram hér af fúsum og frjálsum vilja í samræmingarskyni eða vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga landsins. Þær eru hvorki ógn við fullveldið né í bága við Stjórnarskrá, eins og framkvæmd EES-samningsins þó óneitanlega er. 

Óháð tengslum við ESB mun áfram verða þörf á samræmingu, samhæfingu og samvinnu.  Slíkt viðgengst einnig gagnvart öðrum mörkuðum án þess þó, að við afhendum yfirstjórn okkar mála (framkvæmdavald, dómsvald og löggjafarvald að töluverðu leyti) til Kína, Japans, Indlands, Rússlands eða Bandaríkjanna samkvæmt EES-fyrirkomulagi, svo að nokkrir stórir markaðir séu nefndir. 

Tilgangurinn með úrsögn úr EES er þannig að endurheimta svigrúm landsmanna til þess í auknum mæli að reka sjálfstæða stefnu með hagsmuni íslenzku þjóðarinnar að leiðarljósi.  Svigrúmið markast af þeim tengslum, sem við taka eftir úrsögnina, en boðskapurinn er a.m.k. viðeigandi á aldarafmælisári fullveldisins.  

Fyrir öll möguleg samskiptaform, sem fyrirsjáanlega geta tekið við gagnvart ESB, má þó ganga út frá því sem vísu, að grundvöllurinn verði sá, sem þegar hefur verið lagður af Alþjóða viðskiptastofnuninni (WTO), og að til viðbótar komi mismunandi skuldbindingar og réttindi, sem samið verður um tvíhliða eða á milli EFTA og ESB, því að aðild að EFTA verður áfram tryggð með sama hætti og aðild Svisslands.  

Þróun ESB í áttina að sterkari yfirþjóðlegri stjórnun og minnkandi fullveldi aðildarþjóðanna er ögrandi gagnvart samstarfi við ESB á vettvangi EES, af því að Íslendingar eru nú fráhverfari hugmyndinni um ESB-aðild landsins en nokkru sinni fyrr.  Efasemdir um réttmæti og nytsemi EES-aðildar hafa undanfarin misseri komið skýrar fram opinberlega en áður,  sbr umræðuna um jarðakaup útlendinga, enda hefur ágreiningsmálum Íslands og ESB farið fjölgandi, frá ágreiningi um réttmæti Neyðarlaganna til skiptingar deilistofna í hafinu og innleiðingar viðamikilla lagabálka, sem fela í sér framsal valds til stofnana ESB. 

Í þessari stöðu, þar sem ESB krefst íslenzkrar aðlögunar á nýjum sviðum, sem upphaflega var ekki gert ráð fyrir, að undir EES-samninginn væru seld, er sjálfsagt og klókt af Íslendingum að vega og meta bæði viðskiptasamband og samvinnu almennt við hið evrópska ríkjasamband í ljósi hinna mikilvægustu þjóðarhagsmuna.  Það fer vel á því á aldarafmælisári endurheimtu fullveldis landsins frá danska ríkinu.  

 

 


EES er orðið ótækt og óþarft

Með samninginum um Evrópska efnahagssvæðið, EES, er Ísland með eins konar aukaaðild að Evrópusambandinu, ESB, án þess að hafa sömu réttindi og aðildarþjóðirnar til að vinna að þeim gjörðum sambandsins, lögum, tilskipunum og reglugerðum, sem landinu er gert að innleiða í réttar- og stjórnkerfi sitt. 

Aukaaðildin felst í því, að Framkvæmdastjórnin merkir hluta af gjörðum sínum sem viðeigandi fyrir EFTA-ríkin, og í sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem 3 EFTA-ríki og ESB eiga fulltrúa, er síðan þrefað um fyrirkomulag upptöku EFTA-ríkjanna í lögbækur sínar eða reglugerðaflóru. Þar var löngum viðkvæði EFTA, að viðhafa yrði tveggja stoða regluna við innleiðinguna, þ.e. að EFTA-megin mundi sjálfstæð stofnun sjá um samskiptin á milli ESB og ríkisvaldsins í hverju EFTA-ríki. Ýmist hafa þetta verið "Pótenkímtjöld" með ESA-ásjónu, en EFTA-stofnun á bakvið, sem togar í alla spotta, eða engin tilraun er gerð til tveggja stoða lausnar. Þjóðþing EFTA-ríkjanna eiga alltaf síðasta orðið um lögfestingu gjörðarinnar eða synjun lögfestingar. Það er hinn sjálfsagði "stjórnlagalegi fyrirvari", því að á fundi úti í Brüssel er ekki hægt að skuldbinda þjóðina endanlega, hvað þá að taka endanlega ákvörðun um fullveldisframsal.  

Þrýstingur myndast á þjóðþingin frá ESB og í mörgum tilvikum frá hinum EFTA-ríkjunum tveimur um að samþykkja, því að öll þrjú verða að samþykkja, svo að gjörðin öðlist gildi í hverju EFTA-landi, nema Sviss, sem er utan við þessi ósköp samkvæmt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu þar á sínum tíma. 

Fyrir fullvalda ríki er þetta fyrirkomulag ótækt, enda fer andstaðan við það vaxandi í Noregi og á Íslandi.  Þetta hjálendufyrirkomulag er bæði allt of dýrt fyrir lítið samfélag og alveg óþarft fyrir frí og hindrunarlaus viðskipti, eins og Kanadamenn sömdu um við ESB haustið 2017, og Bretar munu vafalaust semja um innan tíðar.  

Það hrannast upp lögfræðilegar álitsgerðir og rök fyrir því, að núverandi einhliða lagasetningarsamband við ESB undir hatti vafasams EES-samnings, sem Alþingi samþykkti 12. janúar 1993, sé búið að brjóta svo herfilega á Stjórnarskrá Íslands, að stöðva verði þessa færibandaframleiðslu nú þegar, eða að breyta Stjórnarskrá til að heimila slíkt framsal. Formenn stjórnmálaflokkanna komu saman í Þingvallabænum snemmsumars til að ræða stjórnarskrárbreytingar, en engin tillaga hefur sézt um útfærslu, sem geri EES-aðild Íslands lögmæta í framkvæmd.

 Lögfræðileg gagnrýni á framkvæmd EES-samningsins kom nú síðast fram í athyglisverðri ritgerð Alexöndru Bjarkar Adebyi til lokaprófs í lögfræði við Háskólann í Reykjavík (HR).  Erna Ýr Öldudóttir birti viðtal sitt við hinn nýútskrifaða lögfræðing í Morgunblaðinu þann 28. júní 2018 undir fyrirsögninni:

"Forsenda valdframsals breytt".

Fréttin hófst þannig:

"Í ljósi þess, hvernig fyrirkomulag valdframsals vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefur þróazt, er það fyrirkomulag nú ekki talið standast þær forsendur, sem byggt var á, þegar valdframsal vegna samningsins var talið samrýmast íslenzku stjórnarskránni [og var þó talið vera á gráu svæði-innsk. BJo].

Þetta er á meðal þess, sem kemur fram í lokaritgerð Alexöndru Bjarkar Adebyi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík (HR), sem ber yfirskriftina "Fyrirkomulag valdframsals vegna EES-samningsins".  Margrét Einarsdóttir, dósent við lagadeild HR, leiðbeindi við skrifin." [EES-samningurinn var ekki og er ekki þjóðréttarlegs eðlis.  Þess vega á ekkert valdframsal að eiga sér stað á grundvelli þessa samnings, sem aðallega er viðskiptalegs eðlis-innsk. BJo.]

Þegar EES-samningurinn var á umræðustigi hérlendis, árin 1991-1993 (hann hlaut lagagildi hér 1. janúar 1994)var uppi mikill ágreiningur um það, hvort hann bryti í bága við íslenzku Stjórnarskrána. Miklar áhyggjur voru t.d. á meðal þingmanna á takmarkalaus landakaup útlendinga á landi eftir inngöngu í EES.  Lofað var trygginga gegn því, en þær tryggingar stjórnvalda fóru algerlega í handaskolum, engir varnaglar settir í EES-samninginn og lagalegum takmörkunum skolað burt af ótta við kæru frá ESA, Eftirlitsstofnun EFTA. Íslenzk stjórnvöld hafa aldrei haft neina burði til að gæta hagsmuna Íslands í þessu umfangsmikla og flókna EES-samstarfi, þar sem ESB ræður lögum og lofum.  
 Djúpstæður ágreiningur í þjóðfélaginu endurspeglaðist í þingsal. Þrautaráðið var að fá teymi kunnáttumanna um stjórnlögin til að fjalla um málið.  Í raun var niðurstaða teymisins sú, að EES-samningurinn væri ekki alls kostar í samræmi við Stjórnarskrá.  Þetta var orðað svo, að samningurinn væri á yztu brún hins leyfilega.  Því miður var látið hjá líða þá að gefa þjóðinni kost á að gefa EES-samninginum lögmæti eða að synja honum samþykkis.  Alþingi leyfði Stjórnarskránni ekki þá að njóta vafans, og síðan hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina með ótal hæpnum innleiðingum.  Um þverbak hefur keyrt í kjölfar samþykktar ESB á Lissabon-sáttmálanum 2009, og undanfarin ár hefur hver stórgjörðin rekið aðra, þar sem ótvírætt valdframsal á sér stað til stofnana ESB, þar sem Íslendingar eru ekki aðilar. 
Lokaritgerð Alexöndru Bjarkar er samantekt á þessu og staðfesting á því mati, að EES-aðildin brjóti gegn Stjórnarskránni.  

Við þessar aðstæður er tvennt í stöðunni:

  1. Að ríkisstjórnin leiti hófanna um breytta EES-skilmála, annaðhvort ein á báti eða í samfloti við EFTA, eða kanni möguleikana á nýjum fríverzlunarsamningi við ESB (sá gamli tekur gildi við útgöngu), og geri síðan Alþingi og þjóðinni grein fyrir niðurstöðunni.  Síðan verði þjóðaratkvæðagreiðsla um breytta aðild að EES, já eða nei. 
  2. Að breyta Stjórnarskránni þannig, að Alþingi verði heimilt með auknum meirihluta að samþykkja valdframsal til yfirþjóðlegra stofnana, þótt Ísland sé þar ekki aðili.  Í norsku stjórnarskránni er áskilið samþykki 75 % mættra Stórþingsmanna, og að að lágmarki 2/3 þingmanna sé mættur.  Þetta þýðir, að a.m.k. 50 % þingmanna verður að samþykkja slíkan gjörning, svo að hann öðlist lagagildi.  Sams konar ákvæði mætti viðhafa hér.  
Það er skoðun höfundar þessa pistils, að enginn áhugi sé innan ESB á endurskoðun EES-samningsins, nema þá í átt til enn nánari samruna ESB og EFTA.  Hins vegar er ESB ekki stætt á því að neita Íslendingum um svipaðan fríverzlunarsamning og gerður var við Kanada haustið 2017.  Þess vegna er eðlilegast að segja EES-samninginum fljótlega upp með samningsbundnum árs fyrirvara um gildistöku.  Ef samningar um nýjan fríverzlunarsamning dragast á langinn, tekur einfaldlega gamli viðskiptasamningurinn gildi á ný, og hann tryggir alveg þokkalegt aðgengi að Innri markaði ESB.  Um svipað leyti munu Íslendingar jafnframt standa í samningaviðræðum við Breta um fríverzlunarsamning, sem ástæða er til að búast við, að ganga muni greiðlega. Ef fríverzlunarsamningur kemst á á milli Breta og ESB, er einboðið, að Íslendingum standi svipaður samningur til boða við ESB. 
Það er ljóst, að utanríkisráðuneytisins bíða stórverkefni, en tilburðir til undirbúnings eru takmarkaðir, og gufumökkur svífur þar yfir, eins og yfir gyðjunni í Delphi á sínum tíma, enda skilaboðin úr ráðuneytinu í véfréttastíl.  Utanríkismálanefnd Alþingis verður að setja sporann í nárann á truntunni og keyra hana áfram með svipu, ef hún ætlar ekki að hafast úr sporunum, en vill bara "business as usual".
 
"Hverjar eru helztu niðurstöður lokaritgerðarinnar ?"
 
"Helzt þær, að samningurinn ber í dag mörg einkenni þess að vera yfirþjóðlegs eðlis.  Þær forsendur og þau sjónarmið, sem byggt var á, þegar valdframsal vegna EES-samningsins var talið samrýmast stjórnarskránni, verða að teljast matskennd og mörkin á túlkun stjórnarskrárinnar óljós. Þegar skoðað er, hvernig fyrirkomulag valdframsals vegna EES-samningsins hefur þróazt, verður hann ekki talinn standast þær forsendur, sem byggt var á, þegar valdframsal vegna samningsins var talið samrýmast stjórnarskránni.  Fræðimenn hafa m.a. haft uppi varúðarorð um þróunina, og hefur þeim fjölgað í gegnum tíðina."
 
Hér er kveðið skýrt að orði um þá stöðu, sem nú er uppi, að á sínum tíma hafi lagalegur rökstuðningur verið ófullnægjandi fyrir því, að Stjórnarskráin heimilaði EES-samninginn, og að núverandi framkvæmd EES-samningsins feli í sér ótvírætt Stjórnarskrárbrot.  Við svo búið má ekki standa.  Stjórnvöld eru að bregðast Stjórnarskránni og landsmönnum með því að sópa vandamálinu stöðugt undir teppið.  Það er alger óþarfi, því að viðunandi úrlausn er handan við hornið.  Lokaspurning og -svar var á þessa leið:
"Varðstu einhvers fleira vísari, sem vert væri að greina frá ?"
 
"Helzt er það, hversu mikla hagsmuni Ísland hefur af því, að EES-samningnum sé fundin traust stjórnskipuleg stoð.  Án þess erum við að takast á við síendurtekin stjórnskipuleg vandamál við upptöku og innleiðingu á EES-löggjöf."
 
Lausnirnar hafa verið tíundaðar hér að ofan.  Stjórnvöld verða að fara að sýna lit í þessu máli á því, að strútur sé ekki við stjórnvölinn, og sýna getu til að marka farsæla stefnu í stórmáli, sem í senn verði í samræmi við Lýðveldisstjórnarskrána og efnahagslega hagsmuni landsins. Það er ekkert sérstakt stórvirki.  Vilji er allt, sem þarf.   
 Grexit vofir yfir

 


Sjókvíaeldi og landeldi á laxi

Það eru ranghugmyndir ríkjandi hérlendis um erfðafræðilega hættu, sem að íslenzkum laxastofnum steðja af völdum takmarkaðs laxeldis í sjókvíum hér við land undir eftirliti íslenzkra stofnana.  Það liggur við, að segja megi, að fullpúrítanskra sjónarmiða gæti varðandi sambýli hins norskættaða eldisstofns á Íslandi og villtu íslenzku stofnanna í íslenzkum laxveiðiám. Eldisstofninn er þó orðinn svo háður sínu kvíaumhverfi og fóðrun þar, að hann á mjög erfitt uppdráttar í náttúrulegu umhverfi, ef hann sleppur. Hann er í raun orðinn svo úrkynjaður, að útilokað er, að hann geti sett mark sitt á íslenzka stofna eða valdið tjóni á erfðamengi þeirra.

  Sá norskættaði eldisstofn, sem hér er notazt við, er ekki erfðabreyttur, heldur þróaður í margar kynslóðir til skilvirks búskapar í sjókvíum.  Almennt eru varúðarmörk erfðablöndunar sett við stöðugt 8 % hlutfall aðskotalax af villtum hrygningarlaxi í á, en á Íslandi eru þessi varúðarmörk þó sett við 4 %. Út frá sleppilíkum og fjölda villtra laxa í nærliggjandi ám er leyfilegt eldismagn á tilteknu svæði ákvarðað, að teknu tilliti til burðarþols viðkomandi fjarðar.

Sumir vísindamenn á þessu sviði halda því fram, að hætta verði fyrst á skaðlegum áhrifum erfðablöndunar við yfir 30 % eldislax af villtum laxi stöðugt í á í  meira en áratug samfellt. Miðað við, hversu langt innan hættumarka íslenzka laxeldið verður alltaf, jafnvel þótt núverandi burðarþolsmörkum Hafrannsóknarstofnunar verði náð, þá stappar það nærri móðursýki, hvernig sumir gagnrýna og vara við eldi á þessum norskættaða stofni í sjókvíum við Ísland.  Rekstrarleyfin þarf að ákvarða í ljósi áhættu, þ.e. líkindum og afleiðingum, og ávinnings. Nýleg ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar um frestun endurskoðunar á áhættumati fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi og óljós hugmynd um tilraunaeldi þar ollu vonbrigðum í þessu ljósi.  

Tæknilegar kröfur til fiskeldisins vaxa stöðugt og eftirlitið verður jafnframt strangara samkvæmt lögum í bígerð.  Í umræðum á Alþingi 10. apríl 2018 um frumvarp sitt, sem þá var til umræðu, sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

"Það er alveg rétt, að hér er verið að gera grundvallar breytingu, ef svo mætti að orði komast, á starfsemi fiskeldisfyrirtækja og því, sem snýr að eldi í íslenzkum sjó."

Með frumvarpi ráðherra eru meginbreytingarnar þær, að áhættugreining á erfðablöndun verður gerð reglulega og ráðlegt eldismagn endurskoðað í kjölfarið, eldissvæði verður skilgreint og því úthlutað samkvæmt hagstæðasta tilboði frá eldisfyrirtæki, auk þess sem gæðastjórnunarkerfi með innra eftirlitskerfi verður skylda í hverju starfræktu fiskeldisfyrirtæki á og við Ísland. Norski gæðastjórnunarstaðallinn NS 9415, sem er sá strangasti á sínu sviði í heiminum, verður hafður til viðmiðunar. Í húfi fyrir eldisfyrirtækin, ef þau standa sig ekki, er starfsleyfið.  Þetta fyrirkomulag girðir fyrir fúsk og knýr eldisfyrirtækin til stöðugra umbóta.

Með frumvarpinu er Hafrannsóknarstofnun falið að áhættumeta starfsemina á hverju svæði með mest 3 ára millibili.  Í júlí 2017 gaf Hafrannsóknarstofnun í fyrsta skipti út áhættumat vegna erfðablöndunar laxa.  Þá réð stofnunin frá veitingu starfs- og rekstrarleyfa í Ísafjarðardjúpi og Stöðvarfirði vegna nálægðar við laxveiðiár.  Í heildina taldi stofnunin þá óhætt að ala 50 kt/ár af frjóum laxi á Vestfjörðum og 21 kt/ár á Austfjörðum og til viðbótar alls 61 kt/ár af ófrjóum laxi, alls 132 kt/ár.  

Í Morgunblaðinu 6. júlí 2018 var fjallað um nýtt áhættumat Hafrannsóknarstofnunar frá júlí 2018 undir fyrirsögn á bls. 2:

"Áfall fyrir byggðir landsins":

""Þetta kemur okkur auðvitað í opna skjöldu. Við höfum unnið í góðri trú með Hafrannsóknarstofnun í hér um bil eitt ár, þar sem settar voru fram hugmyndir, sem gætu leitt til aukinna framleiðsluheimilda", segir Einar [K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva], en hann telur, að allar efnislegar forsendur hafi verið fyrir hendi til endurskoðunar.  

"Þetta er mikið áfall fyrir atvinnugreinina og fyrirtækin, en ekki síður fyrir þær byggðir, sem höfðu bundið vonir við endurskoðun áhættumatsins vegna þess, að fiskeldismenn höfðu lagt til nýjar eldisaðferðir til að draga úr hættu á erfðablöndun", segir hann.

Í tilkynningu á vef Hafrannsóknarstofnunar segir um ákvörðunina, að í lögum sé ekki heimild til að draga úr eldi, sem leyft hafi verið á grunni áhættumats, reynist leyfilegt eldi vera of mikið.  Því sé ekki ráðlegt að breyta áhættumatinu.""

Þetta er hundalógikk hjá stofnuninni, og hún virðist hér komin út í orðhengilshátt gagnvart fiskeldisfyrirtækjunum.  Rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á einum stað má einfaldlega aldrei fara yfir burðarþolið eða niðurstöðu áhættumats á tilteknu svæði, eftir því hvor talan er lægri.  Hafi fiskeldisfyrirtækið þegar greitt fyrir starfs- og rekstrarleyfi samkvæmt fyrri úthlutun, fær það einfaldlega endurgreiddan mismuninn á grundvelli nýrra vísindalegra niðurstaðna, um leið og það dregur úr framleiðslu samkvæmt áhættumati.  Það er einhvers konar skálkaskjól fyrir Hafrannsóknarstofnun að neita að hækka áhættumatið á grundvelli beztu þekkingar, af því að Alþingi hafi ekki beinlínis fyrirskipað, að fyrirtækin skuli jafnan breyta eldismagni í kjölfar nýrra niðurstaðna áhættumats.  

Hér er Hafrannsóknarstofnun komin út fyrir vísindalegan ramma sinn.  Stjórn stofnunarinnar ber að rýna þessa ákvörðun gaumgæfilega og óska eftir útgáfu nýs áhættumats í stað óljósra fyrirætlana stofnunarinnar um tilraunaeldi í Ísafjarðardjúpi.  Hagur fólksins, sem býr í viðkomandi byggðum, skal njóta vafans, auk þess sem um þjóðhagslega mikilvægan vaxtarbrodd í atvinnulífinu er að ræða.  Þetta á ekki sízt við, þar sem líkurnar eru 0 á óafturkræfum breytingum á einstæðu íslenzku lífríki (það eru engir sértækir íslenzkir laxastofnar í viðkomandi þremur ám í Ísafjarðardjúpi, þeir eru aðfluttir).

Jónatan Þórðarson, fiskeldisfræðingur, ritaði merka grein í Fréttablaðið 22. marz 2018, sem hann nefndi:

"Frey Frostasyni svarað vegna vistspors sjókvíaeldis":

"Svo virðist sem þeir, sem andmæla sjókvíaeldi, séu almennt fylgjandi eldi á landi.  Því er ekki úr vegi að bera saman þessa tvo valkosti, en undirritaður rak stærstu landeldisstöð heims í 16 ár og er því afar vel kunnugur málavöxtum, en hefur varið undanförnum 8 árum í að endurreisa sjókvíaeldi við strendur Íslands.  

Þegar horft er til vistspors laxaframleiðslu eða próteinframleiðslu almennt, er gjarnan litið til 4 þátta:

  1. Hve mikillar orku krefst framleiðslan ?
  2. Hvað verður um úrgang, sem fellur til ?
  3. Hver eru áhrif hugsanlegrar genablöndunar vegna stroks kynbætts eldisfisks ?
  4. Hvað kostar fjárfestingin við framleiðslu á hvert kg í vistspori, og hve mikið er hægt að endurvinna af búnaðinum ?

