Samkeppnishæfni á niðurleið

Það eru váboðar í efnahagslífi landsins bæði nær og fjær.  Fyrirtækin eiga langflest erfitt uppdráttar, og eftir gerð Lífskjarasamninganna hefur atvinnuleysið aukizt geigvænlega miðað við árstíma. Kostnaður atvinnulífsins er of mikill m.v. tekjurnar, og þessi kostnaður fer enn vaxandi, þótt verðbólgan og stýrivextir Seðlabankans undir stjórn nýs Seðlabankastjóra fari lækkandi. Þessu má m.a. um kenna stöðugt vaxandi skattheimtu, aðallega sveitarfélaganna, sem sjást ekki fyrir við álagningu t.d. fasteignagjalda. Við þessar aðstæður er ekki kyn, þó að keraldið leki, og 10.10.2019 birti Morgunblaðið frétt frá "World Economic Forum" (WEF)(Heimshagkerfisvettvangur (Alþjóða efnahagsráð er röng þýðing)), sem leiddi í ljós, að slök staða Íslands í heimshagkerfinu fór enn versnandi 2018. Það er auðvitað bábylja, að EES-aðild tryggi samkeppnishæfni. Óhentugt og ofvaxið reglusetningar- og eftirlitsbákn innleitt hér frá Brüssel lendir allt á kostnaðarhlið atvinnulífsins í landinu.  Stjórnmálamenn og skrifræðisberserkir Stjórnarráðsins hafa í heimsku sinni gengizt upp í því að leggjast á sveif með harðsvíruðustu skrifræðispúkunum í Brüssel, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, t.d. Morgunblaðinu í dag, 28.10.2019.  Þegar aðeins á að slaka á klónni, rís "Kúba norðursins" og aðrir slíkir upp á afturlappirnar og fjargviðrast út af því, að nú eigi að ganga erinda stórfyrirtækja.  EES-farganið leggst því þyngra á fyrirtæki, þeim mun minni sem þau eru, því að löggjöf ESB er miðuð við allt aðra og stórkarlalegri samsetningu atvinnulífsins en hér tíðkast.

Kostnaðarvandinn dregur mátt úr fyrirtækjunum til fjárfestinga og nýsköpunar.  Hið opinbera er sökudólgurinn með einhverja mestu skattpíningu í heimi og stærstu hlutdeild hins opinbera m.v. vestræn hagkerfi, og enn á að auka í, nú undir yfirskyni umhverfisverndar við undirspil dómsdagsspámanna. Þessi græna skattatefna er tómt píp, eins og sannast á því, að útgerðin, sem þegar hefur náð markmiðum Íslands fyrir sitt leyti um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda 2030, fær enga umbun fyrir það með niðurfellingu "grænna skatta" á eldsneyti útgerðarinnar. Með því að fella þá niður á útgerðirnar gætu þær hafið næsta stig tækniþróunarinnar, sem er að knýja litla farkosti með rafmagni og stór fiskiskip með lífdísilolíu unninni úr jurtum ræktuðum hérlendis, t.d. repju, sem grundvöllur hefur verið lagður að.  

Umhverfisráðherrann má vart vatni halda af hrifningu yfir urðunarskatti, sem fyrirhugaður er þrefalt hærri en að meðaltali í Evrópu og Sorpa hefur gagnrýnt harðlega og telur ekki munu koma að neinu haldi í baráttunni fyrir minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Pípið kemur úr æðstu lögum stjórnsýslunnar, sem halda, að þau slái með því pólitískar keilur.  Vonandi fá þau bjúgverpil í fangið í næstu kosningum.  

Útþensla hins opinbera í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið gegndarlaus, mikið undir formerkjum: "Hér varð hrun". Sveitarfélögin flest stunda eignaupptöku af heimilum og fyrirtækjum með hóflausum fasteignagjöldum, og höfuðborgin bítur höfuðið af skömminni með innviðagjöldum, sem virðast ekki eiga sér stoð í lögum.  Við þessar aðstæður er Borgarlínan hreint bruðl, því að hún er reist á óskhyggju borgarstjóra og meðreiðarsveina/meyja um, að hún muni fækka bílum í umferðinni vegna aukningar á hlutdeild strætó í fólksfjölda í umferðinni úr 4 % í 12 %.  Reynslan af fjölgun strætóferða og sérakreinum sýnir, að þetta mun einfaldlega ekki gerast, og þá sitjum við uppi með aðþrengda bílaumferð og misheppnaða, burtkastaða  fjárfestingu um a.m.k. mrdISK 50 í fyrsta áfanga í stað þess að beina fénu þangað, sem það gefur árangur strax í öruggari og greiðari umferð fjöldans. Hér er nóg rými fyrir þau umferðarmannvirki, sem nauðsynleg eru til að anna farartækjunum, sem fólkið hefur fest kaup á til að komast hratt og örugglega á milli staða, ef vinstri-vinglar verða ekki látnir komast upp með skemmdarverk, eins og skipulagning byggðar á svæðum, sem bezt henta umferðarmannvirkjum.  Stríð borgarstjóra og rauðvínssötrandi sérvizkulýðs í kringum hann gegn fjölskyldubílnum er stórskaðlegt, rándýrt og verður að brjóta á bak aftur hið snarasta.

Samkvæmt "WEF" eru mælikvarðar þessa hagvangs fjölmargir, bæði efnahagslegir, félagslegir og lífsgæðatengdir, en þyngstir á metunum eru þættir, sem leiða til eða styðja við framleiðniaukningu.  Að Ísland skuli lenda í 26. sæti og falla um tvö sæti árið 2018 er grafalvarlegt fyrir framtíðar lífskjör á Íslandi. Framleiðniaukningin hefur hins vegar verið þokkaleg frá Hruni, en það eru greinilega feysknar stoðir undir henni. Stjórnvöld fljóta sofandi að feigðarósi, eins og fyrri daginn, enda lítill skilningur þar á þörfum atvinnulífsins.

Í ljósi þess, sem vitað er um áhrifaþætti á framleiðniaukningu, er óráðlegt fyrir smáþjóð (small is beautiful) að gangast undir það jarðarmen að þurfa að innleiða alla þá lagasetningu, sem 500 milljóna ríkjasambandi dettur í hug að láta EFTA-ríkin innleiða til að þau fái óheftan aðgang að Innri markaði ESB.  Fyrir nokkrum árum gerði Viðskiptaráð Íslands athugun á byrðinni, sem atvinnulífinu væri gert að bera vegna reglusetninga og eftirlits hins opinbera.  Það eru tugmilljarðar í beinan kostnað til stofnana og til eigin starfsmannahalds, en hinn óbeini kostnaður hleðst ört upp og er margfaldur á við beina kostnaðinn, því að hann var þá (2015) talinn valda 0,5 % minni framleiðniaukningu á ári en ella, og eftir innleiðingu viðamikilla lagabálka um fjármálaeftirlit, persónueftirlit og orkueftirlit (OP#3), hefur enn sigið á ógæfuhliðina.  

Nú er næsta víst, að það, sem væri hægt að grisja úr reglugerðafrumskóginum eftir uppsögn EES-samningsins, mundi geta aukið framleiðniaukningu á ári um a.m.k. 0,5 %.  Er raunhæft að reka þetta reglugerðafargan á dyr ?  Við verðum að hafa eftirlitsstofnanir, en það eru fyrirtækin sjálf, sem annast vottað gæðaeftirlit samkvæmt ISO-stöðlum, sem markaðurinn í Evrópu og annars staðar tekur mark á.

 Í ágúst 2019 kom út í Noregi skýrsla, sem Menon Economics gerði fyrir "Nei til EU" um hagræn áhrif EES-samningsins í Noregi og valkosti við hann.  Niðurstaðan var sú, að nýlegir fríverzlunarsamningar ESB við Kanada og Japan fella niður toll á öllum vörum á 7-15 árum, og verða þeir þá útflytjendum unninna fiskafurða hagfelldari en EES-samningurinn.  15 % af vörusendingum lenda í einhvers konar tollskoðun, og hljóta EFTA-ríkin að geta samið um miklu lægra hlutfall gegn gæðatryggingu og vegna núverandi aðlögunar sinnar að ESB, svo að vöruflutningar geti að mestu gengið jafnsnurðulaust og núna.  

Samþykkt Íslands á Orkupakka 3 (OP#3) og þar með aðild landsins að Orkusambandi Evrópu getur haft skelfileg áhrif á samkeppnishæfni Íslands, því að yfirlýst stefna ESB er að hvetja með lagasetningu, ívilnunum og styrkjum, til eflingar millilandatenginga fyrir orkuflutninga til að jafna orkuverðið innan Orkusambandsins og skapa betra jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar. Nú væri hægt að leggja 600 MW sæstreng um Færeyjar og til Skotlands með styrk frá ESB, sem næmi kostnaði við endabúnaðinn (afriðlar/áriðlar) og selja orku inn á strenginn fyrir um 40 USD/MWh með flutningskostnaði frá virkjun að streng.  Þetta er nálægt núverandi viðmiðunarverði Landsvirkjunar til stórnotenda. Þar með þyrfti íslenzkt athafnalíf að keppa um íslenzka orku við fyrirtæki með að mörgu leyti hagstæðari staðsetningu. Þessi orkustefna ESB er Íslandi einfaldlega mjög í óhag, því að mesta samkeppnisforskot Íslands er fólgið í sjálfstæðri nýtingu fiskveiðilögsögunnar og sjálfstæðri nýtingu endurnýjanlegra, hagkvæmra orkulinda, sem gefa kost á tiltölulega lágu orkuverði. 

Jafnvel þótt enginn sæstrengur væri í sjónmáli, er hætt við, að tiltektir Landsreglarans muni valda verðhækkunum á raforkumarkaðinum. M.v. tiltektir þessa embættis í öðrum löndum, t.d. í Svíþjóð, og samræmda stefnu í öllum aðildarlöndum EES, sem er höfuðatriði fyrir Framkvæmdastjórnina, má vænta gjaldskrárhækkana hjá Landsneti og dreifiveitunum umfram verðlagsþróun í meiri mæli en verið hefur, og hefur hún þó numið 7 % - 8 % frá innleiðingu OP#1.  

Þá ber Landsreglara að koma á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar í stað orkulindastýringar, og fer hún fram í orkukauphöll, sem stofnuð verður, og það er engin leið að sjá, að þessi aðferð geti leitt til verðlækkunar á raforku á Íslandi, þótt ráðherra orkumála hafi verið talin trú um það og hún síðan boðað fagnaðarerindið.  Þetta er einvörðungu ráðstöfun til að laga íslenzka raforkumarkaðinn að Innri markaði ESB, sem hentar þetta fyrirkomulag,  þannig að íslenzki raforkumarkaðurinn geti hnökralaust tengzt Innri markaðinum með aflsæstrengjum í fyllingu tímans.  

Raforkuverðið mun í orkukauphöllinni sveiflast innan sólarhringsins, verða hæst á toppálagstíma á daginn á virkum dögum og lægst að næturlagi.  Notendur geta spilað á þetta, sérstaklega eftir að þeir fá til sín snjallmæla, þar sem orkuverðið og orkunotkunin í rauntíma (aflið) verða sýnd.  Á sumrin verður orkuverðið lægra en á veturna, ef vel gengur með fyllingu miðlunarlóna, en það getur hækkað mjög á útmánuðum á meðan vatnsstaðan fer enn lækkandi í miðlunarlónum og lítið er eftir.  Það er hætt við, að niðurstaðan verði hækkun meðalverðs.

  Þegar illa árar í atvinnulífinu, eins og nú stefnir í, getur slík þróun á kostnaði riðið þeim fyrirtækjum að fullu, sem eru með þungan rafmagnsreikning fyrir, og heimili gætu neyðzt til þess að spara rafmagn.  Sú er reynslan frá Noregi, sem hefur búið við markaðsstýringu raforkuvinnslunnar síðan 1990 og fær nú yfir sig Landsreglara (RME-reguleringsmyndighet for energi).  Þar leggst reykjarsvæla yfir hverfi og byggðir í kuldatíð, því að fólk kyndir þá með viði fremur en rafmagni. Fjarvarmaveitur heyra þar til undantekninga, svo að framboðshliðin er einsleit, en ekki innbyrðis ólík, eins og hér. 

Þetta kerfi er til þess fallið að vekja upp mikla óánægju almennings í landi, þar sem raunverð raforku fór lækkandi fyrir innleiðingu OP#1 og þar sem megnið af orkulindunum og orkufyrirtækjunum er enn í almannaeigu.  Eigendurnir eiga rétt á að krefjast þess, að fyrirtækin séu rekin með hagsmuni þeirra fyrir augum.  Það er auk þess fullveldisréttur hverrar þjóðar að ráða, hvernig stjórnun náttúruauðlindanna er háttað.  Almenningur hefur aldrei verið spurður um þetta.  Samt hefur ríkisstjórn og meirihluti á Alþingi tekið sér bessaleyfi til að ákveða að fela yfirþjóðlegu valdi að ráðskast með þessi mál. Þetta eru veigamikil mistök, sem Miðflokkurinn barðist þó öttullega gegn á þingi, eins og í minnum er haft, og Flokkur fólksins og Ásmundur Friðriksson, auk fjölmargra utan þings, vöruðu við. 

Í þingræðisskipulagi virkar lýðræðið einfaldlega þannig, að vanþóknun eða velþóknun kjósenda á þessum málatilbúnaði öllum mun koma í ljós í næstu Alþingiskosningum.  

 

 


Afleiðingar sæstrengsumsóknar

Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, ritaði eina af sínum gagnmerku hugleiðingum í Morgunblaðið 21. september 2019, og hét hún:

"Ótti leiðir í snöru".

Arnar Þór hefur áhyggjur af því, hvernig íslenzk stjórnmál hafa þróazt og raunar allar þrjár greinar ríkisvaldsins, einkum þó löggjafarvaldið.  Vitað er, að fjárfestar hafa hug á að leggja og reka aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands og tengja þannig "orkuríkt" Ísland við Innri raforkumarkað ESB, sem sárvantar raforku úr sjálfbærum orkulindum og mun líklega greiða hærra verð fyrir hana á næsta áratugi, þegar orkufyrirtækjunum verður gert að kaupa sér koltvíildiskvóta við síhækkandi verði.  Hvernig munu Íslendingar bregðast við slíkri sæstrengsumsókn ?

Í þessu sambandi er áhugavert að fylgjast með þróun sæstrengsmála í Noregi.  Tveir stórir (1400 MW) sæstrengir verða teknir í brúk þar 2020-2021, annar til Þýzkalands og hinn til Englands.  Afleiðingin verður harðari samkeppni um raforkuna í Noregi, minni varaforði í miðlunarlónum og þar af leiðandi hærra raforkuverð á orkumörkuðum í Noregi (orkukauphöllum). 

Þá er beðið með talsverðri eftirvæntingu eftir afgreiðslu umsóknar NorthConnect-félagsins um 1400 MW sæstreng á milli Noregs og Skotlands.  Ef af honum verður, mun verðmunur raforku á Bretlandi og í Noregi sennilega þurrkast út með þeim alvarlegu afleiðingum, sem það hefur á samkeppnishæfni Noregs innanlands og utan.  

Hvaða afleiðingar telur Arnar Þór, að innleiðing OP#3 hafi á sjálfsákvörðunarrétt Íslands í sæstrengsmálum?:

"Því miður sýnist staðan vera sú, að íslenzk stjórnmál séu föst á milli tveggja elda; til annarrar hliðar ofurseld reglusetningarvaldi ESB í flestu, sem máli skiptir, en stjórnist að hinu leytinu af hræðslu við fjölmiðla og "almannatengla" í málum, sem að nafninu til eiga þó að lúta forræði Alþingis.  Hér skal ekki lítið úr því gert, að Evrópuréttur hefur á ýmsan hátt bætt íslenzkan rétt.  Það réttlætir þó ekki, að Alþingi víki sér, á ögurstundu, undan því að axla ábyrgð á löggjafarvaldinu og kjósi, þegar upp koma sérlega umdeild mál, eins og O3, að leggja á flótta með því að setja svo misvísandi reglur, að helzt má líkja þeim við óútfylltar ávísanir til dómara."

Dæmið, sem dómarinn tilfærir, sýnir, svo að ekki verður um villzt, í hvílíkar ógöngur löggjafinn ratar, þegar hann stendur frammi fyrir "skítamixi" ráðuneytanna til að sniðganga Stjórnarskrána, svo að á yfirborðinu sé hægt að innleiða gerðir Evrópusambandsins í íslenzka lögbók. 

Þetta fyrirkomulag; að taka við yfirgripsmiklum lagabálkum ESB og færa þannig lagalega bindandi ákvörðunarvald til stofnunar Evrópusambandsins, hér ACER, hefur nú gengið sér til húðar, því að þar með erum við í stöðu hjálendu Evrópusambandsins. 

Hver er munurinn á þessu fyrirkomulagi og stjórnarháttum einveldistímans á Íslandi, þegar hirðstjóri Danakonungs mætti með tilskipanir og reglugerðir frá Kaupmannahöfn og lagði þær fyrir þingheim á Þingvöllum til samþykktar og innleiðingar í löggjöf landsins ?

"Með innleiðingu O3 í íslenzkan rétt og samhliða séríslenzkum lagalegum fyrirvörum, sem beinast gegn markmiðum O3, hefur sjálft Alþingi brotið gegn því meginmarkmiði réttarríkisins, að lög séu skýr og skiljanleg.  Með því að tala tungum tveim í málinu hefur þingið leitt misvísandi reglur í lög og þar með skapað innri lagalegar mótsagnir.  

Þá hafa þingmenn með þessu vinnulagi í raun sett afturvirk lög, sem einnig er brot gegn því, sem réttarríkið stendur fyrir.  Lagalegri óvissu, sem af þessu leiðir, verður ekki eytt fyrr en dómstóll, að öllum líkindum EFTA-dómstóllinn, hefur kveðið upp úr um það, hvort íslenzka ríkinu sé nokkurt hald í margumræddum lagalegum fyrirvörum Alþingis við O3."

Ef fjárfestar sjá gullið viðskiptatækifæri fólgið í því að tengja saman íslenzka raforkukerfið og Innri markað ESB vegna mikils verðmunar á þessum mörkuðum án tillits til mikils flutningskostnaðar, þá munu þeir búa til verkefni um þá viðskiptahugmynd, og hún verður lögð fyrir landsreglara ACER í sitt hvorum enda tilvonandi sæstrengs. 

Höfundi pistilsins þykir líklegt, að verkefnið verði í tveimur áföngum, þ.e. 2x500 kV DC, 600 MW, sæstrengir (sjór og hafsbotn ekki notaðir sem straumleiðari af öryggisástæðum) í hvorum áfanga með viðkomu í Færeyjum, með möguleika á tengingu við færeyska landskerfið, ef Færeyingar kæra sig um. 

Kerfi af þessu tagi myndi útheimta fjárfestingu um mrdUSD (2x2,5) með 30 % óvissu.  Árlegur kostnaður fjárfestanna í USD/MWh fer eftir því, hversu mikill hluti af endabúnaði sæstrengjanna lendir á flutningsfyrirtækjunum í sitt hvorum enda, og hversu mikill orkuflutningur mun eiga sér stað, og hver borgar flutningstöpin, sem eru umtalsverð með töpum í afriðla- og áriðlabúnaði.  

M.v. raforkuverðið 50 EUR/MWh, sem er algengt heildsöluverð á Nord Pool kauphöllinni um þessar mundir, er þetta engan veginn arðsöm orkusala frá Íslandi.  M.v. hækkun upp í 80 EUR/MWh (60 % hækkun) vegna koltvíildiskvóta á orkuvinnslufyrirtækin í Þýzkalandi (og kannski víðar) árið 2025 að upphæð 35 EUR/t CO2, þá verður þessi flutningur aðeins arðsamur, ef fjárfestarnir þurfa ekki að borga endabúnaðinn, og með því að fullnýta flutningsgetu strengjanna.  Þetta verkefni er miklum vafa undirorpið án styrkja og/eða niðurgreiðslna, sem Evrópusambandið þó vissulega beitir sem lið í orkustefnu sinni, og stefna þess er vissulega að tengja jaðarsvæði Evrópu við Innri markað sinn.  

Hins vegar er ljóst, að það er mesta glapræði fyrir orkufyrirtæki á Íslandi, sem eru með langtímasamninga um raforkusölu við iðjufyrirtæki, að setja þá samninga í uppnám með það í huga að græða meira á viðskiptum á Innri markaðinum.  Þau eru algerlega undir hælinn lögð og alls engin trygging fyrir háu orkuverði til framtíðar, þótt næsti áratugur geti litið þannig út. Enginn í Evrópu mun tryggja íslenzkum orkubirgjum hátt framtíðarverð fyrir raforku frá Íslandi. Ástæðan er sú, að alger óvissa ríkir um framtíðarverðið.  Á næsta áratugi er þó líklegt, að dragi til tíðinda við þróun raforkugjafa, sem jafnvel græningjar geta samþykkt.

Arnar Þór Jónsson benti í grein sinni á líklega sviðsmynd, sem gæti orðið uppi á teninginum þegar á þessu kjörtímabili.  Þar er líklega komin snaran í heiti greinarinnar:

"Ef alvarleiki framangreindra atriða nægir ekki til að viðhalda umræðum um það, sem hér hefur gerzt, má vænta þess, að sú umræða lifni af fullum krafti, þegar og ef í ljós kemur, að O3 var ekkert "smámál", eins og meirihluti þingmanna lét þó í veðri vaka.  Eins og ég hef áður bent á, gæti það t.a.m. gerzt með því, að höfðað verði samningsbrotamál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum.  Ráðherrar, þingmenn og ráðgjafar þeirra, mega þá búast við, að opinbert verði, að þeir hafi farið með staðlausa stafi um mögulega nauðvörn á grunni hafréttarsáttmálans [og] um ómöguleika þess að nýta undanþáguheimildir EES-samningsins eða um óskert fullveldi Íslands yfir raforkulindum.  Það væri ekki léttvægur áfellisdómur, sem menn hefðu kveðið upp yfir sjálfum sér, ef í ljós kæmi, að fræðimennskan reyndist innistæðulaus, sjálfsöryggið aðeins gríma, yfirlætið tilraun til að breiða yfir óvissu og fela undirliggjandi ótta."   

 


Orkupakkarnir og loftslagið

Á þjóðhátíðardegi Þýzkalands (Der Tag der Wiedervereinigung Deutschlands), 03.10.2019, gekk Orkupakki 3 (OP#3) formlega í gildi í EES, þ.e. í EFTA-löndunum þremur, sem aðild eiga að þessu erfiða sambýli við Evrópusambandið, ESB, en OP#3 hafði gengið í gildi í ESB 03.03.2011.  

Mikilvægi EES-samningsins er stórlega ofmetið í skýrslu þriggja lögfræðinga, sem út kom 01.10.2019, og reynt er að láta þar líta út fyrir, að eini valkostur Íslands við hann sé ESB-aðild.  Það er fjarstæða, eins og sýnt var fram á í "Alternativrapporten" varðandi Noreg 2012, og hið sama á við um Ísland.  Fjölmennasta verkalýðsfélag Noregs hélt Landsþing sitt 11.-16. október 2019, og þar var samþykkt að segja upp ACER-aðild Noregs (ACER er Orkustofnun ESB, sem stofnað var til með reglugerð ESB nr 713/2013, og lögfræðingarnir Stefán Már og Friðrik Árni töldu stærstu stjórnlagalegu hindrunina í vegi samþykktar Alþingis á OP#3.).  Þetta sýnir vaxandi óánægju í hinu leiðandi EFTA-ríki innan EES með þróun samstarfsins við ESB, enda er þetta samstarf eins fjarri því og unnt er að geta kallst sanngjarnt samstarf á jafningjagrundvelli.  Þetta er "samstarf" húsbóndans og þrælsins, sem ber feigðina með sér.  

Orkusamstarf EES er skýrt dæmi um þetta, en gríðarleg sundurþykkja myndaðist bæði í Noregi og á Íslandi í aðdraganda innleiðingar á næstsíðasta afrakstri ESB í þessum efnum, OP#3.  Það er ömurlegt, að þvílík læti verði vegna orkustefnu, að stjórnmálaflokkar leika á reiðiskjálfi.  Það er auðvitað út af því, að orkustefna ESB og Orkusamband Evrópu þjóna ekki hagsmunum þessara tveggja norrænu landa, sem ekki búa við neinn skort á sjálfbærri orku, eins og flest eða öll ESB-löndin. Hagsmunir norrænu EFTA-ríkjanna og ESB fara þess vegna ekki saman í orkumálum. Það verður jafnframt ætlazt til þess, að þessi Norðurlönd leggi sitt að mörkum til að berjast við hlýnun jarðar með því að draga úr koltvíildislosun ESB við raforkuvinnslu og jafnvel húshitun.  

Nú líður að dæmi um þetta frá Noregi, þar sem er NorthConnect aflsæstrengur til Skotlands. Statnett (norska Landsnet) er á móti þessum streng af orkuöryggisástæðum í Noregi.  Það er jafnframt búizt við, að hann færi verðlag raforku í Noregi enn nær verðlagi raforku á Bretlandseyjum en nú er, og það er hátt, jafnvel á evrópskan mælikvarða.  Bretar hafa aðra orkustefnu en Þjóðverjar; ætla að loka síðasta kolakynta raforkuverinu 2025, einum áratugi á undan Þjóðverjum, og Bretar leyfa byggingu og rekstur kjarnorkuvera, sem Þjóðverjar ætla að binda enda á hjá sér 2022.  Það er hald margra, að orkustefna Þjóðverja sé óraunhæf og muni reynast hagkerfi þeirra ofraun, draga úr hagvexti þar og við núverandi aðstæður (með neikvæða vexti á skuldabréfum ríkisins) valda samdrætti hagkerfisins. Af ýmsum ástæðum ríkir nú mikil svartsýni í Þýzkalandi um efnahagshorfur næstu missera. 

Þann 20. september 2019 lauk 19 klukkustunda fundi þýzkrar ráðherranefndar um loftslagsmál á skrifstofu Angelu Merkel í Berlín.  Til marks um alvarleika málsins þrumaði Markus Söder, formaður bæverska CSU, systurflokks CDU, að ráðherrarnir hefðu hamrað saman "Marshall-áætlun fyrir loftslagsvarnir". 

Þýzkaland, sem er 6. í röðinni í heiminum yfir losun gróðurhúsalofttegunda, mun ekki ná losunarmarkmiðum sínum 2020. Þjóðverjar hafa sett sér strangari losunarmarkmið 2030 en flestir eða allir aðrir, þ.e. 55 % samdrátt koltvíildislosunar m.v. 1990. Það jafngildir fyrirætlun um, að þessi losun út í andrúmsloftið fari úr 866 Mt árið 2018 og í 563 Mt árið 2030.  Þetta er aðeins 35 % samdráttur, sem sýnir, að losunin árið 1990 var enn meiri en nú.  Þessu er öfugt farið á Íslandi.

"Marshall-áætlun" Þjóðverja er blanda af niðurgreiðslum og nýju regluverki ásamt fjárfestingum í auknum innviðum fyrir rafmagnsbíla og rafknúnar járnbrautarlestir.  Hún gerir líka ráð fyrir hreinni upphitunarkerfum húsnæðis og fjölgun vindmyllna, en nú þegar hefur hægt á henni vegna andstöðu íbúanna.  Hryggjarstykkið er skyldukaup á kolefniskvóta í geirum, sem kolefniskvótar ESB-spanna ekki,  umferð og byggingar.  Lokamarkið er kolefnishlutleysi árið 2050.

Sumir sérfræðingar höfðu vonazt eftir upphafsverði á þessum koltvíildiskvóta a.m.k. 50 EUR/t, sem myndi hækka upp í 100 EUR/t, til að örva fjárfestingar í hreinu eldsneyti og í breytingum á kyndikerfum  húsnæðis og til að hvetja til flýttrar lokunar kolakyntra orkuvera, sem núna sjá Þýzkalandi fyrir 29 % raforkuþarfarinnar.  Þess í stað mun upphafsverðið verða "aðeins" 10 EUR/t f.o.m. 2021 og hækka upp í 35 EUR/t 2025, og síðan verða viðskipti með koltvíildiskvóta á fyrirfram ákveðnu verðbili.  Við þessa ákvarðanatöku hefur nýhafið efnahagslegt samdráttarskeið í Þýzkalandi (2 samliggjandi ársfjórðungar með minni verðmætasköpun en samsvarandi ársfjórðungar árið á undan) vafalaust haft áhrif.  Við slíkar aðstæður auka ígildi skattahækkana við efnahagsvandann. Það er ekki gert ráð fyrir endurgreiðslum skattheimtunnar, eins og tíðkast í British Columbia.  Lisa Badum, talsmaður Græningja í umhverfismálum, lýsti þessari "Marshall-áætlun" sem allsherjar mistökum.

Það er minnkandi bílaframleiðsla í Þýzkalandi, sem talin er vera undirrót 2/3 þessa efnahagsvanda, en þýzkur bílaiðnaður heldur nú að sér höndum vegna útblásturshneyksla hjá dráttarklárum þýzks bílaiðnaðar. Um 1/3 vandans er talinn stafa af áhyggjum út af BREXIT.  Þýzki iðnaðarrisinn er að verða tilbúinn með nýjar gerðir umhverfisvænna bifreiða á markað og mun í fyllingu tímans hefja öfluga gagnsókn, sem vafalítið mun bera góðan árangur.

Olaf Scholz, fjármálaráðherra, lýsti því yfir við kynningu á "Marshall-áætluninni", að fjárfestingar ríkissjóðs vegna orkuskiptanna myndu á næstu 4 árum nema mrdEUR 54.  Fært til Íslands næmi það mrdISK 32, og er dágóð upphæð, en Þjóðverjar vilja ekki taka lán fyrir fjárfestingum í þágu orkuskiptanna, jafnvel þótt þýzka ríkissjóðnum bjóðist lán á neikvæðum vöxtum.  Þeir halda sig ofan við "svarta núllið", þ.e. halda ríkisrekstrinum í jafnvægi, þótt á móti blási.

Staðan í þjóðarbúskapnum ræður för, og enginn skilur, hvernig Þjóðverjar ætla að standa við metnaðarfull markmið sín í orku- og loftslagsmálum.  Það er eins og beðið sé eftir "Wunderwaffen".  Slík undravopn geta verið á næsta leiti með gegnumbroti í þróun nýrra orkugjafa, t.d. þóríum-kjarnorkuvera.  Angela Merkel segist skilja gagnrýnina frá Græningjum, en stjórnmálamenn verði að tryggja, að þeir njóti stuðnings borgaranna.  Kanzlarinn veit, að stuðningur kjósenda við loftslagsvarnir dvínar, þegar þeir eru spurðir um tilgreindar fórnir, sem þeir séu tilbúnir að færa.  Erfiðu ákvarðanirnar verða geymdar handa næstu ríkisstjórn.  Ef Annegret Kramp Karrenbauer stendur sig vel sem arftaki Ursulu von der Layen í embætti landvarnaráðherra, stendur hún vel að vígi sem kanzlaraefni í næstu kosningum til Bundestag, annars ekki. 

 


Náttúruauðlindirnar knýja hér hagkerfið áfram

Með náttúruauðlindum hérlendum er hér átt við lífríki hafsins í landhelgi Íslands, orkulindirnar jarðgufu og vatnsföll og sérstæða náttúru eldfjallaeyju norður við heimsskautsbaug.  Spurn er eftir þessu öllu, og nýting á öllum þessum auðlindum stendur undir hagkerfi landsins með sóma.  Nú sjáum við hagkerfið hins vegar gefa eftir vegna versnandi samkeppnisstöðu við útlönd með ískyggilega vaxandi atvinnuleysi sem afleiðingu. Fréttir um öra fækkun bandarískra ferðamanna til landsins um þessar mundir vekja ugg vegna mikilla fjárfestinga, sem ráðizt hefur verið í til að flytja og taka við ferðamönnum. Núverandi stöðu Icelandair í kauphöllinni má að töluverðu leyti skrifa á reikning Boeing, og enginn veit, hvort MAX-vélunum verður leyft að flytja farþega aftur.  Hönnunarsaga þessara véla, sem einn reyndasti þjálfunarflugmaður Íslands telur reyndar, að verði með öruggustu flugvélum eftir breytingar, sem flogið hafa, er sorglegt dæmi um dómgreindarleysi "baunateljara", sem láta ráðleggingar verkfræðinga sem vind um eyru þjóta. 

Það ríkir óvissa með lífríki sjávar vegna hlýnandi sjávar.  Loðnan er horfin af Íslandsmiðum og humarinn sömuleiðis, hvað sem verður.  Tegundir, sem áður fundust einvörðungu úti fyrir Suðurlandi, hafa nú breiðzt út norður fyrir land.  Útflutningur unninna fiskafurða dregst saman á kostnað útflutnings óunninnar vöru vegna samkeppnisstöðunnar, sem hefur versnað, enda er launakostnaður hérlendis sem hlutfall af verðmætasköpun fyrirtækja orðinn sá hæsti í heimi.

Ferðamannagreinarnar eiga allar erfitt uppdráttar.  Samkeppnisstaða Íslands um ferðamenn með áhuga á norðurhjara hefur versnað verulega, t.d. gagnvart Noregi, þar sem stöðug aukning er á ferðamannastrauminum, síðan NOK gaf verulega eftir m.v. EUR í kjölfar lækkunar á olíuverði 2013-2015. Vekur lág staða NOK undrun m.v. risavaxinn gjaldeyrissjóð landsins, sem ríkissjóður er farinn að hirða sneið af (hluta af vaxtatekjum) til rekstrar.  NOK hefur aldrei verið jafnlág m.v. EUR og nú, og skýringin kann að vera þessi: í fyrsta sinn um áraraðir er nú viðskiptajöfnuður Noregs við útlönd neikvæður.  Gas- og olíuvinnsla Noregs fer minnkandi og verð á þessum vörum er fremur lágt.  Atvinnulíf Noregs er gírað inn á þessar greinar og mun eiga erfitt með að skipta um vettvang. Þetta mun hafa áhrif á norskt þjóðlíf í átt til aukinna átaka.

Orkusækin málmframleiðsla hefur átt undir högg að sækja í heiminum undanfarin ár vegna offramboðs á vestrænum mörkuðum, þar sem Kínverjar hafa dembt miklu magni, t.d. af áli, inn á markaðina frá ríkisreknum eða ríkisstyrktum verksmiðjum sínum, sem kaupa rafmagn frá kolakyntum raforkuverum með lágmarks tilkostnaði og ófullnægjandi mengunarvörnum.  Á sama tíma hefur tilkostnaður íslenzkra álvera í sumum tilvikum aukizt gríðarlega vegna launahækkana og raforkuverðshækkana við endurnýjun samninga.  Þar sem mestar kostnaðarhækkanir hafa orðið, er nú bullandi taprekstur, sem auðvitað getur ekki gengið lengi.

LME-verð á áli er nú um 1700 USD/t.  Hámarksraforkukostnaður hérlendis jafngildir um 600 USD/t Al, súrálskostnaður um 600 USD/t Al, skautakostnaður um 400 USD/t Al.  Þá eru eftir 100 USD/t Al fyrir viðhaldsefni, launakostnaði, þjónustukostnaði, fjárfestingum auk eðlilegrar arðgjafar af eigin fé.  Það, sem hefur bjargað afkomu álveranna hérlendis, og þó ekki dugað í öllum tilvikum, er allt að 500 USD/ Al verðviðbót (premium) vegna gæða og sérhæfni. 

Því miður er útlitið á álmörkuðum ekki bjart á næsta áratug, og þess vegna hangir þessi starfsemi á bláþræði hjá þeim fyrirtækjum, þar sem raforkubirgirinn hefur knúið fram afnám tengingar álverðs og orkuverðs auk verulegrar hækkunar.  Kann svo að fara, að mjólkurkýrnar hætti að selja.  Orkubirgjarnir vita sem er, að á næsta leiti er Innri markaður Evrópusambandsins, sem getur tekið við allri tiltækri raforku héðan.  Því hefur hins vegar ekki verið svarað, hvort slík umskipti eru þjóðhagslega hagkvæm eður ei.  Er e.t.v. þjóðhagslega hagkvæmast að búa svo um hnútana, eins og gert var fyrir 2010, að hámarka megi verðmætasköpun í landinu sjálfu með orku landsins í stað þess að senda hana til útlanda til verðmætasköpunar þar.  Þurfum við ekki á að halda vaxandi fjölda fjölbreytilegra atvinnutækifæra hérlendis til að ungt kunnáttufólk kjósi sér búsetu hér til langframa fremur en annars staðar.  Rafmagnssala til útlanda skapar atvinnu í útlöndum, ekki á Íslandi, nema í litlum mæli. Að reiða sig að mestu á ferðamannastraum til landsins er fallvalt.

Núna eru orkumál landsins í deiglunni, og skiptir gríðarlega miklu fyrir hag landsins, hvernig til tekst um þá stefnumótun.  Með samþykki Orkupakka 3 (OP#3) gerðist Ísland aðili að ACER (Orkustofnun ESB) og batt þannig sitt trúss við Orkusamband Evrópu.  Það krefst alveg sérstakrar aðgæzlu og þekkingar að fást við þá aðild á farsælan hátt, og þess vegna var grein Elíasar Elíassonar, verkfræðings, og Svans Guðmundssonar, fiskeldisfræðings, í Morgunblaðinu 30. september 2019, sérstakt fagnaðarefni.  Heiti greinarinnar var:

"Ísland í Orkusambandi ESB",

og verður nú vitnað í hana:

"Íslenzk stjórnvöld þurfa að finna leiðir til að mæta kröfum almennings við að efla atvinnu og orkuvinnslu hér á landi óháð þeim vanda, sem orkuvinnsla Evrópu stendur frammi fyrir.  Þetta, ásamt ráðandi stöðu ESB innan EES-samstarfsins, er og hefur verið grundvöllur þeirrar kröfu almennings, að Ísland hafi sjálft full yfirráð yfir orkuauðlindum sínum og þeirri orku, sem frá þeim fæst."

Hér drepa þeir félagar á það, sem líklega má telja meginviðfangsefni íslenzkra stjórnvalda við framkvæmd EES-samningsins, en þau virðast því miður illa í stakkinn búin til þess og ekki átta sig fyllilega á um hvað orkustefna ESB snýst.  Bernska, blindni og lögfræðileg einhæfni hefur hingað til sett sitt mark á afstöðu íslenzkra stjórnvalda til orkustefnu ESB.  Gallar stjórnsýslunnar urðu svo aftur lýðum ljósir, þegar Ísland 17.10.2019 var sett á "gráan" lista alþjóðlegra samtaka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eftir langan aðdraganda og viðvaranir.  Eftir fúskið voru svo viðbrögðin þau að mótmæla því, að ástandið hér réttlætti að fara á þennan lista.  Hegðunin minnir á latan og/eða lítt gefinn nemanda, sem fellur á prófi og mótmælir því að vera felldur. Allt er þetta ömurlegur vitnisburður um núverandi ríkisstjórn.

   Til marks um firringuna, sem ríkir um EES-samninginn, er, að 01.10.2019 kom út 301 bls. skýrsla á vegum utanríkisráðuneytisins að beiðni Alþingis, og þar verður ekki séð í fljótu bragði, að minnzt sé einu orði á þessa hlið frjálsra fjármagnsflutninga eða málefnið, sem fjallað er um í tilvitnuninni hér að ofan.  Þessi ósköp uppskera stjórnvöld með því að setja einvörðungu til verka fólk með lögfræðileg einglirni, svo að ekki sé nú minnzt á vanhæfni vegna tjáðra einstrengingslegra skoðana um Orkupakka 3 (OP#3) og EES-samninginn á opinberum vettvangi.  Niðurstaðan er næsta gagnslítill doðrantur, sem segir meira um annmarka höfundanna en um mikilvægt viðfangsefnið.  Margfalt gagnlegri er skýrsla, sem út kom í Noregi í ágúst 2019, þótt hún sé mun styttri,og fjallaði m.a. um valkostina, sem Noregur hefur í viðskiptalegu tilliti við EES-samninginn.  Landsþing stærstu verkalýðssamtaka Noregs, Fellesforbundets, skaut föstu skoti framan við stefni EES með samþykkt 16.10.2019 á að greina hagstæðustu leiðina fyrir norsk tengsli við ESB og að segja sig úr ACER-Orkustofnun ESB, sem varð að veruleika 02.09.2019, þegar Alþingi samþykkti OP#3. 

Elías og Svanur tengja síðan saman loftslagsmál og orkumál Evrópusambandsins og þar með EES:

"ESB hefur nú sameinað loftslagsmál og orkumál undir hatti Orkusambands Evrópu og ætlast til þess, að við göngum þar inn á þeirra forsendum og leggjum okkar hreinu auðlindir undir þeirra stjórn.  En loftslagsmál eru ekki einkamál Evrópu, heldur alls heimsins."

Vegna samþykktar OP#3 og þar með aðildar Íslands að ACER, er Ísland nú í Orkusambandi Evrópu, þótt þangað eigum við ekkert erindi.  Íslenzk stjórnvöld hafa metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum, og það verður hægt að beita orkustefnu landsins fyrir vagn loftslagsstefnunnar með orkuskiptum, þ.e. að virkja og reisa flutningsmannvirki fyrir orku til að knýja verksmiðjur fyrir umhverfisvænt eldsneyti, t.d. vetni, etanól og repjuolíu, eða leggja dreifikerfi að hleðslustöðvum rafmagnsbíla. Ætti nýsköpunarráðherra að beita sér fyrir rannsóknum á sviði innlendrar framleiðslu vistvæns eldsneytis, svo að hætta megi innflutningi á eldsneyti með íblandaðri pálmaolíu með stóru kolefnisspori.  

Hættan er hins vegar sú, að ESB heimti, að við göngum enn lengra og virkjum fyrir raforkusölu um aflsæstreng, sem tengi Ísland við Innri markað ESB. OP#3 leggur drögin að aflsæstreng, sem fjárfestar kunna að gera tillögu um, og ágreiningur íslenzku ríkisstjórnarinnar og ACER um lagningu og tengingu slíks strengs gæti lent hjá EFTA-dómstólinum. Verði síðan af slíkum streng og Ísland innleiðir OP#4 í fyllingu tímans, þá mun áreiðanlega verða vísað til bindandi ákvæða í OP#4 um að veita leyfi til að rannsaka og virkja endurnýjanlegar orkulindir og tengja þær við flutningskerfið gegn gjaldi, sem er óháð vegalengd á milli tengistaðar og virkjunar.

Félagarnir, Elías og Svanur, eru ekki sannfærðir um, að hagkvæmasta leiðin fyrir Íslendinga sé að ganga Orkusambandi Evrópu á hönd:

"Án þess að útiloka samstarf höfum við því, þegar grannt er skoðað, trúlega betri tækifæri til að gera loftslagsmálum heimsins gagn utan Orkusambands Evrópu."

Þetta er jafngilt því að segja sem svo, að við getum þjónað sameiginlegum hagsmunum jarðarbúa betur með því að móta orkustefnu landsins sjálf, eins og við höfum gert hingað til.  Dæmi um þetta má taka af áliðnaðinum.  Hann keypti árið 2018 12,9 TWh (terwattstundir) af raforku og framleiddi þá tæplega 0,9 Mt af Al.  Ef þetta ál hefði ekki verið framleitt á Íslandi, hefði það áreiðanlega verið framleitt annars staðar og líklegast með raforku frá eldsneytisraforkuverum.  Algengasta tegundin þar eru kol, og af þeim þarf um 4,0 Mt til að framleiða 12,9 TWh.  Bruni þeirra myndar vart undir 14 Mt af CO2-gasi og kynstur af öðrum óheilnæmum gösum og sóti.  Þetta þýðir, að íslenzku álverin spara losun a.m.k. 12 Mt CO2/ár.

Sé notað jarðgas við raforkuvinnsluna, verður losunin minni, en hún getur líka orðið meiri, ef notuð eru kol með lágu orkugildi (brúnkol) eða raforkuverið er með mjög lága nýtni.  Sparnaðurinn, 12 Mt CO2/ár, er 2,4 föld losunin hérlendis (án millilandaflugs og millilandaskipa).  Í raun leggur þannig íslenzk stóriðja mest að mörkum hérlendis á alþjóðavísu í baráttunni við hlýnun jarðar.

Síðan útskýra þeir félagar í hverju áhyggjur þeirra eru fólgnar varðandi Orkusamband Evrópu:

"Innan EES-samstarfsins skrifar ESB allar nýjar viðbætur, sem EFTA-ríkin eiga síðan að samþykkja.  Það er auðvelt að gera mistök, þegar þannig er samið, og það virðist einmitt hafa verið gert í EES-samningnum, hvað varðar orkulindir Íslands.  

Skýrasta dæmið um þetta er e.t.v. úrskurður Eftirlitsnefndar EES [ESA] og bréf til íslenzkra stjórnvalda frá 20. apríl 2016 þess efnis, að allur réttur til að nýta náttúrulegar auðlindir í eigu almennings og ríkis fari fram á markaðsforsendum [þ.e. úthlutun alls nýtingarréttar hins opinbera fari fram á markaðsforsendum, og á þetta féllst íslenzka ríkisstjórnin skömmu síðar, svo að málið fór ekki fyrir EFTA-dómstólinn - innsk. BJo].  Þetta felur í sér, að markaðurinn á að ráða nýtingu og stjórnun auðlinda okkar, en eignarréttur okkar og fullveldi skulu sniðgengin. 

Afleiðing þessa úrskurðar ESA verður til þess að hækka orkuverð og minnka samkeppnisforskot íslenzkra iðnfyrirtækja gagnvart erlendum.  Þetta hvetur fyrirtæki til að flytja starfsemi eins og fiskvinnslu nær mörkuðunum inn í iðnaðarkjarna ESB, en erfitt verður fyrir íslenzkan iðnað að keppa á alþjóðlegum mörkuðum með evrópskt orkuverð.  Það sjá allir í hvaða hættu íslenzkum efnahag er stefnt, ef þessum úrskurði ESA er að fullu fylgt." [Undirstr. BJo.]

Utanríkisráðherrann á þessum tíma, Lilja Alfreðsdóttir, virðist þó ekki hafa áttað sig á téðri hættu fyrir íslenzkan fullveldisrétt til að stjórna orkulindunum, né forsætisráðherrann, Sigurður Ingi Jóhannsson, eða iðnaðarráðherrann, Ragnheiður Elín Árnadóttir.  Var utanríkismálanefnd höfð með í ráðum, þegar þessi endemisákvörðun var tekin, eða atvinnuveganefnd Alþingis ? 

Þessi afglöp vitna um brotalöm, þverbresti, í íslenzkri stjórnsýslu.  Það er með öllu óskiljanlegt, að þessi afdrifaríka uppgjöf gagnvart ESA skyldi eiga sér stað, og það þegjandi og hljóðalaust, enda tók norska stjórnsýslan allt annan pól í hæðina, þegar hún fékk svipaða fyrirspurn frá ESA 30.04.2019 (úrskurður ESA kemur ekki strax).  Norska olíu- og orkuráðuneytið tók þegar til varna og færði rök fyrir því, að tilskipanirnar, sem ESA beitti fyrir sig, og eru aðrar en gagnvart Íslendingum, ættu alls ekki við um raforkuvinnslu.  

Líklega mun iðnaðarráðherra núverandi ríkisstjórnar, Þórdís Reykfjörð, leggja á þessu þingi fram frumvarp um útfærslu umræddrar markaðsvæðingar.  Ef frumvarpið felur í sér, að téður nýtingarréttur verður boðinn upp eða boðinn út á Evrópska efnahagssvæðinu, þá gæti það orðið pólitískur banabiti þessa ráðherra og jafnvel ríkisstjórnarinnar allrar.  Ef ráðherrann gerir ekki neitt í þessu máli, þá er hætt við, að ESA ókyrrist og hóti málssókn á hendur ríkinu fyrir EFTA-dómstólinum  vegna vanefnda.  

Hér kann að verða um stórpólitískt mál að ræða bæði í Noregi og á Íslandi. "Fellesforbundet" lýsti því yfir á Landsþingi sínu 16.10.2019, að ef þessari kröfu ESA yrði haldið til streitu, neyddist Noregur til að segja upp EES-samninginum. Ef ESA/ESB ætla að framfylgja orkustefnu sinni í þessum löndum, Íslandi og Noregi, þá ryðja þau einkaframtakinu braut inn í orkuvinnsluna, t.d. með þeim hætti, sem að ofan er lýst.  Ætla má, að í báðum löndunum sé mikill meirihluti kjósenda á öndverðum meiði við ESA/ESB í þessu máli.  Ef þetta hrikalega mál fer á versta veg, kann að þurfa að velja á milli fullveldisréttar yfir náttúruauðlindunum og aðildar að EES. 

 

 

 


Ólíkar kenningar um þróun loftslagsins

Örvænting út af "hamfarahlýnun" hefur ekki farið framhjá neinum, sem nasasjón hefur haft af fréttum undanfarin misseri.  Kenningin er reist á losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið af mannavöldum frá iðnvæðingu á Vesturlöndum, sem hófst um 1750, og hækkun meðalhitastigs andrúmslofts um u.þ.b. 1,0°C síðan þá. Ekki er laust við, að loddarar hafi reynt að nýta sér örvæntingu fólks í þágu vafasams málstaðar, sem í stuttu máli jafngildir afturhvarfi til fortíðar.  Saga loftslagsbreytinga er hins vegar þekkt mestalla jarðsöguna, og þar eru miklu sterkari kraftar að verki en stafa af koltvíildisstyrkaukningu í andrúmslofti og munu virka til kælingar frá nútíma.

Kynt er undir ótta fólks til að fá almenning til að breyta lífsstíl sínum og afstöðu til neyzlusamfélagsins og hagvaxtar.  Sjálfsagt er að reka áróður fyrir bættri nýtingu og nýtni á öllum sviðum og sjálfbærum lifnaðarháttum, en vert er að hafa í huga, að tækniþróuninni og hagvextinum er að þakka sú velferðarbylting, sem átt hefur sér stað í vestrænum þjóðfélögum frá iðnbyltingu, og engin orkuskipti munu eiga sér stað án mikilla fjárfestinga í innviðum, nýrri tækni og nýjum raforkuverum, sem nýta sjálfbærar orkulindir.  Nútímaþjóðfélög eru öll knúin jarðefnaeldsneyti að miklu leyti og að vinda ofan af því krefst byltingarkenndra breytinga á orkusviðinu.

Önnur greinin, sem hér verður vitnað til, birtist í Morgunblaðinu 20. september 2019 undir fyrirsögninni:

 "Baráttan gegn hamfarahlýnun er kapphlaup og langhlaup".

Greinin er eftir Tryggva Felixson, formann Landverndar, og Þórhildi Fjólu Kristjánsdóttur, varaformann Landverndar.  Hún hófst svona:

"Fyrir um 30 árum vöknuðu þjóðir heims upp við vondan draum; hættulegar loftslagsbreytingar voru um það bil að eyðileggja lífsskilyrðin á heimili okkar, jörðinni.  Í skyndi voru gerðir alþjóðlegir samningar um, hvað bæri að gera.  En svo gerðist lítið meira og alls ekki nóg.  Líka á Íslandi, þar sem losun gróðurhúsalofttegunda hefur vaxið um liðlega 30 % frá árinu 1990."

Það er helzt, að Bandaríkin geti vísað til árangurs að þessu leyti, því að "leirbrotsaðferð" (e. fracking) þeirra hefur leitt til aukinnar jarðgasvinnslu í Norður-Ameríku, og hafa gaskynt orkuver komið í stað kolakyntra orkuvera í meiri mæli en annars staðar.  Það hefur þó líka gerzt á Bretlandi, og ætla Bretar að loka síðasta kolaorkuveri sínu árið 2025, en Þjóðverjar í fyrsta lagi 10 árum síðar.  Lokun kjarnorkuvera í Þýzkalandi hefur leitt til fjölgunar kolakyntra raforkuvera þar, og síðasta þýzka kjarnorkuverinu á að loka 2022.  Þess vegna gengur hvorki né rekur á meginlandinu við að hemja losun gróðurhúsalofttegunda.

Landsframleiðsla Íslendinga hefur aukizt hlutfallslega margfalt meira en losun gróðurhúsalofttegunda síðan viðmiðunarárið 1990.  Það sýnir, að hagkerfið er að laga sig að sjónarmiðum um kolefnisfría starfsemi.  Hér verður þó að hafa í huga, að inni í téðri 30 % aukningu losunar er ekki losun íslenzkra millilandaflugvéla.  Hún færist í bókhald Evrópusambandsins, ESB, en hefur aftur á móti skapað hér gríðarlegan hagvöxt, þótt mikill samdráttur hafi orðið í ferðageiranum á þessu ári af ólíkum ástæðum, hvað sem verður.

Í næstu tilvitnun slær algerlega út  í fyrir skötuhjúum Landverndar, höfundum greinarinnar:

"Aðgerðaleysi heimsins, ófullnægjandi aðgerðir og sýndarmennska er glæpur gegn mannkyninu; komandi kynslóðum, börnum og barnabörnum.  Það er því ekki valkostur.  Afstaða forystu hins öfluga ríkis, Bandaríkjanna, til aðgerða gegn hamfarahlýnun er óviðunandi, stórhættuleg og má líkja við alvarlega stríðsglæpi.  Ráðamenn þjóðarinnar þurfa að segja það hátt og skýrt, þegar tækifæri gefst."

Hér eru höfð uppi stóryrði, sem benda til, að til séu að verða trúarbrögð, svo að rökræður séu harla marklitlar um loftslagsmál.  Ennfremur er búið að búa til þann "illa sjálfan", eins og trúarbragða er háttur, en það eru stjórnvöld í Bandaríkjunum.  Skiptir þá engu máli, þótt Bandaríkjamenn hafi náð meiri árangri en Evrópumenn við að draga úr losun mengandi efna, hvers konar.  Ofstæki af þessu tagi, sem formaður og varaformaður Landverndar gera sig sek um, verður ekki málstað Íslands sem boðbera sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda til framdráttar.  Landvernd hefur hér opinberað sig sem sértrúarhóp.   

Að lokum skal tína til annað, að sumu leyti skárra:

"Kolefnishlutleysi er raunhæft markmið, þar sem þjóðin býr yfir tækni, þekkingu og auðlegð, til að ná því marki.  Raunverulegur vilji og víðtæk samstaða er það, sem skortir."

Þetta eru innantómir frasar.  Að ræða um markmið án tímasetningar er markleysa.  Það er ekki hægt að ætlast til þess, að "vilji og víðtæk samstaða" verði fyrir hendi, nema raunhæf aðgerðaráætlun verði samin. Það er t.d. ljóst, að til þess að leysa fljótandi og gaskennt jarðefnaeldsneyti af hólmi á Íslandi, þarf heilmikið af nýjum virkjunum, og auðvitað þarf bæði loftlínur og jarðstrengi til að flytja orkuna til notenda.  Á móti öllu þessu hefur Landvernd barizt hatrammlega.  Þess vegna eru fleðulæti Landverndar gagnvart loftslagsvánni ótrúverðug.  

Þann 28. september 2019 birtist í Morgunblaðinu greinin "Hamfarakólnun" eftir Richard Þorlák Úlfarsson, verkfræðing.  Þar var ekki um sefasýkislega spádóma að ræða um "stjórnlausa hlýnun" jarðar á grundvelli hækkunar koltvíildisstyrks í andrúmslofti úr 0,03% í 0,04 % nú og hugsanlega 0,05 % síðar á öldinni.  Enginn neitar þó tilvist áhrifa CO2 sem gróðurhúsalofttegundar, en áhrifin eru reyndar aðallega þau að auka styrk vatnsgufu í andrúmsloftinu, sem er sterk gróðurhúsalofttegund.  

Richard Þorlákur bendir á, að hitafar jarðar mestalla jarðsöguna er þekkt.  Þar hafa skipzt á löng kuldaskeið og stutt hlýindaskeið með hitasveiflu frá lágmarki til hámarks a.m.k. 12°C.  Í því ljósi er 1°C hækkun frá "Litlu ísöld" fyrir iðnvæðingu lítil, og á jörðunni hefur á s.l. 10 þúsund árum verið mun hlýrra.  Nú erum við stödd nálægt lokum hlýindaskeiðs, svo að dálítil gróðurhúsaáhrif geta ekki skipt sköpum fyrir jörðina, þótt hlýnun af þeirra völdum geti haft mikil áhrif á mannkynið, sem hefur fjölgað sér margfaldlega frá iðnvæðingu.  Fyrri hlýindaskeið hafa orðið enn hlýrri en núverandi meðalhitastig andrúmslofts við jörðu.  Gefum Richard Þorláki orðið:

"Mannskepnan stjórnar hvorki veðurfari né Móður Jörð. Jörðin er um 4500 milljón ára gömul, og það eru til gögn um veðurfar á jörðinni allan þennan tíma.  Þess vegna er auðvelt að sjá einkenni veðurfars á jörðinni.  Ískjarnamælingar sýna, að hitastig á jörðinni toppar á um 100 þúsund ára fresti.  ....

Það, sem er einkennandi við þessi kulda- og hlýindaskeið, er, að eftir um það bil 100 þúsund ára kuldaskeið kemur hlýindaskeið í aðeins 10-20 þúsund ár. ... 

Myndin sýnir glögglega, að vandamál framtíðarinnar er ekki of mikill hiti, heldur of mikill kuldi.  Eftir nokkur þúsund ár verður hitastig jarðar um 6 gráðum lægra að meðaltali en það er í dag og jörðin að miklu leyti þakin ís.  Verði ekkert að gert, má gera ráð fyrir því, að stór hluti alls lífs á jörðinni þurrkist út.  Það er því þörf á snilli mannskepnunnar til þess að hindra þessar hörmungar." 

Richard Þorlákur leggur þarna staðreyndir fortíðar á borðið um gríðarlegar, +/- 6°C, lotukenndar hitastigssveiflur á jörðinni, sem útilokað er, að örlítill styrkur koltvíildis hafi marktæk áhrif á, jafnvel þótt um mikla hlutfallslega aukningu á þessari gastegund sé að ræða.  Það er ekkert, sem bendir til annars en þessi lotukennda sveifla haldi áfram, og að jarðarinnar bíði fremur langvarandi fimbulkuldaskeið en langvarandi áframhaldandi hlýindaskeið, og enn er loftslagið raunverulega aðeins á leiðinni upp úr ástandi "Litlu ísaldar".  

Stóra viðfangsefnið verður að fást við fimbulkulda, sem eirir engum nútíma innviðum.  Engu að síður er til skamms og lengri tíma brýnt vegna mikillar mengunar andrúmsloftsins að losna við bruna jarðefnaeldsneytis, og orkuskiptin munu hafa góð áhrif á hagkerfi Íslands, t.d. styrkja viðskiptajöfnuðinn.  Orkuskiptin eru jákvæð, en þau krefjast auðvitað aukinnar nýtingar náttúruauðlinda landsmanna.  Staðan er nánast einstök að því leyti, að með núverandi tækni er hægt að útvega næga orku, raforku og jurtaolíu, t.d. úr repju, auk eldsneytis úr sorpi, skólpi og frá landbúnaði, til að knýja allan íslenzkan búnað á láði, á legi og í lofti.

 

 


Af fylgisflótta og dusilmennum

Síðla septembermánaðar 2019 birtist skoðanakönnun MMR, sem ekki getur hafa verið uppörvandi fyrir stjórnarflokkana né fyrir ríkisstjórnina, sízt af öllu stærsta stjórnarflokkinn, sem mældist í sínu sögulega lágmarki slíkra fylgismælinga.  Á því eru auðvitað skýringar, og minntist höfundur Reykjavíkurbréfs á þær 20.09.2019:

"Og svo er hitt augljóst, að eftir því sem flokkur verður ótrúverðugri sjálfum sér og tryggustu kjósendum sínum, gengur sífellt verr að ganga að þeim vísum.  Það lögmál er einnig þekkt úr öðrum samböndum."

Þegar kjósendum stjórnmálaflokks finnst í hrönnum, að hann hafi svikið grunngildi sín og hundsað mikilvæg atriði í síðustu Landsfundarsamþykkt sinni, þá er voðinn vís fyrir framtíð flokksins, og hann getur þá breytzt úr breiðum og víðsýnum fjöldaflokki í sértrúarsöfnuð sérhagsmuna.  Hver vill það ?  Hvers vegna gerist það ? Mun annar stjórnmálaflokkur geta tekið við sem kjölfesta borgaralegra afla í landinu ?

Síðan skrifaði bréfritariinn:

"Villtir leiðsögumenn eru vandræðagemlingar", 

í samhengi við dóm Mannréttindadómstóls Evrópu um skipun fyrstu dómaranna í Landsdóm.  Furðu sætti vandræðagangur bráðabirgða dómsmálaráðherrans í því máli, hvort vísa ætti úrskurði Neðri deildar til Efri deildar dómsins, þótt Ísland sé ekki bundið að þjóðarétti að hlíta dómnum, heldur dómi Hæstaréttar Íslands, sem dæmt hafði þá þegar skipun að hálfu dómsmálaráðherrans þar á undan (S. Andersen) í dómaraembætti Landsréttar lögmæta með "áferðargöllum" þó. 

Bráðabirgðadómsmálaráðherrann gerði þess vegna allt of mikið með dóm Mannréttindadómstólsins, sem auk þess orkar mjög tvímælis sjálfur.  Það má heimfæra eftirfarandi orð ritara Reykjavíkurbréfs upp á málatilbúnað sama ráðherra í OP#3 ferlinu líka:

"Til eru þeir lögfræðingar, og það jafnvel í hópi þeirra, sem trúað er fyrir að kenna nýliðum fræðin, sem telja sig mega horfa framhjá grundvallaratriðum eins og því, hvort samningar, sem gerðir hafa verið fyrir landsins hönd, séu bindandi fyrir það eða ekki.  Þegar samþykkt er, að landið skuli eiga þátttöku í samstarfi með hópi annarra ríkja, með því fortakslausa skilyrði, að niðurstöður hins yfirþjóðlega valds séu ekki bindandi fyrir það, er það grundvallaratriði, en ekki hortittur. Viðkomandi stofnun, t.d. Mannréttindadómstóllinn, samþykkti þá þátttöku Íslands, og þar með samþykkti hann skilyrðið."

Þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn í janúar 1993 var það vitandi um ákvæði samningsins um, að það gæti og mætti synja samþykktum Sameiginlegu EES-nefndarinnar samþykkis og þyrfti ekki að tilfæra neina sérstaka skýringu á því.  Nú segja ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hins vegar við þing og þjóð, að þetta ákvæði sé ónothæft, því að það setji EES-samstarfið á hliðina.  Þessi túlkun hefur enn ekki verið útskýrð með viðunandi hætti fyrir þjóðinni, og á meðan verður að líta svo á, að lögmæti EES-samningsins á Íslandi, og reyndar einnig í Noregi, hangi í lausu lofti.  Strangt tekið þýðir þetta, að löggjafarvaldi íslenzka ríkisins hafi verið úthýst úr Alþingishúsinu við Austurvöll og til þess húsnæðis í Brüssel, þar sem Sameiginlega EES-nefndin er til húsa.  Þessi staða er óviðunandi, og staða stjórnarflokkanna getur þar með varla styrkzt að óbreyttu.

"Óframbærileg og niðurlægjandi afstaða íslenzku ríkisstjórnarinnar í svokölluðu orkupakkamáli er sama eðlis.  Augljóst er, að látið hefur verið undan hótunum, sem hvergi hefur þó verið upplýst um, hvaðan komu.  Ríkisstjórnin sjálf viðurkenndi í raun, að hún lyppaðist niður fyrir hótunum um, að gerði hún það ekki, væri EES-samningurinn úr sögunni.  Ekkert í samningnum sjálfum ýtti þó undir þá niðurstöðu !

En vandinn er sá, að þar sem þessi dusilmennska náði fram að ganga, er stjórnskipulegur tilveruréttur EES-samningsins að engu gerður.  Þeir, sem fyrstir allra misstu fótanna í þessu máli, eru augljóslega algerlega vanhæfir til að leggja trúverðugt mat á stöðu EES-samningsins.  Og breytir engu, þótt þeir hafi nú verið í heilt ár hjá Guðlaugi Þór við að bera í bætifláka fyrir málatilbúnað hans."

Sjaldan hefur ein ríkisstjórn og eitt handbendi hennar fengið svo hraklega útreið í ritstjórnargrein Morgunblaðsins eins og getur að líta hér að ofan.  Dusilmenni verður þar með grafskrift ríkisstjórnarinnar að óbreyttu, og stöðuskýrsla Björns Bjarnasonar og tveggja annarra lögfræðinga um EES-samninginn er algerlega ómarktækt plagg, af því að téður Björn hefur gert sig gjörsamlega vanhæfan til verksins með því að missa fótanna fljótlega í umræðunni um Orkupakka 3, og stunda þar að auki ómerkilegan og rætinn málflutning í anda fyrrum andstæðings síns í prófkjöri, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra.  Fyrir vikið er umrædd stöðuskýrsla dæmd til að lenda á öskuhaugum sögunnar, og umræddur Björn hefur í þessum atgangi misst allan trúverðugleika.

Þess má geta, að í ágúst 2019 kom út í Noregi skýrsla Menon Economics: "Norge, EÖS og alternative tilknytningsformer".  Menon Economics er rannsóknar-, greiningar- og ráðgjafarfyrirtæki í skurðpunkti rekstrarhagfræði, þjóðhagfræði og atvinnustefnumótunar, virt fyrirtæki, sem t.d. var valið ráðgjafarfyrirtæki ársins í Noregi 2015.  Skýrslan er hnitmiðað 45 blaðsíðna rit, margfalt verðmætara og gagnlegra fyrir Íslendinga en skýrsla íslenzku lögfræðinganna þriggja á 301 bls., enda er í norsku skýrslunni fjallað hlutlægt um valkostina við EES-samninginn, sem vissulega eru fyrir hendi og eiga við um öll EFTA-ríkin.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að áhöld eru um það, hvort OP#3 standist Stjórnarskrá.  Í fjarveru stjórnlagadómstóls á Íslandi verður hægt að láta reyna á gjörðir Landsreglarans fyrir dómstólum og ekki ólíklegt, að það verði gert, þegar íþyngjandi ákvarðanir hans birtast almenningi. 

Það er þó mjög íhugandi í ljósi kæruleysislegrar umgengni margra Alþingismanna við Stjórnarskrána (að láta hana ekki njóta vafans) að fela Hæstarétti jafnframt núverandi skyldum sínum hlutverk stjórnlagadómstóls.  Þá gætu þingmenn skotið málum þangað á undan afgreiðslu máls, forseti lýðveldisins fyrir lagastaðfestingu sína og borgararnir eftir staðfestingu laga.  Höfundur sama Reykjavíkurbréfs velti þessu fyrir sér:

"Nú hefur dómstólaskipunin breytzt, og álagið á Hæstarétt er orðið skaplegt, og gæti hann því auðveldlega tekið að sér hlutverk stjórnlagadómstóls, sem væri að marki víðtækara en það, sem rétturinn hefur sinnt fram til þessa.  Því væri hægt að gera aðgengi að því að fá slíkum spurningum svarað opnara en það er nú, þótt ekki sé verið að mæla með glannalegheitum í þeim efnum."

Það er þörf á formlegra hlutverki Hæstaréttar, þegar kemur að því að úrskurða um stjórnlagalega stöðu lagafrumvarpa og laga.  Slíkt yrði til þess fallið að skera úr stjórnlagalegri óvissu.  Skemmst er að minnast bosmamikillar umræðu mestallt þetta ár um OP#3, sem að talsverðu leyti snerist um það, hvort innleiðing OP#3, eins og ríkisstjórnin kaus að standa að henni, væri brot á Stjórnarskrá eður ei.  Sama umræða mun örugglega koma upp, þegar OP#4 verður til umræðu, og jafnvel einstaka gerðir ESB, sem koma frá Sameiginlegu EES-nefndinni þangað til, og þá yrði mikill léttir að því að geta skotið álitamálinu til Hæstaréttar, jafnvel áður en það fer fyrir Sameiginlegu EES-nefndina. 

 

 

 


Hvað er Orkusamband Evrópu ?

Einn stjórnarþingmaður hélt því fram í þingumræðu um OP#3 í lok ágúst 2019, að Orkusamband Evrópu væri ekki til. Það er sjálfsblekking á háu stigi, því að Orkusamband Evrópu er að verða meginstjórntæki Evrópusambandsins (ESB) til að fást við loftslagsvandann að sinni hálfu og til að gera ESB-löndin óháð eldsneytisaðdráttum í framtíðinni. 

Rússar hafa skapað sér svo sterka stöðu sem orkubirgjar fyrir ESB, að Sambandið á bágt með að beita sér á hinum pólitíska vettvangi gegn Rússlandi, þótt það telji mikla þörf á því, svo að ekki sé talað um það, ef slær í brýnu á milli NATO og Rússlands.  Þá verður Evrópa strax lömuð af orkuskorti m.v. núverandi hlut jarðefnaeldsneytis frá Rússlandi og löndum hliðhollum þeim. 

Þess vegna er forgangsmál hjá ESB að uppfylla Parísarsamkomulagið.  Það er áfangi á vegferðinni til sjálfbærrar orkunýtingar í ESB og á Íslandi. Lokatakmarkið er báðum í hag, Íslandi og ESB, en áfangarnir á leiðinni ekki endilega.  Þess vegna er hið gríðarlega ójafnræði aðilanna í EES-samstarfinu áhyggjuefni.  ESB skrifar allar reglurnar og samkvæmt utanríkisráðherra og taglhnýtingum hans er úti um EES-samninginn, ef eitthvert EFTA-land hafnar þessari löggjöf. Sú staða er óviðunandi, enda skrumskæling á raunveruleikanum.  Málið er, að ráðuneytin þurfa að vinna heimavinnuna og gera athugasemdir við málefni, sem Framkvæmdastjórnin hefur merkt EES, áður en þau eru lögð fyrir Sameiginlegu EES-nefndina.  Ráðuneytin sofa hins vegar á verðinum, eins og dæmin sanna.

Íslendingar eru nánast með lausnirnar í hendi sér til að fullnusta orkuskiptin, a.m.k. í miklu betri stöðu en ESB, ef þeir spila rétt úr gjöfinni, sem þeir hafa fengið.  Það er alls ekki vitað með hvaða hætti orkuskipti Evrópusambandsins munu fara fram, og þar á bæ mun ekki takast að ná losunarmarkmiði og markmiði um hlutdeild endurnýjanlegrar orku ársins 2020. Það er reyndar undir hælinn lagt með þessi markmið hérlendis líka, en Þjóðverjar eru í mun betri aðstöðu en Íslendingar að þessu leyti, því að viðmiðurárið, 1990, endursameiningarár Þýzkalands, er þeim "hagfellt" vegna mikillar losunar í DDR-Deutsche Demokratische Republik, sem fljótlega í kjölfar endursameiningar var bundinn endi á, en Íslendingar voru nýbúnir að leysa olíukyndingu húsnæðis af hólmi að miklu leyti með hitaveituvæðingu, fjarvarmaveitum og rafhitun.  

Með innleiðingu OP#3 varð Ísland aðili að Orkusambandi Evrópu.  Þannig er búið að rígnegla Ísland á stjaka Evrópusambandsins. Við erum skuldbundin til að styðja stefnu Orkusambands Evrópu, þótt ósannað sé, að hún verði okkur hagfelld, t.d. beinn útflutningur rafmagns.

Hlutdeild Íslands í Orkusambandinu stafar af aðild (án atkvæðisréttar) Landsreglarans (forstjóra Orkustofnunar) að tæknilegri stjórn ACER-Orkustofnunar ESB, sem gegnir eftirlitshlutverki með öllu orkutengdu regluverki ESB og hefur talsverð og vaxandi völd til gagnaðgerða, þótt oft sé aðeins send skrifleg tilkynning um frávik til Framkvæmdastjórnarinnar, sem er hinn raunverulegi valdhafi Orkusambandsins. Það getur orðið erfitt að búa á hjáleigu stórbýlisins, ef höfðinginn telur sig eiga hönk upp í bakið á kotbóndanum.   

Hlutverk Orkusambandsins er fimmþætt:

  1.  Að tryggja orkuöryggi, samstöðu aðildarríkjanna (EES) um orkumálin, og traust á milli þeirra. - Orkuöryggi á Íslandi verður bezt tryggt með varaforða í miðlunarlónum síðvetrar, nægu uppsettu afli til að mæta toppálagi, þótt stærsta eining kerfisins bili, og öflugu flutnings- og dreifikerfi. Með tengingu landsins við Innri markað EES, fær ESB töglin og hagldirnar varðandi orkuöryggið, og það er ekki góðs viti.
  2.  Að tryggja að fullu samvirkni á Innri orkumarkaði EES með frjálsu og tæknilega óhindruðu orkuflæði, hvaðan sem er og til allra staða innan EES. - Þetta kallar á 2 aflsæstrengi til Íslands, svo að tenging við Innri markað meginlandsins sé jafnan virk. Flutningsgeta hvors um sig verður sennilega aðeins um 600 MW af tæknilegum ástæðum. Að rjúfa þannig rafmagnslega einangrun Íslands mun fyrirsjáanlega hafa slæm áhrif á hagkerfið vegna óhjákvæmilgra  raforkuverðhækkana, sem draga úr samkeppnismætti atvinnulífsins og rýra lífskjörin. Engin almennileg greining hefur farið fram hérlendis á efnahagslegum og umhverfislegum afleiðingum sæstrengstenginga við útlönd, en sterkar vísbendingar eru um, að hvorar um sig verði mjög alvarlegar.    
  3. Að draga úr orkuþörf á hvern íbúa með bættri orkunýtni og minni orkutöpum. - Hér bjátar mest á í flutningskerfinu, þar sem 132 kV Byggðalína er allt of veik fyrir það álag, sem nú er á kerfinu  og bíður eftir að koma.  220 kV sunnan frá Brennimel í Borgarfirði og austur að Hryggstekk í Skriðdal er bráð nauðsyn í þessu sambandi. Einnig má nefna brýna spennuhækkun á Vestfjörðum og víðar til að auka flutningsgetu og draga úr töpum. 
  4. Að EES verði kolefnishlutlaust árið 2050 og skuli með öllum tiltækum ráðum standa við losunarskuldbindingar sínar árið 2030 (40 % minnkun m.v. 1990). - Í ljósi þess, að enn fer losunin vaxandi í Orkusambandinu, einnig á Íslandi, verður þetta erfitt markmið, en þó sennilega framkvæmanlegt á Íslandi, ef taka má bindingu kolefnis með í reikninginn, eins og nú stefnir í. Þá þarf hið opinbera að styrkja nýsköpun á sviði eldsneytisframleiðslu, t.d. repjuolíu. 
  5. Að efla rannsóknir, nýsköpun og samkeppnishæfni innan EES til að styrkja stoðir kolefnislausrar og hreinnar orkutækni til að hraða orkuskiptum eftir föngum. - Þróun og olíuvinnsla úr repju er mjög áhugaverður kostur fyrir Íslendinga, því að það verður hægt að gjörnýta repjuna innanlands með fóðurframleiðslu. Annað áhugavert svið er metan- og metanólvinnsla.    
Stjórntæki Orkusambandsins er viðamikil áætlanagerð til 10 ára um orku- og loftslagsaðgerðir og stöðluð skýrsluform um framvindu í hverju landi.  Skýrsluform og innihald eru skilgreind í tilskipunum og reglugerðum, og ACER hefur eftirlit með öllu saman, safnar saman gögnum og vinnur úr þeim.  ACER fylgist líka náið með, að reglur frjálsrar samkeppni séu virtar og þar með, að ríkisvaldið skipti sér ekki af þessum markaði með inngripum, sem skekkja samkeppnisstöðu og styðja ekki við stefnu Orkusambandsins hér að ofan.  ESB hefur hannað markaðsstýringu raforkuvinnslunnar til að tryggja frjálsa verðmyndun, en stundar þó jafnframt bullandi framleiðslustýringu með niðurgreiðslum á raforku frá vindmyllum og sólarhlöðum ásamt koltvíildisskatti. 
Það verður því ekki um að ræða neina séríslenzka útfærslu á OP#3 né OP#4, og hætt er við, að Alþingismönnum bregði mörgum hverjum í brún, þegar þeir sjá afleiðingar gjörða sinna í verki. Þá mun eiga við orðtakið, að of seint er að iðrast synda sinna eftir dauðann.
 
Nokkrar tilskipanir og reglugerðir hafa verið gefnar út auk 2018/1999 til að stjórna Orkusambandinu, t.d. tilskipun 2018/2001, sem aðildarlöndin eiga að lögleiða hvert um sig fyrir 30.06.2021 og eru hluti af "Hreinorkupakkanum". Hún felur í sér bindandi markmið um hlutdeild endurnýjanlegrar orku af heild 32 % árið 2030. Augljóslega mun verða þrýstingur á alla aðila Orkusambandsins um að sýna samstöðu til að ná þessu marki.  Engum mun líðast að liggja eins og ormur á gulli á ónýttum, endurnýjanlegum orkulindum eða að hamla því, að þær nýtist öðrum.  Orkusambandið felur í sér gagnkvæmar skuldbindingar aðildarþjóðanna, sem verða að fórna staðbundnum hagsmunum sínum, t.d. náttúruperlum, á altari baráttunnar gegn hlýnun jarðar yfir 1,5°C-2,0°C m.v. "Litlu ísöld", þótt hún líklega sé fyrirfram töpuð, af því að sínum augum lítur hver á Parísarsamkomulagið og enn eykst losunin, þó ekki í Bandaríkjunum.
 
Með tilskipun 2009/28/EB hafði ESB-ríkjunum 28 verið sett markmið um 20 % hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda árið 2020, en nú er ljóst, að 16 lönd eða 57 % munu ekki ná þessu markmiði, og í heild mun það ekki nást. Af hinum stærri ríkjum ESB eru það aðeins Frakkland og Spánn, sem ná munu þessu markmiði. Það mun þess vegna þurfa meiri háttar efnahagslegt og pólitískt átak innan Orkusambands Evrópu til að ná markmiðinu 2030, og reynt verður að virkja og fullnýta allar endurnýjanlegar orkulindir, sem Orkusambandið ræður yfir. 
Tilskipun 2018/2001 er sniðin að þessu.  Samkvæmt þessari tilskipun á að koma upp vettvangi fyrir ríki, sem náð hafa árangri yfir markmiði til að selja hinum lakar settu hlutdeild í árangri sínum. Þetta mun væntanlega herða enn meir á og bæta heildarárangur. 
 
Í tilskipun 2018/2001 er að finna upptalningu á viðurkenndum tegundum endurnýjanlegrar orku.  Þær eru 11:
vindur, sól, jarðhiti, umhverfishiti (fyrir varmadælur), sjávarföll, öldur, vatnsföll, lífmassi, gas frá urðun, gas frá skólphreinsun og almennt lífrænt gas.  Síðan kemur skuldbindandi krafa á aðildarríkin: þau skulu tryggja, að allar reglur (þar með taldar reglur um staðbundna umhverfisvernd og skipulag) varðandi orkustöðvar og tengd mannvirki fyrir flutning og dreifingu orku fyrir upphitun eða kælingu, framleiðslu lífræns eldsneytis eða annars konar orku og fyrir vinnslu eldsneytis af óendurnýjanlegum uppruna til flutninga séu hæfilegar og nauðsynlegar og fullnægi jafnframt skilyrðinu um að setja orkunýtni í forgang.
 
Það verður eftirlitsaðilans, ACER, að ákveða, hvað eru hæfilegar og nauðsynlegar reglur.  
Fleiri reglur má tilfæra úr hreinorkupakkanum, sem eru skuldbindandi fyrir ríki Orkusambandsins og draga að sama skapi úr völdum staðbundinna yfirvalda.
 
Orkunýtni á öllum sviðum er mjög mikið keppikefli Orkusambands Evrópu.  Það vísar til lágmörkunar orkutapa í raforkuvinnslu, flutningi, dreifingu og í notendabúnaði. 
Á Íslandi eru flutnings- og dreifikerfin í mörgum tilvikum of veikburða til að fullnægja kröfum Orkusambandsins um skilvirkni, og hluti kerfanna hreinlega oflestaður og annar ekki flutningsþörfinni.  Þetta samræmist engan veginn aðild að Orkusambandinu, og Landsreglarinn mun örugglega leggja áherzlu á, að enginn dragi lappirnar eða leggi stein í götu úrbóta á þessu sviði.  Tilskipun 2018/2002 setur aðildarþjóðunum markmið um að minnka orkutöpin um 20 % árið 2020 og 32,5 % árið 2030 miðað við viðmiðunarárið (1990).  Þetta kallar á miklar fjárfestingar í innviðum, ekki síður en óskilvirkt gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins.
 
Áhættugreiningar eru mikilvægar til að unnt sé að semja markvissar viðbúnaðar áætlanir og fara í mótvægisaðgerðir.  Reglugerð 2019/941 fjallar um þetta, og að ríkin í Orkusambandinu sýni samstöðu, ef orkuskortur verður, til að lágmarka tjónið.  Ef til Íslands verður lagður sæstrengur, er mikil áhætta fólgin í að reiða sig á einn sæstreng til að bæta upp lága vatnsstöðu í miðlunarlónum. Þótt tveir verði og flutningsgetan verði 1200 MW, hrekkur hún ekki til að fullnægja þörfinni með tóm miðlunarlón.
  Markaðsstýring raforkuvinnslunnar með sæstrengstengingu kallar á nýjar lausnir til að varðveita orkuöryggið í landinu.
 
Reglugerð 2019/942 fjallar um ACER.  Meginhlutverk þessarar samstarfsstofnunar landsreglara er að tryggja frjálst flæði orku yfir landamæri og að ná markmiðum Orkusambandsins á hverjum tíma um orkuflutninga yfir landamæri.  
 
Reglugerð 2019/943 fjallar um reglur Innri markaðarins fyrir rafmagn, og hvernig hann á að hjálpa til við að ná losunarmarkmiðum og markmiðum um hlutdeild endurnýjanlegrar orku af heild.
 
Rafmagnstilskipun 2019/944 kveður m.a. á um, að innlend löggjöf megi ekki hindra framgang stefnu ESB. Tekið er fram í gr. 3, að ekki megi hindra raforkuviðskipti yfir landamæri. Þetta er mjög varasamt að innleiða hérlendis, því að það þýðir, að innlend yfirvöld mega ekki hægja á útflutningi raforku, þótt mjög lækki í lónum.  Í sömu grein er hamrað á, að ekki megi koma í veg fyrir millilandatengingar fyrir raforku, sem fjárfestar hafa lýst áhuga á og landsreglarar beggja enda samþykkt.
 
Samkvæmt gr. 58 ber landsreglara að fjarlægja hindranir í vegi nýrra verkefna við nýtingu endurnýjanlegra orkulinda.  Hérlendis getur þetta þýtt, að Landsreglarinn þrýsti á um færslu virkjanakosta úr biðflokki yfir í nýtingarflokk og kæri óeðlilegar tafir við veitingu framkvæmdaleyfis út af flutningslínum, svo að dæmi séu tekin.  Það er augljóst, að verði "Hreinorkupakki" Orkusambands Evrópu innleiddur hér, þá verður það ávísun á ófrið, sem ella yrði ekki efnt til.  Er það umhugsunarvert í ljósi atburða 13. aldarinnar, þegar erlent vald tók að ráðskast með hag landsmanna.
 
Kanna þarf samstöðugrundvöll með Norðmönnum um undanþágur við OP#4.  Ef hann næst ekki, þarf utanríkisráðuneytið að koma kröfum sínum um undanþágur á framfæri við ESB og EFTA áður en OP#4 verður tekinn til umfjöllunar í Sameiginlegu EES-nefndinni.    
 
   
 
 
 
 
 

 

 


Orkusambandið og loftslagsstefnan

Þegar hlýtt er á fyrirlestur sérfræðings í hinum flóknu loftslagsvísindum, prófessors Richards Lindzen, við hinn sögufræga tækniháskóla í Bandaríkjunum, MIT:

www.agust.net/wordpress/2018/12/03/professor-richard-lindzen-loftslagsfraedingur-og-samfelagsvandamalid-miklawww.agust.net/wordpress/2018/12/03/professor-richard-lindzen-loftslagsfraedingur-og-samfelagsvandamalid-miklawww.agust.net/wordpress/2018/12/03/professor-richard-lindzen-loftslagsfraedingur-og-samfelagsvandamalid-mikla

, þá er ekki hægt að verjast þeirri hugsun, að viðbrögð samtímans við "loftslagsvánni" einkennist af "hjarðhegðun". 

Þegar litið er til þeirra gríðarmörgu, öflugu þátta, sem áhrif hafa á tilviljanakennda hegðun loftslags jarðar, væri með ólíkindum, ef hækkun á einni breytu, koltvíildisstyrk andrúmslofts, úr 0,03 % í 0,04 % (núverandi) eða jafnvel 0,05 % síðar á þessari öld, gæti framkallað "hamfarahlýnun". Í þessu sambandi ber að hafa í huga, að lofthjúpur jarðar hefur hitnað um 1°C frá "Litlu ísöld", og þótt hitastigsaukningin yrði 2°C, er það alls ekki fordæmalaust og þarf ekki að leita lengra aftur en til landnáms Íslands til að finna viðlíka hitastig.

Líkan IPCC hefur haft tilhneigingu til að spá hærra hitastigi á jörðu en raungerzt hefur.  Hins vegar verður að hafa í huga, að hafið hefur tekið upp hluta losaðs koltvíildis út í andrúmsloftið af mannavöldum og varmaaukninguna líka.  Hvernig þróunin verður í þessum efnum, veit hins vegar enginn. 

Að þessu skrifuðu er rétt að taka fram, að blekbónda er ljóst, að núverandi orkunotkun heimsins er ósjálfbær.  Bæði eru olíubirgðir heimsins takmarkaðar, þær eru að talsverðu leyti staðsettar á pólitískum óróasvæðum, þar sem m.a. trúarbrögð tröllríða pólitíkinni, og bruni jarðefnaeldsneytis orsakar mengun, sem veldur skaðlegu andrúmslofti fyrir fólk, dýr og jurtir, einkum í þéttbýli.  Þess vegna er blekbóndi sammála þeirri stefnu að gera gangskör að orkuskiptum.

Ef Parísarsáttmálinn frá 2015 gengur eftir, munu loftgæði fljótlega skána, en það eru litlar líkur á því, sumir segja engar líkur á því; meira að segja ESB virðist munu mistakast það, þrátt fyrir öflugt stjórnkerfi sitt, Orkusamband Evrópu, sem á að sjá um að ná markmiðunum fyrir EES. 

Íslendingar eru mun betur í stakkinn búnir til orkuskiptanna með ónýttar endurnýjanlegar orkulindir sínar, jarðhita, vatnsföll og vindasamt veðurfar.  Sjávarföll og hafstraumar koma síðar til greina.  Ef að auki á að flytja út raforku um sæstreng, mun mörgum kotbóndanum þykja fara að þrengjast fyrir dyrum sínum, og þá má búast við hörðum deilum í landinu.  OP#3 er sáðkorn harðra deilna, og OP#4 er verri, horft frá sjónarhóli íslenzkra heildarhagsmuna (staðbundin umhverfisvernd og orkuvinnsla).  

Orkuskiptin munu styrkja viðskiptajöfnuðinn, sem aftur styður við sterkan gjaldmiðil, eins og nú er reyndin.  Sterk ISK er undirstaða góðra lífskjara í landinu í samanburði við aðrar þjóðir. 

Flestar aðrar þjóðir eiga mun erfiðara uppdráttar við framkvæmd orkuskiptanna, en sumar þeirra hafa þó metnaðarfull áform á prjónunum. Taka má dæmi af Evrópusambandinu (ESB), af því að EFTA-þjóðir EES-samningsins (ekki Svisslendingar) eru í samkrulli við ESB um úthlutun losunarheimilda koltvíildis til alþjóðlegra greina á borð við flug, millilandaskip og orkukræfa stóriðju.  

Þar (í ESB) hefur verið sett háleitt markmið fyrir orkugeirann um, að árið 2030 verði losun CO2 40 % minni en árið 1990 og að orkunotkun úr endurnýjanlegum orkulindum nemi þá 27 % af heildarorkunotkun.  Til samanburðar nam þetta hlutfall af heildarorkunotkun í ESB um 12 % árið 2005 og markmiðið er að meðaltali um 21 % árið 2020, er lægst 10 % á Möltu og hæst 49 % í Svíþjóð. Á Íslandi nemur sambærileg tala um 70 %.  

Til að knýja á um að ná markmiðum í loftslagsmálum hefur ESB gefið út Orkupakka 4 (OP#4), sem færir leyfisveitingum varðandi nýtingu endurnýjanlegra orkulinda mikinn forgang í öllu stjórnkerfinu, og hefur jafnframt stofnað til Orkusambands Evrópu (European Energy Union).  Orkusambandið er samfélag þeirra aðila í Evrópu, sem semja reglugerðir og tilskipanir um orkumál og hafa síðan eftirlit með framkvæmdinni.  Hlutverk Orkusambandsins er að uppfylla Parísarsamkomulagið frá desember 2015, eins og það snýr að orkugeiranum.  Framkvæmdastjórn ESB stjórnar Orkusambandinu með tilskipunum og reglugerðum, og nýtur við það liðsinnis tveggja vinnuhópa, sem skilgreindir eru í reglugerð 182/2011, Loftslagsbreytinganefndar og Orkusambandsnefndar.

Reglugerð ESB nr 2018/1999 frá 24.12.2018 fjallar um starfsemi Orkusambandsins.  Hún er hluti OP#4-"Hreinorkupakkanum".  Þar er grunnur lagður að því, hvernig aðildarlöndin og ESB eiga að ná loftslagsmarkmiðum ESB 2030.  Íslenzki Landsreglarinn er aðili að ACER og þar með fulltrúi Íslands í Orkusambandi Evrópu.  Í 2018/1999 er m.a. kveðið á um, að orkuflutningar á milli landa innan Orkusambandsins skuli vaxa um 50 % frá 2020-2030. 

Fer einhver lengur í grafgötur um, að Ísland verður ekki "stikk-frí" á næsta áratugi, hvað þetta varðar ?  Sú tenging verður ekki eina fjárfestingin, heldur mun verða fjárfest mikið í endurnýjanlegum orkulindum Íslands, ef ESB meinar eitthvað með að veita slíkum virkjunum forgang fram yfir annars konar hagsmuni í OP#4, og auðvitað er ESB full alvara.  Það sést í 2018/1999.  

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband