29.10.2022 | 13:53
Vaxtarskeiði fiskeldis er hvergi lokið hérlendis
Nú er saman komin sú þekking og fjármagn í fiskeldi hérlendis, sem saman mynda grundvöll heilbrigðs vaxtar í atvinnugreininni. Við blasir atvinnugrein, sem með þessu móti býr sig í stakkinn til að verða ein af undirstöðum íslenzkrar útflutningsstarfsemi.
Eins og við hlið hinna undirstaðanna, sjávarútvegs, orkusækins iðnaðar, flutnings erlendra ferðamanna til og frá landinu og sölu gistingar til þeirra, þróast alls konar starfsemi við hlið fiskeldisins, t.d. hönnun og framleiðsla á sjálfvirkum búnaði og fóðurframleiðsla. Sú síðast nefnda á mikla framtíð fyrir sér vegna möguleika á hráefni, sem að öllu leyti getur orðið innlent, og vegna hagstæðrar raforku úr endurnýjanlegum orkulindum. Það, sem þarf til að skjóta stoðum undir innlenda fóðurframleiðslu, er að stórefla kornrækt í landinu. Einkaframtakið er fullfært um það, ef hið opinbera aðeins hefur manndóm í sér til að bjóða kornbændum áfallatryggingu gegn uppskerubresti. Með þessu fæst heilnæmara fæði og fóður með minna kolefnisspori en samsvarandi innflutningur og gjaldeyrissparnaður, sem styrkir ISK að öðru óbreyttu og eykur verðmætaskapandi vinnu í landinu, sem er ígildi útflutningsiðnaðar.
Íslenzkt fjármagn og þekking koma nú af vaxandi krafti inn á öllum sviðis fiskeldis við og á Íslandi ásamt hliðargreinum. Það er eðlileg þróun, en hvaðan kemur þetta fjármagn og þekking ? Hvort tveggja kemur aðallega frá íslenzkum sjávarútvegi, sem er afar ánægjuleg þróun. Ef hins vegar niðurrifspúkar í íslenzkri stjórnmálastétt, gjörsneyddir þekkingu á þörfum atvinnulífsins, hefðu ráðið för á Alþingi, væri nú íslenzkur sjávarútvegaður sá eini í heiminum, sem væri ofurskattlagður, væri þannig í hrörnun og ekki í neinum færum til að hleypa lífi í sprotagreinar. Fyrirtækið, sem hér á eftir kemur við sögu, Laxá fiskafóður á Akureyri, er dótturfélag almenningshlutafélagsins Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, svo að saga auðhyggju og atvinnusköpunar verður ekki betri. Afætur og skattheimtuskúmar á Alþingi og víðar geta étið það, sem úti frýs, á meðan þekking og fjármagn einkaframtaksins leggur grunn að auðsköpun þjóðar í vexti.
Þann 18. október 2022 birti Gunnlaugur Snær Ólafsson viðtal í Morgunblaðinu við hinn stórhuga Gunnar Örn Kristjánsson (GÖK), framkvæmdastjóra Laxár fiskafóðurs á Akureyri, undir fyrirsögninni:
"Innlend verksmiðja anni eftirspurn":
"Hann segir áherzlu fyrirtækisins vera að framleiða fóður fyrir fiskeldi innanlands."Laxá er með 80 % hlutdeild í sölu fiskafóðurs á landeldismarkaðinum, þannig að við erum með seiðastöðvarnar almennt, landeldisstöðvar fyrir lax og bleikju og svo sjóeldi á regnbogasilungi fyrir vestan. Hvað sjóeldi á laxi varðar, erum við í dag ekki ekki tæknilega útbúnir til að framleiða þetta fituríka fóður, sem notað er, og voru því flutt inn 60 kt á síðasta ári [2021] af fiskafóðri frá Noregi og Skotlandi.""
Það liggja greinilega ónýtt, fýsileg þróunartækifæri til atvinnusköpunar og aukinnar verðmætasköpunar úr afurðum sjávarútvegs og landbúnaðar til að framleiða meira en 100 kt/ár af fóðri í vaxandi sjókvíalaxeldi og spara þannig um 25 mrdISK/ár af gjaldeyri, er fram líða stundir. Að gera íslenzka fæðuframleiðslu sem sjálfbærasta og sem óháðasta erlendum aðföngum er verðugt verkefni, og með orkuskiptunum og fjölbreyttri ræktun innanlands við batnandi náttúruleg skilyrði hillir undir aukið sjálfstæði innlendrar matvælaframleiðslu. Annað mál er, að ætíð verður við venjulegar aðstæður þörf á innflutningi matvæla, sem ekki eru framleidd hérlendis í neinum mæli.
"Eftirspurn eftir fóðri, sem er umhverfisvænna og með minna kolefnisspori, hefur aukizt í takti við kröfur neytenda til eldisafurða. "Við erum að flytja maís frá Kína og soja frá Suður-Ameríku. Soja skilur eftir sig mikið kolefnisspor vegna skógareyðingar og flutninga. Þannig að við erum að vinna að því að finna eitthvað, sem getur komið í staðinn fyrir þetta jurtamjöl, sem við getum fengið hér innanlands eða innan Evrópu.""
Þetta er heilbrigð og ánægjuleg viðskiptahugmynd, sem verður æ raunhæfari með tímanum vegna vaxandi eftirspurnar og bættra ræktunarskilyrða og þekkingar á Íslandi á því, sem komið getur í staðinn. Það er til mikils að vinna að færa aðfangakeðjur matvælaiðnaðarins í mun meira mæli inn í landið en verið hefur. Það helzt í hendur við aukna meðvitund um nauðsyn bætts matvælaöryggis og auðvitað hollustu um leið.
"Hann bendir einnig á, að unnið sé að sambærilegu verkefni [nýting úrgangs frá skógariðnaði] hér á landi, þar sem fyrirtæki í samstarfi við Landsvirkjun á Þeistareykjum er að skoða notkun koltvísýrings til próteinframleiðslu úr einfrumungum og einnig smærri MATÍS-verkefni, þar sem nýttar eru aukaafurðir úr kornrækt til að búa til prótein með einfrumungum. "Þetta er mjög spennandi verkefni líka. Það væri mikill munur að geta fengið fleiri umhverfisvæn hráefni innanlands.""
Þetta sýnir þróunarkraftinn í fyrirtækjum í fóður- og matvælaiðnaði hérlendis, og það er ekki sízt að þakka afli sjávarútvegsins og fiskeldisins. Hreint koltvíildi, CO2, verður verðmætt hráefni í fóðurgerð og eldsneytisframleiðslu, enda er dýrt að vinna það úr afsogi. Það er þess vegna sóun fólgin í að dæla koltvíildinu niður í jörðina með ærnum tilkostnaði, eins og gert er á Hellisheiði og áform eru um að gera í Straumsvík, en verður sennilega aldrei barn í brók, af því að miklu hagkvæmara er að selja CO2 sem hráefni í framleiðsluferla framtíðarinnar.
"Hann [Gunnar Örn] kveðst eiga sér draum um, að kornrækt hér á landi verði einnig mun meiri í framtíðinni, þar sem núverandi framleiðsla sé langt frá því að svara hráefnisþörf fóðurfyrirtækja. "Það þyrfti ekki endilega að styrkja bændur til að hefja kornrækt. Það þarf bara einhvers konar bjargráðasjóð þannig, að [verði] uppskerubrestur, færu þeir ekki í gjaldþrot. Síðan þyrfti að vera eitthvert söfnunarkerfi í anda kaupfélaganna, svo [að] hægt yrði að kaupa í miklu magni.""
Þarna er að myndast innanlandsmarkaður fyrir kornbændur. Annaðhvort mundu þeir mynda með sér félag um söfnunarstöðvar eða fjárfestar koma þeim á laggirnar. Aðalatriðið er, að eftirspurnin er komin fyrir kornbændur. Það er varla goðgá að tryggja þá gegn áföllum, eins og gert er sums staðar erlendis. Þetta er hagsmunamál fyrir landið allt.
Að lokum kom fram hvatning Gunnars Arnar Kristinssonar:
"Íslendingar ættu að vera fullfærir um að framleiða allt sitt fiskafóður sjálfir og með umhverfisvænni hætti en innflutt, að mati hans. Það skilar mun lægra kolefnisspori og ekki sízt betri sögu um sérstöðu íslenzkra fiskeldisafurða, sem hefði jákvæð áhrif á viðhorf neytenda á erlendum mörkuðum."
Hér er stórhuga sýn um þróun fiskafóðurframleiðslu í landinu sett fram af kunnáttumanni í þeirri grein. Hér er ekkert fleipur á ferð , og GÖK færir fyrir því sannfærandi rök, hvers vegna fiskeldisfyrirtækin hérlendis ættu að taka innlenda framleiðslu fiskafóðurs fram yfir erlenda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2022 | 18:10
Tækni virkjana er grundvallaratriði fyrir þær
Aðferðirnar við að framleiða rafmagn úr orkulindum náttúrunnar eru eðlisólíkar, eru þess vegna mishagkvæmar og fyrirferð þeirra í náttúrunni er ólík. Að framleiða rafmagn með afli fallvatns gefur langhæstu nýtnina við raforkuvinnslu af þekktum aðferðum. Sú aðferð er líka óumdeilanlega endurnýjanleg, og vatnsrennslið á Íslandi gæti farið vaxandi með hlýnandi veðurfari vegna meiri úrkomu og aukinnar bráðnunar jökla. Um hitafarið er þó ómögulegt að spá með góðri vissu, því að öflugri áhrifavaldar en koltvíildisstyrkur í andrúmsloftinu leika lausum hala.
Orkan, sem virkjuð er í þessu tilviki, er mismunur á stöðuorku vatns á 2 stöðum með mismunandi hæð yfir sjó og má lýsa sem E=mgh, þar sem m=massi vatnsins á orkuvinnslutímabilinu, g=9,8 m/s2 hröðun vegna aðdráttarkraftar jarðar og h=hæðarmunurinn, sem virkjaður er. Nýtnin er allt að 90 %.
Það þykir áhrifamikið að virða fyrir sér og hlusta á vatn falla fram af stöllum, og það er einmitt sú upplifun, sem fer forgörðum í mismiklum mæli við virkjun fallvatna. Yfirleitt eru íslenzkar vatnsaflsvirkjanir þó afturvirkar að þessu leyti. Ef 20 %-30 % meðalrennslis er hleypt í gamla farveginn, verða fæstir varir við nokkra breytingu. Bergbrúnin slitnar við núning vatnsins, og þess vegna seinka vatnsaflsvirkjanir eyðingu fossa. Landþörfin er tiltölulega lítil eða innan við 0,01 km2/GWh/ár.
Nýtni jarðgufuvirkjana er aðeins um 16 %, ef jarðgufan er aðeins notuð til að framleiða rafmagn, en með því að nýta alla varmaorku gufunnar í þrepum og til upphitunar húsnæðis má hækka nýtnina upp í 40 % og jafnvel hærra, ef virkjun sendir frá sér baðvatn, eins og Svartsengisvirkjun.
Hver borhola gefur yfirleitt um 5,0 MWe í byrjun, en reynslan er sú, að afköst borholanna dvína með tímanum, e.t.v. um 4 %/ár, og þá þarf að útvíkka borsvæðið og fjölga holum, þegar afkastarýrnunin er orðin óviðunandi. Hver borholureitur er yfirleitt um 1,0 km2, svo að landþörfin er a.m.k. 0,03 km2/GWh/ár.
Sólarhlöður munu aldrei framleiða umtalsvert mikið rafmagn á Íslandi vegna hnattlegu og veðurfars. Nýtni þeirra er um þessar mundir um 40%.
Eldsneytisknúnum vararafstöðvum er aftur tekið að fjölga hérlendis, því að afhendingaröryggi rafmagns frá stofnkerfi landsins helzt ekki í hendur við þarfir atvinnulífsins og hitaveitna með engan eða takmarkaðan jarðhita. Þetta kom síðast berlega í ljós veturinn 2021-2022, þegar orkuskortur varð, því að miðlunarlónið Þórisvatn fylltist ekki haustið 2021 vegna mikils álags á raforkukerfið og innrennslis undir meðallagi. Sama sagan gerist nú, þótt forðinn sé meiri nú í upphafi vatnsárs (október) en á sama tíma í fyrra. Eftirfarandi óbjörgulegu lýsingu er nú í október 2022 að finna á heimasíðu Landsvirkjunar og er í raun falleinkunn fyrir stjórnun orkumála í landinu, því að staðan minnir á ástandið fyrir hálfri öld:
"Aflstaða vinnslukerfis Landsvirkjunar er tvísýn, og er útlit fyrir, að vinnslukerfið verði aðþrengt í afli á háannatímanum í vetur. Því gæti þurft að takmarka framboð á ótryggðri orku, ef álag verður meira en tiltækt afl vinnslukerfisins nær að anna."
Stjórnvöld hafa tögl og hagldir í orkukerfinu með ráðuneytum, Orkustofnun og ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun. Þetta er afleiðingin. Orkukerfi hangandi á horriminni tæknilega séð þrátt fyrir mjög góða fjárhagslega afkomu, svo að nóg fé er að finna í virkjanafyrirtækjunum til að fjárfesta í nýjum virkjunum. Stjórnmálamenn og embættismenn lifa í sýndarveruleika og skortir lagni og dug til að bjarga þjóðinni úr þeirri sjálfheldu, sem hún er í með orkumál sín.
Þeir blaðra um orkuskipti, sem allir vita að jafngilda auknu álagi á raforkukerfið, en raforkukerfið er svo mikið lestað um þessar mundir, að það getur brostið, þegar hæst á að hóa, sem verður væntanlega í desember-febrúar, og staðan verður enn verri á næstu árum, því að álag vex með hagvexti, en aflgetan til mótvægis vex hægar en þörf er á.
Öfugt við blaðrið í stjórnmálamönnum og embættismönnum um orkuskipti þýðir þetta einfaldlega, að olíunotkun landsmanna mun aukast á næstu 5 árum, og þar með er loftkennd markmiðssetning um 0,4 Mt/ár minni olíunotkun 2030 en núna farin í vaskinn. Það er jafnframt afar hæpið, að hægt verði að sjá innanlandsfluginu fyrir öruggu rafmagni og/eða rafeldsneyti, eins og forráðamenn innanlandsflugsins þó óska eftir, á þessum áratugi. Fiskeldið þarf um 1/10 af raforkuþörf innanlandsflugsins undir lok þessa áratugar til rafvæðingar báta, skipa og pramma starfseminnar. Það er ekki einu sinni víst, að íslenzka raforkukerfið, orkuvinnslan, flutningskerfið og dreifikerfið, muni hafa getuna til að anna þessari þörf, um 25 GWh/ár, áður en þessi áratugur er á enda.
Hvernig væri nú, að viðkomandi opinberir starfsmenn girði sig í brók og hætti að lóna og góna á umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi í Neðri-Þjórsá á þeim stað, sem sérfræðingar hafa með hönnun sinni staðsett einhvern álitlegasta virkjunarkost, sem nú stendur landsmönnum til boða, Hvammsvirkjun, 95 MW, eftir hálfs annars árs afgreiðslutíma ?
Að síðustu skal hér minnzt á vindmyllur, en ofangreind kreppa íslenzkra orkumála er nú notuð til að auka þrýsting á leyfisveitendur fyrir vindmylluþyrpingar. Það sýnir öfugsnúning landverndarmála á Íslandi, að með því að þvælast endalaust fyrir flutningslínum, jarðgufuvirkjunum og vatnsorkuverum hafa andstæðingar allra handa orkuframkvæmda hérlendis nú fært forgöngumönnum vindmylluþyrpinga sterk spil á hendi til að afvegaleiða leyfisveitendur, svo að þeir fórni meiri hagsmunum fyrir minni.
Nýtni vindmylluþyrpingar á landi hefur yfirleitt verið um 25 % af tiltækri frumorku vindsins. Þessa nýtni má hækka með því að lengja bilið á milli þeirra til að draga úr hvirfiláhrifum, og er nú talið, að tífalt þvermál hringsins, sem spaðaendarnir mynda á snúningi sínum, dugi til hámörkunar nýtninnar m.v. annað óbreytt, en spaðahönnunin og stýring blaðskurðarins hefur líka áhrif á nýtnina.
Nokkuð mikillar bjartsýni virðist gæta hjá sumum forkólfa vindmylluþyrpinganna hérlendis um nýtingu fjárfestingarinnar eða m.ö.o. nýtingu uppsetts afls og hafa sézt tölur upp í 48 %. Þá virðast viðkomandi ekki taka tillit til þess, að stöðva verður hverja vindmyllu a.m.k. árlega fyrir ástandsskoðun og samkvæmt https://www.exponent.com má búast við árlegum stöðvunartíma vegna ástandsskoðunar og viðgerða vindmylla um 400 klst, sem þá nálgast 5 % af árinu, en mest munar um í rekstri vindmylla, að vindstyrkurinn er ekki alltaf á því bili, sem full afköst gefur. Sumir áhugasamir vindmylluforkólfar hérlendis virðast ætla að velja tiltölulega stórar vindmyllur, og þá má búast við hærri bilanatíðni samkvæmt ofangreindum hlekk. Landþörf vindmylluþyrpingar er langmest allra tæknilegra virkjanakosta á Íslandi eða um 0,1 km2/GWh/ár m.v. lítil gagnkvæm hvirfiláhrif.
Það er ekki víst, að Ísland sé jafn vel fallið til vindmyllurekstrar og sumir virðast gera sér í hugarlund, og má þá nefna sviptivinda, sandfok, slyddu og ísingu, og allt þetta getur hleypt bæði stofnkostnaði og rekstrarkostnaði upp. Fyrir nokkru áætlaði höfundur þessa pistils kostnað rafmagns frá þyrpingu með 4,0 MW vindmyllum 50 USD/MWh. Þetta heildsöluverð raforku er afar svipað og smásöluverð raforku til höfundar um þessar mundir, svo að ekki verður séð, að vindmyllur geti keppt við íslenzkar jarðgufu- og vatnsaflsvirkjanir á markaði, þar sem jafnvægi ríkir á milli framboðs og eftirspurnar, en því er reyndar alls ekki að heilsa á Íslandi núna, eins og fram kom framar í þessum pistli. Væntanlegir vindmyllufjárfestar hér skáka í því skjólinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.10.2022 | 16:37
Kaflaskipti í virkjanasögunni
Ef yfirvöld hér ætla að hleypa vindmyllutindátum á íslenzka náttúru, þá hefja þau þar með svartan kafla í virkjanasögu landsins. Ástæðan er sú, að jarðrask á ósnortnum víðernum eða annars staðar og herfileg ásýndarbreyting landsins til hins verra mun ekki vera í neinu ásættanlegu samræmi við ávinningin, sem af bröltinu hlýzt fyrir almenning. Þegar bornir eru saman debet- og kredit-dálkar bókhalds vindmylluþyrpingar í íslenzkri náttúru, stendur eftir einn stór mínus.
Þessu er allt öðru vísi varið með hefðbundnar íslenzkar virkjanir. Þær eru allar í stórum plús, þegar bornir eru saman debet- og kredit-dálkar þeirra að teknu tilliti til landverndar. Nú verða þau, sem lagzt hafa gegn nánast öllum hefðbundnum virkjunum hérlendis, að draga nýja varnarlínu vegna harðvítugrar ásóknar fyrirbrigða, sem engum þjóðhagslegum hagnaði geta skilað að sinni.
Virkjanaandstæðingar verða nú að fara að líta jákvæðum augum á nýtingu innlendra orkulinda fallvatna og jarðgufu og á flutningslínurnar, enda fer nú stöðugt fækkandi km loftlína flutnings og dreifingar í heild sinni, en aftur á móti ættu þessir aðilar nú að beita öllu afli sínu til að koma í veg fyrir stórfellda afurför, hvað varðar jarðrask og ásýnd lands vegna virkjana í samanburði við ávinninginn af þeim.
Fjárhagslegur ávinningur fyrir almenning er enginn af vindmylluþyrpingum, af því að þær munu ekki geta keppt við hagkvæmni hefðbundinna íslenzkra virkjana. Landþörf vindmylluþyrpinga er margföld á við hefðbundnar íslenzkar virkjanir á hverja framleidda raforkueiningu, og ásýndin er fullkomlega herfileg, sama hvar á er litið, enda falla vindmyllurnar eins illa að landinu og hægt er að hugsa sér, öfugt við hefðbundin íslenzk orkumannvirki.
Þau, sem leggjast gegn lögmætum áformum um jarðgufuvirkjun eða vatnsfallsvirkjun, eru að kalla yfir okkur óhamingjuna, sem af vindmylluþyrpingum leiðir. Þar er ekki einvörðungu um að ræða mikið jarðrask, hávaða á lágum tíðnum, sem langt berst, örplastmengun jarðvegs frá vindmylluspöðunum og jafnvel fugladauða, ef höfð er hliðsjón af reynslu t.d. Norðmanna, heldur óhjákvæmilega hækkun rafmagnsreikningsins, og mun keyra þar um þverbak eftir innleiðingu uppboðsmarkaðar dótturfélags Landsnets, sem mun aðeins gera illt verra á Íslandi og verða eins konar verkfæri andskotans í þeirri skortstöðu orku, sem iðulega kemur upp á Íslandi.
Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, ritar iðulega einn eða með öðrum áhugaverðar og bitastæðar greinar í blöðin. Þann 24. ágúst 2022 birtist í Fréttablaðinu ein þessara greina undir fyrirsögninni:
"Virkjum fallega".
Hann víkur þar að þjóðgarðinum Khao Sok í Tælandi:
"Stöðuvatnið, lífríkið og landslagið hefur gríðarlegt aðdráttarafl, og fyrir vikið er Khao Sok vinsæll ferðamannastaður. En það er nýlega til komið.
Það er ótrúlegt til þess að hugsa, að stöðuvatnið, sem má segja, að sé þungamiðja þjóðgarðsins, er manngert. Það heitir Cheow Larn og þekur um fjórðung garðsins. Vatnið er uppistöðulón Ratchaprapha stíflunnar, sem var tekin í gagnið 1987. Framleiðslugetan er 240 MW af hreinni, endurnýjanlegri orku, sem slagar [upp] í uppsett afl Búrfellsvirkjunar, 270 MW. Þrátt fyrir óspillta náttúru hafði Khao Sok ekki það aðdráttarafl, sem [hann] nú hefur, eftir að stíflan var reist."
Svipaða sögu má segja um margar vatnsaflsvirkjanir heimsins, einnig á Íslandi. Það er alls ekki slæmt í sjálfu sér, að landnotkun breytist, og miðlunarlón eru víða til bóta, hækka grunnvatnsstöðu í grennd, og þar þróast lífríki, enda draga þau til sín ferðamenn.
Góð hönnun gerir gæfumuninn. Einhverjar fórnir eru þó óhjákvæmilegar, þegar vatnsfall eða jarðgufa eru virkjuð, en það má nú á dögum gera þannig, að það, sem í staðinn kemur, vegi upp tapið og jafnvel vel það. Þá hefur verið gætt hófs hérlendis og mannvirki felld vel að landinu. Það virðist og hafa verið gert í þeirri vatnsaflsvirkjun í Tælandi, sem Jóhannes Stefánsson gerir þarna að umfjöllunarefni, og þess var líka gætt við Búrfellsvirkjun og allar aðrar virkjanir á Þjórsár/Tungnaársvæðinu.
"Mannleg tilvera útheimtir orku, hvort sem hún fer fram í hellum eða háhýsum. Orkan er notuð til þess að búa til heimili, vegi, skóla, lyf og lækningatæki. Lífskjör og velferð okkar allra eru enn sem komið er í órjúfanlegu samhengi við orkuna, sem við beizlum. Lífið er orka, og orka er lífið."
Þau, sem leggjast gegn hefðbundnum íslenzkum virkjunum, þótt þær hafi verið settar í nýtingarflokk Rammaáætlunar, hafa annaðhvort ekki áttað sig á þessum almennu sannindum eða þau reyna meðvitað að stuðla að minnkun neyzlu, sem er annað orðalag fyrir lífskjararýrnun. Fulltrúar fyrirtækja hafa tjáð skilning sinn á þessu rökræna samhengi, en fulltrúar launafólks hafa verið furðulega hlédrægir og orðfáir um málefnið m.v. það, sem í húfi er fyrir umbjóðendur þeirra.
Nú er það svo, að Íslendingar eiga úr tiltölulega fleiri virkjanakostum endurnýjanlegrar orku að velja en líklega nokkur önnur þjóð. Þegar af þeirri ástæðu er enn úr mörgum kostum að moða, sem ekki geta talizt ganga á einstök náttúruverðmæti eða verið til verulegra lýta í landinu, eins og samþykktur 3. áfangi Rammaáætlunar um vatnsfalls- og jarðgufuvirkjanir er til vitnis um.
Þess vegna sætir furðu, að yfirvöld séu að íhuga að kasta stríðshanzkanum að meirihluta þjóðarinnar með því að leyfa uppsetningu dýrra, afkastalítilla og forljótra mannvirkja með afar ágengum og áberandi hætti í íslenzkri náttúru. Hér er auðvitað átt við risastórar vindmyllur til að knýja rafala, í mörgum tilvikum á heiðum uppi til að ná í hraðfara vind. Það yrði stílbrot í sögu rafvæðingar á Íslandi að leyfa þau ósköp, sem ekki munu auðga almenning, eins og þó hefur gilt um allar virkjanir á Íslandi fram að þessu, því að þessi fyrirbrigði munu leiða til gjörsamlega óþarfra verðhækkana á rafmagni hérlendis.
"Baráttan við óreiðuna fer fram með inngripum í náttúruna. Það fylgir því samt alltaf fórnarkostnaður að raska óspilltri náttúru. Það veit sennilega enginn nákvæmlega, hver sá fórnarkostnaður var í Khao Sok, og þrátt fyrir mótvægis- og björgunaraðgerðir er ljóst, að fjöldi dýra af ólíkum tegundum lifði framkvæmdina ekki af, enda breytti hún vistkerfi stórs hluta þjóðgarðsins verulega.
Í þessu [tilviki] var ávinningurinn talinn meiri en fórnarkostnaðurinn. Þrátt fyrir allt þrífst fjölbreytt lífríki áfram í Khao Sok. Svæðið tók stakkaskiptum og er í dag gríðarfallegt og laðar að sér fjölda gesta árlega. Tælendingar búa nú einnig yfir hreinni, endurnýjanlegri orku. Þessi orka er svo undirstaða verðmætasköpunar, sem aftur er órjúfanleg forsenda velferðar.
Það skal ósagt látið, hvort virkjunin í Khao Sok hefði getað orðið að veruleika í íslenzku laga- og stofnanaumhverfi. Sennilega ekki. Hvað, sem því líður, má samt færa sannfærandi rök fyrir því, að ákvörðun um að reisa Ratchaprapha stífluna hafi verið skynsamleg, þótt hún hafi ekki verið sársaukalaus."
Það er hægt að reikna út þjóðhagslegt gildi virkjunar, hagvaxtaráhrif hennar og áætluð framleiðsluverðmæti rafmagns frá henni. Ef hún er hagkvæmasti virkjunarkostur landsins, er þjóðhagslegt gildi hennar ótvírætt, en ef rafmagnsvinnslukostnaður hennar er 40-50 % hærri en annarra aðgengilegra kosta, þá er þjóðhagsgildi hennar ekkert, og ætti að hafna henni jafnvel áður en lagt er í vinnu við að meta fórnarkostnaðinn.
Það eru til aðferðir við að meta fórnarkostnað við virkjun, en engin þeirra er einhlít. Landþörf virkjunar í km2/GWh/ár er þó óneitanlega mikilvægur mælikvarði og annar vissulega sá, hversu langt að heyrist í og sést til virkjunar. Allir þessir mælikvarðir gefa til kynna mikla landkræfni vindmylla, og kann hún að vera meðvirkandi þáttur í ásókn erlendra fyrirtækja í framkvæmdaleyfi fyrir vindmylluþyrpingar erlendis, en andstaða almennings við uppsetningu þeirra á landi fer nú vaxandi þar.
"Dæmið um Khao Sok þjóðgarðinn á brýnt erindi við þau okkar, sem hafa bæði áhuga á velferð og náttúruvernd. Það eru líklega flestir Íslendingar, sem falla þar undir. Saga okkar, afkoma og lífsgæði, eru svo nátengd íslenzkri náttúru, að það eru harla fáir, sem skilja ekki mikilvægi hennar. Að sama skapi er sá vandfundinn, sem segist ekki vera umhugað um velferð. En það er ekki síður mikilvægt að skilja, hvað velferð er, og hvernig hún verður til.
Velferð okkar sem þjóðar byggir ekki sízt á gæfu okkar til þess að virkja náttúruöflin til orkuframleiðslu. Það er jafnvægislist að gæta að náttúrunni, en beizla krafta hennar á sama tíma, eins og dæmið um Khao Sok sýnir okkur. Þetta er vel hægt með skynsemi að leiðarljósi, og við eigum aldrei að raska óspilltri náttúru meira en þörf krefur.
Við eigum alltaf að velja þá kosti, sem veita mestan ávinning með minnstum fórnarkostnaði. Það er líka mikilvægt að nýta orkuna skynsamlega, og að sama skapi eru einhverjir hlutar náttúrunnar, sem við viljum af góðum og gildum ástæðum ekki undir neinum kringumstæðum hrófla við."
Þarna hefur lögfræðingurinn mikið til síns máls. Við verðum að ganga út frá því sem gefnu, að nútíma- og framtíðarþjóðfélagið útheimta a.m.k. tvöföldun á virkjuðu afli, ef hér á að vera hægt að halda í horfinu með tekjur á mann, sem nú eru á meðal hinna hæstu í Evrópu, svo að ekki sé nú minnzt á blessuð orkuskiptin og kolefnishlutleysið 2040.
Innan íslenzku verkfræðingastéttarinnar er fólk, sem hefur sérhæft sig í virkjunum við íslenzkar aðstæður, og þetta sama fólk leggur auðvitað metnað sinn í að leggja fram góðar lausnir, sem hafa verið beztaðar (optimised) til að gefa kost á hámarksorkuvinnslu á viðkomandi stað innan ramma hófsamlegrar breytingar á náttúrupplifun á athafnasvæðinu. Sé litið til baka, sést, að íslenzkir arkitektar og verkfræðingar hafa staðið undir kröfum, sem gerðar eru til þeirra um ásýnd mannvirkjanna.
Við val á næsta virkjunarkosti er það gullvæg regla, sem lögfræðingurinn nefnir, að hlutfall ávinnings og fórnarkostnaðar á að vera hæst fyrir valinn kost úr hópi virkjunarkosta, sem virkjunarfyrirtækin leggja fram. Sé þessi gullvæga regla höfð að leiðarljósi, geta yfirvöld hætt að klóra sér í skallanum út af regluverki, sem þau eru að bögglast við að koma á koppinn um vindmylluþyrpingar, því að röðin mun þá ekki koma að þeim fyrr en að a.m.k. tveimur áratugum liðnum.
Undir lokin skrifaði lögfræðingurinn:
"En það er aldrei hægt að fallast á, að það megi ekki undir nokkrum kringumstæðum hrófla við neinum hluta náttúrunnar. Ef náttúran á alltaf að njóta vafans, þá er engin mannleg velferð í boði og rangt að halda öðru fram. Svo öfgakennd afstaða getur ekkert annað leitt af sér en versnandi lífskjör okkar allra til langrar framtíðar. Þá neitum við okkur og afkomendum okkar um lífskjörin, sem við þekkjum í dag. Þeim mun hratt [hraka], nema ófyrirséðar tækniframfarir séu handan við hornið.
Vonandi bíður okkar bylting í orkuframleiðslu, t.d. með kjarnasamruna. Það gæti breytt dæminu verulega. Við getum hins vegar ekki stefnt inn í framtíðina upp á von og óvon um, að það gerist einhvern tímann á næstunni."
Það er nú sennilega styttra í nýja og öruggari kynslóð kjarnakljúfandi orkuvera en samrunavera. Þótt ábyrgðarlaust og glórulaust sé að leggjast gegn nánast öllum virkjanahugmyndum á Íslandi, sé höfð hliðsjón af tilvitnunum í téðan lögfræðing, þá er samt talsverður fjöldi landsmanna í þessum hópum ofstækisfullra náttúruverndarsinna. Mörgum þeirra gengur hrein afturhaldssemi til. Þeir vilja ekki sjá nein mannleg inngrip í náttúruna, sem heitið geti, og þeir eru "mínímalistar" um lifnaðarhætti. Fjölskyldubíllinn er þar á bannlista, og kannski vilja þau innleiða þvottabrettið í stað þvottavélarinnar. Þau hafa talið sér trú um, að stórfelld neyzluminnkun verði að eiga sér stað til að bjarga jörðunni, andrúmsloftinu og lífríkinu. Þessar öfgaskoðanir eru keyrðar áfram sem trúarbrögð, svo að mótrök komast ekki að.
Þjóðfélagið á ekki að færa slíku jaðarfólki og sérvitringum alls konar vopn í hendur til tafaleikja og hindrana á framfarabrautinni. Ein afleiðingin af því er, að ekkert virkjanaleyfi hefur enn fengizt fyrir virkjun, sem leyst getur íslenzkt efnahagslíf úr viðjum orku- og aflskorts. Íslendingar missa þar með af mikilvægri atvinnuþróun í a.m.k. einn áratug og eiga á hættu orkuskömmtun að vetrarlagi, eins og fiskbræðslur, hitaveitur með lítinn eða engan jarðvarma og orkusækinn útflutningsiðnaður fengu að kenna á veturinn 2021-2022. Enginn er bættari með afl- og orkuskorti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.10.2022 | 10:20
Misheppnuð stjórnun Samfylkingar á höfuðborginni
Það er með eindæmum, hversu mislagðar hendur stjórnmálafólki Samfylkingarinnar eru við stjórnun málefna almennings. Þótt vítin séu til að varast þau, vantar ekki gorgeirinn í forkólfana, en þeir (þau) tala gjarna, t.d. á Alþingi, eins og þau hafi öðlazt æðsta sannleik um málefni í almannaþágu, en samt eru svikin loforð og mistök á mistök ofan, það sem upp úr stendur, þar sem þau hafa krafsað til sín völd þrátt fyrir dvínandi fylgi, eins og í Reykjavík.
Pólitískur sjálfstortímingarleiðangur Framsóknarflokksins inn í Ráðhúsið við Tjörnina er reyndar saga til næsta bæjar fyrir flokk, sem annars hefur verið nokkur borgaralegur bragur á undir stjórn Sigmundar og síðar dýralæknisins. Einar, fyrrverandi fréttamaður á RÚV, virkar nú sem blaðafulltrúi læknisins eða öllu heldur búktalari.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er skeleggur gagnrýnandi borgarstjórnarmeirihlutans. Hann reit grein grein í Morgunblaðið 6. október 2022, sem hann nefndi:
"Neyðarástand á húsnæðismarkaði í Reykjavík".
Þar gat m.a. þetta að líta:
"Húsnæðisstefna Samfylkingarinnar og fylgiflokka hennar hefur verið ráðandi í Reykjavík frá því um aldamót. Á þessum tíma hafa vinstri stjórnir í Reykjavík knúið fram stórfelldar hækkanir á húsnæðisverði með ýmsum ráðum, t.d. með lóðaskortstefnu, lóðauppboði, auknu flækjustigi í stjórnsýslu, hækkun margvíslegra gjalda og álagningu nýrra, t.d. hárra innviðagjalda. Allar slíkar aðgerðir eru lóð á vogarskálar hækkandi húsnæðisverðs."
Dettur einhverjum í hug, að þessar gjörðir Samfylkingarinnar, sem skreytir sig með öfugmælunum Jafnaðarmannaflokkur Íslands, þjóni hagsmunum alþýðunnar í borginni ? Allt, sem Samfylkingin tekur sér fyrir hendur, gerir hún með öfugum klónum. Hún hefur alla sína hundstíð daðrað við auðjöfra, sem varð alræmt fyrir Hrun, enda kemst Kjartan Magnússon að eftirfarandi niðurstöðu í framhaldinu:
"Auk þess að stórhækka húsnæðisverð hefur þessi stefna gefið fjársterkum aðilum kost á að sanka að sér byggingarlóðum og [selt] þar íbúðir til almennings á uppsprengdu verði. Þessi stefna felur því í sér þjónkun við fjársterka verktaka og stórfyrirtæki, sem hafa hagnazt um tugi, ef ekki hundruði milljarða ISK vegna húsnæðisstefnu vinstri flokkanna."
Þarna kemur Samfylkingin aftan að almenningi, eins og henni er einni lagið. Hún hagar málum þannig, að markaðurinn geri nýjum kaupendum og öðrum með takmörkuð fjárráð erfitt eða ómögulegt að festa kaup á húsnæði í borginni, en neyðist þess í stað til að flytjast í leiguhúsnæði, þar sem Samfylking einmitt vill hafa almenning. Sjálfsbjargarfólk á meðal almennings er eitur í beinum Samfylkingar, og hún fer ýmsar krókaleiðir gegn því.
Sigurður Oddsson, verkfræðingur, ritaði skorinorða grein í Morgunblaðið 3. október 2022, þar sem hann sýndi fram á, hvernig fúskarar borgarstjórnar í umferðarmálum hefðu eyðilagt meginhugmyndir faglegra hönnuða umferðarflæðis í höfuðborginni. Þarna er um ótrúlega ósvífin skemmdarverk atferlishönnuða að ræða, sem svífast einskis í viðleitni sinni til að skapa farþegagrundvöll fyrir andvana fædda borgarlínuhugmynd sína. Samfélagshönnuðir af þessu tagi eru eitthvert leiðasta fyrirbrigði nútímans, afætur, sem verða borgurunum óhemju dýrir á fóðrum áður en lýkur.
Grein sína nefndi Sigurður:
"Eyðilegging umferðarmannvirkja".
Þar gaf m.a. þetta á að líta:
"Eigendur bíla hafa með skattlagningu og eldsneytisgjöldum byggt Háaleitisbraut og Grensásveg, eins og allt gatnakerfi borgarinnar. Hefur meirihlutinn leyfi til að eyðileggja þessi umferðarmannvirki í þeim tilgangi að tefja umferð."
Nei, auðvitað hefur meirihluti Samfylkingar engan siðferðislegan rétt til slíkrar kúvendingar í skipulagsmálum, enda er hér komið aftan að kjósendum, þar sem engin kynning á þessum klaufaspörkum hefur farið fram fyrir kosningar. Fallandi fylgi Samfylkingar í borginni gefur til kynna óánægju með afkáraleg vinnubrögð hennar í skipulagsmálum umferðar og húsnæðis. Lýðræðið er fótum troðið, því að allt eru þetta óvinsælar ráðstafanir.
"Markvisst hefur verið unnið að því að skemma Bústaðaveginn sem stofnbraut: Við Reykjanesbraut er margbúið að lofa mislægum gatnamótum við Bústaðaveg. Í stað þess að standa við það er nú komið illa hannað hringtorg, sem tefur alla umferð að og frá Bústaðavegi.
Við Grensásveg er komið raðhús svo nálægt Bústaðavegi, að þar verður illmögulegt að hafa Bústaðaveginn 2+2-akreinar. Þannig eru komnir flöskuhálsar á báða enda þess kafla, sem auðvelt var að hafa 2+2."
Skemmdarverk furðudýranna í borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík setur þá stjórnmálamenn, sem þannig nota völd sín, í ruslflokk á meðal sveitarstjórnarmanna á Norðurlöndunum. Það er fullkomlega ósiðlegt og ólýðræðislegt að beita skipulagsvaldinu til að binda hendur komandi kynslóða við úrlausn umferðar viðfangsefna borgarinnar, eins og Samfylkingin undir furðuforystu læknisins Dags hefur gert sig seka um. Fyrir vikið er ástæða til að treysta henni ekki fyrir landstjórninni, enda er reynslan af henni þar ömurleg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.10.2022 | 16:51
Fúsk og bruðl í umferðarmálum býður hættunni heim
Nýlega greindi einn ráðherranna frá því í viðtali í fréttum Ríkissjónvarpsins, að í undirbúningi væri að setja upp gjaldtöku á bifreiðir á leið til höfuðborgarinnar, og væri ætlunin með henni að stýra umferðinni framhjá mesta tafatímanum og að fjármagna framkvæmdir, sem eiga að greiða úr umferðarhnútunum. Þótt þessi aðferð sé viðhöfð víða erlendis, er ekki þar með sagt, að hún sé skynsamleg og réttlætanleg hérlendis. Umferðarhnútarnir í Reykjavík eru vegna vanfjárfestinga í umferðarmannvirkjum á stofnleiðum í Reykjavík, en gjöld á bifreiðaeigendur hafa þó ekki lækkað. Það er órökrétt og ósanngjarnt að taka gjald af umferðinni til að fjármagna það, sem vanrækt hefur verið, og að auki að fjármagna allt of viðamikla og dýra Borgarlínu. Strætó á í fjárhagslegum rekstrarerfiðleikum, en tapið af Borgarlínu, sem er "ofurstrætó, sumir segja strætó á sterum, verður fyrirsjáanlega margfalt, því að spár um þróun hlutdeildar Strætó í heildarumferð á höfuðborgarsvæðinu með tilkomu Borgarlínu úr núverandi 4 % í 12 % eru draumórar einir. Borgarlínan er afsprengi fúskara í umferðartæknilegum efnum og stjórnmálamanna, sem haldnir eru slíkri andúð á einkabílnum, að þeir vilja hrekja almenning út úr honum, þarfasta þjóninum.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, skrifar iðulega fróðlegar greinar í Morgunblaðið. Ein slík birtist 6. október 2022 undir fyrirsögninni:
"Stefnuleysi og óráðsía".
Hún hófst þannig:
"Núverandi borgarlínutillögur munu aldrei ganga upp. Kostnaður við þá framkvæmd var áætlaður um mrdISK 120, líklega nú kominn í mrdISK 130-140, sem er óheyrilegur og gott dæmi um óráðsíu borgarstjórnarmeirihlutans í fjármálastjórn undanfarin kjörtímabil. Ýmsar borgir, sem upphaflega ætluðu að byggja borgarlínu í háum gæðaflokki, hættu við það og byggðu þess í stað miklu ódýrari borgarlínu, stundum nefnd BRT-Lite [Bus Rapid Transit-innsk. BJo] eða létt borgarlína. Sýnt hefur verið fram á, án þess að gerðar hafi verið athugasemdir, að kostnaður við létta borgarlínu sé rúmar mrdISK 20."
Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, o.fl. hafa komið fram með þessa Léttlínulausn, sem eru sérreinar hægra megin, en ekki fyrir miðju. Léttlausnin skerðir hvergi venjulegt umferðarflæði, en hætt er við, að Draumóralínan geri það, og hún mun valda gríðarlegri umferðarröskun á framkvæmdatíma.
Það eru engin haldbær rök fyrir því að kasta mrdISK 120 af aflafé almennings út um gluggann í glórulaust gæluverkefni, þegar hið opinbera vanhagar alls staðar um fjármuni. Það er óviðunandi, að hið opinbera ætli nú að forgangsraða fjáröflun sinni til bruðlverkefna, sem engin þörf er á og sem verður viðkomandi sveitarfélögum myllusteinn um háls, þegar kemur að rekstrinum, eins og botnlaus hít Strætó er forsmekkurinn að. Hér hafa fúskarar um samgöngutækni látið eigin forræðishyggju um lifnaðarhætti almennings fengið að ráða för, fólk, sem er svo raunveruleikafirrt, að það gerir sér enga grein fyrir bruðlinu eða er nógu siðlaust til að láta sér það í réttu rúmi liggja.
Þórarinn Hjaltason, samgönguverkfræðingur, skrifaði góða grein í Morgunblaðið 28. september 2022 undir fyrirsögninni:
"Samgöngumál í strjálbýlu landi".
Þar stóð m.a. þetta:
"Þjóðvegir á höfuðborgarsvæðinu hafa líka goldið þess, að vegafé hefur verið af skornum skammti. Á undanförnum áratugum hafa árlegar fjárveitingar til þjóðvega á svæðinu að jafnaði verið um 2 mrdISK/ár, en hefðu þurft að vera 5 mrdISK/ár. Það skýrir, hvers vegna umferðartafir eru óeðlilega miklar á höfuðborgarsvæðinu saman borið við önnur borgarsvæði af svipaðri stærð."
Tekjur ríkisins á þessu tímabili af ökutækjaeigendum hafa verið meiri en útgjöld til vegaframkvæmda- og viðhalds. Í ljósi þess er óásættanlegt, að borg og ríki skuli hafa leyft núverandi umferðarhnútum að myndast í stað þess að t.d. reisa mislæg gatnamót. Borgin á höfuðsök á þessu með því að taka þau út af aðalskipulagi og þvælast fyrir raunverulegum framfaramálum umferðar, t.d. Sundabraut, og til að kóróna vitleysuna hefur áhugafólk um bíllausan lífsstíl vísvitandi og að óþörfu skert umferðarþol gatna borgarinnar með fækkun akreina, þrengingum og álíka ónytjungslegum aðgerðum undir yfirskini umferðaröryggis.
Þetta er fullkomin hræsni, því að þau, sem látið hafa ljósastýrð gatnamót viðgangast á fjölförnum og varasömum gatnamótum, þótt fyrir löngu sé tímabært að setja þar upp mislæg gatnamót, bera ábyrgð á alvarlegum slysum á fólki og stórfelldu fjárhagstjóni. Það er ófært, að ökumenn, sem hafa verið snuðaðir um nauðsynlegar framkvæmdir í öryggisskyni og til tímasparnaðar, eigi nú að borga viðbótar gjald fyrir löngu tímabærar framkvæmdir og að auki fyrir gjörsamlega óþarft bruðlverkefni, sem mun valda bílaumferð auknum vandræðum og soga til sín fjármagn frá öðrum og þarfari verkefnum á höfuðborgarsvæðinu og reyndar um allt land (vegna þátttöku ríkisins).
"Árið 2019 gerðu ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu með sér samgöngusáttmála um, að á 15 ára tímabili, 2019-2034, yrðu byggð samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu fyrir mrdISK 120. Þessi framkvæmdapakki er myndarlegt átak að því leyti, að á 15 ára tímabili á að verja jafnmiklu fé og samsvarar hefðbundnu framlagi ríkisins til þjóðvega á svæðinu í 50 ár. Þegar nánar er skoðað, kemur í ljós, að framkvæmdaáætlun sáttmálans mun ekki minnka umferðartafir. Skýringin er einföld. Borgarlínan mun ekki leysa neinn umferðarvanda. Stokkar og/eða jarðgöng eru tvöfalt til þrefalt dýrari en hefðbundnar lausnir með mislægum gatnamótum. Umferðartafir á höfuðborgarsvæðiu munu því halda áfram að aukast, ef ekki er breytt um stefnu."
Það, sem samgönguverkfræðingurinn Þórarinn upplýsir þarna um, er reginhneyksli. Í stað þess að beita beztu verkfræðilegu þekkingu til að hanna lausn á umferðarmálum höfuðborgarsvæðisins, þar sem fjármagnið nýtist bezt til að greiða fyrir umferðarflæðinu og hámarka öryggi vegfarenda, eru fúskarar, draumóramenn og sérvitringar látnir ráða ferðinni. Það verður viðkomandi stjórnmálamönnum til ævarandi hneisu að standa svona að verki.
Þarfri grein sinni lauk Þórarinn þannig:
"Vegna fámennis verðum við að gæta ýtrustu hagkvæmni við uppbyggingu samgönguinnviða. Við höfum einfaldlega ekki efni á rándýrri útfærslu á borgarlínu. Við höfum heldur ekki efni á því að setja þjóðvegi á höfuðborgarsvæðinu að óþörfu í stokka eða jarðgöng. Við þurfum að fara vel með fjárveitingar til samgönguinnviða. Veljum því tillögu SFA (Samgöngur fyrir alla) https://www.samgongurfyriralla.com um létta borgarlínu (BRT-Lite) og höfum Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni."
Þetta eru hógvær lokaorð samgönguverkfræðingsins, en þeim fylgir mikill þungi og undir hvert orð er hægt að taka. Samgöngumál höfuðborgarinnar eru í fullkomnum ólestri, af því að þar hefur verið látið reka á reiðanum og látið hjá líða að beita beztu fáanlegu samgöngutækni til að leita hagkvæmustu lausna, sem þó losa vegfarendur undan umferðarhnútum, auka öryggi vegfarenda og tryggja snurðulaust umferðarflæði um langa framtíð.
Í staðinn sitja íbúar höfuðborgarsvæðisins og aðrir vegfarendur þar uppi með rándýrt örverpi, sem leysir ekki nokkurs manns vanda, en mun valda fjársvelti til margra þarfra verkefna, ef því verður hleypt áfram, eins og yfirvöld borgarinnar berjast fyrir.
Það verður ekki af Samfylkingunni skafið, að hún er trú skortstefnu sinni á öllum sviðum. Hér slær hún 2 flugur í einu höggi: skapar skort á fé til gagnlegra samgönguverkefna og skort á frambærilegum umferðaræðum í Reykjavík, m.a. með úreltum ljósastýrðum gatnamótum í stað mislægra gatnamóta, sem svara kalli nútímans. Stefna Samfylkingarinnar er í raun að stöðugt vaxandi óreiðu, af því að getuna til að standa uppbyggilega og af ábyrgð að málum skortir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2022 | 17:08
Skref aftur á bak - Járnsíða og vindmylluþyrpingar
Að kvöldi 12. október 2022 var haldinn fundur í glæsilegum sal Tónlistarskóla Akraness undir yfirskriftinni: Vindmyllur - fyrir hverja [og] til hvers ? Fundarstjóri var Jón Magnússon, hrl., og fórst honum það vel úr hendi, eins og hans var von og vísa.
Höfundur þessa vefpistils flutti þarna erindið, sem sjá má í viðhengi þessa pistils. Aðrir frummælendur þessa fundar voru Arnar Þór Jónsson, sem kveikti neista baráttuanda í brjósti fundarmanna í nafni sjálfstæðrar hugsunar og leyfis til gagnrýninnar tjáningar með haldföstum rökum, Kristín Helga Gunnarsdóttir, sem sýndi með fjölmörgum fallegum náttúrumyndum úr sveitum Vesturlands, hversu gróft og yfirþyrmandi inngrip í náttúruna um 200 m háar (spaðar í hæstu stöðu) vindmyllur yrðu í náttúru Íslands. Ólafur Ísleifsson rifjaði upp umræðuna, sem varð í landinu í aðdraganda innleiðingar Alþingis á s.k. Orkupakka 3-OP3, lagabálki Evrópusambandsins (ESB) um orkumál, sem hann o.fl. telja á meðal lágpunktanna í sögu Alþingis.
Nú er spurningin sú, hvort, samkvæmt OP3, Íslendingum beri að verða við óskum fyrirtækja af EES-svæðinu um leyfi til uppsetningar vindmylluþyrpinga í landi sínu á forsendum atvinnufrelsis á EES-svæðinu og jafnræðis á milli orkufyrirtækja á Innri markaði EES, enda sé raforkan frá vindmylluþyrpingunum "græn" samkvæmt skilgreiningu ESB. Íslendingum finnst mörgum hverjum lítið til koma þeirrar grænku.
Á þetta kann að reyna fyrir dómstólum, enda mætast í þessu máli stálin stinn. Þetta minnir okkur á, að Íslendingar hafa ekki ætíð talið sér henta að starfa eftir erlendum lagabálkum. Magnús, konungur lagabætir, vildi samræma löggjöf í gjörvöllu norska konungsríkinu, sem var víðfemt og spannaði eyjar úti fyrir Skotlandi, Færeyjar og Ísland, og e.t.v. Dublin og héruðin í kring á Írlandi, en um þetta leyti hafði Skotakonungur líklega náð tökum á fastlandi Skotlands.
Magnús, konungur, lét leggja lögbók sína, Járnsíðu, fyrir Alþingi 1271, en Íslendingar sáu meinbugi við að umturna lagaumhverfi sínu og laga það að norskum rétti. Þá fékk konungur lögfróðan Íslending, Jón Einarsson, til að sníða vankantana af Járnsíðu fyrir Íslendinga, og smíðaði hann nýja lögbók upp úr Grágás og Járnsíðu, sem kölluð var Jónsbók og hlaut samþykki Alþingis 1281 og var lögbók landsins, þar til Íslendingar sóru einvaldskonunginum, danska, hollustueið á Kópavogsfundi 1661. Eftir það breyttist Alþingi að mestu í dómstól.
Hvað sem þessu líður, þá ber Íslendingum nútíðarinnar að vega og meta gaumgæfilega kosti og galla vindmyllanna í íslenzkri náttúru og á íslenzka raforkumarkaðinum. Tilraun til þess er gerð í téðu viðhengi með pistli þessum. Hættan er sú, að þessi óskilvirka og ágenga leið til raforkuvinnslu komi óorði á íslenzkan orkuiðnað og jafnvel orkunotkunina, af því að raforkuvinnslan gangi of nærri landinu og gíni hvarvetna yfir landsmönnum og erlendum gestum þeirra. Það yrði afleit staða fyrir landsmenn að sitja uppi með, og ekkert var fjær forgöngumönnum rafvæðingar Íslands en slíkt. Vindmylluforkólfar eru af öðru sauðahúsi.
Raforkunotkun landsmanna er sú mesta í heimi, og er höfundur þessa vefpistils fyrir sína parta stoltur af því, enda er þessi mikla orkunotkun ásamt sjávarútvegi og ferðaútvegi undirstaða íslenzka velferðarþjóðfélagsins. Varla hefur farið fram hjá nokkrum manni, að hrópað er úr öllum áttum á meira fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Við slíkum óskum er ómögulegt að verða án hagvaxtar í landinu. Stækkun hagkerfisins er nátengd aukinni orkunotkun í samfélaginu. Því er tómt mál að stöðva allar nývirkjanir í landinu, þótt sú óskilvirkasta og fórnfrekasta sé látin eiga sig.
Áður var drepið á vindmyllufund á Akranesi. Akraneskaupstaður er velferðarsamfélag, sem stendur traustum fótum í sjávarútvegi og iðnaði á Grundartanga, þar sem öflug útflutningsfyrirtæki nýta mikla raforku. Sjávarútvegurinn íslenzki hefur getið sér gott orð fyrir sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar og gjörnýtingu hráefnisins við framleiðslu á útflutningsvörum.
Nýting íslenzkra orkulinda hefur verið sjálfbær fram að þessu og hófsemi og aðgátar verið gætt, þar sem kappkostað er að fella mannvirkin sem bezt að landinu. Notkun orkunnar hefur verið með glæsilegum hætti, eins og framsæknir auðlindagarðar og tækniþróuð iðnfyrirtæki, þar sem mest munar um álverin þrjú, bera glögglega vitni um.
Hvers vegna jafngilda vindmyllur afturför í þessum efnum ? Það er vegna þess, að vindmyllur eru afkastalítil framleiðslutæki m.v. allan efniviðinn, sem þarf til að fá fram afleininguna MW. Við nýtingu vindorkunnar myndast óhjákvæmilega lofthvirflar. Ef þeir ná til næstu vindmyllu, hraðfellur vinnslugeta hennar, hávaði frá henni eykst og titringur myndast, sem eykur bilanatíðnina umtalsvert. Þess vegna þurfa vindmylluþyrpingar að flæmast yfir margfalt landsvæði á við hefðbundnar íslenzkar virkjanir m.v. sambærilega orkuvinnslugetu, eins og rakið er hér í viðhenginu.
Þessi frumstæða aðferð við raforkuvinnslu er einfaldlega fjarri því að geta réttlætt þær miklu landfórnir, sem háar vindmylluþyrpingar fela í sér. Þjóðhagslegt gildi þeirra er ekkert, af því að aðrir endurnýjanlegir orkukostir í landinu eru miklu hagkvæmari, fjárhagslega.
Það, sem nú eykur ásókn orkufyrirtækja, innlendra og erlendra, í að leggja "ósnortin" íslenzk víðerni undir ferlíki, sem gjörbreyta mundu ásýnd landsins, er ekki sæstrengur, enda styrkir ESB ekki lengur slíkan til Bretlands, heldur uppboðsmarkaður raforku í skortástandi á Íslandi, þar sem eigendur vindorkuþyrpinga munu verða ráðandi fyrir endanlegt verð á markaðinum samkvæmt jaðarkostnaðarreglu OP3. Hér er rétt að hafa í huga, að þrátt fyrir eindregin tilmæli í þá veru í OP3 að innleiða slíkan uppboðsmarkað raforku, er það ekki skylda aðildarlandanna.
Forseti framkvæmdastjórnar ESB hefur nú gefið þetta kerfi upp á bátinn, því að framboðshliðin brást niðri í Evrópu. Á Íslandi er framboðshliðin háð duttlungum náttúrunnar, og þess vegna er innleiðing þessa kerfis reist á misskilningi um áhrif þess á hagsmuni neytenda. Að segjast ætla að innleiða þetta uppboðskerfi raforku í nafni hagsmuna almennings er léleg öfugmælavísa í ljósi skortstöðunnar á markaði.
Þegar í stað á að hætta við afritun úrelts ESB-markaðar hjá dótturfélagi Landsnets og hefja þess í stað þróun á markaðskerfi raforku, sem sérsniðið sé við íslenzkar aðstæður. Hugmynd að slíkri hönnun er þegar fyrir hendi í riti eftir íslenzkan verkfræðing, sérfræðing í orkumálum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.10.2022 | 10:48
Gönuhlaup í loftslagsmálum
Engu máli skiptir fyrir þróun hitastigs á jörðunni, hversu fljótir Íslendingar verða að ná kolefnishlutleysi. Engu að síður hafa leiðandi stjórnmálamenn á Íslandi á borð við forsætisráðherra fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar, Katrínu Jakobsdóttur, beitt sér fyrir því, að Íslendingar verði á undan öðrum þjóðum í heiminum að ná þessu marki. Þetta er sem sagt "futile" eða marklaust markmið. Innihaldsleysið og tvískinningurinn við þessa markmiðssetningu er síðan, að græningjarnir grafa undan þessu markmiði með því að leggjast gegn því, sem er forsenda markmiðsins, að til sé næg áreiðanleg virkjuð orka til að framleiða raforku til að koma í stað jarðefnaeldsneytisins, sem óhjákvæmilegt er að stórminnka notkun á til að ná kolefnishlutleysi. Markmiðið er þannig ómarktækt. Síðan er vaðinn elgurinn í kringum þessi orkuskipti, sem þar að auki eru óraunhæf innan settra tímamarka, af því að nauðsynlegar þróaðar tæknilausnir vantar. Blindur leiðir haltan.
Þann 3. október 2022 birti Morgunblaðið viðtal við forstöðumann Grænvangs, þar sem kenndi ýmissa grasa:
""Loftslagsmál þurfa hvarvetna að vera efst á blaði", segir Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. "Græn orkuskipti byggjast á samvinnu fjöldans, þannig að um verkefni ríki samfélagsleg sátt. Umskipti, sem nú eiga sér stað í heiminum, fela í sér mörg sóknartækifæri fyrir Ísland. Munu geta aukið samkeppnishæfni okkar í alþjóðlegu samhengi, en jafnhliða þurfa umskiptin að vera sjálfbær og réttlát. Því eru fram undan spennandi tímar í umbreytingum, þar sem Íslendingar ætla að ná forystu á heimsvísu.""
Hér orkar æði margt tvímælis og annað svo loftkennt, að erfitt er að festa fingur á því. Hvers vegna þurfa loftslagsmál hvarvetna að vera efst á blaði á Íslandi, þótt ljóst sé, að losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi manna hérlendis hafi engin mælanleg áhrif á meinta hlýnun jarðar af mannavöldum og sé ekki umfangsmikil í samanburði við losun náttúrunnar sjálfrar án tilstillis "homo sapiens", m.a. frá eldstöðvum landsins ? Þá hafa landsmenn þegar staðið sig betur en flestar þjóðir aðrar við að sneiða hjá jarðefnaeldsneyti við rafmagnsframleiðslu og upphitun húsnæðis. Hvers vegna liggur svona mikið á, þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun landsmanna er nú þegar lægra (15 %) en víðast hvar annars staðar ?
Hefði forstöðumanni Grænvangs ekki verið nær að hefja mál sitt á nauðsyn þess að leggja traustan og sjálfbæran grunn að orkuskiptum á Íslandi ? Sá grunnur felst í að afla raforku úr vatnsföllum landsins og iðrum jarðar. Á meðan það er ekki gert, er allt tal um hröð orkuskipti hérlendis fleipur eitt. Hér stendur upp á stjórnvöld, því að stofnanir ríkisins hafa ekki verið hjálplegar í þessu tilliti, og nægir að nefna Orkustofnun, sem legið hefur nú á umsókn Landsvirkjunar um virkjanleyfi í Neðri-Þjórsá í hálft annað ár. Þetta heitir að draga lappirnar og stuðla að langvarandi raforkuskorti í landinu, sem hamlar hagvexti stórlega og þar með kjörum almennings og afkomu hins opinbera.
""Orkunýting með virkjunum bætti þjóðarhag. Hún styrkti sjálfstæði þjóðarinnar, skapaði meiri stöðugleika og jók samkeppnishæfni okkar í alþjóðlegu samhengi. Það sama er að gerast núna. Verkefnið í dag er stærra og snýr að öllum heiminum, sbr fyrirheit þjóða um að draga úr mengun og halda hlýnun andrúmsloftsins undir 1,5°C, sbr Parísarsamkomulagið. Stærðargráða viðfangsefna er því allt önnur en áður, auk þess sem lönd og jafnvel atvinnugreinar eru tengdari nú en áður. Orkuöflun og -skipti eru alþjóðleg verkefni.""
Það er jákvætt, að þarna er viðurkennt, að virkjanir landsins eru hornsteinn velmegunarinnar í nútímasamfélaginu á Íslandi, en annað þarfnast skýringa af hendi höfundarins. Hvernig getur orkuskiptaverkefnið verið stærra núna en áður, þegar aðeins 15 % heildarorkunotkunarinnar er úr jarðefnaeldsneyti ? Hvernig leggjum við mest af mörkum á heimsvísu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ? Það er með því að virkja sem mest af stöðugum orkulindum landsins til að verða við óskum stóriðjufyrirtækja um ný orkukaup á Íslandi, hvort sem það eru núverandi stóriðjufyrirtæki á landinu eða önnur. Það er hins vegar ekki á döfinni samkvæmt forstjóra Landsvirkjunar á Haustfundi fyrirtækisins í október 2022. Það fer víða ekki saman hljóð og mynd, þegar umræðan snýst um orkumálin á Íslandi, þ.e.a.s. hún er handan raunveruleikans, enda ríkir stöðnun á því sviði, sem mestu máli skiptir; á sviði stórfelldrar nýrrar hagnýtingar náttúrulegra, hefðbundinna orkulinda landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.10.2022 | 13:31
Hræsni loftslagspredikara
Gríðarlegt magn af metangasi (CH4) hefur mælzt stíga upp frá jarðgaslindum Rússa og talsvert er um leka á löngum lögnum, sem lítið virðist vera gert með. Þeir, sem létu sprengja í sundur báðar Nord Stream 1 lagnirnar og aðra Nord Stream 2 lögnina, ekki fjarri þverun nýrrar norskrar gaslagnar til Póllands á þessum lögnum [var hún e.t.v. skotmarkið ?], víluðu ekki fyrir sér að valda umhverfisslysi í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar í september 2022 og valda hættuástandi fyrir sæfarendur á Eystrasalti. Nú streymir sjór inn um rifurnar, sem mynduðust, og mun tæring gera skemmdu lagnirnar 3 af 4 ónothæfar.
Norðmenn eru nú aðaleldsneytisgasbirgjar Bretlands og Evrópusambandsins og sjá ESB fyrir 25 % af núverandi þörf. Á sama sólarhring og skemmdarverkið var unnið, var ný gaslögn frá borpöllum Norðmanna úti fyrir ströndinni og um Danmörku alla leið til Póllands tekin í notkun. Þær kenningar eru á lofti, að hin kaldrifjaða aðgerð úti fyrir Borgundarhólmi sé undan rifjum Kremlar runnin í ógnunarskyni við þennan mikilvægasta eldsneytisbirgi frjálsrar Evrópu um þessar mundir.
Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnarhugveitunnar, ritaði eina af athyglisverðum greinum sínum í Morgunblaðið 8. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:
"Að leika sér með líf annarra".
Þar stóð m.a. þetta:
"Þjóðverjar endurræsa kolaorkuver sín á meðan Spánverjar og Ítalir tala fyrir aukinni gasframleiðslu í Afríku. Þá er fjöldi Evrópuríkja, sem beðið hafa Botsvana að auka afköstin í kolanámum þarlendum, slíkur, að reikna má með þreföldun í umfangi kolaútflutnings þaðan.
Einn einasti þegn [á] meðal auðþjóða notar meira jarðefnaeldsneyti en samsvarar þeirri orku, sem stendur 23 Afríkubúum til boða. Auður þessara þjóða spratt af umfangsmikilli vinnslu jarðefnaeldsneytis, sem um þessar mundir sér þeim fyrir rúmlega 3/4 þeirrar orku, sem þær nota. Innan við 3 % orku auðþjóðanna rekja uppruna sinn til framleiðslu með sólskini og vindi."
Það er sláandi og varpar ljósi á rangar og óskilvirkar fjárfestingarákvarðanir að setja gríðarupphæðir, oftast með styrkjum úr opinberum sjóðum, í efnismiklar og landfrekar vindmyllur og sólarhlöður, sem þó skila innan við 3 % af orkuvinnslu s.k. auðugra þjóða nú, þegar hæst á að hóa. Forgangsröðunin er kolröng. Nær hefði verið að setja allt þetta opinbera fé í rannsóknir og þróun á kjarnorkutækninni, öruggari tækni með úraníum kjarnakljúfum og þóríum kjarnorkuverum. Vindmyllur eru frumstæð og óskilvirk aðferð við raforkuvinnslu. Þá var glapræði að afhenda Rússlandi allan spilastokkinn og banna jarðgasvinnslu ("fracking") og kjarnorkuver víða í Evrópu. Klóför græningjanna eru alls staðar sama markinu brennd. Til lengdar skaða þau vestræn samfélög. Annars staðar er lítið hlustað á bullið í þeim. Það á ekki að halda dýrum og óáreiðanlegum orkukostum að þjóðum, sem eiga langt í land með að byggja upp raforkukerfi sitt, og það er argasta hræsni að gera það í nafni loftslagsvár. Þessi mistök eru af svipuðu bergi brotin og þau að flýta orkuskiptum á Vesturlöndum, þótt tæknin sé ekki komin á viðunandi stig fyrir þau.
"Nú er lag að rifja upp reynslu indverska þorpsins Dharnai, sem Grænfriðungar einsettu sér árið 2014 að gera að fyrsta sólarorkusamfélagi landsins.
Augu allra fjölmiðla stóðu á Grænfriðungum, þegar þeir lýstu því yfir, að Dharnai neitaði að "falla í gildru jarðefnaeldsneytisiðnaðarins". Daginn, sem skipt var yfir í sólarorku, tæmdust rafhlöðurnar svo á fáeinum klukkustundum. Eftirminnileg er frásögn af dreng nokkrum, sem gat ekki sinnt heimanámi sínu, þar sem rafmagnið dugði ekki til að knýja eina lampa heimilisins.
Þorpsbúum var bannað að nota kæliskápa sína og sjónvarpstæki, þar sem raforkukerfið stæði ekki undir notkuninni. Ekki var heldur hægt að nota rafknúnar eldunarhellur, svo [að] fólkið neyddist til að snúa aftur í hitun með eldiviði, sem olli skelfilegri loftmengun. Um gervöll þróunarríkin deyja milljónir úr innanhússmengun, sem að mati Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar jafnast á við að reykja 2 pakka (af vindlingum] á dag."
Þetta er gott dæmi um skelfilegar afleiðingar þess að hleypa forræðishyggjufólki í hópi fúskara um orkumál að ákvarðanatöku. Þeir skoða engin mál til hlítar, vita vart, hvað áhættugreining felur í sér, en láta stjórnast af blindu hatri á því, sem þeir ímynda sér, að sé hættulegt, í þessu tilviki jarðefnaeldsneyti og í öðrum tilvikum kjarnorkan. Þess eru líklega engin dæmi, að ráð hjátrúarfullra fúskara hafi gefizt vel á nokkru sviði, sem skipta samfélag manna máli. Svipuðu máli gegnir um braskara, sem nota vilja uppboðsmarkað raforku til að græða. Í Noregi ætlar ríkisstjórnin að lina þjáningar raforkukaupenda með niðurgreiðslum á raforkukostnaði, en engu að síður er búizt við mikilli viðarbrennslu á norskum heimilum í vetur til upphitunar húsnæðis. Um rafmagn geta ekki gilt sömu viðskiptalögmál og um vörur, því að það er ekki hægt að safna saman og geyma í umtalsverðum mæli.
"Rafmagn, framleitt með sól og vindi, getur ekki staðið undir iðnaðarframleiðslu né knúið vatnsdælur, dráttarvélar og aðrar vélar - allt það, sem þörf er á til að leysa fólk úr fjötrum fátæktar. Eins og auðþjóðunum er nú að skiljast, eru þessir orkugjafar í grundvallar atriðum ekki til að treysta á. Sólarleysi og logn táknar rafmagnsþurrð. Rafhlöðutækni býður heldur engin svör. Þær rafhlöður, sem til eru í heiminum í dag, nægðu eingöngu til að standa undir orkunotkun heimsbyggðarinnar í 1 mín og 15 sek. Jafnvel árið 2030, í kjölfar umfangsmikillar rafhlöðuframleiðslu, yrði þessi tími ekki orðinn [lengri] en tæpar 12 mín. Til hliðsjónar má hafa vetur í Þýzkalandi, þegar sólarorkuframleiðsla er hvað minnst. Á sama tíma tíma koma [a.m.k.] 5 daga [samfelld] tímabil, rúmar 7000 mín, þegar framleiðsla vindorku er við 0."
Það liggur í augum uppi, að téðir orkugjafar einir og sér eru ónothæfir fyrir notendur, sem reiða sig á áreiðanlega raforkuafhendingu, þegar þeir þurfa á henni að halda, hvenær sem er sólarhringsins. Þar er komið að þeim eiginleikum raforkunnar, sem peningaumsýslumenn, sem hannað hafa markaðskerfi margra landa með raforku, og græningjar, sem predika bráðan heimsendi vegna losunar koltvíildis við bruna jarðefnaeldsneytis, hafa flaskað á: raforkuna verður að framleiða á sama andartaki og aflþörfin í tengdum búnað myndast. Annars rýrna gæði rafmagnsins til allra tengdra notenda á áhrifasvæði skortsins, og hætta getur myndazt á kerfishruni, ef ekki er brugðizt skjótt við.
"Hér eru komnar skýringarnar á því, hvers vegna auðugri þjóðir heimsins munu áfram reiða sig á jarðefnaeldsneyti um áratugi. Alþjóða orkustofnunin spáir því, að jafnvel þótt öll loftslagsumbótaloforðin verði efnd, muni jarðefnaeldsneyti enn verða uppspretta 2/3 hluta orku þessara þjóða árið 2050. Þróunarríkjunum dylst ekki hræsnin í orkuumræðunni, og e.t.v. hefur enginn orðað hlutina haganlegar en Yemi Osanbajo, varaforseti Nígeríu: "Engum í heiminum hefur auðnazt að iðnvæðast með endurnýjanlegri orku einni saman, [þó hafa Afríkuþjóðirnar] verið beðnar að gera það, þótt öllum öðrum í heiminum sé fullkunnugt, að við þurfum gasdrifinn iðnað fyrir viðskiptalífið.""
Þessi alhæfing Nígeríumannsins er röng. Svisslendingar, Norðmenn og Íslendingar iðnvæddust með því að knýja iðnverin með raforku úr vatnsaflsvirkjunum, og það má örugglega finna fleiri slík dæmi. Mikið óvirkjað vatnsafl er enn í Afríku, en sá hængur er á þessum virkjunum, að söfnun vatns í miðlunarlón bregst oftar í Afríku en í Noregi og á Íslandi. Þar með er kominn upp óstöðugleiki á framboðshlið, sem atvinnulífið má ekki við. Það er þó himinn og hafa á milli óstöðugleika raforkuframboðs frá vindorkuverum og sólarhlöðum annars vegar og vatnsorkuverum, a.m.k. hér norðan Alpafjalla, þar sem spáð er vaxandi úrkomu með auknum hlýindum.
Að setja upp vindorkuver á Íslandi er meinloka. Vindorkuver mundu hérlendis hafa hækkunaráhrif á raforkumarkaðinn, og þau draga úr aðdráttarkrafti íslenzkrar náttúru á innlenda og erlenda ferðamenn vegna augljósra lýta á landinu langar leiðir og óþægilegs hávaða. Vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir hafa hins vegar aðdráttarafl fyrir ferðamenn víða. Í upphafi skyldi endirinn skoða, en ekki apa allt eftir útlendingum, þótt þar séu aðstæður ósambærilegar orkuaðstæðum á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2022 | 10:50
Sókn eftir vindi
Vindorkuforkólfar sækja nú í sig veðrið og reyna að fá aukinn byr í seglin sökum þess, að orkustjórnkerfi landsins hefur brugðizt þeirri frumskyldu sinni að útvega þjóðinni næga orku hverju sinni til að halda uppi háu atvinnustigi í landinu og hagvexti. Þessa ásókn mátti t.d. greina í Morgunblaðinu 21. september 2022 undir fyrirsögninni:
"Tugmilljarða tekjur af vindorku".
Þar er greining á efnahagslegum áhrifum þessarar uppbyggingar, sem munu hafa komið fram í kynningu í Hljóðakletti í Borgarnesi 19.09.2021. Um er að ræða 9 vindorkuver á Vesturlandi að uppsettu afli 687 MW og orkuvinnslugetu 2885 GWh/ár á vegum Qair, Hafþórsstaða, Zephyr og EM Orku. Þessar tölur gefa til kynna áætlaðan nýtingartíma á fullu afli í 4200 klst/ár eða 48 % á ári að jafnaði, sem er ólíklegt að náist, enda verður að reikna með viðhaldstíma og viðgerðartíma, sem lækka munu þennan meðalnýtingartíma.
Ólíkt öðrum þjóðum hafa Íslendingar val um tvenns konar endurnýjanlegar orkulindir auk vindorku, og gefa þær báðar kost á ódýrari raforku en hægt er að fá úr vindorkunni. Vinnsla raforku með smáum og gríðarlega plássfrekum rafölum mun því fyrirsjáanlega hækka rafmagnsverð til almennings á Íslandi og mynda óeðlilega háan gróða hjá eigendum vatnsorkuvera og jarðgufuvera, þegar áform dótturfélags Landsnets um innleiðingu raforkukauphallar að hætti Evrópusambandsins (OP3) hafa rætzt. Þar ræður jaðarverðið, þ.e. næsta verðtilboð ofan þess hæsta, sem tekið er, ákvörðuðu verði fyrir tilboðstímabilið. Jaðarverðtilboðið mun væntanlega koma frá vindmylluþyrpingum, og þannig munu vindmyllueigendur verða mótandi fyrir verðmyndun á markaði, sem er fullkomlega óeðlilegt hérlendis.
Það er þó af landverndarástæðum, sem ótækt er að hleypa vindorkuframkvæmdum af stað í íslenzkri náttúru fyrr en samanburðarathugun hefur farið fram á milli virkjanakosta um landþörf í km2/TWh endingartímans (búast má við, að landþörf fyrir 687 MW vindmyllur nemi 35 km2). Þótt Ísland sé ekki þéttbýlt, eru landsmenn viðkvæmir fyrir gjörbreyttri landnýtingu, eins og orkulindanýting úr náttúru Íslands felur í sér. Þess vegna hlýtur þessi kennistærð, km2/TWh (landþörf m.v. orkuvinnslu á endingartíma virkjunar) að vega þungt, og þar með er hægt að skipa landfrekustu orkuverunum á orkueiningu aftast í röð við leyfisveitingar. Þar virðast vindorkuverin munu skipa sér í þéttan hnapp. Með sama hætti má reikna út kolefnisspor virkjunar með því að taka tillit til framleiðslu á helztu hlutum hennar, uppsetningar og rekstrar. Fljótt á litið skipa vindorkuverin sér þar efst á blað, og ekki bætir plastmengun spaðanna umhverfis vindmyllurnar úr skák. Vindmyllur eru þá ekki sérlega umhverfisvænar, þegar allt kemur til alls.
Hraði mylluspaðaendanna er svo mikill, að fuglar eiga erfitt með að forðast þá, ef þeir eru í grennd. Þessi mikli hraði veldur hvirflum og miklum hávaða, sem berst langar leiðir. Þetta er umhverfisbaggi, sem Íslendingar eiga ekki að venjast frá sínum hefðbundnu virkjunum.
Það er ekkert, sem mælir með leyfisveitingum til raforkuvinnslu af þessu tagi, á meðan fjöldi álitlegra kosta liggur enn ónýttur á formi vatnsafls og jarðgufu. Ásókn vindmyllufyrirtækja eftir framkvæmdaleyfum hérlendis er þess vegna tímaskekkja, og vonandi þurfa landsmenn aldrei að fórna miklu landi undir það gríðarlega umrót, sem vindmyllugarðar hafa í för með sér, enda verður komin ný orkutækni, þegar heppilegir virkjanakostir fallvatns og jarðgufu verða orðnir upp urnir.
Í téðri Morgunblaðsgrein voru tíundaðir tekjustraumar frá 9 vindorkuvirkjunum á Vesturlandi án þess að geta um áætlaðar heildartekjur á tímabilinu 2026-2052. Þeir voru tekjuskattur af raforkuframleiðendum, staðgreiðsla, útsvar til sveitarfélaga, tryggingagjald, umhverfis- og auðlindaskattur, fasteignagjöld og lóðaleiga. Vegna þess að vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir eru hagkvæmari rekstrareiningar en vindorkuver með svipaðri orkuvinnslugetu, hér 2885 GWh/ár, og miklu áreiðanlegri aflgjafar, þá er langlíklegast, að í heildina séð verði þessir tekjustraumar hærri frá hinum hefðbundnu virkjunum Íslendinga.
Frambærileg rök fyrir uppsetningu vindorkuvera á Íslandi eiga enn eftir að koma fram í dagsljósið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.10.2022 | 18:23
Iðnaðarframleiðsla í kreppu
Nú hefur hryggjarstykkið í illa ígrundaðri orkustefnu Þýzkalands og þar með Evrópusambandsins (ESB) verið sprengt í sundur í bókstaflegri merkingu og verður líklega aldrei sett saman aftur, því að sjór mun flæða inn í lagnirnar og tæra þær. Þar með er í vissum skilningi líftaugin á milli Rússlands og Þýzkalands brostin, en margir Þjóðverjar sáu hana bæði sem leið til að láta sár gróa eftir hildarleik og blóðugustu bardaga Síðari heimsstyrjaldarinnar á Austurvígstöðvum Þriðja ríkisins og illvirki á báða bóga, þar sem tilraun var gerð til að brjóta rússneska heimsveldið á bak aftur, og til eflingar viðskipta, sem væru báðum í hag. Rússneski björninn trúr útþensluhefð sinni undi hins vegar ekki því, að frelsisandi þjóðanna, sem brutust undan veldi hans við fall kommúnismans 1989-1991, fengi að blómstra. Nú er aftur barizt á banaspjótum í Úkraínu og hermdarverk framið úr kafbáti á botni Eystrasalts í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar. Það mun draga dilk á eftir sér. Sá, sem það framdi, lagði grunninn að átökum Austurs og Vesturs, sem lykta mun með falli annars eða beggja. Ragnarök eru í vændum.
Nú reynir mjög á þolrif Evrópuþjóðanna vegna dýrtíðar, samdráttar hagkerfa og líklegu vaxandi atvinnuleysi, sem við þessar aðstæður getur leitt til gjaldþrots margra fyrirtækja og fjölskyldna. Ofan í þessa stöðu var afar athyglivert að heyra haft eftir kanzlara Þýzkalands, kratanum Olaf Scholz, að nú þætti þýzku ríkisstjórninni brýnt til varnar frelsi Evrópuríkjanna, að þýzki herinn yrði sá stærsti og bezt vopnum búni í Evrópu. Það hefur gerzt áður, en undir öðrum formerkjum, en alltaf er ógnin úr austri undirtónninn.
Skyldi Litla-Napóleóni í Elysée-höllinni ekki hafa svelgzt á, þegar hann frétti þetta ? Það er gefið í skyn, að Evrópumenn verði að taka á sig auknar hernaðarlegar byrðar, því að Bandaríkjamenn muni í náinni framtíð þurfa að einbeita sér að Kyrrahafinu og að aðstoða Taiwan-búa við varnir eyjarinnar. Eftir þessa tímamótayfirlýsingu kanzlarans ætti hann að veita Græningjanum á stóli utanríkisráðherra og landvarnaráðherranum nauðsynlegan stuðning, svo að hinn vaxandi þýzki her veiti nú úkraínska hernum allan þann hernaðarstuðning, sem hann má og rúmast innan samþykkta NATO. Sá stuðningur felur í sér öflugustu þungavopn Bundeswehr á borð við Leophard 2 bryndrekann og loftvarnakerfi. Vesturveldin hljóta líka að drífa í afhendingu Patriot-loftvarnakerfisins til Úkraínu.
Þótt sverfi að Evrópuþjóðunum er það hátíð ein hjá því helvíti, sem Rússlandsstjórn og rússneski herinn hafa leitt yfir úkraínsku þjóðina. Þess vegna má ekki láta deigan síga í allra handa stuðningi við úkraínsku þjóðina, sem úthellir blóði sínu fyrir frelsi sitt og frelsi allrar Evrópu.
Iðnaðarframleiðsla dregst nú saman í Evrópu, og er þar bílaiðnaðurinn ekki undanskilinn. Spurn eftir rafmagnsbílum í Evrópu hefur hríðfallið, af því að nú er rafmagnið á bílana dýrara en jarðefnaeldsneyti m.v. sömu akstursvegalengd. Byggingariðnaðurinn er líka í lamasessi, og af þessum ástæðum hefur spurn eftir áli minnkað tímabundið og þar með álverð á LME-markaðinum í Lundúnum. Það berast hins vegar engar fregnir af fyrirætlunum álveranna þriggja hérlendis um að draga saman seglin, enda er LME-verðið nú um 2100 USD/t Al og spáð hækkandi á næsta ári. Fyrirtæki á borð við ISAL í Straumsvík, sem einvörðungu framleiðir sérpantaða vöru (ekkert selt til endurbræðslu), fær hærra verð en skráð LME-verð.
Þann 21. september 2022 skrifaði Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, atvinnulífsgrein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:
"Af orkuskorti, álframleiðslu og kolefnisspori".
Hún endaði þannig:
"Evrópsk álframleiðsla nær ekki að standa undir helmingi af eftirspurn eftir áli í Evrópu. Ísland og Noregur eru stærstu álframleiðendur innan Evrópska efnahagssvæðisins, en alls er framleitt ál í 15 Evrópulöndum, þ.á.m. Þýzkalandi og Frakklandi. Hér á landi búa álver við langtímasamninga, sem dregur úr sveiflum og áhættu bæði fyrir álver og innlend orkufyrirtæki. Hagstætt álverð hefur skilað viðsnúningi í rekstri íslenzkra álvera , og hafa orkufyrirtækin einnig notið góðs af því, en þau hafa skilað metafkomu síðustu misserin.
Á síðasta ári [2021] voru útflutningstekjur íslenzks áliðnaðar um mrdISK 300 eða fjórðungur af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Þar af nam innlendur kostnaður álvera mrdISK 123, en áætla má, að um helmingur af því hafi farið í orkukaup. Keyptar voru vörur og þjónusta fyrir mrdISK 35 af hundruðum innlendra fyrirtækja, laun og launatengd gjöld námu yfir mrdISK 20 til 1´500 starfsmanna, en alls eru bein og óbein störf um 5´000. Þá námu opinber gjöld mrdISK 3,4 og styrkir til samfélagsmála yfir MISK 100. E.t.v. er mest um vert, að losun á hvert framleitt tonn hér á landi er margfalt minni en í Kína, sem framleiðir yfir helming af öllu áli í heiminum. Það munar um íslenzkan áliðnað."
Eftir því sem álframleiðsla á meginlandi Evrópu og í Bretlandi dregst saman vegna ósamkeppnishæfrar orkuvinnslu, eykst mikilvægi íslenzkrar álframleiðslu fyrir evrópskan markað. Staða orkumála í Noregi er um þessar mundir óbjörguleg vegna þess, að raforkuframleiðendur hillast til að flytja raforkuna út um öfluga sæstrengi vegna svimandi hárrar verðlagningar á meginlandinu og Bretlandi. Þar með fá verksmiðjur Noregs enga raforku utan langtímasamninga, og hefur það leitt til framleiðslusamdráttar, t.d. hjá Norsk Hydro. Þessi staða mun halda áfram, þar til jafnvægi næst aftur á milli framboðs og eftirspurnar raforku, eða þar til Norðmenn taka orkumálin í eigin hendur og láta innlenda raforkukaupendur njóta forgangs umfram erlenda, en það er bannað í Orkupakka 3, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, minnti Norðmenn á það, þegar umræða fór fram um það í Stórþinginu.
Núverandi staða raforkumálanna í Noregi gengur þvert á hefðbundna afstöðu norsku þjóðarinnar til orkulindanna, sem er sú, að þær séu í þjóðareign, og norska ríkið eigi að geta beitt fullveldisrétti sínum til að stjórna nýtingu þeirra. Stjórnvöld Noregs hafa villzt af þeirri leið, sem mótuð var í upphafi, að miða raforkuverð frá virkjun við verðmæti vatnsins í miðlunarlónunum, sem er útreiknað eftir vatnsmagni og árstíma, þ.e. líkum á og kostnaði af völdum tæmingar að vori, ásamt hæfilegum hagnaði til að standa undir fjárfestingum. Árið 1993 var vikið frá þessari þjóðlegu stefnu og stofnað dótturfélag Statnetts, þeirra Landsnets, sem átti að stjórna raforkukauphöll, þar sem heildsöluverðið réðist af framboði og eftirspurn.
Nú er Landsnet statt í þessum sporum, en Norðmenn gengu enn lengra og seldu téð dótturfyrirtæki Statnetts til fjölþjóðlegrar orkukauphallar, Nord Pool. Síðan var rekinn endahnúturinn á valdaafsal norska ríkisins yfir orkulindunum með samþykki Stórþingsins 22. marz 2018 um innleiðingu ESB-orkulöggjafarinnar, sem gengur undir nafninu Orkupakki 3, og felur ACER-Orkustofu ESB, stjórnun millilandaviðskipta á raforku. Þessi óheillaþróun hefur leitt til mikillar dýrtíðar í Noregi og kippt fótunum undan samkeppnisstöðu hluta norsks atvinnulífs.
Hvers vegna í ósköpunum er Landsnet nú að feta þessa óheillabraut ? Rafmagn er undirstaða afkomu almennings í landinu, og landsmenn þurfa nú sízt á að halda afætuvæðingu í þessum geira, sem gera mun rafmagn að viðfangsefni kaupahéðna, sem fá aðstöðu til að maka krókinn án nokkurra verðleika til verðmætasköpunar. Steininn tekur úr, þegar allt þetta umstang er sett á laggirnar undir merkjum hagsmuna almennings. Þetta kerfi er svikamylla, sem malar ekki gull, heldur hrifsar það úr sjóðum fyrirtækja og heimila. Vítin eru til þess að varast þau.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)