Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
11.8.2019 | 15:06
Umrót í Þjóðmálum
Tímaritið Þjóðmál er bæði virðingarvert og fróðlegt ársfjórðungsrit. Þar á Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, fastan samastað, "Af vettvangi stjórnmálanna". Þarna hefur hann í undanförnum heftum hrist úr klaufum og slett úr hala um Þriðja orkupakkann, eins og honum einum er lagið. Er þar þó lítt af setningi slegið og skjóta þessi skrif skökku við málefnalegar greinar tímaritsins. Það er til að æra óstöðugan að elta ólar við téðan Björn, en í sumarheftinu 2019 keyrir þó svo um þverbak, að ekki verður með góðu móti hjá komizt að leiðrétta þennan fasta penna Þjóðmála, lesendanna vegna:
"Í ályktun landsfundarins segir: "Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins." Þessi ályktun snýr ekki að þriðja orkupakkanum þótt andstæðingar hans láti þannig. Í honum felst ekkert valdaframsal."
Báðar fullyrðingarnar á eftir tilvitnuninni í ályktun Landsfundar eru alrangar, eins og nú skal sýna fram á.
Téður Björn hefur lesið rafmagnstilskipun Þriðja orkupakkans, eins og skrattinn Biblíuna, þannig að hann hefur öðlazt á orkupakkanum í heild öfugsnúinn skilning. Hann gerir lítið úr áhrifum hans, og þau helztu séu aukið sjálfstæði Orkustofnunar til bættrar neytendaverndar. Þetta éta þau hvert upp eftir öðru, sem helzt vilja sjá Alþingi aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.
Eftirlits- og reglusetningarstofnun ESB á orkusviði, ACER (Orkustofnun ESB), er með skrifstofustjóra á sínum vegum í hverju aðildarríki, og svo verður einnig í EFTA-löndunum þremur, sem aðild eiga að EES, eftir samþykkt OP#3, nema þar verður ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) milliliður fyrir samskipti við skrifstofustjórann, sem hefur verið nefndur Landsreglari á íslenzku (National Energy Authority). Þessi æðsti valdsmaður raforkumála á Íslandi eftir innleiðingu OP#3, sem verður algerlega óháður íslenzkum stjórnvöldum, en skyldugur til að framfylgja stefnu ESB í orkumálum, mun samkvæmt þessum orkulagabálki ESB (tilskipanir og reglugerðir OP#3) fá 2 meginverkefni:
a) að stuðla að myndun vel virks raforkumarkaðar, sem sé samhæfanlegur við raforkumarkaði ESB.
b) að ryðja öllum hindrunum úr vegi tengingar Íslands við hinn sameiginlega innri raforkumarkað ESB um aflsæstreng.
Verkefni a felur í sér að koma hér á fót markaðsstýringu raforkuvinnslunnar. Hún felur það í sér, að vinnslu virkjananna verður alfarið stýrt eftir því verði, sem markaðsstjóri orkukauphallar úrskurðar, að feli í sér jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar. Framleiðendum í þessu markaðskerfi ber engin skylda til að koma í veg fyrir orkuskort, og horfur á orkuskorti munu þrýsta orkuverðinu upp. Aðalviðmið framleiðendanna verður að hámarka tekjur sínar. Eftir samtengingu íslenzka raforkukerfisins við innri markaðinn (með aflsæstreng), mun verðið til raforkunotenda á Íslandi ekki lengur ráðast af aðstæðum hérlendis, heldur munu íslenzkir raforkukaupendur þurfa að bjóða hærra verð en keppinautarnir erlendis til að fá orku, úr íslenzkum orkulindum eða með innflutningi um sæstreng.
Er ekki deginum ljósara, að ályktun Landsfundarins hittir beint í mark að þessu leyti ? Hann hafnaði frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana ESB, en eftir innleiðingu OP#3 verða yfirráðin yfir íslenzka raforkumarkaðinum í höndum Landsreglara, sem er fulltrúi ACER, Orkustofnunar ESB. Þeir, sem þræta fyrir þetta, hafa annaðhvort fallið í freistni orðhengilsháttar eða ekki áttað sig á merkingu OP#3.
Felur þessi innleiðing á markaðsstýringu orkuvinnslunnar að hætti ESB í sér valdframsal ? Já, það er enginn vafi á því. Þetta verður þvingað ferli, sem hugsanlega verður innleitt í óþökk yfirvalda, sem kunna að kjósa fremur þá orkulindastýringu, sem þróuð hefur verið um árabil innan vébanda Landsvirkjunar, en þarf að innleiða á landsvísu, ef fullur árangur á að nást (með lagabreytingu). Þetta felur í sér að stofna til orkulindaskrifstofu, t.d. innan þess hluta Orkustofnunar, sem ekki mun heyra undir Landsreglara. Þessi skrifstofa þarf að fá gögn frá öllum helztu virkjunum landsins, og hún þarf að hafa vald til að takmarka minnkun vatnsforðans í miðlunarlónum til að draga úr hættu á orkuskorti og sömuleiðis til að halda álaginu á gufuforðabúr virkjaðra jarðgufusvæða innan vissra marka til að endingartími forðabúrsins verði sem lengstur. "Orkulindastjóri" þarf líka að geta beitt hvötum til að hefja nýja virkjun í tæka tíð til að forða aflskorti.
Það er mjög líklegt, að Landsreglari/ESA/ACER muni telja þetta óleyfilegt inngrip ríkisvaldsins í frjálsan markað, þar sem óheft fjórfrelsið á að ríkja, svo að ríkisstjórn og Alþingi muni ekki komast upp með nýja lagasetningu, sem nauðsynleg er, til að orkulindastýring Landsvirkjunar verði útvíkkuð á landsvísu.
Þessi rökleiðsla varpar ljósi á, að innleiðing OP#3 felur í sér valdframsal, sem bannað er í tilvitnaðri Landsfundarályktun sjálfstæðismanna frá marz 2018. Hér er reyndar um að ræða valdframsal til erlendrar stofnunar, sem bindur hendur stjórnvalda og löggjafa og kallast þess vegna fullveldisframsal.
8.8.2019 | 15:06
Þingmenn skoði hug sinn til Orkupakka #3
Iðnaðarráðherra, sem er ábyrg fyrir orkumálum landsins, hefur látið í ljós, að samþykkt OP#3 sé eðlilegt framhald á lögleiðingu OP#1 og OP#2 hérlendis og að aðaláhrif hans verði að auka sjálfstæði Orkustofnunar (OS) til að framfylgja bættri neytendavernd fyrir raforkukaupendur.
Þetta er allt saman kolrangt hjá ráðherranum, og þegar af þeirri ástæðu verða þingmenn að staldra hér við og hugsa sinn gang. Bæði utanríkisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hafa tekið skakkan pól í hæðina í þessu máli og eru í þann veginn að leiða þjóðina í hinar verstu ógöngur með glámskyggni sinni. Styrkur lýðræðisþjóðfélagsins er, að slík grundvallarmistök ráðherra, þingmanna og stjórnmálaflokka þeirra, draga pólitískan dilk á eftir sér. Þess sjást nú þegar merki, sem þó eru smáræði hjá því, sem búast má við, ef allt fer á versta veg.
Grunnstefið í orkustefnu Evrópusambandsins (ESB) er að búa í haginn fyrir og þróa innri raforkumarkað með samtengdum og snurðulaust samrekanlegum raforkukerfum aðildarlanda. OP#1, sem var innleiddur hér með raforkulögum 2003, átti að leggja grundvöll að frjálsri samkeppni á sviði raforkuvinnslu og -sölu; með OP#2, innleiddum hér 2008, átti (valfrjálst þó) að koma á laggirnar markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, en Landsnet, sem er með verkinn, hefur enn ekki látið af því verða, heldur er hér orkulindastýring Landsvirkjunar við lýði að mestu leyti, þar eð Landsvirkjun er ríkjandi á markaðinum.
Með OP#3 verður sú meginbreyting, að á grundvelli Lissabon-sáttmálans, sem er stjórnarskrárígildi ESB, breytist orkusamvinna aðildarlandanna í Orkusamband ESB með stofnsetningu yfirþjóðlegrar Orkustofnunar ESB-ACER. Stofnað var til valdamikils embættis á orkusviði í hverju landi, Landsreglara, sem tekur við eftirlits- og reglusetningarskyldum og -völdum orkuráðuneyta og orkustofnana í hverju landi og verður undir beinni stjórn ACER með ESA sem millilið fyrir EFTA-löndin.
Á Íslandi er ætlunin að hafa þetta nýja embætti, sem á að verða óháð íslenzkum stjórnvöldum, innan vébanda OS, og jafnvel gegni Orkumálastjóri þessu starfi. Hann þarf þá að þjóna tveimur herrum, sem býður upp á óhjákvæmilega hagsmunaárekstra. Í Noregi verður þetta sjálfstætt embætti, enda óvíst, að ESB sætti sig við samkrull trúnaðar við landsyfirvöld og við ACER í sömu persónu. Það er ekki hægt að þjóna tveimur herrum. Stjórnlagalega orkar Landsreglari tvímælis hérlendis, og það birtist enn skýrar með OP#4, en látum það liggja á milli hluta hér.
Til að gera langa sögu stutta má segja, að Landsreglari hafi tvö meginhlutverk samkvæmt OP#3:
Í fyrsta lagi ber honum að aðlaga íslenzka raforkumarkaðinn fullkomlega að innri raforkumarkaði ESB með því að koma hér á laggirnar markaðsstýringu raforkuvinnslunnar.
Þetta óhefta markaðskerfi mun hafa slæmar hliðarverkanir vegna sérstöðu íslenzka orkukerfisins. Þetta ESB-kerfi er hannað til að sjá neytendum fyrir nægu afli á hverjum tíma, og á meginlandi Evrópu (og á Bretlandi) er það hlutverk eldsneytismarkaða að sjá orkuverunum fyrir nægri frumorku.
Hér á landi verður aftur á móti ætlazt til þess af þessu kerfi, að það sjái bæði fyrir nægri frumorku (vatn í miðlunarlónum og gufa í virkjuðum jarðhitageymum) og nægu rafafli. Markaðsstýring raforkuvinnslu er ófær um það. Eftir innleiðingu hennar hér eykst þess vegna hættan á orkuskorti verulega, og hér verður viðvarandi seljendamarkaður, af því að orkuvinnslufyrirtækin munu ekki sjá sér hag í að auka framboð orku mikið í einu.
Þetta ástand er augljóslega andstæða neytendaverndar, því að hætta á orkuskorti þýðir hækkun raforkuverðs í þessu kerfi og tíðar skerðingar eða afnám á framboði ótryggðrar orku, sem er ódýrari en forgangsorka. Hér þarf í staðinn sérsniðna orkulindastýringu fyrir allt landið (öll helztu orkuvinnslufyrirtækin), en Landsreglarinn mun vafalaust banna hana, þar sem hún felur í sér óleyfilegt inngrip hins opinbera í frjálsan samkeppnismarkað. Þar á hvert fyrirtæki að leitast við að hámarka tekjur sínar, og enginn ber ábyrgð á því, hvort næg orka verður fyrir hendi í kerfinu í næstu viku.
Með orkulindastýringu raforkuvinnslunnar er ekki verið að finna upp hjólið, því að Landsvirkjun hefur lengi þróað slíkt kerfi innan sinna vébanda. Það má byggja á þeim grunni og útvíkka kerfið fyrir allt landið. Hætt er við, að Landsvirkjun muni afleggja sína orkulindastýringu, ef/þegar Landsreglari kemur hér á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar, og undir Landsreglara, fjórfrelsinu og beitingu ESA á Þjónustutilskipun 123/2013 er líklegt, að fljótlega kvarnist út úr Landsvirkjun, sem verður raforkukaupendum sízt til hagsbóta.
Hitt meginhlutverk Landsreglara samkvæmt OP#3, eftir að hafa aðlagað hér raforkumarkaðinn að innri markaði ESB, verður að ryðja brott öllum hindrunum úr vegi raunverulegrar tengingar landsins við innri markað ESB.
Þar með vinnur hann að aðalstefnumiði ESB á orkusviði, þ.e. að samtengja öll lönd Orkusambandsins með öflugum hætti á einum markaði, þar sem fjórfrelsið ríkir. Lönd, sem kunna að vera aflögufær um raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, vekja alveg sérstakan áhuga Framkvæmdastjórnarinnar, eins og berlega kemur fram í OP#4. Þessu til sannindamerkis varðandi Ísland er, að ESB hefur valið "Ice-Link"-verkefnið, sem er um 1000 MW sæstrengur á milli Íslands og Skotlands, inn á "Union List of Projects of Common Interest" eða Sambandslista verkefna sameiginlegra hagsmuna. Inn á þessa skrá Evrópusambandsins fara aðeins verkefni af Kerfisþróunaráætlun ESB, sem hæstu einkunn hljóta í ströngu matsferli ENTSO-e, Samtaka evrópskra kerfisstjóra, þar sem fulltrúi Landsnets á sæti.
Það má þannig slá því föstu, að á meðal stefnumarkenda ESB sé ótvíræður áhugi á "Ice-Link". Það er vafalaust áhugi hjá brezka Landsreglaranum á þessu verkefni, því að hann hefur hvatt mjög til lagningar "NorthConnect", 1400 MW sæstrengs á milli Hörðalands í Vestur-Noregi og Petershead á Skotlandi. Vegna hitans í norsku sæstrengsumræðunni bað ríkisstjórnin norsku Orkustofnunina, NVE, um að fresta afgreiðslu umsóknar um "NorthConnect" fram yfir sveitarstjórnarkosningar í september 2019 í Noregi.
Komi upp ágreiningur á milli íslenzka og brezka Landsreglarans um "Ice-Link" eða þess íslenzka og írska, ef Bretar ganga úr ACER, sem er spurning, þótt ekki sé lengur spurning um BREXIT 31.10.2019, þá mun ACER úrskurða um þann ágreining. Eftir að Alþingi hefur innleitt OP#3 í íslenzk lög, og úrskurði ACER, að sæstrenginn skuli leggja, verður engin leið fyrir íslenzk yfirvöld til að hindra lagningu slíks strengs og tengingu við íslenzka meginflutningskerfi raforku án þess að baka ríkissjóði stórfellda skaðabótaskyldu, eins og m.a. Arnar Þór Jónsson, dómari hefur bent á. Hún getur numið tugum milljarða ISK, sem verður útreiknað tjón sæstrengsfjárfesta, sem orðið hafa hlutskarpastir í útboði ACER, yfir eitthvert árabil. Við þetta bætist hið pólitíska tjón, því að slík málaferli munu líklega hafa slæm áhrif á EES-samstarfið og forkólfum ESB mun þykja sem Íslendingar hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar, sem þeir tókust á hendur við innleiðingu OP#3.
Í þessu sambandi er vert að hafa í huga nýlega málshöfðun Framkvæmdastjórnarinnar gegn ríkisstjórn Belgíu fyrir ESB-dómstólinum fyrir ranga innleiðingu OP#3. Þar ætlaði ríkisstjórn Belgíu sér m.a. að eiga síðasta orðið um millilandatengingar.
Þess má að lokum geta, að samkvæmt tilskipun 2019/944, gr. 3, sem er í OP#4, eiga aðildarlöndin að tryggja, að innlend löggjöf hindri ekki með "með óeðlilegum hætti" nýjar millilandatengingar fyrir raforku. Allt ber hér að sama brunni. Málatilbúnaður ríkisstjórnar Íslands í orkupakkamálinu stendur á brauðfótum .
1.8.2019 | 11:01
ESB leggur áherzlu á einkavæðingu vatnsorkuvera
Sérstakt og samstillt átak er nú í gangi hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) og spegilmynd hennar EFTA-megin, ESA, til að sá hluti virkjanageirans í EES, þar sem ríkiseign virkjana er mest áberandi, vatnsorkuverin, hverfi sem mest úr ríkiseign og einkaframtakið fái tækifæri á jafnréttisgrundvelli að bjóða í þessi vatnsréttindi, þegar þau renna út, og hefur þá verið miðað við stuttan tíma samanborið við endingartímann eða 30 ár. Eigendaskipti af þessu tagi og stytting bókhaldslegs afskriftatíma ein og sér eru til þess fallin að hækka raforkuverð frá þessum virkjunum, en ESB fórnar þarna neytendaverndinni á altari vaxandi fjárfestingarþarfar vegna endurnýjanlegra orkulinda. Stækkun vatnsorkuveranna hangir á spýtunni.
Tvennt vakir fyrir ESB-mönnum í þessu sambandi. Í fyrsta lagi að framfylgja orkustefnu ESB, sem m.a. kveður á um frjálsa samkeppni í raforkuvinnslunni án nokkurra ríkisafskipta. Í öðru lagi að fá aukið fjármagn inn í eignarhaldsfélög vatnsorkuveranna til að fjárfesta í stækkun orkuveranna, sérstaklega að stórauka þar uppsetta aflgetu, sem sé þess þá umkomin að fylla upp í framleiðslulægðir endurnýjanlegrar orku, sem valda aflskorti á virkum dögum á meginlandi Evrópu, sem nú þarf að bæta upp með rafafli frá orkuverum knúnum jarðefnaeldsneyti.
Í júlí 2018 birtist fróðleg grein í "Le Monde diplomatique" um baráttu Frakka við framkvæmdastjórn ESB út af útboði á vatnsréttindum. Hún hét:
"Baráttan um vatnið" og í undirfyrirsögn stóð:
"ESB krefst þess, að Frakkland skapi samkeppni um vatnsaflið. Opinber rekstur á vatnsorkulindum Frakklands hefur lengi verið kostur fyrir hagkerfi landsins og náttúruna. Nú hefur ESB ákveðið, að vatnsorkulindirnar verði einkavæddar."
Þessi barátta Frakka við framkvæmdastjórn ESB hefur tekið á sig mynd verkfallshótana og verkfalla starfsmanna vatnsorkuvera til að knýja stjórnvöld til að standa í lappirnar gagnvart Framkvæmdastjórninni. Líklegt má telja, að hún vísi nú þessum ágreiningi til ESB-dómstólsins. Dómur hans mun vísa EFTA-dómstólinum veginn, ef/þegar hann fær sams konar deilumál norsku ríkisstjórnarinnar og ESA til úrskurðar. Ekki er vitað til, að íslenzka ríkisstjórnin hafi gert nokkurn ágreining við ESA út af bréfi þessarar Eftirlitsstofnunar EFTA, dags. 20. apríl 2016 til Íslands. Er slíkt ráðleysi og sofandaháttur með miklum eindæmum.
Électricité de France (EdF) var stofnað við þjóðnýtingu raforku- og gasvinnslunnar í Frakklandi 1946. Frá 10. áratuginum hefur verið dregið úr veldi fyrirtækisins með lögum frá Brüssel, sem innleidd eru í París. Árið 1993 samþykkti ríkisstjórn jafnaðarmannsins Pierre Bérégovoy s.k. Sapin-lög að kröfu Brüssel, sem takmörkuðu gildistíma virkjunarleyfa, og innfærði jafnframt kröfuna um útboð og samkeppnisvæðingu geirans.
Árið 2004 varð EdF hlutafélag, og það gat þá í raun ekki lengur forðazt samkeppni, þegar virkjanaleyfi rann út, en allt þar til nú hefur samt verið komið í veg fyrir einkavæðingu vatnsorkuvera í Frakklandi með mismunandi hætti.
Þann 22. apríl 2010 tilkynnti þáverandi umhverfis- og orkuráðherra, Jean-Louis Borko, að 51 útrunnið virkjanaleyfi, sem jafngiltu 20 % af frönskum vatnsorkuverum, skyldi endurnýja með útboði. Ríkisstjórn Francois Fillons tvísté á milli skipana frá Brüssel og harðrar andstöðu verkalýðsfélaga starfsmanna EdF, og bauð virkjanaleyfin aldrei út. "Nicolas Sarkozy og Francois Fillon efndu ekki loforð sitt við framkvæmdastjórn ESB um að opna lúgurnar fyrir frjálsri samkeppni í staðinn fyrir að fá að stýra raforkuverðinu áfram", sagði Marc Boudier, formaður Félags óháðra franskra raforku- og gasvinnslufyrirtækja, Afieg; stærsti þrýstihópur orkugeirans með mörg dótturfyrirtæki stórra evrópskra orkusamstæðna innan sinna vébanda. Það er algerlega í blóra við orkustefnu ESB og lög um frjálsa samkeppni fyrir vörur (og þjónustu), að ríkið stýri raforkuverðinu, og sýnir, að París er á allt annarri bylgjulengd en Brüssel í þessum efnum.
Umhverfisráðherrann 2012-2013, Delphine Batho, lagðist gegn markaðsvæðingunni og bætti við, að hún vildi halda í opinbert vatnsorkufyrirtæki (EdF). Markaðsvæðingarmenn gerðu þegar gagnárás á hana. Batho var tekin fyrir af Pierre Moscovski - sem nú er fjármálaframkvæmdastjóri ESB - og hætti við áhættusamt verkefni sitt um vissa þjóðnýtingu raforkuvinnslunnar. Hún er nú þingmaður flokksins Génération Écologie, sem er umhverfisverndarflokkur. Hún er þar formaður núna og gerir eftirfarandi athugasemd við aðgerðir frönsku ríkisstjórnarinnar í þessu máli undanfarin 20 ár.
"Frakkland hefur ekki hafið báráttu, nema þá með hangandi hendi, fyrir því að varðveita opinbera stjórnun á vatnsorkunni. Franska ríkið felur sig á bak við framkvæmdastjórn ESB, en það er það sjálft, sem er ábyrgt fyrir löggjöfinni, allt frá Sapin-lögunum."
Framkvæmdastjórnin krefst þess, að útrunnin virkjanaleyfi með "fljótandi gildistíma" (leyfin framlengjast sjálfvirkt) fyrir um 30 vatnsorkuver verði strax endurnýjuð á grundvelli útboðs. Þann 7. maí 2018 lét hún 8 ríkisstjórnir ESB-landa vita formlega, að "bæði löggjöfin og framkvæmd hennar hjá frönskum og portúgölskum yfirvöldum brjóti í bága við ESB-réttinn".
Þann 22. október 2015 sendi Framkvæmdastjórnin frönsku ríkisstjórninni bréf, þar sem fram kom, að Framkvæmdastjórnin teldi, að viðhald óbreytts ástands skapaði ójafnræði á milli markaðsaðila varðandi aðgang að vatnsauðlindinni fyrir raforkuvinnslu, sem gefi EdF kost á að varðveita eða styrkja "... ríkjandi stöðu sína á raforkumarkaði Frakklands."
Fram að árinu 2023 mun 1/3 af frönskum leyfum fyrir vatnsorkuvirkjanir renna út, þ.e.a.s. fyrir 150 miðlunarlón. Ráðherra grænna orkuskipta, Francois de Rugy, hefur gefið í skyn, að "í haust", þ.e. haustið 2018, muni markaðsvæðingin hefjast, en ríkisstjórnin gæti mætt miklum andbyr á þinginu, og það reyndust orð að sönnu. Hubert Wulfranc frá franska kommúnistaflokkinum lagði 5. apríl 2018 fram þingsályktunartillögu, þar sem þess er krafizt, að ríkisstjórnin biðji framkvæmdastjórn ESB um að undanskilja vatnsaflið frá markaðsvæðingu, eins og Þýzkaland gerði eftir mikil mótmæli alþýðu þar í landi. 113 þingmenn af 577 frá öllum þingflokkunum skrifuðu undir þingsályktunina.
"Hugmyndina um, að markaðsvæðing sé alltaf hagstæð, ber að endurskoða. Það er mikilvægt, að þingið taki fast á vatnsaflsmálinu og hefji baráttu við Brüssel. Landið verður að vakna", sagði Julien Aubert, varaformaður hins íhaldssama flokks "Lýðveldissinnanna", sem venjulega styður frjálsa samkeppni á markaði á flestum sviðum, á sameiginlegum blaðamannafundi ábekinga þingsályktunartillögunnar.
Þessi frásögn í "Le Monde diplomatique" er mjög athyglisverð og sýnir, að afstaða fólks til vatnsréttindanna er svipuð í Þýzkalandi, Frakklandi, Noregi og á Íslandi og áreiðanlega víðar. Andstæðingar markaðsvæðingar afnotaréttar vatnsorkuauðlindarinnar koma bæði úr röðum frjálslyndra markaðssinna á flestum sviðum og kommúnista.
Á Íslandi sannast þetta með markaðssinnana á sjálfstæðismönnum, en þeir eru flestir andvígir því að leiða orkustefnu ESB til öndvegis á Íslandi með innleiðingu hvers orkupakkans á fætur öðrum í landsrétt. Vilja þeir nú spyrna við fótum. Enn halda vinstri grænir sig við hrossakaupin, sem þeir gerðu við hina ríkisstjórnarflokkana, þar sem þeir skuldbundu sig til að styðja OP#3 gegn stuðningi við fóstureyðingafrumvarp Svandísar. Til að bjarga sér fyrir horn verða þeir nú að gera hinum stjórnarflokkunum grein fyrir því, að þeir verði að hverfa frá stuðningi sínum við OP#3 í ljósi upplýsinga um orkustefnu ESB, sem leiðir til skefjalausrar einkavæðingar raforkuvinnslunnar. Með svipuðum hætti ætti Framsóknarflokkinum að vera farið, ef allt er með felldu þar á bæ.
29.7.2019 | 11:10
Glámskyggni orkupakkasinna á Íslandi
Því er haldið fram í fúlustu alvöru í opinberri umræðu á Íslandi, að innleiðing Orkupakka #3 (OP#3) muni engu breyta fyrir Íslendinga, og síðan er hausinn bitinn af skömminni með því að bæta við, að OP#3 muni hins vegar miklu máli skipta fyrir Norðmenn. Jafnvel iðnaðarráðherra, sem ætti að vita betur, heldur því blákalt fram, að OP#3 sé "bara" framhald af OP#2 í viðleitni ESB til að auka við neytendavernd. Með þessum málflutningi hefur iðnaðarráðherra sett á svið leikverk fáránleikans og dæmt sig úr leik sem ábyrgur stjórnmálamaður, sem hægt er að treysta og taka mark á. Væri henni og öðrum fylgispökum áhangendum OP#3 innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins nú hollast í sálarháska sínum að lesa vel og vandlega Morgunblaðsgrein Arnars Þórs Jónssonar, dómara, þann 27. júlí 2019, sem nefnist "Fullveldið skiptir máli", en þar er um að ræða sígild andmæli vel upplýsts og hugsandi manns við því ólýðræðislega ferli, sem EES-samningurinn býður upp á, og nú krystallast í stórmáli, OP#3. Meðferð stjórnvalda á þessu máli er í hrópandi mótsögn við réttlætistilfinningu þorra fólks og rótgrónar hugmyndir um lagasetningu í réttarríki, sem Arnar Þór rekur allt aftur til ársins 930.
Sú grundvallarbreyting frá OP#2 felst í OP#3 að stofnsetja Orkustofnun ESB, ACER, sem á að einbeita sér að eflingu millilandatenginga og fær til þess töluverðar valdheimildir, eins og lesa má um í skýrslu Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar, og þær munu síðan aukast verulega með OP#4, eins og sést af minnisblöðum höfundar þessa pistils um OP#4 í viðhengi með honum.
ACER fær líka völd innanlands, einkum yfir Landsneti, og yfir raforkumarkaðinum, sem á að laga að Innri markaði ESB. Þá leiðir samþykkt OP#3 til stofnunar embættis Landsreglara ("National Energy Authority") undir stjórn ACER/ESA, sem verður algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum og hagsmunaaðilum, en verður samt æðsta yfirvald raforkumála í landinu og tekur við mörgum skyldum Orkustofnunar og Iðnaðarráðuneytis á orkumálasviði.
Meginskyldur Landsreglara verða 2 samkvæmt OP#3:
1. Að stuðla að myndun vel virks markaðar
2. Að ryðja öllum hindrunum úr vegi tengingar Íslands við Innri raforkumarkað ESB um sæstreng
1. skylda Landsreglara felur í sér, að markaðurinn mun stjórna allri raforkuvinnslu á Íslandi á grundvelli raforkuverðs, og vinnslufyrirtækin munu þá leitast við að hámarka tekjur sínar án tillits til þjóðarhagsmuna hvað þá neytendaverndar, sem felast í orkuöryggi, t.d. að koma í veg fyrir tæmingu miðlunarlóna að vetri áður en leysingar hefjast að vori, með samræmdri orkulindastýringu fyrir allt landið. Þetta kerfi verður síður en svo neytendavænt, því að hér mun strax myndast seljendamarkaður, eins og við sjáum þegar glitta í, þar sem orkuvinnslufyrirtækin munu stýra framboðinu m.v. að hámarka tekjur sínar. Það er mikil glópska og/eða yfirdrepsskapur að halda því fram, að Landsreglarinn muni auka hér neytendavernd. Slíkt munu reynast hér alger öfugmæli. (Kjósendur iðnaðarráðherra þurfa endilega að fá skýringu á þessari gerð neytendaverndar beint frá henni sjálfri.)
2. skylda Landsreglarans mun án vafa leiða til lagningar aflsæstrengs til útlanda innan áætlaðs tíma fyrir Ice-Link á forgangsverkefnaskrá ESB um millilandatengingar, sem er 2027.
Viðskiptahugmyndir, sem hingað til hafa verið viðraðar um aflsæstreng, þ.e. annaðhvort að virkja framleiðslugetu 5-10 TWh/ár fyrir stöðugan útflutning um einn eða tvo sæstrengi eða að virkja lítið og flytja út afgangsorku á dýrum tímum í Evrópu, eru orðnar úreltar með orkustefnu ESB og innleiðingu OP#3-4 á Íslandi. Hvernig víkur því við ?
Raforkuvinnsla með vindmyllum í Evrópusambandinu nemur nú um 13 % af heildar raforkuvinnslu þar, og markmið ESB er 28 % árið 2030 og enn meir árið 2050, þegar ESB ætlar að verða kolefnishlutlaust. Af því að vindmyllur (og sólarhlöður) framleiða raforku slitrótt af náttúrulegum ástæðum, sárvantar ESB afl úr umhverfisvænum orkulindum til að fylla í skarðið að deginum, þegar lygnt er. Hugmyndin er sú, að Noregur og Ísland, "die umweltfreundliche, europäische Batterien", hjálpi til við að fylla upp í þetta skarð, þótt meira þurfi þar til að koma, og þar munu vatnsorkuver meginlands Evrópu þjóna veigamiklu hlutverki eftir gríðarlega aukningu vélaafls þeirra.
Til þess að Ísland geti tekið þátt í þessum leik, þarf að auka aflgetu íslenzkra virkjana feiknarlega, a.m.k. að tvöfalda uppsett afl í núverandi virkjunum og virkja fleiri vatnsföll með aflgetu í yfirstærð, svo að virkjanirnar geti sent frá sér miklu meira afl í nokkrar klukkustundir í senn en svarar til mögulegs meðalafls í virkjun vegna takmarkaðs miðlunarforða vatns. Jarðgufuverin henta rekstrarlega illa í þetta, því að þau eru tregstýranleg og þurfa að mestu fast álag til að virka vel. Þessi rekstrarháttur vatnsorkuvera er umhverfislega mjög gagnrýniverður hérlendis.
Til þess að þessar hugmyndir hugmyndafræðinga ESB á orkusviði raungerist, þarf að auka mjög fjárhagslegan styrk og fjárfestingarlöngun vatnsorkufyrirtækja í eigu ríkisins. Þar er kominn grundvöllurinn að ásókn Evrópusambandsins í einkavæðingu vatnsorkuveranna. Til að efla þennan fjárfestingarþrótt enn meir á Íslandi, mun ACER/Landsreglari sennilega beita sér fyrir uppskiptingu Landsvirkjunar, svo að erlendir fjárfestar fái hér enn meira svigrúm til að fjárfesta í vatnsorkuverum. Til þess þarf ekki annað en kæru til ESA um brot á samkeppnisviðmiðunum ESB (allt of stór markaðshlutdeild). Með uppskiptingu Landsvirkjunar rýkur öll viðleitni til orkulindastýringar í þágu orkuöryggis og sanngjarns raforkuverðs fyrir neytendur út í veður og vind.
Vatnsréttindin og vatnsorkuvirkjanir verða boðin út á EES-markaðinum til að brjóta einkavæðingunni leið. Þjóð, sem telur tæplega 0,4 M manns, mun ekki hafa roð við tæplega 500 M manns á þessum frjálsa markaði. Vatnsorkuvirkjanirnar munu hver á fætur annarri lenda í eigu erlendra stórfyrirtækja á sviði raforkuvinnslu. Þau munu halda sínum réttindum í 30 ár, og ávöxtunarkrafa þeirra verður miklu hærri en nú tíðkast í raforkuvinnslu á Íslandi.
Fjárfestingarþörfin verður gríðarleg, og Landsnet verður jafnframt skyldað til að leggja öflugar loftlínur frá virkjununum og niður að lendingarstað sæstrengjanna. Þetta stendur svart á hvítu í OP#4, en OP#3 er eins konar bráðabirgða útgáfa af honum. Raforkuverð á Íslandi hækkar óhjákvæmilega upp í evrópskt verð (verð umhverfisvænnar orku í Evrópu að frádregnum flutningskostnaði). Hið sárgrætilega er, að þetta verður allt hægt að gera í óþökk þjóðarinnar á grundvelli lögleiðingar orkupakkanna frá ESB. Þar á bæ sitja menn ekki auðum höndum undir forystu Martins Selmayr, aðstoðarmanns forseta Framkvæmdastjórnarinnar, sem stjórnar Evrópusambandinu með harðri hendi frá degi til dags. Það er þjóðhættuleg glámskyggni fólgin í því að yppa öxlum, brosa í sjónvarpsmyndavélina og segja við fréttamenn, að OP#2 sé bara "eðlilegt" framhald á OP#3, sem við verðum að innleiða út af EES-samningnum. Þetta er líklegast ljótasta nauðhyggja valdamanna, sem sézt hefur á Íslandi frá landnámi.
Lítum á eina hlið umhverfisþáttar þessa máls. Slík slitrótt sala raforku til Evrópu þýðir mjög ójafna miðlun úr lónum hér, sem geta þá farið frá hraðri lækkun vatnsyfirborðs og upp í hækkun að nóttu, þegar borgar sig að kaupa rafmagn til landsins við þessar ömurlegu aðstæður. Slíkt er vafalaust ekki hollt fyrir lífríkið þar og bakka lónanna, en verst verður það fyrir lífríki ánna og getur reynzt fólki, sem nytjar árnar neðan miðlananna, skeinuhætt.
Snögg minnkun vatnsrennslis þurrkar upp bakka og eyrar og veldur hæglega fiski- og seiðadauða. Klakar geta að vetri botnfrosið, stækkað síðan ört, beint vatnsrennslinu að mótlægum bakka og sorfið hann þá illilega, svo að til landskaða horfi. Sömuleiðis getur klaki brotnað, farið af stað og myndað klakastíflur. Afleiðingin getur orðið rennslistruflanir inn í virkjanir og stórflóð að vetri yfir tún og annað gróðurlendi. Þessi ójafni rekstrarháttur íslenzkra virkjana hentar þess vegna afkaplega illa og ber að forðast hérlendis, en það er engin von til þess, að stjórnendur orkumála ESB, ACER og Landsreglarinn á Íslandi taki nokkurt tillit til þess, þegar baráttan við loftslagsvána og orkuöryggi Evrópu eru annars vegar. Landsmenn geta maldað í móinn, en meira geta þeir varla gert, og geta þeir þakkað glámskyggnum þingmönnum sínum það að verðleikum, sem lögðu blessun sína yfir Orkupakka #3.
Eina ráðið til að koma í veg fyrir þessa martröð er að fella OP#3 á Alþingi og vísa málinu þar með í samningaferli í Sameiginlegu EES-nefndinni.
25.7.2019 | 11:36
Glittir í ljóta afleiðingu af OP#1 og OP#2
Það hefur verið margsýnt fram á, hversu illa orkubálkalöggjöf Evrópusambandsins á við íslenzkar aðstæður. Sú stefnumörkun að taka upp löggjöf Evrópusambandsins (ESB) á sviði raforkumála um EES-samninginn fyrir Ísland var röng og hefur dregið langan dilk á eftir sér. ESB stefnir á einkavæðingu raforkuvinnslunnar, og ríkisafskipti af þeirri starfsemi eru bönnuð. Þar af leiðandi var sú kvöð tekin af Landsvirkjun með raforkulögum 2003, sem reist voru á OP#1, að sjá landsmönnum jafnan fyrir nægu framboði af forgangsorku, bæði heimilum og fyrirtækjum. Markaðurinn átti að sjá um þetta, en markaðsaðstæður á Íslandi eru þannig, að markaðurinn bregzt þessu hlutverki. Að innleiða hér markaðsstýrt viðskiptakerfi raforku mun óhjákvæmilega framkalla hér viðvarandi seljendamarkað og þar með talsverða raforkuverðhækkun, þótt engin verði aflsæstrengur til útlanda.
Nú er komið í ljós, að hætta er á aflskorti í landinu frá 2022 og þar til virkjun, sem verulega munar um, kemst í gagnið, en engin slík er á döfinni. Hér getur þannig orðið stórfellt samfélagslegt tjón í boði Alþingis og innleiðingar þess á löggjöf ESB á orkusviði. Hætt er við, að enn meira tjón verði hér eftir innleiðingu OP#3 og markaðsstýringar á raforkukerfinu í kjölfarið. Þetta stafar af því, að markaðsstýringin er ekki þess umkomin að tryggja bæði nægt afl og orku, enda útvega eldsneytismarkaðirnir orkuna í ESB. Það vantar hér fjárhagslega hvata til að bæta við nýjum orkuverum, og það vantar samræmda orkulindastýringu fyrir allt landið, sem tekur mið af að viðhalda afhendingaröryggi raforku til allra neytenda í stað þess að hámarka tekjur hvers orkuvinnslufyrirtækis, eins og markaðsstýringin er hönnuð fyrir. Á meginlandi Evrópu lækkar orkuvinnslukostnaður fyrirtækis, sem bætir við nýju orkuveri. Það er vegna bættrar nýtni og meiri sjálfvirkni í nýjum orkuverum en gömlum. Á Íslandi hækkar hins vegar orkuvinnslukostnaðurinn með nýrri virkjun vegna þess, að hagkvæmustu kostirnir hafa þegar verið virkjaðir.
Ef/þegar embætti Landsreglara kemst á koppinn, sem fylgir samþykkt OP#3, þá mun hann koma hér á laggirnar orkukauphöll. Orkuvinnslufyrirtækin munu verðleggja raforkuna m.v. að hámarka tekjur sínar, alveg óháð því, hvort of lítil orka verður tiltæk (úr miðlunarlónunum) næstu vikurnar. Á Íslandi veldur markaðsstýring orkuvinnslunnar viðvarandi seljendamarkaði, sem alls staðar jafngildir háu verði. Orkustefna ESB, en orkupakkar ESB eru aðferð ESB við að innleiða orkustefnu sína í aðildarlöndunum, felur þess vegna í sér lífskjararýrnun fyrir íslenzka neytendur og verulega lakari samkeppnishæfni fyrirtækjanna, sem mun koma niður á þjóðartekjum og atvinnustigi í landinu, sjá minnisblað um OP#3 í viðhengi með þessum pistli.
Landsreglarinn, væntanlegur hæstráðandi á landinu í raforkugeiranum, mun ekki taka í mál að gera eitthvert eða einhver fyrirtæki ábyrg fyrir nægu raforkuframboði. Slíkt yrði brot á ætlunarverki yfirboðara hans hjá ESB um einkavæðingu og frjálsan samkeppnismarkað á raforkuvinnslusviði. Reyni íslenzk yfirvöld slíkt, mun Landsreglarinn óðara setja reglugerð til ógildingar slíkrar tilraunar rétt kjörinna yfirvalda landsins. Þetta er eitt dæmi af mörgum um yfirþjóðlegt vald, sem hér verður leitt til öndvegis, ef Alþingi afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.
Frétt Ásgeirs Ingvarssonar í Morgunblaðinu 8. júlí 2019,
"Aukin hætta á aflskorti" , hófst þannig:
"Samkvæmt nýrri skýrslu Landsnets er hætta á því, að á einhverjum tímapunkti árið 2022 verði framboð á raforku á Íslandi ekki nægilegt til að svara eftirspurn. ... Núna sýnir spáin, að árið 2022 fara líkur á aflskorti yfir viðmiðunarmörk og gæti leitt til þess, að á álagstímum þurfi að draga úr framboði á raforku á vissum svæðum eða til tiltekinna kaupenda."
Þann 12. júlí 2019 lét forstjóri RARIK opinberlega í ljós áhyggjur sínar af því, að ástandið væri í raun mun alvarlegra en Sverrir Jan Norðfjörð lætur þarna í ljós. Miðað við tíðarfarið undanfarið og drjúga aukningu orkunotkunar þarf ekki að koma á óvart, að um er að ræða yfirvofandi hættu á orkuskorti strax næsta vetur samkvæmt Tryggva Þór Haraldssyni. Aflskorturinn verður algerlega af mannavöldum, og það er hægt að skrifa hann með húð og hári á kostnað gildandi orkulöggjafar frá Evrópusambandinu (ESB) í landinu, þ.e. OP#2.
Í því lagaumhverfi, sem orkumarkaðinum er búið á Íslandi, ræður hann ekki við viðfangsefnið, sem þessi löggjöf ætlast til af honum. Hann ræður ekki einu sinni við að koma í veg fyrir aflskort, sem er þó hlutverk markaðsstýringar raforkukerfisins í EAB, en þar sjá hins vegar eldsneytismarkaðirnir um að sjá fyrir nægri orku. Innleiðing OP#3 getur hæglega leitt til öngþveitis á íslenzka orkumarkaðinum. Það verður farið úr öskunni í eldinn.
Í stað þess að fela í sér neytendavernd, eins og stuðningsmenn þessarar Evrópulöggjafar hampa í tíma og ótíma án þess að vita, hvað þeir eru að tala um, þá verður þessi ESB-löggjöf að martröð íslenzka raforkunotandans, sem verður sviptur aðgengi að "vörunni", sem er afkomu hans lífsnauðsynleg, rafmagninu. Þetta sýnir, að á eyju, eins og Íslandi, sem er rafmagnslega ótengd við umheiminn, gengur það ekki upp að skilgreina rafmagn sem vöru, enda er ekki hægt að skila keyptu rafmagni, eins og hægt er með vörur.
Rafmagn á að vera þáttur í grunnþjónustu samfélagsins við íbúana og þar með fyrirtækin, sem þeir lifa á. Þar af leiðandi þarf að koma hér á samræmdri orkulindastýringu, sbr viðhengið. Á Íslandi eru yfir 90 % innviðanna, sem þarf til að framleiða, flytja og dreifa þessari grunnþjónustu, í eigu hins opinbera. Valið stendur nú um að einkavæða raforkuvinnsluna með því að samþykkja OP#3 og OP#4 og búa til seljendamarkað fyrir raforku eða að hafna OP#3 og leita samninga við ESB á vettvangi Sameiginlegu EES-nefndarinnar um nauðsynlegar undanþágur frá OP#3, sem m.a. feli í sér leyfi til samræmdrar orkulindastýringar og raunverulegt vald Orkustofnunar til að hafna umsókn um sæstreng og vald Alþingis til að banna undirbúning sæstrengs hérlendis (hjá Landsneti). Þetta er val á milli missis forræðis orkulindanna með óheftri markaðshyggju innan EES og dálítillar forræðishyggju á þessu lífsnauðsynlega sviði landsmanna. Það þýðir ekki lengur að berja hausnum við steininn. Orkupakki#2 veldur stórtjóni á Íslandi, og OP#3 mun valda enn meira tjóni, sem við sjáum ekki fyrir endann á. Iðnaðarráðherra verður að hætta stuðningi sínum við OP#3. Að öðrum kosti axlar hún sem ráðherra orkumála fulla pólitíska ábyrgð af tugmilljarða ISK tjóni af völdum yfirvofandi afl- og orkuskorts.
Það er ekki nóg með, að orkustefna stjórnvalda, sem er orkustefna ESB, hafi beðið skipbrot, heldur hefur "loftslagsstefnan" strandað líka og markmið um orkuskipti rokið út í veður og vind, því að þau voru alfarið reist á hugmyndinni um nægt afl og orku, þ.m.t. næga ótryggða orku í flestum árum. Þetta kemur fram í tilvitnuðu viðtali við Sverri Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóra þróunar- og tæknisviðs Landsnets:
"Skýrslan skoðar raforkujöfnuð landsins í heild sinni, og segir Sverrir erfitt að segja til um, hvar í dreifikerfinu séu mestar líkur á, að vandinn komi fram, en væntanlega yrði brugðizt við með því að draga úr framboði á rafmagni til notenda, sem þegar eru skilgreindir sem skerðanlegir. Væru það t.d. fiskvinnslur, sem nota rafmagn til fiskbræðslu, og hitaveitur. "Þessir kaupendur geta í sumum tilvikum brugðizt við með því t.d. að nota olíu á meðan vöntun er á raforku.""
13.7.2019 | 18:44
Nýjar yfirþjóðlegar stofnanir samkvæmt OP#4
Það er deginum ljósara, að Evrópusambandið hefur komið sér upp lagalegri spennitreyju um aðildarlöndin með síðustu orkupökkum, OP#3 og OP#4. Enn er ekkert handfast um OP#5. Ein af áhrifameiri nýjungunum í OP#4 er stofnun svæðisbundinna samhæfingarmiðstöðva, eins og nú skal greina.
Samkvæmt rafmagnstilskipun OP#4, gr. 62, verður komið á laggirnar fáeinum samhæfingarmiðstöðvum innan ESB fyrir rafmagnsflutningakerfi hvers svæðis með eigin stjórn fyrir hverja miðstöð. Í OP#4 er þetta fyrirbrigði kallað "Regional Coordination Centre - RCC".
- Landsreglarinn er skyldugur að taka þátt í þessari starfsemi á sínu svæði og samþykkja stofnun RCC með þeirri auknu kerfismiðstýringu og kostnaði fyrir Landsnet, sem hún hefur í för með sér.
- Kostnaðinum af RCC er skipt á milli orkuflutningsfyrirtækjanna og er greiddur af notendum innanlands með hækkun gjaldskráa. Hvernig skiptingin verður er enn óákveðið. Verði skipt eftir orkunotkun innanlands, mun RCC leggjast kostnaðarlega tiltölulega þyngst á Íslendinga.
- Stjórn RCC ákveður, hvernig kosningafyrirkomulag við ákvarðanir verður viðhaft, þ.e. hvort einhvers konar vigtun fer fram.
- Stjórn RCC getur sjálf lagt til við ACER aukin völd sér til handa gagnvart aðildarlöndum á svæðinu. Svæðismiðstöðvarnar, RCC, gætu þróazt í kerfisstjórnstöðvar, sem yfirtaki kerfisstjórnir aðildarlandanna.
- RCC skal tryggja, að löggjöf ESB sé framfylgt, sérstaklega um millilandatengingar.
7.7.2019 | 09:52
Innlend afskipti af verðlagningu rafmagns bönnuð í OP#4
Yfirlýst hlutverk orkupakka #3-4 er myndun sameiginlegs markaðar rafmagns í Evrópu. Nú eru nokkrir svæðisbundnir raforkumarkaðir þar, og er einn slíkur fyrir norðanverða Evrópu, NordPool. Innri markaðurinn hefur þegar leitt til mikillar jöfnunar á raforkuverði, þar sem raforkuverð til heimila og iðnaðar á Norðurlöndunum hefur hækkað mjög sem hlutfall af meðalverði í Evrópu, en lækkað t.d. í Austurríki, Þýzkalandi, Belgíu og Frakklandi. Þessi þróun hefur að sama skapi leitt til breyttrar samkeppnisstöðu, atvinnustigs og lífskjara í þessum löndum, jaðarsvæðunum á Norðurlöndum í óhag, en þungamiðju framleiðslu í Evrópu í hag, enda kerfið hannað með það fyrir augum. Orkan er alls staðar undirstaða nútímaþjóðfélags. Ætlum við að ganga í þessa gildru stórkapítals og stjórnenda Evrópusambandsins ? Augljóslega er það keppikefli ESB-sinna.
Ísland er mjög háð raforku vegna atvinnuhátta, iðnaðarins og hnattlegu landsins. Talsverður hluti hitunarkostnaðar húsnæðis er raforkukostnaður, einnig á hitaveitusvæðum, því að hitaveitur þurfa talsverða raforku til að dæla miklu vatni. Raforkuverðhækkun á Íslandi er þess vegna stórmál og mjög neikvæð fyrir allt þjóðfélagið, og það er algerlega ótækt, að stjórnun verðlagningar á raforku í landinu verði í höndum embættis, sem er algerlega utan seilingar lýðræðislega kjörinna fulltrúa landsmanna. Þar er átt við Landsreglarann (The National Energy Regulator), sem starfa mun hér undir stjórn og á ábyrgð ACER-Orkustofnunar ESB, þótt ESA-Eftirlitsstofnun EFTA fái fyrir siðasakir að afrita og hafa milligöngu um afhendingu gagna til og frá ACER.
Í OP#4, gr. 59.3, er eftirfarandi tekið fram um valdsvið Landsreglarans:
- hann skal taka bindandi ákvarðanir um raforkufyrirtæki
- hann skal taka ákvarðanir, sem tryggja, að raforkumarkaðurinn virki, eins og ætlazt er til
- hann skal leggja sektir á raforkufyrirtæki, sem ekki fara eftir rafmagnstilskipuninni, ákvörðunum Landsreglarans eða samþykktum ACER. [Allt er þetta ótækt með öllu fyrir þjóð, sem ekki vill ganga ESB á hönd-innsk. BJo].
Landsreglarinn á að taka þátt í fundum ACER, en EFTA-löndin verða þar án atkvæðisréttar. Auk þess skal hann taka þátt í svæðisbundnu samstarfi til að:
- tryggja næga flutningsgetu á milli landa
- samræma þróun á flutnings- og dreifikerfisskilmálum og öðrum reglum
- Landsreglarinn getur stundað svæðisbundið samstarf óháð íslenzkum yfirvöldum. [Hann verður ríki í ríkinu - innsk. BJo].
27.5.2019 | 22:32
Bréf frá ESA
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sendi þann 30. apríl 2019 bréf til norska olíu- og orkuráðuneytisins undir fyrirsögninni: "Request for information concerning the the award and renewal of hydropower authorizations in Norway" eða "Krafa um upplýsingar varðandi úthlutun og endurnýjun vatnsvirkjanaleyfa í Noregi". Þessi upplýsingakrafa er reist á þjónustutilskipun nr 2006/123/EB.
Það er augljóst, hvað er í uppsiglingu gagnvart Norðmönnum að hálfu ACER/ESA, og tímasetningin er athygliverð. Frá útgáfu þjónustutilskipunarinnar eru 13 ár, en fyrst núna, rúmlega ári eftir, að Stórþingið aflétti hinum stjórnskipulega fyrirvara af Orkupakka #3, OP#3, treður ESA sama slóða og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ESB, tróð fyrir nokkrum árum gagnvart 8 aðildarlöndum ESB, þ.á.m. Frakklandi, þar sem svipað háttar til með markaðshlutdeild stórs orkufyrirtækis í ríkiseigu, EdF, og íslenzku Landsvirkjunar. Því máli virðist ætla að ljúka þannig, að EdF selji vatnsvirkjanir sínar, en eftir standa þá kjarnorkuverin og annars konar orkuver.
´I Noregi eru virkjanaleyfi veitt ótímabundin og án uppboðs eða tilboðsbeiðna, þannig að í raun er veittur aðgangur að takmarkaðri auðlind gegn gjaldi, sem enginn veit, hvort er markaðsverð. Þetta kallar sumir ógagnsæi, en aðferðin er einföld og ætluð til að lágmarka kostnað, sem á endanum lendir á raforkunotendum.
Þetta er hins vegar andstætt þjónustutilskipuninni og EES-samninginum og þess vegna augljóst, að niðurstaðan verður sú, að gömul og ný virkjanaleyfi verða sett á EES-markaðinn með einum eða öðrum hætti. Nákvæmlega hið sama mun gerast á Íslandi. Virkjanaleyfin í Þjórsá og í Tungnaá, sem ríkið öðlaðist frá Títanfélaginu og lét verða stofnframlag sitt til Landsvirkjunar 1965, munu verða einkavædd, ef ESA/ESB fá vilja sínum framgengt og þróun mála verður að þessu leyti með sama hætti í EFTA-löndunum og í ESB-löndunum. Þessu verður erfitt að standa gegn, eins og það er erfitt að verjast úrskurði ESA og dómi EFTA-dómstólsins um varnir Alþingis frá 2009 gegn dýra- og mannasjúkdómu, t.d. fjölónæmum sýklum í innfluttu kjöti.
Þessi þróun mála hlýtur að leiða til raforkuverðshækkunar, því að hæstbjóðandi, sem virkjunarleyfið hreppir til tiltölulega skamms tíma í senn, hlýtur að vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð, og það mun á endanum koma niður á raforkunotandanum. Sá, sem á virkjanaleyfið, hefur töglin og hagldirnar varðandi rekstur viðkomandi virkjunar, hver sem eigandi hennar er. Með þessu móti geta erlend orkufyrirtæki náð kverkataki á virkjunareigandanum og ráðstöfun hans á orkunni. Þar kemur einmitt Orkupakki #3 til skjalanna, því að honum er ætlað að breyta litlum innanlandsmarkaði í risavaxinn innri markað ESB.
Þetta ferli er eins ólýðræðislegt og hugsazt getur, og það er ekki nokkur leið fyrir almenna raforkunotendur á Íslandi, sem jafnframt eru eigendur þessara virkjana og virkjanaleyfa, að sætta sig við, að þessi þessi kaupahéðnastefna sé innleidd á Íslandi með virkjanaleyfi, án þess að stefnumótandi ákvörðun um slíkt sé tekin í nokkrum stjórnmálaflokki, hvað þá á Alþingi. Þetta er forsmekkurinn að því, sem búast má við eftir innleiðingu OP#3 hér, þótt hann komi ekki beinlínis við sögu í þessu máli. Umrætt bréf ESA er að finna í viðhengi með þessum vefpistli. Svipað bréf var sent íslenzkum yfirvöldum fyrir nokkrum árum, en það er meðhöndlað af íslenzka stjórnkerfinu, eins og því er lagið, með því að stinga hausnum í sandinn.
Í Noregi var það almennt og óumdeilt sjónarmið, að með því að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3 væri Stórþingið að samþætta norska raforkukerfið rækilega við raforkukerfi ESB-landanna og að undirgangast fyrir hönd Noregs þá tækni- og viðskiptaskilmála, sem gilda á hinum sameiginlega ESB-raforku- og gasmarkaði, sem t.d. eru útlistaðir í reglugerð #713/2009 í OP#3. Hérlendis er hins vegar þrætt fyrir, að nokkuð slíkt eigi sér stað hér og beitt við það "lofsverðum blekkingum" að mati fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og núverandi áhrifamanns í Viðreisn.
Það er skákað í því skjólinu, að engin millilandatenging sé enn við íslenzka raforkukerfið og boðuð lagasetning, sem bannar undirbúning að sæstreng hérlendis að hálfu Landsnets án samþykkis Alþingis. Þetta eru Pótemkíntjöld og gagnslaus fyrirætlun, því að Evrópurétturinn hefur forgang umfram hinn íslenzka, þegar ágreiningur verður, og hann getur orðið strax eftir innleiðingu OP#3 og uppsetningu þessarar "Maginot-línu". Aðferðin brýtur nefnilega í bága við sjálfan EES-samninginn, grein 7. Það er ekki nóg að fá pólitískar yfirlýsingar frá orkukommissar ESB á förum og tveimur EFTA-fulltrúum í Sameiginlegu EES-nefndinni, því að hagsmunaaðilar geta kært þann galla við innleiðingu OP#3, að hún sé gerð óvirk að hluta með banni Alþingis við lagningu aflsæstrengs til Íslands. Hvers vegna halda menn, að norska ríkisstjórnin hafi enn ekki sett umsamda fyrirvara stjórnar og stjórnarandstöðu við OP#3 í lagabúning til framlagningar í Stórþinginu, eins ríkisstjórnin lofaði áður en Stórþingið samþykkti OP#3. Það ætti að verða fyrirvarafólkinu á Alþingi alvarlegt umhugsunarefni, og kannski þá færi að tíra á tíkarrófunni. Jafnvel sameignarsinninn í stóli forsætisráðherra skilur ekki afleiðingar markaðsvæðingar raforkugeirans, sem ESB stefnir leynt og ljóst að. Það gæti orðið pólitískt dýrkeypt.
Fyrirtækið Atlantic Superconnection, sem lýst hefur áformum sínum um að framleiða aflsæstreng á NA-Englandi og leggja hann til Íslands, bíður áreiðanlega eftir því, að Evrópurétturinn taki yfir málefni millilandatenginga rafmagns við Ísland. Ef íslenzk stjórnvöld sýna þvermóðsku gagnvart þessu verkefni eftir að hafa beitt sér fyrir innleiðingu OP#3, þá má vissulega búast við kærumálum fyrir EFTA-dómstólinum (brotamál vegna EES-samningsins) og kröfugerð fyrir íslenzkum dómstólum um skaðabætur á hendur íslenzka ríkinu fyrir óþarfa tafir á að hefja ábátasöm viðskipti. Alþingi er augljóslega að skapa mikla réttaróvissu, ef það afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3. Það er heilt lögfræðingastóð á Alþingi, sem ætlar að standa að þessu, og eru þó lagasérfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson búnir að vara við þessari hættu í álitsgerð sinni frá 19. marz 2019. Hvers vegna er allt þetta fólk stungið líkþorni ?
26.4.2019 | 21:20
Handhafi sannleikans um þróun raforkuverðs
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra m.m., ritar pistil um þróun raforkuverðs á "Vettvangi" Morgunblaðsins 21.04.2019, sem útheimtir athugasemdir. Hún nefnir pistil sinn:
"Staðreyndir um raforkuverð",
eins og hún sé handhafi sannleikans í þeim efnum, en eftir lestur pistilsins er ekki hægt að fallast á það. Því fer reyndar fjarri, enda rökin sama og engin.
Ráðherrann hóf pistilinn með nokkuð háreistum hætti, eins og þreyttur kennari, sem talar til tornæmra nemenda sinna, en góður kennari myndi síðan ekki slengja fram getgátum í fullyrðingastíl án rökstuðnings, eins og iðnaðarráðherra gerir sig seka um. Það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.
Lítum á upphafið:
(1) "Í opinberri umræðu er æskilegt að greina á milli staðreynda og skoðana. Það er bæði heilbrigt og eðlilegt, að menn séu ósammála og deili um mál með sannfæringu - og staðreyndir að vopni."
(2) "Fullyrðingar um, að raforkuverð hafi hækkað á Íslandi vegna upptöku fyrsta og annars orkupakka ESB og muni hækka enn frekar við upptöku þriðja orkupakkans, eiga ekki við rök að styðjast."
(3) "Þaðan af síður er stoð fyrir fullyrðingum í þá veru, að óheimilt verði að niðurgreiða húshitunarkostnað eða jafna dreifikostnað raforku á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Slíkar ákvarðanir hafa frá 2002 verið í höndum Alþingis og munu verða þa[r] áfram."
Um (1): Ráðherrann er ekki sterk á svellinu við að fylgja þessum ágætu ráðum kennarans. Hún hefur t.d. ekki fært neitt til umræðunnar um Þriðja orkupakkann (OP#3) annað en hann sé beint framhald OP#2, og þess vegna sé ekkert áhorfsmál að samþykkja hann. Þetta er efnislega kolrangt, nema 3 koma á eftir 2 í talnaröðinni, en það lærðum við mörg 5-6 ára. Það eru 3 meginbreytingar í OP#3 frá OP#2.
Í fyrsta lagi verður með OP#3 gert að skyldu að innleiða markaðskerfi að hætti ESB með frjálsri samkeppni á heildsölu- og smásölumarkaði með rafmagn, en það er valfrjálst núna. Ef ráðherrann heyrir minnzt á frjálsa samkeppni, veðrast hún öll upp, einnig nú, þegar rafmagn á í hlut. Hún hefur fallið fyrir skilgreiningu ESB á rafmagni sem vöru, en höfundur þessa pistils er þar á öndverðum meiði við hana. Rafmagn á ekki að fjalla um sem vöru, heldur hérlendis sem orkuafurð náttúruauðlinda Íslands, sem nýta ber landsmönnum um allt land til hagsbóta. Eru vinstri grænir ekki sammála þessari norrænu skilgreiningu, eða eru þeir gengnir í björg ESB, þar sem búrókratar og auðjöfrar hafa fallizt í faðma ? Öðru vísi mér áður brá.
Þetta þýðir, að heimili, atvinnurekstur opinberir aðilar og aðrir hérlendis fái orkuna á lágmarksverði, þ.e. m.v. tiltölulega lága ávöxtunarkröfu af fjárfestingunum í samanburði við fjárfestingar almennt. Þetta má réttlæta með langri endingu mannvirkja og lítilli áhættu fjárfesta.
Ráðherrann virðist engan gaum hafa gefið að aðvörunarorðum á þessu vefsetri og víðar við því, að hún sé að leiða tíðari orkuskort og hærra raforkuverð yfir landsmenn, af því að íslenzka orkukerfið er í grundvallaratriðum öðruvísi en orkukerfi ESB. Það er gösslazt áfram án nokkurrar frambærilegrar áhættugreiningar og haldið dauðahaldi í lögfræðilegar greinargerðir, sem ekki bera með sér djúpstæða þekkingu á þeirri lögfræði, sem máli skiptir í þessu sambandi, Evrópuréttinum.
Í öðru lagi fjallar OP#3 um millilandaviðskipti með raforku, en OP#2 fjallar um innanlandsviðskipti með raforku. Á þessu tvennu er grundvallarmunur. Það er tóm vitleysa ráðherrans og sumra annarra lögfræðinga, að ákvæðin um millilandatengingar gildi hreinlega ekki hérlendis, af því að þær eru ekki enn fyrir hendi. Í Álitsgerð Friðriks Árna og Stefáns Más kemur þvert á móti fram, að líta verður á gildissvið gerða og tilskipana OP#3, eins og sæstrengur muni verða lagður til Íslands.
Þetta viðurkennir iðnaðarráðherra í verki með því að setja fyrirvara í þingsályktun sína um, að sæstrengur verði ekki lagður án leyfis Alþingis. Þessi fyrirvari er þó hreint píp, þegar búið er að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af öllum OP#3, eins og rökstutt er í umsögn til atvinnuveganefndar í viðhengi með þessari vefgrein.
Þriðji reginmunurinn á OP#2 og OP#3 er, að í hinum síðar nefnda er stofnað til embættis Landsreglara á Íslandi, sem starfar á snærum ACER, Orkustofnunar ESB, með ESA sem afritandi millilið fyrir formsins sakir, svo að formsins fólk geti skýlt sér á bak við "tveggja stoða kerfið". Íslenzk stjórnvöld mega þó engin önnur afskipti hafa af þessum Landsreglara en að leggja honum til fé af fjárlögum, og af fjárlögum á einnig að renna fé til ACER.
Iðnaðarráðherra ætlar að breyta embætti Orkumálastjóra í bastarð með því að láta hann gegna embætti Landsreglara ásamt öðrum skyldum, sem verða áfram undir yfirstjórn ráðherra. Þetta er skelfilegt fyrirkomulag, sem er til þess fallið að hámarka hér völd Landsreglara í stað þess að lágmarka þau, eins og Norðmenn samþykktu að gera með því að að stofna embætti Landsreglara utan við NVE, norsku orkustofnunina.
Iðnaðarráðherra hefur þannig efnislega ekkert til síns máls, þegar hún staðhæfir, að ekkert áhorfsmál sé að samþykkja OP#3, af því að hann sé beint framhald af OP#2. Hvers vegna rignir upp í nefið á henni, þegar OP#3 er annars vegar ?
Um (2): Ráðherranum er mikið í mun að sýna fram á, að innleiðing OP#1 með nýjum raforkulögum árið 2003 hafi leitt til lækkunar á kostnaði neytenda. Aðferð hennar við þetta er þó algerlega ótæk, því að hún notar einvörðungu um 45 % heildarkostnaðar án VSK, sem er orkuhlutinn. Það, sem skiptir neytendur máli, er summan af orkuverðinu, flutningsgjaldinu, dreifingargjaldinu og jöfnunarkostnaðinum auk virðisaukaskattsins, sem nú er 24,0 %. Jafnvel þessi þröngi samanburður, sem ráðherrann hefur valið, sýnir engan árangur á mælikvarða ráðherrans sjálfs, sem hún gerir grein fyrir seinna pistlinum:
"Í skýrslu EFLU kemur fram, að tekizt hafi að innleiða samkeppni í vinnslu og sölu raforku og að fyrirtækjum, sem keppi á þeim markaði, fari fjölgandi. Verð á raforku í smásölu hafi farið lækkandi eftir setningu raforkulaga, hafi síðan hækkað að nýju og sé nú svipað að raunvirði og það var fyrst eftir skipulagsbreytingarnar."
Þótt litið sé framhjá þessum annmarka við aðferðarfræði ráðherrans, þá getur hún aldrei sannað eitt eða neitt með þessu móti um það, hvort gamla eða nýja kerfið (m.v. 2003) sé skilvirkara fyrir neytendur. Það er vegna þess, að meginkostnaðarliður raforkugeirans er fjármagnskostnaður, en rekstrarkostnaðurinn er tiltölulega lágur. Þó er hann umtalsverður í jarðgufuvirkjunum. Mestu fjárfestingar sögunnar í raforkugeiranum hérlendis voru skömmu fyrir aldamótin 2000. Nú ætti kostnaðurinn þess vegna að vera að sjatna. Hvers vegna kemur það ekki fram í raforkuverðinu ? Það getur verið vegna aukinnar arðsemiskröfu fyrirtækjanna og/eða meiri rekstrarkostnaðar fyrirtækjanna á hverja MWh vegna uppskiptingar í vinnslu, flutning, dreifingu og sölu samkvæmt OP#1 og OP#2.
Úr því að ekkert bendir til, að samkeppnisfyrirkomulag OP#2 með rafmagn hafi orðið neytendum til hagsbóta, heldur þvert á móti, þegar litið er á þróun heildarkostnaðar án VSK við raforkukaup, við hverju má þá búast af markaðsvæðingunni í OP#3 ? Ef kerfi, sem sniðið er við eldsneytisknúið raforkukerfi, er innleitt í raforkuvinnslukerfi, reist á illfyrirsjáanlegum náttúrukröftum, þá er hættunni boðið heim. Sú hætta felst í tíðum orkuskorti í kerfi, þar sem eðlisólíkar virkjanir með ólíkt kostnaðarmynztur keppa á frjálsum markaði og enginn er né má vera ábyrgur fyrir afhendingaröryggi raforkunnar. Markaðurinn á að sjá um það og gerir það í ESB, en getur ekki gert það hér. Þetta ræðir iðnaðarráðherrann aldrei, en þetta er þó grundvallaratriði fyrir hagsmuni neytenda. Við þurfum sérlausn, raforkumarkaðskerfi, sem sniðið er að eðli okkar náttúrulegu orkulinda og að fákeppniumhverfi, með auðlindastýringu á hendi ríkisins, svipað og með sjávarauðlindina, og einhver verður að bera ábyrgð á afhendingaröryggi raforku.
Við þurfum ekki á að halda iðnaðarráðherra, sem sér bara tvö orð í orkupakkanum, "frjáls samkeppni", virðist hafa tekið trú á þetta hugtak og boðar, að það muni frelsa raforkugeirann, og síðan fari bezt á að láta hann eiga sig. Það er hrikaleg skekkja fólgin í þessu skilningsleysi ráðherrans. Skekkjan er öll á einn veg. Það hallar á neytendur, en birgjarnir fleyta rjómann ofan af, áhættulítið. Til að bæta gráu ofan á svart kallar hún þetta neytendavernd.
Þegar dregur að orkuskorti, hækkar raforkuverðið á frjálsum uppboðsmarkaði, en það er allt of seint til að bregðast við með róttækum hætti til að forða mjög miklu tjóni, sem hleypur á tugum milljarða ISK. Það er mjög erfitt að áætla verðþróun af einhverju viti eftir gildistöku OP#3, en það er líklegt, að meðalverðið hækki talsvert af þessum sökum, eins og við sáum í Noregi í fyrra vegna þurrka, en þá leit um tíma illa út með fyllingu miðlunarlóna.
Í s.k. Kvikuskýrslu frá 2016 um aflsæstreng til Bretlands er reiknað með allt að 100 % hækkun raforkuverðs m.v. núverandi heildsöluverð á Íslandi, þ.e. upp í 66 EUR/MWh úr 33 EUR/MWh.
Flutningskerfið verður órekanlegt án DC-strengs með um 500 MW flutningsgetu yfir Sprengisand eftir sæstrengstengingu. Kostnaður hans er áætlaður mrdISK 45. 400 kV loftlínur niður að landtökustað sæstrengs og tengivirki munu ekki kosta undir mrdISK 55, þ.e. heildarfjárfesting að lágmarki mrdISK 100 (reiknað með, að afriðlastöð og áriðlastöð við enda sæstrengsins verði hluti sæstrengsverkefnisins). Þessa fjárfestingu Landsnets þarf að greiða með gjaldskrám Landsnets af almennum flutningi og stóriðjuflutningi hérlendis samkvæmt OP#3. M.v. núverandi árleg útgjöld Landsnets gæti þetta kostað tvöföldun á gjaldskrá hennar.
Hvaða tökum Landsreglarinn mun taka dreifiveiturnar veit enginn, en þær standa margar hverjar frammi fyrir mikilli fjárfestingarþörf í jarðstrengjum og aflspennum, m.a. vegna orkuskiptanna. Ef aukin ávöxtunarkrafa þeirra (vegna fjárfestingarþarfar, ekki arðsemikröfu, eins og t.d. í Reykjavík) leiðir til 10 % hækkunar gjaldskrár dreifiveitna rafmagns, verður meðalhækkun rafmagns um 64 % í landinu við tengingu þess við innri orkumarkað ESB.
Um (3): Ráðherrann fullyrðir, að heimilt verði að greiða niður húshitunarkostnað eftir markaðsvæðingu OP#3. Hefur hún fengið bréflega tryggingu fyrir því frá ESA, eða er þetta bara innantóm fullyrðing út í loftið ? Slíkar niðurgreiðslur, eins og útjöfnun á hitunarkostnaði, eru óþekktar á orkumarkaði ESB,og þekkjast heldur ekki í Noregi. Þar hafa uppsveiflur raforkuverðs þó bitnað einstaklega illa á almenningi, vegna þess að húsnæði er yfirleitt rafhitað í Noregi. Jafnvel í verðtoppunum hefur ríkisstjórnin ekki léð máls á niðurgreiðslu rafmagns, þrátt fyrir sárar kvartanir, t.d. frá eldri borgurum, sem ráða ekki við rafmagnsreikninginn, þegar frjáls samkeppni virkar á þennan hátt. Eru ýmsar sorgarsögur til af því.
Að hygla einu upphitunarformi umfram annað kann að verða kært til íslenzkra dómstóla, Samkeppniseftirlits eða ESA, eins og reyndin var á í Noregi, þar sem ríkisstuðningur við viðarbrennsluofna með hárri nýtni og minni mengun fyrir vikið var dreginn til baka vegna kæru um ríkisaðstoð, sem skekkti frjálsa samkeppni á sviði upphitunar. Það er ekkert sjálfgefið á frjálsum markaði eftir OP#3, þar sem Ísland verður að lúta ströngum samkeppnireglum innri markaðarins.
Þegar atvinnurekstur er annars vegar, eru niðurgreiðslur á rafmagni úr ríkissjóði hins vegar skýlaust taldar ríkisstuðningur, sem skekki samkeppnistöðu á markaði. Eftir OP#3 og viðeigandi markaðsvæðingu í kjölfarið mun ESA ekki taka slíkar niðurgreiðslur í mál. Þetta skapar tilvistarhættu fyrir marga framleiðendur hérlendis, sem þegar búa við hátt kostnaðarstig og eiga í harðri samkeppni við innflutning. Iðnaðarráðherra hikar ekki við að fórna meiri hagsmunum fyrir minni á altari goðs síns, sem heitir "frjáls samkeppni með rafmagn" og hún skilur ekki.
Ráðherrann nefnir jöfnun dreifingarkostnaðar á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Aðgerða- og úrræðaleysi iðnaðarráðherra í þeim efnum er sláandi. Ef einhver áhugi væri hjá henni fyrir þessu réttlætismáli, þá væru aðgerðir lengra komnar en raun ber vitni um. Sérleyfi dreifiveitna á að vera bundið gjaldssvæði. Innan sama gjaldssvæðis á ekki að vera leyfilegt að mismuna tveimur notendum með sams konar notkun eftir búsetu einni saman. Þetta hefur þó viðgengizt frá 2003. Núna munar 11 %-38 % innan sömu dreifiveitu á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Almennt á ennfremur að hygla notendum með tiltölulega jafna (yfir sólarhringinn) og mikla orkunotkun.
- Rafhitunarkostnaður í dreifbýli (án hitaveitu) í ár verður væntanlega um kISK 300 á fjölskyldu.
- Eftir OP#3 og með sæstreng má búast við hækkun um 190 kISK/ár á núvirði.
- Hitaveitukostnaður í dreifbýli nemur í ár um kISK 240.
- Reikna má með um 16 % hækkun á hitaveitu, ef rafmagn hækkar um 64 %. Það er vegna mikillar raforkunotkunar hitaveitna vegna vatnsdælingar. Þá hækkar meðalhitaveitukostnaður í dreifbýli um 38 kISK/ár.
6.4.2019 | 21:09
Rúsínan í pylsuenda orkumarkaðstilskipunar
Á þessu vefsetri hefur verið rakið, hvernig Orkumarkaðstilskipun 2009/72/EB, sem er hluti af Þriðja orkupakka ESB, felur í sér valdatöku Evrópusambandsins með embættismann sinn,Landsreglarann, í stafni, yfir Landsneti. Nú verður haldið áfram, þar sem frá var horfið í vefgreininni, "Lýðræðið og Landsreglarinn".
6. Landsreglarinn skal vakta og meta framkvæmd 10 ára Kerfisáætlunar Landsnets.
7. Í þeim tilvikum, að rekstraraðili raforkuflutningskerfisins [Landsnet] af einhverjum öðrum orsökum en óviðráðanlegum, sem liggja utan valdsviðs hans, lætur hjá líða að fara í fjárfestingu, sem hefði átt að raungera á fyrsta 3 ára tímabili 10 ára áætlunarinnar, skulu aðildarríkin tryggja, að Landsreglarinn verði skuldbundinn til minnst einnar af eftirtöldum aðgerðum til að tryggja framgang þeirrar fjárfestingar, sem í hlut á, ef hennar er enn þörf samkvæmt nýjustu 10 ára áætlun:
a) krefjast þess, að Landsnet fari í umrædda fjárfestingu
b) skipuleggja útboðsferli, sem sé opið fyrir fjárfesta i viðkomandi fjárfestingarverkefnum, þannig að þeir geti tekið verkið að sér, eða
c) skylda Landsnet til að auka eigið fé sitt til að fjármagna hinar nauðsynlegu fjárfestingar og láta óháða fjárfesta taka þátt í fjármögnuninni.
Ef Landsreglarinn hefur notað vald sitt til að krefjast verkútboðs samkvæmt lið b að ofan, getur hann skyldað Landsnet til að fallast á einn eða fleiri eftirtalinna valkosta:
a) fjármögnun frá hvaða þriðja aðila sem er
b) verkframkvæmd hvaða þriðja aðila sem er
c) Landsnet reisi mannvirkin
d) Landsnet reki viðkomandi mannvirki
Landsnet skal veita fjárfestunum allar upplýsingar, sem eru nauðsynlegar til að framkvæma fjárfestingarverkefnið, tengja nýju mannvirkin við flutningskerfið og almennt að gera allt, sem í sínu valdi stendur, til að auðvelda framkvæmd fjárfestingarverkefnisins.
Landsreglarinn skal fá valda fjármögnunarleið til samþykktar.
8. Ef Landsreglarinn hefur notað valdheimild sína í lið 7.a, skulu gjaldskrárákvarðanir taka mið af fjármögnun framkvæmdanna, sem Landsreglarinn bætti inn á framkvæmdaáætlun.
Hér eru viðamiklar valdheimildir til að ráðskast með Landsnet færðar Landsreglara. Það er ljóst, að Landsnet mun ekki geta frestað verkum, sem Landsreglarinn er búinn að samþykkja inn á Framkvæmdaátlun til þriggja ára. Það þýðir ekki að bera við fjárskorti, því að þá er gjaldskrárhækkun, alútboð og leiga á mannvirkjum eða skuldabréfaútboð í boði að hálfu Landsreglara.
Það er ljóst, að Landsreglarinn mun t.d. hafa völd til að stjórna því með harðri hendi, að búið verði í haginn fyrir flutning á nauðsynlegu afli, t.d. 1200 MW, frá stofnrafkerfi landsins og niður að lendingarstað aflsæstrengs í tæka tíð áður en taka á strenginn í notkun. Sá kostnaður verður allur fjármagnaður með hækkun á gjaldskrám Landsnets til almennings og stóriðju. Þetta er ótækt framsal valdheimilda til stofnunar, sem rétt kjörnum stjórnvöldum á Íslandi er ekki ætlað að hafa nein áhrif á.
Hið orkuhungraða Evrópusamband hefur sótt fjölgun aflsæstrengja frá Noregi fast, og nú er í afgreiðslu hjá Orkustofnun Noregs (NVE) umsókn frá hlutafélaginu NorthConnect um samnefndan aflsæstreng frá Harðangri í Noregi til Petershead á Skotlandi.
Þessi sæstrengur var til umræðu í Noregi í byrjun árs 2018. Statnett (norska Landsnet) hefur lagzt gegn leyfisveitingu fyrir þennan streng að svo komnu máli, því að fyrst sé nauðsynlegt að sjá efnahagslegar og tæknilegar afleiðingar af tveimur 1400 MW sæstrengjum, sem nú eru á framkvæmdastigi, annar til Englands og hinn til Þýzkalands. Eignarhaldið á NorthConnect er mörgum Norðmönnum þyrnir í augum, því að allar aðrar millilandatengingar við Noreg eru í eigu Statnetts. Fyrir norska Verkamannaflokkinn er eignarhaldið frágangssök. Þannig var það eitt af 8 skilyrðum flokksins fyrir stuðningi á Stórþinginu við Þriðja orkupakkann 22. marz 2018, að eignarhaldið á NorthConnect yrði á hendi Statnetts. ESB hefur engu svarað um þessi 8 skilyrði, enda brjóta þau í bága við reglur Þriðja orkupakkans og/eða EES-samningsins. Skilyrðið, sem utanríkisráðherra Íslands virðist hafa gert munnlegt samkomulag við (handsalað ?) framkvæmdastjóra orku- og loftslagsmála hjá ESB í Berlaymont í Brüssel er af svipuðum toga, lagalega algerlega haldlaust og með eindæmum, að Íslendingum skuli vera boðið upp á svona trúðsleg stjórnmál.
De Facto heitir þekkingarsetur norsku verkalýðshreyfingarinnar. Þar á bæ hefur fólk lagt mat á afleiðingar 3. og 4. orkupakkans í Noregi og komizt að þeirri niðurstöðu, að 12´000 störf verði í hættu í orkukræfum iðnaði og með afleiddum störfum utan verksmiðjugirðinganna verði alls 30´000 störf í uppnámi. Miðað við orkuna, sem fer til þessa iðnaðar í Noregi og á Íslandi, verða um 8´000 störf á Íslandi í stórhættu, ef Orkupakkar #3 og #4 fá að grassera hér með þeim orkuflutningum frá "grænni rafhlöðu" norðursins til orkuhungraðrar "þungamiðju" fjármagns og iðnaðar Evrópu. Hví kvaka ei foglar Samtaka iðnaðarins á Íslandi eilítið hærra. Vita þeir ei, hvað til síns friðar heyrir ?
Í Noregi er nú verið að blása til sóknar fyrir norskan iðnað og byggðir Noregs fram að Stórþingskosningum 2021. Terje Lien Aasland, framámaður í norsku verkalýðshreyfingunni, sagði í ræðupúlti á Landsfundi norska Verkamannaflokksins nýlega: "Ekki eitt einasta kW skal fara úr landi, ef iðnaðurinn okkar þarfnast þess". Svona eiga sýslumenn að vera. Ekkert holtaþokuvæl !