Færsluflokkur: Samgöngur
18.11.2020 | 13:27
Röng lausn á mikilvægu viðfangsefni
Reglubundnar tafir í bílaumferðinni á höfuðborgarsvæðinu eru dýrar fyrir einstaklinga og fyrirtæki og fela þess vegna í sér þjóðhagslegan kostnað, sem bæði hefur neikvæð áhrif á lífskjör almennings og lífsgæði. Ástæðan er vanþróað gatnakerfi m.v. umferðarþungann. Ástand umferðarmála í Reykjavík felur í sér stórfellda slysahættu, einkum á fjölförnum gatnamótum við slæm veðurskilyrði. Það dregur jafnframt úr skilvirkni atvinnulífsins og felur í sér eldsneytissóun og aukna loftmengun.
Þetta vandamál hefur vafizt fyrir yfirvöldum samgöngumála á svæðinu að leysa; aðallega vegna þvergirðingsháttar borgarstjórnar og meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur frá 2010, sem tekið hefur mislæg gatnamót út af Aðalskipulagi Reykjavíkur og hafnað óskum ríkisins um að fá að reisa mislæg gatnamót og annað til að leysa brýnasta vandann. Þetta er yfirnáttúrulega vitlaus og mannfjandsamleg afstaða stjórnenda höfuðborgar, sem helzt hefur verið reynt að skýra með skírskotun til annarlegra sértrúarsafnaða.
Tafakostnaður einstaklinga og fyrirtækja, sem fyrir honum verða, má ætla, að nemi a.m.k. 40 mrdISK/ár. Þetta er gríðarlegur kostnaður, sem ekki er spurning um, hvort þurfi að lækka, heldur hvernig. Þessi óhemjulegi kostnaður vex ár frá ári og er vegna þess, að framkvæmdir við vitlega afkastaaukningu gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins hafa legið í láginni í meira en áratug, þrátt fyrir að Vegagerðin hafi verið tilbúin að hefja þær. Fáránlegur samningur borgarinnar um, að Vegagerðin sturtaði í staðinn fé í Strætó, svo að hann gæti keyrt hringinn í kringum landið, hefur tafið fyrir arðsömum framkvæmdum til að bæta flæði umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Þegar úr sér gengin hugmyndafræði í stað verkfræði og hagfræði hleypur í samgöngumálin, verður fjandinn laus. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur t.d. eyðilagt 1. valkost Vegagerðarinnar um gerð og legu Sundabrautar.
Ekki hefur þó skort góð ráð. Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur og fyrrverandi bæjarverkfræðingur í Kópavogi, hefur t.d. verið óþreytandi við að vara við stórkarlalegum fyrirætlunum um Borgarlínu og benda á aðrar viðaminni lausnir, sem kæmu til móts við þarfir borgaranna fyrir bættar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu án gríðarlegra fjárútláta og án þess að þrengja umtalsvert að almennri bílaumferð. Hann skrifaði í Morgunblaðið 7. nóvember 2020 greinina:
"Aukum ferðatíðni strætó":
"Árið 2015 flutti Jarrett Walker, sem er virtur sérfræðingur í almenningssamgöngum, erindi í Salnum í Kópavogi. Rauði þráðurinn í erindi hans var mikilvægi þess að auka ferðatíðni strætó. Það skipti mun meira máli en gönguvegalengd að biðstöð, og mætti því fækka strætóleiðum í staðinn til þess að takmarka aukningu á rekstrarkostnaði. Með þessu móti fengist hagkvæmasta lausnin fyrir bætta þjónustu strætó."
Það er kominn tími til að hlusta á og íhuga slíkar hugmyndir til bættrar þjónustu í stað þess að einblína á stórkarlalegar lausnir, sem flest bendir til, að henti ekki við íslenzkar aðstæður, en geti hæglega orðið flestum vegfarendum á höfuðborgarsvæðinu óþægur ljár í þúfu og skattgreiðendum öllum, einkum þó íbúum sveitarfélaga, sem þátt ætla að taka í þessu ævintýri, myllusteinn um háls. Þórarinn Hjaltason hélt áfram:
"Ég skora á samgönguyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu að endurskoða áætlanir um uppbyggingu borgarlínunnar. Beinast liggur við að skoða þann valkost að fækka leiðum strætó og auka í staðinn ferðatíðni. Unnt er að stytta ferðatíma strætó með sama hætti og gert hefur verið fram til þessa, þ.e. bæta við akrein hægra megin við akbraut, þar sem eru langar biðraðir bíla á álagstímum umferðar. Það er margfalt ódýrara en að gera sérrými í miðeyju gatna eða sérgötur, eins og áætlað er fyrir borgarlínuna."
Taka skal undir þetta. Þetta væri til bóta, og gætu slíkar akreinar þjónað allri forgangsumferð, þ.e. lögreglu, sjúkraflutningum og almenningsvögnum, og mundu létta aðeins á almennri umferð.
Þann 16. október 2020 birtist fróðleg og rökföst grein eftir sama Þórarin Hjaltason í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Dularfull skýrsla um arðsemi borgarlínu".
Þar er fjallað um skrýtna COWI/Mannvitsskýrslu, sem gefin var út 5. júní 2020, en kom ekki fram á sjónarsviðið fyrr en 9. október 2020. Þórarinn finnur ýmsar villur í þessari skýrslu, þannig að varasamt er að reisa á henni stórar ákvarðanir. Meginniðurstaða þessarar rýni Þórarins er eftirfarandi:
"Það er deginum ljósara, að borgarlína mun aðeins leiða til þess, að umferð einkabíla verði í bezta falli nokkrum prósentum minni en ella."
Þessi niðurstaða hins reynda umferðarverkfræðings er vel ígrunduð og rökstudd með reikningum hans í tilvitnaðri grein. Af niðurstöðunni má álykta, að Borgarlínan mun ekki draga merkjanlega úr bílaumferð, og hún er þannig ónothæf lausn til að stytta umferðartafir á álagstímum. Þar af leiðandi er óráð af sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og ríkissjóði að fara út í miklar og dýrar framkvæmdir við Borgarlínu, sem þrengja að bílaumferð. Fjármunum ber þess í stað að verja til þjóðhagslega arðbærustu framkvæmdanna, sem greiða úr umferðarflækjum og stytta ferðatímann á álagstímum. Það er óskandi, að nýstofnað félag um framkvæmdir til að auka flutningsafköst gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins nýti sér beztu þekkingu á þessu sviði í stað þess að steypa sér í hugmyndafræðilegt kviksyndi.
15.11.2020 | 12:07
Blekkingartilburðir um Borgarlínu
Flestir þeir, sem leið eiga um umferðaræðar höfuðborgarsvæðisins á virkum dögum á hefðbundnum ferðatíma í og úr vinnu, telja umferðarmannvirkin óviðunandi, því að þau anna engan veginn toppálaginu. Það er sennilega ekki samfélagslega arðbært að fjárfesta svo mikið í innviðum umferðarinnar, að hún geti gengið jafngreiðlega allan sólarhringinn allan ársins hring, en árlegur tafakostnaður nú, yfir mrdISK 40, gæti verið orðinn tífaldur á við það, sem hagfræðilega er verjanlegt. Hið sorglega í málinu er, að þessi mikli viðbótar kostnaður við að búa á höfuðborgarsvæðinu er ekki óhjákvæmileg söguleg þróun þéttbýlis og almennrar bíleignar, heldur hreinræktað sjálfskaparvíti og bein afleiðing stefnumörkunar Reykjavíkurborgar um fjölgun ferða gangandi, hjólandi og með almenningsvögnum á kostnað ferða með einkabílum. A.m.k. 80 % allra ferða um götur og stíga höfuðborgarsvæðisins á milli húsa er með einkabílum eða atvinnubílum (ekki almenningsvögnum).
Þann 29. október 2020 birtist í Morgunblaðinu snörp úttekt Ragnars Árnasonar, prófessors emeritus í Hagfræði við HÍ, þar sem hann kippti stoðunum undan félagshagfræðilegri greiningu COWI og Mannvits á Borgarlínu, sem gerð mun hafa verið fyrir "Verkefnastjórn Borgarlínu". Hún mun væntanlega falla inn í nýstofnað félag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um umbætur á samgöngum höfuðborgarsvæðisins.
Daginn eftir birtist furðusamtíningur tveggja trúboða Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur um blessun Borgarlínu, þar sem vitnað var til COWI/Mannvitsskýrslunnar sem heilags sannleika um þjóðhagslega arðsemi þessa samfélagsverkefnis. Þann 6. nóvember 2020 gerðu síðan höfundar fagnaðarerindisins grein fyrir sinni hlið málsins. Þær telja sig hafa farið eftir stöðlum og forskrift Evrópusambandsins (ESB) við gerð skýrslunnar. Ekki skal hér og nú brigður á það bera, en blekkingin mikla felst í því, að það er beitt ólíkri aðferðarfræði hérlendis og í Danmörku (líkanið er danskt) við slíka útreikninga. Félagshagfræðileg greining hefur nánast ekkert gildi, nema til að bera saman arðsemi opinberra verkefna í því skyni að forgangsraða verkefnum, þar sem fjármunir eru jafnan af skornum skammti, og stjórnmálamönnum ber skylda til að beita beztu fáanlegu hlutlægu aðferðum við forgangsröðun sambærilegra verkefna á framkvæmdastig innan sama svæðis.
Grein sína hóf Ragnar þannig:
"Umferðartafir hafa farið mjög vaxandi á höfuðborgarsvæðinu allmörg undanfarin ár. Nú er svo komið, að talsverður hluti vegfarenda situr meira og minna fastur í umferðinni á helztu álagstímum að morgni og síðdegis. Fárra km ferðir, sem m.v. hæfileg umferðarmannvirki ættu að taka innan við 10 mín taka oft tvöfalt lengri tíma eða meira."
Þetta er kjarni vandans, sem við er að etja. Ástæðan er fjölgun ökutækja af öllu tagi á götunum án nokkurra viðhlítandi fjárfestinga í viðeigandi umbótum á samgönguleiðunum undanfarinn rúman áratug. Þvert á móti hafa borgaryfirvöld fjandskapazt í verki við akandi vegfarendur með þrengingum gatna, ljósastýrðum göngubrautum yfir umferðaræðar, hjárænulegum umferðarljósastýringum og sérreinum strætisvagna, sem nýtast mundu miklu betur, ef þar mættu fleiri aka.
Ástæðan, sem tilfærð er fyrir þessum hjárænuskap borgaryfirvalda, er, að íbúarnir eigi að leggja einkabílnum sínum, en nýta hans í stað hina miklu "afkastameiri" almenningsvagna og draga um leið úr mengun andrúmsloftsins.
Eru almenningsvagnarnir "afkastameiri" en einkabílarnir ? Ef afköstin eru mæld í ferðakm/klst, yfirleitt frá einu húsi til annars, þá kemur vafalítið í ljós, að fyrir þorra fólks eru ferðaafköst með einkabílum meiri en fólks í almenningsvögnum, a.m.k. við eðlilegar aðstæður, þegar tafir eru ekki óeðlilegar vegna umferðar. Það er vegna þess, að biðtími er enginn eftir einkabílnum, nema þegar þarf að skafa og hreinsa af honum snjó, og hann kemst yfirleitt mun nær ákvörðunarstað en almenningsvagninn, svo að ekki sé minnzt á Borgarlínuna. Þegar fólk er klyfjað af pinklum eða innkaupapokum, hafa þessi atriði mikil áhrif á val fólks á samgöngutækjum. Allir vita, að rándýrt er að eiga bíl, og það er ekki að ástæðulausu, að fólk fer út í slík kaup, þótt almenningsvagnar séu í boði. Almenningur hefur val og hefur þegar valið fyrir sig. Gríðarfjárfesting í langvögnum í tíðum ferðum á sérreinum breytir litlu um helztu áhrifaþætti við ákvörðun fólks í þessum efnum.
Mun Borgarlínan draga úr mengun andrúmsloftsins ? Núverandi "strætó" mengar gríðarlega. Það er vegna þess, að flestir vagnarnir eru dísilknúnir, og þeir eru gríðarlega þungir. Vegslitið fylgir öxulþunga í 4. veldi. Þótt Borgarlína verði rafknúin með rafgeymum eða vetnisrafölum, er ekki sjálfgefið, að hún muni menga minna en einkabílarnir, því að á þeim vettvangi eiga sér nú stað orkuskipti, og ferðir þungra vagna Borgarlínunnar verða tíðar, og hún mun því valda miklu vegsliti og þar með svifryki.
Trúboðar Borgarlínunnar halda því fram, að þeir hafi höndlað stóra sannleik um tilhögun umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Þeir halda, að almenningur hérlendis verði ginnkeyptur fyrir ferðamáta, sem fólk á miklu þéttbýlli og fjölmennari svæðum og með stöðugra veðurfari en við eigum að venjast, telur sér henta betur en einkabíllinn, enda einkabílaeign ekki jafnalmenn þar og hér.
Í þessu trúboði er einkabíllinn í hlutverki hins vonda. Honum er auðvitað ekki við bjargandi með mislægum gatnamótum og nýjum akreinum, af því að innan tíðar munu þá þessi mannvirki fyllast af ökutækjum, og þá sitji bílstjórar í sömu súpunni og áður, en Borgarlínufarþegar líði áfram hindrunarlaust í alsælu um ókomin ár. Þess vegna gerum við ekkert fyrir einkabílinn, segja trúboðarnir hver við annan, og fórnarlömb einkabílsins munu þá örugglega flýja yfir á betri staðinn, Borgarlínuna. Þannig reiknum við með 12 % heildarferða á höfuðborgarsvæðinu með almenningsvögnum eftir tilkomumu Borgarlínu í stað 4 % nú. Þessi þróun mála er reist á trú sérvitringa. Ekki væri hægt að telja nokkrum alvörufjárfesti trú um þetta.
Trúboðarnir skjóta sig svo í fótinn með því að halda því fram, að ekkert bæti úr skák að bæta við mislægum gatnamótum eða nýjum akreinum, af því að þau fyllist strax af ökutækjum. Ef það er svo, að nýting nýrra umferðarmannvirkja verði frá upphafi góð og fullnýting fyrr en áætlað var, þá er þjóðhagslegur ábati verkefnisins, þ.e. núvirði mismunar árlegs ávinnings og kostnaðar yfir afskriftatímabilið, enn þá hærri upphæð en áætlun gerði ráð fyrir, sem eru ein beztu meðmæli, sem ein framkvæmd getur fengið. Þar með verður þjóðhagslega hagkvæmt að hafa nýju mannvirkin enn afkastameiri en ella.
Trúboðarnir boða heimsendi við fullnýtingu mannvirkjanna. Þar flaska þeir á eigin þröngsýni og þekkingarleysi. Þeir hafa asklok fyrir himin. Verkfræðingar framtíðarinnar munu finna ráð. Sé plássleysi á yfirborðinu, má bora jarðgöng eða byggja vegi í hæðina. Öllum er hins vegar ljóst, að Borgarlínan mettast aldrei. Gallinn við hana er hins vegar þjóðhagslegt tap af verkefninu samkvæmt prófessor emeritusi Ragnari Árnasyni. Slíkum verkefnum á aldrei að gefa grænt ljós á framkvæmdastig. Slíkt jafngildir því að fleygja peningum út um gluggann. Til þess eru félags- hagfræðilegar greiningar að vinza hafrana frá sauðunum.
Ragnar skrifaði þetta um tafakostnaðinn í umferðinni:
"Þjóðhagslegur kostnaður við þessar tafir er mjög mikill. M.v. opinber gögn um umferð á höfuðborgarsvæðinu er hann líklega yfir 100 MISK á hverjum virkum degi og yfir 30 mrdISK/ár [við þennan kostnað almennings má bæta tjóni fyrirtækjanna - innsk. BJo] ."
M.v. þennan gríðarlega kostnað, sem leggst á vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu og jafngildir 10 %-20 % hækkun á útsvars- og fasteignagjöldum þeirra til sveitarfélaga sinna og yfir 1 % af VLF, þá er löngu orðið tímabært (þjóðhagslega arðbært) að ráðast í framkvæmdir til að stytta þennan tafatíma um a.m.k. 80 %. Spurningin er, hvaða framkvæmdir á að velja fyrst. Þá er upplagt að beita ábata-kostnaðargreiningunni. Það er engum vafa undirorpið, að Borgarlínan lendir þá mjög aftarlega í röðinni, ef beitt er sams konar aðferðarfræði á öll verkefnin, enda er núvirði þessarar greiningar neikvætt fyrir hana, ef marka má niðurstöðu Ragnars Árnasonar. Líklega mun samræmd ljósastýring, göng undir umferðaræðar fyrir gangandi og einhver mislæg vegamót verða efst á verkefnalistanum.
"Öfugt við það, sem fullyrt hefur verið, sýnir athugun á skýrslu COWI og Mannvits, að þjóðhagslegt núvirði þessa fyrsta áfanga borgarlínunnar er verulega neikvætt. Með því einu að leiðrétta mistök í skýrslunni eða að færa eina af lykilforsendum hennar í raunsæisátt er niðurstaðan, að þetta núvirði sé neikvætt. Þá hefur ekki einu sinni verið tekið tillit til þeirrar áhættu, sem í framkvæmdinni felst."
Það verður að næmnigreina alla valkostina til að sjá, hversu viðkvæmir þeir eru gagnvart forsendubresti. Forsendan um fjölgun farþega með strætó við tilkomu Borgarlínu úr 4 % allra ferða á höfuðborgarsvæðinu í allt að 12 % stendur á brauðfótum og er í raun ekkert annað en ágizkun og trú trúboðanna. Hversu mikið mun Borgarlínan draga úr bílaumferð er aðalatriðið hér, og vitrænar greiningar (Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur) benda til, að það verði vart merkjanlegt.
Hins vegar vita allir, og trúboðarnir hafa viðurkennt það, að mislæg gatnamót nýtast strax mjög vel við að greiða fyrir umferð og minnka slysahættu stórlega. Þar af leiðandi munu þau draga til sína aukna umferð, og verða hönnuðurnir að taka það með í reikninginn, þegar þeir ákvarða afkastagetu mannvirkjanna. Þau þurfa þess vegna að vera vel við stærð.
Greinarlok sín nefndi Ragnar "Aðrir valkostir",
og voru þau á þessa lund:
"Aldrei er skynsamlegt að leggja í framkvæmdir, sem hafa neikvætt núvirði. [Það jafngildir að kasta peningum á glæ-innsk. BJo.] Það er jafnvel álitamál, hvort leggja beri í framkvæmdir, sem hafa jákvætt núvirði. Slíkt er aðeins skynsamlegt, ef engin önnur framkvæmd hefur hærra núvirði. Opinber gögn benda til þess, að á höfuðborgarsvæðinu séu allmargar framkvæmdir í samgöngumálum, sem bæði hafa verulega jákvætt núvirði og tvímælalaust miklu hærra en borgarlínan og munu nýtast öllum vegfarendum. Það væri skynsamlegt að framkvæma þessar samgöngubætur áður en meira skattfé er ausið í borgarlínu."
Þetta er hógvær og rökföst ráðlegging til yfirvalda samgöngumála. Stjórnmálamenn munu engan sóma hafa af þessari dýru og skaðlegu framkvæmd fyrir umferðarflæðið á höfuðborgarsvæðinu. Borgarlínan verður grafreitur skattfjár og pólitískur grafreitur þeirra, sem ábyrgir eru fyrir svo ábyrgðarlausri meðferð skattfjár mitt í alvarlegri heilbrigðis- og efnahagskreppu.
Tveir trúboðar Borgarlínunnar tjáðu sig strax daginn eftir á síðu 14 í Fréttablaðinu með furðugrein, sem vísaði til opinna skolpræsa við hlið drykkjarvatnsbrunna í Reykjavík fyrrum. Þetta voru borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Ragna Sigurðardóttir og Hjálmar Sveinsson, þekktur áhugamaður um borgarskipulag sem dagskrárfulltrúi á RÚV. Greinin hét auðvitað:
"Borgarlína - já, takk".
"Nú er árið 2020. Samkvæmt Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni látast um 3,5 M manna af völdum loftmengunar árlega - enn fleiri en látast af völdum ökuslysa. Þegar samfélagið fer að skríða út úr COVID-19 faraldrinum og umferð á höfuðborgarsvæðinu eykst á ný, þá þurfum við að horfa fram á veginn. Huga að því, hvernig við getum með beinum hætti minnkað svifryksmengun og útblástur höfuðborgarsvæðisins, ásamt því að að stórbæta afkastagetu fólksflutningakerfisins."
Svifryk í Reykjavík fer nokkrum sinnum á ári yfir ströng heilbrigðismörk. Óloftið, þar sem megnið af dauðsföllum verður vegna loftmengunar, í Kína og á Indlandi, er þó aldrei sambærilegt við það, sem er í Reykjavík, nema einstaka sinnum á fjölförnum gatnamótum í Reykjavík, þar sem fyrir löngu ættu að vera komin mislæg gatnamót, svo að farartæki í lausagangi spúi þar ekki sóti og eimyrju. Þessir borgarfulltrúar hafa hindrað Vegagerðina í að reisa þessi nauðsynlegu mannvirki. Borgarfulltrúarnir kasta steinum úr glerhúsi, því að þau hafa líka látið undir höfuð leggjast að hreinsa götur Reykjavíkur almennilega til að stórminnka svifrykið. Þá má ekki gleyma fjölmörgum ökutækjum Reykjavíkurborgar á götum borgarinnar, sem eru þung og dísilknúin, t.d. strætisvagnar, og eiga talsverðan hlut í öllu svifrykinu. (Hluti þess er foksandur, gjóska og uppfok af árfarvegum.) Framtíðin er hins vegar rafvæðing einkabílanna á næstu 20 árum. Þessi málflutningur borgarfulltrúanna er þess vegna mjög yfirborðslegur, svo að ekki sé meira sagt. Vindhögg væri nær lagi.
"Samkvæmt nýrri félagshagfræðilegri greiningu dönsku verkfræðistofunnar COWI og verkfræðistofunnar Mannvits er Borgarlína þjóðhagslega arðbært verkefni. Áætlað er, að fyrsta lota hennar skili mrdISK 25,6 samfélagslegum ábata á næstu 30 árum (umfram stofn- og rekstrarkostnað). Heildarábatinn, þegar borgarlínan er öll komin í gagnið, er metinn vera mrdISK 93,6. Ferðatími styttist og biðtími sömuleiðis, enda eykst afkastageta gatnanna, sem hingað til hafa verið þéttsetnar mjög plássfrekum og mengandi einkabílum.
Það er því margt líkt með vatnsberakerfi fortíðarinnar og fólksflutningum nútímans. Á höfuðborgarsvæðinu eru um 80 % ferða farnar með einkabílum. Það er þvert á vilja íbúa Reykjavíkur."
Þarna er umrædd dansk-íslenzk skýrsla misnotuð , og síðan birtist herfilegur hugarheimur höfundanna. Allt er þetta tilfinnanlegt tilberasmjör. Það er alveg út í hött að birta niðurstöðu slíkra útreikninga eina og sér. Þetta fé hlotnast engum. Þessi aðferðarfræði er aðeins nothæf við samanburð á verkefnum til að velja á milli þeirra. Samkvæmt því, sem kennt er í Háskóla Íslands, er beitt í skýrslunni röngum aðferðum, sem gefa mjög villandi niðurstöður að mati prófessors emeritus í hagfræði.
Ferðatími styttist í um 8 % tilvika (4 %-12 %), afar mismunandi mikið, oft hlutfallslega lítið, en hann mun lengjast mjög mikið í allt að 80 % tilvika vegna þrenginga gatna og forgangs Borgarlínu. Þetta tímatap hefur áreiðanlega ekki verið rétt reiknað inn í téð félags-hagfræðilíkan. Það er einhver misskilningur eða mistúlkun á ferðinni, að notkun einkabíls sé þvert á vilja íbúa Reykjavíkur að því gefnu, að yfirvöld setji ekki allar alvöruumbætur á ís í heilan áratug.
Afkastageta gatnanna eykst aðeins á pappírnum með tilkomu Borgarlínu, því að hún getur aðeins þjónað fáum. Hún getur þjónað þeim, sem búa nálægt henni og eiga aðeins erindi á staði nálægt henni. Engir aðrir hafa áhuga á henni.
Enn hélt bullið í borgarfulltrúunum áfram:
"Bílaumferðin er mengandi fyrir nærumhverfið, líkt og skolpræsin, sem voru stundum við hlið neyzluvatnsbrunnanna forðum. Afkastageta bílaumferðarinnar er lítil, þegar tekið er tillit til þess gríðarlega pláss, sem hún tekur í borginni."
Afkastageta bílaumferðar er mikil, þegar tekið er tillit til þess, að farþeginn (bílstjórinn) kemst yfirleitt alla leið án mikils gangs, að því tilskildu, að vegakerfið sé hannað og því við haldið (ekki holótt) í samræmi við umferðarþungann. Téðir borgarfulltrúar virðast sjá ofsjónum yfir flatarmálinu, sem göturnar þekja. Í hvaða heimi lifir þetta fólk ? Hvernig á að byggja húsin, ef götur vantar ? Hvernig á að flytja búslóð inn og út án gatna að húsum ? Hvernig verður aðgengi slökkvibíla og sjúkrabíla án gatna ?
Alla megininnviði þarf að hanna m.v. hámarksálag. Það er ekkert vit í því að hanna umferðaræðar, raforkukerfi og vegakerfi, flugvelli eða hafnir m.v. meðalálag. Málflutningur borgarfulltrúanna er alveg út í hött. Þau eru fulltrúar afturhalds, sem ekki vill, að almenningur njóti þeirra þæginda og tímasparnaðar, sem nútíminn bíður upp á.
"Hraðvagnakerfi Borgarlínunnar er aftur á móti mjög afkastamikið, þegar kemur að því að flytja mikinn fjölda fólks á skömmum tíma í og úr vinnu og skóla. Og mengun er hlutfallslega lítil."
Þetta er úrelt sjónarmið og hefur aldrei átt við íslenzkar aðstæður. Fjarvinna mun hægja á umferðaraukningunni, og fjölmennið vantar. Borgarlínan verður alls ekki mengunarlaus vegna mikils þunga og gatnaslits, þótt rafknúin verði. Með sómasamlegum gatnaþrifum verður loftmengun vegna umferðar ekki vandamál.
Höfundar umræddrar COWI-skýrslu skriðu út úr fylgsni sínu með Morgunblaðsgrein 6. nóvember 2020, sem augljóslega á að vera svar við gagnrýni prófessors emeritus Ragnars Árnasonar. Hann svaraði svo í Morgunblaðinu 9. nóvember 2020, og verða þeirri grein o.fl. gerð skil hér á vefsetrinu síðar. Grein Ólafar Kristjánsdóttur og Meta Reimer Brödsted, verk- og hagfræðinga, hét:
"Félagshagfræðileg greining borgarlínu".
"Greiningin var framkvæmd með danska arðsemislíkaninu TERESA, sem hannað var fyrir samgönguráðuneyti Danmerkur til að samræma aðferðafræði við gerð kostnaðar- og ábatagreininga á samgönguverkefnum. Líkanið hefur m.a. verið notað fyrir uppbyggingu metrókerfisins [neðanjarðarlestir-innsk. BJo] í Kaupmannahöfn. Líkanið var þróað af samgönguhagfræðingum í Danmörku út frá kröfum Evrópusambandsins um gæði kostnaðar- og ábatagreininga."
Komið hefur fram hjá prófessor emeritusi Ragnari Árnasyni, að varasamt geti verið að notast við erlend líkön af þessu tagi hérlendis. Aðalatriðið í þessu sambandi er að nota sama líkanið, þegar bera á saman mismunandi fjárfestingarkosti. Ragnar hefur bent á, að rangt sé að telja fargjöld farþega verkefninu til samfélagslegra tekna, eins og stöllurnar gera, enda verði engin ný verðmæti til með þeim hætti, heldur minnki gjaldið aðra neyzlu Borgarlínufarþeganna. Spyrja má, hvort gerð hafi verið næmnigreining á áhrifum gjaldupphæðarinnar á fjölda farþega, og hvernig gjaldið sé ákvarðað. Með sama hætti væri þá hægt að setja vegtoll á mislæg gatnamót til að fegra fjárhagsstöðu þeirra verkefna, en slíkt er augljóslega óháð hinu samfélagslega verðmæti verkefnisins. Aðferð COWI er til þess fallin að kasta ryki í augu fjárveitingavaldsins og almennings.
Dæmi um réttmæti athugasemdar Ragnars um gagnrýnislausa notkun erlends samgöngulíkans á Íslandi er, að "[s]amkvæmt niðurstöðum samgöngulíkansins mun ferðum með almenningssamgöngum fjölga um 20 % á dag árið 2024 vegna tilkomu borgarlínu". Hverjir eru þessir nýju farþegar ? Eru það fyrrum gangandi vegfarendur, hjólreiðamenn, farþegar í bíl eða bílstjórar ? Þetta skiptir miklu máli fyrir áhrif Borgarlínu á bílaumferðina. Hér vantar íslenzka greiningu.
Í lokin skrifuðu verk-hagfræðingarnir:
"Íbúum höfuðborgarsvæðisins mun fjölga mikið á næstu áratugum. Niðurstöður samgöngulíkans benda til, að umferðartafir myndu aukast til muna á næstu áratugum, þó að fjárfest yrði eingöngu í innviðum fyrir bílaumferð. Margþætt lausn í samgöngum og þétting byggðar varð því fyrir valinu í sviðsmyndagreiningu svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2015-2040. Lausnin fælist í fjölbreyttum samgönguvalkostum, sem auka afköst í samgöngum og gæði hins byggða umhverfis."
Það er ástæða til að efast rækilega um þá niðurstöðu þessa samgöngulíkans, að "umferðartafir myndu aukast til muna á næstu áratugum", ef einvörðungu yrði fjárfest í afkastaaukandi mannvirkjum fyrir alla bílaumferð. Með réttum fjárfestingum fyrir lægri upphæð en áætlað er, að 1. áfangi Borgarlínu þurfi, er hægt að stytta meðaltafatíma í ös um a.m.k. 80 % í a.m.k. 20 ár. Þar að auki má búast við sveigjanlegum vinnutíma í auknum mæli, sem minnkar umferðartoppinn, þótt meðalumferð á sólarhring sé óbreytt. Strætó mun njóta mjög góðs af minni töfum í umferðinni, sem mun gera hann vinsælli.
Hvorki þetta né önnur samgöngulíkön er hægt að nota til að spá af nokkru viti um umferðarþungann eftir 20 ár eða meira. Tækninýjungar munu ryðja sér til rúms í umferðinni og umferðardreifingin um höfuðborgarsvæðið og yfir daginn gæti orðið jafnari en núna, ef rétt er haldið á spöðunum. Borgarlína í fyrirhugaðri mynd gæti þá orðið algerlega úrelt, þótt strætó í einhverri mynd verði áfram við lýði, og sjálfakandi skutlur kunna að verða hluti af umferðarþunganum á kostnað reiðhjóla, bíla og strætisvagna. Það er alls ekki rétti tíminn núna í Kófi og óvissu um stefnuna í tækniþróun umferðar að taka stefnumarkandi ákvörðun til langrar framtíðar um lausn, sem virðist ekki vera í neinum tengslum við tækniþróunina né þarfir almennings.
19.10.2020 | 10:28
Tveggja stoða kerfi EES er á undanhaldi
Nú stendur yfir stjórnmálabarátta í Noregi um innleiðingu 4. járnbrautapakka ESB í norska löggjöf. Þar er um að ræða bæði efnislegan grundvallarágreining og ágreining við norsku ríkisstjórnina og ESB um mál, sem var forsenda þess, að Íslendingar og Norðmenn féllust á að samþykkja EES-samninginn á sinni tíð. Verður nú gerð grein fyrir þessum sjónarmiðum, því að þau eru áhugaverð fyrir Íslendinga, sem velta fyrir sér þróun sambandsins á milli EFTA og ESB.
Járnbrautarpakki 4 er lokahnykkur ESB í einkavæðingarferli járnbrautanna á Innri markaði EES. Með honum verður einkaréttur fyrirtækja, oftast í eigu ríkisins, á rekstri járnbrauta í hverju EES-landi afnuminn. Íslendingar fengu undanþágu af skiljanlegum ástæðum. Einkaréttur verður þó áfram á járnbrautarteinunum, og er þetta hliðstætt fyrirkomulag og í orkugeiranum, þar sem flutningskerfin njóta einkaréttar, sbr Landsnet hér, en þetta á líka við um eldsneytisgaslagnir.
Síðan verður öllum með leyfi til járnbrautarrekstrar á Innri markaðinum hleypt á teinana, hvar sem er í EES, og skal frjáls samkeppni ríkja um viðskiptavinina. Þetta fyrirkomulag leggst illa í marga Norðmenn, sem vilja halda í einkarétt NSB (Norges statsbaner), og kæra sig ekki um samkeppni frá SJ (Sveriges Järnvägar) eða DB (Deutsche Bundesbahn), svo að aðeins 2 dæmi séu tekin. Er óvíst, hver úrslit þessa máls verða í Stórþinginu, og velta þau á Framfaraflokkinum, sem yfirgaf ríkisstjórnina í fyrra.
Þessi hlið málsins varðar okkur Íslendinga litlu. Það er aðferðarfræðin við innleiðinguna, sem er áhyggjuefnið, þótt hún sé ekki einsdæmi. ESB heimtar einnar stoðar fyrirkomulag við innleiðinguna í EFTA-löndunum, Noregi og Liechtenstein, og stjórnvöld í Noregi virðast hafa fallizt á þá kröfu ESB. Það þýðir, að Tveggja stoða fyrirkomulagið með ESA sem stjórnvald á EFTA-hlið og EFTA-dómstólinn sem dómsvald, verður ekki haft í heiðri, heldur á að leggja járnbrautarmálefni Noregs beint undir járnbrautarstofnun ESB, ERA, og ESB-dómstólinn.
Nú hafa norsk stjórnvöld leitað samþykkis íslenzkra stjórnvalda og stjórnvalda í Liechtenstein á þessu fyrirkomulagi, m.a. með yfirlýsingu, sem norsk stjórnvöld hafa sent þeim íslenzku til undirritunar. Þetta skjal er enn ekki opinbert í Noregi, en spurning er, hvort þetta pukur með mikilvægt EES-mál nær einnig til Íslands. Hvað stendur í þessu skjali ? Þýðir undirritun þess, að hinu margdásamaða Tveggja stoða kerfi EES verði kastað fyrir róða, eins og ESB kýs ?
Það er grafalvarlegt, ef íslenzk stjórnvöld undirrita þessa yfirlýsingu, því að þar með varða þau veginn fyrir þá kúvendingu í anda ESB í samskiptum EFTA-landanna (utan Svisslands), að Tveggja stoða fyrirkomulaginu verði kastað fyrir róða. Þar með hrynur ein meginstoðin undan aðild Íslands að EES. Ríkisstjórnin ætti að hafna þeirri málaleitan Norðmanna að skrifa undir þessa yfirlýsingu án undanfarandi aðkomu Alþingis, og lýðræðislegast væri þá að opinbera þetta skjal, og að umræðan um það fari fram fyrir opnum tjöldum, en ekki einvörðungu á lokuðum nefndafundum Alþingis.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur viðhaft mjög eindregin ummæli á Alþingi á þessu kjörtímabili um, að Tveggja stoða kerfið sé grundvallaratriði fyrir aðild Íslands að EES, og utanríkisráðherra hefur tekið í sama streng. Hann sagði t.d. efnislega á fundi í EES-ráðinu 2018:
Ég vil gjarna endurtaka áhyggjur okkar um þróun Tveggja stoða fyrirkomulags EES-samningsins. Það verður stöðugt erfiðara, þegar löggjöf ESB, sem felur í sér valdaframsal, er felld inn í EES-samninginn, að finna lausnir, sem taka tillit til Tveggja stoða fyrirkomulags samningsins.
Þessi orð kunna að hafa fallið í tilefni af kröfum ESB um fyrirkomulag innleiðingar lagabálks um fjármálastarfsemi og eftirlit með henni og í tilefni persónuverndarlöggjafar ESB, en persónuverndarstofnunin á Íslandi fellur beint undir Persónuverndarstofnun ESB.
Þetta fyrirkomulag, Einnar stoðar kerfið, hefur alltaf vakið upp tortryggni á Íslandi í garð ESB, sem sýnir þess augljós merki að telja EES-samninginn of þunglamalegan og jafnvel úreltan og vilji auka einsleitnina á Innri markaðinum jafnvel með afnámi ESA og EFTA-dómstólsins. Þar með yrði staða EFTA-landanna gjörómöguleg og EES-samningurinn fallinn um sjálfan sig.
31.8.2020 | 21:21
Óforsjálni og skipulagning fara illa saman
Íslendingar búa við aðstæður frá náttúrunnar hendi, sem einstæðar eru í Evrópu, og þótt víðar væri leitað. Forfeður okkar bjuggu hér mann fram af manni í stöðnuðu þjóðfélagi, þar sem tækniþróun, t.d. við mannvirkjagerð, var lítil. Menn reistu íbúðarhús, fjárhús og fjós úr grjóti og torfi á listilegan hátt, en timbur var löngum af skornum skammti, og fór það í að halda uppi þakinu, sem síðan var tyrft, en lítt var þiljað innanstokks og moldargólf víða. Má kalla kraftaverk, hvernig fólk lifði af við þessar aðstæður, sem í mörgum tilvikum má kalla vosbúð með vatnsleka, trekki, raka, myglu og kulda.
Nú er öldin önnur, en þá bregður svo við, að við landskipulag gleymist að horfa til sérstöðu landsins, veðurfarslegrar og jarðfræðilegrar. Úr þessu verður að bæta og taka upp strangar áhættugreiningar, þegar staðsetja á þéttbýli, umferðaræðar, orkuæðar og flugvelli.
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, ritar tíðum skilagóðar greinar í Morgunblaðið, oft tengdar náttúrunni. Þann 4. ágúst 2020 birtist þar eftir hann grein um ofangreint efni með fyrirsögninni:
"Eldgosahætta, jarðskjálftar og skipuleg viðbrögð gegn náttúruvá".
Nú verður gripið niður í þessa hugvekju:
"Jarðskjálftar og eldgos hafa gengið sem rauður þráður gegnum Íslandssöguna og borið fréttir víða af þessu sérkennilega eylandi. Öðrum þræði erum við stolt af þessari sérstöðu, en hefur þó enn ekki lærzt sem skyldi að búa við hana af forsjálni og taka tillit til hennar í skipulagi."
Þetta þurfa sveitarfélög landsins, sem með skipulagsvaldið fara, að taka til sín. Umbætur hafa þó víða orðið, eins og snjóflóðavarnir og jarðgöng eru dæmi um, en betur má, ef duga skal. Landið hefur verið kortlagt m.t.t. til jarðskjálftavár, og byggingarstaðlar m.t.t. burðarþols og jarðskjálftaþols sniðnir að nýjustu þekkingu í þessum efnum, og sama er að segja um burðarþol þaka og veggja gagnvart snjóþyngslum. Það, sem helzt skortir nú á, er að taka tillit til eldvirkninnar, þar sem hún á við, og um það fjalla næstu tilvitnanir í Hjörleif:
"Stóraukin þekking á jarðeldum ásamt góðri vöktun hefur átt þátt í þessu [að koma í veg fyrir slys - innsk. BJo] sem og aðvaranir og bætt aðgengi fyrir almenning. Við þurfum þó að vera meðvituð um, að vel heppnuð sambúð við þessi náttúruöfl er ekki sjálfgefin, og miklu skiptir að taka tillit til náttúrufarslegrar áhættu við skipulag og aðgengi ferðamanna."
Miklu meira máli skiptir að huga að flóttaleiðum fyrir íbúa þéttbýlis við mannskæða jarðskjálfta, sem valda hruni bygginga, og eldgos. Reyjanesskaginn er eldvirkt svæði a.m.k. frá Garðabæ og suður á Reykjanestá. Á Miðnesheiðinni er yfirleitt mikil starfsemi og langmikilvægasti flugvöllur landsins. Eftir gerð Suðurstrandarvegar, sem er víða sérlega vel heppnaður, eru 2 flóttaleiðir landleiðina frá Reykjanesi og góðar hafnir utarlega á nesinu gera sjóleiðina greiðfæra í neyð, þótt flugvöllurinn yrði ónothæfur.
Orkuverið í Svartsengi getur orðið algerlega óvirkt bæði fyrir rafveitu og hitaveitu. Flutningsgeta núverandi Suðurnesjalínu nægir Suðurnesjamönnum ekki, ef Svartsengisvirkjun verður ótiltæk. Það er mikill ábyrgðarhluti að seinka samfélagslega mikilvægum framkvæmdum árum saman.
Það er alveg dæmalaus óforsjálni fólgin í hugmyndum um að flytja starfsemi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni yfir á nýjan alþjóðlegan flugvöll í Hvassahrauni. Hér er um hundraða mrdISK fjárfestingu að ræða á eldvirku svæði. Hraunelfur gæti gert þá fjárfestingu að engu á nokkrum dögum, t.d. skömmu eftir að búið yrði að gera Vatnsmýrarvöllinn algerlega óstarfhæfan. Í versta tilviki yrði enginn alþjóðaflugvöllur starfhæfur á Suð-Vesturlandi. Slíkt hlýzt aðeins af skammsýni og heimsku. Reykjavíkurflugvöllur er perla, sem fyrir enga muni má kasta fyrir svín. Þar eru ein albeztu flugskilyrði frá náttúrunnar hendi á landinu. Stöðva verður þegar í stað tilburði borgarstjórnarmeirihlutans til þjóðhættulegra spellvirkja í Vatnsmýrinni. Með vísun til þjóðaröryggis ætti Alþingi að setja lög um það, að í Vatnsmýrinni skuli um ótilgreinda framtíð vera varaflugvöllur fyrir alþjóðlegt flug og miðstöð innanlandsflugs. Sérfræðingar á sviði flugmála þurfa síðan að gera tillögu um það, hvaða framkvæmdir eru nauðsynlegar til að Vatnsmýrarvöllurinn geti þjónað hlutverki sínu af fullri reisn á komandi áratugum.
"Jarðsögulegar heimildir frá ísaldarlokum benda til, að búast megi við tíðari eldgosum í kjölfar þess, að jöklar eru nú að rýrna hér sem annars staðar og landris á sér stað af þeim sökum. Þetta varðar megineldstöðvar, eins og Kötlu og Öræfajökul, sem nú eru undir jökulfargi, sem og Bárðarbungu og Grímsvötn. Í sömu átt bendir landris á Reykjanesskaga, og að innan ekki langs tíma megi þar búast við eldsumbrotum eftir goshlé, sem varað hefur frá árinu 1240. Atburðir síðustu mánaða í Grindavík og Svartsengi benda í þessa átt, og sömuleiðis er talið, að hlé á gosvirkni á skaganum öllum frá Brennisteinsfjöllum og vestur úr sé orðið óvenjulangt í sögulegu samhengi."
Það er ótækt að skella skollaeyrum við þessum aðvörunarorðum, þótt alræmd óvissa á breiðu bili fylgi jafnan forspá jarðvísindamanna, svo að nánast virkar hlægileg, er á er hlýtt. Í þessu ljósi má vera einkennilegt, að engin umræða sé opinberlega farin af stað um ráðstafanir til að verja mannvirki á þessu svæði gegn hraunrennsli. Slíkt er ekki hægt að stöðva, en það má e.t.v. beina því í skaðlitlar áttir, eins og snjóflóði.
16.8.2020 | 18:39
Borgarlína á brauðfótum
Það getur enginn rekstrargrundvöllur orðið undir Borgarlínu á næstu áratugum einfaldlega af því, að í grennd við hana verða ekki nægilega margir íbúar, sem þurfa á henni að halda, svo að tekjur nálgist rekstrarkostnað, hvað þá að standa undir fjárfestingunni. Verði hún raungerð, verður rekstrarkostnaður hennar hengingaról um háls íbúa þeirra sveitarfélaga, sem þátt taka í verkefninu. Borgarlína er feigðarflan stjórnmálamanna til að leysa vandamál, sem er ekki og verður ekki fyrir hendi í fyrirsjáanlegri framtíð. Til að skapa vaxandi höfuðborgarsvæði fullnægjandi samgönguúrræði og raunar samgöngulausnir, sem spurn er eftir, þarf að nútímavæða umferðarstýringu á gatnamótum, hætta þeirri vitleysu að gera gangandi kleift að stöðva umferðaræðar (fyrir þá á að gera undirgöng), fjölga akreinum, þar sem það er tímabært, og reisa brýr fyrir mislæg gatnamót. Þetta ásamt bættum tengingum höfuðborgarinnar til norðurs og austurs og Hafnarfjarðar til vesturs leysir úr vanda bílafjölgunar og verður ekki dýrari en Borgarlínulausnin, sem hefur þann megingalla að leysa engan vanda, af því að hún svarar ekki samgönguþörfum íbúanna. Fé hefur undanfarinn áratug verið sturtað í Strætó án tilætlaðs árangurs, og hlutdeild hans í umferðinni hefur ekki einu sinni náð að vaxa um 1 %.
Óli Björn Kárason, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, ritaði miðvikudagsgrein um Borgarlínuna 29. júlí 2020, sem hann nefndi:
"Á að virða samgöngusáttmálann".
Hann hefur greinilega miklar áhyggjur af því, að núverandi meirihluti í borgarstjórn sé af því taginu, sem ekki er hægt að gera samninga við. Það er ekki að ástæðulausu, þegar horft er á, hvernig þessi óhæfi meirihluti hagar sér gagnvart Reykjavíkurflugvelli:
"Áætlaður kostnaður [við ný samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu] er um mrdISK 120 á næstu 15 árum. Ríkissjóður tryggir a.m.k. mrdISK 45, en bein framlög sveitarfélaganna verða mrdISK 15 eða um 1 mrdISK/ár. Um mrdISK 60 verða fjármagnaðir með flýti- og umferðargjöldum, en þó verða aðrir kostir teknir til skoðunar samhliða orkuskiptum og endurskoðun á skattlagningu á ökutæki og eldsneyti. Í greinargerð með frumvarpi um stofnun opinbera hlutafélagsins kemur fram, að til greina komi, að ríkið fjármagni þennan hluta uppbyggingarinnar með sérstökum framlögum vegna eignasölu, t.d. með sölu á Íslandsbanka."
Það getur sem sagt farið svo, að ríkið fjármagni 88 % af kostnaðinum við ný samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2021-2035. Það er anzi ríflegt í ljósi þess, að aðeins 44 % eiga að fara í stofnvegi. Annað í þessum framkvæmdahugmyndum, eins og almenningssamgöngur, göngu- og hjólastígar og bætt umferðarstýring, ætti að vera á könnu sveitarfélaganna. Verst af öllu er þó, að 41 % kostnaðarins munu samkvæmt áætluninni ganga til gæluverkefnis umferðarsérvitringa, sem kallað er Borgarlína og almenningssamgöngur, en þetta viðfangsefni er fullkomlega í lausu lofti, sárafáir munu njóta góðs af því, en fjölmargir bíða tjón af, því að aðalafleiðingin verða auknar umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu vegna þess, að þrengt verður að einkabílnum enn meira en nú er og minna fé verður í vitrænar framkvæmdir, sem leysa umferðarvanda, þ.e. greiða fyrir umferð og minnka slysatíðni.
"Samkvæmt samkomulaginu er skipting kostnaðar eftirfarandi:
- 52,2 milljarðar í stofnvegi
- 49,6 mrd í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur
- 8,2 mrd í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng
- 7,2 mrd í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir
Þá segir orðrétt í undirrituðu samkomulagi:
"Við endanlega útfærslu framkvæmda verður sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta, s.s. Sundabrautar, inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.""
Í þessu síðasta felst vitræn framtíðarsýn, sem er reist á þeirri umferðartæknilegu hugsun, að vegir séu fyrir öll ökutæki, svo að fólk komist sem greiðlegast og öruggast leiðar sinnar, en ekki þeirri undarlegu og afbrigðilegu áráttu, sem einkennt hefur gatnaframkvæmdir Reykjavíkurborgar undir núverandi borgarstjóra, Degi Bergþórusyni, að vegir séu fyrir augað og ein þröng akrein, helzt hlykkjótt, dugi bifreiðum í hvívetna.
"Margir hafa áhyggjur af því, að kostnaður - stofn- og rekstrarkostnaður - verði miklu hærri en áætlun og vísa til biturrar reynslu skattgreiðenda. En andstaðan á sér einnig rætur í óttanum við, að Borgarlínan ryðji einkabílnum úr vegi - dragi úr valkostum. Þessi ótti er eðlilegur, þrátt fyrir að sáttmálinn sé skýr; að ráðast í umfangsmiklar samgöngubætur, m.a. á stofnvegum, og tryggja greiðari umferð með bættri umferðarstýringu.
Og hvernig má annað vera ? MrdISK 120 samgöngusáttmálinn virðist engu breyta í hugum forystumanna meirihlutans í borgarstjórn."
Almenningssamgönguþátturinn í þessari áætlun er algert yfirskot og felur í sér sóun fjármuna. Við íslenzkar aðstæður verður aldrei hægt að ná nógu mörgum farþegum í vagnana, til að meðalnýting þeirra verði nógu há, til að farþegarnir standi undir rekstrarkostnaði. Hér er algerlega ofvaxið fyrirbrigði á ferðinni m.v. eftirspurnina. Það virðist eiga að fara út í mrdISK 50 fjárfestingar á næstu 15 árum m.v. væntanlega eftirspurn, sem aldrei verður fyrir hendi, nema í hugskoti nokkurra draumóramanna. Þetta er auðvitað dæmi um óvandaðan verkefnisundirbúning, sem draga mun langan slóða á eftir sér. Það má leysa málefni almenningssamgangna með sóma með 30 % þessa kostnaðar, eins og umferðarsérfræðingar hafa bent á.
Að láta ofstækisfulla viðvaninga á sviði skipulagsmála, eins og nú er að finna í borgarstjórn og búið er að planta niður í borgarkerfið, er ávísun á stórfelld vandræði. Þetta bendir Óli Björn á:
"Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi pírata og formaður Skipulags- og samgönguráðs, fer mikinn í grein, sem birtist hér í Morgunblaðinu 13. júlí síðastliðinn: "Einkabíllinn er ekki framtíðin".
Borgarfulltrúinn boðar færri "bílaakreinar og færri bílastæði" og Borgarlínu með "stórtækum hjólainnviðum". Í þessu samhengi er vert að draga fram, að markmið samgöngusáttmálans er skýrt: "að stuðla að auknum lífsgæðum á höfuðborgarsvæðinu með uppbyggingu skilvirkra, hagkvæmra, öruggra og umhverfisvænna samgöngumarkmiða."
Með þessu markmiði er m.a. stefnt að eftirfarandi:
"Að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta."
Það er hvergi í texta þessa samgöngusáttmála minnzt á niðurrif samgönguinnviða fyrir eitt af samgöngutækjunum, einkabílinn. Þess vegna er ljóst, að píratinn Sigurborg Ósk grefur á ofstækisfullan hátt undan sáttmálanum með því að ætla að nota fjármagn, m.a. frá ríkinu, til að fækka akreinum og bílastæðum. Þessi afstaða píratans er pírötum lík, en gjörsamlega ótæk, og þess eðlis, að réttast væri að leysa hana frá störfum formanns nefndar, sem fer með skipulagsmál borgarinnar. Ella hljóta vinstri grænir, borgarstjórinn og flokkssystkini hans í borgarstjórn, ásamt varahjólinu Viðreisn, að svara fyrir afglöpin við næstu sveitarstjórnarkosningar.
Jónas Elíasson, prófessor, hefur ritað talsvert um Borgarlínuna, og hann varar yfirvöld ríkisins eindregið við því að taka þátt í fjáraustri í verkefni, sem hann telur munu kosta mrdISK 200-600. Eftir Jónas birtist í Morgunblaðinu 13.07.2020 greinin:
"Borgarlínutrúin".
Þar gat m.a. að líta þetta:
"En frá sjónarmiði góðra stjórnarhátta er þetta miklu verra [en fjármögnunaráætlun Vaðlaheiðarganga]. Þarna er verið að binda ríkinu mikinn fjárhagslegan bagga án þess, að nokkurt gagn sé í fyrir samfélagið. Auk þess er verið að stífla mikilvægustu samgönguæðar landsins, þjóðvegina á höfuðborgarsvæðinu.
Svona lagað gerist ekki, nema í nafni pólitísks rétttrúnaðar, en hann hefur töluvert fylgi [á] meðal fólks, sem trúir á þann misskilning, að mestöll mengun og loftslagsvandræði séu einkabílnum að kenna. Í mörg ár er búið að reka trúboðsstöð í Borgartúninu, sem predikar, að öll slík vandræði leysist með Borgarlínu, en engan óraði fyrir, að áróður hennar hefði náð þetta langt. Spyrja má, hvaða trú er þetta, og hvaða gúrú er þarna á bak við ?
Seinni spurningin er ekki erfið. Gúrúinn á bak við er amerískur prófessor að nafni Scott Rutherford. Ágætur fræðimaður, sem lézt 2018. Fyrir um 15 árum hélt hann fyrirlestur við Verkfræðideild HÍ um, hvernig ætti að tvöfalda afköst strætókerfa. Í þessum fyrirlestri birtist nákvæm uppskrift að strætókerfi Borgarlínunnar. Auðvitað grunaði manninn ekki, að hann væri að stofna trúarbrögð, enda passa núverandi trúboðar sig á að nefna Scott Rutherford aldrei á nafn, enda voru sporvagnar þeirra upphaflega hugmynd.
En trúin er þarna; í áróðrinum heitir Borgarlína bættar almannasamgöngur. Auðvitað þarf að bæta þær, t.d. með því að nota heppilegri aðferð til þeirra fólksflutninga en að senda út um allt galtóma, yfirbyggða vörubíla, sem heita strætó og eyða 45 l/100 km. Flutningsgeta þeirra er allt of mikil m.v. þörf. En Borgarlínan tvöfaldar þá flutningsgetu með enn fleiri, stærri og eyðslufrekari vögnum; slíkt bætir ekki almannasamgöngur og er ekki hægt að rökstyðja. Það er þarna, sem trúin byrjar; á nækvæmlega sama stað og önnur trúarbrögð."
Þarna fer prófessor Jónas langt með að útskýra tilurð hugmyndafræðinnar um Borgarlínu. Hún verður ekki til sem afurð alvöru skipulagsfræðinga með sérþekkingu á umferðarskipulagningu eða umferðarverkfræðinga með getu til að greina viðfangsefnið og finna á því hagkvæmustu lausn til langs tíma. Nei, hún virðist verða til á meðal amatöra, viðvaninga án tilhlýðilegrar þekkingar til að finna beztu lausnina með hag samfélagsins alls í fyrirrúmi. Þetta fólk hefur engan áhuga á að finna fyrirkomulag, sem flytur sem flesta með lágmarks heildarkostnaði, þar sem tekið er tillit til allra þátta, t.d. ferðatíma og þæginda (lífsgæða), heldur hefur það einvörðungu áhuga á að fækka einkabílum með þvingunum og gerræðisgjörningum. Trúarbrögðin, sem prófessor Jónas nefnir, eru svo til að halda söfnuðinum við efnið, eins og vanalega.
Þetta er gjörsamlega forkastanleg nálgun viðfangsefnis, sem er þjóðhagslega mikilvægt. Það verður að kasta henni fyrir róða og beita þess í stað beztu fáanlegu aðferðarfræði, sem auðvitað er að finna innan verkfræðinnar, og hvorki á sviði forspjallsvísinda né guðfræði.
6.6.2020 | 18:01
Þingmaður stingur á kýli
Sjálfstæðasti þingmaðurinn á núverandi Alþingi, Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti máls á ófremdarástandi skipulagsmála verklegra framkvæmda í innviðum á Íslandi í Morgunblaðsgrein 20. maí 2020:
"Tafaleiðir framkvæmda og stjórnun í þágu fjöldans".
Í mörgum tilvikum þvera þessir innviðir fleiri en eitt sveitarfélag, og slík tilvik eru skipulagslega erfiðust. Hér er um að ræða klúður löggjafans, sem hann verður að bæta úr. Hann verður að einfalda og straumlínulaga þetta ferli, sem er allt of dýrt í framkvæmd. Sumir ráðherranna hafa verið að grisja reglugerðarfrumskóginn frá ráðuneytum sínum, þótt sparnaðurinn af því nemi aðeins broti af því, sem sparast mundi með einföldun að hætti Ásmundar.
Grein sína hóf Ásmundur á því að minna á, hversu léttvægar gjörðir mannanna eru enn gagnvart náttúruöflunum, og innviðaframkvæmdir snúast nú á dögum í mörgum tilvikum um að auka nothæfni innviða, þegar verulega reynir á þá, t.d. vegna náttúruaflanna.
"Í vetur hafa náttúruöflin svo sannarlega minnt okkur á, hvaða kraftar það eru, sem raunverulega ráða ríkjum. Veikleikar í raforkukerfinu, sem Landsnet hefur í mörg ár bent á, voru afhjúpaðir. Samgöngur stöðvuðust, og hefur Öxnadalsheiðin til dæmis verið ófær 12 sinnum í vetur. Þá lágu fjarskipti niðri."
Nú er ekki víst, að lokið væri nýrri 220 kV Byggðalínu alla leið frá Klafastöðum í Hvalfirði og til Hryggstekks í Skriðdal, þótt nýtt straumlínulagað skipulags- og leyfisveitingaferli hefði verið við lýði í t.d. 5 síðastliðin ár, en hún hefði örugglega verið komin vel á veg, sem hefði hugsanlega nýtzt til að draga úr því stórtjóni, sem varð á Norður- og Austurlandi í vetur vegna mjög langdregins straumleysis. Fjarskiptin lágu niðri vegna straumleysis, þó í allt of langan tíma, en það er önnur sorgarsaga.
Síðan bendir Ásmundur á, að kerfið sjálft fari ekki að lögum, heldur hundsi tímafresti mjög gróflega. Í raun ætti kerfið að vera þannig, að opinberar stofnanir komist ekki upp með að taka sér lengri afgreiðslutíma en áskilinn er í lögum. Ef ekkert gerist í máli að áskildum tíma liðnum hjá viðkomandi stofnun, sé viðkomandi tillaga eða umsókn talin samþykkt, og málið haldi þannig áfram í ferlinu. Ásmundur hélt síðan áfram:
"Uppi er gríðarlegur vandræðagangur við uppbyggingu og viðhald raforku- og vegakerfisins í landinu. Sérlega verndað umhverfi hefur skapazt, þar sem stöku sveitarfélög, hagsmunasamtök og einstaklingar, geta leyft sér að troða á hagsmunum samfélagsheildarinnar, þrátt fyrir að málefnaleg rök liggi fyrir um nauðsynlega uppbyggingu grunninnviða okkar. Þetta eru ára- og áratugalangar tafir. Við búum við svo margflókið kerfi leyfisumsókna og kæruferla, að ekkert nágrannaríki okkar býr við annan eins reglufrumskóg. Hér verða rakin raunveruleg dæmi, sem Landsnet hefur þurft að þreyta í gegnum kerfið mánuðum og árum saman, langt fram úr öllum lögbundnum frestum áður en hægt er að byrja hina eiginlegu vinnu við framkvæmdina. Þá hafa sveitarstjórnir nýtt sér tafaleiðir laganna þrátt fyrir að hafa áður samþykkt kerfisáætlun Landsnets."
Þetta er ljót lýsing á hegðun Skipulagsstofnunar, nokkurra sveitarfélaga og félagasamtaka, sem brugðið hafa fæti fyrir framfaramál. Ef skýr rök eru fyrir hendi um notagildi eða jafnvel nauðsyn opinberrar framkvæmdar, þá eiga að vera mjög þröngir tafamöguleikar fyrir hendi, eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa innleitt hjá sér. Hvernig stendur á því, að hér hafa flækjufætur komið ár sinni rækilega fyrir borð, svo að laga- og reglugerðafrumskógur um téðar framkvæmdir er hreinn óskapnaður ?
"Tökum sem dæmi Reykjanesbrautina, þar sem nú er unnið að því að ljúka tvöföldun brautarinnar, sem er um 50 km löng að Hafnarfirði. Lokaáfanganum, 5 km kafla frá Hvassahrauni að Krísuvíkurafleggjara, hefur verið breytt í samræmi við nýtt aðalskipulag Hafnarfjarðar innan iðnaðarsvæðis, og þarf breytingin að fara í kerfislega þungt, langt og rándýrt umhverfismat þrátt fyrir augljósan kost við breytinguna."
Umræddur kafli færist frá því að eiga að fara ótroðnar slóðir sunnar og að gamla veginum. Heilbrigð skynsemi kallar ekki á umhverfismat fyrir slíka breytingu. Löggjafinn verður að opna á skemmri skírn greinargerðar um umhverfisáhrif, þegar í raun er eingöngu verið að breikka gamlan veg eða annað sambærilegt. Það er engu líkara en kerfissnötum hafi í sumum tilvikum tekizt að búa til algerlega óþörf verkefni í tengslum við framkvæmdir.
Að lokum skrifaði Ásmundur:
"Líkt og ég hef rakið hér að framan, er ljóst, að kerfið er ekki í neinu samræmi við almennan vilja í samfélaginu. Það er því nauðsynlegt, að endurskoðun laganna horfi til einföldunar, svo að fámennir hópar geti ekki stöðvað eða tafið framkvæmdir, sem varða afkomu og lífsgæði íbúa á heilum landsvæðum árum og áratugum saman."
7.1.2020 | 21:13
Umhverfisvernd og afturhaldssemi fara illa saman
Það verður ekki hægt samtímis að ná árangri í umhverfismálum og halda uppi velferðarþjóðfélagi, jafnvel með enn bættum kjörum almennings, eins og kröfur standa til, án þess að nýta nýjustu tækniþróun og koma á nútímalegum innviðum á sviðum, þar sem þeir eru ekki enn fyrir hendi. Af Morgunblaðsgrein Páls Gíslasonar, verkfræðings, frá Hofi í Vatnsdal, þann 28. desember 2019,
"Svartnætti í skipulagsmálum",
er ljóst, að honum er öllum lokið, þegar kemur að stjórnsýslu hérlendis á sviði svo kallaðrar umhverfisverndar. Sannast sagna er, að í höndum íslenzku stjórnsýslunnar snýst umhverfisvernd iðulega upp í andhverfu sína. Það, sem gert er í nafni umhverfisverndar, gengur meir á auðlindir jarðar og eykur mengun meir en valkostur, sem hafnað er í nafni umhverfisverndar. Þröngsýnin er svo yfirgengileg, að hún byrgir stjórnvöldum sýn á afleiðingar ákvarðana, og hæfileikann til að greina hismið frá kjarnanum, að sjá skóginn fyrir trjánum, virðist vanta. Þetta er í einu orði sagt slæm stjórnsýsla, sem krystallast í Kjalvegarbúti, sem Skipulagsstofnun, án skynsamlegra raka, vill nú senda í umhverfismat. Hvenær verður mælirinn fullur hjá framfarasinnuðum öflum í þjóðfélaginu ?
Gefum Páli orðið, en hann hóf téða grein þannig:
"Táknrænt er, að á sama tíma og sólin nær lágpunkti sínum á norðurhveli jarðar, og svartnætti skammdegis lætur undan síga, birtast okkur enn einu sinni svartnættisviðhorf úreltrar aðferðafræði skipulagsmála: ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. desember 2019 um að vísa bráðnauðsynlegum og eðlilegum endurbótum á kafla Kjalvegar í mat á umhverfisáhrifum."
Fyrir hendi er full vitneskja um umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda Vegagerðarinnar á grundvelli verklýsingar hennar og sams konar umbóta á Kjalvegi sunnan Árbúða. Skipulagsstofnun hefði verið nær að gera athugasemdir við þetta þekkta fyrirkomulag Vegagerðarinnar í stað þess, sem jaðrar við hreinræktaðan fíflagang stofnunarinnar, að biðja um skýrslu um framkvæmd, sem verður að öllu leyti sambærileg við aðra þekkta framkvæmd á sama vegslóða.
Þetta er misnotkun á opinberu valdi, sem sýnir, að Skipulagsstofnun kann ekki með vald sitt að fara. Það verður að draga úr þessum völdum, og það er t.d. hægt að gera þannig, að sá, sem með skipulagsvald viðkomandi verkefnis fer, yfirleitt sveitarfélag á viðkomandi stað, ákveði, hvort það óski eftir úrskurði Skipulagsstofnunar um það, hvort tiltekið verkefni skuli fara í lögformlegt umhverfismat eða ekki, og aðeins sá, sem skipulagsvaldið hefur, geti farið fram á slíkt við Skipulagsstofnun. Hér er nefnilega um kostnaðarsamt og tafsamt ferli að ræða, og það er eðlilegt, að kjörnir fulltrúar íbúanna taki ábyrgð á þessari ákvörðun.
Páll Gíslason lýsti umræddu verkefni nánar:
"Kjalvegur er einn fjögurra stofnvega á miðhálendinu og staða hans vel skilgreind í landsskipulagsstefnu. Fyrr á þessu ári [2019] lagði ríkisstjórnin fjármuni í lagningu rafstrengs meðfram Kjalvegi til að flýta fyrir orkuskiptum. Á sama tíma berjast félagasamtök og einstaklingar þeim tengdir stöðugt gegn endurbótum á hálendisvegunum, ef ekki beint, þá með kröfum um matsferla og skrifræði. Þetta er sagt vera gert í nafni umhyggju fyrir miðhálendinu, en er beinlínis í andstöðu við orkuskipti í samgöngum á þessu svæði landsins !"
Rafstrengurinn er þarfur og orka um hann mun vonandi mörgum gagnast til að endurhlaða rafgeymana í farskjótum sínum, en vegalengdin að hleðslustöðinni getur reynzt mörgum rafbílaökumönnum áhættusöm vegna mikillar orkunotkunar á vegum, þar sem hraðabreytingar eru tíðar og mótstaða mikil í bleytu og frá sterkum vindi, en ekki sízt er rafkerfi í botni bílsins hætta búin, þar sem grjót stendur upp úr slóðum. Þessi slóðaútgerð yfirvalda í ferðamannalandinu Íslandi er alger tímaskekkja.
Það, sem höfundurinn skrifaði um leyfisveitingaferli framkvæmda, sýnir, að ferlið er löggjafarlegt klúður, sem þjónar ekki hagsmunum almennings, heldur sérhagsmunum búrókrata, ráðgjafa og sérvitringa, sem engar framfarir vilja sjá á þessu sviði samgangna:
"Kjalvegarframkvæmdir og fjöldi annarra mála undanfarin ár sýna og sanna, að leyfisferli framkvæmda á Íslandi hefur leitt samfélagið í hreinar ógöngur, enda er það mun lengra og flóknara en gerist í grannríkjunum okkar. Ferlið virðist raunar engan enda ætla að taka, þegar kærugleði ríkir, eins og dæmin sanna.
Sjö skilgreind stig stjórnvaldsákvarðana gefa kærurétt hérlendis, en eitt til tvö annars staðar á Norðurlöndum. Ekki bara það. Hvergi nema á Íslandi er til staðar opin heimild til að kæra matsskylda ákvörðun efnislega !"
Hér er líklega komið enn eitt dæmi þess, að íslenzkir laga- og reglusmiðir taka erlenda fyrirmynd og flækja hana til mikilla muna, svo að ferlið verður óskilvirkara og dýrara en nokkurs staðar þekkist á byggðu bóli. Stjórnlyndi og vanþekking í einni sæng, og afleiðingin verður hreint skelfileg. Það er löngu tímabært að gera á þessu örverpi uppskurð á grundvelli reynslunnar.
Í lok greinar sinnar skrifaði téður Páll:
"Flækjustig leyfisveitingaferils framkvæmda hérlendis og viðmið í mati á umhverfisáhrifum samræmast ekki nútímakröfum um sjálfbærni og standa reyndar beinlínis í vegi fyrir því, að orkuskipti í samgöngum nái þeim markmiðum, sem að er stefnt. Það þjónar nefnilega loftslagsmarkmiðum að gera stofnvegi á hálendi Íslands akfæra."
Þetta er þungur áfellisdómur yfir stjórnkerfi og löggjöf um ferli verklegra framkvæmda á Íslandi. Annaðhvort hefur þessu kerfi verið komið á af ókunnugleika á aðstæðum og meðvitundarleysi um þann kostnað, beinan og óbeinan, sem flókið ferli og endalausir kærumöguleikar geta haft í för með sér, eða embættismenn og/eða löggjafinn hefur meðvitað verið að leggja stein í götu ákvörðunar réttmætra yfirvalda og stofnana, sem ábyrgð bera á samgönguæðum, orkuæðum og öðrum innviðum í landinu. Það er ekki hlutverk félagasamtaka á borð við Landvernd eða einstaka hagsmunaaðila eða einstaklinga með sterkar skoðanir á tiltekinni framkvæmd að ráða því, hvort eða hvenær af henni verður. Hins vegar er öllum frjálst að koma ábendingum sínum og skoðunum á verkefnum á framfæri við yfirvöldin.
Dýrkeyptar tafir hafa orðið á að reisa nýja Byggðalínu, og kennir ábyrgðaraðili hennar, Landsnet, Landvernd og landeigendum um þær. Allir ættu að vita nú, hversu alvarlegt það er fyrir nútímaþjóðfélag að búa við feyskna innviði. Okkar tímar kalla jafnframt á orkuskipti, og ef einhver heldur, að þau geti orðið hérlendis án mikilla fjárfestinga í virkjunum, flutningskerfi rafmagns og stofnvegum ásamt dreifikerfi rafmagns og hleðslustöðvum (áfyllistöðvum) um allt land fyrir nýorkusamgöngutæki, þá veður sá hinn sami í villu og svíma. Þar sem ríkisstjórnin hefur marglýst því yfir, heima og erlendis, að hún setji baráttuna við hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsaáhrifa í forgang, þá verður hún að ryðja í brott hindrunum í vegi orkuskiptanna. Ef hún gerir það ekki á því sviði, sem hér hefur verið fjallað um, þá missir hún allan trúverðugleika.
Morgunblaðinu blöskrar staða þessara mála. Því til staðfestingar birtist leiðari í blaðinu 30. desember 2019:
"Vegabætur í umhverfismat ?".
Seinni hlutinn var á þessa leið:
"Vegagerðin vill ráðast í þessa uppbyggingu vegarins, sem full þörf er á, enda vegurinn almennt illa farinn á vorin, sem kallar á miklar lagfæringar. Að sögn oddvita Bláskógabyggðar er vegurinn á aðalskipulagi, uppbyggður, og Skipulagsstofnun samþykkti aðalskipulagið í fyrravor. Þá hlýtur einnig að skipta máli, að vegurinn er þarna nú þegar.
Óhóflegar tafir hafa orðið á mörgum innviðaframkvæmdum á liðnum árum, ekki sízt vegna umhverfismats og kæruleiða, sem því tengjast. Ekki þarf að efast um, að allir vilja náttúrunni vel, en það felur ekki í sér, að réttlætanlegt sé að beita umhverfismati til að tefja eða reyna að koma í veg fyrir sjálfsagðar framkvæmdir. Og það er þeim sjónarmiðum, sem að baki umhverfismati búa, ekki til framdráttar, nema síður sé, ef þetta tæki er misnotað. Þetta verða opinberar stofnanir að hafa í huga. Geri þær það ekki, hlýtur löggjafinn að grípa inn í."
Nærliggjandi túlkun á framferði Skipulagsstofnunar ríkisins er, að hún sé misnotuð til að þvælast fyrir framförum. Svar löggjafans við slíkri valdníðslu gæti t.d. verið, að setja það í hendur skipulagsvaldsins á staðnum, hér Bláskógabyggðar, hvort Skipulagsstofnun verði falið að ákvarða, hvort fyrirhuguð framkvæmd skuli undirgangast umhverfismat. Í þessu tilviki segir heilbrigð skynsemi, að Bláskógabyggð hefði ekki talið þörf á umhverfismati, og þá hefði Skipulagsstofnun ekki fengið málið til slíkrar ákvörðunar, og sú ákvörðun Bláskógabyggðar hefði verið endanleg og framkvæmdin einfaldlega farið í leyfisveitingaferli hjá Bláskógabyggð í stað þessa fáránlega tafaleiks Skipulagsstofnunar.
6.12.2019 | 15:51
Er rétt að breyta lífsháttum í þágu loftslagsins ?
Því er haldið að fólki, að heimurinn sé á heljarþröminni. Dæmi um þennan áróður birtist landsmönnum á s.k. Borgarafundi Kastljóss RÚV í viku 47/2019, og í haust hafa verið sagðar dramatískar fréttir af bráðnun jökla á Íslandi, og hið sama gerist nú í Ölpunum. Það er látið í veðri vaka, að þetta sé eitthvert einsdæmi, en það er fjarri lagi. Á Landnámsöld voru jöklar minni en nú, og var t.d. Vatnajökull aðeins svipur hjá sjón og í a.m.k. tvennu lagi, enda nefndur Klofajökull. Hverju sæta hitastigstoppar með um 1000 ára millibili á núverandi 10 þúsund ára hlýskeiði ? Ekki koltvíildislosun manna, þótt hann þeir hafi að vísu notað eldinn, þegar þeir brutu undir sig land til landbúnaðar.
Það er engum blöðum um það að fletta, að á síðustu öld hlýnaði á tímabilunum 1920-1940 og 1980-2000 og líklega er enn að hlýna. Ágreiningurinn stendur um af hvers kyns völdum, og hversu mikil áhrif aukinn styrkur koltvíildis úr um 290 ppm við upphaf iðnvæðingar og upp í núverandi 410 ppm koltvíildisjafngildis og áfram upp eru og verða munu. Sömuleiðis er bullandi ágreiningur um, hvernig viðbrögðunum á að verða háttað. Eitt virðast þó flestir vera sammála um; það er að fara í aðgerðir, sem minnka losun koltvíildis og koma viðkomandi þjóðfélagi jafnframt beint að gagni að öðru leyti. Vegna stöðu orkumálanna, landrýmis og gróðurfars hérlendis dugar þetta langleiðina hérlendis innan tímamarkanna til 2040, en á heimsvísu alls ekki, m.v. núverandi tæknistig.
Þegar reyndar eru aðferðir hérlendis, sem hafa einvörðungu kostnað í för með sér, en engan ávinning umfram að minnka lítilsháttar CO2 í andrúmsloftinu, er vert að hafa í huga, að losun af völdum fólks á Íslandi er aðeins brot af því, sem landið sjálft, náttúran, losar, og þess vegna munar lítið um streð okkar íbúanna og nánast ekkert í heimssamhengi. Losun frá eldfjallinu Kötlu hefur verið mæld af vísindamönnum og reynzt vera 12-24 kt/shr eða um 6,6 Mt/ár CO2, sem er 30 % meira en öll losun manna, nema frá flugi og millilandaskipum. Eldfjöllin eru nokkur, og þegar gýs, að jafnaði á 5 ára fresti, margfaldast losunin. Áhrif "homo sapiens" hérlendis eru dvergvaxin, þegar þau eru sett í náttúrulegt, samhengi. Við mat á kröfum um róttækar breytingar á lífsháttum hérlendis til að draga úr losun, sem engu breytir, ber að setja hana í þetta náttúrulega samhengi. Einelti á hendur þeim, sem setja fram efasemdir við hjarðhegðunina, eins og greina mátti á s.k. Borgarafundi Kastljóss RÚV í nóvember 2019, verður að flokka sem sefasýkislega hegðun fremur en hún sé reist á rökhugsun um gagnsemi við að draga úr hitastigssveiflum á jörðunni.
Öll viðbrögð, sem eitthvað munar um, hafa mikil áhrif á lífshætti manna. Tökum dæmi af fluginu. Gróðurhúsaáhrif af bruna jarðefnaeldsneytis í háloftunum eru miklu meiri en á jörðu niðri, talin vera allt að þreföld og vera þá 9,0 t CO2eq á hvert tonn þotueldsneytis. Ekki virðist alltaf vera tekið tillit til þessa í útreikningum.
Fyrirtæki í Evrópu eru nú farin að beina starfsfólki sínu, sem "þarf" að leggja land undir fót, í járnbrautarlestir í stað flugvéla. Fyrirtækið Klarna Bank AB, sem er sprotafyrirtæki á sviði greiðslumiðlunar, bauð 600 starfsmönnum höfuðstöðva sinna í Stokkhólmi til veizlu í Berlín í september 2019 til að fagna söfnun MUSD 460 hlutafjár í sprotafyrirtækinu. Fólkinu var ekki stefnt út á Arlanda í 1,5 klst flug til Tempelhof, eins og búast hefði mátt við fyrir nokkrum misserum, heldur á aðaljárnbrautarstöð Stokkhólms í 15 klst lestarferð til Berlin Hauptbahnhof.
Fyrirtækið hefur bannað starfsmönnum allar flugferðir á sínum vegum innan Evrópu og latt til langflugs. Robert Büninck, yfirmaður Klarna í Þýzkalandi, segir, að það sé stefna fyrirtækisins að verða kolefnishlutlaust. (Landsvirkjun hefur sett sér slíkt markmið 2025 og ætti ekki að verða skotaskuld úr því.) Það verður að taka fram, að þótt sænska lestin sé knúin rafmagni, er hún ekki þar með kolefnisfrí, að vísu mun kolefnisfrírri á sænskri jörð er þýzkri. Ef kolefnisspor járnbrautarlestarinnar og flugvélarinnar á þessari leið yrði greint út í hörgul með stáli, áli og landþörf og öðrum þáttum, gæti brugðið til beggja vona um, hvor ferðamátinn hefur vinninginn, hvað kolefnisspor á mann áhrærir. Ef þau hefðu hins vegar siglt á seglbáti að hætti Grétu Thunberg, hefðu þau minnkað kolefnissporið verulega, en slíkt hefði orðið sprotafyrirtækinu afar dýrt vegna langrar fjarvistar starfsmanna, og sennilega lækkað virði þess á hlutabréfamarkaði verulega, og jafnvel riðið því að fullu. Þetta sýnir vel ógöngurnar, sem Vesturlandabúar geta ratað í fyrir hreinleikaímyndina.
"Flygskam", flugskömm eða flugsamvizkubit er nú tekið að hrella Svía, og SAS AB tilkynnti í haust, að flugkm þeirra hefði fækkað um 2 % á tímabilinu 1.11.2018-31.07.2019 m.v. sama tímabil árið áður. SAS ætlar kannski að bæta þetta upp með fjölgun flugferða til Íslands, sem þegar hefur verið tilkynnt. Sænska Isavia afgreiddi 9 % færri innanlandsflugfarþega á sama tímabili í ár m.v. jafnlengd 9 mánuðum áður. Þannig virðist innanlandsflug á undanhaldi víðar en hér, og sumir stjórnmálamenn í Evrópu eru að undirbúa lagafrumvörp um að banna innanlandsflug að mestu. Spurningin er, hvort vönduð greining á afleiðingum slíkra þvingunaraðgerða liggur að baki, eða leiða þær e.t.v. úr öskunni í eldinn ?
Þar sem við höfum engar járnbrautarlestir á Íslandi, og fyrir þeim er heldur enginn rekstrargrundvöllur, virkar innanlandsflugið sem okkar lestir og ætti að líta á sem þátt í almenningssamgöngum til að tengja saman landshlutana. Það er slæmt, hversu hratt fjarar undan því núna, því að slíkt leiðir aðeins til meiri umferðar á vegum landsins með aukinni hættu, sót- og tjörumyndun í lofti (nagladekk) og jafnvel kolefnisspori, sem slík breyting hefur í för með sér.
Innanlandsflug mun sennilega um árið 2030 verða umhverfisvænna en nokkur fararmáti á landi, þar sem innanlandsvélar verða með tengiltvinn orkukerfi og munu taka á loft og lenda með litlum hávaða og mengunarlaust. Innanlandsflug getur orðið aðalalmenningssamgöngumátinn á milli landshluta, því að það sparar mikinn tíma og verður tiltölulega ódýrt með mun lægri rekstrarkostnaði en nú, þótt stofnkostnaður verði fyrst um sinn hærri.
Innanlandsflug á þess vegna framtíðina fyrir sér, og tímabært fyrir stjórnvöld að hætta að greiða niður strætóferðir, sem skekkja samkeppnisstöðuna, hringinn í kringum landið, um leið og fella ætti niður opinber gjöld af innanlandsfluginu og niðurgreiða það tímabundið, eins og áform eru uppi um á Alþingi.
Þann 25. nóvember 2019 birtist í Morgunblaðinu áhugaverð grein um þessi tímamót flugsins:
"Rafmagnsflug og orkuskipti",
eftir Friðrik Pálsson, fyrrverandi forseta Flugmálafélags Íslands, og Matthías Sveinbjörnsson, núverandi forseta Flugmálafélags Íslands. Verður nú gripið niður í grein þeirra:
"Við ætlum ekki í þessari stuttu grein að þreyta lesendur á tölum, en getum fullyrt, að rafvæðing flugsins er komin á fulla ferð. Þegar í dag eru nokkrar tilraunaflugvélar að fljúga, og þeim fjölgar bara á næstu mánuðum. Fyrst um sinn eru það litlar flugvélar til kennslu og þjálfunar, en mjög fljótlega koma fram stærri vélar til farþegaflugs á styttri flugleiðum. Fjöldi fyrirtækja er að hanna, þróa og prófa rafmagnsflugvélar, og vitað er um samstarf risafyrirtækja í flug- og rafmagnsiðnaðinum, sem mun skila merkilegum flugvélum á markaðinn innan tíðar."
Hér eiga höfundarnir sennilega við þróunarsamstarf þýzka raftæknirisans Siemens og evrópsku samsteypunnar Airbus, og ekki er að efa, að bandarískir framleiðendur og jafnvel kínverskir ætla sér að sinna þessum markaði líka. Á 4. áratugi þessarar aldar munu flugfarþegar frá Íslandi til Evrópu vafalítið fara megnið af leiðinni á farkosti knúnum íslenzkri orku. Þetta mun hafa byltingarkennd áhrif á viðhorf almennings til flugs og flugvalla. Reykjavíkurflugvöllur getur t.d. gengið í endurnýjun lífdaganna með meiri notkun og minni takmörkunum vegna meiri eftirspurnar og minni hávaða, óþefs og sótagna.
12.8.2018 | 09:43
Akkilesarhæll rafbílavæðingarinnar
Orkuberinn (orkugeymslan-rafgeymar) er Akkilesarhæll rafbílavæðingarinnar. Það stafar af litlum orkuþéttleika (kWh/kg) rafgeymanna og þar af leiðandi tiltölulega lítilli drægni. Vetni vetnisrafalanna hefur mun meiri orkuþéttleika, en orkunýtnin frá framleiðslu vetnis til nýtingar þess er hins vegar slök.
Sumir evrópskir bílaframleiðendur, sem enn hafa ekki sett alrafbíl á markaðinn, boða, að fyrsta kynslóð slíkra muni hafa drægnina 500 km á fullri hleðslu rafgeyma. Fyrir íslenzkar aðstæður gæti það þýtt um 260 km að jafnaði yfir árið, en drægnin er mjög háð útihitastigi. Samkvæmt reynslunni af tengiltvinnbíl höfundar gæti meðalnýtni orðið 0,35 kWh/km hérlendis, sem m.v. 90 kWh rafgeymi gefur tæplega 260 km drægni, sem er óþægilega stutt. Þróunin er hins vegar hröð, einnig í rafgeymum, svo að meðalnýtni kann að hafa batnað um 14 % á þremur árum, og þá verður meðaldrægnin 300 km á einni hleðslu árið 2019.
Valkosturinn við rafgeyma sem orkubera er vetni, H2. Það gefur kost á lengri drægni á einum vetnisgeymi en 300-500 km, og eru 1000 km fyrir fólksbíl sennilega ekki vandamál, þótt 500 km sé algengari drægni vetnisknúinna bifreiða nú. Þar af leiðandi þarf færri áfyllistöðvar, og hver 100 % áfylling tekur mun skemmri tíma en hraðhleðsla frá 0 upp í 80 % af orkurýmd rafgeyma.
Orkulega séð hefur orkuberinn vetni þann alvarlega ókost, að orkunýtni hans er aðeins hálfdrættingur á við orkunýtni rafgeymisins, ef orkutöp við vinnslu vetnis eru meðtalin, og svipar þar með til beztu orkunýtni í sprengihreyflinum. Leggja má eftirfarandi mat á orkunýtnina:
Vetni: Aðalaðferðin við framleiðslu vetnis, H2, og sú ódýrasta er að skilja vetnissameind frá sameind eldsneytisgass, en það er hins vegar umhverfislega ósjálfbær aðferð. Þess vegna hefur verið gripið til þess ráðs að sundra (tveimur) vatnssameindum, H2O, með rafstraumi í (tvær) vetnissameindir og eina súrefnissameind (O2). Ferlið nefnist rafgreining, og þarf 9 kg af vatni til að framleiða 1 kg af vetni og 8 kg af súrefni. Þetta er umhverfislega sjálfbært ferli, en kostnaðarlega varla vegna dýrs búnaðar og hárra orkutapa, sem eru um 20 %.
Efnarafalar (fuel cells) snúa þessu ferli við og nota vetni til að framleiða rafstraum og gufu. Þeir eru enn í þróun, eru dýrir í innkaupum (lítið upplag) og dýrir í rekstri, því að orkunýtni þeirra er lág, aðeins um 50 %. Heildarnýtni vetnisvinnslu og efnarafala:
HNvetni = 0,8 x 0,5 = 40 % (um 30 % að hjólum)
Með sams konar hugleiðingu má leggja mat á nýtni rafbíls með rafgeyma. Töp við hleðslu rafgeymanna eru um 10 % (gleymist oft, þegar raforkukostnaður rafbíls er reiknaður). Töp við afhleðslu rafgeymanna eru um 10 %. Heildarnýtni rafgeyma inn og út:
HNrafg = 0,9 x 0,9 = 81 % (um 65 % að hjólum)
Rafgeymarnir nýta orkuna rúmlega tvöfalt betur en vetnisrafalinn. Þetta er mikill kostur, en dugar rafgeymunum samt ekki til ótvíræðra yfirburða sökum þess, að þeir hafa enn stórgalla. Orkuþéttleiki og þar með drægni á hleðslu er miklu minni en vetnisrafalans, og það eru fyrir hendi alvarlegir flöskuhálsar við útvegun torgæfra málma í algengustu rafgeymana, s.k. liþíumrafgeyma. Verður nú gerð grein fyrir þeim með vísun til The Economist, 24. marz 2018, bls. 65-66:
Kobalt-málmurinn dregur nafn sitt af Kobold, stríðnum þýzkum búálfi, sem hélt sig mikið neðanjarðar samkvæmt þjóðtrúnni. Kobalt villti um fyrir námuverkamönnum um aldir með því að líta út fyrir að vera verðmætur málmur, en var svo verðlaus og jafnvel skaðlegur, þegar til kastanna kom. Enn er hætt við, að kobalt valdi vandræðum, nú á stækkandi markaði rafgeyma fyrir rafbíla, sem hver um sig þarf 10 kg af kobalti. Uppruni vandræðanna er ekki í Þýzkalandi í þetta skiptið, heldur í Kína.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að meira en helmingur þekkts kobalts í jörðu og meira en helmingur vinnslu þess úr jörðu á sér stað í hinu óstöðuga "Lýðræðislega lýðveldi Kongó". Það er síður þekkt, að 80 % af úrvinnslu kobaltsúlfíða og kobaltoxíða, sem notuð eru í bakskaut liþíum-rafgeymanna, fer fram í Kína.
Mikið af eftirstandandi 20 % úrvinnslunnar á kobaltinu fer fram í Finnlandi, en hráefnið í hana kemur líka frá námu í Kongó, sem að meirihluta til er í eigu kínversks fyrirtækis, "China Molybdenum".
Þann 14. marz 2018 þyngdust áhyggjur bílaframleiðenda og annarra vegna kverkataks Kínverja á kobalt-vinnslu heimsins, þegar GEM, kínverskur rafgeymaframleiðandi, tilkynnti, að hann myndi kaupa þriðjung af kobalti Glencore, stærsta kobaltnámufyrirtækis heims, á árabilinu 2018-2020, jafngildi helmings af heimsframleiðslunni, 110 kt, árið 2017.
Það er líklegt, að þetta leiði til áframhaldandi verðhækkana á kobalti, en það hefur hækkað úr 26,5 kUSD/t árið 2016, rétt áður en miklar verðhækkanir hófust, og upp fyrir 90 kUSD/t á fyrsta fjórðungi 2018. Núverandi einingarverð á kobalti er meira en 40 sinnum hærra en núverandi verð á óunnu áli á markaði. Það er til mikils að vinna að þróa nýja gerð rafgeyma, sem t.d. nýta ál (álrafgeymar).
Þessa gríðarlegu áherzlu Kínverja á að tryggja sér hörgulefnið kobalt má rekja til örvæntingarfullra aðgerða þeirra til að tryggja framgang metnaðarfullra ríkisáætlana Kína um að stórauka framleiðslu rafmagnsbíla fyrir innanlandsmarkað til að draga úr hættulegri loftmengun í stórborgum Kína. Hún veldur tugþúsunda dauðsfalla á ári og er orðin mikið óánægjuefni á meðal borgarbúa í Kína í garð yfirvalda.
George Heppel hjá ráðgjafarfyrirtækinu CRU segir, að auk kaupa GEM á þriðjungi kobalts frá Glencore, muni kínverska Molybdenum hugsanlega flytja kobaltið sitt frá Kongó til Kína fremur en til Finnlands, og þar með mundu Kínverjar ráða yfir 95 % af kobaltvinnslu heimsins. Stórir notendur kobalts eru tæknifyrirtæki í Japan og í Suður-Kóreu, og þar hafa menn miklar áhyggjur af ríkjandi stöðu Kínverja sem kobaltbirgjar og ekki að ástæðulausu, ef litið er til reynslunnar af kínverskum yfirvöldum.
Fáir markaðsgreinendur eiga von á bættu jafnvægi á kobaltmarkaðinum á næstunni. Námugröfturinn mun líklega vaxa í Kongó, en vaxtarhamlandi verður vafalaust nýleg fimmföldun námuleyfisgjalds fyrir kobalt þar í landi. Fjárfestingar í kobaltnámum annars staðar auka framboðið varla, því að þar er kobalt aukaafurð við gröft eftir kopar og nikkel. Jafnvel á núverandi verði er magnþörfin of lítil til að réttlæta framleiðsluaukningu á kobalti þar einvörðungu. Þessi staða kallar á nýjar lausnir með nýjum efnum.
Eftirspurnaraukning kobalts getur orðið gífurleg, ef spurn eftir rafbílum vex, eins og vonir standa til alls staðar í heiminum. Mest af kobaltinu fer nú í rafhlöður snjallsíma og ofurmelmi inni í hverflum þotuhreyflanna, en til að anna spurn eftir rafbílum gæti þörf fyrir kobalt í rafgeyma rafbíla aukizt úr 9 kt árið 2017 í 107 kt árið 2026, sem svarar til 10,7 M rafgeyma 2026 í nýja rafbíla, sem verða tæplega 10 % nýrra bíla. Að auki verða sennilega nokkrar milljónir nýrra bifreiða árið 2026 með vetnisrafala, þannig að allt að 15 % nýs bílaflota gæti þá orðið rafknúinn.
Hækkandi verð á kobalti mun kannski leiða til nýrrar námuvinnslu, en rafgeymaframleiðendur utan Kína eru samt nú þegar farnir að huga að öðrum valkostum til að verjast kobaltskorti. Þeir horfa þá til málmsins nikkels.
Algengustu málmarnir í málmblöndu bakskauta rafgeyma rafbílanna eru nikkel, mangan og kobalt, nefnd NMC, og nikkel, kobalt og ál, nefnd NCA. Vegna verðhækkana og skorts á kobalti hafa sumir framleiðendur framleitt kobaltrýr bakskaut með því að auka nikkelinnihaldið í að verða áttfalt kobaltmagnið. Þetta eykur orkurýmd rafgeymanna, en flækir framleiðsluferli bakskautsins, og hættara verður við íkviknun í rekstri rafgeymanna. Kúnstin er að finna rétta hlutfallið á milli málmanna.
Aukin spurn eftir nikkeli hefur enn ekki leitt til verðhækkana á því vegna offramleiðslugetu frá 2011, þegar verðið lækkaði úr 29 kUSD/t undir 10 kUSD/t árið 2017. Árið 2017 var framleiðsla nikkels fyrir rafgeyma rafbíla aðeins 35 kt af heildarframleiðslu nikkels, 2,1 Mt. McKinsey-ráðgjafinn býst við 16-faldri eftirspurnaraukningu árið 2025 upp í 550 kt frá rafgeymaverksmiðjum fyrir rafbíla.
Þær takmarkanir á frjálsum markaði fyrir bakskautaefni í rafgeyma, sem hér hafa verið reifaðar, eru líklega meginástæða þess, að japanskir og suður-koreanskir bílaframleiðendur verja nú háum upphæðum til þróunar á vetnisrafalanum og á vetnisgeyminum fyrir rafbíla. Það er mun einfaldara að auka drægni á hverri hleðslu þessara bíla en rafbíla, sem knúnir eru liþíumrafgeymum. Það mun verða spennandi barátta um rafbílamarkaðinn á milli þessara tvenns konar tæknilausna, sem hér hafa verið nefndar.
Þriðja lausnin getur hæglega rutt hinum tveimur úr vegi, a.m.k. í stórum farartækjum og vinnuvélum. Það er þóríum-kjarnorkuverið, sem hægt á að verða að sníða að þörfum notandans á mjög stóru stærðarbili, alveg niður í 10 kW. Helmingunartími úrgangsins er stuttur og geislavirknin nægilega lítil fyrir almenna notkun. Ending slíks orkugjafa í bíl yrði ekki skemmri en ending bílsins. Á næsta áratugi mun skýrast, hvað ofan á verður í orkuskiptum samgöngugeirans á láði, legi og í lofti.
6.7.2018 | 11:42
Gagnrýni á aðferðafræði við embættisveitingu
Ráðningar í æðstu embætti ríkisins þurfa að vera hafnar yfir gagnrýni. Landsmenn eiga heimtingu á því, að val í þessi embætti sé hlutlægt, en ekki persónulegt, og að aðferðafræði valsins sé til þess fallin að finna hæfasta einstaklinginn í embættið. Því miður virðist pottur vera brotinn í þessum efnum hjá ríkinu við val á Vegamálastjóra, sem ráðinn var 2. júlí 2018. Þar af leiðandi virðist vera allt of mikill losarabragur á þessum mikilvægu málum, sem brýnt er að bæta úr hið snarasta.
Fyrsta sjáanlega misfellan í umræddu ráðningarferli kom í ljós við birtingu auglýsingar eftir nýjum Vegamálastjóra í apríl 2018. Í stuttu máli var hún með öllu óviðeigandi, en hefði sómt sér ágætlega sem auglýsing eftir sveitarstjóra. Sem dæmi þá var ekki krafizt háskólamenntunar af umsækjendum. Samt eru 37 % starfsmanna Vegagerðarinnar eða 109 manns með háskólapróf. Þetta má ekki verða reglan hjá ríkinu.
Að sleppa þessari sjálfsögðu kröfu í auglýsingu vekur tortryggni. Fram hefur komið, að hæfnisnefnd ákvarðaði hæfnisþætti út frá aulýsingunni. Dýralæknir hefði líklega fengið 0 % fyrir hæfnisþáttinn "háskólamenntun, sem nýtist í starfi", en verkfræðingur á sviði samgöngumannvirkja eða samgöngutækni hefði jafnvel fengið 100 % fyrir þennan þátt og þar með náð forskoti á dýralækninn, sem dygði til að fá hæstu einkunn í þessu hæfnismati.
Án þess að fara út í innbyrðis mat á umsækjendum þá er óskiljanlegt, að dýralækninum skyldi hlotnast hæsta einkunn í þessu mati. Önnur menntun hans var markaðsfræði frá Chartered Institute of Marketing, sem ekki verður séð, að nýtist neitt í starfi Vegamálastjóra, og Rekstrar- og viðskiptafræði frá Endurmenntun HÍ, sem hefur lítið gildi fyrir þetta starf. Umsækjandinn hefur 20 ára stjórnunarreynslu, en úr gjörólíku starfsumhverfi, sem á lítið skylt við stjórnun starfsemi á borð við Vegagerðina og vegur þar af leiðandi mun minna en t.d. verkefna- eða deildastjórnun úr starfsemi eða umhverfi Vegagerðarinnar.
Í frétt af þessari ráðningu á bls. 2 í Morgunblaðinu þann 3. júlí 2018 stóð þetta:
""Við teljum, að það hefði þurft að horfa til fagþekkingar og reynslu í tengslum við verkefni Vegagerðarinnar við auglýsingu og ráðningu forstjórans", segir Páll Gíslason, formaður Verkfræðingafélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Stjórn félagsins hafði gert skriflega athugasemd við auglýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins eftir nýjum forstjóra Vegagerðarinnar í apríl sl. og lagði til, að staðan yrði auglýst upp á nýtt. VFÍ vildi, að gerð yrði krafa um viðeigandi háskólamenntun umsækjenda. Ekki var gerð krafa um sérstaka menntun.
"Ef ekki er gerð krafa um fagþekkingu í auglýstri stöðu sem þessari, þá byrjar ráðningin að lykta pólitískt, og margir hæfir einstaklingar halda sig þá til hlés", segir Páll."
Kvörtun VFÍ við ráðuneytið út af meingallaðri auglýsingu var fyllilega réttmæt. Kvörtunin var hunzuð, sem gefur til kynna, að ekki var um slys að ræða, heldur var auglýsingin hönnuð með eitt í huga, sem síðar kom á daginn, þ.e. að matsnefndin reisti matsþætti sína og jafnvel innbyrðis vigtun þeirra á þessari auglýsingu. Með þessum ófaglegu vinnubrögðum hefur ráðuneytið gefið almenningi fullt tilefni til að halda, að um einbeittan brotavilja hafi verið að ræða gegn réttindum allra umsækjenda, nema eins.
Vinnubrögð af þessu tagi eru ólíðanleg hjá ríkisvaldi. Fyrir veigamikil embætti á vegum ríkisins hlýtur að vera til starfslýsing. Auglýsinguna á að sníða eftir þessari starfslýsingu. Starfslýsing Vegamálastjóra er ekki aðgengileg opinberlega, en af lýsingu á hlutverkum og gildum Vegagerðarinnar, eins og þau koma fram á heimasíðu hennar, má álykta um, hvað einkennir þessa starfslýsingu.
Á vefsetri Vegagerðarinnar getur t.d. að líta þetta:
Hlutverk: vegagerð, þjónusta og viðhald vega.
Að þróa og sjá um vegakerfið á sem hagkvæmastan hátt með þarfir samfélagsins, öryggi vegfarenda og umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
Samgönguráðherra hefur yfirstjórn vegamála. Hann skipar Vegamálastjóra til að veita Vegagerðinni forstöðu og stjórna framkvæmdum á sviði vegamála.
GILDI:
Fagmennska [undirstr. BJo]. Við búum yfir sérþekkingu og vinnum af fagmennsku.
Öryggi: Við höfum öryggi ávallt í fyrirrúmi.
Framsýni: Við byggjum á reynslu og horfum til framtíðar.
Fréttablaðið birti 3 hæstu vægistuðlana af 9 í matskerfi hæfnisnefndarinnar í frétt á bls. 2 þann 4. júlí 2018. Ráðherra hefur lofað að birta öll gögn þessarar ráðningar, og þá hlýtur einkunnagjöfin að verða birt. Það er ómögulegt að átta sig á því af matsþáttum og vægi þeirra, að fremur sé verið að leita að Vegamálastjóra en t.d. sveitarstjóra, og má rekja það til gallaðrar auglýsingar. Fréttinni lauk þannig:
"Umsækjendur um starfið voru metnir út frá 9 hæfnisþáttum, sem sérstök hæfnisnefnd skilgreindi út frá þeim kröfum, sem fram komu í starfsauglýsingunni [1]. Mest vægi hafði stjórnunarreynsla eða 25 % [2], reynsla af rekstri og áætlanagerð vóg 20 % [3] og þekking á samgöngum eða atvinnulífi 15 % [4]."
[1] Til að eitthvert vit sé í hæfnisþáttum og vægi þeirra, verða þeir að endurspegla áherzluatriði starfslýsingarinnar. Það er mjög lítil samsvörun á milli hlutverka- og gildislýsingar Vegagerðarinnar hér að ofan (rauðletraðar) og hæfnisþáttanna. Það er svo lítill skyldleiki, að matið verður marklaust.
[2] Stjórnunarreynsla er af svo ólíkum toga, að í starfsmati verður að afmarka hana, svo að hún hafi skírskotun til stjórnunarverkefna Vegamálastjóra.
[3] Brýnt er við starfsmat að afmarka reynslu af rekstri og áætlanagerð við keimlíka starfsemi og leitað er að starfsmanni í. Hér er það rekstur tæknidrifinnar starfsemi í almannaþágu og mótun áætlanagerðar hennar vegna.
[4] Í eina skiptið, sem minnzt er á kröfur um þekkingu á samgöngum, þá er sú krafa útþynnt með því að bæta atvinnulífi við, sem gerir kröfuna marklausa.
Það eru svo alvarlegir gallar á þessu ráðningarferli frá upphafi til enda, að því verður vart í einu orði lýst, nema sem hneyksli. Ráðuneytin verða að endurskoða ferli sín á þessu sviði, hætta þessum lausatökum og koma þessum málum í fastar skorður. Á endanum er það almenningur, sem líður fyrir fúsk á þessu sviði. Þjóðin þarf á því að halda, að hæfasta fólkið, sem á sér gefur kost á hverjum tíma til mikilvægra embætta, fái brautargengi þangað og aðrir ekki.