Fyrirliggjandi staðreyndir eru eftirfarandi:

 
  1. Það kostar 7 kWh af raforku að framleiða 1 kg af laxi í landeldi, þ.e.a.s. að færa laxinum súrefni og fjarlægja úrgangsefni.  Í sjókvíaeldi kostar þetta enga orku.  Ísland á hreina orku, sem hægt er að nota til þessarar framleiðslu, en hún er takmörkuð auðlind og ekki mikið rafmagn til í kerfinu fyrir stórskala framleiðslu.  Frekari virkjanaframkvæmdir eru umdeildar. [Fyrir t.d. 50 kt/ár þyrfti 350 GWh/ár af raforku, sem er tæplega 2 % af núverandi raforkunotkun landsins.  Raforkukostnaðurinn við landeldið er hár og nemur um 15 % af söluandvirði framleiðslunnar, sem dregur að sama skapi úr framlegð starfseminnar-innsk. BJo.]
  2. Úrgangsefni, sem verða til við framleiðsluna í landeldi, er hægt að fanga að miklu leyti og nýta sem áburð, en eigi að síður endar seyran inni í stóra nítur- og fosfathringnum á endanum.  Úrgangur frá sjókvíaeldi fellur að einhverju leyti til botns, en leysist allur upp að lokum og endar með sama hætti inni í stóra nítur- og fosfathringnum.  Þannig er þessi þáttur m.t.t. vistspors afar umdeilanlegur [og sennilega sambærilegur að stærð-innsk. BJo].  
  3. Strok verður æ minna með árunum og búnaðurinn betri og betri með hverju ári, sem líður, með sama hætti og öll önnur tæki þróast með tímanum.  Enginn framleiðandi vill, að lax sleppi, þannig að hvatinn er augljós.  Klárlega má fullyrða, að strok er minna úr strandstöðvum, ef vandað er til verks.  Um neikvæð eða jákvæð áhrif genablöndunar er erfitt að fullyrða, og líffræðingar eru afar ósammála um þennan þátt umræðunnar.  Það vegur hins vegar þungt að benda á rauntölur um afkomu norska laxastofnsins sem afleiðu af auknu eldi.  Hér er um sögulegar rauntölur að ræða, en ekki framreiknaðar tölur, byggðar á veikum faglegum grunni og lélegum rannsóknum.  Þar er ekki hægt að merkja, að aukið eldi hafi neikvæð áhrif á afkomu laxastofnsins í Noregi, þar sem villilaxastofninn þar hefur vaxið hin síðari 15 ár og laxeldi á sama tíma vaxið tífalt. [Hræðslusögur hérlendis af slæmu ástandi villtu norsku laxastofnanna, sem gríðarlegu laxeldi meðfram strönd Noregs hefur verið kennt um, eru algerlega á skjön við þessar staðreyndir Jónatans Þórðarsonar.  Stóryrtar og innihaldslausar fullyrðingar ásamt hrakspám um afleiðingar aukins sjókvíaeldis á laxi hérlendis styðjast ekki við annað en neikvæðar getgátur og þaðan af verra-innsk. BJo.]
  4. Erfitt er að fullyrða, að allar byggingar, sem byggðar eru í landeldi, séu endurnýjanlegar.  Afskriftartími sjókvía er 10-15 ár.  Net, kaðlar og kvíar eru að fullu endurnýttar.  Hér hefur sjókvíaeldi klárlega vinninginn.
Af þessu má ráða, að með nútímatækni við laxeldið sé sjókvíaeldi hreinlega vistvænna en landeldi.  Kostnaður við sjókvíaeldi er mun lægri en við landeldi á hvert framleitt tonn.  Landeldi laxins er þannig ekki samkeppnishæft við sjókvíaeldið.  Það verður þó ljóslega valkostur í framtíðinni, t.d. þar sem jarðhita er að hafa, þegar þolmörkum í leyfðum eldisfjörðum verður náð.
 
Gelding eldislax er á rannsóknar- og tilraunastigi.  Geltur lax hefur hingað til þrifizt illa og orðið mikil afföll við eldið. Óvíst er, hvernig markaðurinn tekur slíkri matvöru.  Það er tómt mál að tala um slíkt sjókvíaeldi við Ísland í umtalsverðum mæli á næstu 5 árum.
 
Áberandi tortryggni gætir víða hérlendis í garð sjókvíaeldis á laxi, mest þó á meðal veiðiréttarhafa og laxveiðimanna.  Fortíð fiskeldis á nokkra sök á þessu.  Með miklum norskum fjárfestingum í greininni hérlendis hefur hins vegar eldisþekkingu vaxið fiskur um hrygg og búnaður, tækni og gæðastjórnun, tekið stakkaskiptum til hins betra. Þá hefur lagaumhverfi greinarinnar skánað. Strokhlutfall úr eldiskvíum og upp í íslenzkar laxveiðiár er einfaldlega  orðið svo lágt, að óþarfi er að hafa áhyggjur af skaðlegum áhrifum erfðablöndunar, enda mun Hafrannsóknarstofnun endurskoða áhættumat sitt á mest þriggja ára fresti til lækkunar eða hækkunar á grundvelli fenginnar rekstrarreynslu á hverjum stað.
 
Laxeldið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í atvinnulífi og byggðaþróun á Vestfjörðum og Austfjörðum. Starfsemin er þegar farin að gegna þjóðhagslegu hlutverki, og hún hefur burði til að verða einn af vaxtarbroddum gjaldeyrisöflunar á næstu árum.  Til að viðhalda hagvexti og jákvæðum viðskiptajöfnuði þurfa útflutningstekjur landsins að aukast um 50 miaISK/ár í næstu framtíð.  Útflutningstekjur laxeldis eru nú um 15 miaISK/ár og geta hæglega aukizt upp í 100 miaISK/ár að landeldi meðtöldu á einum áratugi.  Til þess verða stjórnvöld þó að sníða greininni sanngjarnan stakk og leyfa henni að vaxa, eins og hún kýs, innan ramma núverandi svæðistakmarkana og "lifandi" burðarþolsmats og áhættumats innan þessara leyfðu svæða.   
 

 


Lognið á undan storminum

Ekkert ber á raunhæfum úrræðum ríkisstjórnar til að létta atvinnulífinu róðurinn.  Það glímir nú við slæm rekstrarskilyrði, einkum útflutningsatvinnuvegirnir, sem glíma við minni tekjur í krónum talið á meðan kostnaður hefur aukizt hóflaust.  

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefur undanfarið ár verið ötull við að skrifa blaðagreinar, þar sem hann hefur lýst hættulega mikilli rýrnun samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja og jafnframt bent á úrræði, sem stjórnvöld þurfa og geta gripið til hið bráðasta.

Stýrivextir Seðlabankans eru  kapítuli út af fyrir sig, sem ríkisstjórnin ræður ekki við öðru vísi en að leggja lagabreytingu um Svörtuloftin fyrir Alþingi, sem gerir þeim skylt að líta meira til efnahagslegs stöðugleika en nú er í stað gallaðs mats á verðbólguvæntingum, sem hafa á undanförnum árum skotið hátt yfir markið.  Húsnæðisliður hefur auk þess allt of hátt vægi við verðbólguútreikninga, og þættir langt utan seilingarsviðs Seðlabankans hafa mun meiri áhrif á verðþróun húsnæðis en útlánsvextir.  

Þann 3. júlí 2018 birtist alvarleg frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Fyrirtækin að fara úr landi":

""Stjórnvöld verða að bregðast við versnandi stöðu framleiðslufyrirtækja með skýrri atvinnustefnu.  Annars er hætta á, að fleiri framleiðslufyrirtæki og störf fari úr landi."  Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.  Það sé að koma á daginn, að íslenzkt hagkerfi standi ekki undir svo háum launum, nema framleiðni aukist."

Hvernig í ósköpunum má það vera, að ríkisstjórnin sitji við þessar aðstæður með hendur í skauti og aðhafist ekkert gegn aðsteðjandi vanda ?  Með því bregst ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur skyldum sínum.  Hún ætti nú þegar að hafa hleypt af stokkunum mótvægisaðgerðum, sem ýta undir framleiðnivöxt.  Þar er um að ræða fjárfestingarörvandi aðgerðir á borð við lækkun opinberra gjalda af fyrirtækjum, s.s. lækkun veiðigjalda, að létta kolefnisgjöldum af þeim, sem náð hafa loftslagsmarkmiðum 2030, lækkun tryggingagjalds og tekjuskatts fyrirtækja.

Hvað sagði Sigurður Hannesson meira ?:

"Það er hætt við, að iðnaður, sem fer úr landi, komi ekki aftur.  Framleiðslufyrirtæki hafa verið að hagræða og segja upp fólki í vetur.  Það segir sína sögu, þegar fyrirtæki vilja annaðhvort færa hluta starfseminnar utan eða telja sig ekki geta keppt við við erlenda keppinauta vegna þess, hversu hár innlendur kostnaður er orðinn.  Laun og vaxtakostnaður eru lægri erlendis sem og skattar og tryggingagjald.  Þessi skilyrði eru erfið fyrir ný fyrirtæki sem og þau eldri.  Hættan er sú, að ný fyrirtæki verði síður til." 

Í fréttinni kemur fram, að næst á eftir Svisslandi eru meðallaun í ISK í iðnaði og þjónustu hæst á Íslandi.  Meðallaun innan OECD eru 361,2 kISK/mán, og miðað við þau eru 5 hæstu launin innan OECD:  í Sviss 215 %, á Íslandi 205 %, í Noregi 172 %, í Lúxemborg 163 % og í Ástralíu 158 %. 

Ísland er áreiðanlega komið með hærri launakostnað en hagkerfið ræður við.  Eitt af mörgum úrræðum, sem grípa þyrfti til, til að verjast ofrisi og hrapi hagkerfisins, er lágt þak (undir verðbólgu) á allar launahækkanir í t.d. 3 ár.

Þann 13. júní 2018 birti Markaður Fréttablaðsins grein eftir Sigurð, sem bar fyrirsögnina:

"Heimatilbúinn vandi".

Hann lauk greininni þannig:

"Ein forsenda bættrar samkeppnishæfni er, að starfsumhverfi sé stöðugt, skilvirkt og hagkvæmt.  Aukinn og víðtækur stöðugleiki er ekki bara til hagsbóta fyrir fyrirtæki, heldur allt íslenzkt samfélag.  Undanfarin ár hafa ytri skilyrði verið hagfelld, en því má ekki treysta til framtíðar litið.  Háir skattar, há laun og háir vextir í alþjóðlegu samhengi vinna þó á móti, auk þess sem lengra er gengið í innleiðingu EES-reglugerða en þörf krefur.  Það jákvæða í stöðunni er þó það, að þetta er heimatilbúinn vandi, sem stjórnvöld hafa öll tækifæri til að vinna á og efla þar með samkeppnishæfni Íslands."

Vera landsins í EES eykur verulega á óstöðugleikann í starfsumhverfi atvinnulífsins, því að framkvæmdastjórn ESB ungar stöðugt út nýjum Evrópugjörðum, lagabálkum og reglugerðum.  Það er ekkert tillit tekið til smæðar íslenzka þjóðfélagsins við innleiðingu þessara gerða, og kostnaður fyrirtækja og stjórnsýslu hérlendis af þessu skriffinnskubákni er að öllum líkindum yfir 100 miaISK/ár, þegar tillit er tekið til hamlandi áhrifa báknsins á framleiðniaukningu landsins.  Of lítil framleiðniaukning almennt hérlendis er einmitt viðurkennt vandamál. 

Til að losna við þessa byrði þarf einfaldlega að segja upp EES-samninginum.  Þá tekur við eins árs umþóttunartími.  Hafi ekki náðst að gera fríverzlunarsamning á þeim tíma, tekur gamli verzlunarsamningurinn á milli Íslands og ESB gildi, og hann var alls ekki slæmur.  

Þorbjörn Guðjónsson, cand.oecon., varpaði ljósi á hrikalega stöðu útflutningsfyrirtækis á hugbúnaðarsviði með grein í Morgunblaðinu 3. júlí 2018,

"Við erum öll í ástandinu og það er gott".

Hann sýndi áhrif verðlagsbreytinga á rekstrarniðurstöðu dæmigerðs hugbúnaðarfyrirtækis í útflutningi.  Árið 2014 námu rekstrartekjur þess MISK 350, en höfðu árið 2017 lækkað niður í MISK 285,4.  Gengishækkun, 18,5 %, innlend verðbólga, 6,7 % og launahækkanir, 27 %, höfðu breytt 3,6 % hagnaði fyrir skatt í 36 % tap.  Þetta er hrikaleg staða.  

Það er með ólíkindum, að ríkisstjórnin verðist vera stungin líkþorni og ekki hafa döngun í sér til að gefa eitt eða neitt út á þetta.  Henni ber þó að viðhalda hér efnahagslegum stöðugleika og að gera sitt til, að landið sé samkeppnishæft um fólk og fyrirtæki.  Vonandi vænkast hagur Strympu fyrr en síðar.  

 

 

 

 


Friðunarárátta úr böndunum

Ef beita á náttúrufriðunarvaldinu til að stöðva virkjunaráform, sem hlotið hafa blessun Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkulinda, hafa fengið samþykki Alþingis og Skipulagsstofnunar, sem skrifað hefur upp á með skilyrðum, þá jafngildir það því að slíta í sundur það friðarferli, sem stjórnvöld landsins hafa reynt að mynda um auðlindanýtingu á landi. 

Það er alveg dæmalaust, að umhverfis- og auðlindaráðherra skuli ljá máls á tillögu Náttúrustofnunar Íslands frá 25. júní 2018 um friðlýsingu á væntanlegu athafna- og nýtingarsvæði Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði.  Um er að ræða stækkun friðlandsins á Hornströndum til suðurs, um 1281 km2 svæði suður um Ófeigsfjarðarheiði.  

Það er ósvífni að hálfu ríkisstofnunar og ólýðræðislegt í hæsta máta af Náttúrustofnun að leggja það til, að ríkið grípi fram fyrir hendur heimamanna, Vestfirðinga og íbúa í Árneshreppi sérstaklega, sem unnið hafa í mörg ár samkvæmt lögskipuðum ferlum að undirbúningi 55 MW, 400 GWh/ár, vatnsaflsvirkjunar á Ströndum, með því að biðja ráðherra um að leggja nýja náttúruminjaskrá um téð svæði fyrir Alþingi í haust.  Þessa aðför að sjálfbæru mannlífi og atvinnulífi á Vestfjörðum á að kæfa í fæðingunni, og það mun Alþingi vonandi gera, því að til þess hefur ráðherra þessi ekki bein í nefinu. 

Hann skrifaði 13. júní 2018 í Fréttablaðið grein um áhugamál sitt:

"Stórfelld tækifæri við friðlýsingar"

"Síðastliðinn föstudag [08.06.2018] kynnti ég í ríkisstjórn áform um átak í friðlýsingum, en í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um það.  Átakið felur í sér að friðlýsa svæði, sem njóta eiga verndar gegn orkunýtingu (verndarflokkur rammaáætlunar) sem og svæði á eldri náttúruverndaráætlunum, sem ályktað hefur verið um að friðlýsa, en hefur ekki verið lokið."

Friðlýsing svæða í nýtingarhluta Rammaáætlunar er þarna ekki á dagskrá ráðherrans, enda eru slík endemi ekki í sáttmála núverandi ríkisstjórnar, þótt þar kenni ýmissa grasa.  Ráðherrann er á pólitísku jarðsprengjusvæði með því að gefa undir fótinn með friðlýsingu á téðu landsvæði.  Hann ætti að forðast að fara fram með offorsi í hinar friðlýsingarnar án samstarfs við og samþykkis viðkomandi sveitarstjórna, bænda og annarra landeigenda.  Friðlýsingu má ekki troða upp á heimamenn af ríkisvaldinu.

Það mun fara eins lítið fyrir Hvaleyrarvirkjun í náttúrunni og hugsazt getur.  Hún verður neðanjarðar að öðru leyti en stíflunum.  Aflið frá henni verður flutt um jarðstreng.  Flúðarennsli verður áfram, þótt það minnki á meðan vatnssöfnun í miðlunarlón á sér stað.  Hönnun er sniðin við lágmarks breytingar á umhverfinu, þannig að útivistargildi svæðisins verður nánast í fullu gildi áfram, þótt verðmætasköpun aukist þar skyndilega úr engu og í meira en 2,4 miaISK/ár, sem gæti orðið andvirði raforkusölunnar frá virkjun m.v. núverandi markaðsverð.  Þessi starfsemi getur orðið fjárhagsleg kjölfesta sveitarfélagsins, sem hýsir mannvirkin, á formi fasteignagjalda og auðlindargjalds o.fl.

Þann 26. júní 2018 staðfesti Skipulagsstofnun loksins breytingu á Aðalskipulagi Árneshrepps vegna framkvæmdanna.  Skipulagsstofnun setti sem skilyrði, að vegagerð yrði í algjöru ágmarki og henni sleppt, þar sem hægt væri.  Þetta er þó ekki til þess fallið að bæta mikið aðgengi ferðamanna að svæðinu, svo að áfram munu þá þeir einir komast þar víða um, sem fráir eru á fæti.  

Þann 7. júní 2018 birtist ágæt grein í Morgunblaðinu eftir Kristin H. Gunnarsson, fyrrverandi Alþingismann, undir fyrirsögninni:

"Hvalá: stórstígar framfarir fyrir Vestfirðinga".

Hún hófst þannig:

"Hvalárvirkjun í Árneshreppi mun verða mikið framfaraskref fyrir Vestfirðinga.  Afhendingaröryggi raforku mun batna mikið, framboð af raforku mun opna möguleika á nýrri atvinnustarfsemi, og útblástursmengun mun minnka verulega.  Þessu verður hægt að ná fram með litlum tilkostnaði hins opinbera, þar sem einkaaðilar munu standa straum af framkvæmdum.  Hvalárvirkjun er 55 MW virkjun og hefur tvisvar verið samþykkt í nýtingarflokk og staðfest af Alþingi."

Þetta eru sterk rök fyrir nytsemi þessarar virkjunar.  Virkjunin er ekki "nice to have" fyrir Vestfirðinga, heldur bráðnauðsynleg til þess, að raforkukerfi Vestfjarða standi undir nafni, en sé ekki hortittur út úr hringtengingu landsins frá Hrútatungu í Hrútafirði.  Til að halda uppi rafspennu í víðfeðmu raforkukerfi, eins og á Vestfjöðum, þarf öflugar virkjanir, og núverandi virkjanir þar hrökkva engan veginn til.  Mikið spennufall jafngildir tiltölulega háum töpum og óstöðugri spennu.  Aðeins hækkun skammhlaupsafls í raforkukerfi Vestfjarða getur dregið þar úr orkutöpum og gefið stífari spennu.  Þetta er síðan skilyrði þess, að tæknilega verði unnt að færa þar loftlínur í jörðu; aðgerð, sem draga mun úr bilanatíðni kerfisins og bæta ásýndina.  Þessar umbætur eru útilokaðar án framkvæmda á borð við Hvalárvirkjun. Jarðstrengir framleiða síðan rýmdarafl, sem virkar enn til spennuhækkunar og aukinna spennugæða á Vestfjörðum, en aukning skammhlaupsafls með nýjum virkjunum á svæðinu verður að koma fyrst.

Kristinn nefnir framtíðar möguleika til enn meiri styrkingar kerfisins, sem aukin raforkunotkun á Vestfjörðum mun kalla á.  Þar er t.d. Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3.  Þannig eru 85 MW í nýtingarflokki og um 50 MW enn ekki þar.  Alls eru þetta 135 MW með áætlaða vinnslugetu 850 GWh/ár.

Kristinn benti ennfremur á mikilvægi öflugs vestfirsks raforkukerfis fyrir raforkuöryggi landsmanna.  Þar hefur hann mikið til síns máls, því að á Vestfjörðum þarf hvorki að búast við tjóni af völdum jarðskjálfta né eldgosa.  Ofangreint rafafl mundi duga fyrir algera lágmarksnotkun landsmanna í mikilli neyð, þar sem skömmtun yrði að viðhafa.  Vinnslugeta margra virkjana landsmanna getur skyndilega rýrnað verulega, t.d. í jarðskjálftum, þar sem gufuholur verða óvirkar, og/eða í eldgosum, þar sem aska og vikur leggst á miðlunarlón, stíflar vatnsinntakið eða skemmir hverflana.  Vesturlína getur flutt um 100 MW hvora leið.

Af öðru sauðahúsi er annar höfundur um sama efnivið, Tómas, nokkur, Guðbjartsson, "læknir og náttúruverndarsinni".  Hann hefur um hríð fundið hjá sér hvöt til að finna virkjunaráformum í Hvalá allt til foráttu og verið stóryrtur í garð virkjunaraðilans og eigenda hans.  Umfjöllun Tómasar hefur verið mjög einhliða og gildishlaðin, þótt siðferðislega virðist  hann ekki hafa úr háum söðli að detta, ef marka má fréttaskýringu Guðrúnar Erlingsdóttur í Morgunblaðinu 29. júní 2018,

"Háskólinn hefur beðist velvirðingar".

Þar gaf m.a. þetta á að líta:

"Í nóvember 2017 komst sænska siðanefndin að þeirri niðurstöðu, að Macchiarini og meðhöfundar hans [Tómas Guðbjartsson var þeirra á meðal-innsk. BJo] að vísindagreininni í The Lancet hefðu gerzt sekir um vísindalegt misferli." 

Það er mikill áfellisdómur yfir manni, óháð stétt, þegar slíkur aðili sem téð siðanefnd lýsir tilteknum starfsháttum hans sem "vísindalegu misferli".  Væntanlega má almenningur draga af því þá ályktun, að brestur sé í siðferðiskennd þeirra, sem slíkt drýgja.

Síðan segir í tilvitnaðri frétt Guðrúnar Erlingsdóttur:

"Í júní 2018 úrskurðar rektor Karólínsku stofnunarinnar með 38 blaðsíðna rökstuðningi, að Tómas Guðbjartsson ásamt 6 öðrum læknum sé ábyrgur fyrir vísindalegu misferli vegna greinaskrifa í The Lancet árið 2012, en áður en greinin birtist hafði New England Journal of Medicine hafnað greininni."

Þann 19. júní 2018 birtist ein af fjölmörgum greinum téðs Tómasar um fyrirhugaðar framkvæmdir Vesturverks á Ströndum.  Hún hófst þannig:

"Fyrirhuguð Hvalárvirkjun hefur mikið verið til umræðu undanfarið, enda vægast sagt umdeild framkvæmd.  Ástæðan er sú, að með virkjun er verið að fórna stórkostlegri íslenzkri náttúru í hendur HS Orku-jarðhitafyrirtækis í meirihlutaeign umdeildra kanadískra fjárfesta.  Auk þess er ávinningur virkjunar vægast sagt óljós fyrir Vestfirðinga og þá ekki sízt íbúa Árneshrepps."  

Það er með endemum, að maður, með slíka umsögn á bakinu og fram kemur í tilvitnunum frá Svíþjóð hér að ofan, skuli fara á flot í blaðagrein hérlendis með svo gildishlaðna frásögn og hér getur á að líta.  Þótt ekki séu allir sammála um, að rétt sé að fara í þessar framkvæmdir, er gert of mikið úr ágreininginum, þegar gætt er að afgreiðslum Alþingis á málinu og afstöðu sveitarstjórnarinnar fyrir og eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar.  Þá eru líklega langflestir Vestfirðingar fylgjandi því, að framkvæmda- og virkjanaleyfi verði veitt.  Það er hins vegar engu líkara en allir tilburðir Tómasar í þessu máli séu til þess ætlaðir að magna upp ágreining um mál, sem víðtæk sátt hefur þó náðst um.

Að halda því fram, að fyrir þeim fjölda fólks, sem fylgjandi eru þessum framkvæmdum, sem og yfirvöldum landsins, sé ávinningurinn óljós, er mjög afbrigðilegt, enda hefur ávinningurinn oft komið fram opinberlega, og er að nokkru saman tekinn í þessum pistli.  Í ljósi þess, að virkjun þessi verður algerlega afturkræf, er fjarstæðukennt að skrifa, að um fórn til kanadískra fjárfesta sé að ræða á íslenzkri náttúru.  Slík skrif Tómasar eru marklaus.

 

   

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband