Yfirlýsing frá Noregi

Málflutningur íslenzka utanríkisráðuneytisins í s.k. ACER-máli, sem fjallar um afstöðuna til inngöngu Íslands í Orkusamband ESB, hefur vakið hneykslun hér heima og í Noregi.  Hér er átt við það, sem haft er eftir fulltrúum utanríkisráðuneytisins í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins 28. marz 2018 í fréttaskýringunni:

"Mikilsverðir orkuhagsmunir ekki í húfi".  Að rakalausum málflutningi um tjón, sem Íslendingar gætu bakað Norðmönnum með höfnun Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, er vikið í yfirlýsingu Trúnaðarráðs norsku samtakanna "Nei til EU", dags. 08.04.2018.  Hér er þýðing höfundar á tveimur af 9 greinum yfirlýsingarinnar, en hún er í heild sinni á norsku í viðhengi með þessari vefgrein:

"Norsk yfirvöld, höll undir ESB, hafa vanizt því að fá vilja sínum  framgengt sem "stóri bróðir" í EES-samstarfinu.  Erna Solberg, forsætisráðherra, fullyrðir, að orkustofnunin ACER "sé ekki mikilvæg" fyrir Ísland, því að landið hefur enn ekki verið tengt evrópska orkumarkaðinum, eins og Noregur.  Á milli línanna gefur hún til kynna, að hún ætlast til, að Ísland muni láta undan norskri kröfugerð í samningum um að innleiða orkubálkinn.

Íslenzk synjun mun ekki hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland eða Noreg.  ESB getur í mesta lagi ógilt hluta af viðhengi 4 í EES-samninginum, sem fjallar um orku, og slíkt þjónar ekki hagsmunum ESB. Þvert á móti mun íslenzk synjun beinlínis verða til stuðnings þjóðarhagsmunum Noregs.  Baráttan gegn ACER hefur verið einkar öflug á meðal starfsmanna norsks  orkusækins iðnaðar, sem bera ugg í brjósti um störf sín og stöðvun á starfsemi, ef rafmagnsverð nálgast það, sem tíðkast í ESB.  

Miklu máli skiptir, að allir átti sig á alvarlegum afleiðingum þess að samþykkja innleiðingu á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, þótt raforkukerfi landsins sé ótengt við raforkukerfi ESB. Í yfirlýsingu norsku samtakanna "Nei til EU" um tilraun norskra stjórnvalda til að hafa áhrif á stjórnmál Íslands í ACER-málinu, sem Alþingi á eftir að fjalla um, kemur skýrt fram, að Ísland mun alls ekki bera hagsmuni norsku þjóðarinnar fyrir borð með synjun á ACER-löggjöfinni, sem þá um leið jafngildir höfnun EFTA á þessari ESB-samruna löggjöf. Þvert á móti mun mikill meirihluti norsku þjóðarinnar fagna synjun Alþingis. Það er hið eina, sem máli skiptir fyrir hina norsku hlið á þessu máli Íslendinga.

Misskilnings gætir um það, hvenær valdframsals íslenzka ríkisins tæki að gæta hér á landi til ACER.  Þá er ruglað saman völdum til ákvarðanatöku um málefni innlendra raforkuflutningsmála og áhrifum hins sameiginlega raforkumarkaðar ESB á íslenzka raforkumarkaðinn.  Síðar nefndu áhrifin koma vitaskuld ekki fram fyrr en við gangsetningu aflsæstrengs til útlanda.  Kryfjum hins vegar eina hlið á áhrifum  valdframsalsins:

ESB hefur samið kerfisþróunaráætlun fyrir raforkukerfi EES.  Þar er Ice Link örlítill hluti.  Með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB inn í EES-samninginn, mundi Alþingi skuldbinda sig til að styðja við framkvæmd þessarar kerfisþróunaráætlunar að sínu leyti.  Eftir téða samþykkt, verður fyrsta verk ACER hér á landi að stofnsetja útibú sitt, sem samkvæmt þriðja orkubálki ESB fær í hendur bæði reglugerðar- og eftirlitshlutverk með Landsneti.  Í fyllingu tímans koma fyrirmæli frá ACER um stimpilstofnunina ESA þess efnis að semja tæknilega og viðskiptalega skilmála fyrir lagningu, tengingu og rekstur Ice Link.  Þegar þeir eru tilbúnir, verður stofnað félag um Ice Link, sem semur og sendir umsókn um lagningarleyfi, tengileyfi og rekstrarleyfi fyrir Ice Link til Orkustofnunar, OS, þess hluta hennar, sem verður undir íslenzkum yfirvöldum. 

Verður OS stætt á að hafna umsókn eiganda sæstrengsverkefnis, ef hann uppfyllir alla skilmála ?  Það skortir allar lagalegar forsendur fyrir slíkri höfnun.  ESB mun strax saka íslenzk stjórnvöld um samningsrof (EES-samningurinn) og ágreiningsmálið væntanlega fara sína leið um ESA til EFTA-dómstólsins í Lúxemborg.  Dómstóllinn mun vafalaust dæma í samræmi við skuldbindingar í EES-samninginum.  Þar með verður eiganda sæstrengsins veitt leyfi til að leggja hann, tengja og reka, jafnvel í blóra við vilja íslenzkra stjórnvalda.  

Í kjölfarið munu áhrifin af strengnum á raforkukerfið og á hagkerfið koma í ljós.  Raforkureikningurinn mun hækka um á að gizka 75 %, sem leiða mun til meiri ásóknar í virkjanaleyfi, verri samkeppnisstöðu fyrirtækja, minni spurnar eftir vinnuafli og rýrnandi lífskjara.  Miklar sveiflur verða á rennsli virkjaðra vatnsfalla, enda verða virkjanir þandar á fullu álagi á daginn og reknar á sáralitlu álagi á nóttunni, þegar raforka verður flutt inn. 

Það er ekki spáð svo háu raforkuverði í Evrópu, að gróði verði mikill af þessum raforkuviðskiptum, en ESB fær með þessu aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda í sinn hlut.  Botninn getur svo skyndilega dottið úr þessum viðskiptum, ef/þegar tækninýjungar gera ESB-ríkjunum kleift að leysa kolakynt orkuver sín af hólmi með áhættulitlum, kolefnisfríum orkuverum, t.d. þóríum-verum.  Þá sitja landsmenn uppi með ónýtanlegar, miklar fjárfestingar, sem geta ógnað fjármálastöðugleika hérlendis, .  

ACER-málið er sýnidæmi um stórvægilega galla EES-samningsins:

  • hann líður fyrir vaxandi ójafnræði á milli EFTA og ESB.  Samkomulags er ekki lengur freistað í Sameiginlegu EES-nefndinni, þ.e. ekkert svigrúm er lengur veitt að hálfu ESB fyrir sáttaferli á milli EFTA/ESB.
  • hann er ógagnsær og þróun hans er ófyrirsjáanleg. EFTA-ríkin vita ekki, hvað þau samþykkja, því að breytingar og viðbætur eru tíðar.  T.d. er í bígerð 1000 blaðsíðna viðbót við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem væntanlega verður kallaður Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn.  Þetta verður sagan endalausa. 
  • dómsvaldið er framselt úr landi varðandi öll ágreiningsatriði, þar sem ACER eða útibú þess lenda í ágreiningi hérlendis.
  • framkvæmdavaldið er framselt úr landi, því að útibú ACER á Íslandi verður í gjörðum sínum óháð íslenzka framkvæmdavaldinu (sem og dómsvaldinu).  Útibúið tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER. Það er hvorki stjórnlagalegt né siðferðislegt haldreipi fólgið í því að láta ESA afrita þessi fyrirmæli og senda áfram, enda hafa ESA ekki verið veitt nein völd til að breyta ákvörðunum ACER.
  • ákvarðanir ESB verða bindandi fyrir einstaklinga, fyrirtæki og ríkið, því að útibú ACER á Íslandi mun hafa síðasta orðið um flutningsgjald Landsnets, og ákvarðanir í þágu sæstrengsins munu óhjákvæmilega varpast yfir í gjaldskrá Landsnets.

Til að tveggja stoða kerfið verði virt, þarf að stofna sams konar stofnun EFTA-megin.  Fyrir því er pólitískur vilji hvorki í ESB né í EFTA.  Án tveggja stoða kerfisins verður bráðlega gengið af EES-samstarfinu dauðu.  

Hver og einn þessara 5 ásteytingarsteina EES-samningsins við Stjórnarskrá lýðveldisins er alvarlegur, en þegar þeir koma allir saman, mynda þeir frágangssök fyrir þetta fyrirkomulag.  Það er affarasælast fyrir utanríkisráðuneytið að viðurkenna staðreyndir og að hefja þegar í stað undirbúning að því að finna eðlilega valkosti fyrir landið við EES-samninginn.  Hann ber dauðann í sér.  Í þessu skyni er t.d. hægt að fara í smiðju til norska Stórþingsmannsins Sigbjörn Gjelsvik, sem hefur ritað yfirgripsmikla skýrslu um þetta efni.  Gjelsvik er væntanlegur til landsins 16.04.2018.  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nú eru nýir tímar

Gríðarleg umræða varð í Noregi um aðild landsins að Orkusambandi ESB í febrúar og fram til 22. marz 2018, er atkvæðagreiðsla fór fram í Stórþinginu um málefnið.  Úrslit hennar urðu 72 atkvæði með (43 %) og 23 atkvæði á móti (14 %), en 74 þingmenn tóku ekki afstöðu (43 %).

Ef gert er ráð fyrir, að Liechtenstein samþykki, þá velta örlög þessa stórmáls á Alþingi Íslendinga.  Á Stórþinginu virtist afstaða þingmanna að mestu ráðast af því, hvort þeir eru fylgjendur aðildar Noregs að ESB eða andstæðingar slíkrar aðildar.  Norska þjóðin er allt annars sinnis en þessi úrslit gefa til kynna, og ekki er ólíklegt, að þessi afstöðumunur kjósenda og fulltrúa þeirra á Stórþinginu muni hafa pólitískar afleiðingar. Með þessari vefgrein er tengill yfir í yfirlýsingu, sem Trúnaðarráð "Nei til EU" sendi frá sér 8. apríl 2018.  

Ef afstaða Alþingismanna til þess, hvort leiða á Orkustofnun ESB til valda yfir raforkuflutningsmálum á Íslandi, ræðst af afstöðu þeirra til aðildar Íslands að ESB, þá munu þeir fella frumvarpið um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.

Fyrrverandi ráðherra og Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason, valdi föstudagsgrein sinni í Morgunblaðinu, 23. marz 2018, eftirfarandi fyrirsögn:

"Sjálfstæðisflokkurinn krefst fullveldis í orkumálum".

Þar vísar hann til Landsfundarályktana 18.03.2018, en krafan í fyrirsögninni gæti jafnframt verið höfundarins af efni greinarinnar að dæma.  Er slíkt mikið ánægjuefni þeim, sem tjáð hafa sig með eindregnum hætti  gegn því að brjóta Stjórnarskrána og hleypa yfirþjóðlegri stofnun inn á gafl hér.  Verður nú vitnað til merkrar greinar Björns:

"Aðild að ESB-stofnuninni ACER (Agency for the Cooperation of energy regulators-Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði) var tekin upp í EES-samninginn 5. maí 2017.  Alþingi hefur ekki enn fjallað um aðild Íslands að ACER, en hart hefur verið barizt um málið í Noregi.  Innan ESB kalla menn stefnu sambandsins og framkvæmd hennar í orkumálum "orkusamband Evrópu", og innan þess ramma gegnir ACER vaxandi hlutverki. [Þetta vaxandi hlutverk mun halda "endalaust" áfram.  Nú er í smíðum 1000 blaðsíðna viðbót við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem er um 600 síður.  Búizt er við útvíkkun á verkefnasviði ACER með viðbótinni, en það er nú bundið við markaðsfyrirkomulag og flutninga á raforku og eldsneytisgasi.  Með þessu hefur ACER þegar verið tryggður ráðstöfunarréttur yfir allri tiltækri raforku og gasi - innsk. BJo.]  Að stefnan sé kennd við "orkusamband", sýnir, hvert er stefnt: ESB vill ná tökum á orkuauðlindinni. [Rétt ályktun, enda var orkusviðið skilgreint öryggislega mikilvægt árið 2009 fyrir ESB, eftir að orkuskortur hrjáði sum bandalagsríkin 2008 - innsk. BJo.]

Það var misráðið undir lok 20. aldarinnar að láta undir höfuð leggjast af Íslands hálfu að gera fyrirvara um aðild að því, sem nú er kallað "orkusamband Evrópu", fyrirvara, sem tæki mið af þeirri staðreynd, að Ísland á vegna legu sinnar ekki aðild að sameiginlegu orkudreifingarkerfi ESB-landanna og Noregs.  Hagsmunir Norðmanna eru allt aðrir en Íslendinga í þessu efni vegna margra tenginga norsks raforkumarkaðar við ESB-svæðið.  [Það er of djúpt í árinni tekið, að hagsmunir Íslendinga og Norðmanna séu ólíkir varðandi raforkuna.  Bæði löndin njóta sérstöðu í Evrópu fyrir hátt hlutfall, næstum 100 %, raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, og í báðum löndum er umtalsverður hluti raforkunnar bundinn langtímasamningum við iðjuver, t.d. álver. Ef öll EFTA-löndin í EES samþykkja að ganga í Orkusambandið, þá munu lýðræðislega kjörin stjórnvöld í löndunum missa forræðið yfir orkustofnunum sínum og þar með raforkuflutningsfyrirtækjunum til ACER.  Hlutverki sínu um aukna millilandaflutninga trú mun þá ACER hefjast handa við að fjölga millilandatengingum með fyrsta sæstrengnum frá Íslandi, Ice Link, og fjölgun sæstrengja frá Noregi, t.d. NorthConnect til Skotlands.  Þannig er enginn grundvallarmunur á aðstöðu Íslands og Noregs í þessum efnum, en áhrifin munu þó fyrr koma fram í Noregi, af því að eftirspurnarhlið raforkumarkaðarins mun aukast gríðarlega, séð frá Noregi.  Þetta mun tvímælalaust valda raforkuverðshækkun í Noregi, sem ríða mun samkeppnishæfni sumra fyrirtækja að fullu, t.d. stóriðjufyrirtækja, sem að hluta eru á skammtímamarkaði fyrir raforku - innsk. BJo.]

Verði Ísland aðili að ACER, tekur þessi ESB-stofnun að líkindum við eftirlitshlutverki Orkustofnunar, t.d. með Landsneti, og fær þar með lokaorð um ákvörðun flutningsgjalds raforku til almennings og stóriðju á Íslandi.  [Ráðuneytið býr nú í haginn fyrir þessa valdatöku ESB með lagafrumvarpi um að færa hluta eftirlitsins, sem er nú hjá því, til Orkustofnunar - innsk. BJo.]

Að andstæðingar yfirþjóðlegs valds í orkumálum skuli hafa flutt mál sitt með þeim árangri, sem við blasir á landsfundi sjálfstæðismanna, verður vonandi til þess, að þingmenn flokksins stigi ekkert skref í þessu máli, sem sviptir Íslendinga fullveldisréttinum yfir orkuauðlindunum."

Sú staðreynd, að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, 16.-18. marz 2018, mótaði flokkinum einarða stefnu gegn téðu valdaframsali til yfirþjóðlegrar stofnunar, sýnir, að sú andstaða hlaut hljómgrunn á meðal sjálfstæðismanna, og hér skal fullyrða, að yfirlýsingar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins og Flokksþings Framsóknarflokksins 11.03.2108 njóta víðtæks stuðnings á meðal íslenzku þjóðarinnar.  Í raun verður það táknmynd um sigur lýðræðisins yfir embættismannakerfi ESB/EES og tilætlunarsemi þess um gagnrýnislausa færibandaafgreiðslu örlagamála umræðulítið, ef Alþingi hafnar frumvarpi ráðuneytisins um umrædda viðbót við EES-samninginn.  

Í umræðum um sama mál í Noregi, komu engin rök fram um gagnsemi þess fyrir Noreg að samþykkja sams konar ríkisstjórnarfrumvarp þar.  Þar var haldið uppi hræðsluáróðri um refsiaðgerðir ESB gegn Noregi, ef ESB fengi ekki vilja sínum framgengt. Sá áróður er gjörsamlega tilhæfulaus, því að samkvæmt EES-samninginum hefur ESB ekki heimild til annars en að fella úr gildi ákvæði í núverandi orkukafla samningsins, og þar sem ESB hagnast ekkert á því, nema síður sé, er afar ólíklegt, að til þess verði gripið.  Það, sem réð afstöðu meirihluta Stórþingsmanna við afgreiðslu ACER-málsins 22. marz 2018 var löngun þeirra til að hnýta Noreg enn nánari böndum við stjórnkerfi ESB.  Málið snerist í þeirra huga ekki um neitt annað en aðlögun Noregs að stjórnkerfi ESB á ímyndaðri leið Noregs inn í ESB.  Ef þjóðarviljinn fær að ráða í Noregi, og hann hefur þegar ráðið tvisvar í þeim efnum, er landið alls ekki á leið inn í ESB.  

Munurinn á stjórnmálastöðunni á Íslandi og í Noregi er aðallega sá, að á Íslandi er meiri samhljómur með afstöðu þingmanna og þjóðarinnar en í Noregi.  Þar af leiðandi má segja, að lýðræðið sé virkara á Íslandi. 

 

 

 

  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Samflot Íslands með ESB í loftslagsmálum

Yfirvöld á Íslandi hafa ekki útskýrt með viðhlítandi hætti fyrir almenningi, hvaða kostir felast í því fyrir Ísland að hafa samflot með Evrópusambandinu, ESB, í loftslagsmálum.  ESB naut góðs af viðmiðunar árinu 1990, en þá voru margar eiturspúandi verksmiðjur án mengunarvarna og brúnkolaorkuver vítt og breitt um Austur-Evrópu, sem lokað var fljótlega eftir fall Járntjaldsins. 

ESB-löndin eru hins vegar í vondum málum núna, því að hvorki hefur gengið né rekið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda undanfarinn áratug, og orkuskipti Þjóðverja, "die Energiewende", eru hreinn harmleikur. Hér er enn eitt málefnasviðið, þar sem EFTA-löndin taka auðmjúk við stefnunni frá ESB, þegar hún loks hefur verið mótuð, án þess að hafa af henni nokkurt gagn, en aftur á móti ýmislegt ógagn og óhagræði vegna ólíkra aðstæðna.

Íslendingar eiga fjölmargra kosta völ til að fást við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda upp á eigin spýtur, sem fólgnir eru í miklu og gróðurvana landrými. Í þessu sambandi er skemmst að minnast merks framtaks Landgræðslunnar við að græða upp Hólasand o.fl. eyðimerkur með seyru.  Það hefur og verið bent á mikil flæmi uppþurrkaðs lands, sem ekki eru í ræktun, og að með þeirri einföldu aðgerð að moka ofan í skurði í óræktuðu landi megi draga úr losuninni um:

DL=19,5 t/haár x 357 kha = 7,0 Mt/ár af CO2ígildi

Þetta jafngildir 56 % af allri losun af Íslendinga, 12,4 Mt/ár (án framræsts lands).

Hér er þó nauðsynlegt að gæta varúðar og huga vel að vísindalegri þekkingu, sem aflað hefur verið á þessu sviði.  Dr Guðni Þorvaldsson og dr Þorsteinn Guðmundsson, sérfræðingar í jarðrækt og jarðvegsfræði, rituðu grein um þetta efni í Bændablaðið, 22. febrúar 2018,

"Meira um losun gróðurhúsalofttegunda úr votlendi".

Þeir rökstyðja í greininni, "að þekkingu skorti til að hægt [sé] að fara út í jafnvíðtækar aðgerðir og stefnt er að án þess að meta betur, hverju þær [geta] skilað í raun og veru.", og eiga þar við endurbleytingu í landi.

Vísindamennirnir halda því fram, að til að stöðva losun koltvíildis þurfi að sökkva hinu þurrkaða landi algerlega, og þá getur hafizt losun metans, CH4, sem er yfir 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2.  Þannig er endurbleytingunni sjaldnast varið, og þá er ver farið en heima setið.  Þá halda þeir því fram, að í mólendi stöðvist losun CO2 tiltölulega fljótt eftir framræslu. Þessar niðurstöður eru nógu skýrar til að rökstyðja að leggja á hilluna alla stórfellda endurheimt votlendis til að draga úr losun.  Skal nú vitna í vísindamennina:

"Ef lokað er fyrir aðgang súrefnis að jarðveginum, verður mjög lítil losun á koltvísýringi vegna rotnunar á uppsöfnuðu lífrænu efni, en til að stöðva losunina þarf að hækka grunnvatnsstöðuna upp undir yfirborð.  Ýmsar rannsóknir hafa sýnt, að við grunnvatnsstöðu á 40-50 cm dýpi er full losun á koltvísýringi og hún eykst ekki endilega, þó að grunnvatnsstaða sé lækkuð og getur jafnvel minnkað.

Þetta þýðir, að ef grunnvatnsstaðan er ofan 40 cm, en nær ekki yfirborði jarðvegsins, getur orðið töluverð losun á koltvísýringi.  Hið sama á við um hláturgas, ef grunnvatnsstaða er há, en ekki við yfirborð.  Þá geta skapazt skilyrði fyrir myndun þess, en hláturgas [NO2] er mjög áhrifamikil gróðurhúsalofttegund.

Til að tryggja, að endurheimt votlendis dragi verulega úr losun á koltvísýsingi og hláturgasi, þarf því sem næst að sökkva landinu.  Losun á metani eykst hins vegar, þegar landi er sökkt.  Það er ekki alls staðar auðvelt að breyta þurrkuðu landi til fyrra horfs.

Víða hefur framræsla, byggingar, vegir og önnur mannvirki breytt vatnasviði landsvæða og skorið á vatnsrennsli úr hlíðum, sem áður rann óhindrað á land, sem lægra liggur. Við þessar aðstæður er ekki gefið, að lokun skurða leiði til þess, að grunnvatn hækki nægilega til að endurheimt hallamýra eða flóa takist.  Þá kemur að hinum þættinum í röksendafærslu tvímenninganna, sem er lítil sem engin losun frá vel þurrkuðu mólendi:

"Móajarðvegur inniheldur oft 10-15 % kolefni í efstu lögunum.  Það má því vel ímynda sér, að framræst votlendi nái smám saman jafnvægi í efstu lögum jarðvegsins, þegar kolefni er komið niður í það, sem gerist í móajarðvegi.  Í neðri jarðlögum getur þó enn verið mór, og það er spurning, hvort hægt sé að koma í veg fyrir, að hann rotni."

Ályktunin er sú, að í stað endurheimta votlendis eigi að beina kröftunum að landgræðslu, einkum með belgjurtum, og að skógrækt.  Varðandi hið síðar nefnda runnu þó tvær grímur á blekbónda við lestur greinar Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, í Bændablaðinu, 22. febrúar 2018.  Greinin bar yfirskriftina:

"Skógrækt - er hún rétta framlag Íslands til loftslagsmála ?"

Þar bendir hún t.d. á þátt endurkasts sólarljóssins, sem lítið hefur verið í umræðunni:

"Eðlisfræðilegu þættirnir eru aðallega endurkast sólarljóssins (kallast á fræðimáli albedo) og uppgufun/útgufun plantna og þar með vatnsbúskapur.  Hversu mikið hlutur endurkastar eða tekur upp af sólarljósi hefur gríðarleg áhrif á hitastig hans - svartur kassi hitnar mikið í sól, en hvítur helzt nokkuð kaldur.  Sama gildir um dökka skógarþekju barrskóga - skógur tekur mjög mikið upp af sólarorkunni, og hitinn helzt að landinu, en endurkastast ekki.  Snjór, aftur á móti, getur endurkastað nær öllu sólarljósinu - við finnum greinilega fyrir margföldum sólargeislunum á skíðum."

"Fjölmargar vísindagreinar hafa birzt á undanförnum árum, þar sem verið er að greina áhrif skóga á loftslag.  Þeim ber öllum saman um, að nauðsynlegt sé að vernda, viðhalda og auka umfang hitabeltisskóga og skóga á suðlægum breiddargráðum.  Á norðurslóðum eigi hins vegar alls ekki að planta skógi, því að hann hækki hitastig jarðar.  

Fjölmargar rannsóknir sýna nú, að það eru mörk, hvar skógrækt leiði til kólnunar - norðan við þau mörk leiði skógrækt til hlýnunar.  Mörkin hafa verið sett við 40°N breiddar - eða við Suður-Evrópu og jafnvel enn sunnar í Bandaríkjunum."

Halda mætti, að þessi grein Önnu Guðrúnar yrði rothögg á skógrækt hérlendis sem mótvægisaðgerð við losun gróðurhúsalofttegunda.  Öðru nær.  Kenningin var hrakin í næsta tölublaði Bændablaðsins m.v. ríkjandi aðstæður á Íslandi.  Það var gert með greininni:

"Skógrækt er mikilvægur hluti af framlagi Íslands til loftslagsmála", sem Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar, dr Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og dr Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, rituðu.  Þau benda á, að niðurstöður Önnu Guðrúnar séu úr hermilíkönum, en ekki raunverulegum mælingum, og forsendur hermilíkananna eigi ekki við á Íslandi.

"Hafrænt loftslag, stopul snjóþekja á láglendi og hlutfallslega lítil og dreifð snjóþekja benda ekki til þess, að hægt sé að yfirfæra forsendur umræddra hermilíkana beint á íslenzkar aðstæður."

"Þegar kolefnisbinding þessara svæða [ólíkra vistkerfa] er tekin með í dæmið, er greinilegt, að svartar sandauðnir á Íslandi bæði gleypa í sig mikinn hita yfir sumarið og þar verður engin kolefnisbinding.  Þær hafa því í raun tvöföld neikvæð áhrif á hlýnun jarðar, og það að láta þær standa óhreyfðar hefur sennilega "verstu" áhrifin á hlýnun jarðar.  Á öllum hinum svæðunum fer fram kolefnisbinding um vaxtartímann með jákvæðum loftslagsáhrifum."

Að græða sandana upp, fyrst með harðgerðum jarðvegsmyndandi jurtum og síðan með skógrækt, er stærsta tækifæri Íslendinga til mótvægisaðgerða við losun gróðurhúsalofttegunda.  Jafngildisbinding, að teknu tilliti til aukins endurkasts sólarljóss og CO2 bindingar í jarðvegi og viði, gæti numið 12 t/ha á ári.  Í niðurlagi greinar skrifa þremenningarnir:

"Í ljósi frumniðurstaðna endurskinsmælinga hérlendis er óhætt að fullyrða, að skógrækt á Íslandi sé góð og skilvirk leið til að vinna gegn loftslagsbreytingum.  Í raun ætti keppikefli okkar að vera, að breyta sem mestu af svörtu sandauðnunum okkar í skóg, bæði til að auka endurskin og kolefnisbindingu.  Um leið og við bindum kolefni, aukum endurskin og drögum úr sandfoki, byggjum við upp auðlind, sem getur með tímanum minnkað innflutning á timbri, olíu og ýmsum öðrum mengunarvöldum og bætt með því hagvarnir þjóðarinnar.  Svarið er því: já, skógrækt er rétt framlag Íslands til loftslagsmála."

Ekki verður séð, að slagtogið með ESB í loftslagsmálum sé til nokkurs annars en að auka skriffinnskuna óþarflega, gera aðgerðaáætlun Íslendinga ósveigjanlegri og auka kostnaðinn við mótvægisaðgerðirnar.  Að íslenzk fyrirtæki séu að kaupa koltvíildiskvóta af ESB, eins og hefur átt sér stað og mun fyrirsjáanlega verða í milljarða króna vís á næsta áratugi í stað þess að kaupa bindingu koltvíildis af íslenzkum skógarbændum, er slæm ráðstöfun fjár í nafni EES-samstarfsins og ekki sú eina.  

 

 

 

 

 

  

 

 


Sendiherra kveður sér hljóðs

Það var ánægjulegt að sjá grein í Morgunblaðinu þann 10. marz 2018 um sameiginleg viðfangsefni okkar og Norðmanna í EES-samstarfinu.  Grein Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs á Íslandi, bar heitið:

"EES-samningurinn, okkar sameiginlega velferð",

og þar tjáir sendiherrann bæði opinbera stefnu ríkisstjórnar Noregs og sína eigin.  Það er fengur að þessari grein núna á tímum vaxandi efasemda í Noregi og á Íslandi um gildi og framkvæmd EES-samningsins.  Efasemdirnar stafa aðallega af vaxandi tilætlunarsemi ESB (Evrópusambandsins) um, að EFTA-ríkin 3 í EES hagi sér eins og ESB-ríki. 

Það ríkir þó alls ekkert jafnvægi á milli EFTA og ESB í EES-samstarfinu.  EFTA-ríkin eru í hlutverki niðursetningsins á höfuðbólinu. Það átti að vara til bráðabirgða, en hefur nú varað í aldarfjórðung, svo að kominn er tími til að binda endi á þetta óeðlilega samband; ekki með inngöngu í ESB, heldur með uppsögn EES-samningsins.  Stefna norsku ríkisstjórnarinnar er þó fremur hið fyrrnefnda, en góður meirihluti norsku þjóðarinnar er á öndverðum meiði.  Jafnframt virkar lýðræðið með ófullkomnum hætti í Noregi að þessu leyti, því að þar er staðfest gjá á milli þings og þjóðar.

EFTA-ríkin hafa ekki atkvæðisrétt í stofnunum ESB á borð við ACER-Orkustofnun ESB, sem ESB heimtar, að fái að ráðskast með orkuflutningsmál EFTA-ríkjanna innanlands og á milli landa, eins og um ESB-ríki væri að ræða.  Það er þó óhugsandi án þess að framselja ríkisvald til yfirþjóðlegrar stofnunar, sem stjórnarskrár Íslands og Noregs heimila ekki. Stjórnskipulegar gervilausnir á borð við ESA sem millilið fyrir fyrirmæli ACER til útibúa sinna (Norðmenn kalla það RME-reguleringsmyndighet for energi) á Íslandi og í Noregi eru hlálegur kattarþvottur.

Sendiherrann skrifar:

"EES-samningurinn veitir okkur einnig aðgengi að 900 milljörðum norskra króna úr Evrópusambandskerfinu, gegnum hins ýmsu verkefni, sem Noregur er hlutaðeigandi í."

Fjárupphæðin, sem sendiherrann nefnir, 900 miaNOK/ár, dreifist á öll EES-ríkin.  Norðmenn eru um 1,0 % af mannfjöldanum á EES-svæðinu, en því fer fjarri, að í hlut þeirra komi nokkurn tíma 9,0 miaNOK/ár, því að ríkustu þjóðirnar í EES fá tiltölulega lítið í sinn hlut.  Hlutfallslega mest af fjármunum ESB fer til Austur-Evrópu.  Það er alls ekki hægt að búast við, að hlutur Noregs sé hærri en 0,3 %, þ.e. 2,7 miaNOK/ár, en hver eru þá bein útgjöld norska ríkisins til EES/ESB samstarfsins:

  • EES-fjármunir til Austur-Evrópu: 3,8 miaNOK/ár
  • ESB-verkefni og stofnanir:       3,2 miaNOK/ár
  • Interreg-samstarf á milli svæða: 0,2 miaNOK/ár
  • ESA og EFTA-dómstóllinn:         0,1 miaNOK/ár

_____________________________________________________

  • Alls norsk rík.útgj. til EES/ESB:7,3 miaNOK/ár

Niðurstaðan er sú, að Norðmenn greiða a.m.k. 4,6 miaNOK/ár (=60 miaISK/ár) meira til EES/ESB en þeir fá þaðan. Norðmenn greiða bróðurpartinn af kostnaði EFTA-landanna af verunni í EES, en Íslendingar greiða víst aðeins 3,0 % af heildarkostnaðinum þangað, sem þá eru um 3,0 miaISK/ár og fá líklega svipað andvirði til baka á formi rannsóknarstyrkja o.fl.

Þetta eru hins vegar algerar smáupphæðir í samanburði við kostnað þjóðfélagsins af vist í viðskiptabandalagi, þar sem miklu fjölmennari þjóðir ráða ferðinni.  Það er allt of dýrt fyrir smáþjóð að kaupa aðgangsleyfi inn á Innri markað EES því verði að verða að taka upp lög og reglugerðir aðildarþjóðanna.  Eru einhver önnur dæmi um slíkt fyrirbrigði sem EES ?

Viðskiptaráð Íslands gaf út skýrslu 7. október 2015 undir heitinu: "Vilji er ekki allt sem þarf".  Þar er komizt að því, að beinn og óbeinn kostnaður atvinnulífsins af eftirlitsstofnunum hins opinbera, og lögum og reglum, sem atvinnulífinu er gert að starfa undir, nemi 175 miaISK/ár á verðlagi uppfærðu til 2018.  Mest munar um minni getu atvinnulífsins til framleiðniaukningar sökum afar íþyngjandi opinbers regluverks, og kostnaðurinn er talinn aukast um 1,0 %/ár. Þetta er ískyggileg og lífskjarahamlandi byrði til þess eins að mega verzla á Innri markaði EES. Það stefnir þess vegna í óefni fyrir Íslendinga að vera njörvaða í þetta EES-samstarf, sem æ meir einkennist af því, að ESB er að þróast til sambandsríkis, sem sífellt minna tillit tekur til sérþarfa og réttinda EFTA-landanna. Í ACER-málinu um Orkusamband ESB tókst EFTA t.d. ekki að semja um neinar sérlausnir eða undanþágur.  

Auðvitað verður athafnalífið hér að vinna eftir tæknilegum stöðlum og viðskiptareglum, en vægt reiknað mætti minnka þennan kostnað (175 miaISK/ár) um 84 miaISK/ár, ef EES-samninginum verður sagt upp. Slíkur léttir á atvinnulífinu mundi strax virka framleiðniörvandi og treysta þar með undirstöður tekjuöflunar íbúa landsins. Í því samhengi ber að hafa í huga, að þar sem Íslendingar og Norðmenn eiga ekki aðild að sameiginlegu fiskveiði- og landbúnaðarstefnu ESB, njóta þeir ekki fullra tollfríðinda fyrir sjávarafurðir og landbúnaðarvörur.  Kanadamenn njóta þar betri viðskiptakjara, eftir að hafa gert fríverzlunarsamning við ESB árið 2017, og nú hefur ESB boðið Bretum sams konar samning.  Við þurfum enga skýrslu um reynsluna af EES.  Hún blasir við.  Það þarf að stika út auðveldustu leiðina úr þessu dæmalausa og stjórnlagalega þrúgandi samneyti sem einhvers konar varta á líkama búrókrataskrímslis.   

Fljótt á litið virðast sterk efnahagsleg rök styðja uppsögn EES-samningsins, og því fylgir fjöldi annarra kosta, t.d. að losna undan oki óhefts innflæðis fólks frá EES og hverja kvöðina á fætur annarri um að hlíta stjórn stofnana ESB á afmörkuðum sviðum.  Þetta síðasta getur hreinlega boðið upp á fjárhagslegan óstöðugleika hérlendis, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri í mörgum greinum um ACER, og er klárt stjórnarskrárbrot í leikmannsaugum.  

 

 

 

 


Mikilsverðir orkuhagsmunir eru í húfi

Þann 28. marz 2018 birti Viðskiptablaðið fréttaskýringu um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn með fyrirsögninni:

"Mikilsverðir orkuhagsmunir ekki í húfi". 

Þar er utanríkisráðuneyti Íslands borið fyrir furðutúlkunum á áhrifum af innleiðingu þessarar gjörðar ESB hérlendis og á áhrifum höfnunar Alþingis á gjörninginum í Noregi og á EES-samstarfið í heild sinni. 

Í stuttu máli er þarna um að ræða áróðursblöndu (hanastél) af léttvægi áhrifanna hér innanlands og hræðsluáróður um áhrifin á hag Noregs og á EES-samstarfið. Hér að neðan verður þessi þynnka metin og léttvæg fundin. Það er alveg dæmalaust, að utanríkisráðuneytið undir stjórn sjálfstæðismanns skuli hljóma eins og málpípa búrókratanna í Berlaymont í Brüssel. Þeir reyna markvisst að flækja EFTA-ríkin í net ESB á hverju sviðinu á fætur öðru, og eftir að Bretar urðu áhrifalausir innan ESB í kjölfar BREXIT, brestur búrókrata Berlaymont allt umburðarlyndi gagnvart sérstöðu EFTA-ríkjanna.  Þeir neita að semja um undanþágur við EFTA-ríkin um málefni, sem þeir eftir langa mæðu hafa náð samstöðu um innbyrðis á milli ESB-ríkjanna. Búrókratana virðist ekki skipta það neinu máli, að orkumálin eru utan við fjórfrelsi Innri markaðarins, sem EES-samningurinn var upphaflega gerður til að viðhalda.  Það er alls ekki í þágu íslenzkra hagsmuna að útvíkka EES-samninginn, svo að hann spanni orkumálin einnig.  Að dómi fjölmargra Norðmanna, þ.m.t. stór verkalýðsfélög og Alþýðusamband Noregs, LO, er þessi útvíkkun gildissviðsins heldur ekki í þágu norskrar alþýðu.  Höfundi er ekki kunnugt um, hver afstaða manna í Liechtenstein er, en innleiðing gjörðarinnar mun a.m.k. ekki hafa farið fram þar.  Það ber æ meir á því, að búrókratar Berlaymont komi fram við EFTA-ríkin sem hornrekur í ESB. Það er kominn tími til að spyrna við fótum.  

Boðskap utanríkisráðuneytisins dregur Snorri Páll Gunnarsson, blaðamaður, saman með eftirfarandi hætti:

"Þriðji orkupakki ESB mun hafa lítil áhrif hér á landi, samkvæmt utanríkisráðuneytinu [1].  Pakkinn felur ekki í sér framsal á yfirráðum yfir íslenzkum orkulindum og grunnvirkjum til stofnana ESB [2].  Hafni Alþingi pakkanum, gæti það haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir EES-samstarfið."[3].

Hér verður þetta hrakið lið fyrir lið:

[1 & 2]:  Það er með endemum að halda því fram, að sá gjörningur að færa Orkustofnun Íslands (OS), eða þann hluta hennar, sem fæst við reglusetningu og eftirlit með raforkuflutningsfyrirtækinu Landsneti, undan íslenzku ráðuneyti og undir eina af stofnunum ESB, ACER-Orkustofnun ESB, með Eftirlitsstofnun EFTA-ESA sem ljósritandi millilið, sem enga raunverulega þýðingu hefur, muni "hafa lítil áhrif hér á landi", þótt hér sé um augljóst Stjórnarskrárbrot að ræða (gr.2). 

Í raun þýðir þetta, að raforkuflutningsmál Íslands eru færð frá því að vera á forræði íslenzka ríkisins í það að verða á forræði ESB.  Þetta er stórmál vegna þess, að með þessum gjörningi færist ráðstöfunarréttur raforkunnar frá Reykjavík til Ljubljana í Slóveníu, þar sem ACER hefur aðsetur.  Eignarhald virkjana og flutningsmannvirkja verður óbreytt, en ráðstöfunarréttur yfir raforkunni verður færður til raforkumarkaðar ESB. Til hvers heldur utanríkisráðuneytið, að til ACER hafi verið stofnað ?  Það var til að ryðja úr vegi hindrunum við snurðulausum flutningum á jarðgasi og raforku frá svæðum með gnótt orkulinda, t.d. endurnýjanlegra orkulinda til raforkuvinnslu, og til svæða innan ESB, þar sem skortur er á slíkum orkulindum. Þessar hindranir voru ekki tæknilegs eðlis, heldur stjórnmálalegs og efnahagslegs eðlis. Með stuðningi af stjórnarskrárígildi ESB, Lissabon-samninginum, hafa ESB-ríkin samþykkt að færa allt vald yfir innviðum orkuflutninga til ACER, sem þegar hefur sett sæstreng á milli Íslands og Bretlands, sem ACER kallar Ice Link, á forgangsverkefnaskrá sína með áætlaðri tímasetningu gangsetningar árið 2027.  

Ef Alþingi samþykkir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB, þá mun ACER hrinda af stað þessu verkefni og skylda Landsnet til að taka þátt. Það verður gert með meirihlutaákvörðun í ACER, sem send verður ESA.  Þessi Eftirlitsstofnun EFTA er valdalaus á orkusviðinu og  hefur ekki annað val en að ljósrita fyrirmælin og senda þau til útibús ACER á Íslandi, sem er Orkustofnun, OS, eða sá hluti hennar, sem hefur eftirlit með Landsneti. Landsnet mun þá verða að styrkja raforkuflutningskerfið innanlands, til að unnt verði að tengja um 1200 MW sæstreng við það. Það verður mjög kostnaðarsamt, og sá kostnaður lendir alfarið á landsmönnum samkvæmt reglum ACER.  

Kostnaðarhlutdeild Landsnets í Ice Link verður ákvörðuð af ACER samkvæmt valdheimildum hennar.  Íslenzk yfirvöld verða ekki virt viðlits í öllu þessu ferli, enda verður Alþingi þá búið að samþykkja algert áhrifaleysi þeirra á raforkuflutningsmál landsins, og OS, eða sá hluti hennar, sem fæst við raforkuflutningsmál, verður þá ekki lengur undir boðvaldi ráðuneytis, heldur aðeins undir boðvaldi ACER. ESB kallar það, að OS verði óháð hagsmunaöflum. 

Þetta er í framkvæmd að ryðja hindrunum úr vegi til að útrýma flöskuhálsum í orkuflutningskerfi ESB/EES.  Ætla menn að stinga hendinni í gin ljónsins ?  Hvað í ósköpunum rekur menn til þess, þegar ávinningur Íslands er alls enginn, en áhættan svakaleg og um að ræða Stjórnarskrárbrot í þokkabót ?

Þegar tengingin (Ice Link) verður komin á, verður íslenzkur raforkumarkaður innlimaður í raforkumarkað ESB.  Það þýðir, að hver sem vill getur boðið í alla tiltæka raforku á Íslandi, og hún mun fara til hæstbjóðanda.  Þannig glatar Ísland smátt og smátt ráðstöfunarrétti yfir allri framleiðanlegri raforku á Íslandi, því að við þessar aðstæður verða hvorki gerðir nýir langtímasamningar um afhendingu raforku til atvinnustarfsemi hérlendis né er líklegt, að þeir gömlu verði framlengdir.  Rafmagnsverðið mun rjúka upp hérlendis, og samkeppnishæfni atvinnuveganna mun hríðversna með slæmum afleiðingum fyrir atvinnustig í landinu og lífskjör almennings.  Með atvinnuvegina í rúst munu Íslendingar síðan standa berskjaldaðir, ef/þegar raforkuverð í ESB lækkar með auknu framboði kolefnisfrírra orkugjafa.  Er þetta léttvægt mál ?  Nei, fullveldisafsal er það aldrei.

[3]: Það er einkennilegt, að ESB-sinnar skuli ekki treysta EES-samninginum, og að ESB haldi sig við ákvæði hans.  Það er óumdeilanlegt, að hvert EFTA-ríki í EES hefur neitunarvald gagnvart innleiðingu nýrra gjörða í EES-samninginn. Það er meginmunurinn á EFTA-ríkjunum og ESB-ríkjunum í EES-samstarfinu.  Þetta kemur fram í kafla 93 í samninginum og kafla 6 í samninginum um fastanefnd EFTA-ríkjanna.  

Alveg sérstaklega gildir þetta um málaflokka, sem standa utan við fjórfrelsið á Innri markaði EES, sem samningurinn var upphaflega gerður um. Hér hefur engin umræða farið fram um að útvíkka gildissvið hans.  Hvers konar meðvirkni og sofandaháttur er þetta eiginlega ?

ESB hefur upp á sitt eindæmi ákveðið, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur þess frá 2009 skuli verða hluti af EES-samninginum, þótt hér sé í raun verið að innleiða 5. frelsið á Innri markaðinn.  Þessi merking ESB á þessum málaflokki er í samræmi við yfirlýsingu Framkvæmdastjórnarinnar um það, að Noregur skyldi verða hluti af sameiginlegum orkumarkaði ESB.  Ríkisstjórn Noregs er höll undir aðild Noregs að ESB, og hið sama er að segja um Landsstjórn og formann Verkamannaflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins á Stórþinginu, þótt flest verkalýðsfélög og Alþýðusamband Noregs, LO, hafi ályktað harðlega gegn stuðningi þingflokks Verkamannaflokksins við frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Ef ESB gangsetur refsiaðgerðir gegn EFTA-ríkjunum á viðskiptasviðinu, brýtur ESB um leið EES-samninginn, og brotið verður kæranlegt til ESA og EFTA-dómstólsins.  Samkvæmt EES-samninginum má ESB í mesta lagi svara höfnun EFTA-ríkis með ógildingu þess hluta EES-samningsins, sem hafnaða innleiðingin átti að hafa áhrif á.  Í því tilviki, sem hér um ræðir, þ.e. orkumálaflokkinn, sbr kafla 102 um ógildingu í EES-samninginum.  Orka er í viðhengi 4 af 22 viðhengjum samningsins, og Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn færi þangað, ef samþykktur yrði.  Það er hins vegar ekki á færi ESB að ógilda neitt einhliða, heldur er ógilding umfjöllunarefni Sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein eiga sæti ásamt ESB, og ákvörðun er aðeins tekin einróma.

Þó að þessi ákvörðun verði tekin, verður ekki séð, með hvaða hætti ógilding á ákvæðum Annars orkumarkaðslagabálksins, sem í þessu tilviki koma til álita, geti skaðað hagsmuni Íslands og Noregs. Noregur mun áfram selja ESB-ríkjum rafmagn úr norskri fossaorku og olíu og jarðgas úr efnahagslögsögu sinni, eins og ekkert hafi í skorizt, enda eru mikilvægir hagsmunir hins orkuhungraða ESB í húfi.  Fullyrðing um, að höfnun Íslands muni hafi ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir EES-samstarfið, er algerlega úr lausu lofti gripin.   

  


Úrelt og óhagkvæm lausn

Síðasta áratuginn hefur ferðatíminn lengzt mikið á höfuðborgarsvæðinu, aðallega á virkum dögum kl. 0730-0930 og 1530-1730, alls á 4 klst tímabilum á sólarhring. Gæti hann á þessum tímabilum hafa lengzt um á að gizka 50 % frá aldamótunum seinustu, og er tekið að gæta umtalsverðrar óánægju bílstjóra og farþega þeirra með þetta ástand, enda er það óþarft og til komið vegna vitlausrar forgangsröðunar og sinnuleysis borgaryfirvalda.

Svo ótrúlegt sem það hljómar, eru tafirnar í boði meirihluta borgarstjórnar, sem hefur ekkert gert til að ráða bót á vandanum, nema síður sé. Borgaryfirvöld hafa staðið gegn úrbótum að hálfu Vegagerðarinnar á stofnbrautum borgarinnar og í staðinn sett stórfé, um 0,9 miaISK/ár í 8 ár, í bættar almenningssamgöngur.  Þrátt fyrir það hefur engin hlutfallsleg fjölgun orðið á meðal farþega strætó, og bílaumferðin hefur vaxið í takti við hagvöxtinn.  Hér er um óþolandi sóun almannafjár að ræða, sem lýsir sér í tíðum ferðum lítt setinna og á sumum leiðum næstum tómra stórra strætisvagna megnið af rekstrartímanum.  

Þrátt fyrir slæma reynslu alla þessa öld af auknum austri opinbers fjár í fjárfestingar og rekstur almenningssamgangna eru þeir enn til, og hafa t.d. verið í stjórn borgarinnar í 8 ár, sem vilja halda enn lengra út í ófæru almenningssamgangna og nú með gríðarlegum fjáraustri úr opinberum sjóðum til fjárfestinga í sérreinum fyrir strætó, sem að hálfu illa stæðs borgarsjóðs yrðu fjármagnaðar með því að reyta enn meira fé af húsbyggjendum og íbúðakaupendum í grennd við meginumferðaræðar strætó, sem nú er búið að "dubba upp" og kalla Borgarlínuna. Þessi skattheimta stenzt sennilega ekki lagalega rýni.  

Kostnaðaráætlunin er miaISK 70 á 20 árum.  Veruleg óvissa er tengd kostnaðaráætlunum slíkra verkefna, eins og sést á því, að kostnaðaráætlun borgarlínu í Stafangri í Noregi mun hafa hljóðað upp á miaNOK 4,0, en rauntalan varð 2,5xmiaNOK 4,0=miaNOK 10,0 eða um miaISK 130.  Verði þessi raunin á Íslandi, mun kostnaður Borgarlínu nema miaISK 175, þegar upp verður staðið frá þessu feigðarflani. Vagnakosturinn er ekki inni í miaISK 70, svo að vægt reiknað má búast við miaISK 180 reikningi fyrir fjárfestingar í Borgarlínu. Rekstrarkostnaður Strætó mun stórhækka, nema villtustu draumar draumóramanna um 12 % hlutdeild Strætó í fólksflutningum á höfuðborgarsvæðinu rætist. Til samanburðar upplýsti samgönguráðherra í Morgunblaðsgrein 10. marz 2018, að tvöföldun brauta frá höfuðborgarsvæðinu (2 akreinar í báðar áttir), Reykjanesbraut, Suðurlandsvegur um Hellisheiði til Selfoss og Vesturlandsvegur um Kjalarnes að Hvalfjarðargöngum, mundi kosta miaISK 45.  Nú er spurningin: er réttlætanlegt að setja Borgarlínuverkefnið á Vegaáætlun Alþingis, þegar brýn verkefni í gangagerð, brúargerð og vegagerð bíða um allt land, sem útheimta svipaða upphæð og Borgarlínuverkefnið gæti kostað ?

Þeir, sem reyna að færa rök fyrir Borgarlínu, nefna oft, að til 2040 sé áætluð íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu 70´000 manns.  Þeir sjá þá fyrir sér fjölgun bíla úr um 180 k (k=þúsund) í 240 k eða fjölgun um 60 k (33 %), sem hefði geigvænleg áhrif á ferðatíma og umferðaröryggi að öllu óbreyttu. Bæði er, að þessi mannfjöldaáætlun er þegar úrelt, allt of há, og það eru aðrir samverkandi þættir, sem leiða munu til minni fjölgunar bíla en mistakasmiðir borgarstjórnar hafa smíðað sér.

Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, skrifaði grein í Morgunblaðið 1. marz 2018, sem hann nefndi: 

"Skipulögð kransæðastífla í Reykjavík".  Heitið skírskotar til læknisins á stóli borgarstjórans, sem ábyrgur er fyrir umferðaröngþveiti á höfuðborgarsvæðinu og neitar að horfast í augu við staðreyndir, draumóramaður, sem stingur hausnum í sandinn, þegar vandamál hrannast upp.  Í greininni kemur fram, að samkvæmt áætlun mun íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölga um 3300 á ári tímabilið 2017-2030, þar af í Reykjavík 78 %, en raunfjölgun varð 2600 tímabilið 2000-2017, þar af 30 % í Reykjavík.  Raunfjölgun á höfuðborgarsvæðinu nam aðeins 79 % af áætlun, sem gefur tilefni til að lækka áætlun bílafjölgunar niður í 47 k, og munar um minna en 13 k bíla árið 2040.  

Það eru hins vegar aðrir kraftar á ferðinni, sem verða jafnvel enn áhrifaríkarari en mannfjölgunin, er frá líður, og þar er tækniþróunin öflugasti þátturinn.  Á þessu ári, 2018, mun Waymo, deild í Google samsteypunni, sem þróar sjálfakandi bifreiðar, hleypa af stokkunum tilraunaverkefni í úthverfum Phoenix, Arizona, með þjarkataxa ("robotaxi") um leigubílaakstur.  General Motors, stærsti bílaframleiðandi Bandaríkjanna, BNA, ætlar að hefja slíka þjarkaþjónustu 2019.  Þann 26. febrúar 2018 afnam Kaliforníuríki skilyrði um, að "öryggisökumaður" yrði alltaf að vera í sjálfakandi ökutækjum tilbúinn að taka stjórnina. 

Í Economist 3. marz 2018 birtist greinin

"Who is behind the wheel ?" ,

sem nú verður vitnað til:

"Kostnaður sjálfakandi bíla (SAB) þýðir, að notagildi þeirra verður fyrst um sinn sem þjarktaxar, pantaðir með því að nota leiðarlýsandi smáforrit, app.  Þannig fæst meiri nýting sem mótvægi við kostnaðinn, og þeir munu veita þjónustu, sem er ódýrari per km en notkun eigin bíls, sem letja mun fólk til bíleignar, a.m.k. bíla einvörðungu til nota innanbæjar.  UBS, svissneskur banki, hefur gefið út spá um, að slíkum bílum muni hafi fækkað um 70 % árið 2050.  Bifreiðar nútímans standa ónotaðar 95 % af tímanum, svo að víðtæk notkun þjarkataxa getur leitt til breyttrar landnotkunar, þar sem nú eru bílastæði í borgum.

Sjálfakandi bílar munu draga verulega úr tíðni dauðaslysa í umferðinni, og þar sem þeir verða rafknúnir, munu þeir bæta loftgæðin, þar sem raforkuvinnslan er "græn".  Val á "beztu" leið, minna bil á milli ökutækja og gjaldtaka á leiðum, þar sem bílafjöldinn veldur miklum töfum, munu draga úr umferðarstíflum.  Eins og sjálfrennireiðar á undan þeim, munu SABar breyta borgarmenningunni (löng ferð er auðveldari, ef þú vinnur eða sefur á leiðinni), og verzlun breytist (verzlanir koma til þín).  Bílaframleiðendur sjá fram á gríðarlegar breytingar; í stað þess að selja einstaklingum munu þeir selja þjarktaxafyrirtækjum eða þróa sjálfa sig í að verða "ferðaþjónustur".  

Hagfræðingar og borgarskipuleggjendur ættu að kætast, af því að SABar þýða, að hægt verður að taka upp atriði, sem ekki hafa mælzt vel fyrir hjá bílstjórum, t.d. breytileg veggjaldheimta og umferðarhnútarukkanir með breytilegu gjaldi eftir tíma sólarhringsins, umferðarþunganum, ferðalengd o.s.frv., munu gera kleift að fínstilla allt flutningskerfi borganna.  Með mismunandi gjaldtöku eftir svæðum, er hægt að greiða niður ferðakostnað í efnaminni hverfum eða að hvetja fólk til að nota almenningssamgöngur til lengri ferða."

Af þessu má ráða, að tækniþróunin mun létta umferðarhnútana í framtíðinni, og að því mun svo rammt kveða, að Borgarlína verður í raun algerlega óþörf.  Ef við gerum ráð fyrir, að 70 % fækkun "borgarbíla" árið 2050 í spá UBS eigi við fjölskyldubíl nr 2 og að þessi fækkun muni nema 50 % árið 2040, þá má reikna með, að fjölgun bifreiða árið 2040 muni "aðeins" nema 20 k eða 11 % á höfuðborgarsvæðinu öllu.  Þetta er aðeins þriðjungur þeirrar fjölgunar, sem skipulagsyfirvöld höfuðborgarsvæðisins leggja til grundvallar sínum áætlunum um umferðina, almenningssamgöngur og mannvirkjagerð á höfuðborgarsvæðinu.  Að ana út í risafjárfestingu, sem er bæði þarflaus og gagnslaus, stappar nærri leikhúsi fáránleikans. 

 

 

 

  

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband