Frá fjölbreytni og skilvirkni til einokunar

Það stendur ekki í stjórnarsáttmálanum að hefja skuli atlögu að því að draga nú hlutfallslega úr þjónustu sérfræðilækna á einkareknum læknastofum og færa þjónustu þeirra ýmist til útlanda eða til ríkisins, enda er engin heilbrigð skynsemi á bak við slíka stefnumörkun; ekki umhyggja fyrir sjúklingum eða skattgreiðendum, heldur einvörðungu forstokkuð og steinrunnin pólitísk hugmyndafræði Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og vinstri sósíalista í öðrum löndum, sem alls staðar hefur gefizt illa.

Hvers vegna fer þá ríkisstjórnin fram með þessum hætti í stærsta málaflokki ríkisins ?  Það er vegna þess, að heilbrigðisráðherrann er vinstri grænn og gerir það, sem henni sýnist, enda er  forsætisráðherrann af sama sauðahúsi. 

Sjálfstæðisflokkurinn verður að gefa skýrt til kynna í komandi kosningabaráttu, að hann vilji berjast fyrir eflingu á starfsemi sjálfstæðra lækna innan heilbrigðiskerfisins, þ.e. að auka hlutfallslega hlutdeild þess þáttar heilbrigðiskerfisins í stað þess að eyða honum, eins og Svandís mundar sig til undir merkjum hamars og sigðar.  Til þess liggja 3 meginástæður:

(1) Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja sjúklingum og starfsfólki í heilbrigðiskerfinu valfrelsi og skapa þannig umgjörð um beztu fáanlegu þjónustu, sem sjúklingum stendur yfirleitt til boða. Þetta er í samræmi við grunnstefnu flokksins.

(2) Efling einkarekstrar felur í sér sparnað fyrir ríkissjóð, því að skilvirkni viðtala og aðgerða er meiri í einkageiranum en hjá hinu opinbera, þ.e. einingarkostnaðurinn er lægri, þótt hagnaður sé af starfseminni, enda fer hann mestmegnis til fjárfestinga í dýrum lækningatækjum. Hvort er betra að veita þjóðhagslega hagkvæma þjónustu með jákvæðri framlegð eða að senda sjúklinga á kvalafulla biðlista ?

(3) Til að tryggja nauðsynlega endurnýjun í læknastéttinni er öflug læknastofustarfsemi nauðsynleg.  Hár meðalaldur þar, um 60 ár, veldur endurnýjunarþörf um 25-30 lækna á ári.  Það verður miklu erfiðara að fá fullnuma sérfræðinga heim, ef þessi hluti heilbrigðiskerfisins verður látinn grotna niður. Afleiðingar dauðrar handar róttæks sósíalisma eru alræmdar.  

Stefán E. Matthíasson, læknir, skrifaði grein í Morgunblaðið 12. apríl 2021, sem hann nefndi:

"Í miðjum heimsfaraldri ...".

Með fyrirsögninni vísar hann til þeirrar ömurlegu staðreyndar, að heilbrigðisráðherra landsins skuli hafa valið tíma heimsfaraldurs til að kasta stríðshanzka kommúnismans að sjálfstætt starfandi læknum.  Skemmdarverk þessa VG-ráðherra á heilbrigðiskerfinu verður að stöðva.  Ráðherrann fer sínu fram í skjóli forsætisráðherra, og aðrir ráðherrar geta ekki stöðvað framferðið, því að atkvæði eru yfirleitt ekki greidd í ríkisstjórn (einskipað stjórnvald).

"Þjónustan hefur byggzt á þrem meginstoðum um langan aldur.  Heilsugæzla, sjúkrahús og sérfræðilæknisþjónusta, sem rekin er af læknum og fyrirtækjum þeirra.  Skipulag, sem nágrannar okkar hafa öfundað okkur af.  Um þetta hefur verið víðtæk sátt.  Undanfarna 2 áratugi hefur sjúkrahúsþjónustan færzt á eina hendi.  Hér voru á höfuðborgarsvæðinu 4 spítalar; í Hafnarfirði, Landakot, Borgarspítali og Landsspítali.  Nú er einn spítali og merki fákeppni á þessum markaði æ ljósari.

Núverandi ríkisstjórn hefur aukið framlög til heilbrigðismála umtalsvert, en undir forystu sitjandi heilbrigðisráðherra hefur þess verið gætt, að þessir fjármunir renni að meginhluta til þjónustu, sem rekin er af opinberum aðilum.  Fyrir nokkrum árum voru heildarframlög til sérfræðilæknisþjónustu um 6-7 % af heilbrigðisútgjöldum, en árið 2019 aðeins 4,7 %, og margt bendir til, að sama tala fyrir 2020 sé 4 %.  Komur til sérfræðilækna eru á pari við komur á  Landsspítala og heilsugæzluna [til samans - innsk. BJo], en að auki eru þar allt að 20 þúsund skurðaðgerðir, þúsundir speglana, myndgreiningarannsókna, blóðrannsókna auk ýmissa annarra."   [Undirstr. BJo.]

Það er auðséð, að ráðherrann beinir viðbótarfénu úr ríkissjóði að langmestu leyti framhjá einkageiranum á sínum hugmyndafræðilegu forsendum, en ekki faglegum.  Með því grefur hún undan stöðu sjúklinga, lækna, heilbrigðiskerfisins og ríkissjóðs, því að auðvitað á ekki að svelta þann bezta, þ.e. þann skilvirkasta, þann, sem fer bezt með fé skattborgaranna.  Þvert á móti mætti gjarna auka hlutdeild einkageirans í 10 %.  Vinnubrögð þessa ráðherra eru óþolandi á öllum sviðum. 

"En svo er það rúsínan í pylsuendanum.  Með tilkynningu ráðherrans fylgir, að hún hafi sent SÍ bréf, þar sem hún feli stofnuninni [Sjúkratryggingum-innsk. BJo] að meta á einhvern ónefndan hátt, hvaða verk sérfræðilækna verði tilvísanaskyld til framtíðar, en að auki að grisja gjaldskrá þeirra og fella brott verk, sem betur væru sett innan "opinberra stofnana"." 

Þetta er ekki einvörðungu aðför að sjálfstæðum sérfræðilæknum, heldur að heilbrigðiskerfinu í heild, því að það sem fært verður til hins opinbera mun týnast þar í hítinni og sjúklingar, sem áður nutu lipurrar og snöggrar þjónustu á læknastofum, munu eftirleiðis lenda á biðlistum hins opinbera, eða því, sem nýjast er til að stytta biðlista, á biðlista eftir að komast á biðlista.  Þetta byltingarkennda framferði heilbrigðisráðherrans er geggjun af verstu sort. 

Þann 15. apríl 2021 birtist viðtal við Dagnýju Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Orkuhússins í Urðarhvarfi undir fyrirsögninni:

"Bitnar á þeim sem sízt skyldi".

Heilbrigðisráðherrann sólundar dýrmætum tíma fólks í helbera vitleysu og breytir heilbrigðiskerfinu að vissu marki í leikhús fáránleikans, þar sem hin kommúnístíska hugmyndafræði hennar svífur yfir vötnunum:

""Það er verið að stilla okkur upp við vegg", segir Dagný, sem lýsir Orkuhúsinu sem rótgrónu fyrirtæki; það hefur verið rekið í 23 ár og hefur um 50 starfsmenn í vinnu.

"Hér er framkvæmdur stærstur hluti allra bæklunaraðgerða á landinu.  Við fáum 20 þúsund heimsóknir ár hvert og gerum 5 þúsund aðgerðir.  Þessi starfsemi er háð því, að samið sé við lækna, og það er ótækt, að menn geti ekki einfaldlega setzt niður og náð samningum.  Mér finnst undarlegt, að stoppa eigi allt kerfið, sem gengið hefur eins og smurð vél í ár og áratugi", segir hún. 

Framkvæmdastjórinn bætir því við, að allt verði gert, til að sjúklingar fái þá þjónustu, sem þeir þurfi á að halda.  Ekki sé mikil sanngirni í því, að ráðherra ætli að stöðva greiðslur til lækna, þótt læknastöðin rukki gjöld til að mæta launahækkunum og gengisbreytingum síðustu ára.

"Þetta bitnar á þeim, sem sízt skyldi.  Sjúklingar hafa vissulega sinn tryggingarétt, en að ætla að gera þeim erfitt fyrir að sækja hann með þessum hætti, sem boðað hefur verið, er mjög skrýtið.""

Þetta viðtal varpar ljósi á dæmalausan heilbrigðisráðherra, sem orðinn er alræmdur fyrir flumbrugang og vanhugsaðar aðgerðir.  Hversu lengi ætlar Alþingi að umbera þennan óhæfa ráðherra ?  Hún er að störfum í umboði þingsins, en rekur stefnu, sem hvorki er getið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá myndun hennar né nýtur bakhjarls frá þingsályktun.  Ráðherrann er umboðslaus, þegar hún rífur niður heilbrigðiskerfið. Forsætisráðherra hefur þó blessað yfir gjörninginn, sem sýnir ólýðræðislegt eðli VG í hnotskurn.  

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, rifjaði upp mistakaferil heilbrigðisráðherrans á þessu kjörtímabili, þótt aðeins væri þar stiklað á stóru í pistli á ritstjórnarsíðu Morgunblaðsins 9. apríl 2021:

"Mistökin eru hennar":

(a) Flutningur liðskiptiaðgerða til útlanda með ærnum tilkostnaði (þreföldun innanlandskostnaðar) og pínu kvalinna sjúklinga í stað þess að leyfa þessar aðgerðir innanlands.  Þetta er stríðsyfirlýsing gagnvart sjúklingum, innlendum læknamiðstöðvum og heilbrigðri skynsemi.

(b) Sýnataka og greining á krabbameini í leghálsi kvenna var færð frá einkaaðila til ríkisins, sem varð að senda sýnin til Danmerkur með aukinni óvissu og töfum fyrir skjólstæðingana.  

(c) Hraksmánarleg stjórnun bóluefnaútvegunar við C-19, þar sem allt traust var sett á búrókrata í Brüssel, sem voru algerir viðvaningar á þessu sviði og reyndust ekkert kunna til verka í samanburði við innkaupafólk brezku ríkisstjórnarinnar, þeirrar ísraelsku o.fl.  Hvers vegna í ósköpunum var ekki reynt að standa í lappirnar og semja upp á eigin spýtur ? 

Eftir að hafa fjallað um þetta, skrifaði Bergþór:

"En heilbrigðisráðherra lét ekki þar staðar numið, heldur bætti um betur nú á dögunum og ákvað, að hneppa skyldi íslenzka ríkisborgara í ólögmætt varðhald við komuna til landsins; fólk, sem aðeins hafði unnið sér það til saka að koma heim til sín erlendis frá.  Allt í nafni sóttvarna - þar sem stjórnarskrárvarin mannréttindi mega sín lítils."

Annan eins heilbrigðisráðherra höfum við aldrei haft og munum vonandi aldrei þurfa að horfa upp á slíka hörmung.  Þetta er lágpunktur í embættisfærslu, hvað sem öfugsnúinni einkunnagjöf viðhlæjandans, forsætisráðherrans, líður.  

Að lokum reit Bergþór:

"Sem betur fer birtir þó sífellt til hér innanlands, þegar litið er á tölur um smit, spítalainnlagnir og annað vegna heimsfaraldurs Covid-19. Hálfum mánuði eftir að skellt var aftur í lás, þegar aðeins 3 smit greindust utan sóttkvíar, er enginn á spítala.  Ekki einn. Hamfaraspá margra hefur því ekki rætzt. 

Það þarf hver og einn að bera ábyrgð á sjálfum sér.  Persónulegar sóttvarnir og varúð er það, sem hefur mesta þýðingu í viðbrögðum við heimsfaraldrinum og áframhaldandi bólusetning, sem ver viðkvæmustu hópana og raunar okkur öll.  Stjórnvöld þurfa að gæta að meðalhófi í aðgerðum sínum, og lágmarkskrafan er þó og verður alltaf, að aðgerðirnar þurfa að standast lög.  Stjórnarskrárvarin mannréttindi eru ekki bara upp á punt."

Allt er þetta satt og rétt, en órafjarri hugarheimi heilbrigðisráðherrans.  Spilar sóttvarnarlæknir á veikleika hennar ?

 

 


Tveggja stoða reglunni kastað fyrir róða

Erna Solberg, formaður norska HægriLíklega var s.k. Tveggjastoða regla ein af ástæðum þess, að samningurinn um aðild EFTA-landanna Íslands, Noregs og Liechtensteins, að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), var samþykktur á Alþingi og í Stórþinginu 1992-1993.  Ef sú regla væri ekki við lýði, þá mundi aðildin stríða klárlega gegn ákvæðum stjórnarskráa Íslands og Noregs um leyfilegt fullveldisframsal til erlendra ríkja eða stofnana, þar sem löndin eiga ekki aðild.  Tveggjastoða kerfið var augljóslega sniðið í því augnamiði að friða þá stjórnmálamenn og aðra íbúa landanna, sem voru andvígir aðild að Evrópusambandinu (ESB), og til að skapa samningnum visst lögmæti, a.m.k. á Íslandi og í Noregi.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) á þannig að spegla framkvæmdastjórn ESB og EFTA-dómstóllinn á að spegla ESB-dómstólinn.  Sjálfstæði þessara EFTA-stofnana frá ESB er þó meira í orði en á borði, þannig að um formsatriði er að miklu leyti að ræða, sem viðheldur efasemdum um lögmæti aðildar Íslands og Noregs.  Þessar efasemdir koma upp á yfirborðið, þegar veigamiklir lagabálkar koma til umræðu í fagnefndum og Fastanefnd EFTA, í Sameiginlegu EES-nefndinni (EFTA-löndin og ESB) og við staðfestingu löggjafarsamkundanna á innleiðingu gerða. Er skemmst að minnast Orkupakka 3 í því sambandi, og nú er Orkupakki 4 á umræðustigi innan EFTA og í þjóðþingum landanna, en er ekki genginn til Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Er vonandi, að viðamikilla undanþága verði krafizt fyrir Íslands hönd, en til að koma því í kring, verða þingnefndir að grípa til sinna ráða og setja embættismönnum, sem eins og kunnugt er eru gengnir hugarfarslega í ESB, stólinn fyrir dyrnar.

Í Noregi hafa mestar deilur um innleiðingu lagabálka ESB eftir Orkupakka 3 orðið um Járnbrautarpakka 4, sem afnemur einkarétt, oftast ríkisins, á að nýta innviði járnbrautakerfa innan EES.  Ísland er undanþegið innleiðingu af eðlilegum ástæðum.  Fyrir þessari innleiðingu er tæpur meirihluti á Stórþinginu eða 4  atkvæði, af því að Verkamannaflokkurinn, sem er hefðbundinn ESB-flokkur, er á móti afnámi einkaréttar Norske Statsbaner, NSB, á innviðum og rekstri járnbrauta í Noregi og þar með einkavæðingu járnbrautanna.  Málið er þess vegna verulega umdeilt í Noregi, og það hefur magnað deilurnar, að Noregur og Liechtenstein hafa í viðræðum við ESB fallizt á að fórna Tveggja stoða reglunni við þessa innleiðinguog samkvæmt norskum fréttum hefur íslenzka utanríkisráðuneytið gert samkomulag við Noreg og Liechtenstein um yfirlýsingu, sem leggja á fram í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem fallizt er á þessa málsmeðgerð.  Þetta er stórhættulegt fordæmi, þar sem rökin eru einvörðungu, að í ESA sé ekki fyrir hendi þekking á járnbrautamálum, en nákvæmlega hið sama á við um orkumálin, en Tveggjastoða reglan var samt í heiðri höfð við innleiðingu Orkupakka 3.  

Hæstiréttur Noregs hefur að beiðni Stórþingsins úrskurðað, að einfaldur meirihluti Stórþingsins dugi við staðfestingarferli Járnbrautarpakka 4, og Stórþingið mun væntanlega afgreiða málið samkvæmt því í maí 2021.  Hæstirétturinn var hins vegar ekki spurður um afleiðingar þess að hundsa Tveggjastoða kerfið.

Þessi sniðganga EES-samningsins felur í sér, að völd yfir norskum járnbrautarmálum munu færast beint til stofnana ESB.  Eru þetta ekki vonbrigði fyrir þá, sem líta á EES-aðild sem varanlegan valkost við ESB-aðild ?  Leynisamningur utanríkisráðherra, ef hann er til, stríðir gegn yfirlýsingum hans sjálfs og formanns Sjálfstæðisflokksins.

Ef Stórþingið samþykkir tillögu Sólberg-ríkisstjórnarinnar um Járnbrautarpakka 4, færist ákvörðunarvald um aðgang og öryggi á norskum járnbrautarteinum til Járnbrautarstofnunar ESB, ERA, framkvæmdastjórnar ESB og til ESB-dómstólsins.  Þarna hefur Noregur ekki atkvæðisrétt eða er alls ekki gjaldgengur.  

Forsenda EES-samningsins hefur alla tíð verið, að hann sé þjóðréttarlegs eðlis, þ.e. samningur jafnrétthárra aðila, og þar með er hann ekki yfirþjóðlegur, eins og ESB-aðild er.  Löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald skyldi áfram vera í höndum EFTA-þjóðanna með nokkrum fáum, umsömdum undantekningum.  Fullveldi EFTA-landanna skyldi vera innsiglað með Tveggjastoða kerfinu.  Samþykktir ESB skyldu ekki sjálfvirkt hafa áhrif í EFTA-löndunum.  

Christoffer Conrad Eriksen, lagaprófessor við Óslóarháskóla,skrifar í greinargerð til Sambands norskra járnbrautarstarfsmanna og Sambands norskra eimreiðarstjóra, að valdframsalið til ESB-stofnananna "muni verða brot gegn hinu sérstaka ákvörðunartökuferli í Tveggjastoða kerfi EES" ("EUs fjerde jernbanepakke - konstitusjonelle spörsmål", april 2020). 

Eriksen bendir ennfremur á, að þetta muni gera EFTA-þjóðunum erfiðara fyrir en áður að hafna kröfum ESB um að framselja vald beint til ESB-stofnana í síðari málum. 

 Þótt Ísland sé undanþegið Járnbrautarpakka 4, er þetta hliðarspor Norðmanna grundvallaratriði fyrir alla aðila EES-samningsins, þ.e. ef valdframsal á sér stað frá EFTA-ríkjunum beint til stofnana ESB.  Ef menn eru búnir að gefast upp á Tveggjastoða fyrirkomulaginu, hefur EES-samningurinn gengið sér til húðar; svo einfalt er það.

Norska ríkisstjórnin hefur átt frumkvæði að sameiginlegri yfirlýsingu í EES-nefndinni með Íslandi og Liechtenstein, en ríkisstjórnin og íslenzka utanríkisráðuneytið hafa hingað til neitað að upplýsa um efni yfirlýsingarinnar.  Hér virðist þó íslenzka utanríkisráðuneytið hafa látið kollegana í Ósló fá frítt spil, "carte blanche", til að endurskilgreina leikreglurnar í EES.  Það er hneyksli, ef satt reynist.  Hvað er utanríkisráðherrann að hugsa ?

Stöðugt fleiri yfirþjóðlegar stofnanir ESB ógna formlegri fullveldisvörn, sem sett var í EES-samninginn í upphafi.  Ýmsir íslenzkir stjórnmálamenn, þ.á.m. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa lýst áhyggjum sínum yfir, að þetta kollkeyri EES-samninginn.  Guðlaugur Þór Þórðarson sagði á fundi í EES-ráðinu 23. maí 2018: "Það hefur orðið stöðugt erfiðara, þegar ESB-löggjöf, sem felur í sér valdframsal, er felld inn í EES-samninginn, að finna lausnir, sem taka tillit til Tveggjastoða fyrirkomulags samningsins."

Ef Ísland sýnir Noregi undanlátssemi vegna þrýstings í máli, sem ekki varðar Ísland, mun það skapa hættulegt fordæmi, sem ógnar uppbyggingu EES-samningsins.

Einnig Bente Angell-Hansen, hinn norski forseti ESA, varar við að láta ESB-stofnanirnar veikja Tveggjastoða kerfið.  Eftir að hafa undirstrikað óskina um "að varðveita og þróa EES-samninginn", lýsti hún því yfir á ráðherrafundi EFTA 27. október 2020, að "tímabært er að sjá, að EES-EFTA-stoðinni er vel sinnt með því að fara eftir Tveggjastoða fyrirkomulaginu, sem gerir EES-samninginn svo einstæðan".  Sem vanur diplómati nefnir ekki Angell-Hansen járnbrautarpakkann eða önnur bein dæmi, en eins og hún segir: "Þegar einnarsúlu lausn er valin, hverfur möguleikinn á að kæra mál til EFTA-dómstólsins".  Með öðrum orðum: þegar ákvörðunarvaldið er flutt til ESB, verða EES-stofnanirnar haldlausar. 

Röksemd norska samgönguráðuneytisins fyrir því að víkja af braut EES-kerfisins er, að ESA hafi ekki þekkingu á járnbrautarmálum og að það verði erfitt að koma EFTA-járnbrautarstofnun á legg. Hins vegar er engu meiri þekking hjá ESA á fjármálaeftirliti eða orkumálum, og samt var Tveggjastoða fyrirkomulagið notað í þeim málaflokkum.  Þess vegna eru innantómar röksendir fyrir því að meðhöndla járnbrautarmálin öðruvísi.  

Það, sem Stórþingið getur gert til að viðhalda trúverðugleika EES-samningsins og sýna Íslandi og Liechtenstein virðingu, er að biðja ríkisstjórnina að endurskoða frumvarpið þannig, að valdframsalið verði til ESA og EFTA-dómstólsins.  Þá verður líka unnt að sneiða hjá framsali löggjafarvalds til framkvæmdastjórnar ESB, sem stefnir í í þessu máli, með því að reglugerðir hennar og tilskipanir þessu lútandi verði meðhöndlaðar á vanalegan hátt í EES og taki ekki gildi fyrr en eftir samþykki í Sameiginlegu EES-nefndinni.

  Stjórnarandstöðuflokkarnir, Verkamannaflokkurinn, Miðflokkurinn, SV, Rautt og MDG, eru allir á móti járnbrautarpakkanum.  Það er þó 4 atkvæðum of lítið til að koma í veg fyrir meirihlutasamþykkt í Stórþinginu.  Gagnrýnisraddir frá Íslandi gætu e.t.v. fengið einhverja stjórnarliða til að endurskoða hug sinn til þessa máls. 

Þeir einu, sem hagnast á járnbrautarpakka, sem veikir EFTA-stoðina í EES, eru ESB-sinnar, sem dreymir um einnarleiðar farmiða inn í ESB, og þeirri leið óskar aðeins minnihluti Norðmanna og Íslendinga eftir. 

Þessi pistill er reistur á grein eftir formann "Nei til EU" í Noregi, Roy Pedersen, sem fylgir í viðhengi pistilsins.  

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Á valdi óttans

Heilbrigðisstjórnvöldin í landinu, sem átt hafa sviðið í á annað ár, hafa orðið uppvís að undirmálsvinnubrögðum, sem verður að kenna við fúsk.  Á því ber heilbrigðisráðherrann höfuðábyrgð og má furðu gegna, að hún skuli ekki hafa verið látin sæta pólitískri ábyrgð á mistökum ráðuneytisins.  Það vitnar ekki um, að þingmenn taki eftirlitshlutverk sitt með framkvæmdavaldinu ýkja alvarlega, að þingið skuli ekki taka pólitíska stöðu hennar til ítarlegrar umfjöllunar, eftir að hún gerðist brotleg við lög.  Það er ekki í fyrsta skipti, sem það gerist í hennar ráðherradómi (áður sem umhverfisráðherra). Það þarf að koma henni í skilning um, að réttarríkið er reist á því, að ríkið og aðrir hafi ekki lögin bara til hliðsjónar, þegar hentar, heldur fari eftir þeim, alltaf. Þó er eftirtektarvert, að nýjasta frumvarp heilbrigðisráðherrans varð mjög umdeilt í þinginu og afgreitt í bullandi ágreiningi undir morgun á Sumardeginum fyrsta.

Svandís Svavarsdóttir virðist vera hræðilegur gösslari í embættisfærslu sinni, sem ekki gefur neinn gaum að þeirri löggjöf, sem henni ber að starfa eftir. Katrín Jakobsdóttir og flokkssystkini hennar þvinguðu fyrr á þessu kjörtímabili dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins til að segja af sér fyrir litlar sem engar sakir eða hreinan tittlingaskít í samanburði við brot heilbrigðisráðherra.  Katrínu setur hrottalega niður sem forsætisráðherra sökum þessarar grófu mismununar þessara tveggja ráðherra.  Flokkstrýnið skal ráða för hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Þar fara spilltir kerfissnatar.

Heilbrigðisyfirvöldin í landinu hafa farið offari gegn veirufaraldrinum SARS-CoV-2 m.v. aðstæður og notað hvert tilefni til að mála skrattann á vegginn.  Í fyrstu mátti fyrirgefa þetta í ljósi þess, að ný staða væri uppi í landinu og að nauðsynlegt væri að ná athygli almennings til að innræta honum persónubundnar sóttvarnaraðgerðir.  Það hefur hins vegar bara verið hert á hræðsluáróðrinum um leið og opinberar sóttvarnaraðgerðir á landamærunum og innanlands hafa verið hertar, þótt tilefni þess verði sífellt minni.  Meintur ótti sóttvarnarlæknis og landlæknis við 4. bylgjuna, sem enn er ókomin, og rándýrar aðgerðir gegn henni, tóku út yfir allan þjófabálk.  Þessu verður að fara að linna og meira jafnvægi verður að komast á aðgerðir, enda eru mikil áhöld um gagnsemi þeirra, en neikvæðar afleiðingar skelfilegar. 

Í nýlegri frétt frá Bretlandi var sagt frá því, að fjórðungur dauðsfalla, sem skráður er vegna C-19 sjúkdómsins, hafi verið af öðrum ástæðum, þótt hinir látnu hafi verið sýktir af C-19.  Þannig hefur vafasöm og skrýtin tölfræði verið purkunarlaust brúkuð af fréttamönnum og öðrum óttamöngurum.

Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann, var birt í Morgunblaðinu 12. apríl 2021 umhugsunarverð áminning og árétting í þessu sambandi, þar sem hann snertir við ýmsu, sem flogið hefur um hugi margra í gjörningaviðri Kófsins á Íslandi.  Fyrirsögnin var:

"Að virkja óttann".

Greinin hófst þannig:

"Á öllum tímum hefur það verið öflugt vopn í heimi mannanna að nýta ótta við utanaðkomandi hættu til að ná pólitískum yfirráðum yfir hinum óttaslegnu."

Þetta er staðreynd, og hana hafa sóttvarnaryfirvöld víða um heim, m.a. hérlendis, nýtt sér í hag til að koma í veg fyrir uppreisn af völdum grófra skerðinga á mikilvægum réttindum fólks og venjum.  Samt styðja engar vísindalegar rannsóknir þessar aðfarir ríkisvaldsins gegn borgurunum.  Einræðisstjórnin í Beijing reið á vaðið og sviðsetti fréttir af skilvirkni þessara hörðu opinberu sóttvarnaraðgerða.  Fréttamenn á Vesturlöndum átu þetta upp og spurðu rugluð yfirvöld Vesturlanda í ríminu, hvað þau ætluðu að gera til að fækka dauðsföllum vegna veirunnar. Þau treystu sér ekki til að segja: nei, út í svona frelsisskerðingar förum við ekki á Vesturlöndum, og því fór sem fór. 

Hagkerfin eru í rúst, fjöldaatvinnuleysi, mörg gjaldþrot, persónulegir harmleikir mun fleiri en áður og hratt hrakandi lýðheilsa.  Á Íslandi er verðbólgan komin af stað; er nú s.k. kjarnaverðbólga reiknuð 5,2 % á ári, aðallega af því að launþegasamtökin neituðu að fresta launahækkunum í Kófinu, sem engin innistæða var fyrir.  Það var varað við því, að fyrirtækin hefðu ekki meira bolmagn, en heimtufrekja, þröngsýni og pólitískt ofstæki tröllreið húsum verkalýðshreyfingarinnar. Hækkanirnar fóru út í verðlagið, sem þó átti að forðast.  Verðbólgan er reyndar líka komin af stað í Bandaríkjunum, þó aðeins helmingur af hérlendri, og þar er hagkerfið nú að taka vel við sér, enda yfir 40 % íbúanna bólusettir.  Evrópusambandið er Lazarus í þessu sambandi.

"Íslenzka dæmið, sem nú skellur á okkur, er auðvitað ekki jafnalvarlegt og þetta þýzka dæmi [andlegt ástand í Þriðja ríkinu - innsk. BJo]. En það er af sömu tegund.  Við Íslendingar erum nefnilega að upplifa það, að stjórnvöld leitast við að nýta ótta þjóðarinnar við veiruna miklu til að fá hana til fylgilegs við ofbeldisfulla stýringu á háttsemi manna í því skyni að ná tökum á veirunni."

 

 "Til liðs við þau kemur svo orðhákur úr röðum vísindamanna, sem kann að gera út á hræðslu almennnings við hina skaðvænlegu veiru.  Þetta fremferði mannsins er líka til þess fallið að auka honum persónulegar vinsældir, eins og kemur fram í blaðagreinum og neðanmálsgreinum á netinu. 

Hann hallmælir dómstólum fyrir að virða meginreglur laga og uppnefnir þá, sem fallast ekki á ruglið í honum.  Sigríður Andersen, alþingismaður, hitti naglann á höfuðið, þegar hún lýsti þversögninni, sem felst í því, að moldríkur orðhákurinn, sem kominn er á elliár og vill reisa múrvegg á landamærum landsins, líkti öðrum mönnum við Trump úr vesturheimi fremur en sjálfum sér."

 Það, sem hér og víðar hefur gerzt í þessu Kófi, er alvarleg aðvörun til borgaralega þenkjandi fólks um, hversu auðvelt er með tilfinningaþrungnum áróðri, sem oft er reistur á hæpnum forsendum og jafnvel falsrökum, að ganga freklega á hlut atvinnufrelsis og einstaklingsfrelsis í þágu einhvers málsstaðar með því að vekja ótta.  Vesturlönd sóttu fyrirmyndina til einræðisstjórnarinnar í Kína, sem ruddi braut stórfelldra frelsisskerðinga á Vesturlöndum með því að básúna frábæran sóttvarnarárangur sinn með því að loka fólk inni á heimilum sínum með valdi, eins konar herskálalokun.

Það hafa hins vegar ekki verið birtar neinar traustvekjandi niðurstöður vísindarannsókna um gagnsemi alls konar hafta á mannlega hegðun fyrir sóttvarnir. Vísbendingar frá samanburði ríkja með ólíkar hömlur benda ekki til neins sóttvarnarárangurs, en mikilla neikvæðra efnahagsáhrifa og þungbærs atvinnuleysis, þar sem miklum hömlum er beitt.  Einn slíkur samanburður er t.d. á milli Norður- og Suður-Dakóta í Bandaríkjunum, en SD beitti afar litlum hömlum og hagkerfið þar dróst ekki saman og er að taka vel við sér núna.

Nýlega var fulltrúi heilbrigðisráðherra Þýzkalands spurður um það, hvort lokunarráðstafanir þýzkra stjórnvalda styddust við vísindalegar rannsóknir.  Honum vafðist tunga um tönn og gat engu svarað.  Hér er pottur brotinn og allt of mikið af illa ígrunduðum forræðishyggjutilburðum, sem eru mjög íþyngjandi fyrir ungviði og alla aðra og hafa komið niður á lýðheilsu og efnahag. 

Á Íslandi er stjórnkerfi sóttvarnarmála veikt, þar sem einn maður mótar tillögugerð til ráðherra.  Hann gefur ekki gaum að lagaheimildum tillagna sinna, og hann virðist láta sig litlu varða fjárhagslegar afleiðingar þeirra og lýðheilsulega skaðsemi.  Þá virðist hann kikna í hnjánum, þegar "Vatnsmýrar-Trump" kveður sér hljóðs opinberlega með fjaðraþyt og stórkarlalegum spádómum og yfirlýsingum um aðsteðjandi hættu að utan, svo að loka verði bæði landamærunum og allri starfsemi innanlands, sem fólk sækir í, helzt fyrir helgi.  Þessi óvandaða stjórnsýsla tók á sig ljóta mynd 1. apríl 2021 með reglugerð, sem Héraðsdómur dæmdi ólöglega.  Það virðist alveg vera sama, hvar borið er niður í embættisverkum heilbrigðisráðherra.  Henni eru mjög mislagðar hendur, og umgengni hennar við heilbrigðiskerfið má líkja við fíl í postulínsbúð. 

Andrés Magnússon skrifaði fréttaskýringu um þetta í Morgunblaðið 12. apríl 2021:

"Stjórnsýsla í molum í heilbrigðisráðuneyti".

Hún hófst þannig: 

"Vandræðin vegna reglugerðar Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, um skyldudvöl í sóttkvíarhóteli, sem héraðsdómur úrskurðaði ólögmæta, hafa vakið mikla athygli, jafnvel deilur.  Þar hefur verið deilt um sjálfa aðgerðina, að allir ferðamenn frá tilteknum svæðum - þar á meðal fólk, sem hvorki er smitað né grunað um að vera smitað - séu settir í sóttkví í varúðarskyni, þótt þeir hafi í önnur, betri og eigin hús að venda.  Hins vegar hafa menn svo staldrað við aðferðina, hvernig það gat gerzt, að heilbrigðisráðherra hafi sett reglugerð, sem augljóslega átti sér ekki lagastoð. 

Á hinu fyrrnefnda getur fólk haft ýmsar skoðanir, en það er hið síðarnefnda, hvernig heilbrigðisráðuneytið rataði í þessi ótrúlegu vandræði, sem sennilega er verra og vandasamara mál." 

Það er aðeins hægt að draga þær ályktanir af þessu, að hvorki sóttvarnarlög, mannréttindi né Stjórnarskrá megi standa í veginun við setningu íþyngjandi reglugerða á sviði sóttvarna, því að ráðherra og embættismenn geri það til að vernda líf og heilsu almennings.  Þessi röksemdafærsla þeirra er stórhættuleg lýðræðislegum stjórnarháttum í landinu og virðingu valdhafa fyrir einstaklingsbundnum réttindum, sem sjálft réttarríkið hvílir á.  Málið er þess vegna grundvallarmál.  Heilbrigðisráðherra ætti að hafa vit á því að fara með skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum einstaklinga fyrir Alþingi, en til þess brast hana andlegu spektina, virðingu fyrir lýðræðinu og  ráðgjafa með sjálfstæða hugsun.  Þess vegna er stjórnsýsla heilbrigðisráðuneytisins í molum.  Ef hún verður ekki látin sæta ábyrgð fyrir þetta, þá hljóta kjósendur að grípa til sinna ráða við fyrsta tækifæri, ef/þegar þeir sjá út úr Kófinu. 

"Þó vekur mesta athygli í þessum gögnum úr heilbrigðisráðuneytinu [sem þurfti að toga út með töngum - innsk. BJo], að þar er ekkert vikið að lagastoð reglugerðarinnar eða álitaefni um lögmæti hennar, heldur aðallega fjallað um framkvæmdina á reglugerðinni og ýmsan vanda henni samhliða. 

Það má heita með ólíkindum, að við reglugerðarsetningu láti ráðherra og starfsmenn hans í ráðuneytinu undir höfuð leggjast að ganga úr skugga um slíkt grundvallaratriði.  Það á að vera vinnuregla við alla reglugerðarsetningu og enn ríkari ástæða til en ella, þegar um svo stórtæka og kostnaðarsama íhlutun er að ræða, sem í ofanálag vegur að frelsi borgaranna.

Það eitt bendir til þess, að stjórnsýslan í heilbrigðisráðuneytinu sé í molum.  Setning reglugerða er eitt helzta stjórntæki ráðuneyta, og ef þær eru ekki aðeins ekki samkvæmt lögum, heldur kemur í ljós, að ráðherra sýndi ekki minnstu viðleitni til þess að tryggja, að reglugerð hefði við lög að styðjast, þá er eitthvað hræðilegt að."

Þessi lýsing á vinnubrögðum heilbrigðisráðherra ásamt þeirri staðreynd, að viðkomandi ráðherra situr enn í embætti, getur aðeins átt við um ástand, sem kennt er við bananalýðveldi.  Í vestrænum lýðræðisþjóðfélögum hefðu háværar viðvörunarbjöllur klyngt, þangað til þessi ráðherra hefði verið látinn taka pokann sinn, enda ljóslega óhæfur til að gegna embætti í réttarríki. 

Einræðissinnaðir stjórnmálamenn mega ekki komast upp með að breyta landinu í "sóttvarnarríki", þar sem allt er leyfilegt í nafni sóttvarna.  Sízt af öllu má þetta viðgangast, þegar "drepsóttin" er af völdum kórónuveiru, eins og aðrar flensuveirur, sem við verðum að læra að lifa með, enda er hún lítið hættulegri en skæðar flensuveirur og leggst jafnvel vægar en þær á ungviðið. 

"Það vekur spurningar um vandvirkni, árvekni og kostgæfni æðstu embættismanna ráðuneytisins, en þó auðvitað sérstaklega æðsta embættismann þess, Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra.  Í því samhengi er rétt að minnast þess, að annar ráðherra í þessari ríkisstjórn steig til hliðar af mun minna tilefni.  Það er því erfitt að trúa því, að staða heilbrigðisráðherra hafi ekki komið til tals hjá forystumönnum ríkisstjórnarinnar, hvað sem líður öllum traustsyfirlýsingum."

Þetta leiðir hugann að grófri mismunun forsætisráðherra núverandi ríkisstjórnar, sem hamaðist gegn dómsmálaráðherra, Sigríði Andersen, fyrir litlar sem engar sakir.  Þar var bakari hengdur fyrir smið, því að tilnefningar dómsmálaráðherra á dómaraefnum í Landsrétt voru í samræmi við lög og vegna afstöðu Alþingis um kynjajafnvægi, og bæði þingið og Hæstiréttur lögðu síðan blessun sína yfir valið.  Kæra til Mannréttindadómstólsins og úrskurðir hans um vanhæfi skipaðra dómara áttu ekki að hafa úrslitaáhrif hér, enda hefur hann ekki lögsögu á Íslandi, þótt stjórnsýslan og löggjafinn hafi hann jafnan til hliðsjónar. 

Í lok fréttaskýringarinnar stóð þetta:

"Vona verður, að þetta séu ekki viðtekin vinnubrögð í heilbrigðisráðuneytinu, en við blasir, að þetta furðulega mál hlýtur að verða til þess, að þau séu rannsökuð til hlítar og þetta mál sérstaklega.  Um það getur heilbrigðisráðherra sjálfur hvorki haft forystu né umsjón."

Hér er kallað eftir stjórnsýsluúttekt, sem er eðlilegt, eftir að stóru og fjölmennu ráðuneyti hefur orðið jafnrækilega á í messunni og hér um ræðir.  Þátt og aðkomu ráðuneytisstjórans, aðstoðarmanns ráðherra og lögfræðinga ráðuneytisins að samningu umræddrar reglugerðar og annarra þarf að kanna sérstaklega.  Losarabragurinn virðist yfirþyrmandi og ráðherra án stjórnunarhæfileika magnar vandann.  

 

 

 

 

 

 


Alvarlegur undirtónn

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, SA, Halldór Benjamín Þorbergsson, ritaði grein í Morgunblaðið 10. apríl 2021 undir heitinu:

"Tækifæri í kreppunni".

Það var alvarlegur undirtónn í þessari grein framkvæmdastjórans, sem vonandi hefur ýtt við ýmsum.  Atvinnulífið stefnir í óheillavænlega átt með stöðuga hækkun kaupmáttar launa og vaxandi atvinnuleysi.  Þessi kaupmáttaraukning á krepputíma með 6,6 % samdrátt landsframleiðslu 2020 og framleiðniaukningu, sem er mun lægri en kaupmáttaraukningin, er ósjálfbær. Það þýðir einfaldlega, að hún mun gufa upp í verðbólgu. Samfélagið lifir á lánum, sem halda uppi fölskum lífskjörum.  Af þessari óheillabraut verður að hverfa hið fyrsta.  Ella bíður há verðbólga og lífskjarahrun handan við hornið. Landsmenn lifa nú um efni fram, því að fyrirtækin eru veik og ráða ekki við gegndarlausar kostnaðarhækkanir vegna starfsmanna sinna.  Það leiðir til verðlagshækkana.  Hvaða stjórnmálaflokkum er bezt treystandi til að fást við þetta ójafnvægi, sem fram er komið ?

Lausnin hlýtur að felast í að draga úr launakostnaði fyrirtækjanna í hlutfalli af verðmætasköpun þeirra. Þetta hlutfall gæti verið hið hæsta í heimi núna, sem boðar ekki gott. Ef hlutfallið lækkar, er von til þess, að fyrirtækin fari að fjárfesta og ráða til sín fólk af atvinnuleysisskrá.  Mikið atvinnuleysi er versta þjóðfélagsbölið núna og skapar óþolandi óréttlæti.  Ef einhver veigur er í verkalýðsfélögunum, hljóta þau að vilja leggjast á eitt með SA til að móta stefnu, sem getur dregið úr þessu alvarlega óréttlæti.

Grein Halldórs Benjamíns hófst þannig:

"Fólk, sem stöðu sinnar vegna er tekið alvarlega [t.d. titill prófessors og aðild að Peningastefnunefnd Seðlabankans - innsk. BJo], hefur nýverið haldið fram þeirri firru [t.d. í Kastljósi RÚV - innsk. BJo], að staðan í atvinnulífinu væri góð.  Einungis 10 % hagkerfisins væri í vanda [þótt landið missti 1/3 gjaldeyristekna sinna - innsk. BJo].  En þá gleymdist að geta þess, að landsframleiðslan dróst saman um mrdISK 200 í fyrra [árið 2020, u.þ.b. 6,6 % brottfall verðmætasköpunar - innsk. BJo], hvað þá, að ríkissjóður verður rekinn með ríflega mrdISK 500 halla á árunum 2020-2021 með tilheyrandi skuldasöfnun eða að Seðlabankinn hefur selt gjaldeyri fyrir mrdISK 170 frá ársbyrjun 2020 [á 5 ársfjórðungum hefur 1/4 gjaldeyrisvaraforðans verið varið til að halda sæmilegum gengisstöðugleika - innsk. BJo].  Það gleymdist reyndar líka að nefna, að um 25 þúsund einstaklingar eru á skrá um atvinnulausa með öllum þeim áhyggjum, sem því fylgja fyrir fólkið og félagslegum afleiðingum.  Þess var heldur ekki getið, að atvinnuþátttaka á Íslandi hefur ekki verið minni í áratugi."

 

Atvinnulausir í meira en eitt ár hafa ekki verið fleiri en núna áratugum saman eða tæplega 7000, og er fjöldinn enn vaxandi, þótt heildarfjöldinn lækki aðeins.  Heilsufarslegar afleiðingar eru miklar fyrir þennan hóp og grafalvarlegar fyrir um 3 % þessa hóps eða um 200 manns samkvæmt athugunum austan hafs og vestan. 

Þetta langtíma atvinnuleysi er vegna þess, að ferðageirinn hefur lagzt í dvala, og þrátt fyrir gos á sprungu frá Geldingadölum og upp fyrir Meradali á Reykjanesi virðast erlendir ferðamenn ekki munu ná viðmiðunartölu fjárlaganna 2021 með öllum þeim neikvæðu áhrifum á efnahaginn, sem af því leiða.  Reikna má með, að strangar hömlur á landamærunum, þar sem mest munar um 5 daga sóttkvína, hafi leitt til helmingsins af þessu langtíma atvinnuleysi eða um 100 grafalvarlegra tilvika heilsumissis.  Þetta er líklega svipaður fjöldi og sá, sem látizt hefur af völdum C-19 og lent í langtíma einkennum, sem rakin eru til sýkingarinnar.

Af þessu sést, að við ákvörðun alls konar hamla í þjóðfélaginu í sóttvarnarskyni verður að taka neikvæðar afleiðingar þeirra með í reikninginn, því að þær geta vegið upp gagnsemina af fækkun smita.  

Þegar strangar hömlur innanlands voru settar á 24. marz 2021 voru engin smit utan sóttkvíar, og þau hafa síðan haldizt á bilinu 0-2 fyrir utan einn sólarhring, 30. marz, þegar þau mældust 5 talsins, og 24. apríl, þegar þau voru 8 talsins.  Lokanir þessa tímabils, t.d. á sundstöðum, þreksölum og íþróttaæfingum barna, hafa líklega verið allsendis óþarfar, enda hóf boðuð 4. bylgja aldrei flugið hér, og þótt 4. bylgjan hefði látið á sér kræla, hefðu afleiðingarnar orðið minni en í 1. og 2. bylgju vegna ónæmis.  Hræðsluáróður virðist hafa hrint mjög íþyngjandi lokunum af stað.  Þetta sýnir, að sóttvarnaryfirvöld eru á röngu róli hérlendis og valda jafnvel meira tjóni en gagni. 

Áfram með Halldór Benjamín:

"Nú er spáð yfir 5 % atvinnuleysi næstu 5 ár. Þorri Íslendinga hefur hingað til ekki sætt sig við mikið og langvinnt atvinnuleysi, og það viðhorf hefur ekki breytzt.  Aðilar vinnumarkaðarins verða að horfast í augu við staðreyndir og bregðast við af raunsæi.  Samfélagslegur kostnaður atvinnuleysis er of mikill, og aðstæður fólks eru óviðunandi.  Því miður hafa samningsaðilar brugðizt hlutverki sínu.  Kaupmáttur launa starfandi fólks batnar stöðugt, en atvinnulausir sitja eftir.  Laun hafa hækkað of mikið og fjölgað fólki án vinnu."

Þetta er þungur áfellisdómur yfir viðsemjendum SA, og virðist framkvæmdastjórinn vera svartsýnn á, að tauti verði komið við þá.  Þó er það sameiginlegt hagsmunamál aðila vinnumarkaðarins að nýta framleiðslutæki og framleiðslukrafta atvinnulífsins upp undir 100 %, en því fer fjarri að meðaltali núna, þótt vissir geirar séu fullnýttir, a.m.k. staðbundið.

Þegar svo er komið, að samningsaðilar á vinnumarkaði hafa brugðizt hlutverki sínu, verða þjóðkjörnir fulltrúar á löggjafarsamkomunni að grípa til sinna ráða.  Eitt af úrræðunum kann að vera stöðvun allra samningsbundinna launahækkana frá ákveðnum tíma og þar til tekizt hefur að ráða bug á atvinnuleysinu. 

"Í aðdraganda alþingiskosninga hljóta stjórnmálaflokkar að setja atvinnumál á oddinn, og þá með öðrum hætti en innihaldslausum tillögum um fjölgun starfa hjá hinu opinbera [eins og t.d. Samfylking hefur gert sig seka um - innsk. BJo]. Annars bregðast þeir kjósendum sínum og sérstaklega þeim, sem eru án atvinnu.  

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði losna eftir 18 mánuði.  Það ætti öllum að vera ljóst, að ekki verður haldið áfram á þeirri braut að hækka laun hér á landi margfalt meira en svigrúm er fyrir og fela Seðlabankanum að stuðla að stöðugu verðlagi á sama tíma.  Mótsögnin er augljós og afleiðingarnar þekktar."

Ef svo fer fram sem horfir, verður lunginn úr gjaldeyrisvarasjóðnum horfinn við lok samningstímabilsins.  Það eitt skapar óstöðugleika í gjaldeyrisviðskiptunum og hreinlega hættu á stöðutöku gegn ISK.  Þess vegna er brýnt, að innstreymi gjaldeyris fari nú að aukast til að bæta viðskiptajöfnuðinn.  Það mun þó tæpast gerast fyrr en lönd flestra ferðamanna hingað verða græn á Covid-landakortinu.  

Það er hárrétt hjá Halldóri Benjamín, að eðlilegast er að stjórnmálaflokkarnir verji drjúgum hluta kosningabaráttunnar í að gera kjósendum grein fyrir afstöðu þeirra til atvinnumálanna.  Það þarf að koma fram, hvaða ráðum stjórnmálaflokkarnir hyggjast beita á næsta kjörtímabili á þingi og/eða í ríkisstjórn til að koma nýtingu atvinnutækja og vinnukrafts aftur upp undir 100 %. Kjósendur munu þá dæma um, hvað er lýðskrum, og hvað er raunhæft.  Þá verða auðvitað að koma hugmyndir frá flokkunum með tímasettri áætlun um að ná jafnvægi á ríkisbúskapinn. 

"Fyrirtæki og atvinnulífið í heild skapa verðmætin, sem standa undir samneyzlu og velferðarkerfi.  Heilbrigð og samkeppnishæf rekstrarskilyrði, hóflegir skattar og gegnsæjar reglur eru forsendur þróttmikils atvinnulífs.  Fjárfestingar, vöruþróun, nýsköpun og markaðssókn er eina færa leiðin til að skapa verðmæti og leggja grunn að fjölgun starfa, auknum tekjum fólks og skatttekjum hins opinbera. Sem dæmi er nýliðin loðnuvertíð gríðarleg innspýting í lykilbyggðarlög á krefjandi tíma."

Segja má, að þarna leggi framkvæmdastjóri SA fram sitt mat á því, hvaða rekstrarumhverfi þarf að búa atvinnulífinu til að komast út úr núverandi efnahagsþrengingum. Það blasir við, að vinstri flokkarnir í landinu eru óhæfir til að skapa þessi skilyrði, því að þeirra tilhneiging er jafnan að blóðmjólka mjólkurkýrnar, og forystumenn þar á bæ virðast ekki gera sér grein fyrir til hvers það óhjákvæmilega leiðir. 

Fyrirtækin sjá um sig sjálf, ef þau fá aðstöðu til að dafna.  Þá munu þau fjárfesta og ráða til sín fólk.  Kostnaðarhækkanir nú og á næstu misserum, hækkanir launakostnaðar eða opinberra gjalda, munu aðeins magna kreppuna. 

Í lokin skrifaði Halldór Benjamín:

"Það má láta sig dreyma um álíka samstöðu um leið út úr atvinnuvandanum og ríkt hefur gegn kórónuveirunni.  Þótt slík samstaða sé ekki í augsýn, kæmi hún atvinnulausum bezt og stuðlaði að sjálfbærri þróun á komandi árum.  En sporin hræða." 

Ríkisstjórn og Alþingi hafa skuldbundið ríkissjóð fyrir gríðarlegum kostnaði vegna þessarar kórónuveiru, sem nemur a.m.k. andvirði einna fjárlaga.  Skuldina þarf að greiða, og það er bezt að gera sem hraðast af nokkrum ástæðum.  Ef skuldinni er bara ýtt á undan sér, eins og vinstri flokkarnir eru líklegir til að gera, mun hún hlaða utan á sig þungri vaxtabyrði og lenda á unga fólkinu, sem er ósiðleg ráðstöfun.  Afleiðingin verður þá líka sú, að þjóðin verður vanbúin fjárhagslega til að taka á sig næsta efnahagsskell á eftir Kófinu, og ábyrgðarhluti þeirra, sem taka ákvörðun um slíkt, er mikill.

Eina raunhæfa ráðið er að þrengja ýstruólina aðeins, tímabundið, og nýta allar færar leiðir, þar með nýja nýtingu náttúruauðlinda, til að knýja fram góðan hagvöxt með viðbótar gjaldeyrissköpun eða gjaldeyrissparnaði.  Orkuskiptin (núverandi) munu t.d. fela í sér a.m.k. mrdISK 150 gjaldeyrissparnað, þegar þau verða að fullu um gerð gengin, ef fjörið í samgöngunum verður ekki minna en fyrir Kóf.  

 

 

 

  

 


Orkumálin hornreka

Til að feta okkur út úr Kófinu þurfum við á að halda öllu því, sem landið og miðin hafa á boðstólum innan marka sjálfbærrar nýtingar.  Þar með þurfum við að auka orkunýtinguna til að auka gjaldeyrissköpun og gjaldeyrissparnað.  Til þess er óhjákvæmilegt að reisa fleiri virkjanir.  Væntanlega mun orkuvinnslukostnaður hverrar virkjunar ráða röðinni, svo að engin meginaðferðanna þriggja við vinnslu rafmagns verður fyrirfram útilokuð, þ.e. raforkuvinnsla með vatnsafli, jarðgufuafli eða  vindafli. 

Umhverfisráðuneytinu hefur verið falið stærra hlutverk en það ræður við undir forystu þjóðgarðaráðherrans Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Hann er fulltrúi afturhalds, sem er haldið meinloku um, að eitthvað óviðjafnanlegt fari endanlega forgörðum við hverja virkjun, sem hljóti að vega þyngra en þjóðarhagur af nýtanlegri, endurnýjanlegri orku.  Þetta músarholusjónarmið, sem ráðherrann hefur forystu fyrir, passar engan veginn í nútímanum, sem leggur höfuðáherzlu á að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með kolefnisfrírri raforkuvinnslu. Í ljósi þeirrar sameiginlegur umhverfisváar, sem boðuð er við 3°C hækkun meðalhitastigs lofthjúps niðri við jörðu, er óverjandi að standa gegn öllum vatnsaflsvirkjunum hérlendis, eftir að þær hafa komizt í gegnum nálarauga yfirvalda og framkvæmdaleyfi verið gefið.

Ráðherrann hefur framið skemmdarverk á undirbúningsferli orkuvera, eins og fram kom í jólaávarpi fráfarandi orkumálastjóra 2020, sem sá síðarnefndi leggur til, að verði endurskoðað með róttækum hætti.  Á meðan vinstra græna afturhaldið liggur á fleti fyrir í ríkisstjórn, mun líklega ekkert vitrænt gerast að þessu leyti.  Það getur aðeins endað með ósköpum á formi orkuskorts í landinu.  Hvílíkt sjálfskaparvíti í landi með gnótt "grænnar" orku.   

 

Nú er borin von, að fjöldi erlendra ferðamanna nái viðmunartölu fjárlaga þessa árs, þ.e. 700 k.  Þá þarf að reiða sig í meiri mæli á auðlindir hafs og lands.  Óli Björn Kárason, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, átti að vanda góða grein í Morgunblaðinu miðvikudaginn 24. marz 2021:

"Úr vörn í sókn".

Sjálfstæðismenn hafa margoft predikað það, að leið landsmanna út úr Kófinu skuli liggja um hagvaxtarleiðina.  Það er mikil fylgni á milli aukningar orkunotkunar í landinu og hagvaxtar.  Þess vegna ættu sjálfstæðismenn alls ekki að sætta sig við það, að dauð hönd músarholuafturhalds sé lögð á undirbúningsferli nýrra virkjana í landinu. Óli Björn skrifaði m.a:

"Jafnvægi í ríkisfjármálum er alltaf áskorun, en um leið ein frumskylda stjórnmálamanna, þegar til lengri tíma er litið.  Í aðdraganda kosninga er ekki ólíklegt, að ungt fólk krefji frambjóðendur og stjórnmálaflokka um skýr svör í þeim efnum."

Kófstímabilið er fordæmalaust hallatímabil ríkissjóðs, þar sem samanlagður halli mun sennilega verða yfir mrdISK 1000.  Þetta er svo alvarlegt, sérstaklega fyrir unga fólkið, að þegar verður að grípa til gagnráðstafana.  Skattahækkanir eru alltaf fyrsta og oft eina úrræði vinstri flokkanna, en þar sem þær munu dýpka og lengja kreppuna, eru þær síðasta úrræði Sjálfstæðisflokksins.  Hann vill auka tekjur hins opinbera með auknum umsvifum í þjóðfélaginu, og þau koma aðeins með aukinni framleiðslu.  Hún krefst meiri orkuvinnslu, og fyrir hana eru nýjar virkjanir nauðsyn, en þar stendur hnífurinn í kúnni eða vonandi spjótið í drekanum ógurlega, sem riddarinn mun vinna bug á.

Búið er að steingelda "Rammann".  Sennilega er bezt að fela Orkustofnun forvalið. Þegar tilhögun virkjana yfir 500 GWh/ár er fyrir hendi og umsögn Skipulagsstofnunar tilbúin, geta slíkar farið til afgreiðslu Alþingis. 

Áfram með tilvitnun í grein Óla Björns:

"Önnur áskorun, sem við verðum að takast á við, er atvinnuleysið.  Ég hef haldið því fram, að íslenzkt samfélag geti aldrei sætt sig við umfangsmikið atvinnuleysi, ekki aðeins vegna beins kostnaðar, heldur ekki síður vegna þess, að atvinnuleysi er sem eitur, sem seytlar um þjóðarlíkamann.  Atvinnuleysi er vitnisburður um vannýtta framleiðslugetu, minni verðmætasköpun og meiri sóun.  Allir tapa, en mest þeir, sem eru án atvinnu í lengri eða skemmri tíma."

Þetta er rétt, og til að ráða bót á atvinnuleysinu þarf að virkja orkulindir ásamt öðrum aðgerðum.  Við þurfum ný atvinnutækifæri.  Ef þingið ætlar að láta afturhaldsöflin ná fram vilja sínum, þá verður hér einfaldlega stöðnun og viðvarandi atvinnuleysi og/eða landflótti.  Hér er um þjóðarhag að tefla, eins og fyrri daginn. 

Gunnlaugur Snær Ólafsson birti í Morgunblaðinu 3. apríl 2021 fróðlega frétt undir yfirskriftinni:

"Rammaáætlunarferli í uppnámi":

""Starfsumhverfi verkefnisstjórnar og faghópa varð allt annað en að var stefnt í upphafi.  Engan grunaði, að þingsályktunartillaga byggð á vinnu við 3. áfanga rammaáætlunar yrði enn ekki samþykkt af Alþingi, þegar skipunartími verkefnisstjórnar og faghópa 4. áfanga rynni út - fjórum árum eftir skipun", skrifar Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnisstjórnar 4. áfanga, í formála skýrslu hópsins, sem birt var 31. marz [2021]."  

Hér er um að ræða moldvörpustarfsemi sitjandi umhverfisráðherra gagnvart undirbúningi nýrra virkjana á landinu.  Til þessa framferðis hefur hann enga heimild og bregst lögformlegum skyldum sínum með þessum ósvífna drætti á afgreiðslu 3. áfanga. Slík skemmdarverkastarfsemi í stjórnsýslunni er ólíðandi og er út af fyrir sig næg ástæða til að stöðva öll hans mál í þinginu.  Þar ber auðvitað ríkisvæðingu hálendisins hæst. 

"Guðrún segir í formálanum, að vegna þeirrar óvissu, sem skapaðist um framvindu rammaáætlunar, hafi Orkustofnun ekki auglýst eftir nýjum virkjunarkostum fyrstu rúm tvö ár[in] frá skipun verkefnisstjórnarinnar, en hún var skipuð til fjögurra ára 5. apríl 2017."

Vinna faghópa verkefnastjórna Rammaáætlunar hefur ekki haft verulegt raunhæft gildi og yfirleitt verið með slagsíðu í átt til verndunar.  Samkvæmt fráfarandi Orkumálastjóra hefur þessi vinna einkennzt af sparðatíningi gegn því að setja virkjunarkost í framkvæmdaflokk.  Það er engin eftirsjá að þessu þunglamalega ferli, enda ekki raunhæft að taka faglega afstöðu til virkjunar fyrr en drög að virkjunartilhögun hafa verið kynnt á stigi lögformlegs umhverfismats.  Úr því að vinstri græninginn í ráðherrastóli umhverfismála er búinn purkunarlaust að gelda ferlið, er um ekkert annað að ræða en að slá það af. 

"Niðurstaða verkefnisstjórnar vegna 3. áfanga var afhent ráðherra 2016, en þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var lögð fyrir Alþingi 30. nóvember 2020 og var afgreidd til umhverfis- og samgöngunefndar 26. janúar [2021]. 

"Menn eru komnir langt fram úr þeim tímaramma, sem lögin tilgreina.  Það er búinn að vera mikill vandræðagangur síðan 2016, og ég hef tengt þetta við afgreiðslu frumvarpsins um hálendisþjóðgarð.  Mér þykir fráleitt að nálgast málið með þeim hætti, að það sé hægt að leiða hálendisþjóðgarðsmálið til lykta áður en rammaáætlunin er kláruð.  Í henni eru verkefni, sem eru innan fyrirhugaðra þjóðgarðsmarka", segir Bergþór Ólason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar og þingmaður Miðflokksins.

"Ég hef gagnrýnt það, hversu seint rammaáætlun kemur fram.  Við erum á vorþingi síðasta þings kjörtímabilsins og erum núna að fá málið til meðferðar í nefndinni. Það er ekki gott", bætir hann við."

Þarna liggur fiskur undir steini.  Ráðherrann býr til frumvarp um hálendisþjóðgarð sem andsvar við niðurstöðu verkefnisstjórnar um 3. áfanga Rammaáætlunar og ætlar að troða hugðarefni sínu fram fyrir 3. áfanga til að hafa aðstöðu til að kæfa nokkra af þeim virkjanakostum, sem þar eru lagðir til. Nefna má Skatastaðavirkjun. Þetta eru með eindæmum ólýðræðisleg vinnubrögð hjá vinstri græningjanum, sem Alþingi á alls ekki að láta bjóða sér, heldur að setja þennan hálendisþjóðgarð í frost, þar til Alþingi hefur veitzt ráðrúm til að fjalla um alla auðlindanýtingu á þessu svæði, sem nú er í kortunum.

Morgunblaðinu er auðvitað umhugað um, að umhverfisráðherra fylgi gildandi lögum um orkumál, en komist ekki upp með lögbrot, sem felast í að setja sand í tannhjól matsins á því, hvaða orkulindir á að nýta á næstu árum og hverjar ekki.  Forystugrein blaðsins 6. apríl 2021 var valið heiti, sem endurspeglar stöðuna í orkugeiranum:

  "Uppnám í orkunýtingu".

Henni lauk þannig:

"Þegar allt það grjót, sem finna má, er lagt í veg rammaáætlunar, er ekki við því að búast, að hún geti gengið fram, eins og lög gera ráð fyrir.  Augljóst er, að ferlið gengur ekki upp, og að finna þarf nýja, einfaldari og skilvirkari leið til að taka ákvarðanir um vernd og nýtingu orkuauðlinda Íslands."

Þetta er niðurstaða Morgunblaðsins, sem taka má heilshugar undir.  Orkumálin heyra ekki undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, nema Rammaáætlunin.  Orkumálin eru á ábyrgðarsviði iðnaðarráðherra, og það er ófagur bautasteinn yfir starfi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í iðnaðarráðuneytinu á kjörtímabilinu, sem lýkur 2021, að lykilatriði málaflokks á hennar ábyrgð skuli vera í uppnámi.  Slíkt er óviðunandi fyrir varaformann Sjálfstæðisflokksins. 

Ríkulega hlutdeild orkulinda landsins í auðlegð þjóðarinnar má þakka forystu Sjálfstæðisflokksins allt aftur til fyrsta formanns flokksins, Jóns Þorlákssonar, Landsverkfræðings.  Stórvirki unnu síðan dr Bjarni Benediktsson og Jóhann Hafstein á Viðreisnaráratuginum og dr Gunnar Thoroddsen á 8. áratuginum, en hann var iðnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins, þegar stórfelldri hitaveituvæðingu var hleypt af stokkunum í kjölfar tveggja olíukreppa með margföldun olíuverðs sem afleiðingu.  Núverandi iðnaðarráðherra verður að láta verkin tala fljótt og örugglega.

Jón Gunnarsson, ritari Sjálfstæðisflokksins og Alþingismaður, var ötull maður á stuttum ferli sínum sem samgönguráðherra m.m.  Hann hikar ekki við að leggja til atlögu við afturhaldið í landinu til að ryðja framfaramálum landsins braut.  Á þingi hefur hann reynzt skeleggur framfarasinni, og ræður hans og blaðagreinar eru fullar af eldmóði.  Ef sjálfstæðismenn fá aðstöðu til, þarf að setja slíka menn til verka að afloknum næstu þingkosningum.  Jón ritaði stuttan og hnitmiðaðan pistil á ritstjórnarsíðu Morgunblaðsins 7. apríl 2021, mætti gera meira af því og leggja þar fram sitt "manifesto" framfaranna:

"Tækifærin maður".

"Okkur hefur gengið betur en flestum þjóðum að eiga við óværuna, sem dunið hefur á heiminum.  Efnahagsleg áhrif eru mikil, og atvinnuleysi er ömurleg afleiðing.  Við verðum að beita öllum vopnum okkar til að endurheimta efnahagslegan styrk, treysta stöðugleika og skapa ný tækifæri til verðmæta- og atvinnusköpunar."

Þetta er mergurinn málsins hjá Jóni Gunnarssyni.  Þarna krystallast staða stjórnmálanna fyrir kosningarnar í haust.  Undir þessum gunnfána og fálkanum eiga sjálfstæðismenn að berjast.  Við verðum að rífa okkur laus úr fjötrum stöðnunar og setja allar vinnandi hendur og hugi til arðsamra verka. 

"En beztu tækifærin liggja í þeim greinum, þar sem menntun, þekking og reynsla okkar fólks er til staðar.  Má þar nefna fiskeldi, sem í senn hefur gríðarleg byggðarleg áhrif og efnahagsleg fyrir samfélagið allt.  Við stefnum að því að verða fremst meðal þjóða í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og höfum þar alla möguleika. Við eigum líka mikil tækifæri í framleiðslu á eldsneyti svo sem vetni, sem mun leika lykilhlutverk í orkuskiptum.  Orkufyrirtækin eru þegar farin að skoða þessi tækifæri."  

Það er hverju orði sannara, að gjöfulast og eðlilegast er einfaldlega að leggja meiri rækt við þá starfsemi, sem fyrir hendi er.  Sífellt skvaldur stjórnmálamanna um nýsköpun er oft innantómt.  Fyrirtækin sjálf stunda öflugustu nýsköpunina á gömlum meiði, og þarf ekki að orðlengja þá feikilegu aukningu verðmætasköpunar, sem þannig hefur átt sér stað í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði.  Í lokin skrifaði Jón Gunnarsson:

 ""Við viljum græna atvinnubyltingu byggða á nýsköpun, rannsóknum og þróun."  Þetta eru að mínu mati ofnotuðustu frasar í pólitískri umræðu um þessi mál.  Þetta segir ekki nema hálfa söguna.  Þau tækifæri, sem ég hef farið hér yfir, eiga það sammerkt að þurfa mikla orku, græna orku, til að geta orðið að veruleika.  Það þarf að svara því, hvaðan sú orka á að koma.  Frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð gerir það ekki.  Sú stefna, sem þar birtist, er reyndar til þess fallin, að tækifærum til að spila í efstu deild er fórnað."

Þetta er hárrétt mat hjá Jóni.  Það þarf orku til að knýja þá framleiðsluferla, sem koma þarf á laggirnar í kjölfar Kófsins í viðleitni til að endurreisa efnahaginn.  Ef á að slá slagbrandi fyrir öll ný virkjanaáform og orkunýtingarfyrirætlanir, þá mun slíkt strax koma niður á lífskjörum landsmanna. Jón Gunnarsson er líklegur til að höggva á hnút þeirra banda, sem afturhaldið í landinu er búið að reyra utan um orkumál landsmanna.  

 

 


Viðreisn og réttlætið

Formanni og varaformanni Viðreisnar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og dr Daða Má Kristóferssyni, virðist hafa verið mikið niðri fyrir, þegar þau rituðu grein í Morgunblaðið um fiskveiðistjórnun og Stjórnarskrárbreytingar, enda var heitið hátimbrað: 

"Réttlæti og hagkvæmni". 

Þau virtust telja sig hafa gert stóra uppgötvun um það, hvernig haga ætti fiskveiðistjórnun, þannig að slá mætti þessar tvær flugur í einu höggi, réttlætið og hagkvæmnina.  Sannleikurinn er þó sá, að það, sem þau boða, er sama fyrirkomulagið og Evrópusambandið (ESB) reynir að koma á á Innri markaði sínum, þó ekki enn í sjávarútvegi, þótt einstaka aðildarlönd, t.d. Eistland, hafi reynt það með hörmulegum afleiðingum fyrir sjávarútveginn þar, samþjöppun útgerða og gjaldþrotum. 

Núverandi regla ESB um hlutfallslegan stöðugleika á fiskimiðum sem viðmiðun við úthlutun fiskveiðiheimilda er aðeins gildandi vinnuregla ráðherraráðsins, en hún á sér enga stoð í sáttmálum Evrópusambandsins. Lagastoð þessarar vinnureglu, sem væntanlega mundi veita íslenzkum útgerðum forgangsrétt til veiða í lögsögu Íslands, á meðan hún er í gildi, er reglugerð nr 2371/2002.  Hana getur Ráðið afnumið í atkvæðagreiðslu með auknum meirihluta, þ.e. Ísland hefði ekki neitunarvald eftir inngöngu. Ráð Íslands væri algerlega í annarra höndum.  Hvað er svona eftirsónarvert við það ?  Allt túður ESB-sinna hérlendis um, að Íslendingar geti verið öruggir um að halda núverandi fiskveiðiréttindum sínum innan íslenzku lögsögunnar, er algerlega úr lausu lofti gripið og ábyrgðarlaust fals og mjög ámælisvert m.v. það, sem í húfi er.  Með slíku dæmir Viðreisn sig út fyrir hliðarlínuna sem ómerking.   

Samkvæmt grænbókum Evrópusambandsins er þessi úthlutunarregla fiskveiðiheimilda ekki varanleg, heldur er stefnt á markaðsvæðingu aflaheimilda, eins og Viðreisn boðar í sinni stefnuskrá.  Þetta er fastsett í Lissabonsáttmálanum, 2. gr./ 1. og 2. tl., 3. gr. / d-lið og 4. gr. / d-lið.

Þessi stefna ESB þarf engum hérlendis að koma á óvart, enda er þetta samræmd stefna ESB um aðgang að náttúruauðlindum.  ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem hefur eftirlit með framkvæmd EES-samningsins í EFTA-löndunum, gerði á tímum vinstri stjórnarinnar eftir Hrunið athugasemd við ríkisstjórn Íslands um fyrirkomulag úthlutunar vatnsréttinda eða almennt við fyrirkomulag úthlutunar nýtingarréttar auðlinda á landi ríkisins.  ESA taldi íslenzka ríkið einoka þessar orkulindir og halda þeim í óleyfi, m.v. ESB-löggjöfina, frá einkaframtakinu. Þetta skaðaði frjálsa samkeppni að mati ESA.

Árið 2016 varð ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar (utanríkisráðherra þar var Lilja Dögg Alfreðsdóttir) við öllum kröfum ESA í þessum efnum.  Þetta voru hrapalleg mistök og óskiljanlegur afleikur, enda hefur framkvæmdin látið á sér standa fram að þessu.  Það er auðvitað með öllu ólýðræðislegt, að utanríkisráðherra geti skuldbundið íslenzka ríkið gagnvart ESA/ESB til að bjóða upp vatnsréttindi sín á Innri markaði EES.  Hvernig halda menn, að það fari, þegar Landsvirkjun fer að keppa við evrópska risa á meðal einkafyrirtækja á orkumarkaði um réttinn til nýtingar vatnsréttinda í eigu ríkisins ?  Hvernig í ósköpunum datt téðri ríkisstjórn í hug að fallast á þetta ? Þetta er hneyksli. 

Þegar norska ríkisstjórnin fékk sams konar athugasemd frá ESA allnokkru síðar, var hún fljót að hafna þeim afskiptum ESA af ráðstöfunarrétti erfðasilfurs Norðmanna á þeirri forsendu, að úthlutun nýtingarheimilda orkulinda norska ríkisins væri alls ekki á forræði ESB/ESA, heldur óvéfengjanlegur réttur norsku ríkisstjórnarinnar og Stórþingsins.  Við það stendur. Svo  ólíkt hafast frændþjóðirnar að, að með ólíkindum er.  Hvernig stendur á þessum undirlægjuhætti hér ?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og dr Daði Már Kristófersson rituðu sem sagt grein í Morgunblaðið 25. marz 2021, undir heitinu:

"Réttlæti og hagkvæmni".

Hún hófst þannig:

"Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi standa einarðlega vörð um reglur, sem tryggt hafa meiri hagkvæmni í rekstri íslenzks sjávarútvegs en þekkist annars staðar.  Sú verðmætasköpun, sem þetta kerfi hefur skapað, skiptir miklu máli fyrir efnahagslíf landsins.  Hagsmunir heildarinnar og landsbyggðarinnar mæla eindregið með því, að henni verði ekki raskað.  

Ágreiningur okkar við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi snýst um annað.  Þau telja, að fiskimiðin séu eina auðlindin í þjóðareign, þar sem hagkvæmni og réttlæti geti ekki farið saman.  Hér erum við á öndverðum meiði."

 Greinin fór vel af stað, og það er allt rétt, sem ofan greinarskilanna stendur, en þegar plægja á akurinn fyrir auðlindastefnu ESB í dulargervi, þá slær strax út í fyrir höfundunum. Þegar Landsvirkjun var stofnuð árið 1965, lagði ríkið inn ótímabundið sem eignarhlut sinn í félaginu vatnsréttindin í Þjórsá/Tungnaá, sem Títanfélagið hafði safnað og keypt af landeigendum (bændum) í kringum 1920. Þegar virkjanaréttindi ríkisins renna út, dettur engum hérlendis í hug að fara að bjóða öðrum þau til kaups, nema þeim, sem vilja búa í haginn fyrir inngöngu Íslands í ESB.  Hvers vegna ? 

Það er vegna þess, að sé úthlutunin tímabundin, þá verður vinnslukostnaður raforku óhjákvæmilega hærri vegna styttri afskriftatíma mikilla fjárfestinga; viðhald og fjárfestingar í endurbótaverkefnum virkjunar verða hornreka, af því að nýtingarrétturinn er ekki tryggður til frambúðar, og þess vegna eru fjárveitingar til slíkrar virkjunar alger vonarpeningur og betra að verja í annað öruggara. 

Þetta mun síðan koma niður á afhendingaröryggi og skilvirkni virkjunarinnar, sem háð er stuttum nýtingarrétti og markaðsvæðingu hans.  Allt hlýtur þetta að leiða til verri nýtingar frumorkunnar og lakari umgengni við auðlindina, sem er andstætt hag eigandans, þjóðarinnar.  Þar sem íslenzkur raforkumarkaður er fákeppnismarkaður án samkeppniskrafta, sem þrýsta verðinu niður, mun þetta allt til lengdar leiða til hærra raforkuverðs.  Þess vegna er engin glóra í þessari ævintýraför Viðreisnar, enda er hún ekki sniðin við íslenzkar aðstæður.  Það er einhver meinloka að setja þetta í stefnuskrá íslenzks stjórnmálaflokks.  

Hið sama gildir í raun og veru um sjávarauðlindina og orkuauðlindina.  Sjávarútvegurinn er kjölfesta landsbyggðarinnar.  Stjórnfyrirkomulag hans hefur reynzt vel, eins og forysta Viðreisnar viðurkennir í byrjun greinar sinnar. Hvers vegna að umturna því, sem reynzt hefur vel ?  Markaðsvæðing aflahlutdeilda mun hvorki auka réttlæti hérlendis né hagkvæmni sjávarútvegs.  Hún er til þess fallin að auka samþjöppun, því að fjársterkustu fyrirtækin munu lifa þennan darraðardans af, en hin munu lognast út af.  Hver verða fórnarlömbin ?  Það verða sjávarbyggðir meðfram allri strönd Íslands og reyndar hagkerfi landsins alls, því að fé verður dregið út úr greininni til kaupa á aflahlutdeildum, sem þýðir, að of lítið verður eftir til fjárfestinga í nýjustu tækni.  Það leiðir strax til hrörnunar og stórhættu á, að íslenzkur sjávarútvegur verði undir í samkeppninni á alþjóðlegum mörkuðum.  Ekki þarf að spyrja að leikslokum, þegar niðurgreiddar, erlendar útgerðir fara að bjóða í aflahlutdeildir á íslenzkum fiskimiðum.  Það virðist vera lokatakmark Viðreisnar.  Þessi stefna er ekkert minna en þjóðarskömm.

Því er haldið fram, að frjálst framsal aflahlutdeilda hafi aukið ójöfnuð á Íslandi og fært mikil verðmæti á fáar hendur.  Þetta er þröngsýnt og afturhaldssinnað sjónarmið, einhvers konar fortíðarþrá.  Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags gegn Sjálfstæðisflokki í stjórnarandstöðu (flokki sjálfstæðra útvegsbænda) með þingstyrk sínum á Alþingi setti lög um frjálst framsal aflaheimilda 1989, af því að hún fann ekki aðra leið til að rétta hag sjávarútvegsins, sem glímdi þá við mikla aflaskerðingu í kjölfar lögleiðingar aflahlutdeildarkerfisins (kvótaúthlutunar) 1983-1984 til verndar fiskimiðunum.  Þá skiptu aflahlutdeildir um hendur á frjálsum markaði og útgerðum og fiskiskipum snarfækkaði, svo að hagur þeirra, sem fjárfestu í aflahlutdeildum, vænkaðist smám saman.  Hvar er óréttlætið í þessu ? 

Er óréttlátt að bera úr býtum með áræði og dugnaði ?  Það er stórfurðulegt, að þeir, sem annars styðja frjálst framtak, sjái slíkum ofsjónum yfir velgengni annarra. Það er mál til komið að skapa frið um starfsemi sjávarútvegsins, enda greiðir hann meira til samfélagsins en aðrir atvinnuvegir á Íslandi vegna sérsköttunar, og samkeppnisaðilar hans erlendis eru ekki aðeins lausir við þessa sérsköttun (auðlindagjald) í sínu heimalandi, heldur fá þeir veruleg framlög frá hinu opinbera til að stunda sína starfsemi, draga björg í bú til að fæða sína þjóð og viðhalda byggð. 

"Lykillinn að þeirri lausn er enginn galdrastafur.  Hann er einfaldlega sá sami og notaður er til að tryggja hagkvæmi og réttlæti við nýtingu allra annarra náttúruauðlinda, bæði hér heima og annars staðar.

Þessu tvöfalda markmiði má sem sagt ná með því að veita þröngum hópi einkarétt á auðlindum til nýtingar í tiltekinn tíma gegn gjaldi.  Einkaleyfið felur í sér takmörkuð eignarréttindi.  Sanngjarnt gjald fyrir slík réttindi endurspeglast síðan í verði þeirra."

Það, sem þarna er ofan greinarskilanna, er fals, eins og rakið er hér að ofan, og það er ósvífin blekking að halda því fram, að annars staðar í heiminum sé markaðsvætt aðgengi náttúruauðlinda viðtekin venja til að fullnægja hagkvæmni og réttlæti.  Nægir að nefna vatnsorkulandið Noreg sem dæmi.  Þar viðgengst svipað fyrirkomulag og hérlendis með vatnsorkulindirnar, og Norðmenn hafa aftekið með öllu að hlíta valdboði ESA/ESB um breytingu á þessu. Þá tíðkast alls engin markaðsvæðing á aðgengi norskra fiskimiða í anda ESB. Á meginlandinu stendur framkvæmdastjórn ESB í stappi við ein 8 lönd, þar sem vatnsorkuver eru í opinberum rekstri, þ.á.m. Frakkland.  

Það, sem kemur þarna neðan greinarskilanna er í raun og veru áferðarfalleg lýsing á markaðsvæðingu náttúruauðlinda, sem lýst er í grænbókum Evrópusambandsins.  Það eru tvíefld öfugmæli, að við íslenzkar aðstæður geti þetta stefnumið ESB leitt til aukins réttlætis og hagkvæmni fyrir almenning.  Hér er einfaldlega um að ræða aðferð Framkvæmdastjórnarinnar til að veita nýju fjármagni fjársterkra einkafyrirtækja inn í orkugeirann til að létta undir með hinu opinbera við orkuskiptin og almennt til að gera orkugeirann kvikari (dýnamískari) gagnvart breyttu umhverfi.  Viðreisn er á algerlega röngu róli, þegar hún heldur því fram, að hugmyndafræði þessarar markaðsvæðingar sé reist á réttlæti og hagkvæmni.  Hún flaggar hér með innflutta lausn á viðfangsefni, sem er ekki fyrir hendi á Íslandi. Það hlýtur að fara hörmulega (illa ofan í landann). 

 


Að taka upp þráðinn við ESB-smjörklípa ?

Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Nú vill Viðreisn endurræsa viðræður um myntsamstarf og aðlögunarviðræður við Evrópusambandið (ESB).  Þetta er svo ótrúleg pólitísk glópska á kosningaári til Alþingis, að tiltækinu hlýtur að vera ætlað að slá ryki í augu kjósenda - sem sagt smjörklípa til að draga athyglina frá ægilegum vandræðum ESB í kjölfar BREXIT, en Sambandið mátti lúta í gras í viðureigninni við Breta út af bóluefnaútvegun, og ríki Sambandsins og reyndar EFTA-hækjunnar innan EES standa Bretum langt að baki, hvað framvindu bólusetninga við C-19 varðar og þar af leiðandi þróun heimsfaraldursins og hags almennings í kjölfarið. 

Að tengja gengi ISK við EUR með þröngu leyfilegu sveiflubili er undarlegt keppikefli, því að mikill hluti viðskipta Íslendinga innanlands og utan á sér stað með USD.  Nefna má, að raforkuviðskiptin við álverin og bókhald Landsvirkjunar og álfyrirtækjanna er í USD, og svo er um fleiri fyrirtæki.  Eldsneytisinnflutningurinn er í USD og sama gildir um ýmis önnur viðskipti.  Evrópusambandið er tollabandalag, og innan þess er ekki eftirsóknarvert að festast, því að Íslendingar vilja eiga viðskipti vítt og breitt um heiminn, auðvitað einnig við evrusvæðið og önnur ríki Evrópusambandsins, en meiri vöxtur er þó á flestum öðrum svæðum heimsins.

Þetta var ein af mörgum ástæðum þess, að Bretar kusu að yfirgefa ESB.  Þeir standa frjálsir að viðskiptasamningum við önnur ríki, og það vilja flestir Íslendingar líka fyrir sína parta.  Það er nauðhyggja að sækjast eftir að binda trúss sitt við stórríki Evrópu, þar sem stjórnarhættir eru ekki til fyrirmyndar í ESB, og lýðræðið er þar í skötulíki.  Áhrifaleysi okkar um eigin málefni yrði meira en flestir Íslendingar mundu sætta sig við, en næstum ómögulegt virðist vera að komast skaðlaust út úr þessum nána félagsskap. Það er ótrúlega barnalegt af Viðreisnarforystunni að reyna nú að sannfæra landsmenn um, að nú sé rétti tíminn til að gera gangskör að því að bæta hag sinn með því að innlima Ísland í Evrópusambandið og fela þar með embættismönnum og stjórnmálamönnum á meginlandinu öll örlög landsins.  Lýðræðislegt vald almennings á Íslandi færi þá fyrir lítið.  Það er með ólíkindum, að Viðreisn, Samfylking o.fl. skuli ætla að kyrja þennan kveðskap á árinu 2021.  Þeim er ekki sjálfrátt. 

Morgunblaðið er gáttað.  1. apríl 2021 var fyrri forystugreinin með fyrirsögnina:

"Furðutillaga".

"Önnur tillagan [Viðreisnar til þingsályktunar] kveður á um það, að ríkisstjórnin skuli óska eftir viðræðum við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum.  Þessi tillaga virðist, ef marka má texta tillagnanna, eiga að vera viðbragð við ímynduðum bráðavanda í þessum efnum, og samkvæmt henni á ríkisstjórnin að kynna viðræðurnar fyrir þinginu fyrir 1. júní n.k.."

Eins og áður segir fjallar þetta um að festa gengi ISK við EUR.  Það er ígildi fastgengisstefnu, sem hefur aldrei gefizt vel á Íslandi, og stjórnmálamenn hafa gefizt upp á henni, þegar þeir hafa staðið frammi fyrir afleiðingunum, sem eru ósamkeppnishæfir útflutningsatvinnuvegir, samdráttur gjaldeyristekna og fjöldaatvinnuleysi.  Þess vegna höfnuðu Svíar þessu gjaldmiðilssamstarfi SEK og EUR á sínum tíma.  Halda menn, að Íslendingar stæðu eitthvað betur að vígi nú með ISK rígneglda við EUR eftir þriðjungssamdrátt útflutningstekna ?  EUR fór þá úr tæplega 140 ISK í rúmlega 160, sem er breyting um tæplega 20 %, en nú er EUR komin undir 150 ISK.  Flestir gjaldmiðlar hafa verið á rússíbanareið undanfarið ár.  Er ekki ósköp eðlilegt, að verðmæti gjaldmiðils taki mið af viðskiptajöfnuði lands og eigna- skuldastöðu í útlöndum ?

"Hin tillagan, sem þingmennirnir vilja gefa heldur rýmri tíma, kveður á um "endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu", hvorki meira né minna.  Það er gert ráð fyrir að skipa nefnd og hefja mikinn undirbúning að aðild, og svo verði aðildarviðræður bornar undir þjóðaratkvæði eigi síðar en í janúar á næsta ári [2022]."

Óbeint hafnaði þjóðin áframhaldandi aðildarviðræðum við ESB með því að henda Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni grænu framboði út úr Stjórnarráðinu með tilþrifum vorið 2013.  Það er fáránlegt núna í djúpri Kófskreppu að vilja þá eyða tíma, kröftum og fjármagni, í dauðadæmda og útjaskaða hugmynd.  Forgangsröðun Viðreisnar er fyrir meðan allar hellur og sýnir fullkomið ábyrgðarleysi og dómgreindarleysi.  

"Falsrökin, sem fram koma í greinargerð með tillögunum, eru margvísleg og kunnugleg.  Þar segir t.d., að tilgangurinn sé "að styrkja fullveldi landsins", sem er þekkt öfugmæli þeirra, sem berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu, en hafa áttað sig á, að almenningur hér á landi kærir sig ekki um að láta stjórna Íslandi frá Brussel.  Í stað þess að viðurkenna, að fullveldi landsins myndi skerðast verulega við inngöngu í ESB, þá kjósa þessir talsmenn aðildar að rugla umræðuna með því að halda fram hreinni firru í þeirri von, að einhhverjir bíti á það auma agn."

Aðildarsamningur við ESB er ekki þjóðréttarlegs eðlis, heldur felur hann í sér að selja landið undir erlenda löggjöf, sem hefur bindandi og endanlegt lagagildi hér.  Nýtt réttarfar yrði tekið upp, þar sem Alþingi yrði í algeru aukahlutverki.  Dómstóll ESB mundi dæma í fjölmörgum málum Íslendinga, og dómar hans eru ekki áfrýjanlegir.  Það er mjög léleg kímnigáfa fólgin í því og raunar alger uppgjöf að halda því fram, að þetta jafngildi "styrkingu" fullveldis lýðveldisins Íslands.  Þau verða að finna annan betri. 

Íslendingar eiga nákvæmlega ekkert erindi inn í Evrópusambandið, þeir munu ekkert gagn hafa af aðild þar, og hagur þeirra mun versna þar, enda er hagvöxtur evrusvæðisins minni en annars staðar í Evrópu að jafnaði, svo að ekki sé nú minnzt á önnur viðskiptasvæði Íslendinga.  Ef þeir einhvern tímann slysast þar inn, mun verða að áhrínsorðum orðtakið, að þangað leitar klárinn, þar sem hann er kvaldastur.

Mistakaslóði misheppnaðra blýantsnagara í Brüssel, sem ferðinni ráða í þessu gæfusnauða ferlíki, er svo fráhrindandi, að það er sálfræðilegt rannsóknarefni, hvernig heill þingflokkur læmingja getur í alvöru lagt það til á þingi landsins lengst norður í ballarhafi, að mál málanna sé nú aðild þessa lands að ólánsfjölskyldu Frakka og Þjóðverja á meginlandinu og að þjóðin verði að kjósa um, hvort banka beri upp á  þessu ólánsheimili eigi síðar en 2022.  Hvað er að ?

Morgunblaðið telur ekki eftir sér að benda á vankantana, t.d. í forystugrein 26.03.2021:

"Einn bílfarmur - 71 síða !":

"Kommisserar þessa nútíma sovétkerfis, sem klúðruðu bóluefnamálum sínum með sögulegum hætti, náðu hins vegar að bólusetja almenning svo hressilega gegn sér, að það þarf ekki fleiri skammta í bráð gegn þeirri veiru.

En það eru fleiri tilefni til sömu niðurstöðu.  Á það benti Ásgeir Ingvarsson í prýðilegri grein sinni nýlega.  Þar sagði m.a.:

"BBC fjallaði nýlega um það skýrslufargan, sem núna fylgir útflutningi á brezkum fiski til Evrópu.  Mig grunar, að það hafi vakað fyrir blaðamönnunum að sýna, hvers konar reginmistök það voru að ganga úr ESB, en þvert á móti sýnir umfjöllunin, hvað Evrópusambandið er orðið mikið óhræsi.

Í dag þarf, samkvæmt úttekt BBC, að framvísa samtals 71 blaðsíðu af flóknum eyðublöðum og vottorðum til að koma einum bílfarmi af fiski í gegnum tollinn, Evrópumegin.  Að fylla út pappírana kostar ótal vinnustundir, og vitaskuld má ekkert klikka, því [að] minni háttar mistök á einu eyðublaði þýða, að viðkvæm varan situr föst á landamærunum.  Geta brezkir útflytjendur sjávarafurða núna vænzt þess, að vörur þeirra séu u.þ.b. sólarhring lengur að berast í hendur kaupenda í Evrópu.

En það sem Bretar eru að upplifa er einfaldlega það sama og öll heimsbyggðin hefur hingað til þurft að þola af hálfu ESB.  Einu sinni var hún algerlega ómótstæðileg: létt og lipurt bandalag sjálfstæðra þjóða með það göfuga markmið að tryggja frið í álfunni og bæta hag almennings með því að hámarka frelsi í viðskiptum.  Í dag er hún orðin þunglamaleg, eigingjörn og dyntótt, og utan um innri markaðinn er búið að reisa háa múra reglugerða og formkrafa til að verja evrópska framleiðendur fyrir erlendri samkeppni."

Sú gamaldags kaupauðgistefna (merkantílismi), sem þarna er lýst, er runnin undan rifjum Frakkanna, sem eru verstu miðstýringarsinnar Evrópu, og skilja illa mátt valddreifingar og samkeppni.  Fyrir þjóðfélög innan þessa múrs, sem reyndar hefur hlotið þýzka stríðsheitið "Festung Europa" eftir gríðarlegum mannvirkjum  "des Dritten Reiches" á vesturströnd Evrópu, ber slík stefna í sér stöðnun.  Hagkerfin verða ósamkeppnishæf við umheiminn, og þjóðfélögin hrörna.  Íslenzka hagkerfið er allt öðru vísi saman sett en hagkerfi evru-landanna.  Hagsveiflan hérlendis er og verður þess vegna ekki alltaf í fasa við hagsveiflu evrusvæðisins, og peningamálastefna evru-bankans í Frankfurt am Main mun þess vegna hafa tilhneigingu til að auka sveiflur hagkerfisins hér í báðar áttir, sem er ekki eftirsóknarvert. 

Meginstefnumál Viðreisnar eru öll því marki brennd að fela í sér aðlögun Íslands að stjórnkerfi Evrópusambandsins að svo miklu leyti, sem sú aðlögun hefur ekki átt sér stað með aðild landsins að EES.  Verður sýnt fram á þetta í pistli síðar með hliðsjón af Morgunblaðsgrein formanns og varaformanns Viðreisnar um auðlindastjórnun og Stjórnarskrárbreytingar 25. marz 2021.  Þannig fara þar úlfar í sauðargæru, því að auðlindastjórnun ESB felur í sér markaðsvæðingu auðlindanna á Innri markaði Evrópusambandsins. Eftir þann hráskinnaleik mun lítið standa eftir af íslenzkum nýtingarrétti orku- og sjávarauðlinda.    

 

 


Landamærin

Styrr hefur staðið um, hvernig haga beri móttöku farþega með flugi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á varaflugvöllunum eða í höfn á Seyðisfirði, þar sem færeyska ferjan Norræna leggur að. Þar sem dæmi eru um það, að farþegar virði reglur um sóttkví að vettugi, hefur sóttvarnarlæknir lagt til og ríkisstjórnin samþykkt, að f.o.m. 1. apríl 2021 fari allir í sóttkví ríkisins undir eftirliti, sem koma frá s.k. rauðum svæðum í ESB og hvorki hafa verið fullbólusettir né veikzt og náð sér af C-19.  Rauð svæði eru með nýgengi sjúkdómsins, NG>50.  Á íslenzkan mælikvarða er þetta nýgengi hátt, og í ljósi þess, að PCR-prófið er ónákvæmt, reyndar í báðar áttir (26 % sýnagjafa reynast neikvæðir í fyrri skimun, en jákvæðir í seinni), þá er ekki óeðlilegt, að sóttvarnaryfirvöld vilji draga úr líkum á "sóttkvíarleka" veirunnar.  Þá má reyndar spyrja sig, hvort ekki sé eðlilegra við íslenzkar aðstæður að miða við nýgengið 25, en undir því flokkast lönd sem "græn". Hins vegar ber yfirvöldum að leita vægustu úrræða til að ná fram ætlun sinni, sem í þessu tilviki virðist vera veirulaust Ísland.  Þetta stefnumið er óraunhæft.  Við verðum þvert á móti að læra að lifa með veirunni, SARS-CoV-2, eins og öðrum veirum af kórónuættinni, sem valda inflúensu og lungnabólgu. Móðursýkinni verður að linna. 

Vægara úrræði er t.d. ökklaband.  Sóttkví ríkisins felur í sér frelsissviptingu, sem er þungbær, einkum fyrir íbúa hérlendis.  Með henni eru allir undir sömu sök seldir vegna líklega örfárra, sem brugðizt hafa trausti yfirvalda og hundsað sóttkvíarskilyrðin. Er það réttmætt og réttlætanlegt í ljósi núverandi aðstæðna í þjóðfélaginu og stöðu faraldursins á Íslandi, þar sem aðeins 1 liggur á sjúkrahúsi vegna C-19 og alls enginn veldisvöxtur er á útbreiðslunni í samfélaginu ?  Frá sjónarhóli leikmanns í lögum fór heilbrigðisráðherra offari, þegar hún setti reglugerð um sóttkví ríkisins fyrir alla frá svæðum með hátt nýgengi C-19, hún virðist ekki hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni um vægari úrræði, og nýju sóttvarnarlögin heimila hreinlega ekki þessa frelsisskerðingu. Á annan páskadag, 05.04.2021, kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í máli nokkurra komufarþega í sóttkví ríkisins, sem vissulega áttu í önnur hús að venda til að fullnusta sóttkvíarskyldum sínum.  Dómurinn var eðlilegur og skiljanlegur á grundvelli gildandi sóttvarnarlaga.  Nú hefur sóttvarnarlæknir hvatt ráðherra til að leggja fyrir Alþingi frumvarp, sem heimili nauðungarvistun vissra komufarþega í sóttkví ríkisins, óháð aðstæðum þeirra varðandi sóttkvíarúrræði hérlendis.  Jafnframt hefur sóttvarnarlæknir áfrýjað dóminum til Landsréttar.  Í báðum tilvikum fer sóttvarnarlæknir offari og fer með óafsakanlegan hræðslu- og falsáróður, þar sem hann lætur að því liggja, að dómurinn muni setja sóttvarnir hérlendis í uppnám og tefja fyrir afléttingu sóttvarnarráðstafana innanlands. Hann verður þá að láta af störfum, ef hann getur ekki starfað eftir lögum landsins. Þessi málflutningur er fullkomlega óboðlegur, og fyrir neðan virðingu læknisins. Frelsisskerðingarúrræðið, sem dæmt var ólöglegt, er óalandi og óferjandi mannréttindabrot hérlendis og stríðir gegn varðstöðu um einstaklingsfrelsi gegn valdníðslu, sem er undirstaða lýðræðislegra stjórnarhátta, hvorki meira né minna.    

Þeir, sem ekki sæta sóttkví undir eftirliti, fara á sóttkvíarstað í 5 sólarhringa að eigin vali, nema þeir geti framvísað gildu bólusetningar- eða ónæmisvottorði.  Þá fara þeir í eina skimun og smitgát. Allt er þetta gríðarlega viðamikið, kostnaðarsamt og sennilega einsdæmi í heiminum. Sennilega er sósíalistinn Svandís Svavarsdóttir hér að skjóta spörfugl með kanónu og ekki í fyrsta sinn.  Kerfið virkar hamlandi á fjölda ferðamanna hingað og veldur þannig miklu tekjutapi og kostnaði.  Spurning er, hvort yfirvöld hafa nægileg gögn í höndunum til að sýna fram á réttmæti sóttkvíarhótela undir eftirliti. Svo reyndist alls ekki vera við málaferlin í Héraðsdómi. 

Um lögmæti þessara aðgerða hafa birzt opinberlega efasemdir, einkum gagnvart fólki, sem heimilisfast er á Íslandi.  Formaður lögmannafélagsins taldi víst, að fljótlega yrði látið reyna á þetta fyrir dómstólum, og það raungerðist 2. apríl 2021 með framlagningu a.m.k. tveggja kæra á hendur sóttvarnaryfirvöldum.  Veronika Steinunn Magnúsdóttir skrifaði frétt um þetta laugardaginn 3. apríl 2021 í Morgunblaðið:

  "Skorið úr um lögmæti dvalar".

"Ómar [R. Valdimarsson, lögmaður] sagði í samtali við mbl.is í gær heldur hæpið, að reglugerð ráðherrans ætti sér lagastoð:

"Ég á erfitt með að sjá, að það sé lagaheimild fyrir setningu [reglugerðarinnar].  Að setja svona mikið inngrip í líf fólks í reglugerð finnst mér heldur hæpið", sagði hann.  "Ef dómari kemst að því í þessu máli, að þetta sé ólögmæt frelsissvipting, þá er þessi reglugerð bara úr sögunni."

Sigríður Á. Andersen, lögfræðingur og Alþingismaður, sat í þeirri þingnefnd, sem fjallaði um frumvarp til nýrra sóttvarnarlaga, sem Alþingi setti í vetur, veit gjörla, hver fyrirætlunin var með þeirri lagasetningu.  M.v. túlkun hennar eru sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra algerlega úti á túni eða öllu heldur í kargaþýfi með þessa umdeildu reglugerð sína.  Hún er þess vegna í einu orði sagt valdníðsla:

""Umræða í nefndinni um sóttvarnahús hafi verið á einn veg - tryggja ætti borgurunum samastað, ef á þá yrði lögð skylda til einangrunar, en ekki að skylda þá í sóttvarnahús", segir Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem sat í velferðarnefnd, þegar núgildandi sóttvarnalög voru tekin til umfjöllunar."

""Sóttvarnahús voru ekki tekin fyrir sérstaklega í frumvarpi heilbrigðisráðherra til breytinga á sóttvarnalögum að öðru leyti en því, að til þeirra var vísað í þeim tilvikum, er smitaðir menn eru ekki samvinnuþýðir um eigin sóttkví", segir hún.  Þá hafi frumvarpið kveðið á um, að heimilt væri að vista þá í sóttvarnarhúsi."

Af þessu má ráða, að sóttvarnarlækni með minnisblaði sínu og heilbrigðisráðherra með reglugerð sinni hafi orðið á fingurbrjótur, eða með talshætti Norðmanna hafi þau traðkað í salatinu.  Útgáfa reglugerðar um frelsissviptingu fjölda manns án lagastoðar er grafalvarlegt mál og afsagnarsök fyrir ráðherra.  Kemst Svandís Svavarsdóttir upp með hvað sem er í sinni embættisfærslu, án þess að Alþingi grípi til sinna ráða ?  Enginn býst við neinu af fundarstjóranum Katrínu Jakobsdóttur, viðhlæjanda.  

Það er einnig rætt um litakóðanotkun f.o.m. 01.05.2021, en hún er annars eðlis.  Þá er rætt um að aflétta sóttkvínni fyrir óbólusett fólk frá grænum svæðum með því að láta eina skimun duga við komuna hingað og smitgát fram að niðurstöðu sýnatöku.  Það virðist eðlilegt fyrsta skref til afléttingar hafta við komuna frá útlöndum.   

Þann 20. marz 2021 skrifaði ritstjóri Fréttablaðsins, Jón Þórisson, um sóttvarnareftirlit á landamærunum undir fyrirsögninni:

"Þrætuepli".

Forystugreinin hófst þannig:

"Eitt markverðasta skrefið í heimferðinni til þess lífs, sem við þekktum, eru áform stjórnvalda um að opna ytri landamæri og láta för ferðamanna hingað stjórnast af litakóðunarkerfi Evrópusambandsins og jafnframt, að gilt bólusetningarvottorð eða staðfesting á mótefni tryggi aðgang að landinu, án þess að fara þurfi í sýnatöku og sóttkví. 

Þetta hefur verið ýmsum tilefni til gagnrýni og upphrópana.  Fölsuð vottorð gangi kaupum og sölum á netinu, greið leið fyrir ýmis afbrigði veirunnar hingað verði til o.s.frv..  Þetta er eftir öðru, sem tengt er þessum faraldri.  Allt er dregið í efa og véfengt og farvegir fundnir fyrir þrætur. 

Þrætur eru eins konar þjóðaríþrótt okkar.  Við finnum flöt á alls kyns þrætum um allt og ekki neitt.  Og þannig hefur það verið lengi. 

Um þetta atriði segir Laxness í Innansveitarkroniku: "Því hefur verið haldið fram, að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít, sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða, hvenær sem komið er að kjarna máls."

 Takmarkanir á landamærum eru hins vegar ekki tittlingaskítur.  Hvernig við högum málum á landamærunum, ræður úrslitum um hraða efnahagslegrar endurreisnar landsins." 

Með hverri vikunni sem líður verður minni ástæða til að láta efnahagslega endurreisn landsins lönd og leið, þegar hertar sóttvarnarráðstafanir eru ákveðnar.  Vægi sóttvarnarsjónarmiða hlýtur að dvína, eftir því sem bólusettum fjölgar. Frelsissjónarmiðin vega þyngra, eftir því sem höftin vara lengur.  Líklegt er, að túlkun laganna muni taka mið af þessari þróun.  Erlendis er því haldið fram, að núverandi afbrigði veirunnar hérlendis, hið brezka, sé meira smitandi og valdi meiri veikindum, en á sú lýsing við hérlendis ?  Engin rannsókn á smitstuðlum hefur verið birt hérlendis, svo að erfitt er að fóta sig á þróuninni, en hitt er víst, að undanfarnar 2 vikur hefur enginn veldisvöxtur nýsmita verið merkjanlegur hérlendis. Smitstuðullinn er minni en 0 og hin ströngu höft innanlands út í hött.

Það var mjög jákvætt, þegar ráðherra ákvað að mismuna ekki farþegum eftir því, hvort þeir koma frá landi innan eða utan Schengen-svæðisins. Breytingin tók gildi í dag, 06.04.2021. Nú er Bretum að vísu meinað að fara í skemmtiferðir til útlanda, en  það mun ekki vara lengi, því að bólusetningin gengur a.m.k. þrefalt hraðar þar en í EES. Okkur ber að halda jafnræðisreglu í heiðri, og þetta getur orðið þungvægt hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuna og atvinnustigið í landinu í sumar.  Svipaða sögu er að segja af Bandaríkjamönnum. 

    


Fullveldið birtist í mörgum myndum

Þann 24. marz 2021 var haldinn aðalfundur Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál - FSUF í Valhöll.  Þar var kjörinn formaður Jón Magnússon, hrl.  Margt fleira fór þar fram, og voru m.a. haldnar 3 ræður, sem fylgja fundargerðinni og getur að líta í viðhengi þessa pistils.  Vert er að benda sérstaklega á ræðu Ásmundar Friðrikssonar, Alþingismanns, sem lýsti margbreytilegum birtingarmyndum fullveldis, aðallega tengdum atvinnulífinu.  Allt var þar satt og rétt.  

Því verður heldur ekki neitað, að ein af skyldum fullvalda ríkis er að útvega þegnum sínum bóluefni með sjálfstæðum samningum við viðurkennda birgja eftir þörfum.  Að ná hjarðónæmi í heimsfaraldri er heilsufarslega og efnahagslega mikilvægt.   Að útvista þetta verkefni hjá ríkjasambandi, þar sem landið á ekki aðild, er ótrúleg áhættusækni og bæði lágkúruleg og bíræfin hugmynd. 

Reynslan af því að geta nákvæmlega engin áhrif haft á samningana um bóluefnin er líka ömurleg.  Svona hugmynd verður aðeins til hjá vanmetakindum, og það er alvarlegt veikleikamerki, að ríkisstjórnin skyldi vera svo lítilla sanda og sæva að gefa þessi mikilvægu mál frá sér með því að samþykkja þessi ósköp.  Engum þarf þó að koma á óvart metnaðarleysi vinstri grænna í þjóðfrelsisefnum, þegar reynslan frá 2009-2013 er höfð í huga. Það verður þó að svipta hulunni af því, hvaðan þessi tillaga kom, og hvernig og hvers vegna hún var samþykkt.  Var gerð bókun við þessa samþykkt í ríkisstjórn ? 

Ef þessi ósköp hafa runnið ljúflega niður um kokið á öllum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, þá er greinilega ekki vanþörf á að skerpa á fullveldisbaráttunni innan þess flokks, sem stofnaður var til að berjast fyrir fullu sjálfstæði landsins frá gamla sambandsríkinu (nýlenduherrunum) á grundvelli viðskiptafrelsis, atvinnufrelsis og einkaframtaks, allt í anda Jóns Sigurðssonar, forseta.  Hvar er metnaðurinn nú ?  Að dinglast þæg aftan í stórríki Evrópu, eins og Viðreisn hefur nú undirstrikað, að hún vill.

Morgunblaðið hefur verið iðið við að benda á undirmálsvinnubrögð Evrópusambandsins við bóluefnaútvegun og afar gagnrýnið á framgöngu íslenzku ríkisstjórnarinnar í bóluefnamálum gegn C-19 og er það vel, enda í raun um stórpólitískt mál að ræða, sem varðar gríðarlega hagsmuni.  Forystugreinin 23. marz 2021 var helguð þessu máli og hét:

"ESB þolir ekki dagsljósið eða nær að flýja það".

"En ESB var enginn Trump [í bóluefnasamningum] og hörmung uppmáluð var að fylgjast með vinnubrögðunum þar.  Án þess að segja frá því opinberlega gekk íslenzka ríkisstjórnin í ESB í bóluefnamálum, rétt eins og hún svipti íslenzka þjóð fullveldi í raforkumálum.  [Þarna eru 2 fullveldismál dregin fram í dagsljósið og varða bæði sjálfstæðismenn og landsmenn alla miklu - innsk. BJo.] Það hefur ekki verið upplýst, af hverju ríkisstjórnin álpaðist í barnaskap aftan í pilsfald ESB í bóluefnamálum.  Vanmáttugar þjóðir, þegar innlimaðar og komast hvergi, hafa hins vegar afsakanir, þótt dapurlegar séu. 

Embættismenn hér fara létt með veika þriggja flokka stjórn, sem er sjálfri sér sundurþykk og telur sig geta falið það með því að breiða yfir öll átakaefni.  Embættismennirnir eru fyrir löngu gengnir í ESB, eins og sást í Icesave og orkupakkanum.  Forsætisráðherrann hefur í tvígang sagt opinberlega, að "auðvitað gætu Íslendingar tekið frumkvæðið í bóluefnamálum, þrátt fyrir að hafa falið Brussel verkefnið". En hún hefur ekki sýnt neitt frumkvæði, og þetta muldur hefur haft minna en nokkur áhrif."

Þetta "muldur" heyrðist ekki frá þeim stöllum, Svandísi og Katrínu (viðhlæjendum), fyrr en Evrópusambandið var komið með allt niður um sig og gaf aðildarríkjunum frelsi til að reyna sjálf. Hlekkir hugarfarsins eru svo níðangurslegir, að ráðherrarnir hreyfa hvorki legg né lið til sjálfstæðra tilburða til hliðar við ESB, þótt heimild sé til. Þeir máttu allan tímann reyna við aðra birgja en ESB samdi við.  Það heyrist t.d. ekki múkk í Stjórnarráðinu sem svar við tilboði Maríu Zakarova um viðræður um framleiðsluleyfi til Íslendinga á Sputnik V.  Ráðherrunum dettur ekki í hug að nota tímann og hefja viðræður, af því að Lyfjastofnun Evrópu er enn með bóluefnið til rannsóknar.

Hvað skyldu margir stjórnarþingmanna kokgleypa þá tímaskekkju Viðreisnar á formi væntanlegrar þingsályktunartillögu að hefja á ný aðlögunarviðræður við ESB fyrir Ísland ?  Þingflokkur Viðreisnar er haldinn þráhyggju af verstu gerð og þarfnast einskis fremur en ævilangs orlofs frá þingstörfum úr hendi kjósenda. 

Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var haldið áfram að velta fyrir sér dæmalausum undirlægjuhætti við ESB og Lyfjastofnun þess, þrátt fyrir tugmilljónir bólusetninga á Bretlandi með "fyrri skammti", án alvarlegra athugasemda Lyfjastofnunar Bretlands vegna aukaverkana eða ófullnægjandi virkni.  Þessi rörsýn er orðin sjúkleg:

"Tilvikin [um aukaverkanir OAZ-innsk. BJo] voru örfá, sem nefnd voru til sögu um blóðfall, sem hefði komið upp á um líkt leyti og bólusetning á viðkomandi. Ísland, sem aldrei hafði orðið vart við neitt slíkt, hoppaði þegar um borð í þetta sökkvandi fley.  Var það með vísun í vísindi eða einungis ómæld heimska ?  Er virkilega svona lítill munur á "vísindum" og heimsku ?  Kort, sem birt voru um alla Evrópu, sýndu Ísland með yfirskrift um það, að Ísland treysti ekki bóluefninu !  (Yfirskriftin hefði verið betri svona: "Apar eftir, eins og vant er.") Ef raunveruleg ríkisstjórn hefði verið í landinu, hefði slíkt ekki gerzt !

 Hér er fast kveðið að orði í forystygrein, en ekki að ósekju.  Það er eins og íslenzkum embættismönnum og ráðherrum sé fyrirmunað að taka sjálfstæðar ákvarðanir á grundvelli beztu fáanlegu þekkingar, en snúist þess í stað eins og skopparakringlur í kringum hvaða bolaskít sem frá Brüssel berst.

Núverandi sóttvarnarfyrirkomulag er afspyrnu heimskulegt, enda rekst þar hvað á annars horn. Er einhver glóra í því að leyfa fjölda manns að safnast saman við gosstöðvar í Geldingadölum á Reykjanesi, en loka öllum skíðasvæðum á landinu með harðri hendi ?  Hvað hafa mörg C-19-smit verið rakin til skíðasvæða á Íslandi ?  Hver er smitstuðull þar, ef hann þá er stærri en 0 ?  Hver er smitstuðullinn í sundlaugum landsins, í líkamsræktarstöðvum, í verzlunum og hótelum o.s.frv. ?  Eftir rúmlega árs langa söfnun gagna, smitrakningar og sóttkvíar, ættu þessar tölur að vera fyrir hendi, en þær hafa ekki verið opinberaðar.  Það ættu yfirvöld þó að gera hið fyrsta. Á meðan þau gera það ekki, liggja þau undir ámæli um að beita miklu klunnalegri og "kommúnistískari" sóttvarnaraðgerðum en nauðsyn ber til með grafalvarlegum efnahagslegum og félagslegum afleiðingum.  

"Frá tilkynningu um ný bóluefni í nóvember [2020] erum við komin upp í 4 % bólusetningu ! [20.734 eða 5,7 % þjóðarinnar fullbólusettir 31.03.2021-innsk. BJo.] Heilbrigðisráðherra hefur ekki sagt af sér eða ríkisstjórnin öll, sem ætti að vera niðurlút gagnvart þjóðinni.  Samþykkti hún að stöðva notkun bóluefna, sem milljónir og jafnvel milljónatugir höfðu notað, án þess að þeirra afbrigða hefði orðið vart, sem blásin voru upp og hlaupið eftir hér ? Það var a.m.k. ekkert vísindalegt við slíka ávörðun. Hver tók hana þá í raun ?  Hvert hefur afsökunarbeiðni borizt út af tiltækinu ?  Fjölmiðlar gærdagsins vítt og breitt gengu út frá því, að EMA (European Medicines Agency) mundi þann dag lýsa því yfir, að bóluefnið rægða sé öruggt. En nú óttast margir, þ.á.m. sumir rógberanna, að margir hugsi sig um áður en þeir láta bólusetja sig." 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband