Færsluflokkur: Kjaramál

Skaðlegar kröfur

Mikil óþreyja virðist hafa gripið um sig á meðal þeirra, sem móta kröfugerð verkalýðsfélaga. Þetta er gjörsamlega úrelt nálgun á viðfangsefninu, sem er að auka ráðstöfunartekjur félagsmannanna og að lækka verðlag í landinu.

Sú nálgun á þessu viðfangsefni að hækka taxta um meira en nemur framleiðniaukningu er gjörsamlega vonlaus og leiðir ekki til annars en verðbólgu og hræðilegrar kjararýrnunar í kjölfarið. 

Launasamanburður við aðrar þjóðir missir algerlega marks, því að þá verður vitaskuld að taka tillit til landsframleiðslu á íbúa viðkomandi lands, VLF/íb.  Ofspenntar launahækkanir leiða ekki til annars en lækkunar á þessu hlutfalli, því að samkeppnistaða viðkomandi greinar og jafnvel landsins alls versnar, og þar með minnka tekjurnar. Hér að neðan gefur að líta verga landsframleiðslu í kEUR (EUR 000) á íbúa 2012 ásamt meðalhagvexti 2003-2013 og hagvexti 2013 (í sviga er hlutfall framleiðsluverðmætis m.v. Ísland) á  Norðurlöndunum, nema Færeyjum, og að meðaltali í Evrópusambandinu : 

   Land   kEUR/íb Hagvöxtur                  

  • Noregur: 49,9 :1,5 % og 0,6 % (1,74)
  • Svíþjóð: 32,8 :2,1 % og 1,5 % (1,14)
  • Danmörk: 32,0 :0,6 % og 0,4 % (1,11)
  • Finnland:29,1 :1,3 % & -1,4 % (1,01)
  • Ísland:  28,7 :2,4 % og 3,3 % (1,00)
  • ESB 27:  25,6 :2,2 % og 1,5 % (0,89)

Þessi tafla gefur til kynna, hvílíka sérstöðu Noregur hefur varðandi landsframleiðsluverðmæti á íbúa, sem er t.d. 74 % hærri en á Íslandi.  Tekjudreifingin í Noregi væri einkennileg, ef allar stéttir væru ekki mun launahærri þar en á Íslandi. Af þessum ástæðum er algerlega út í hött í launabaráttunni hérlendis að bera laun hérlendis saman við laun í Noregi. Miklu nær er að ræða leiðir og aðferðir til auka landsframleiðslu Íslendinga.

Annað mál er, að í Noregi eru beinir skattar hærri en hérlendis, og eftir að núverandi fjárlagafrumvarp hefur hlotið gildistöku með þeim endurbótum á óbeina skattkerfinu, sem þar er að finna, þá verða óbeinu skattarnir á Íslandi svipaðir og í Noregi. 

Orka af öllu tagi er mun dýrari í Noregi en á Íslandi, húsnæðisverð hefur í Noregi hækkað upp úr öllu valdi og er komið að þanmörkum, og t.d. bílar eru þar mun dýrari en á Íslandi. Norska hagkerfið stendur frammi fyrir vandræðum, því að hagkerfi Noregs er ósamkeppnihæft vegna hás kostnaðar, þ.m.t. olíuiðnaðurinn m.v. markaðsverðið 80 USD/tunna. Kaupmáttur á Íslandi getur orðið hærri en í Noregi á næsta áratug, ef hér verður rétt haldið á spilunum í anda stöðugleika og engar kollsteypur teknar. 

Hagvexti á Íslandi árið 2014 er spáð verða 3,5 %, en í hinum löndunum í töflunni verður hann líklega á bilinu -1,0 % til +1,0 %.  Ef áætlaðar fjárfestingar næstu ára ganga eftir, gæti hagvöxtur á Íslandi orðið 3,0 % hærri að jafnaði á ári en í hinum löndunum í töflunni.  Þá náum við öllum, nema Noregi, á 5 árum í VLF/íb.

Þetta þýðir þó ekki, að laun hér geti almennt náð sænskum launum á 5 árum.  Það er vegna þess, að ríkissjóður, sveitarfélög og fyrirtæki hérlendis, eru skuldsettari en í Svíþjóð, og vaxtastigið hérlendis er hærra en annars staðar í Evrópu, og þar af leiðandi er fjármagnskostnaður mun meiri á Íslandi en í Svíþjóð. Nú hillir undir snögglega minnkun skuldsetningar almennings, og er vonandi, að hún minnki áfram hægt og bítandi, þó að vextir fari nú lækkandi. Fjármagnskostnaður ríkissjóðs, aðallega í gjaldeyri, er t.d. um ISK 70 mia/ár, og gefur auga leið, hvílíkur léttir það verður fyrir þjóðfélagið að t.d. helminga skuldirnar. Slíkt tekur a.m.k. 5 ár,þó að hagkerfið fái frið og jafnvægi.

Á þessu ári verður kaupmáttaraukning á Íslandi að jafnaði um 4 %, og eftir síðustu vaxtalækkun Seðlabankans stefnir í lækkun fjármagnskostnaðar um 4 % hjá skuldugu fólki. 

Líklega þekkjast hvergi á byggðu bóli aðrar eins almennar kjarabætur um þessar mundir og á Íslandi.  Allan þennan mikla ávinning er þó í sviphendingu hægt að eyðileggja með offorsi og óhóflegri kröfugerð um launahækkanir. Seðlabankastjóri hefur t.d. lýst því yfir, að verði launahækkanir almennt yfir þeim mörkum, sem hann telji hagkerfið ráða við, þá verði Seðlabankanum beitt til hækkunar vaxta, og þeir geta þá hæglega hækkað yfir þau 6,0 %, sem þeir voru í fyrir síðustu lækkun.  Þar með stæðu flestar fjölskyldur uppi með lækkaðan kaupmátt, þegar fjármagnskostnaður hefur verið greiddur. Öllum launþegum má ljóst vera, að þróun hagkerfisins er lykilstærð fyrir hag almennings í landinu.

Læknastéttin er nú í verkfallsbaráttu fyrir hækkun launa langt umfram það, sem aðrar stéttir hafa samið um frá 2006. Læknar hafa um tvöföld laun á við hjúkrunarfræðinga og um tvöföld meðallaun á Íslandi. Hér skal ekki leggja dóm á það, hvort þetta hlutfall er eðlilegt eður ei, né gera því skóna, að læknar séu ofsælir af sínum launum. Þvert á móti hafa þeir aflað sér þjóðfélagslega mikilvægrar þekkingar, og margir þeirra hafa náð mikilli færni á sínu sviði, þó að innan um séu svartir sauðir, eins og í öllum stéttum.  Nægir þar að nefna, að Íslendingar eru sagðir mestu lyfjaætur í heimi, og eru þó flest þessi lyf lyfseðilsskyld. Læknar eiga þess vegna skyldar háar tekjur, enda er starfsævi þeirra í styttra lagi.

Það er röskun á téðu hlutfalli launa, sem er hins vegar vandamálið hér og nú. Að ganga að kröfum lækna í yfirstandandi vinnudeilu hefði í fyrsta lagi í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, sem nemur yfir 1 % af veltu hans, og til þess er enn ekki svigrúm, þó að það muni koma, og hins vegar mundu samningar á þessum nótum þrýsta sér niður allan launastigann og sprengja hagkerfið í loft upp með útgjaldauka launagreiðenda um allt að 50 %.  Verðstöðugleikinn hyrfi þá upp í gasbláma, fjármagnskostnaður skuldara ryki upp í himinhæðir, krónan félli býsna djúpt og ráðstöfunartekjur almennings mundu í raun lækka mikið, svo að hagur allra mundi versna hræðilega.

Það verður að vona í lengstu lög, að læknar láti strax af vinnustöðvunum sínum, sem eru fordæmalausar, enda verður ekki séð, hvernig þær samrýmast Hippokratesareið lækna. Fórnarlömbin í þessari kjaradeilu er fólk í nauðum statt, fólk, sem ekki hefur valið sér það hlutskipti að þurfa að leita á náðir lækna, fólk, sem ekki getur borið hönd yfir höfuð sér.

Samfélagslega eru slíkar kjaradeilur í raun óviðunandi.  Þess vegna væri bezt, að aðilar þessarar deilu samþykktu að vísa henni til úrskurðar Kjaradóms. Hann mundi líklega taka tillit til þess, að læknar á launaskrá ríkisins hafa dregizt aftur úr öðrum ríkisstarfsmönnum og dæma þeim kjarabætur samkvæmt því í einhverjum áföngum. 

Annað mál er aðbúnaður á ríkissjúkrahúsinu við Barónsstíg að starfsfólkinu þar og skjólstæðingum þess.  Það er brýn þörf á byltingu í þeim efnum, og að færa Háskólasjúkrahúsið inn í nútímann, og er þá engri rýrð kastað á færni þess fólks, sem þar starfar nú. Líklega vinnur það kraftaverk á hverjum degi við misjafnar, og í sumum tilvikum, dapurlegar aðstæður. Það ber að selja ríkiseignir til að afla fjár til þessa verkefnis. Er þá litlum vafa undirorpið, að sjúklingar munu senn njóta sambærilegs atlætis og á hinum Norðurlöndunum og íslenzkir læknar sjá hag sínum vel borgið við störf hérlendis, ef hagkerfið fær að vaxa og dafna, eins og efni standa til.          

 Rikshospitalet 

        

    

  

 

 


Skattkerfisbreytingar til bóta - loksins

Miklu moldviðri hefur verið þyrlað upp í kringum tillögu Fjármála- og efnahagsráðherra um löngu tímabærar endurbætur á kerfi óbeinna skatta, er miða að aukinni skilvirkni kerfisins, þ.e. bættum skattskilum og einföldun fyrir alla, ekki sízt þá, sem þurfa að vinna með þetta kerfi.  Hér er um áfanga í átt til einnar virðisaukaskattheimtu og lækkunar verðlags í landinu, sem er í hag allra fjölskyldna í landinu, hvað sem önugum nöldurseggjum dettur í hug að bera á borð opinberlega eða annars staðar.

Það verður að meta þessar tillögur heildstætt, því að breytingarnar eru margþættar, en nefna má afnám vörugjalda á matvæli og aðrar vörur, afnám sykurskatts, sem lagður var á undir formerkjum neyzlustýringar, en hafði engin önnur áhrif en að hækka verð á mörgum matvörum.  Þá er neðra þrep virðisaukaskatts hækkað úr 7,0 % í 12,0 % samkvæmt tillögunum, og efra þrepið lækkað úr 25,5 % í 24,0 %. 

Skattbyrðin er með þessum aðgerðum lækkuð um 3,0 milljarða kr, og barnabætur eru auknar um 1,0 milljarð kr.  Að jafnaði er þetta augljóslega hagstæð aðgerð fyrir hinn almenna neytanda, en sáð hefur verið efasemdarfræjum um, hvernig ávinningurinn gagnast mismunandi tekjuhópum.  Þetta er allt hægt að kryfja, og hefði óneitanlega verið skynsamlegra, t.d. af efasemdarmönnum í hópi stjórnarsinna, að skoða fílinn allan í heild í stað þess að einblína á eina löpp á þessum stóra fíl, sem hér er til skoðunar, og draga víðtækar ályktanir um útlit og eðli fílsins á þessum hæpna grundvelli. Slíkt getur verið merki um yfirborðsleg vinnubrögð, sem jafnvel bera keim af lýðskrumi. 

Sannleikurinn er sá, að þeir, sem berjast gegn breytingum á skattkerfinu, eins og þær birtast í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, standa vörð um áframhaldandi ávinning hins ríkari hluta þjóðarinnar, sem yfirleitt gerir betur við sig í mat og drykk en þeir, sem minna hafa á milli handanna.  Sparnaður þeirra vegna 7 % VSK á matvæli í stað 12 % getur hæglega numið 50 þúsund kr á mann á ári.  Þegar þessir gagnrýnendur  þykjast taka upp hanzkann fyrir fátæklinga, er það á fölskum forsendum, og þeir verja þar með í raun áframhaldandi forréttindi hinna ríkari að borða dýrt án þess að greiða af því skatt til ríkisins sambærilega háan og gert er á hinum Norðurlöndunum, þar sem virðisaukaskattur á matvæli er hvergi undir 12 %.

Þá má minna á, að OECD - Efnahags- og framfarastofnunin og AGS - Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafa báðar ráðlagt Íslendingum að stytta bilið á milli lægra og efra skattþrepsins af eftirfarandi ástæðum:

  • stórt bil freistar til rangrar flokkunar og dregur úr skatttekjum
  • efra VSK-þrepið á Íslandi er eitt hið hæsta í heimi; það spennir upp verðlag í landinu, færir verzlun utan og freistar til undanskota.  Allt er þetta þjóðhagslega óhagkvæmt.
  • lágur skattur á matvæli mismunar fólki eftir efnahag, ríkum í hag.  Allir þurfa að borða, en hinir efnameiri nota mun meira fé á mann, jafnvel tvöfalt meira, í matvælakaup og drykkjarföng en hinir efnaminni.  Með lágum virðisaukaskatti á matvæli er verið að hlífa hinum betur settu við eðlilegum skattgreiðslum.  Samkvæmt Hagstofunni eyðir fólk í efsta fjórðungi tekjustigans 60 % meira fé í matvæli en fólk í neðsta fjórðunginum.  Ef bornar eru saman neðsta og efsta tekjutíundin, verður munurinn enn meiri, og verða notuð 80 % í útreikningum hér að neðan. Með þessu skrýtna háttarlagi, sem hvergi tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum, er verið að færa hinum bezt settu í þjóðfélaginu um 3,0 milljarða kr á silfurfati.  Er ekki kominn tími til, að létta þeim af öllum hinum með því að láta fólk greiða skatt af matvælum, dýrum og ódýrum, eins og tíðkað er í öðrum löndum ?

 

Pawel Bartoszek hefur svarað þessari spurningu að sínu leyti í Fréttablaðinu 13. september 2014 í greininni: "Gegn fátækt sem var".  Verður hér vitnað í grein hans:

"Sú var tíðin, að fólk, sérstaklega fátækt fólk, þurfti að nota mjög stóran hluta af fé sínu til að kaupa sér mat.  Þetta hefur breyst.  Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar Bandaríkjanna (BLS) lækkaði þáttur matvöru í heildarútgjöldum heimilanna þar í landi úr 43 % árið 1901 í 13 % árið 2002."

Óumdeilt er, að þróunin hefur orðið með svipuðum hætti á Íslandi, því að "Rannsókn á útgjöldum heimilanna 2010-2012", sem Hagstofa Íslands stóð að, gaf 14,9 % af ráðstöfunartekjum heimilanna til matarkaupa að jafnaði.  Styr stendur um, hvernig þetta hlutfall breytist með tekjustigi.  Hagstofan upplýsir, að tekjulægsti fjórðungurinn noti 17 % af ráðstöfunartekjum sínum til matar og tekjuhæsti fjórðungurinn noti 14 %.  Því er haldið fram, að enn meiri munur sé á þessum hópum, og er þá e.t.v. átt við efstu og neðstu tíund tekjustigans.  ASÍ gefur upp 10 % og 21 % og er allt í lagi að nota þær tölur við útreikningana, en þá hækkar munurinn á kostnaði innkaupakörfunnar, og í stað 60 % verður áætlaður 80 % munur á mann á matarkostnaði fátæks og ríks.  

Deilan um það, hvort tillögur BB um skattkerfisbreytingar muni auka útgjöld fátækra heimila er í raun deila um það, hvernig mótvægisaðgerðirnar koma út.  Hlutfall matarútgjalda af ráðstöfunartekjum heimila þarf að verða allt að 60 % til að mótvægisaðgerðirnar vegi ekki hækkun VSK á matvæli úr 7 % í 12 % upp og meira til.  Til að setja undir þennan leka eru barnabætur auknar um 1 milljarð kr.  Strax sumarið 2013 beitti núverandi ríkisstjórn sér fyrir hækkun framlaga til elli- og örorkulífeyrisþega.  Það er gert ráð fyrir hækkun framlaga til málaflokksins í fjárlögum fyrir 2015.  Samanlagt fela fjárlög ársins 2014 og frumvarpið fyrir 2015 í sér yfir 13 milljarða kr til málaflokksins. 

Augljóslega munu þessi framlög ásamt öðrum mótvægisaðgerðum tryggja hinum lakast settu betri fjárhagsstöðu eftir þessar aðgerðir en á undan þeim, ekki sízt þar sem raunhækkun matvæla nemur aðeins 2,5 % í stað 5 % vegna afnáms sykurskatts og vörugjalds á ýmsar matvörur.  Þá má nefna, að heildarendurskoðun á fyrirkomulagi vaxtabóta og húsaleigubóta er að ljúka.

Miðað við ætluð undanskot í núverandi virðisaukaskattskerfi má ætla, að ríkissjóður muni hagnast meira á þessari breytingu en kostnaðinum í tengslum við þær, 4 milljörðum kr, nemur, vegna fækkunar undanþága, einföldunar og minni freistingar til að flokka vöru og þjónustu í lægri flokkinn eftir breytinguna.  

Hvers vegna ætti ríkið að veita þeim, sem efni hafa á að verja háum upphæðum til kaupa á mat og drykk, "afslátt" á virðisaukaskatti ?  Er ekki eðlilegra, að innkaup á dýrum mat skapi ríkissjóði tekjur og grundvöll til lækkunar á verðlagi í landinu, eins og samþykkt fjárlagafrumvarpsins mun vafalaust hafa í för með sér ?  Um þetta tjáði Pawel Bartoszek sig með eftirfarandi hætti í téðri grein:

"Með einföldum hætti mætti hugsa þetta svona: fyrir hvern hundraðkall, sem við ætlum að gefa fátækum manni á formi lægri matarskatta, þurfum við að gefa ríkum manni 200 kall.  Virðisaukaskattur, eins sniðugur og hann er, er ekki gott tæki til tekjujöfnunar.  Tekjuskattar henta betur."  

Nokkru seinna heldur Pawel áfram:

"Mín skoðun er, að það væri betra að hafa eina vaskprósentu , sem fæstar undantekningar og sem fæst vörugjöld."

Það er hægt að taka undir þetta allt með Pawel Bartoszek, stærðfræðingi.  Vegna þess að fólk, vel efnum búið, kaupir matvæli fyrir jafnvel tvöfalt hærri upphæð á mann en fólk, sem má láta sér lynda kröpp kjör, þá umbunar ríkið hinum betur settu með tvöfaldri peningaupphæð, sem þeir sleppa við að greiða sem skatt af mat, þó að þeir noti hlutfallslega jafnvel helmingi minna af launum sínum til matarkaupa.  Þetta er réttlæti "jafnaðarmannsins", en aðrir mundu segja "andskotans".

Afstaða ASÍ til þessa máls vekur undrun þeirra, sem héldu, að ASÍ væri málsvari lítilmagnans, en það er auðvitað mikill misskilningur.  ASÍ er málsvari "nómenklatúrunnar", búrókrata, sem hreiðrað hafa um sig á skrifstofum verkalýðsfélaganna og í hlýjum stjórnarherbergjum lífeyrissjóðanna.  Þeir vilja ekki greiða eðlilegan skatt af matarkaupum sínum.  Samt hagnast þeir örugglega, ef umræddar tillögur verða að veruleika, vegna lækkunar efra þreps virðisaukaskattsins og lækkunar verðlagsvísitölu. 

Hagfræðingar Alþýðusambandsins eru í þessu máli á öndverðum meiði við AGS og OECD, á öndverðum meiði við útreikninga Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, og á öndverðum meiði við ríkjandi viðhorf í "norrænu velferðarríkjunum" og líklega jafnvel líka á öndverðum meiði við hagfræðinga ESB í Berlaymont.  Hvað í ósköpunum hefur eiginlega komið yfir þá.  Ekki þó hentistefnufjandinn ?  Er þörf fyrir að taka þátt í pólitískum loddaraleik ?  Hér skal fullyrða, að nái fjárlagafrumvarpið fram að ganga með umræddum breytingum á skattakerfinu og öllum mótvægisaðgerðunum, þá mun slíkt hafa hagfelld áhrif á afkomu allra félagsmanna ASÍ. 

Nú verður tekin létt reikniæfing til glöggvunar á dæminu, sem hér er til umfjöllunar, og notaðar eftirfarandi forsendur:

  • matarkostnaður að meðaltali 74 kkr á mann á mánuði með 7 % VSK samkvæmt Hagstofunni uppfært frá 2002 til 2004
  • matarkostnaður lágtekjufólks 40 % undir meðaltali, þ.e. kkr 591 á ári án VSK
  • matarkostnaður hátekjufólks er 80 % yfir matarkostnaði lágtekjufólks (þetta eru meiri öfgar en Hagstofan fær fyrir efsta og neðsta tekjufjórðung) neytenda
  • hækkun virðisaukaskatts af matvælum verður 5,0 % samkvæmt frumvarpinu.  Vegna mótvægisaðgerða á borð við afnám sykurskatts og vörugjalda á matvæli þá verða verðlagsáhrif á mat helmingi minni,þ.e.a.s. 2,5 %.
  • vegna annarra mótvægisaðgerða, þ.e. lækkunar virðisaukaskatts á aðrar vörur en matvæli úr 25,5 % í 24,0 % og afnáms vörugjalda, sem ýmist eru 15 %, 20 % eða 25 %, á marga vöruflokka, má reikna með lækkun verðs á þessum vörum um 2,5 %.  Það er rangt, sem haldið er fram, að slíkar lækkanir skili sér ekki í vöruverði.  Bæði Hagstofan og Rannsóknarsetur verzlunarinnar á Bifröst hafa rannsakað þetta og staðfest, að lækkanir skila sér.  Þegar fólk hefur þær upplýsingar, geta aðeins "kverúlantar" haldið öðru fram. 

Til viðbótar koma eftirtalin atriði, sem létta undir með fólki og virka til lækkunar á vísitölu verðlags, sem vægt reiknað lækkar um 0,2 % samkvæmt Fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

  • í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir raunlækkun verðs á eldsneyti, tóbaki og áfengi, því að hefðbundnum krónutöluhækkunum á þessar vörur er sleppt, sem þá dregur úr hækkun vísitölu verðlags

Til tekjuauka koma nokkrar mótvægisaðgerðir:

  • barnabætur hækka um einn milljarð kr, og þær hækka mest hjá þeim, sem lægri hafa tekjurnar
  • fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar árið 2013 var að hækka örorku- og ellilífeyrisbætur.  Samanlagt fela fjárlög ársins 2014 og 2015 í sér yfir 13 milljarða kr hækkun á þessum bótum.  Það munar verulega um þessar fjárhæðir fyrir hvern einstakan bótaþega, a.m.k. fyrir þá, sem höfðu takmörkuð fjárráð fyrir.  "Kverúlantar" geta haldið því fram, að þessir hópar verði illa úti í fyrirhuguðum skattkerfisbreytingum, en málflutningur þeirra er öfugmælaskáldsins og falsspámannsins.

 

Sannleikurinn er sá, að tekjulægsti hópurinn þarf að sjá af 14 þúsund krónum meira á mann á ári til matarkaupa vegna þessara breytinga, en þar sem flestar aðrar vörur, t.d. föt, skór, hreinlætisvörur og hvers konar áhöld og tæki, sem eru snar þáttur í útgjöldum hvers heimilis, lækka, þá lækka útgjöld til annars en matvæla um 56 þúsund kr á ári hjá hinum tekjulægstu.  Útgjöld lægstu tekjutíundar fólks lækka um (56-14) = 42 þúsund krónur á mann á ári vegna ráðstafana í fjárlagafrumvarpi 2015.
Það er gjörsamlega óskiljanlegt, hvers vegna forysta ASÍ tekur þessum breytingum jafnilla og raun ber vitni um.  Þegar ljóst er, að ráðstöfunartekjur lægsta tekjuhópsins aukast um a.m.k. 42 þúsund kr á ári á mann, eða um tæplega 110 þúsund kr á ári á hverja meðalfjölskyldu, þá eru eftirfarandi ummæli Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, sem höfð eru eftir honum í Morgunblaðinu 18. september 2014 undir fyrirsögninni: "Þarf að geta borgað reikningana", gjörsamlega eins og út úr kú:
"Fyrst og fremst verður að tryggja það, að fólk hafi nægjanlegar tekjur til að takast á við þessar skerðingar; það er ekkert annað að gera.  Það þarf að borga reikningana."
Þessi ummæli ganga algerlega á svig við heilbrigða dómgreind, þegar staðreyndir málsins eru reifaðar.  Þess vegna verður manni á að spyrja: "Cuo bono" eða hagsmunum hverra er þessi "verkalýðsleiðtogi" eiginlega að þjóna ?
Það er ljóst, að hinir betur settu í þjóðfélaginu munu þurfa að greiða yfir 50 þúsund kr á mann á ári meira í virðisaukaskatt af matvælum en áður.  Engu að síður koma þeir út með góðan hagnað af þessum aðgerðum, því að vegna mótvægisaðgerða greiða þeir aðeins 27 þúsund kr meira á mann ári á fyrir matvæli, og lækkun útgjalda verður um 168 þúsund kr á mann á ári eða nettó 141 þúsund kr á mann á ári í lækkun útgjalda.
Ráðstöfunartekjur allra hópa munu aukast um 1,5 % vegna þessara væntanlegu skattalagabreytinga.  
Þessar tölur eru reistar á neyzlukönnun Hagstofunnar.  Hún er auðvitað bundin óvissu, en þrátt fyrir hugsanlega ónákvæmni í útreikningum er alls engum blöðum um það að fletta, að hagur allra launþega mun batna og hagur langflestra, ef ekki allra, bótaþega líka, eins og að ofan er rakið.
Það er eingöngu verið að reyna að slá pólitískar keilur með því að sá fræjum tortryggni í garð útreikninga, sem lagðir hafa verið fram með frumvarpinu, og í garð tölulegra upplýsinga Fjármála- og efnahagsráðherra, sem hann birti t.d. í Morgunblaðinu föstudaginn 12. september 2014 undir fyrirsögninni: "Allra hagur". 
Lýðskrumarar eru ekki vanir að færa nein rök fyrir sínu máli, og það hefur sannazt hér.  Þeir liggja hér á því lúasagi að einblína á aðeins eitt atriði fjölþættra aðgerða og fimbulfamba um "hækkun matarskattsins".  Þetta er eins ómálefnalegt og mest getur verið, og vegur þeirra vex ekki við svo óvandaðan málflutning; svo mikið er víst.   
  Gammur vokir yfir hræiSameignarstefnan og skattgreiðendur
  
  
     

 

 

   

 

    

  

 


Af kálhöfði og öðrum jarðargróða

Höfund rak í rogastans við lestur greinarstúfs í Fréttablaðinu 19.08.2014 eftir Þórólf Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. 

Þessi starfsmaður, sem augljóslega þiggur laun frá skattborgurum þessa lands, þ.á.m. bændum, fyrirtækjum þeirra og fjölda starfsmanna þar, hefur að vísu ekki úr háum söðli að detta eftir alræmda tilburði sína við að sannfæra landsmenn og stjórnvöld landsins á dögum ESB-ríkisstjórnarinnar (ríkisstjórn Jóhönnu og þingmeirihluta hennar þurfti að vísu ekki að sannfæra) um, að þeim væri fyrir beztu að taka á sig Icesave-ánauðina, sem hæglega gátu orðið 2 milljarðar sterlingspunda, aðallega vextir, séð nú í baksýnisspegli.  

Að öðrum kosti, samkvæmt boðskapi þessa kinduga hagfræðiprófessors, biði Íslendinga enn hrikalegra hrun gjaldmiðilsins, útskúfun af lánamörkuðum og fjöldaatvinnuleysi, eiginlega Brimarhólmsvist allra landsins barna að hætti Jóns Hreggviðssonar, þess er jafnan orti Pontusrímur, er á móti blés. Allar eru þessar hrakspár prófessorsins skjalfestar, og allar urðu þær téðum hagfræðiprófessor til ævarandi skammar.  Að honum detti í hug nú, rúnum trausti, að tjá sig á opinberum vettvangi með lítilsvirðandi hætti um heila atvinnugrein, er staðfesting á áður sýndu dómgreindarleysi.  Hver vill ekki hafa slíkan mann á ríkisjötunni ? 

Þegar opinberri frásögn Hannesar Gissurarsonar, prófessors, af því, er téður Þórólfur skipaði Hannesi með hávaða og ljótu orðfæri í matsal Háskóla Íslands eftir Hrunið 2008 að segja af sér sem bankaráðsmaður í Seðlabankanum, er bætt við ferilskrá Þórólfs, er vægasti dómur, sem hægt er að kveða upp yfir honum, að hann sé dómgreindarlaus. Hvernig má það vera eftir það, sem á undan er gengið, að hann njóti stuðnings rektors og háskólaráðs til að móta faglegt uppeldi tilvonandi íslenzkra hagfræðinga ?

 

Það er engan veginn gott til þess að vita, að maður með svo brenglaða sýn á hagkerfið og áhrifavalda þess og takmarkaða sjálfstjórn, eins og Icesave-umræðan og hneykslið í matsal Háskólans sýnir, skuli starfa við það í ríkisháskóla að undirbúa tilvonandi hagfræðinga fyrir lífsstarf þeirra.  Enn heggur nú þessi starfsmaður okkar skattborgara í knérunn heilbrigðrar skynsemi og staðfestir í raun, hvílíkur gallagripur hann er, en í þetta sinn, og ekki í fyrsta sinn hjá prófessornum, eru bændur landsins skotspónninn.   

Með greinarstúfinum, "Bændamálastjórar, ekki meir, ekki meir", í Fréttablaðinu 19. ágúst 2014, veittist téður hagfræðiprófessor að bændastéttinni og forystu hennar með óbilgjörnu móti að hætti götustráka, sem fæstir skattborgarar þessa lands kunna að meta, svo almenns stuðnings, skilnings og virðingar, sem bændastéttin nýtur í landinu.  Hinn vanstillti prófessor hóf árásirnar á bændur með eftirfarandi hætti í téðum greinarstúfi:

"Bændasamtökin, með dyggum stuðningi ríkisvaldsins, stjórna framleiðslu landbúnaðarafurða á Íslandi.  Inntak þessarar stefnu er í grófum dráttum, að kúa- og kindabændur eru hvattir til að framleiða mjólk og kindakjöt með því að bera á þá fúlgur fjár."

Að lýsa búvörusamningi bænda og ríkisins í slíkum götustráksstíl lýsir þessum prófessor betur en búvörusamninginum, sem rennur út 31. desember 2016.   Á öllum Vesturlöndum og víðar hefur hið opinbera afskipti af framleiðslu landbúnaðarafurða með einum eða öðrum hætti.  Fyrir því eru nokkrar ástæður: 

  1. Það er öryggismál, að grundvallar fæðuframleiðsla fari fram í hverju landi, ekki sízt eylandi, til að koma megi í veg fyrir hungursneyð, ef alvarlegir atburðir verða af náttúru- eða mannavöldum.  Líkurnar eru fremur litlar, en afleiðingarnar geigvænlegar af matarskorti.   
  2. Það er víðast hvar ríkjandi stefna, og svo hefur alltaf verið á Íslandi, að nýta afrakstrargetu landsins, eins og kostur er.  Auðvitað hafa afskekktar og erfiðar sveitir farið í eyði, en nú hafa þær reyndar öðlazt nýtt notagildi fyrir útivistarfólk.  
  3. Gæði og hollusta hafa alls staðar vaxandi vægi af heilsufarsástæðum, og svo er einnig á Íslandi. Það gefur auga leið, að þar sem vatn er af skornum skammti, og mjög víða er skortur á fersku vatni, en landbúnaður þarf mikið vatn, þar sem loftgæði eru slæm og þar sem þéttbýli er mikið, þar geta gæði landbúnaðarafurða ekki orðið sambærileg við vörur, sem framleiddar eru í ómenguðum eða lítt menguðum jarðvegi með ótakmörkuðu hágæða ferskvatni og í tiltölulega hreinu lofti, svo að ekki sé nú minnzt á lífrænan áburð.  Ísland hefur sterka stöðu í þessu tilliti vegna fámennis, ríflegs landrýmis og vegna þess, að landið iðnvæddist ekki fyrr en mótvægisaðgerðir til náttúruverndar voru komnar til sögunnar.   

Með þessu er því ekki haldið fram, að erlendur matur sé óætur eða óhollur.  Erlendis er auðvitað eftirlit með matvælaframleiðslu. Það er þó skoðun höfundar, að  samanburður á t.d. íslenzku og erlendu grænmeti í íslenzkum verzlunum sé því fyrrnefnda mjög í vil.  Það getur þó sumpart verið vöruinnflytjendum að kenna, því að svo slök gæði á grænmeti og hér má sjá í verzlunum sjást varla, þegar utan er komið. 

Það er sjálfsögð krafa á hendur smásölum matvæla, að þeir merki vörur sínar upprunahéraði vörunnar eða a.m.k. upprunalandi.  Þessu hefur víða verið ábótavant og alveg ótækt að vera í innkaupaerindum framan við kjötborð og fá engar upplýsingar um, hvaðan t.d. nautakjötið er.  Það á ekki að leggja steina í götu innflutnings á vöru, sem innlendir framleiðendur anna ekki spurn eftir, en jafnsjálfsagt, að kaupendur geti valið og hafnað á grundvelli eigin upplýsts mats.  

Það er í sjálfu sér óeðlilegt að leggja hærri innflutningsgjöld á erlend matvæli en sem nemur kostnaði af  öryggiseftirliti með þeim, ef útflutningslandið beitir ekki tollvernd gegn sams konar íslenzkri vöru.  Þetta á líka við um mjólkurvörur, s.s. osta, og annað álegg, en það er sjálfsagt krydd í tilveruna að prófa slíkar vörur erlendis frá án þess að þurfa að stofna til illbærilegra útgjalda.

 Upprunamerking matvæla ætti að vera nauðsynleg og nægjanleg meðmæli og vörn fyrir íslenzk matvæli, enda njóti íslenzkar landbúnaðarafurðir sams konar aðstöðu á mörkuðum viðkomandi landa.  Innflutningsgjöld á landbúnaðarafurðir ættu helzt að vera gagnkvæm.  Það er jafnframt líklegt, vegna framleiðniaukningar í íslenzkum landbúnaði og nýrra markaða og samkeppni, eins og að ofan getur, að matvælaverð til neytenda á Íslandi geti lækkað, en á móti kemur þá hugsanleg hækkun á virðisaukaskatti á matvæli, sem nú er í umræðunni.     

Íslenzkir dýrastofnar eru viðkvæmir gagnvart erlendum sjúkdómum, eins og hrikaleg dæmin sanna, þar sem farið var fram af vanþekkingu og óvarkárni með grafalvarlegum afleiðingum.  Það verður ætíð að hafa varúðarsjónarmið í öndvegi, þegar kemur að innflutningi á lifandi dýrum eða dýraafurðum.  Ferskt kjöt er þess vegna ekki hægt að leyfa erlendis frá, heldur verður það að vera frosið, þegar það er sent að utan.  

Íslenzkir dýrastofnar eru sumir einstakir.  Þetta á t.d. við um sauðfé, mjólkurkúastofninn og hrossin.  Verndar- og varðveizlusjónarmiðið ber eindregið að halda í heiðri á þessum stofnum, því að stofnbreytingar eru óafturkræfar.  Það er vafalaust hægt að bæta enn æskilega eiginleika núverandi stofna án blöndunar við erlenda stofna með rannsóknum og ræktun.  Þess ber að gæta, þegar afurðir erlendra stofna eru bornar saman við afurðir innlendra, hversu mikið fóður og fóðurbætir stendur undir afurðunum, og hversu mikið rými þarf fyrir gripinn, t.d. í fjósi.  Það er með öðrum orðum nýtni fóðurs og fjármagns, sem skiptir höfuðmáli.

  Sama verndunarsjónarmið getur ekki átt við um holdanautastofninn, þannig að hann ætti að mega rækta að vild til að ná tilætluðum vaxtarhraða og kjötgæðum. 

Íslenzkir bændur hafa sýnt mikinn sveigjanleika að þörfum markaðarins.  Nýjasta dæmið er af yfirvofandi skorti á mjólkurvörum, einkum vegna aukinnar spurnar eftir fituríkum vörum og aukningar á fjölda erlendra ferðamanna, en fjöldi þeirra og viðvera upp á 5,5 daga að meðaltali árið 2013 svaraði til um 12 þús. manns étandi í landinu allt árið um kring eða til um 4,0 % aukningar á mannfjölda m.v. þá, sem hafa hér fasta búsetu. 

Bændur gerðu þegar ráðstafanir til að auka mjólkurframleiðsluna.  Þeir settu fleiri kvígur á, en þeir höfðu áður ráðgert, og þeir juku fóðurbætisgjöf, sem að öðru jöfnu er afar arðsamur gjörningur.  Á tímabilinu janúar-júlí 2014 jókst framleiðsla mjólkur um 8 % m.v. sama tímabil í fyrra, enda fá kúabændur nú fullt verð fyrir alla mjólk frá afurðastöðvum án tillits til framleiðslukvótans, sem þeir eiga. 

Téður kvóti hefur fyrir vikið hríðfallið í verði á markaði, sem hefur skaðað þá eigendur, sem eru að fara að bregða búi.  Í apríl 2014 lækkaði verðið um 19 % eða úr 320 kr/l í 260 kr/l og á sennilega eftir að lækka enn meira.  Það yrði heilbrigð þróun, ef unnt verður að afnema kvótakerfið í landbúnaði vegna þess, að markaður sé innanlands og utan fyrir alla framleiðslu bændanna á því verði, sem um semst.  Er þessi jákvæða þróun þegar tekin að hafa áhrif á nýliðun í landbúnaðinum, enda minna fjárhagslegt átak að stofna til búskapar, ef ekki þarf að kaupa kvóta til að fá fullt afurðaverð.     

Íslenzkur landbúnaður er tæknivæddur, og tæknivæðing hans eykst stöðugt, ekki sízt hjá kúabændum.  Þetta hefur að sjálfsögðu leitt til mikillar framleiðniaukningar, og hlýnandi veðurfar hefur leitt til meiri uppskeru og mjög athygliverðra vörunýjunga, t.d. á sviði kornræktar.

Grænmetisframleiðsla í landinu hefur tekið stakkaskiptum, hvað gæði, framleiðni og fjölbreytni varðar.  Jarðhitinn veitir vitaskuld samkeppniforskot, og stöðugleiki rafmagnsálags vegna lýsingar hálft árið eða meir ætti að vera grundvöllur hagkvæmra raforkuviðskipta. Það ætti a.m.k. að vera unnt að hálfu orkuvinnslufyrirtækjanna að gera samning um kaup gróðurhúsabænda á ótryggðri raforku á kjörum, sem báðum aðilum eru hagfelld.  Um þetta hefur þó staðið styrr, og segja fulltrúar bænda farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við orkufyrirtækin, og er ekki grunlaust um, að dreifiveitur eigi þar jafnframt hlut að máli.  Virðist Alþingi þurfa að skerpa á því hlutverki orkugeirans að vera stuðningsaðili við atvinnuvegi í landinu, sem annaðhvort eru gjaldeyrisskapandi eða draga úr innflutningsþörf og eru þannig gjaldeyrissparandi, eins og landbúnaðurinn tvímælalaust er.    

Risagróðurhús við Grindavík fyrir tómataframleiðslu til útflutnings er ánægjuleg nýjung, sem gefur til kynna komandi útflutningsmöguleika íslenzks landbúnaðar í heimi, þar sem fæða þarf yfir 7 milljarða munna og vaxandi fjöldi fólks á svæðum fæðuskorts hefur efni á að kaupa mat frá útlöndum. Þar eru Kínverjar líklega skýrasta dæmið. 

Niðurstaða þessarar greinar er sú, að matvælaframleiðsu á Íslandi vaxi nú mjög fiskur um hrygg; þökk sé aukinni framleiðni í krafti tæknivæðingar búanna og vaxandi framleiðslu vegna stækkandi markaða innan lands og utan og batnandi árferðis með hækkandi meðalhitastigi.  Þetta mun vafalaust leiða til minnkandi þarfar á beingreiðslum úr ríkissjóði í framtíðinni sem hlutfall af fjárlögum ríkisins, og virðisaukaskattsgreiðslur af sömu matvælum munu þá sennilega nema hærri upphæð en beingreiðslurnar. 

Kaktusblóm og Reykhólakirkja 19082013

   

 

 

 

  

 


Lausn á orkuvandanum í sjónmáli

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að jarðarbúa skortir ekki orkulindir.  Þá hefur hins vegar um allnokkurt skeið skort nothæfar orkulindir, sem ekki valda slæmum umhverfisáhrifum við nýtingu.  Þetta er eitt mest knýjandi viðfangsefni nútímans.  

Kolabirgðir jarðarinnar gætu endst í a.m.k. 300 ár enn m.v. núverandi notkun, en áhrif kolabruna á nærumhverfið eru geigvænleg, eins og hryllileg loftmengun í Kína er dæmi um, og hnattræn áhrif með hlýnun jarðar verða afdrifarík, ef ekki verður þegar í stað gripið til róttækra mótvægisaðgerða. 

Þekktar olíubirgðir jarðarinnar munu endast í u.þ.b. öld enn að óbreyttri notkun, og afleiðingar olíubrennslu á loftslagið eru einnig mjög slæm. 

Jarðgasbrennsla í orkuverum er ekki endanleg lausn, en getur hjálpað dálítið til við lausn vandans, því að það mun endast í yfir 300 ár m.v. núverandi notkun og þekktar birgðir, og jarðgas veldur minnstri mengun við bruna alls kolefniseldsneytis.  Eins og kunnugt er, hefur framboð á jarðgasi aukizt með nýrri vinnslutækni, setlagasundrun (e. shale fracking), sem reist er á lóðréttri og láréttri borun og þrýstingi á miklu magni af vatnsblöndu eftir láréttu göngunum. 

Kjarnorkan átti að leysa úr vanda mannkyns við rafmagnsvinnsluna, en úraníum-eldsneytið hefur reynzt vera stórvarasamt, eins og nokkur kjarnorkuslys, þó að sjaldgæf séu, hafa varpað ljósi á.  Úrgangur úraníumeldsneytisins og afleitt efni, plútoníum, er mjög geislavirkur með langan helmingunartíma geislavirkni og er þannig stórhættulegur öllu lífi í tugþúsundir ára.  Það er hægt að eyða þessari hættu, en flutningar úrgangsins eru hættum bundnir, og eyðingin er bundin áhættu og er rándýr.  Þessum vanda hefur að miklu leyti verið sópað undir teppið með því að steypa úrganginn inn og sökkva klumpunum í vötn eða að koma þeim fyrir í saltnámum eða í manngerðum hvelfingum í fjöllum.  Þetta eru heldur óvandaðar aðferðir m.t.t. komandi kynslóða og í raun óviðunandi. 

Af þessum sökum hafa þjóðir á borð við Svía og Þjóðverja ákveðið að leggja kjarnorkuver sín niður, hinir síðarnefndu eigi síðar en árið 2022.  Þetta er gríðarlega róttæk ákvörðun, sem virðist hafa notið stuðnings meirihluta viðkomandi þjóða, en nú eru að renna tvær grímur á marga vegna kostnaðar og hækkunar raforkuverðs, sem lokun kjarnorkuveranna óhjákvæmilega hefur í för með sér.  

Hvað tekur við, er ekki almennilega ljóst.  Tiltækir endurnýjanlegir orkugjafar eru dýrari en svo, að einstakar þjóðir, t.d. Þjóðverjar, hafi efni á að taka þá upp og geti um leið haldið samkeppnihæfni sinni við aðrar þjóðir.  Undantekning frá þessu er e.t.v. lífmassi, sem aðallega samanstendur af viðarleifum og tilreiddu viðareldsneyti á formi viðarmola (e. pellets), en getur ekki staðið undir allri raforkuþörf ásamt vindorku, sólarorku, vatnsorku og jarðgufu með núverandi tækni.  Evrópusambandið, ESB, hefur ekki tekið upp þessa stefnu Þjóðverja, Orkuvendipunktinn (þ. die Energiewende), enda mundi þá samkeppnistaða ESB við umheiminn verða vonlaus.

Sólarhlöðurnar eru langóhagkvæmastar allra orkugjafanna, sem framleiða rafmagn án gróðurhúsaáhrifa.  Það kostar 189 kUSD/MW á ári að leysa kolaorkuver af hólmi með sólarhlöðum.  Næstóhagkvæmastar eru vindmyllurnar.  Vatnsorkuver geta leyst kolakynt orkuver af hólmi með hagkvæmum hætti, en langhagkvæmasti kosturinn í þessum efnum er kjarnorkan.  Viðfangsefnið er þá að þróa kjarnorkuver, sem algerlega eða að mestu eru laus við galla núverandi kjarnorkuvera.  Hugmynd að slíkri þróun er fyrir hendi, og þróun hennar mun að líkindum marka þáttaskil. 

Gaskynt orkuver eru hagkvæmust, en valda gróðurhúsaáhrifum.  Þetta er niðurstaða  útreikninga Charles Frank hjá rannsóknarsetrinu (Think-Tank) Brookings Institution, sem hefur lagt koltvíildisverðið 50 USD/t til grundvallar, en það er sjöfalt núverandi verð á koltvíildiskvóta í Evrópu.  Frank hefur reiknað út, að þessi kvóti þurfi að kosta 185 USD/t til að sólarhlöðurnar fari að skila arði.  Slíkt  verður aldrei, nema almenn samstaða náist um slíkt í heiminum.  Hagkerfi landa með slíkt verð á koltvíildiskvóta standast ekki samkeppni við hagkerfi landa með lágt verð á koltvíildiskvótanum.  Sólarhlöðurnar eru sem sagt meiri fjárhagslegur baggi á samfélögunum en virðist við fyrstu sýn, og það er þess vegna spurning, hvað um þær verður, ef nýr, skaðlítill og hagkvæmur orkugjafi kemur til skjalanna.  Þess ber að geta, að nýtni sólarhlaða batnar stöðugt, og verðið hefur lækkað hratt.  

Kostir Þóríums til raforkuvinnslu umfram úraníum hafa lengi verið þekktir.  Ástæða þess, að hætt var að þróa kjarnorkuver á kaldastríðsárunum, sem nota Þóríum eldsneyti, var, að ekki var unnt að nota úrganginn í kjarnorkusprengjur.  Plútoníum, sem myndast úr óbættu úraníum, er mjög geislavirkt og notað í kjarnorkusprengjur, en Þóríum er mjög erfitt, þó að ekki sé það útilokað, að nota í kjarnorkusprengjur. 

Það er til þrefalt til fjórfalt magn á jörðunni af Þóríum á við úraníum, svo að það mun endast a.m.k. í 200 ár, og þá munu aðrir orkugjafar hafa tekið við, e.t.v. samrunatæknin, þar sem 2 vetnisatóm mynda helíumatóm og mikla orku án geislavirkni.  Snemma á 3. áratugi þessarar aldar verða líklega tilbúin þungavatns-Þóríumver, t.d. í Kína og á Indlandi, þar sem mikill raforkuskortur stendur hagkerfunum og íbúunum fyrir þrifum og gríðarleg aukning er og verður á næstu áratugum á rafmagnsþörfinni.  Enn frekari þróun mun verða á Þóríum-kjarnorkuverunum í átt til ódýrari vera og öruggari.

Kínverjar standa nú frammi fyrir geigvænlegu mengunarvandamáli á láði, legi og í lofti.  Þeir eygja hér lausn, sem leyst geti kolakyntu orkuverin þeirra af hólmi, og fullyrða, að átak þeirra í rannsóknum á nýtingu Þóríums sé hið mesta í heimi á sínu sviði.  Samkvæmt Vísindaráði þeirra, "The Chinese Academy of Sciences", eru á vegum þess starfandi 430 vísindamenn og verkfræðingar og á að fjölga í 750 árið 2015, en þá er ráðgert að kynda upp frumgerð Þóríum- kjarnorkuofns.  Sá á að nota Þóríum á föstu formi, en árið 2017 ætlar Stofnun fyrir hagnýta eðlisfræði í Shanghai að prófa vandasamara, en þó heppilegra (öruggara) eldsneyti, sem er bráðið Þóríum-flúoríð. 

Þá er búið til efnasamband Þóríum-flúoríðs, því blandað í flúoríðsambönd berylliums og lithiums til að lækka bræðslumark Þóríums úr 1100°C niður í 360°C og þessi blanda brædd.  Henni er síðan dælt inn í sérhannaðan sundrunarkjarna, "reactor core", þar sem kjarnaklofnun hækkar hitastig blöndunnar upp í 700°C.  Þaðan er efnið leitt inn í varmaskipti til að flytja þennan nýja hita yfir í gas, venjulega koltvíildi eða helíum, sem síðan er látið knýja hverfla, sem snúa rafölum og framleiða rafmagn.  Frá varmaskiptinum er kældri flúoríðbráðinni snúið aftur til sundrunarkjarnans. Þóríum-flúoríð blanda er líklega framtíðar eldsneyti heimsins næstu tvær aldirnar.    

Þetta er í grófum dráttum virkni bandaríska tilraunakjarnakljúfsins á Oak Ridge National Laboratory, sem starfaði á 7. áratuginum.  Í nútímabúningi er hann kallaður LFTR - Liquid-Fluoride Thorium Reactor eða Flúoríðvökva Þóríum kjarnakljúfur, FVÞK.

Einn mesti kosturinn við LFTR er, að hann vinnur við einnar loftþyngdar þrýsting.  Þetta hefur áhrif á hagkvæmni kjarnorkunnar.  Í léttvatnskjarnakljúfi, en slíkir eru mest notaðir núna, er kælivatnið undir óhemju háum þrýstingi.  Þar af leiðandi verður að hýsa léttvatnskjarnkljúfa í stálþrýstigeymum inni í gríðarsterkum steyptum hvelfingum, sem standast áraunina, ef kælikerfið bilar og geislavirk gufa losnar úr læðingi.  LFTR þarf hvorki stálþrýstigeymi né steypta hvelfingu utan um kjarnakljúfinn.

Aðeins 0,7 % af úrani í náttúrunni er af samsætunni U235, sem er kjarnakljúfanlegt.  Það er dýrt að vinna hana, en allt Þóríum, sem finnst, er nýtanlegt í kjarnakljúf.  Af þessu öllu má ráða, að Þórium-kjarnorkuver er mun hagkvæmara en úraníum-kjarnorkuver.  Þóríum-úrgangurinn er miklu hagstæðari en úraníum-úrgangurinn.  Það er innan við 1 % af úrgangs-Þóríum m.v. úrgangs-úran, og geislavirknin fellur niður fyrir öryggismörk á fáeinum öldum í stað tuga árþúsunda, þ.e. helmingunartíminn er u.þ.b. 1 % af helmingunartíma úrans.  Geislunin verður því aðeins 100 ppm af Þóríumúrgangi m.v. úranúrgang og þess vegna viðunandi. 

Þóríum-kjarnorkan veitir kost á mjög samkeppnihæfri raforkuvinnslu með lítilli áhættu jafnvel öldum saman, og getur bjargað jörðinni frá þeirri hættu, að meðalhitastig í neðstu lögum lofthjúpsins hækki um meira en 2°C, en þar fyrir ofan telja allmargir vísindamenn, að ekki fáist við síhækkun ráðizt, og þá væri úti um allt líf í núverandi mynd á þessari jörðu. 

Á Íslandi þyrfti aðeins eitt Þóríum kjarnorkuver til að framleiða allt það rafmagn, sem nú kemur frá virkjunum landsins og tvö slík til að framleiða á við alla virkjanlega jarðgufu og vatnsföll landsins.  Slíkt hentar hins vegar ekki núverandi flutningskerfi raforkunnar.  Þessi stærð hentar hins vegar vel í fjölmennari og þéttbýlli löndum, eins og Englandi, en Skotar hafa varla þörf fyrir slíkt. Með því að setja kraft í þróun Þóríum-kjarnorkuversins mundu Bretar og Þjóðverjar skjóta Frökkum ref fyrir rass í orkumálum, en Frakkar framleiða meira en helming sinnar raforku með úraníum-kjarnorkuverum og eru fyrir vikið eins konar raforkustórveldi.    

Það er útilokað, að sæstrengur frá Íslandi til Bretlandseyja eða norðurstrandar meginlands Evrópu geti nokkurn tíma keppt við Þóríum-kjarnorkuver í þessum löndum.  Þess vegna væri Landsvirkjun og Iðnaðarráðuneytinu nær að skrínleggja strax allar hugmyndir um útflutning og innflutning rafmagns, sem hvort eð er eru algerlega fótalausar og reistar á barnalegri óskhyggju, en einbeita sér hins vegar að virkjunum og línubyggingum/strenglögnum fyrir innanlandsmarkaðinn.  Hann er miklu víðtækari en álver, járnblendi og kísilver.  Hann er ylræktun, fartæki og skip og á að verða hryggjarstykkið í samkeppnihæfni atvinnulífs, sem stendur undir lífskjörum á Íslandi, er standast þeim beztu snúning.      

  

 

 

          

 

 

 

 

 

 

 

Kjarnorka í samkeppni við kolKjarnorkuver í Japan


Adam Smith og Karl Marx

Síðdegis mánudaginn 28. júlí 2014 hélt Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, RNH, ásamt Samtökum skattgreiðenda, fund um frelsi.  Fyrirlestur á fundinum hélt Robert Lawson, prófessor við háskóla í Dallas/Texas.  Prófessor Lawson er mjög fær fyrirlesari og fangaði athygli fjölmenns hóps fundarmanna af báðum kynjum á breiðu aldursbili.  Eiga aðstandendur fundarins þakkir skildar.

Prófessor Lawson gat þess í byrjun, að nærfellt um tveggja alda skeið hefðu menn þráttað um, hvor þeirra kenningasmiðanna, Adam Smith eða Karl Marx, hefði haft á réttu að standa.  Adam Smith hélt því fram, að þjóðum (öllum stéttum) vegnaði betur, ef ríkisafskipti af atvinnulífinu væru í lágmarki og launþegar fengju að halda sem mestu eftir af umsömdum launum sínum, þ.e. skattar og önnur skyldugjöld væru lágir, og aðeins notaðir til að fjármagna það, sem ríkið væri betur fallið til að sjá um en einkaframtakið, s.s. löggæzlu og landvarnir. 

Ef menn legðu sig fram og stæðu sig vel í samanburði við aðra á markaðinum, mundu þeir að sönnu auðgast, en sá auður mundi fyrr en seinna hríslast um samfélagið og gera það allt auðugra en ella.  Ríkisvaldið hefði engan siðferðilegan rétt til að hlutast til um aðra dreifingu auðsins en þá, sem ákveðin er á markaðinum, enda væru slík inngrip hins opinbera líkleg til að virka letjandi á einkaframtakið, þannig að verðmætasköpun yrði minni en ella og þar með minni hagvöxtur. 

Heildin hlyti að líða fyrir ríkisafskipti.  Þetta þykir ýmsum liggja í augum uppi, þegar horft er til sögunnar, en ekki eru allir á sama máli.  Jafnvel þó að þeir séu á sama máli um hagvöxtinn, þá segja þeir sem svo, að ríkið þurfi að hafa afskipti af tekjudreifingunni í nafni réttlætisins.  Þetta réttlætishugtak er hins vegar afstætt, og það er erfitt að henda reiður á réttlætinu í því að rífa meira en aðra hverja krónu af ungu fólki, sem í sveita síns andlitis stritar við að koma sér þaki yfir höfuðið, svo að dæmi sé tekið.  

Karl Marx hélt því á hinn bóginn fram, að hefta yrði einkaframtakið verulega með miðstýrðu ríkisvaldi, sem skyldi sjá um, að allir legðu sitt að mörkum til samfélagsins eftir getu og fengju til baka frá samfélaginu eftir þörfum.  Auðvaldskerfið mundi leiða til ringulreiðar, og hin sögulega þróun mundi óhjákvæmilega leiða til falls þess, og framleiðslutækin mundu þá falla í hendur sameignarsinna, sem mundu beita þeim án gróðavonar einungis til að uppfylla þarfir samfélagsins. 

Þessi kenning reyndist alger hugarburður, og hefur ekki reynzt unnt að koma henni á með lýðræðislegum hætti, heldur hafa fylgjendur hennar brotizt til valda með ofbeldi og alls staðar myndað ógnarstjórn, þar sem þeir hafa náð völdum.  Alræði öreiganna hefur alls staðar orðið að fátæktarfangelsi.  

Í upphafi 20. aldar var mynduð lýðræðisútgáfa af Marxisma, jafnaðarstefnan, "socialdemokrati", en hún endar alltaf með að keyra viðkomandi samfélag í þrot með stöðnun hagkerfisins af völdum hárra og stigvaxandi ("progressive") skatta, sem letja til vinnu og hvetja til undanskota, og lamandi skuldasöfnunar hins opinbera, af því að fjárþörf hins opinbera vex stjórnlaust.   

Nú má auðvitað horfa þannig til sögunnar og athuga, hvort auðvaldskerfið eða sameignarkerfið hafi gefizt þjóðum betur.  Ef t.d. afkoma almennings í löndum Vestur-Evrópu og Austur-Evrópu í Kalda stríðinu, þegar Járntjaldið skildi þessar þjóðir að og þær tókust á á stjórnmálavettvangi, er borin saman, þá mundi huglægt mat flestra verða, að auðvaldskerfið hafi borið sigurorð af sameignarkerfinu, enda varð hið síðar nefnda siðferðilega og fjárhagslega gjaldþrota. Það hafði hreinlega ekki efnahagslega burði til að keppa við auðvaldið og var jafnframt siðferðilega gjaldþrota, þefandi upp úr hvers manns koppi með fjölmennri leyniþjónustu og skjótandi flóttamenn á landamærum.

Þessi fallframmistaða nægir samt ekki öllum, eins og sjá má af skaranum á vinstri kantinum, sem enn heldur þar til af hugsjónaástæðum og telur þjóðfélagsmálum betur fyrir komið með forsjárhyggju, þar sem stjórnmálamenn með vissum hætti eru í hlutverki barnfóstra.  Það er ekki tilviljun, að slíkir þiggja margir laun úr ríkissjóði, og þeir eru einnig fjölmennir á fjölmiðlum og í menntakerfinu.      Er jafnan viðkvæðið hjá slíkum, að réttlætið sé vinstra megin í stjórnmálunum.  Ekkert er þó fjær lagi en að þjóðfélagslegt réttlæti eigi heima í höndum stjórnmálamanna, sízt af öllu þeirra, sem þenja vilja út opinbera geirann til að geta ráðskazt með sem mest fjármagn skattgreiðenda og endurúthlutað verðmætum á formi alls kyns fyrirgreiðslu og bóta, sem síðan eiga að tryggja þeim atkvæði bótaþeganna og völdin.  Siðblindan býr vinstra megin væri nær að segja, og hún er tilætlunarsöm: "Allt þitt er mitt", er viðkvæðið. 

Robert Lawson hefur safnað saman miklum tölfræðilegum gögnum og sýnt berlega fram á mikla, nánast einhlíta, fylgni á milli atvinnufrelsis og velmegunar allra stétta.  Hann notar 5 mælikvarða á atvinnufrelsi, þ.e.:

  1. umsvif ríkisins, ríkisafskipti, þ.e. lága skattheimtu, 
  2. traustan lagagrundvöll eignarréttar og skilvirkt og sjálfstætt dómsvald. 
  3. Heilbrigt peningakerfi.
  4. Frelsi til alþjóðlegra viðskipta
  5. Regluverk hins opinbera  

Þjóðir í efsta fjórðungi atvinnufrelsis höfðu að jafnaði þjóðartekjur á mann USD 36.466 árið 2011, en þjóðir í neðsta fjórðungi atvinnufrelsis höfðu USD 4.382.  Meðalaldur er 79,2 ár í efsta fjórðungi atvinnufrelsis og 60,2 ár í þeim neðsta.  Röð landanna eftir atvinnufrelsi er þessi í efsta hluta:

  1. Hong Kong
  2. Singapúr
  3. Nýja Sjáland
  4. Sviss
  5. Sameinaða arabíska furstadæmið
  6. Máritíus
  7. Finnland
  8. Bahrain
  9. Kanada
  10. Ástralía
  11. Chile
  12. Bretland
  13. Jórdanía
  14. Danmörk
  15. Tævan
  16. Eistland
  17. Bandaríkin
  18. Kýpur
  19. Þýzkaland
  20. Írland

Svíþjóð er nr 29, Noregur nr 31, og Ísland er nr 41. 

Það er gjarna viðkvæði vinstri manna, að þjóðfélagsfyrirmynda sé að leita á Norðurlöndunum.  Það kemur hins vegar í ljós, að eftir fjagra ára óstjórn vinstri manna á Íslandi hefur Ísland hrapað niður fyrir öll Norðurlöndin (Færeyjar og Grænland eru ekki í þessari upptalningu) í atvinnufrelsi.  

Undir borgaralegri ríkisstjórn erum við tekin að potazt aðeins upp aftur.  Það er sem sagt meira atvinnufrelsi á hinum Norðurlöndunum en á Íslandi.  Samkvæmt orðbragði vinstri manna er þá meira þjóðfélagslegt óréttlæti þar en hér.  Gaspur þeirra er auðvitað algerlega marklaust hjal, enda eru þeir málsvarar fallvaltrar þjóðfélagsstefnu, sem skortir svör við vandamálum nútímans, af því að hún er trénuð.   

Það er alveg ljóst, hvaða leið ber að fara til að efla hagsæld á meðal almennings á Íslandi ?  Það er sú leið, sem lyftir okkur upp úr 41. sætinu á kvarða atvinnufrelsis og upp fyrir hin Norðurlöndin.    

     

 


Að éta eða verða étinn

Markaðurinn er harður húsbóndi.  Barátta fyrirtækja fyrir viðhaldi á samkeppnihæfni sinni eða bættri samkeppnihæfni og aukinni markaðshlutdeild kemur oft niður á þeim, sem sízt skyldi, þ.e. starfsmönnum þessara fyrirtækja og fjölskyldum þeirra. 

Þegar viðfangsefnið er að auka framleiðni framleiðslu úr takmarkaðri auðlind, eins og á við um sjávarútvegsfyrirtækin, er oft ekki fær valkostur að auka framleiðni með því að auka framleiðsluna með sama mannafla og tækjabúnaði, eins og t.d. gert hefur verið í áliðnaðinum á Íslandi, heldur getur reynzt nauðsynlegt að fækka fólki, en það er líka fær leið að bæta nýtingu hráefnisins,t.d. með nýrri tækni, nýjum tækjabúnaði og markaðssetningu á vöru, sem áður var fleygt. 

Sjávarútvegurinn á Íslandi er bezt rekni sjávarútvegur, sem vitað er um, enda hefur hann farið allar þessar leiðir og er nú með hæstu framleiðni, sem þekkist, þó að alvarlegir váboðar séu framundan.  Landsmenn hafa undanfarið fylgzt með viðbrögðum fólks, sem boðizt hefur að fylgja fyrirtæki í annan landsfjórðung, þar sem forráðamenn fyrirtækisins hafa séð sig tilneydda til að þjappa starfseminni saman á einum stað að mestu. 

Í sumum löndum, t.d. í Bandaríkjunum, BNA, hefur alltaf verið mikill hreyfanleiki á starfsfólki, sem fylgt hefur sínu fyrirtæki á milli fylkja eða hefur hiklaust flutt um set, þegar vinnuframboð minnkaði, til fylkja, þar sem uppgangur var. 

Þannig var Innri markaður Evrópusambandsins, ESB, líka hugsaður, með frelsunum fjórum.  Eitt þeirra, frjáls för fólks á Innri markaðinum í atvinnuleit, átti að jafna kjörin, draga úr atvinnuleysi og minnka þenslu.  Það hefur þó innan EES orðið minni tilflutningur á fólki en búizt var við.  Það er aðallega innflutningur fólks frá löndum utan Innri markaðarins, sem veldur ólgu í ESB núna, eins og nýlegar kosningar til Evrópuþingsins, sem er stórt nafn um stóra umgjörð, en lítið innihald, eru til vitnis um.  Miklar áhyggjur eru greinilega á meðal almennings í ESB-löndunum og víðar í Evrópu út af innflytjendum, bæði þeim, sem eru af framandi menningarsvæðum, og hinum.  Allir eru þeir taldir þrýsta niður launum og auka byrðar opinberra velferðarsjóða með réttu eða röngu.  Auðvitað þarf hóf að vera á þessum fólksflutningum, því að annars fer samlögun að gestalandinu í handaskolum.

Uppbótaaðgerðir ríkisvaldsins til að skapa atvinnu í sjávarplássum, sem verða fyrir barðinu á óblíðum markaðskröftunum, eru varasamar og dýrar, því að þær eru allar í ætt við aflóga bæjarútgerðirnar og þess vegna ekki líklegar til eflingar sjávarútvegsins í alþjóðlegri samkeppni. 

Reyndar er sjávarútvegsráðherra handhafi eins stærsta kvótans eða 5,3 % veiðileyfanna. Þessi aflahlutdeild kemur auðvitað til frádráttar veiðileyfum hinna raunverulegu útgerða, sem að langmestu leyti hafa keypt sín veiðileyfi á frjálsum markaði.  Svo stór aflahlutdeild ríkisins orkar þess vegna mjög tvímælis og ætti að draga úr og helzt að afleggja, enda er hún fallin til að draga úr heildarhagkvæmni sjávarútvegs á Íslandi, eins og bent hefur verið á. 

Á hinn bóginn er mikil ásókn í strandveiðar, og þar hefur einkaframtakið blómstrað.  Það er þess vegna íhugunarvert, hvort eigi að leyfa "frjálsar" strandveiðar, e.t.v. takmarkaðar við dagafjölda og að sjálfsögðu við bátsstærð og veiðarfæri,  við landið, upp að ákveðnu sóknarmarki í hverri tegund á hverju svæði og að teknu tilliti til nauðsynlegra verndarráðstafana Hafrannsóknarstofnunar.  

Áhugaverðar hugleiðingar um stjórnun fiskveiða ritaði Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur, í Fiskifréttir, fimmtudaginn 15. maí 2014, undir fyrirsögninni, "Markaður eða ráðstjórn":

"Íslendingar verða að gera upp við sig, hvort þeir vilja reka sjávarútveg sinn á markaðslegum fosendum eða með ráðstjórn, þar sem stjórnmálamenn ákveða, hver veiðir hvað, hvernig og hvar.  Markaðurinn er ekki fullkominn, en hann er forsenda fyrir verðmætasköpun í sjávarútvegi til að standa undir lífskjörum þjóðarinnar.  Grundvöllur verðmætasköpunar er framleiðni, þar sem við hámörkum framleiðslu með lágmarks fyrirhöfn."

Síðan ber Gunnar saman framleiðni íslenzks og norsks sjávarútvegs, þar sem við höfum enn yfirhöndina, en Norðmenn sækja á, af því að þeir fjárfesta tiltölulega meira í sjávarútveginum en Íslendingar, eins og bezt kemur fram í meðalaldri skipastóla landanna.  

Hrottaleg inngrip ríkisvaldsins í fiskveiðistjórnunina ásamt ofurskattlagningu á greinina lamar fjárfestingarvilja og -getu, setur afkomu smáfyrirtækjanna í stórhættu og getur umturnað heilu þorpunum.  Á Íslandi þarf að viðurkenna atvinnufrelsi sjávarútvegsins innan þröngra marka veiðiheimilda og/eða sóknarmarks og rétt hans til jafnréttis á við aðrar atvinnugreinar gagnvart aðgerðum ríkisvaldsins að skattheimtu meðtalinni.   

Í framleiðnisamanburði á milli Íslands og Noregs kom fram hjá Gunnari, að heildarvirðisauki á hvern starfsmann er kUSD 170 (MISK 19) á ári í íslenzka sjávarútveginum eða 21 % hærri en í Noregi.  Fjármagn á hvern starfsmann er kUSD 300 (MISK 34) í hinum íslenzka, sem er 15 % hærra en í hinum norska.  Nýting sjávaraflans er jafnframt mun betri á Íslandi eða 57 %, en 41 % hjá Norðmönnum, og verðmæti veiðanna hér eru 380 kr/kg, en 280 kr/kg þar. 

Að loknum þessum áhugaverða samanburði, sem er lofsöngur um íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið, útgerðarmenn, sjómenn, fiskverkafólk, birgja og markaðsfólk íslenzka sjávarútvegsins, tekur Gunnar sér fyrir hendur að greina veiðigjöldin og afleiðingar þeirra:

"Með núverandi hugmyndum um veiðigjöld munu Íslendingar ekki halda þessari stöðu sinni.  Íslenzki flotinn, ef smábátaútgerðinni er haldið utan sviga, er sá elzti frá upphafi.  Aldur togara er kominn yfir 40 ár og flest stærri línuskip orðin gömul og úrelt.  Vinnsluskip flotans eru flest komin yfir tvítugt og orðin úrelt og úr sér gengin.  Ekki er möguleiki á að halda uppi framleiðni með úreltum skipum.  Lítið hefur verið fjárfest í botnfiskvinnslum á Íslandi, sem mun fyrr en síðar koma niður á samkeppnishæfni Íslendinga gagnvart keppinautum."

Þetta er alvarleg ógnun við stöðu íslenzka sjávarútvegsins og lífsafkomu landsmanna allra, og hið fyrsta verður að létta viðbótar kvöðum af útgerðinni, svo að hún dragist ekki aftur úr samkeppniaðilum í öðrum löndum, sem stöðugt sækja í sig veðrið, enda kveður Gunnar Þórðarson upp dauðadóm yfir þeirri stefnu, sem síðasta ríkisstjórn mótaði á grundvelli fjandskapar við athafnalífið og í algerri fávizku eða skeytingarleysi um lögmál efnahagslífsins og kostnaðarstig sjávarútvegs í nágrannalöndunum.   

Fyrrverandi ríkisstjórn hóf að saga í sundur greinina, sem við öll sitjum á, og núverandi ríkisstjórn hefur því miður enn sem komið er ekki unnizt ráðrúm til að hverfa af þessari óheillabraut og hefja sóknarskeið á öllum vígstöðvum hins íslenzka athafnalífs, enda þröngt um vik. 

Hún hefur samt uppi góða tilburði í þeim efnum, og fjármála- og efnahagsráðherra veit nákvæmlega, hvar skórinn kreppir og hvað þarf til að skapa hér réttu aðstæðurnar fyrir hagvöxt og raunverulegar kjarabætur.  Landsmenn virðast margir hverjir vera vel með á nótunum í þessum efnum, ef marka má úrslit sveitarstjórnarkosninganna 31. maí 2014, er þeir völdu sjálfstæðismenn í 45 % allra sæta í sveitarstjórnum 15 stærstu sveitarfélaga landsins, þó að aðrir séu staurblindir á samband efnahagsstefnu hins opinbera og eigin hags.  Eftirfarandi eru varnaðarorð Gunnars Þórðarsonar í þessum efnum:

"Óvissa í stjórnun fiskveiða og óhófleg veiðigjöld koma í veg fyrir fjárfestingu í sjávarútvegi, sem er forsenda þróunar.  Stjórnmálamenn vilja nota sjávarútveg til að leysa byggða "vanda" og fjárþörf ríkissjóðs, en það verður alltaf á kostnað verðmætasköpunar í greininni."

Í raun er engu við þetta að bæta, en þó skal undirstrika, að verðmætasköpun er lykilatriði fyrir vöxt hagkerfisins og tekjur einstaklinganna og hins opinbera.  Sjálfstæðisflokkurinn setur verðmætasköpun hvarvetna í þjóðfélaginu, á öllum vígstöðvum, á oddinn.  Það merkir, að hann vill virkja fyrirtæki og einstaklinga til verðmætasköpunar fyrir sig sjálf í þeirri vissu, að hámarks verðmætasköpun, að teknu tilliti til sjálfbærni, gagnast hinu opinbera og þjóðinni í heild bezt.

Þess vegna er það stefna flokksins, að aðgerðir hins opinbera hvetji til verðmætasköpunar fremur en að letja til hennar, eins og virtust vera ær og kýr fyrrverandi ríkisstjórnar, sem lengdi í kreppuskeiðinu eftir hrun fjármálakerfisins með forneskjulegri hugmyndafræði sinni um framlegð fyrirtækja og ráðstöfunartekjur einstaklinga.   

Þetta leiðir auðvitað hugann að gjaldeyrishöftunum, en lausn á þeim er nú komin í "nefnd".  Það er vissulega freistandi í þeim efnum að fara leið efnahagsráðherra Vestur-Þýzkalands nokkru eftir stofnun Sambandslýðveldisins, 1949, og stofnsetningu þýzka marksins, DEM, í stað ríkismarksins, Reichsmark, Þriðja ríkisins.  Þá voru illvígar gjaldeyrishömlur við lýði í Vestur-Þýzkalandi, en Dr Ludwig Erhard, efnahagsráðherra og höfundur "Sozial-Marktwirtschaft" eða markaðshagkerfi með félagslegu ívafi, afnam gjaldeyrishöftin á einni nóttu með einu pennastriki.  Með lagasetningu um trektaráhrif á snjóhengjuna er e.t.v. útlátaminnst til lengdar að fylgja fordæmi Dr Erhards ?

 

 

 

 

 

    

 

 


Kjarabaráttan

Tekjudreifingin í þjóðfélaginu verður vinstri sinnuðum stjórnmálamönnum oft að umræðuefni.  Þeim er tekjudreifingin mun hugstæðari en tekjuöflunin, sem hægri mönnum þykir sumum vera merki um músarholulega öfund.  Er þá jafnan viðkvæðið, að ójöfn tekjudreifing sé mikið þjóðfélagslegt böl, og fari vaxandi nú um stundir.  Eðlilegast hlýtur að vera að ákvarða kjör á markaði, og þá að sjálfsögðu án ofbeldis.  Verkfallsofbeldið virðist tíðast koma upp í greinum, þar sem samkeppni er lítil á eftirspurnarhlið eftir vinnukrafti, t.d. hjá hinu opinbera, og í flugstarfseminni, svo að eitthvað sé nefnt.  Er ekki að efa, að meiri vinnufriður yrði, ef hið opinbera byði starfsemina út í verktöku, en væri ekki sjálft að stússa í öllu á milli himins og jarðar.  Á íslenzka flugmarkaðinum voru í gamla daga Loftleiðir, sællar minningar, og Flugfélag Íslands, en eftir sameininguna urðu Flugleiðir og nú Icelandair ráðandi á markaðinum.  Um þetta félag má segja, að margur er knár, þótt hann sé smár, og er þá átt við samanburð við flugfélög, sem það á í höggi við.

Kjarabarátta er áberandi þessar vikurnar, einnig á meðal hinna betur settu, en gagnrýni vinstri manna á þá, sem eru hátt yfir meðallaunum og vilja samt meira en aðrir í prósentum talið, hefur þó ekki verið áberandi, þrátt fyrir allt jafnræðisjaplið. 

Há laun eru ekki gagnrýniverð í sjálfu sér, þó að slíkar raddir heyrist, enda séu þau heiðarlega um samin á frjálsum markaði annaðhvort í félagslegum samningum eða í einkasamningum.  Það fer hins vegar í verra, þegar stéttarfélög gera sér lítið fyrir og taka hópa í gíslingu með verkfallsaðgerðum til þess að knýja vinnuveitendur sína til að ganga að kröfum sínum.  Þá er ekki lengur um frjálsa samninga að ræða fremur en þar sem gíslar eru teknir og krafizt lausnargjalds.  Beiting verkfallsvopnsins er komin út í algjörar ógöngur.  Ef launþegar í þessari stöðu fá ekki laun við sitt hæfi, liggur beint við að segja upp störfum og skipta um vinnuveitanda.  Ef hann finnst bara á erlendri grundu, verður að sjálfsögðu að taka margt með í reikninginn.  Ekki er víst, þegar allt er með reiknað, að markaðurinn sé tilbúinn til að veita viðkomandi betri kjör, þegar allt kemur til alls, en gamli vinnuveitandinn. 

Fórnarlömbin eru t.d. nemendur, aldraðir, samfélag á borð við Vestmannaeyjar eða landið allt, þegar samgöngur að og frá landinu eru lamaðar.  Með þessum hætti hafa stéttir reynt að hrifsa til sín meira en markaðurinn er tilbúinn til að greiða.  Slíkar launahækkanir, sem þvingaðar eru fram með ofbeldi, eru aldrei farsælar og sjaldnast viðvarandi, nema raunveruleg framleiðniaukning eigi sér stað og sé jafnhá eða hærri en launahækkunin. 

Prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritaði athygliverða grein í Morgunblaðið, 2. maí 2014, undir heitinu "Er ójöfn tekjudreifing "stærsta mál samtímans" ?"

Þar deilir hann á öndvegissetrið Eddu, sem "rekið er í Háskóla Íslands og kostað af skattfé".  Þetta setur reynir að koma því inn hjá fólki, að ójöfn tekjudreifing sé "stærsta mál samtímans".  Hér skal aftur á móti halda því fram, að slíkt eigi ekki við, ef markaðurinn er frjáls og tekjudreifingingin er ákvörðuð í óþvinguðum samningum.  Þá munu launin til lengdar ráðast af framboði og eftirspurn.  Tilraunir einstakra stétta til að hrifsa meira til sín en markaðurinn vill samþykkja geta haft voveiflegar afleiðingar fyrir þá og vinnuveitandann til skemmri tíma og munu engu skila til lengri tíma. 

Hannes gerir nýlega bók franska hagfræðingsins Thomas Piketty, "Fjármagn á 21. öld", að umræðuefni.  Piketty þessi er mjög hallur undir forræðishyggju, og sem dæmi um það telur hann, að "kapítalisminn fari sér líklega að voða, sé þróunin í átt til ójafnari tekjudreifingar ekki stöðvuð."  Piketty hyggst koma auðvaldinu til bjargar með alþjóðlegum hátekju- og auðlegðarsköttum, og sé skattfénu síðan endurdreift til fátæks fólks.

Aðaláhyggjuefni Pikettys er, að arður fjármagnseigenda vaxi hraðar en atvinnulífið, því að þá stækki hlutur fjármagnseigenda í þjóðartekjum á kostnað venjulegra launþega. 

Það er rangt að stilla hagsmunum fjármagnseigenda upp  gegn hagsmunum launþega, því að hvorugur getur án hins verið.  Ef fjármagnseigendur fjárfesta ekki, verður stöðnun og afturför og enginn varanlegur hagvöxtur.  Launþegar leggja fram vinnuafl sitt og hugvit til að skapa auðinn.  Þetta er ein kærleikskeðja, þó að sumir kalli það fremur ástar-haturssamband.

Í upphafi 20. aldar var tekjudreifing á Vesturlöndum og raunar um allan heim mjög ójöfn.  Hlutur 1 % auðugasta fólksins í heildartekjum var um 1910 20 % - 25 % víða á Vesturlöndum, en 70 árum seinna var hann kominn niður í 5 % - 8 %, en er um þessar mundir 10 % - 15 %.  Þetta er ekkert sérstakt áhyggjuefni, því að fátækt í heiminum fer hratt minnkandi.

Piketty telur, að dagar hagvaxtarins í heiminum séu taldir.  Því hefur áður verið spáð, en þeir spádómar hafa hingað til orðið sér til skammar.  Margir vinstri menn á Íslandi og annars staðar eru reyndar á móti hagvexti og telja hann vera af hinu illa, af því að hann sé ekki sjálfbær.  Það er bábilja við íslenzkar aðstæður, þar sem megnið af orkunotkun, sem knýr hagkerfið, er að heita má úr endurnýjanlegum orkulindum og segja má, að nýting annarra auðlinda sé yfirleitt sjálfbær, s.s. sjávarauðlindarinnar.

Hagvöxtur er undirstaða verðmætaaukningar og kjarabóta.  Ef hagvöxtur stöðvast, eru kjörin dæmd til að versna, af því að fólkinu fjölgar.  Andstaða við hagvöxt varðar leiðina til ánauðar í fátæktarfjötrum.  Til að tryggja hagvöxt þarf bæði fjárfestingar og hæft vinnuafl.  Ef allt fjármagnið er á einni hendi, þ.e. ríkisins, er voðinn vís, eins og sagan sýnir, samkeppni verður hverfandi, og spilling grasserar, þegar slík einokun ríkir, og reyndar einokun af öllu tagi.

Stétt með stétt.

 

 

 

 

 

 

 

 

    

 


Hagkerfi í háska

Mótbyr íslenzka hagkerfisins þessi misserin hefur furðulitla opinbera umfjöllun hlotið.  Þess í stað eru sérlaunakröfur einstakra hópa, oftast vel settra launþegahópa, fyrirferðamiklar, enda hafa vinnustöðvanir þeirra truflað gangverk samfélagsins og valdið miklu tjóni.  Sundurlyndisfjandinn lætur hér á sér kræla, þegar samstaða í nafni stöðugleika og framtíðarhagsmuna alls almennings er þjóðarnauðsyn.

Út yfir allan þjófabálk tekur deila flugmanna við Icelandair.  Í Morgunblaðinu laugardaginn 10. maí 2014 kom fram, að ráðgerðar verkfallsaðgerðir flugmanna á 9 daga tímabili mundu stöðva 600 flugferðir og trufla ferðir 100 000 manns.  Kostnaður Icelandair af þessu tiltæki flugmanna næmi 1 milljarði kr á dag. 

Hér eru firn mikil á ferð.  Óþolinmæði og skortur þolgæðis hjá mörgum launþegum er vísasti vegurinn til glötunar og til að tortíma þeim árangri, sem þegar hefur náðst í hagkerfinu, og til að setja hér allt í bál og brand.  Varanlegur stöðugleiki hagkerfisins mun einn tryggja launamönnum verulega bætt lífskjör.  Svona hagar fólk sér ekki í þeim löndum, þar sem traustur grunnur sterkra hagkerfa hefur verið lagður með samstöðu, þolgæði og þrautseigju.  Ef sérhagsmunabaráttan tekur svo stóran toll, að ógnar hagkerfinu og tefur stórlega fyrir því að uppskera megi ávöxt stöðugleika í lágri verðbólgu og sterkri mynt, þá verður ríkisvaldið að grípa til gagnráðstafana, sem duga. Að taka heilt þjóðfélag í gíslingu, eins og FÍA gerir, mun hitta félagið fyrir sem bjúgverpill.  Félaginu er hollara að horfa lengra fram á veginn en reyndin er nú. 

 Samkeppnihæf lífskjör við önnur lönd geta vel náðst hérlendis, en sú leið er grýtt, og skefjalaus stéttabarátta, sem snýst um að hrifsa til sín stærri sneið af kökunni en næsti maður, er siðlítil afstaða, vitagagnslaust baráttumál og stórskaðlegt samfélaginu.

Fyrst er auðvitað nauðsynlegt að baka kökuna áður en hafizt er handa við að skipta henni.  Varðandi ferðamannaiðnaðinn, sem verið hefur í sviðsljósi stéttaátaka undanfarið, má segja, að búið sé að hnoða deigið og rétt búið að stinga því inn í ofninn.  Verði það tekið út núna, mun það reynast óætt.  Ferðamannaiðnaðurinn er orðinn ein af undirstöðu atvinnugreinum landsins í skilningi gjaldeyrisöflunar, og röskun á viðskiptum hans í þeim mæli, sem lýst er hér að ofan, mun fljótt koma á hann óorði erlendis vegna truflana og óáreiðanleika.  Fólk með valfrelsi lætur ekki bjóða sér slíkt.  Stéttarfélög, sem ábyrgð bera á þessu ástandi, eru að saga í sundur greinina, sem félagar þeirra sitja á.  Ekki nóg með það, heldur saga þau í sundur stofn trésins, sem segja má, að þessi undirstöðugrein sé, sem nú hefur fjárfest mikið í flugvélum, hótelum, rútum, bílum og þjálfun starfsfólks.  Árangur við stjórn landsins, mældur í kaupmætti almennings, mun aldrei verða almennilegur, nema haldið verði í heiðri hið sígilda slagorð annars núverandi stjórnarflokka: 

Stétt með stétt.

Á forsíðu Morgunblaðsins 10. maí 2014 var varpað ljósi á, hversu eyðileggjandi stéttastríð flugmanna getur orðið fyrir sjávarútveginn, sem veiðir og verkar beint eftir pöntun og hefur skuldbundið sig til að afhenda ferskvöru á ákveðnum á ákveðnum stað á tilsettum tíma:

"Staðan er mjög viðkvæm, og markaðir okkar eru strax komnir í ákveðna hættu.  Öryggi í afhendingu á vöru í verzlunum erlendis er lífsspursmál fyrir okkur", sagði Svavar Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sæmarks í Kópavogi, en ferð áætlunarvélar Icelandair Cargo til East Midlands á Bretlandi og Liége í Belgíu um kl. 1930 kvöldið áður var aflýst, af því að flugstjórinn boðaði forföll á síðustu stundu vegna veikinda og enginn fékkst til að hlaupa í skarðið.  Dýr pest það.

Íslenzkur sjávarútvegur á á brattann að sækja um þessar mundir af þremur ástæðum, og því verður ekki trúað, að viðkomandi flugmaður geri sér nokkra grein fyrir því, hversu miklu tjóni framferði af þessu tagi getur valdið. 

(1) Það hefur orðið verðfall sjávarafurða á hefðbundnum mörkuðum landsins árin 2013-2014.  Ástæðan er dapurlegt efnahagsástand, jafnvel sums staðar verðhjöðnun, í Evrópu, og aukið framboð sumra tegunda, s.s. þorsks úr Barentshafi, og nú munu veiðar á makríl aukast stórlega.  Óvissan í Austur-Evrópu hefur ekki bætt úr skák.   

Í Fiskifréttum, 30. apríl 2014, gaf að líta eftirfarandi:

"Verulega syrtir í álinn í uppsjávargeiranum á þessu ári m.v. síðasta ár.  Gróflega áætlað gæti útflutningsverðmæti uppsjávarafurða dregizt saman um allt að 25 % eða um 20 milljarða kr, að mati Teits Gylfasonar hjá Iceland Seafood.  Munar þar mest um lélega loðnuvertíð, en auk þess minnkar kvóti norsk-íslenzku síldarinnar um þriðjung á milli ára, og óvissa ríkir á makrílmörkuðum meðal annars vegna ástandsins í Austur-Evrópu."

(2) Það er 39 % kvótaminnkun hjá íslenzkum skipum á árinu 2014 m.v. 2013, aðallega í loðnu og síld.  Þetta er alvarleg staða fyrir sjávarútveginn og þar með fyrir þjóðarbúið, þar sem sjávarútvegur er ein þriggja  undirstöðuatvinnugreinanna. Hætt er við, að makríllinn eigi sök á þessu, sé búinn að éta hinar tegundirnar út á gaddinn, og þær hafi þá hörfað.  Nú þegar ICES, Alþjóða hafrannsóknarráðið, hefur aukið veiðiheimildir á makríl 2014 umtalsvert, ætti að íhuga allt að þriðjungs aukningu veiðiheimilda á honum 2014, ef markaðir bjóða upp á arðsemi aukins magns. 

(3) Íslenzki fiskiskipastóllinn er orðinn gamall, og mun meðalaldur hans vera að nálgast þrítugt.  Þetta er allt of hár aldur fyrir fyrirtæki, sem vilja og verða vera í fremstu röð í heiminum til að verja og auka markaðshlutdeild sína.  Hagræðing greinarinnar í krafti kvótakerfisins hefur nú loksins leitt til þess, að framlegð greinarinnar leyfir fjárfestingar, en Íslands óhamingju verður allt að vopni.  Þá reyndist vera við völd í Stjórnarráðinu fólk, sem aðhylltist stjórnmálaskoðanir þeirrar gerðar, sem banvænar eru heilbrigðum fyrirtækjarekstri og hirti lungann úr þessari framlegð í ríkissjóð, en neituðu, að um skattheimtu væri að ræða og kölluðu veiðileyfagjöld.  Þegar skynsamari menn náðu loks undir sig Stjórnarráðinu 2013 og vildu strax hægja á eignaupptöku, sem augljóslega á sér enn stað, þegar veiðigjöldin munu nema allt að 42 kr/kg m.v. fisk upp úr sjó og áætlun fiskveiðiárið 2014/2015.  Þó að veiðigjöldin lækki í kr/kg, þá hækka þau samt sem hlutfall af hagnaði sjávarútvegsins vegna lakari afkomu hans út af falli markaðanna.  M.v. núverandi frumvarp til laga um veiðigjöld, munu þau samsvara 48 % tekjuskatti á sjávarútveginn.  Önnur fyrirtæki greiða hins vegar 20 % tekjuskatt og þykir hamlandi fyrir fjárfestingar í alþjóðlegu samhengi, eins og lýsir sér í því, að ríkisstjórnin þarf að veita erlendum aðilum ívilnanir frá þessu til að lokka þau til að fjárfesta.

48 % tekjuskattur á eina atvinnugrein er algerlega óboðlegt út frá réttlætissjónarmiði og hagfræðilegu sjónarmiði.  Samt emjar stjórnarandstaðan, þegar minnzt er á lækkun og kveður ríkissjóð ekki hafa efni á því.  Þá er hún komin í mótsögn við sjálfa sig varðandi skattheimtuna.  Þetta óréttlæti mun lama sjávarútveginn og valda fjármagnsflótta úr greininni.  Það er þess vegna algerlega glórulaust, og fegrar þá ekki myndina beiting innantómra frasa um að "þjóðin verði að njóta arðs af auðlindinni".  Arður af auðlindinni getur enginn orðið fyrr en varan, sem unnin er úr auðlindinni, hefur verið seld, afhent og greidd.  Til þess þarf sérstaka þekkingu, vilja, fjármagn og vinnuframlag, og allt þetta er innan vébanda útgerða og fiskvinnsla.  Ef íslenzkar útgerðir ekki sækja sjóinn og markaðssetja vöru sína, mun þjóðin einskis arðs njóta, nema lögum verði breytt, og hverjum sem er leyft að veiða hér innan lögsögunnar.  Augljóslega mun slíkt ekki hámarka þjóðhagslega arðsemi af auðlindinni.  Sjávarútvegurinn getur ekki þrifizt, nema hann njóti jafnræðis í atvinnuréttarlegum skilningi, eins og Stjórnarskráin tryggir.  Ef sjávarútvegurinn þrífst vel, mun þjóðarlíkaminn dafna, annars ekki.  Svo einföld er sú saga. 

Vandamál Íslands í hagstjórnarlegum efnum hefur alltaf verið skortur á gjaldeyri.  Þess vegna hafa örlög íslenzku krónunnar orðið jafndapurleg og raun ber vitni um.  Hún er hins vegar ekki frekar orsök þessara ófara en venjulegur tommustokkur er orsök rangrar lengdarmælingar.  Þess vegna mun aldrei nást stöðugleiki á Íslandi, nema gjaldeyrisöflunin aukist umtalsvert, e.t.v. um 200 milljarða kr á ári, svo að afgangur verði á viðskiptajöfnuðinum við útlönd um u.þ.b. 5 % af VLF á ári í venjulegu árferði.  Með slíkum afgangi verður landið fljótt skuldlítið við útlönd og getur tekið á sig áföll á mörkuðum og í náttúrunni án þess að sligast.  Slíkt framleiðsluknúið hagkerfi mun skapa þegnum sínum beztu lífskjör í Evrópu til lengri tíma litið algerlega óháð því, hvaða mynt verður hér við lýði.  Hér mun þó sannast hið fornkveðna: "hver er sinnar gæfu smiður" og "sitt er hvað gæfa og gjörvileiki".  

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Stöðugleiki hér og þar

Eitt af því, sem vinstri stjórninni mistókst hrapallega að ná, var efnahagslegur stöðugleiki, enda má bæði efast um, að þeim dæmalausu ráðherrum hafi verið það sérstakt keppikefli og að þeir hafi gert sér grein fyrir, hvernig efnahagslegum stöðugleika yrði náð. 

Kjarasamningar, sem gerðir voru á hennar skeiði, voru almenningi dýrkeyptir og verri en engir, af því að þeir virkuðu sem olía á eld verðbólgubálsins.  Svo er það annað mál, að loforð Jóhönnustjórnarinnar í tengslum við þá kjarasamninga voru strax svikin, svo að traust aðila vinnumarkaðarins til Jóhönnu og Steingríms varð að engu.  Lánleysi þeirra skötuhjúa var algert.  Þar með var í raun úti um þá ríkisstjórn.

Með hækkunum á virðisaukaskatti, eldsneytisgjaldi, álagningu kolefnisgjalds og hækkunum á öllum gjöldum og sköttum, sem nöfnum tjáir að nefna, kynti vinstri stjórnin undir verðbólgu.  Það var eins og við manninn mælt; skattstofnar ríkissjóðs minnkuðu við þetta, t.d. minnkaði bifreiðaakstur og verzlun dróst saman.  Skattstofnarnir skruppu saman undan ofurskattheimtu upp úr kennslubókum frá Þýzka Alþýðulýðveldinu og færða í búning af Þistilfirðinginum, fyrrverandi formanni vinstri grænna.

Nú bregður meira að segja svo við, að íslenzka krónan braggast skyndilegar og meira en nokkur hagspekingur hafði látið í ljós.  Hefur gildi bandaríkjadals lækkað á einu ári úr u.þ.b.130 kr í u.þ.b. 115 kr. Hvort sem þetta má túlka sem traustsvott á hagstjórnina í landinu eða ekki, þá er þessi þróun mjög hjálpleg við að koma böndum á verðbólguna.  Við viljum stefna að því að uppfylla öll Maastricht-skilyrðin, og þá er frumskilyrði að ná verðbólgunni undir 2,0 % á ári og er reyndar ekki nóg miðað við núverandi ástand á evru-svæðinu, en það er reyndar óheilbrigt núna og ekki eftirsóknarvert, eins og rakið verður í þessum pistli. 

Það er hægt að fullyrða það með vísun til samkeppnihæfni útflutningsatvinnuveganna og með samanburði við evrulönd á borð við Írland, að hefði evran verið við lýði hérlendis, þegar peningakerfi heimsins hrundu, þá hefði endurreisnin gengið enn hægar, og hefur hún þó gengið allt of hægt vegna glataðra tækifæra, ofstækis og mistaka ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Nú óttast margir hagspekingar, en þeir hafa reyndar ekki reynzt góðir í hlutverki völvunnar með krystallskúluna, að vestræn ríki, t.d. evru-svæðið, séu að sogast ofan í hringiðu verðhjöðnunar, sem mjög erfitt geti verið að komast upp úr.  Verðhjöðnun leikur hag almennings jafnvel enn verr en verðbólga.  Það er vandrataður hinn gullni meðalvegur, og leiðin þangað liggur um afkastaaukningu, arðsamari fjárfestingar og þar með aukna verðmætasköpun, en hvorki hókus pókus fjármálagjörninga né peningalegra sjónhverfinga á borð við lögeyrisskipti án réttrar undirstöðu.  Það er hægt að vinna sig út úr vandanum.  

Á evru-svæðinu lækkaði 12 mánaða verðbólga í september 2013 úr 1,1 % í 0,7 % í október.  Fyrir ári var verðbólgan þarna 2,5 %.  Markmið evrópska seðlabankans (ECB) er "undir, en nálægt 2,0 %".  Í maí 2013 lækkaði þessi seðlabanki viðmiðunarvexti sína í 0,5 %, og nýlega voru þeir lækkaðir í 0,25 %, svo að þar á bæ óttast menn greinilega, að aðhaldsaðgerðir og mikil skuldsetning geti sogað ríkin ofan í hringiðu verðhjöðnunar.  ECB berst augsýnilega harðri baráttu við verðhjöðnunarvofuna, en það bendir ýmislegt til, að hann muni tapa þeirri baráttu, og þar með má búast við feykilegu félagslegu og peningalegu umróti á evrusvæðinu, sem getur fækkað aðildarlöndum evrunnar með miklum stjórnmálalegum afleiðingum.   

Merkilegust er nú um stundir hagþróunin í BNA-Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Verðbólgan er þar aðeins rúmlega 1,0 %, en verðbólgumarkmið bandaríska seðlabankans er 2,0 %.  Þetta gerist þrátt fyrir skefjalausa seðlaprentun bankans í 5 ár frá hruni, undanfarið um USD 85 milljarðar á mánuði, sem er miklu meiri seðlaprentun en ECB hefur stundað, enda hafa prússnesk viðhorf til fjármála átt hljómgrunn innan bankaráðsins við Frankafurðu.  Verðhjöðnunar hefur jafnvel gætt suma mánuðina í BNA. 

Hagfræðingar óttast, að þessi gríðarlega seðlaprentun muni valda hagbólu í náinni framtíð, en núna er svo mikill kraftur í bandaríska hagkerfinu, að það össlar áfram á 3,0 % hagvexti á ári og dregur lömuð hagkerfi evrusvæðisins og Japans með sér.  Japanir eru loksins eftir 20 ára verðhjöðnun að ná sér upp úr henni.  Svo mikill vágestur sem verðbólga er, þá er verðhjöðnun jafnvel enn verri, því að launin lækka þá, en skuldirnar standa í stað.  Hagkerfið dregst saman.  Þetta sýnir í hnotskurn, hversu stöðugleikinn er mikils virði.  Íslendingar geta náð stöðugleika í hagkerfinu, en þá verða allir að leggjast á eitt og fórna nokkru fyrir ávinning í náinni framtíð.  Hugmyndum um miklar krónutöluhækkanir í kjarasamningum fjölmennra stétta, opinberra starfsmanna eða annarra, verður að fórna að sinni þar til hinu opinbera vex fiskur um hrygg við lækkun hræðilegrar vaxtabyrðar af skuldum.  

Nú vokir vofa verðhjöðnunar yfir evrusvæðinu og hefur reyndar þegar hafið innreið sína í sum lönd Suður-Evrópu, þar sem laun hafa lækkað mikið, enda er það eina ráðið auk kerfisbreytinga og framleiðniaukningar fyrir þau til að ná sér aftur á strik eftir hrunið.  Á einu ári hefur verðbólgan á evru-svæðinu lækkað úr 1,5 % á ári í 0,8 % á ári og er lækkandi í þeim mæli, að seðlabanki evrópu virðist ekki fá við neitt ráðið.  

Þjóðarframleiðslan á evrusvæðinu í heild dróst saman um 0,4 % árið 2013, og er spáð vexti um 1,1 % í ár samkvæmt tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar 5. nóvember 2013.  Atvinnuleysið er á evru-svæðinu að jafnaði 12,2 % eða tvöfalt hærra að tiltölu á við BNA.  Hin sterka evra virkar hamlandi á efnahaginn vegna bágrar stöðu útflutningsgreina, nema þar sem afköstin eru mest.  Hlutfallið 1 EUR/1 USD = 1,35 er útflutningsgreinum evrusvæðisins þungt í skauti.  Hlutfallið er 5 % hærra en fyrir ári.  Evran dregur þess vegna hagkerfið í átt til verðhjöðnunar.  Mörg ytri skilyrði virka í sömu átt, eins og hér verður rakið.  

Kýpur, Írland, Portúgal og Spánn stríða við háar opinberar og einkaskuldir.  Grikkland og Ítalía búa við háar opinberar skuldir. Nafngildi skuldanna helzt óbreitt í verðhjöðnun, en greiðslugetan rýrnar.  Það mun hrikta gríðarlega í evrusamstarfinu og líklegt, að í það komi brestir, ef eitt eða fleiri þessara landa lenda í verðhjöðnunarbasli.  Evrusamstarfið hangir nú þegar á horriminni, svo að verðhjöðnun gæti riðið því að fullu.     

Meginástæða verðlagslækkananna er lækkun orkuverðs, en það hefur nú hafið lækkunarferli um allan heim vegna hagkerfisslaka og vegna aukins framboðs á olíu og jarðgasi, sem unnin eru með nýjum aðferðum úr sandsteini og leirlögum.  Þetta mun gera dýrustu lindirnir óhagkvæmar og vonlausar í rekstri.  Drekasvæðið er eitt þeirra.  Íslenzkir neytendur hafa orðið varir við eldsneytislækkanir, en enn meiri eldsneytislækkanir hljóta að fylgja fljótlega. 

Eldsneytislækkun hefur áhrif á allt vöruverð, af því að eldsneytið kemur alls staðar við sögu, þó að ekki sé nema flutningskostnaðurinn.  Flutningskostnaðurinn til landsins hlýtur að lækka og flugmiðaverðið sömuleiðis.  Allt á þetta að virka örvandi á íslenzka hagkerfið og auka kaupmátt almennings og draga þar með í sömu átt og skattalækkanir ríkisstjórnarinnar.  

  Við þessar aðstæður væntanlegs verðstöðugleika og hagvaxtar væri það algert ábyrgðarleysi af stéttarfélögum að spenna bogann hærra en um var samið á jólaföstunni 2013.  Það eru svo miklir hagsmunir í húfi hér fyrir þorra landsmanna varðandi framtíðar kjarabætur á traustum grunni, að öllum viðbótar launakröfum, hversu réttmætar sem þær kunna að virðast, verður að hafna af staðfestu og einurð.  Allir verða að bíða þess, að ávextirnir þroskist áður en þeir verða tíndir.    

Seðlabankavextir 2007-2013

 

  

 

 


Um ávörp við áramótin 2013/2014

Við hæfi er að staldra fyrst við ávarp forseta lýðveldisins.  Athygli vakti, hversu mikla áherzlu forsetinn lagði á sáttfýsi í samfélaginu, og það er óhætt að taka undir með honum um það.

Lagður hefur verið sáttagrunnur með skuldaleiðréttingu, endurreisn sjúkrakerfisins úr öskustó vinstra afturhaldsins, skattkerfisbreytingum og stöðvun skuldasöfnunar ríkissjóðs.  Stjórnarskráarmálið hefur verið tekið úr átakafarvegi og sett í samráðsferli, og kveikjan í eldfimasta átakamáli landsins, umsókninni um aðildina að Evrópusambandinu, ESB, hefur verið aftengd.  Það er nú þegar búið að söðla um, hverfa frá stöðugu róti og stríðsyfirlýsingum afturhaldsaflanna, til friðsamlegrar vinnu við að leggja hornsteina að framtíð Íslands með blóm í haga.

Öfugsnúnir sagnfræðingar, sem aldrei mega skynja þjóðerniskennd í loftinu án þess að fara að gjamma, t.d. um að sátt, einurð og samkennd þjóðarinnar í sjálfstæðisbaráttu hennar hafi verið goðsögn, eru eins fyrirsjáanlegir og ófrumlegir í málflutningi sínum og mest getur verið.  Allir vita, að allt orkar tvímælis þá gert er, en þegar meira en 80 % samstaða næst um niðurstöðuna, þó að eftir á sé, þá er hægt að tala um eindrægni og almenna samstöðu, jafnvel þjóðfélagslega sátt.  Öfugsnúnir sagnfræðingar munu ekki rita söguna.   

Landsmenn eru nú lausir við dæmalausa illindaríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, og það er mikill léttir.  Það verður að segja eins og er, að það er líka óumræðilegur léttir að hafa nú fengið ferskan mann í forsætisráðherrastólinn, sem setur þjóðarhag ofar hag hagsmunaafla í Berlaymont og vitnar í Einar Benediktsson, skáldjöfur, en fer ekki með fleipur um fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, forseta.  Eru brýningar Einars Benediktssonar í ódauðlegum kvæðum sínum og skáldskap til Íslendinga um að hefja mikla framfarasókn, sem því miður varð minna úr þá en efni stóðu til, kannski goðsögn ?  Nei, þær standa þarna, svart á hvítu.

Pistilhöfundur er hins vegar ekki með jafnhástemmdar hugmyndir um norðurslóðahlutverk Íslendinga og Bessastaðabóndinn.  Líklegast er, að ekkert verði úr hugmyndum um olíudælingu upp úr hafsbotni Drekasvæðis; ekki þó vegna þess, að olía finnist þar ekki.  Til þess standa meira en 50 % líkur, heldur vegna þess, að vinnslan verður mun dýrari en markaðsverðið mun ráða við.  Kostnaðurinn verður yfir 100 USD/tunnu, en markaðsverðið er þegar komið undir þennan kostnað, og vegna ofgnóttar á setlagagasi og sandsteinsolíu og bættrar orkunýtni á öllum sviðum mun markaðsverð olíu hrynja, e.t.v. niður í 60 USD/tunnu, ef marka má verðþróun, sem þegar er orðin í  Bandaríkjunum (BNA).

Það er auðvitað gott og blessað, ef Bremerhaven-hafnir vill byggja risahöfn í Finnafirði eða menn sjá viðskiptatækifæri með sköpun þjónustuaðstöðu á Dysnesi fyrir auðlindavinnslu á og við Grænland.  Íslenzk stjórnvöld og íslenzk fyrirtæki ættu í meira mæli að leita hófanna á Grænlandi.  Grænlendingar eru áfram um að fá nágranna sína til samstarfs og hafa þar með sterkari spil á hendinni gagnvart Dönum, Bandaríkjamönnum og Kínverjum, sem allir hyggja gott til glóðarinnar. 

Leiðtogar stjórnmálaflokkanna rituðu áramótaávörp í Morgunblaðið.  Þar bar af ávarp fjármála- og efnahagsráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins.  Það var vel og skipulega upp sett og afar fróðlegt aflestrar.  Er alveg ljóst, að Laugarvatnsstjórnin leggur nú með skipulegum hætti traustan grunn að framtíðinni.  Aðhald og ráðdeild í dag jafngildir kjarabótum á morgun.  Ekkert er mikilvægara en efnahagslegur stöðugleiki við núverandi aðstæður fyrir hagkerfið.  Fórn verkalýðsfélaga, ríkisstjórnar og vinnuveitenda nú mun koma fram síðar sem margfaldur ávinningur fyrir allt hagkerfið, ekki sízt mun hún skila sér sem auknar ráðstöfunartekjur í vasa almennings.  

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nefndi, að lægstu laun væru of lág, en hann bætti við, að laun miðstéttarinnar þyrftu öll að hækka.  Það er rétt hjá honum í nafni samkeppnihæfni landsins um vinnuafl, en slíkt fæst ekki með hærri prósentum á blaði í kjarasamningum án þess að framleiðniaukning og tekjuaukning þjóðarbúsins búi að baki. Slíkt er langtímaverkefni.  Verkalýðshreyfingin ætlar að þessu sinni ekki að míga í skóinn sinn, enda hávetur, og slíkt stórhættulegt í frosti.  Viðskiptakjör landsins eru slæm um þessar mundir vegna tímabundinnar lækkunar á afurðaverði, t.d. fiski og áli.

Hegðun fáeinna verkalýðsforkólfa, sem voru viðstaddir samningana, en neituðu að skrifa undir þá, minnir mest á Björn að baki Kára í Njálu.  Téður Björn var á vettvangi, er bardaginn fór fram, en hann var þar vita gagnslaus.  Heim kominn var hann hins vegar mikill á lofti og tíundaði afrek sín, sem öll voru orðum aukin.  Hegðun téðra verkalýðsforkólfa á Akranesi og Húsavík er þess vegna ekki ný af nálinni, og hún er ekki stórmannleg, enda munu þeir ekkert annað upp skera en skömmina.    

Ávarp formanns Samfylkingarinnar í Morgunblaðinu á gamlaársdag var slæm grautargerð og viðbrunnin.  Hann var í ríkisstjórn, sem rótaði mikið, og nú stunda ráðherrar vinstri stjórnarinnar þann leik helztan að róta yfir skítinn úr sjálfum sér.  Aðferðin, sem notuð er, er að endurskrifa söguna í bókarformi, og liggja þá staðreyndir máls óbættar hjá garði, enda virðist jafnaðarmönnum oft vera sýnna um gerviveröld hugmyndafræði sinnar en raunheima almennings í landinu.

Vinstri menn gerðu atlögu að bezt reknu atvinnugrein landsins, sjávarútveginum, og gerðu tilraun til að brjóta hann á bak aftur, af því að þar var góður rekstrarárangur einkaframtaksins auðsær.  Hverjar urðu afleiðingar ofurskattlagningarinnar þar ?  Lítil fyrirtæki lögðu upp laupana og gengu inn í hin stærri.  

Nú er verið að selja 4 frystitogara úr landi, af því að rekstur þeirra stendur ekki undir svimandi háum veiðigjöldum auk annars kostnaðar.  Vinnslan flyzt í land, af því að þar er nýrri tækni beitt við vinnsluna, sem skilar betri nýtni og meiri gæðum, en það er ekki hægt að horfa fram hjá því, að þar eru líka lægri laun. 

Sjávarútvegurinn hefur greitt hæstu laun á Íslandi.  Hásetahlutur upp á MISK 20 á ári, þar sem tvær áhafnir skiptast á, er ekki óalgengur.  Hér er auðvitað í hæsta máta afkastahvetjandi launakerfi á ferðinni, sem hefur skilað hæstu framleiðni í heimi.  Þetta kerfi vilja vinstri mennirnir feigt.  Allt skal draga niður í svaðið og stunda síðan millifærslur á báða bóga úr ríkiskassanum.  Þetta er vinstri mennskan í hnotskurn. 

Það, sem einkenndi grautargerð Árna Páls um áramótin, var einkennileg sjálfsgagnrýni og gagnrýni á fyrri ríkisstjórn, sem hann sat í sjálfur.  Dæmi:

"Það eru bara tvær leiðir.  Leið aukinnar verðmætasóknar og leið kyrrstöðunnar.  Því miður hefur ný ríkisstjórn náð saman um hina seinni, þegar þjóðin þarfnast helzt hinnar fyrri."

Augljóslega er miklu fremur hægt að kenna Jóhönnustjórnina við kyrrstöðu en Laugarvatnsstjórnina.  Sú fyrrnefnda keyrði niður fjárfestingar og einkaneyzlu með ofurskattlagningu, en sú síðarnefnda er að koma hjólum atvinnulífsins smám saman af stað með því að lækka skattbyrði á fyrirtæki og einstaklinga.  Með því er ríkissjóður ekki að sleppa hendinni af einhverju, sem honum réttilega ber að hirða, eins og vinstri menn halda fram, heldur er verið að draga úr aðgangshörku hans, svo að hann láti ekki greipar sópa um eigur almennings og aflafé í alveg jafnríkum mæli og áður.  Þetta hefur þegar leitt til aukinna fjárfestinga og hagvaxtar.  Við það munu skattstofnar fitna, en ekki dragast upp, eins og undir vinsti stjórninni.  Hagkenningar hægri manna eru eitur í beinum vinstri manna, en þær sönnuðu sig á vinstri stjórnar tímabilinu, og þær eru þegar farnar að sanna sig á nýju kjörtímabili.  Megi eyðumerkurgöngu vinstri manna aldrei linna.

Þessar ranghugmyndir vinstri manna komu vel fram í áramótagrein Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Morgunblaðinu 31. desember 2013.  Þar skrifaði hún m.a. af alkunnu lítillæti:

"Hin unga ríkisstjórn hefur hins vegar ekki beinlínis verið boðberi nýrra tíma.  Átök þessa árs frá og með kosningum hafa fyrst og fremst snúizt um afturhvarf til gamalla stjórnarhátta veltiáranna fyrir hrun.  Þau hófust strax á sumarþingi, þegar ný ríkisstjórn lækkaði sérstök veiðigjöld á útgerðarfyrirtæki, sem lögð voru á umframhagnað þessara fyrirtækja.  Þar með afsöluðu stjórnvöld almenningi árlegum tekjum upp á tæplega sex og hálfan milljarð af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar."

Hér er öllu snúið á haus af stjórnmálamanni, sem föst er í klakabrynju kommúnismans.  Hún sakar unga stjórnmálamenn, sem fitjað hafa upp á algerum nýjungum í stjórnmálum, t.d. skuldaleiðréttingunni, sem Katrín var of mikil heybrók gagnvart fésýsluauðvaldinu til að reyna, um að vera fasta í fortíðinni.  Um þetta má segja, að margur heldur mig sig. 

Þá fer hún rangt með, þegar hún reynir að skýra út álagningu ofurskattlagningar sinnar og Steingríms á útgerðina.  Því fer fjarri, að skattstofninn hafi verið "umframhagnaður" útgerðar.  Skattstofninn var algert einsdæmi, tók út yfir allan þjófabálk, svo ómálaefnaleg og fjarri meðalhófi, sem þessi skattheimta var.  Þau notuðu framlegð fyrirtækjanna, sem sennilega er ólöglegt, því að framlegðin er það, sem þau hafa upp í fastan kostnað, þegar breytilegi kostnaðurinn hefur verið greiddur.  Slík skattheimta er tilræði við fyrirtækin og má jafna við þjóðnýtingu í fáeinum skrefum.  Skrefin hefðu orðið 1-5 talsins, háð fjárhagslegum og eignalegum styrk fyrirtækjanna.  Vladimir Lenin hefði veitt þeim skötuhjúum orðu alræðis öreiganna fyrir gjörninginn, hefði sá fantur verið enn á dögum. 

Allar aðgerðir ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks miða að því að hækka tekjur almennings og ríkissjóðs í framtíðinni.  Með sameiginlegu átaki borgaralegra afla og hálstaki á afturhaldsöflunum mun það takast.  

 

        

      

    

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband