Hvaða vandamál á ACER að leysa hérlendis ?

Morgunblaðið birti 9. ágúst 2018 frétt á bls. 20 um raforkuverð til almennings í 33 Evrópulöndum, eins og það er reiknað af Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat.  Einingin er cEUR/kWh (evrusent á kílówattstund), og trónir Belgía efst með 28,5 og Kósóvó er lægst með 6,6.  Ísland er í 21.-23. sæti með 12,4 cEUR/kWh eða 15,5 ISK/kWh m.v. 125 ISK/EUR.  Það eru 20 ESB ríki fyrir ofan Ísland og 3 fyrir neðan.  Ísland stendur vel að vígi í þessum samanburði, og það er mjög ólíklegt, að innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi mmundi leiða til lækkunar á raforkuverði hérlendis, því að samkeppnisþátturinn, raforkuvinnslan sjálf, spannar aðeins um 40 % af ofangreindu verði á Íslandi.  

Þvert á móti getur þessi innleiðing haft skaðleg áhrif hérlendis, því að markaðskerfi ESB/ACER letur fremur en hvetur íslenzk orkufyrirtæki til að fjárfesta í nýjum virkjunum, og þar af leiðandi eykst hættan á afl- og orkuskorti hér með þeim mikla samfélagslega kostnaði, sem hann hefur í för með sér.  Ástæðan er sú, að vinnslukostnaður nýrra virkjana á Íslandi er hærri en fyrri virkjana, öfugt við stöðuna í ESB-löndunum, og þar af leiðandi versnar samkeppnisstaða þeirra, sem hérlendis reisa nýjar virkjanir í orkumarkaðskerfi ESB.

Ef innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi leiðir til lagningar aflsæstrengs til útlanda, en slíkur er í framvinduskýrslu ACER frá 07.07.2017, "Consolidated Report on the progress of Electricity and Gas Projects of Common Interests for the year 2016", skráður á rannsóknarstigi, þá er alveg áreiðanlegt, að raforkuverð á Íslandi mun hækka verulega, bæði vegna aukinnar eftirspurnar, fjölda nýrra virkjana og vegna nauðsynlegrar eflingar flutningskerfisins til að flytja raforkuna að sæstrengnum. Sá kostnaður lendir á notendum innanlands samkvæmt reglum ESB/ACER.  

Raforkukerfið á Íslandi er allsendis ófullnægjandi, en markaðshagkerfi ESB/ACER leysir engan veginn úr þeim vanda, því að mestu vandkvæðin eru bundin við einokunarstarfsemina.  Flutningskerfi Landsnets annar ekki núverandi raforkuþörf á nokkrum stöðum og annar ekki þörfum orkuskiptanna, nema á einstaka stað.  Áreiðanleika flutningskerfisins er víða ábótavant, og áreiðanleika dreifikerfanna er mjög víða ábótavant.

Þann 8. ágúst 2018 varð straumlaust í 9 klst samfleytt í Hveragerði, sem er 2300 manna bæjarfélag með fjölbreytta atvinnustarfsemi. Skammhlaup varð í jarðstreng.  Ljóst er, að varnir aðalspennisins í aðveitustöð Hveragerðis hafa verið ranglega stilltar eða bilaðar, því að þetta strengskammhlaup leiddi til bilunar aðalspennisins.  Það er glæfralegt og óviðunandi fyrir bæjarfélag á borð við Hveragerði, að bilun í aðalspenni geti leitt til langvarandi straumleysis.  Í aðveitustöð Hveragerðis verður að búa svo um hnútana, að ein bilun geti ekki valdið meira en einnar klst straumleysi að hámarki.  Til þess þarf annar eins spennir að vera tilbúinn til innsetningar, ef hinn rofnar frá kerfinu.  

Frétt Morgunblaðsins af þessum atburði 9. ágúst 2018,

"Engin starfsemi í níu klukkustundir",

hófst þannig:

""Samfélagið lamaðist algjörlega, og maður sá, hversu virkilega háð við erum rafmagninu", segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, um rafmagnsleysi, sem kom upp í bænum í gær og stóð yfir í um 9 klukkustundir. Rafmagn er nú komið á í bænum og allt komið í samt lag.  Spurð um, hvort rafmagnsleysið hafi valdið miklu tjóni, kveður Aldís já við.  Nefnir hún í því samhengi fyrirtæki, sem urðu af viðskiptum í kjölfar rafmagnsleysins."

Þá var viðtal við kynningarstjóra RARIK, sem er dreifingarfyrirtæki Hvergerðinga, Rósant Guðmundsson:

"Að sögn Rósants geta bilanir í aflspennum komið upp, hvenær sem er.  Með réttu viðhaldi sé bilanatíðni þeirra hins vegar afar lág. [Hér er sá hængurinn á, að "rétt viðhald" verður ekki framkvæmt, ef ekki er hægt að taka spenninn úr rekstri án straumleysis hjá notendum.  M.a. þess vegna eru 2 spennar nauðsynlegir, og hægt á að vera að flytja álagið á milli þeirra án straumleysis hjá notendum - innsk. BJo.]

"Aflspennar geta bilað, hvenær sem er.  Ef sagan er samt skoðuð, kemur í ljós, að með réttu viðhaldi er tíðni bilana lág.  [Rétt viðhald felur líka í sér réttar stillingar liðaverndar og prófanir á liðavernd - innsk. BJo.]  Í ljósi þess, hve dýrir aflspennar eru, þá er iðulega ekki gert ráð fyrir tvöföldu öryggi með aukaspenni á hverjum stað, heldur reynt að hafa tiltækan varaspenni, sem má flytja á svæðið, þegar þörf krefur", segir Rósant."

Fyrir yfir 2000 manna notendahóp er þetta einfaldlega rangt mat.  Kostnaður þeirra af slíku straumleysi réttlætir fullkomlega tvöfalt kerfi.  RARIK verður að gera meiri kröfur til sín um gæði þjónustunnar en þessi ummæli gefa til kynna, og sveitarfélagið ætti að krefjast nákvæmrar greiningar á þessu atviki og á  kostnaðinum, sem tvöföldun í þessu tilviki mundi hafa í för með sér fyrir notendur.

Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, skrifaði afar skilmerkilega grein í Morgunblaðið þann 9. ágúst 2018 um reginmun á raforkukerfi Íslands og ESB-landanna, sem gerir það að verkum, að það er ekki hægt að beita markaðsaðferðum ESB/ACER á íslenzka raforkumarkaðinn án þess að valda atvinnulífinu hér og öllum almenningi skakkaföllum. Rökrétt ályktun af þeirri niðurstöðu er, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB á ekkert erindi inn í íslenzka löggjöf.  Íslendingar eru síður en svo bundnir af samþykktum á löggjafarsamkomum annarra EFTA-ríkja á þessari framandi ESB-löggjöf, og Alþingi ætti því hiklaust að synja þessu máli samþykkis, þegar það kemur þar til afgreiðslu.

Lokakafli téðrar greinar, 

"Markaðstrú og raunveruleiki", 

hljóðaði svo:

"Við þær aðstæður, sem hér eru, getur óheftur markaður samkvæmt forskrift ESB ekki tryggt notendum nægilegt öryggi og lágt orkuverð án aðkomu stjórnvalda.  Allt þetta merkir líka, að hægt verður að setja spurningar við það, hvað raforkumarkaður hér getur orðið frjáls í raun, en samt verður að reyna.  Það má ekki gefast upp á því að nýta markaðslögmálin til að auka hagkvæmni í raforkuvinnslu og flutningi til hagsbóta fyrir almenna notendur raforku í landinu.

Eins og kemur fram í forsendukafla tilskipunar ESB nr 75/2009, þá er ein meginástæða fyrir tilurð hennar tregða einhverra innan ESB til að setja þær reglugerðir og leggja í þær fjárfestingar, sem þarf til að mynda frjálsan, nægilega virkan markað yfir landamæri innan bandalagsins.  Á þessu er tekið í tilskipuninni, með því að hvert ríki ESB skal stofna embætti landsreglara, og hafi þeir með sér samstarf, sem ný stofnun, ACER, heldur utan um.  Þannig fær þessi stjórnarstofnun ESB sterkt áhrifavald inn í raforkukerfi hvers lands, framhjá öllum öðrum stjórnvöldum og beitir því til að samræma reglugerðir þeirra.  Þetta leysir engin okkar vandamála, nema síður sé."

Landsreglari ESB yfir raforkumálum á Íslandi yrði algerlega einstæður í sögu stjórnskipunar á Íslandi frá 1. desember 1918.  Stofnun þessa embættis felur í sér opinbert valdframsal til yfirþjóðlegrar stofnunar, sem er Stjórnarskrárbrot á Íslandi.  Þegar af þeirri ástæðu ber Alþingi að hafna væntanlegri þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðingu umrædds lagabálks.  

Kerfi ESB er tæknilega ófært um að lækka orkuverð á Íslandi og samtímis að tryggja nægt framboð raforku.  Hér þarf að leggja auðlindagjald á orku frá virkjunum 20 ára og eldri til að mynda hvata til nýrra virkjana.  

 

 

 

 

 

 


Lokar á lækna og sóar opinberu fé

Heilbrigðisráðherra hefur gjörsamlega gengið fram af læknastéttinni.  Þetta framgengur af blaðagreinum, sem læknar hafa fengið birtar í sumar.  Hér verður ein slík gerð að umfjöllunarefni. Þar er talað tæpitungulaust. Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. júní 2018 undir heitinu:

"Ráðherra læsir úti læknana og kastar krónunni",

og eru höfundarnir Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur og Ragnar Freyr Ingvarsson, gigtarlæknir.  

Þeir sýna þar með skýrum hætti fram á, að útreikningar Ríkisendurskoðunar um 60 % kostnaðaraukningu ríkisins við þjónustu einkalæknastofa á 5 ára bili 2012-2017 sé villandi og nær sé 10 % kostnaðaraukning eða 2 % raunaukning á ári, sem þeir skýra á eftirfarandi hátt:  

"Fólksfjölgun var um 1,5 % á ári, og þegar öldrun þjóðarinnar er bætt við, má reikna með 2 % aukinni þjónustuþörf á ári.  Þá stendur eftir rúmlega 2 % hækkun á ári eða samtals 10 % á fyrrnefndu fimm ára tímabili.  Sú hækkun varð einfaldlega til vegna flutnings verka frá spítölunum í þetta ódýrara úrræði, og auðvelt er að ímynda sér, að með því sparist talsverðir fjármunir samhliða því, að þjónusta við sjúklinga batnar.  Verk hafa færzt út frá Landsspítala, en mikið af því, sem gert var á St. Jósefsspítala fluttist líka inn á samninginn á þessu tímabili.  Vonandi er, að nákvæmni Ríkisendurskoðanda í álitsgjöf sinni og útreikningum sé að öllu jöfnu meiri en í þessu tilviki."

Röksemdir ráðherrans fyrir aðför hans að einkareknum læknastofum standast ekki rýni, hvað sem kostnaðaraukningu líður.  Um það vitnar samanburður á einingarkostnaði skýru máli, eins og fram kemur í neðangreindri tilvitnun:

"Sumt liggur þó ljóst fyrir og talar skýru máli um mismunandi kostnað eftir því, hver veitir þjónustuna.

Dæmi: læknisheimsókn ósjúkratryggðra einstaklinga (t.d. ferðamanna), sem borga fullt verð fyrir þjónustuna, er mun hagkvæmari á stofu sérfræðings en bæði á heilsugæzlu og á göngudeild Landsspítalans.  Heimsókn til sérfræðings á stofu kostar í heildina 8.700 kr, á heilsugæzlu 9.600 kr, og dýrust er hún, eða 13.200 kr, á göngudeild spítala.  Heimsóknin á stofu kostar þannig 4.500 kr minna en á göngudeild Landsspítalans, sem þýðir, [að göngudeildin er tæplega 52 % dýrari en stofan - innsk. BJo]."

Glópska ráðherrans í sinni ýtrustu mynd að færa 500.000 heimsóknir frá læknastofum á göngudeildir spítala mundi auka samfélagslegan kostnað um 2,3 milljarða króna á ári.  Það verður að brjóta þennan hættulega ráðherra á bak aftur.

Lokakaflinn í ágætri grein læknanna styður þetta ákall:

"Sitjandi heilbrigðisráðherra og tveir síðustu forverar hans hafa samt ítrekað brotið þennan góða samning, m.a. með einhliða lokun á nýliðun lækna, sem þar með eru læstir úti úr landinu.  Samningurinn rennur út um næstu áramót, og ráðherra hefur margoft lýst því yfir, að nýr samningur verði aldrei gerður, nema á gjörbreyttum grunni.  Ódýrasta og bezta heilbrigðiskerfi í heimi verður að víkja til að flytja þjónustuna inn í ríkisrekstur, hvað sem það kostar.  Og það verður dýrt, því að hvort sem aukning umsvifa sérfræðilækna á stofu mælist 12 % á ári eða 2 %, leiðir sú aukning til mikils heildarsparnaðar í kerfinu.  Sé farið í hina áttina, og kerfið ríkisvætt, eykst kostnaður verulega á sama hátt.

Augljóst er, að heilbrigðisyfirvöld eru á villigötum.  Á meðan alþjóðleg þróun er í þá átt, að þjónusta hefðbundinna spítala minnkar samhliða aukinni þekkingu og tækni, sem einfaldar læknisverkin, rær íslenzki heilbrigðisráðherrann á móti straumnum.  Hann setur úrelt sjónarmið í öndvegi og setur stefnuna á að spara aurinn og kasta krónunni.  Fjárhagslega er ekkert vit í því, en alvarlegast er, að með áformum sínum læsir hann líka unga lækna og nýja þekkingu úti úr landinu.  Þennan glórulausa kúrs þarf að leiðrétta strax, opna samninginn, endurnýja hann og tryggja, að þjónusta sérfræðilækna verði áfram innan opinbera kerfisins.  Líðan og heilsa íslenzkra sjúklinga og grunnstoðir heilbrigðiskerfisins eru í húfi."

Þingmenn hljóta að láta til sín taka á komandi þingi vegna hneykslanlegrar framgöngu heilbrigðisráðherra í nafni fáránlegrar hugmyndafræði, sem veldur stórfelldri sóun almannafjár og skerðingu á atvinnufrelsi nýrra sérfræðilækna, sem hefja vilja bráðnauðsynlega starfsemi hér á landi.  Þessi ráðherra er í einu orði sagt tímaskekkja. 

 

 

 

 

 


Hvers konar stríð er þetta ?

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sérfræðilæknar hafa ekki fengið samning við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um að veita eigin stofuþjónustu með kostnaðarþátttöku SÍ.  Það er jafnframt ljóst, að læknarnir uppfylla öll skilyrði, sem hingað til hafa verið sett að hálfu SÍ fyrir samningi, og SÍ hafa verið fúsar til að semja, en heilbrigðisráðherra hefur með gerræðislegum hætti komið í veg fyrir samninga í hátt í tvö ár. 

Hér skal draga stórlega í efa, að núverandi ríkisstjórn styðji þetta fáheyrða stríð Svandísar Svavarsdóttur við læknastéttina í landinu, heldur er ástandið birtingarmynd á öngþveiti, sem hugmyndafræðileg slagsíða við stjórnun  heilbrigðiskerfisins hefur í för með sér.  Afleiðing hennar verður dýrari og verri þjónusta við skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins, allt of hæg endurnýjun í læknastétt og stöðnun þekkingarþróunar í greininni, sem þá þýðir hlutfallslega afturför m.v. nágrannalöndin. 

Það er ömurlegt, að þessi staða skuli vera uppi á Íslandi 2018, en hún er afleiðing ríkjandi stöðu ríkisvaldsins við veitingu heilbrigðisþjónustu í landinu.  Við því verður væntanlega lítið gert á næstunni, en það verður að sníða verstu agnúana af kommúnístísku kerfi, til að það virki almennilega (eins og kínversku kommúnistarnir vita og framkvæma daglega), og til þess þarf líklega atbeina Alþingis.  

Til merkis um alvarleika málsins er heilsíðugrein í Morgunblaðinu 4. ágúst 2018 eftir kunnan og mikils metinn lækni, Sigurð Björnsson,

Heilbrigðisþjónusta á Íslandi-hver er staðan og hvert stefnir ?".

Þetta var yfirlitsgrein um þróun og skipulag heilbrigðisþjónustu á Íslandi.  Hún var afar fróðleg og málefnaleg, en ekki fór á milli mála, að höfundurinn hafði miklar áhyggjur af núverandi stöðu, sem virðist stafa af steinbarni rökþrota ráðherra.  Verður nú gripið niður í greinina:

"Nýjasta ráðstöfun heilbrigðisyfirvalda er sú að bregða fæti fyrir unga lækna, sem lokið hafa sérnámi og hyggjast koma til starfa á Íslandi með nýjustu þekkingu, og hefja störf innan heilbrigðisþjónustunnar með sama hætti og forverar þeirra hafa gert til þessa. 

Þeir fá ekki að starfa eftir samningi við Sjúkratryggingar Íslands, eins og þeir, sem fyrir eru, þannig að sjúklingar, sem til þeirra leita, þurfa að bera allan kostnaðinn af læknisheimsókninni sjálfir og eru þannig sviptir sjúkratryggingum, sem þeir hafa greitt iðgjöld fyrir frá unglingsaldri.  

Með þessu eru yfirvöld að innleiða mismunun, þar eð Tryggingarnar taka þátt í greiðslu fyrir þjónustu hjá sumum læknum, en ekki fyrir sömu þjónustu hjá öðrum læknum.  Þetta eru nýmæli, sem ganga þvert á vinnureglur Trygginganna og yfirlýsta stefnu yfirvalda til þessa.  

Ég fæ mig ekki til að rökræða þessa aðför yfirvalda að heilbrigðisþjónustunni; ég trúi því einfaldlega ekki, að við þessa ákvörðun verði staðið."

Hér er um siðlaust og kolólöglegt athæfi ráðherrans að ræða, sem ríkissjóður tapar stórfé á, eins og síðar verður sýnt fram á.  Ef hvorki ríkisstjórn né Alþingi taka fram fyrir hendur hins ofstækisfulla ráðherra, verður að reka málið fyrir dómstólum, því að  framferðið er kolólöglegt.  Það er ráðizt gegn atvinnufrelsi lækna, sem varið er í Stjórnarskrá, eins og atvinnufrelsi annarra stétta.  Það er brot gegn lögum um heilbrigðiskerfið, þar sem öllum sjúklingum er tryggður jafn réttur, en hér er um fjárhagslega mismunun að hálfu ríkisins að ræða eftir vali sjúklings á lækni.  Hvernig er hugarheimur stjórnanda, sem hagar sér svona ? 

"Því er ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda, ef áfram á að hindra íslenzka lækna með sérfræðimenntun frá erlendum þekkingarsetrum í því að snúa heim og halda áfram að tryggja hér á landi heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki.  Þjóðin á það ekki skilið af stjórnmálamönnum eða embættismönnum, sem allir eru í starfi og á launaskrá hjá íslenzku þjóðinni.  

Samtök lækna og aðrir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar eru sem fyrr reiðubúnir að starfa með yfirvöldum að því að bæta þjónustuna og laga hana að breyttum ytri aðstæðum.  Þá þyrfti fyrst að skilgreina vandamálin og leggja síðan fram samstilltar tillögur til lausnar."

Vandamálið er of lítil samkeppni þeirra, sem þjónustuna veita, af því að ríkið er yfir og allt um kring í þessum geira.  Þess vegna hefur hann logað í illdeilum um kaup og kjör, af því að of lítil samkeppni er um vinnuaflið.  Það þarf að breyta fjármögnun ríkisstofnana á borð við Landsspítalann frá því að vera tilgreind fjárhæð á fjárlögum í að verða greiðslur fyrir verk, sem verkkaupinn, Tryggingastofnun/Sjúkratryggingar getur þá í sumum tilvikum valið verktaka að.  

Kostnaður við heilbrigðisgeirann vex stjórnlítið ár frá ári, og þessi þróun ógnar stöðugleika ríkisfjármálanna til lengdar litið.  Þetta er sjúkleikamerki á kerfinu, því að Íslendingar ættu ekki að búa við lakari heilsu en aðrar vestrænar þjóðir, þar sem mengun er hér miklu minni, nóg af hreinu vatni og þjóðin yngri en aðrar, t.d. í Evrópu.  Sigurður Björnsson reifaði þetta vandamál:

"Margir þættir hafa leitt til þess, að kostnaður við heilbrigðisþjónustu hefur vaxið gífurlega á síðustu áratugum; aukin þekking á orsökum og eðli sjúkdóma, þróun tækjabúnaðar, þróun og framleiðsla lyfja, flóknar byggingar fyrir heilbrigðisþjónustu, menntun heilbrigðisstétta, teymisvinna (aðkoma margra stétta að lækningu hvers sjúklings).  Sumar þjóðir hafa ekki náð að tileinka sér framfarir í heilbrigðisþjónustu og þannig dregizt aftur úr þeim þjóðum, sem betur standa."

Það eru nútíma lifnaðarhættir, óhollt matarræði, hreyfingarleysi, mikið lyfjaát og notkun vímugjafa, sem eyðilagt hafa heilsu fjölmargra.  Tækniþróunin hefur gert heilbrigðisstarfsfólki kleift að fást við sjúkdómana, sem af þessum lifnaðarháttum leiða, og sömu sögu er að segja af hrörnunareinkennum, sem verða stöðugt algengari vegna meira langlífis en áður.  Almenningur er ekki nógu meðvitaður um gildi forvarna og mótvægisaðgerða upp á eigin spýtur án aðkomu heilbrigðiskerfisins, heldur reiðir sig á það, þegar allt er komið í óefni. 

Samfélagið greiðir bróðurpart kostnaðar heilbrigðiskerfisins, og almenningur er jafnvel ómeðvitaður um kostnaðinn.  Það er ekki kyn, þó að keraldið leki.  

Sigurður Björnsson reifaði fjármögnunina:

"Síðar varð Tryggingastofnun ríkisins til, og iðgjöldin voru innheimt með annarri skattheimtu hins opinbera.  Jafnframt voru sett lög og reglur um skipulag heilbrigðisþjónustunnar, þar sem gæta skyldi hagsmuna fólksins í landinu, og tíundaðar voru skyldur lækna og annarra starfsmanna.  Þannig varð til hugtakið heilbrigðiskerfi, sem að miklu leyti hefur verið fært undir stjórn embættis- og stjórnmálamanna í skjóli þess, að kerfið sé að mestu leyti fjármagnað af ríkissjóði (iðgjöldum fólksins til sjúkratrygginga), en lítið horft til þess, að heilbrigðisstarfsmenn hafa sjálfir þróað heilbrigðisþjónustu á Íslandi, sem er meðal þess bezta, sem þekkist."

Þetta ægivald embættis- og stjórnmálamanna yfir heilbrigðisþjónustunni er jafnframt hennar helzti Akkilesarhæll.  Það er engin ástæða til að viðhalda þessu stórgallaða fyrirkomulagi, þótt greiðslur séu að mestu úr sameiginlegum sjóðum, heldur ber brýna nauðsyn til að auka fjárhagslegt og faglegt sjálfstæði stofnananna.

Um fjórðungur af útgjöldum ríkisins eða miaISK 209 fer til heilbrigðismála.  Þetta hlutfall verður að hemja, því að annars munu aðrir nauðsynlegir þjónustuþættir ríkisins endalaust sitja á hakanum, t.d. vegakerfið, sem þarf stóraukin framlög, sem fartækjakaupendur og -rekendur standa reyndar ríkulega undir.  

Skipting kostnaðar er þannig:

  • Sjúkrahús: miaISK 92 eða 44 %
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa: mia ISK 48 eða 23 %
  • Hjúkrun og endurhæfing: miaISK 47 eða 22 %
  • Lyf og lækningavörur: miaISK 22 eða 11 %
  • Alls miaISK 209

Í liðnum "heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa" eru greiðslur til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna um miaISK 12,5 eða 6 % af heild.  Þessi upphæð stendur undir útseldum kostnaði yfir 300 lækna, þ.e. launakostnaði þeirra og 300 annarra starfsmanna auk húsnæðiskostnaðar og tækjabúnaðar.Þessi kostnaður er við þjónustu í 500´000 heimsóknum sjúklinga, sem er svipaður fjöldi og hjá göngudeildum Landsspítalans og heilsugæzlum höfuðborgarsvæðisins til samans.  

Er einhver glóra í þeim málflutningi heilbrigðisráðherra, að færa eigi þjónustuna, sem þessi einkarekna starfsemi veitir, á göngudeildirnar og heilsugæzlurnar ?  Nei, það er brennt fyrir það.  Í fyrsta lagi geta þessir aðilar ekki tekið við þessari hálfu milljón heimsókna vegna aðstöðuleysis og sumpart þekkingarskorts, og í öðru lagi yrði slíkt mjög óhagkvæmt.  Þvert á móti mætti spara ríkissjóði fé með því að auka hlutdeild hinnar einkareknu starfsemi á kostnað hinnar opinberu, því að einingarkostnaðurinn er með eftirfarandi hætti hjá sérfræðingum í lyflækningum sem dæmi:

  • Á stofu:                 8900 ISK/koma 
  • Á heilsugæzlustöð:      9600 ISK/koma
  • Á göngudeild Landssp.: 13400 ISK/koma

 Af þessu sést, að heilbrigðisráðherra berst ekki hinni réttlátu baráttu fyrir málstað skattborgarans, og ráðherrann berst heldur ekki fyrir málstað skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins, því að Sigurður Björnsson rekur það í grein sinni, að á tvo alþjóðlega gæðamælikvarða trónir íslenzka kerfið á toppinum.  Það er engum vafa undirorpið, að starfsfólk á sjálfstætt starfandi lækningastofum á sinn þátt í þessum háu einkunnum íslenzka heilbrigðiskerfisins. 

Þrátt fyrir að fá hæstu gæðaeinkunn er íslenzka heilbrigðiskerfis engan veginn dýrast, heldur var það í 8. sæti árið 2014 með kostnaðinn 3882 USD/íb og 8,9 % af VLF.  

Það er hægt að auka skilvirkni íslenzka kerfisins enn meira með því að efla þá starfsemi, sem skilvirkust er, á kostnað óskilvirkari starfsemi.  Einkareksturinn þarf því að efla, en ekki að rífa hann niður, eins og ráðherrann reynir á hugmyndafræðilegum forsendum.  Þetta er grafalvarleg brotalöm í embættisfærslu ráðherrans.  Ráðherrann hefur ekki látið sér segjast, heldur forherðist hún við gagnrýni.  Allt  ber þetta að sama brunni og ber vott um, að Svandís Svavarsdóttir rekur annarlegt erindi með embættisfærslu sinni og á ekki erindi í heilbrigðisráðuneytið.    

 

 

 

 


Grasrótin er á tánum

Þeim, sem sóttu fund nokkurra hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í Valhöll síðdegis 30. ágúst 2018, blandast ekki hugur um, að grasrót Sjálfstæðisflokksins hefur þungar áhyggjur út af því, að þingmenn flokksins tala í véfréttastíl um afstöðu sína til Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB.  Kjósendur flokksins eiga heimtingu á því, að þingmenn hans geri hreint fyrir sínum dyrum og segi hug sinn í þessum efnum.  Þá kemur næst að kjósendunum að gera upp hug sinn til viðkomandi þingmanna.  Margir munu ekki láta bjóða sér upp á þá afskræmingu lýðræðis, að þingmenn haldi í gagnstæða átt við vilja kjósenda í þessu stórmáli.  Þá er komin upp gjá á milli þings og þjóðar, eins og gerðist í Noregi út af Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  

Sumir þingmenn segjast ekki eiga val við innleiðingu stórra Evrópugerða.  Það er algerlega óboðlegur málflutningur í þessu "orkupakkamáli".  Þingmenn eiga frjálst val.  Það mun ekkert markvert gerast að hálfu ESB eða EFTA, þótt Alþingismenn hafni Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Norðmenn og Liechtensteinar munu einfaldlega gera sérsamning við ESB/ACER-Orkustofnun ESB um sín orkumarkaðsmál, enda báðar þjóðirnar vel tengdar við orkukerfi Evrópusambandsins. 

ESB fær við synjun Alþingis heimild til að fella úr gildi fyrsta og annan orkumarkaðslagabálk sinn gagnvart EFTA.  Það breytir engu fyrir Íslendinga og aðra, og þess vegna verður það líklega látið ógert.  ESB hefur nóg á sinni könnu núna með viðskiptastríð við BNA og BREXIT í uppnámi. 

Þingmenn mega fyrir alla muni ekki láta einfeldningslegan hræðsluáróður embættismanna heima og heiman, svo og erlendra ráðherra, hræða sig til að fremja óhæfuverk á Stjórnarskrá og innlendum raforkumarkaði.  Kjósendur munu trauðla fyrirgefa það.  Utanríkisráðherra ætti að spara sér köpuryrði á borð við, "að umræðan sé á villigötum" án þess að láta nokkrar útskýringar fylgja.  Slík lágkúra er ekki ráðherra sæmandi.  

Það er líka óboðlegt af ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gera hugmyndafræði ESB um viðskipti með raforku að sinni.  ESB skilgreinir rafmagn sem vöru, og slíkt getur alveg gengið upp hjá þeim, en þegar "heilaþvegnir" Íslendingar, jafnvel ráðherrar, tönnlast umhugsunarlaust á þessu, og japla á, að þeir vilji gera greinarmun á auðlind og afurð, þá er of langt seilzt með rafmagnið.  

Þeir segja jafnframt, að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur frjálsra viðskipta með vörur.  Það er hverju orði sannara, en þar sem rafmagn er ekki vara hérlendis, heldur þessi röksemd ekki vatni.  

Hvað er þá rafmagn ? Hefðbundin viðhorf til rafmagns á Íslandi og í Noregi er, að rafmagn sé afurð náttúruauðlinda, sem nýta ber allri þjóðinni til hagsbóta og öllum atvinnugreinum til verðmætasköpunar í öllum byggðum landsins.  Með öðrum orðum ber að nýta hina endurnýjanlegu orku þessara landa til að efla samkeppnishæfni atvinnurekstrar í þessum löndum og til eflingar samkeppnishæfni þessara landa um fólk og fyrirtæki.  Í stuttu máli á samkvæmt þessu hefðbundna viðhorfi á Íslandi og í Noregi að nota orkulindirnar til að bæta lífsgæðin í öllum byggðum þessara landa.

Þetta sjónarmið er algerlega ósamrýmanlegt viðhorfi ESB-forystunnar til rafmagns.  Samkvæmt því viðhorfi á rafmagnið einfaldlega að fara til hæstbjóðanda.  Ef þetta fyrirkomulag verður innleitt hér og hingað verður lagður aflsæstrengur, svo að við þurfum að keppa við útlendinga um "okkar eigin" orku, þá hrynur undirstaðan undan samkeppnisstöðu íslenzks atvinnurekstrar með tilheyrandi hruni lífskjara um allt land.  

Þeir, sem af undarlegum undirlægjuhætti vilja þóknast vilja erlendra ráðamanna um, að Ísland gangi Orkusambandi ESB á hönd, halda því fram, að íslenzk stjórnvöld muni hafa síðasta orðið um það, hvort aflsæstrengur frá útlöndum verði tengdur íslenzku raforkukerfi.  Þeir hinir sömu hafa illa kynnt sér málavexti eða tala sér þvert um geð.  Það verður fulltrúi ACER á Íslandi, Landsreglarinn, sem setur alla skilmála fyrir slíkri tengingu.  Ef umsækjandi um leyfi til slíkrar tengingar uppfyllir skilmálana, skortir Orkustofnun allar forsendur til höfnunar.  

Hafni Orkustofnun samt, ber Landsreglara að tilkynna yfirboðurum sínum hjá ACER-Orkustofnun ESB þá höfnun sem brot gegn Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, sem Ísland verður skuldbundið til að fylgja með samþykki Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB og innleiðingu hans í EES-samninginn, sbr Evrópugjörð nr 714/2009. Ennfremur er næstum öruggt, að umsækjandinn mun kæra þennan úrskurð beint til ESA, sem mun úrskurða honum í vil á grundvelli téðs orkulagabálks.  Þverskallist íslenzk yfirvöld, kærir ESA íslenzka ríkið fyrir EFTA-dómstólinum, sem mun dæma á sama veg og ESA.  Annaðhvort verður Orkustofnun þá að gefa sig eða ríkisstjórnin að segja EES-samninginum upp. Þá mun stefna í "harða útgöngu", sbr "hard BREXIT",  sem varla er ákjósanleg staða. Þess vegna má halda því fram, að þeir, sem samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn séu þar með að leggja drögin fyrir markaðssetningu íslenzkrar raforku í erlendri raforkukauphöll, t.d. Nord Pool. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband