Gjaldskrá dreifiveitna ríkisins þarfnast úrbóta

Það er ófært, að dreifiveitur, sem eru með einokunarleyfi, mismuni íbúum þéttbýlis og dreifbýlis á grundvelli mannfjölda á sama dreifiveitusvæði.  Ríkisveiturnar RARIK og Orkubú Vestfjarða gera þetta og miða við 200 manns, en HS Veitur láta ekki þessa ósvinnu líðast á sínum veitusvæðum í svipuðum mæli.  Úr ríkissjóði er varið fé til að jafna mikinn mun innan dreifiveitnanna, en samt munar um 1,7 ISK/kWh eða 33 % gjaldskrá orku á milli þéttbýlis og dreifbýlis.  Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra verður nú að gera gangskör að því að laga þetta í anda baksviðsgreinar Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 5. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:

"Erfitt að byggja upp í dreifbýli".

Hún hófst þannig:

"Ef menn vilja hafa gjaldskrá RARIK áfram, eins og hún er, er verið að taka meðvitaða ákvörðun um að byggja ekki upp í dreifbýli.  Í gjaldskránni felst þéttbýlisstefna, andstæðan við dreifbýlisstefnu.  Þetta er skoðun Gunnlaugs Karlssonar, framkvæmdastjóra Sölufélags garðyrkjumanna og stjórnarmanns í Samtökum fyrirtækja í landbúnaði."

Í ljósi þess, að við blasir, að þessi dapurlega ályktun Gunnlaugs er rétt, lýsir það óviðunandi slappleika núverandi og fyrrverandi orkuráðherra og andvaraleysi Alþingis í varðstöðu þess um jafnrétti landsmanna og jöfn tækifæri, að enn skuli viðgangast stórfelld mismunun af hálfu ríkisfyrirtækja gagnvart íbúum landsins eftir því, hvort þeir eða atvinnustarfsemi þeirra er staðsett, þar sem búa fleiri eða færri en 200 manns. 

Það er auðvitað líka ótækt, að færsla dreifikerfa úr lofti í jörð samhliða þrífösun sveitanna bitni á kostnaði dreifbýlisins til hækkunar við rafmagnsnotkun.  Afnám loftlína dreifikerfanna er sjálfsögð ráðstöfun til að jafna afhendingaröryggi raforku við þéttbýli, og þrífösun sveitanna er sjálfsagt réttlætismál, um leið og það er hagsmunamál sveitanna. 

"Gunnlaugur segir, að óréttlætið í gjaldskrá RARIK einskorðist ekki við garðyrkjuna, heldur alla starfsemi í dreifbýli á starfssvæði RARIK og Orkubús Vestfjarða og starfsemi, sem áhugi sé á að byggja þar upp. Hann bendir á, að mikill uppgangur sé í ferðaþjónustu um allt land og þörf á fjárfestingum í gistiplássi.  Gagnaver séu að byggjast upp og stækka sem og landeldi á laxi og tengd starfsemi.  Þá sé þörf á orkuskiptum í landinu.  Spyr hann, hvernig hægt sé að réttlæta það, að sá, sem hlaða vill rafmagnsbílinn sinn í Staðarskála þurfi að greiða hærra gjald en ef hann gerir það á Akureyri.  Fleira mætti nefna, kornþurrkun og bakarí eru dæmi, sem Gunnlaugur nefnir til viðbótar.  Með núverandi fyrirkomulagi sé meginhluti flatlendis Íslands útilokaður frá uppbyggingu af þessu tagi.  Öllu sé stefnt í þéttbýlið, sem ekki taki endalaust við." 

Ríkisdreifiveitur rafmagns ættu þegar í stað að hefja undirbúning að afnámi tvískiptingar gjaldskráa sinna fyrir afl og orku eftir fjölmenni á staðnum, þ.e. sameiningu almennrar  gjaldskrár fyrir afl og orku og síðan aðgreiningu eftir skerðingarheimild, tíma sólarhringsins og orkumagni í viðskiptum.  Ef heimtaug er yfir ákveðnum mörkum að stærð og lengd, sé jafnframt heimild til álagningar viðbótar stofngjalds. 

Ef tregða reynist hjá fyrirtækjum og/eða ráðuneyti orkumála að hefja þetta starf strax, grípi Alþingi inn með viðeigandi þingsályktun. Alþingi á ekki að láta þetta sleifarlag á sjálfsagðri umbót í sanngirnisátt viðgangast lengur. Hvað er grasrótarráðherrann í orkuráðuneytinu að dóla.  Grasrótardálæti hans var reyndar ekki fyrir að fara á deilunum um Orkupakka 3, sem hann tróð öfugum ofan í grasrótina í Sjálfstæðisflokkinum.  Orð og efndir fara ekki saman hjá þessum fallkandidati í formannskjöri á Landsfundi í nóvember 2022. 

Að lokum sagði í þessari þörfu baksviðsfrétt Morgunblaðsins:

"Vegna úreltrar skiptingar landsins í gjaldsvæði er engin starfsemi, sem þarf umtalsverða raforku, byggð upp, nema hægt sé að koma því við í þéttbýli, að sögn Gunnlaugs.  Þar eru ýmis vandkvæði vegna skipulags og íbúðabygginga. 

Gunnlaugur segir, að ráðamenn virðist ekki átta sig á afleiðingum þessarar gjaldskrárstefnu og kominn tími til, að þeir og fulltrúar í sveitarstjórnum setji sig inn í þessi mál og bregðist við.  Hann nefnir sem möguleika að skipuleggja græna iðngarða, eins og gert er í Noregi.  Það hefði þá kosti, að til væri skipulagt svæði, sem myndi gefa fyrirtækjum kost á að hefja uppbyggingu fyrr en ella. Eins þyrftu gjaldskrár rafmagns, hitaveitu og vatnsveitu að vera þær sömu, hvar sem iðngarðarnir væru staðsettir, og taka aðeins mið af raunkostnaði við að flytja orkuna [og vatnið] þangað. [Rekstrarkostnaðarmun, sem eru aðallega meiri orkutöp og dælukostnaður vatns, á einfaldlega að fella inn í sameiginlega gjaldskrá - innsk. BJo.]

Önnur lausn á málinu er að afnema sérleyfi RARIK og Orkubús Vestfjarða til að dreifa orku raforku í dreifbýli og gefa dreifinguna frjálsa, eins og raforkusalan sjálf er nú þegar."  

S.k. ráðamenn hafa fæstir skilning á afleiðingum ráðstafana sinna, tilskipana og reglugerða, fyrir atvinnulífið, enda eru þeir þá úr öðrum jarðvegi komnir.  Hér snýst málið hins vegar um það einfalda meginatriði, að ríkisvaldið og fyrirtæki ríkisins mismuni ekki íbúum landsins eftir búsetu.  Sama dreififyrirtæki á að vera óheimilt að beita mismunandi gjaldskrám eftir staðsetningu viðskiptavinar, sem getur ekki leitað annað um viðskipti. Ef fyrirtæki þrjózkast við að verða við þessu, á að svipta það einokunarleyfinu.    


Sitt sýnist hverjum um vindmyllur

Framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun reit grein í Morgunblaðið þann 3. nóvember 2022 og upplýsti þar lesendur blaðsins um, að "á dögunum" hefði Landsvirkjun sent Orkustofnun umsókn sína um  virkjunarleyfi vinds með vindmylluþyrpingu, sem fyrirtækið nefnir Búrfellslund og á að verða 120 MW að uppsettu afli (á að gizka 30 vindmyllur). Það er ankannalegt, að þetta ríkisfyrirtæki skuli ríða á vaðið með þrýsting á yfirvöld orkumála um leyfi til að reisa og reka vindmylluþyrpingu á landinu áður en boðuð löggjöf um slík mannvirki lítur dagsins ljós.

Landsvirkjun beitir fyrir sig röksemdum um, að afl- og orkuskortur hrjái landsmenn nú þegar, sem er alveg rétt, og hann mun fara versnandi með hverju árinu, sem líður án nýrrar, áreiðanlegrar virkjunar, eins og Hvammsvirkjunar í Neðri-Þjórsá, inn á netið.  Landsvirkjun segir þó ekki alla söguna í þessum efnum, því að mest knýjandi þáttur vandans er aflskorturinn, og það er ekki hægt að reiða sig á vindmylluþyrpingu til að standa undir toppálagi stofnkerfisins.  

Að ríkisfyrirtækið skuli réttlæta hæsta fórnarkostnað á MWh á formi landspjalla í samanburði við þá kosti jarðgufu- og vatnsaflsvirkjana, sem fyrirtækið hefur úr að spila, er óverjandi. Ríkisfyrirtækið bítur síðan hausinn af skömminni með því að setja virkjanakost með hæsta vinnslukostnað raforku í ISK/kWh á oddinn.  Allt þetta brölt Landsvirkjunar er ógæfulegt, því að það rýrir orðspor þess sem vistvæns orkufyrirtækis og rýrir arðsemi þess eða veldur aukinni hækkunarþörf á heildsöluverði raforku til almenningsveitna. 

Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun, fékk birta grein eftir sig í Morgunblaðinu 3. nóvember 2022 undir fyrirsögninni:

 "Við þurfum vind fyrir orkuskiptin".

  Þar fór hann m.a. nokkrum orðum um rafmagnsskortinn í landinu, sem er í sjálfum sér þungur áfellisdómur yfir orkuyfirvöldum og orkustefnu landsins.  Orkustofnun sefur á 17 mánaða gamalli virkjunarumsókn  Landsvirkunar vegna Hvammsvirkjunar, en þess verður ekki vart, að orkuráðherrann ýti við orkumálastýrunni, svo að hún vakni til raunveruleikans.  Skyldu fundir hennar með ACER (Orkustofu ESB) nokkuð fjalla um afköst Orkustofnunar við afgreiðslu virkjanaleyfa á tíma, þegar Evrópa er í orkusvelti ?:

 "Skortur á raforku er orðinn hamlandi þáttur fyrir eðlilega atvinnustarfsemi í landinu, jafnvel þótt þörfin vegna orkuskipta sé ekki tekin með í reikninginn.  Skerða þurfti orkusölu til fjölmargra notenda síðasta vetur [2021-2022], þar sem ekki var til nægileg orka í samfélaginu til að uppfylla þarfir þeirra."

Vatnshæð Þórisvatns er nú um 3 m hærri en á sama tíma í fyrra, en samt undir meðaltali.  Vatnshæð Hálslóns er svipuð og að meðaltali.  Það er líklegt, að atvinnuvegirnir og fjarvarmaveiturnar losni við álagsskerðingar næsta vetur, en það er þó ekki öruggt, af því að það vantar aflgetu í kerfið.  Það er villandi af Landsvirkjun að láta í það skína, að vindmylluþyrpingar séu lausn á þessari knöppu stöðu, einfaldlega af því að það er ekki á vísan að róa með aflgetu vindmylla.  Það er ekki hægt að selja afl frá vindmylluþyrpingu fram í tímann, nema sem ótryggt afl með skerðingarheimild. Þess vegna er alvarlegt afl- og orkuástand í landinu núna engin röksemd fyrir yfirvöld til að þjófstarta vindmylluverkefnum.  Yfirvöldin eiga hins vegar að hrista af sér slenið og greiða leið annarra umsókna um virkjanaleyfi. 

Í lokin skrifaði Einar:

"Ef við ætlum að ná markmiðum stjórnvalda um orkuskipti fyrir árið 2030, er okkur ekki til setunnar boðið.  Í orkugeiranum verður að hugsa til langs tíma, enda er undirbúningur og bygging virkjana tímafrekt verkefni, sem talið er í árum.  Ef allt gengur að óskum, verður í fyrsta lagi mögulegt að tengja Búrfellslund við raforkukerfið í árslok 2025."

Markmið íslenzkra yfirvalda um minnkun losunar koltvíildis hefur alla tíð skort raunsæi, og nú er nokkuð ljóst, að engri þjóð mun takast að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu 2015, og fáir taka þetta orðagjálfur stjórnmálamanna alvarlega lengur.  Nú er viðfangsefni margra að lifa veturinn af með góðu eða illu, og margir grípa þá til óhollrar viðarkyndingar.  Hérlendis ætti ríkisfyrirtæki ekki að ganga á undan með illu fordæmi um að spilla víðernum með miklum fórnarkostnaði í samanburði við ávinninginn með þeim rökum að ná þurfi loftslagsmarkmiðum, sem þegar eru komin í vaskinn.  


Af framtíð heimsins

Enn á ný er barizt á banaspjótum út af yfirráðum lands í Evrópu og stjórnarfyrirkomulagi í því landi og víðar, í þessu tilviki einræði að rússneskri fyrirmynd eða lýðræði að vestrænum hætti.  Úkraínumenn hafa sýnt það að fornu og nýju, að þjóðfélagsleg viðhorf þeirra eru gjörólík Rússanna.  Úkraínumenn eru einstaklingshyggjumenn, sem er annt um frelsi sitt og lands síns og eru búnir að fá sig fullsadda á yfirráðum Rússa og frumstæðum stjórnarháttum þeirra.

  Úkraínumenn ganga ekki að því gruflandi núna, að þeir verða hnepptir í þrældóm, ef Rússar munu ná fram vilja sínum á þeim. Rússar eru forræðishyggjumenn, sem taka festu og stöðugleika í þjóðfélaginu fram yfir persónulegt frelsi sitt.  Þeir hafa jafnan í sögunni sýnt sínum zar hollustu. Hafi þeir velt honum, hafa þeir einfaldlega tekið sér nýjan zar.

Núverandi zar, sem af tali sínu og gjörðum að dæma gengur alls ekki heill til skógar, stundar nú þjóðarmorð í Úkraínu og er einn grimmasti stríðsglæpamaður seinni tíma. Hann hefur opinberað veikleika rússneska hersins á vígvellinum og með framferði sínu innan lands og utan skipað Rússlandi á ruslahauga sögunnar. Nú eru Pótemkíntjöldin fallin og eftir stendur agalítill og lítt bardagahæfur her án góðrar herstjórnar og herskipulags, sem níðist miskunnarlaust á varnarlausum óbreyttum borgurum.  Með falli téðra Pótemkíntjalda opinberast um leið siðblinda Kremlarherra, sem vekur fyrirlitningu um allan heim, einnig á meðal undirsáta Rússanna innan ríkjasambandsins.   

Úkraínska þjóðin er nú með eldskírn sinni endurfædd til sögunnar.  Hún hefur skipað sér í raðir vestrænna ríkja og ætlar að reka ræfildóminn úr austri í eitt skipti fyrir öll af höndum sér.  Vonandi hafa Vesturveldin manndóm í sér til að standa svo myndarlega við bakið á hinni hugdjörfu og einbeittu úkraínsku þjóð, að henni takist ætlunarverk sitt í nafni fullveldis, frelsis og lýðræðis, og vonandi ber NATO-ríkin gæfa til að veita Úkraínu vernd gegn látlausum yfirgangi úr austri með því að veita landinu aðild að varnarsamtökum vestrænna ríkja.  Að láta einræðisherrann í Kreml ráða því, hvaða lönd eru tekin inn í NATO að þeirra beiðni, gengur ekki lengur. 

Hryðjuverkamennirnir við stjórnvölinn í Rússlandi nútímans reyna nú í vanmætti sínum á vígvellinum að sprengja íbúa Úkraínu langt aftur í aldir og svipta þá lífsnauðsynjum s.s. vatni og rafmagni.  Þetta er gjörsamlega ófyrirgefanleg hegðun nú, þegar vetur gengur í garð.  Orkuskorts gætir líka um alla Evrópu.  Evrópa sýpur nú seyðið af draumórum sínum um, að gagnkvæmir hagsmunir vegna viðskiptatengsla ráði meiru um stefnumörkun í hefðbundnu einræðisríki en aldalöng útþensluhefð ríkisins. 

Það, sem á við um Þýzkaland í þessu samhengi, á einfaldlega ekki við um Rússland, og við mun taka áralöng einangrun Rússlands fyrir vikið. 

Um alla Evrópu, nema á Íslandi, mun verða gripið til viðarkyndingar í vetur til að halda lífi, og kolaorkuver hafa verið endurræst.  Það hillir ekki undir, að markmið Parísarsamkomulagsins náist árið 2030, enda fer losun flestra ríkja á koltvíildi vaxandi. 

Við þessar ömurlegu aðstæður og misheppnaða stefnumörkun stjórnmálamanna á flestum mikilvægustu sviðum tilverunnar, er hressandi að lesa boðskap Björns Lomborg, sem andæfir bölmóði heimsendaspámanna  með talfestum rökum. Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 22.10.2022 undir fyrirsögninni: 

"Af svartagallsrausi heimsendaspámanna".

Þar gat m.a. þetta að líta:

  "Ósköpin dynja á okkur í síbylju, hvort sem þar er á ferð seinasta hitabylgja, flóð, skógareldar eða gjörningaveður.  Engu að síður sýnir sagan okkur, að síðustu öldina hafa válynd veður haft æ minni áhrif á mannskepnuna.  Á 3. áratug síðustu aldar lézt 1/2 M [manns] af völdum veðuröfga, en aðeins 18 k allan síðasta áratug [þ.e. þ.e. 3,6 % af fjöldanum fyrra tímabilið - innsk. BJo].  Árin 2020 og 2021 kröfðust svo enn færri mannslífa á þessum vettvangi.  Hvers vegna ?  Jú, vegna þess að því loðnara sem fólk er um lófana, þeim mun öruggar býr það."

Nú eru strax fluttar fréttir af vettvangi með myndaefni, þar sem veðuröfgar verða.  Fjölmiðlum hættir mjög til að gera mikið úr frásögnum sínum í sögulegu samhengi og kenna síðan hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum um.  Þetta er innistæðulaus bölmóður, hræðsluáróður, ætlaður til að koma sektarkennd inn hjá almenningi, hræða hann til að breyta neyzluvenjum sínum og lifnaðarháttum. Allt væri það unnið fyrir gýg. Samkvæmt gervihnattamælingum er hlýnun andrúmsloftsins miklu minni en IPCC (Alþjóðaráð Sþ um loftslagsbreytingar) heldur fram í skýrslum sínum og hleypir þar engum gagnrýnisröddum að.  Öfgar veðurfarsins eru iðulega ýktar í sögulegu tilliti og sérstaklega afleiðingar þeirra, eins og Björn Lomborg er óþreytandi við að rekja: 

"Sjónvarpsfréttir, sem fjalla um veður, gefa hins vegar til kynna, að allt sé á heljarþröm.  Það er rangt.  Árið 1900 var fátt talið eðlilegra en 4,5 % alls þurrlendis á jörðunni brynni ár hvert.  Síðustu öldina er þetta hlutfall komið niður í 3,2 %.  Sé að marka myndir frá gervihnöttum, hefur hlutfallið enn minnkað á síðustu árum.  Í fyrra var það 2,5 %.  Rík samfélög fyrirbyggja eldsvoða; svo einfalt er það.  Spár gera ráð fyrir því, að við lok þessarar aldar [21.] verði brunar enn færri, hvað sem hnattrænni hlýnun líður."

Fréttamenn hafa tilhneigingu til að slengja fram getgátum einum sem staðreyndum án þess að grafast fyrir um hinar raunverulegu staðreyndir.  Ef þeir ná óskiptri athygli "fréttaneytenda" í nokkrar mínútur, eru þeir nokkuð ánægðir með vaktina.  Fyrir vikið úir og grúir af misskilningi og rangfærslum, og allt er hengt á hlýnun af mannavöldum.  Úr henni er of mikið gert, og við á Norðurlöndunum getum nánast engin áhrif haft á koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, sem er meintur sökudólgur, en hvað með önnur efni þar ? Öll er þessi saga of áróðurskennd og æsingakennd til að vera trúverðug, enda eru menn á borð við Björn Lomborg búnir að höggva stór skörð í trúverðugleikann. 

"Ekki dregur þó úr veðurtjóni einu þrátt fyrir spár um annað.  Ekki er nema áratugur síðan umhverfisverndarfólk boðaði endanlegan dauða stóra kóralrifsins við Ástralíu vegna loftslagsbreytinga.  Brezka blaðið Guardian ritaði jafnvel minningargrein um það.  Nú hafa vísindamenn hins vegar sýnt fram á, að rifið er í góðum gír - raunar betri en síðan 1985.  Þau skrif las auðvitað enginn." 

 Það væri til að æra óstöðugan að afsanna allan fullyrðingaflauminn, sem streymir frá froðuframleiðendum, sem kenna sig við umhverfisvernd, og eru illa að sér um lögmál náttúrunnar og hafa hvorki getu né vilja til að kynna sér þau mál til hlítar, sem þau gaspra um í tíma og ótíma.  Þarna tíundar Björn Lomborg eitt dæmið, en hann hefur hrakið marga bábiljuna úr smiðju þeirra.  Verst er, að hræðsluáróður dómsdagsspámanna nær eyrum stjórnmálamanna á Vesturlöndum, sem við stefnumörkun sína, t.d. í orkumálum, hafa mótað stefnu, sem er ekki aðeins vita gagnslaus og kostnaðarsöm, heldur einnig stórhættuleg fyrir lífsafkomu almennings í bráð og lengd. 

"Önnur algeng tækni umhverfisverndarsinna var að nota myndir af ísbjörnum í áróðursskyni.  Meira að segja var þeim beitt í kvikmynd Al Gore, Óþægilegur sannleikur.  Raunin er hins vegar sú, að ísbjörnum fjölgar.  Á 7. áratuginum [20. aldar] voru þeir [á] milli 5 og 10 þús., en eru í dag um 26 þús. að öllu töldu.  Þetta eru fréttir, sem við fáum aldrei.  Þess í stað hættu sömu umhverfisverndarsinnar bara hægt og hljótt að nota ísbirni í áróðri sínum."

Þegar þekking og yfirsýn ristir grunnt, gerist einmitt þetta, sem Björn Lomborg lýsir.  Ísbjörninn þarf aðgang að sjó til að leita ætis.  Þess vegna hefst hann við nálægt ísröndinni.  Sú ísrönd færist til eftir árstíðum, árum, áratugum og öldum.  Á norðurhveli hefur áður verið hlýrra en nú, t.d. á blómaskeiði víkinganna, þegar Ísland var numið.  Ísbjarnarfjölskyldur hafa væntanlega dafnað vel þá í miklu æti ekki síður en nú.  Hvernig fengu unhverfiskjánarnir þá flugu í höfuðið, að afkoma ísbjarna væri bundin við breiddargráðu ?  Ísbjörninn er stórkostlegt dýr, sem hefur alla tíð þurft að aðlagast breytilegu umhverfi. 

Síðan bendir Björn okkur vinsamlegast á, að kuldi sé manninum meiri skaðvaldur en hiti, og það á alveg sérstaklega vel við núna í orkuskortinum í Evrópu, þegar sumir hafa ekki efni á að kynda og hafa ekki aðgang að eldiviði:

"Á sama tíma horfum við fram hjá stærri vandamálum.  Lítum á alla athyglina, sem hitabylgjur hljóta í Bandaríkjunum og víðar. Dauðsföllum af völdum hita fækkar einmitt í Bandaríkjunum, aðgangur að loftkælingu hjálpar meira en hár hiti skaðar.  Kuldi kostar hins vegar mun fleiri mannslíf.  Í Bandaríkjunum einum deyja 20 k [manns] á ári vegna hita, en 170 k [manna] vegna kulda - við spáum ekkert í það.  Dauðsföllunum vegna kulda fjölgar í Bandaríkjunum, en við einblínum á hlýnun jarðar vegna þess, að stjórnmálamenn tönnlast á grænum lausnum, sem gera ekkert annað en að hækka orkuverð með þeim afleiðingum, að færri hafa efni á kyndingu.  Við skellum skollaeyrunum við því, hvar við gætum í raun hjálpað mest."  

Það er athyglisvert, að í BNA deyja næstum áttfalt fleiri úr kulda en hita.  Það má ætla, að ýmist sé það fólk, sem hefur ekki efni á að kynda húsnæði sitt, eða útigangsfólk.  Á Íslandi er líka útigangsfólk, sem hefur króknað úr kulda, en sem betur fer eru landsmenn langflestir í þeirri stöðu að hafa aðgang að orku á viðráðanlegu verði, svo að þeir geti haldið á sér nægilegum hita í verstu vetrarhörkunum.  Hættan er hins vegar sú, að ekki sé fjárfest nægilega í tæka tíð til að hindra, að framboðið ráði ekki við eftirspurnina.  Þetta kann að eiga við um hitaveitur vegna mikillar mannfjölgunar og rafmagn vegna vanfjárfestinga í nýjum virkjunum.  Kveður svo rammt að hinu síðar nefnda núna, að klárlega má segja, að orkuyfirvöldin fljóti sofandi að feigðarósi.   


Vinnumálalöggjöfin er barn síns tíma

Furðulegar uppákomur í verkalýðshreyfingunni hafa dregið athyglina að rotnun hennar.  Úrelt löggjöf um vinnumarkaðinn, sem að uppistöðu til er frá krepputíma 4. áratugar 20. aldarinnar, á sinn þátt í þessari hrörnun.  Hluti þessarar löggjafar, eins og sá, er varðar raunverulega aðildarskyldu að stéttarfélagi, er gjörsamlega út úr kú, þegar hann er borinn saman við mannréttindaákvæði samtímans og löggjöf annarra vestrænna landa um sama efni.  Steingervingsháttur vinstri flokkanna hefur hindrað umbætur á þessu sviði, og vitnar hann um afturhaldseðli þessara stjórnmálaflokka og hræsni, því að þeir mega vart vatni halda í hverri viku yfir meintum mannréttindabrotum einhvers staðar í heiminum, einkum hérlendis gagnvart hælisleitendum. 

 Nú reyna nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að rjúfa stöðnunina á þessu sviði, og er það löngu tímabært, en þeir hafa fengið skít og skömm fyrir frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ).  Hvað skyldi bankadrottningin, sem nú hefur tekið við formennsku í  "Jafnaðarflokkinum", hafa um þessa nútímavæðingu hluta af íslenzkri vinnulöggjöf að segja ?  Hætt er við, að þar á bæ hafi bara orðið umbúðaskipti fyrir ímyndina, og að þar sé enn á ferðinni gamalt vín á nýjum belgjum.

Í 2. grein lagafrumvarps sjálfstæðisþingmannanna segir:

"Launamenn og vinnuveitendur skulu hafa rétt til þess að stofna og ganga í þau stéttarfélög, sem þeir kjósa, og eru einungis háðir reglum hlutaðeigandi félaga um inngöngu í það.

Óheimilt er að draga félagsgjald af launamanni eða skrá hann sem félagsmann í stéttarfélag, nema með skýru og ótvíræðu samþykki hans.  Óheimilt er að skylda mann til að ganga í tiltekið stéttarfélag."

Þetta, sem virðist sjálfsagt og eðlilegt á 21. öldinni, líta verkalýðsforingjar á sem aðför að frelsi sínu til að ráðskast með alla á sínu fagsviði og svæði.  Þarna er sem sagt stungið á kýli verkalýðshreyfingarinnar, sem verður að fá að vessa úr, ef þessi hreyfing á að eiga sér viðreisnar von í samtímanum.  Þegar formaður Starfsgreinasambandsins sér sig knúinn til að biðja umbjóðendur sína afsökunar á því í beinni útsendingu sjónvarps, hvað sé að gerast á Alþýðusambandsþingi, þegar þar fór allt í háaloft í haust, er ljóst, að ASÍ hefur rotnað innan frá vegna einokunar verkalýðsfélaganna á vinnumarkaðinum í skjóli löggjafarinnar, sem sjálfstæðismenn vilja nú hleypa hleypa nútímanum að.

Til þess enn frekar að herða á rétti launamanna til félagafrelsis á vinnumarkaði stendur þetta í 3. grein frumvarps sjálfstæðismannanna:

"Vinnuveitanda er óheimilt að synja að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á grundvelli félagsaðildar hans.

Vinnuveitanda er óheimilt að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á þeim grundvelli, að hann standi utan félags eða félaga."

Þarna er lögð rík áherzla á, að það séu mannréttindi launamanns að ákveða sjálfur án afskipta atvinnurekandans, hvort hann gangi í stéttarfélag eða ekki.  Þetta er í takti við tíðarandann um einstaklingsfrelsi á Vesturlöndum, og allt annað er arfleifð kommúnisma eða þjóðernisjafnaðarstefnu, sem tröllriðu húsum í Evrópu og víðar á þeim tíma, þegar grunnurinn að núgildandi vinnulöggjöf var mótaður.  Að hanga á þessum forréttindum stéttarfélaga um forgangsrétt stéttarfélagsfélaga að vinnu ber dauðann í sér fyrir vinnumarkaðinn, sérstaklega stéttarfélögin, þar sem félagsáhuginn er lítill sem enginn, og hvatinn til að gæta langtímahagsmuna félagsmanna er hverfandi vegna einokunaraðstöðu verkalýðsfélaganna.  Þess vegna komast valdagráðugir slagorðakjánar til valda í verkalýðsfélögunum, oft á tíðum raunveruleikafirrt fólk með sáralítinn eða engan skilning á gangverki efnahagslífsins, fólk, sem afneitar efnahagslegum og fjárhagslegum staðreyndum, en setur í staðinn fram heimskulegar kenningar og gagnrýni á Seðlabankann, sem ná engri átt og þjóna engan veginn hagsmunum umbjóðenda þeirra, launþeganna. 

Morgunblaðið fjallaði um þetta mál í forystugrein 28.10.2022 undir fyrirsögninni:

 "Félagafrelsi".

Þar var getið um taugaveiklunarkennd viðbrögð fyrsta miðstjórnarfundar ASÍ eftir að þing þess splundraðist af ástæðum, sem nokkra vinnustaðasálfræðinga þarf til að greina, en þeir munu áreiðanlega ekki ráða bót á vandanum, því að hann liggur í því heiftarlega ófrelsi, sem ríkir á vinnumarkaðinum og snertir raunverulega skylduaðild að verkalýðsfélögum.  Hún drepur niður áhugann innan félaganna og greiðir leið furðufugla til valda þar:

"Í gær gerðist það t.a.m., að miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti sérstaka ályktun um fyrrgreint frumvarp og lýsti þar yfir "mikilli furðu á framkomnu frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði".  Í ályktuninni segir, að verkalýðshreyfingin hafi "engan hug á að láta sérvizku jaðarhóps stjórnmálamanna hafa áhrif á þá kjarnastarfsemi sína" að vinna að bættum kjörum launafólks."

Þessi ályktun miðstjórnarinnar er alveg eins og út úr kú.  Hún er þóttafull einkunnargjöf til hóps þingmanna, sem enginn, nema afneitarar staðreynda í hópi furðufugla verkalýðshreyfingarinnar, hefur komið til hugar að kalla jaðarhóp.  Margur heldur mig sig, enda er vægt til orða tekið, að svartagallsrausarar miðstjórnarinnar séu jaðarhópur á Íslandi samtímans. 

Síðar stóð í téðri forystugrein:

"Þetta er raunar ekki meiri sérvizka en svo, að nánast öll vestræn ríki hafa bannað forgangsréttarákvæði kjarasamninga, enda ganga þau gegn hugmyndum um raunverulegt félagafrelsi.  Eins og Óli Björn Kárason, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, benti á í framsöguræðu sinni á þingi, er markmiðið með frumvarpinu að tryggja, að íslenzkt launafólk búi við sömu réttindi og launafólk í nágrannalöndunum. Frumvarpið er "ekki róttækara en það", eins og hann benti á, og bætti við:"Við erum að tryggja íslenzku launafólki sömu réttindi og launafólk hefur í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og öðrum þeim löndum, sem við viljum gjarnan bera okkur saman við".  

Heiftarleg viðbrögð Alþýðusambands Íslands eru mikið umhugsunarefni og eru enn ein vísbendingin um, að stéttarfélögin eru úr tengslum við félagsmenn sína. Þetta kemur fram í sérhverjum kosningum um forystu í þessum félögum, þar sem þátttaka er jafnan sáralítil, og þetta kemur fram í baráttu þessarar forystu, sem iðulega gengur þvert gegn hagsmunum félagsmannanna." 

Verkalýðshreyfingin er helsjúk, eins og uppnám út af engu á ASÍ-þinginu í haust sýndi, en þar gerðu nokkrar prímadonnur þingið óstarfhæft.  Þessi sýki eða úrkynjun stafar af einokunarstöðu verkalýðsfélaganna á vinnumarkaðinum, sem flutningsmenn téðs frumvarps á Alþingi vilja afnema og færa þar með þennan hluta vinnulöggjafarinnar til nútímahorfs.  Fróðlegt verður að sjá afstöðu Viðreisnar, sem aldrei lætur af skjalli sínu á Evrópusambandinu (ESB), en frumvarp sjálfstæðismannanna er í samræmi við stefnu ESB og aðildarlandanna í þessum efnum.  Þá verður athyglisvert að virða fyrir sér bankadrottninguna, sem nú hefur setzt í hásæti Samfylkingarinnar-Jafnaðarflokks og vill afla sér ímyndar ferskra, nútímalegra strauma í stjórnmálunum.  Er það bara í nösunum á henni ? Verður hún ígildi Tonys Blair, formanns brezka Verkamannaflokksins, fyrir misheppnaða Samfylkingu ?  Þá þarf hún á talsverðu hugrekki að halda.  Hefur hún það ? 

 

  


ACER herðir tökin á Noregi

Það var gæfa fyrir Ísland, að aflsæstrengurinn, sem búið var að setja á forgangslista orkuverkefna ESB-ACER, var tekinn út af þeim lista að ósk íslenzkra stjórnvalda í aðdraganda lokaumfjöllunar Alþingis á OP3 (þágildandi orkulöggjöf ESB, OP4 er núgildandi) sumarið 2019.  Annars gæti farið að styttast í svipaðar orkuhremmingar á Íslandi og gengið hafa yfir Norðmenn og valdið þeim gríðarlegum kostnaðarauka og aukið hjá þeim verðbólguna.  Þess vegna er fróðlegt fyrir áhugasama hérlendis að kynna sér, hver þróun samskipta Norðurlandanna við ESB-ACER er á orkusviðinu.

Hjá ACER er nú til athugunar tillaga frá kerfisstjórum aðildarlanda EES-Evrópska efnahagssvæðisins, þ.á.m. Statnett í Noregi, um að fella þann hluta Noregs, sem er á áhrifasvæði millilandatenginga fyrir raforku, þ.e. Suður-og Austurlandið, inn í stórt fjölþjóðlegt orkuflutningssvæði, sem ætlað er að einfalda útreikninga með samræmdri aðferðarfræði á orkugetu og orkuflutningsgetu stórsvæðisins. Jöfnunarorkumarkaður verður þá sameiginlegur fyrir stórvæðið. Samhliða þessu vinnur ACER með tillögu að nýjum reglum um orku og flutningsgetu til ráðstöfunar samkvæmt langtíma orkusamningum, en tilhneigingin hefur verið að draga úr umfangi þeirra.  Slíkt hentar Íslandi og Noregi illa. 

Áfangaskipt samræming orkumarkaða Orkusambandsins felur í sér svæðisbundnar lausnir sem bráðabirgða skref í átt að fyrirætluninni um heildarsamræmingu, eins og getið er um í viðkomandi reglugerð í OP4 (Orkupakka 4). Það hlýtur að vera kaldranalegt fyrir Norðmenn að vinna að þessu í ljósi þess, að OP4 hefur ekki lagagildi í Noregi, og flestir gera sér ljóst, til hvers refirnir eru skornir, og ófæran blasir nú þegar við í Noregi. 

Noregi mun verða gert að ráðstafa enn meiri orku- og flutningsgetu til þessa sameiginlega orkumarkaðar.

Núna eru 8 orkuviðskiptasvæði í ESB.  Hjá ACER stendur vilji til, að norsku uppboðs- og verðsvæðin verði á norræna og Hansa-svæðinu, þ.e.a.s. með Þýzkalandi, Hollandi, Póllandi og Lúxemborg auk Svíþjóðar og Danmerkur.  Hjá ACER er því haldið fram, að þessi sameining markaðssvæða Noregs við Hansa-sambandið muni leiða til aukinnar "velferðarþróunar", sem er kaldhæðnisleg ályktun frá norsku sjónarhorni.

Í raun þýðir þessi skipulagsbreyting, að Noregur verður skyldaður til að ráðstafa enn stærri hluta flutningsgetu raforku til útlanda til Innri markaðar ESB og þeirra reglna, sem þar eiga við.  Aðferðarfræðin þar er s.k. flot.  Það þýðir, að þar ræður markaðurinn alfarið ferðinni, en stjórnvöld mega engin afskipti hafa af þeim viðskiptum. 

Að Noregur skuli sogast sífellt sterkar inn á Innri markaðinn, er bein afleiðing af, að sumarið 2021 samþykkti Stórþingið 4 reglugerðir, sem boðaðar voru í OP3 og koma í rökréttu framhaldi af honum.  Þær eru í samræmi við ákvæði í OP4. Alþingi hlýtur að hafa samþykkt þessa nálgun að OP4, úr því að reglugerðirnar hafa tekið gildi í EES.  Um þetta hefur verið undarlega hljótt.  Hvað gengur íslenzkum stjórnvöldum til að hlaupa umsvifalaust til, þegar norskur ráðherra hringir ?  Er þetta eitthvert Gamla sáttmála heilkenni ?

Ein þessara reglugerða er um ráðstöfun flutningsgetu fyrir orku, í orkuflutnings mannvirkjunum, sem samið er um til langs tíma (FCA).  Önnur er reglugerð um ákvörðun flutningsgetu og meðferð flöskuhálsa í flutningskerfinu (CACM).  Það er einkum þessi síðar nefnda reglugerð, sem kerfisstjórarnir og ACER nota sem röksemd fyrir því að samþætta Noreg stærra markaðssvæði. Í einföldu máli inniheldur CACM nákvæmar reglur, sem eiga að tryggja, að markaðurinn, en ekki þörf viðkomandi lands að mati stjórnvalda þess, stjórni aðgengi að millilandatengingunum og flutningum eftir þeim. 

Svíþjóð er skylduð til að ráðstafa 70 % af flutningsgetu sinni á raforku til útlanda til markaðarins.

Rafmagnsverðhækkanirnar hafa valdið örvæntingu í Svíþjóð eins og í Noregi.  Mikill verðmunur hefur verið á milli norður- og suðurhlutans, og kerfisstjórinn, Svenska Kraftnät, hefur átt í vandræðum með yfirálag á flutningskerfinu.  Þess vegna sótti Svenska Kraftnät um leyfi orkulandsreglarans, Energimarknadsinspektionen (EI samsvarar RME í Noregi og Orkumálastjóra á Íslandi), til að takmarka útflutninginn.  EI neitaði kerfisstjóranum um almennt leyfi til útflutningstakmarkana og vísaði til þess, að Svíþjóð er skuldbundin til að ráðstafa 70 % flutningsgetunnar til markaðarins samkvæmt ákvæði í endurskoðuðu rafmagnstilskipuninni í ESB OP4.

Aftur á móti veitti EI bráðabirgða undanþágu fyrir ákveðinni útflutningstakmörkun á flutningslínum og -strengjum til Finnlands og Danmerkur (en ekki til Noregs, Þýzkalands og Póllands) með vísun til afhendingaröryggisins.  Dönsku og finnsku orkulandsreglararnir mótmæltu og kærðu til ACER, sem nú hefur hafnað því, að Svíþjóð geti vikizt undan 70 % reglunni.      

ACER lagði mat á afstöðu sænska kerfisstjórans og orkulandsreglarans og rökstuddi höfnunina þannig:

  1. Undanþágan er ekki nauðsynleg til að viðhalda rekstraröryggi sænska raforkukerfisins.
  2. Í umsókninni var ekki tilgreind hámarkslækkun, sem fyrirhuguð væri.
  3. Í umsókninni var ekki tilgreind sú aðferðarfræði, sem fyrirhugað væri að beita til að koma í veg fyrir mismunun á milli orkuviðskipta innanlands og til útlanda.  

Af þessu má ráða, að ACER væni téð orkuyfirvöld í Svíþjóð óbeint um að ætla að veita notendum innanlands forgang að tiltækri orku. Ef t.d. ætti að helminga flutningana til útlanda, þá yrði að skerða orku til a.m.k. ákveðinna notenda í Svíþjóð um helming.  Þetta er algerlega óviðunandi fyrir sjálfstæðar þjóðir.  Ef Stórþingið og Alþingi ásamt Liechteinsteinum samþykkja OP4, lendir Noregur strax í sömu ófæru og Svíar.  Hið sama varður uppi á teninginum hérlendis, ef Alþingi samþykkir tengingu íslenzka raforkukerfisins við Innri markaðinn, sem yrði fullkomið glapræði. 

Í ESB er ekki sama, hvort í hlut á Jón eða séra Jón.  Í vor bannaði franska ríkisstjórnin tímabundið útflutning á raforku frá Frakklandi til að draga úr verðhækkunum í kjölfar stöðvunar líklega um þriðjungs 56 kjarnakljúfa í frönskum kjarnorkuverum og virtist komast upp með það.   

OP3 er dauður bókstafur á Innri markaði ESB síðan OP4 tók þar við.  OP4 hefur hins vegar ekkert lagagildi í EFTA-löndunum.  Þess vegna verður ekki annað séð en orkulandsreglarar Íslands og Noregs framkvæmi fyrirmæli ESA (frá ACER) í heimildarleysi, og embættismenn og ráðherrar kæra sig kollótta.     

 

 


Meira um þróun orkupakkanna OP3 og OP4

Í Noregi er nú tekizt á um það í dómsölum, hvort OP3 frá ESB sé "lítið inngrípandi" eða ekki, þ.e. hvort sú orkulöggjöf ESB hafi lítil áhrif á líf almennings í Noregi eða ekki.  Þróun orkumálanna í Evrópu frá innleiðingu OP3 í EFTA-löndum EES-samstarfsins er öll í átt til mikilla áhrifa á líf fólks og rekstur fyrirtækjanna í Noregi.  Þar nægir að benda á ofurhátt innflutt raforkuverð til Noregs um millilandatengingarnar. Á Íslandi áskildi Alþingi sér rétt til að samþykkja eða hafna tengingu aflsæstrengs frá útlöndum við íslenzkt raforkukerfi, en þetta skilyrði kann að brjóta í bága við EES-samninginn og er þess vegna veik vörn.

Vegna OP3 er það ekki á færi lýðræðislegra yfirvalda í Noregi að hamla gegn margföldun raforkuverðs á áhrifasvæði sæstrengjanna þar með því að draga úr eða stöðva útflutning raforku og safna þar með vatni í miðlunarlón vatnsaflsvirkjana sunnan Dofrafjalla (í Suður- og Austur-Noregi), eins og norska ríkisstjórnin hafði áform um í sumar áður en Eftirlitsstofnun EFTA-ESA barði á fingurgóma hennar með reglustriku.  

Nú verður haldið áfram með frásögn Mortens Harper, lögfræðings Nei til EU, NtEU, í Klassekampen 5. nóvember 2022, með ívafi höfundar þessa vefseturs:

OP3 er nú aðeins í gildi í EFTA-löndum EES (Noregi, Íslandi og Liechtenstein).  Í ESB hefur OP4 leyst OP3 af hólmi.  Þetta er lagagrunnurinn, sem ACER (Orkustofa ESB) reisir ákvarðanir sínar á, ákvarðanir, sem hafa mikil áhrif á innri markaðinn fyrir orku, sem Noregur er nú samþættur, en Ísland ekki í raun, því að raforkukerfi Íslands er ótengt raforkukerfum annarra landa.

Hvernig ACER beitir ákvörðunarvaldi sínu sást nýlega, þegar ACER fjallaði um tilraun Svía til að hafa stjórn á raforkuútflutninginum (ákvörðun 26.10.2022).  Hin endurskoðaða rafmagnstilskipun frá ESB í OP4 skyldar aðildarþjóðirnar (að innri markaði orku) til að ráðstafa 70 % af flutningsgetunni til útlanda til frjálsra afnota markaðarins.  Sænska Orkumarkaðseftirlitið, þ.e. Orkulandsreglarinn (Orkumálastjóri hérlendis) hafði samþykkt bráðabirgða undanþágu með vísun til afhendingaröryggis raforku í Svíþjóð og heimilað nokkra takmörkun útflutnings.  Þessu mótmæltu orkulandsreglarar Danmerkur og Finnlands, svo að málið barst ACER til úrskurðar.  Niðurstaðan varð sú, að sænsku röksemdirnar lutu í lægra haldi fyrir óheftu orkuflæði á markaðinum innan 70 % markanna. 

Statnett (norska Landsnet) er í norrænum hópi kerfisstjóra, þar sem 3 af 4 (í Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku) eru formlega undir gildandi ESB-regluverki (OP4).  Í raunveruleikanum sést, að Statnett fylgir líka reglum ESB OP4.  Fyrir fáeinum árum náðu norrænu kerfisstjórarnir 4 ekki samkomulagi um aðferðarfræði til að stjórna langtíma flutningsgetu kerfisins, og ACER var falið að kveða upp bindandi úrskurð.  Samþykkt ACER 30.10.2019 er formlega beint til kerfisstjóranna í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, en úrskurðurinn verður að gilda líka í Noregi fyrir milligöngu ESA og RME (norska orkulandsreglarans). Annað svipað dæmi er ACER-ákvörðun frá 05.08.2020 um jöfnunarorku.  Í báðum málunum er m.a. vísað til nýju ACER-reglugerðarinnar í OP4, sem ekki hefur hlotið samþykki Noregs í EES (og þess vegna ekki Íslands heldur). 

Þetta vekur spurningar um raunverulega vídd orkuskuldbindinga Noregs og Íslands samkvæmt EES-samninginum. Geta þær spannað reglur, sem ekki hafa lagagildi á Íslandi ? Regluverkið, sem farið er eftir á Innri markaði ESB, einnig í löndunum, sem tengjast Noregi með raforkuflutningsmannvirkjum og náinni kerfisstjórnunarsamvinnu, er enn meira inngrípandi en regluverkið, sem Stórþingið og Alþingi hafa innleitt í EES-samninginn. 

ACER vinnur samkvæmt OP4.  Hvernig á Eftirlitsstofnun EFTA ESA og orkulandsreglarinn að gera eitthvað annað gagnvart Noregi, Íslandi og Liechtenstein ?  Er nokkuð raunverulegt í þessu sambandi í formlegri aðgreiningu Noregs og norrænu ESB-landanna ?  Hér mætti bæta Íslandi við í öðrum málum en þeim, sem varða orkuflutninga á milli landa. Sönnunarbyrðin í þessu máli hlýtur að vera hjá þeim, sem enn telja fullveldisframsalið til ESB-ACER vera "lítið inngrípandi". Þetta verður að fást á hreint á Íslandi líka.  Er það í lagi, að veigamiklum þáttum raforkumálanna sé stjórnað á grundvelli reglna ESB, sem ekki hafa lagagildi á Íslandi ?  Frá leikmannssjónarhorni í lögum er slíkt klárt  stjórnarskrárbrot. Öll verk orkulandsreglarans frá gildistöku OP4 sumarið 2019 eru líklega ólögleg í Noregi og á Íslandi.  Það þýðir, að embætti hans og gjörðir frá gildistöku OP3 haustið 2019 á Íslandi eru sennilega ólögleg.  Hvernig stendur á því, að enginn úr fjölmennum hérlendum lögfræðingahópi hefur vakið athygli á þessari alvarlegu lagaóvissu ?  Sú lagaóvissa er alls ekki á förum, á meðan norski Miðflokkurinn situr við "kongens bord" í Ósló. 

Raforkuverðskreppan veldur því, að ekki getur lengur ríkt mikill vafi á því, að ESB OP3 hefur áhrif á atriði með mikla þýðingu fyrir norska þjóðfélagið - afhendingu raforku og raforkuverðið.  Meirihluti Stórþingsins veturinn 2018 vanmat þjóðfélagslegar afleiðingar þessa regluverks, sem hefur slíkan umbúnað, að norsk yfirvöld hafa ekki möguleika á  nauðsynlegum áhrifum á framkvæmd og þróun regluverksins. Hvorki Noregur né Ísland hafa t.d. atkvæðisrétt í ACER. 

Í Stórþingsfrumvarpi nr 100 (1991-92), sem lá til grundvallar samþykktar EES-samningsins, stóð, að með því að ráða síðasta skrefinu, sem taka yrði til að skapa borgurum landsins nýjar skuldbindingar, fælist grundvallarmunur m.v. það að sleppa þessum stjórnunarmöguleika. 

Á orkusviðinu verða til ákvarðanir hjá ACER, sem ESA á síðan að samþykkja óbreyttar að efni til, og orkulandsreglarinn (RME í Noregi og Orkumálastjóri á Íslandi) á síðan að koma á framfæri gagnvart aðilum á orkumarkaði í Noregi og á Íslandi og fylgja því eftir, að þær séu framkvæmdar.  Þessi ákvarðanatökukeðja veldur því, að Noregur og Ísland hafa enga stjórnun á þessum þáttum.  Í álitsgerð sinni um ACER-málið (OP3) skrifaði lagaprófessor Hans Graver, að það "... hafi verið búin til valdastaða í innanlandsrétti fyrir alþjóðlega stofnun til að taka ákvarðanir..." (september 2018).  Síðasta skrefið er í raun ACER.

  Mun lögmannsrétturinn stíga nauðsynleg skref til baka ?  Hvenær skyldi reyna á lagalegan grundvöll OP3 á Íslandi og á lagalegan grundvöll orkulandsreglarans (Orkumálastjóra), sem starfar ekki eftir OP3, heldur eftir OP4, sem hefur ekkert lagalegt gildi á Íslandi. 

 

 

 


Orkupakki 3 í lausu lofti ?

Eins og Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og fv. Alþingismaður, vakti athygli á í Morgunblaðsgrein 05.11.2022, féll Orkupakki 3 (OP3) úr gildi innan Evrópusambandsins (ESB) fyrir nokkrum árum, þegar OP4 tók þar gildi.  Ef OP3 hefur ekkert lagalegt gildi lengur í ESB, hvernig er þá háttað lagalegu gildi hans í EFTA-löndum EES-samstarfsins ? Þessu velta menn líka vöngum yfir í Noregi, og Morten Harper, lögfræðingur Nei til EU í Noregi, birti 5. nóvember 2022 grein í Klassekampen um stöðu OP3 og OP4 í Noregi um þessar mundir.  Þessi vefpistill er með hans leyfi reistur á téðri grein:

Lögmannsréttur Borgarþings var 31. október 2022 settur með 5 dómurum til að fjalla um kæru Nei til EU (NtEU) á hendur ríkinu fyrir það, að Stórþingið beitti ekki grein 115 í Stjórnarskrá um aukinn meirihluta við atkvæðagreiðsluna um OP3 í marz 2018. NtEU staðhæfir, að innleiðing OP3 ein og sér eða í samhengi við aðra lagasetningu frá ESB um orkumál feli í sér fullveldisafsal, sem Stórþinginu sé óheimilt með einföldum meirihluta.  Af því að fullveldisafsalið er meira en "lítið inngrípandi", hefði Stórþingið átt að fylgja Stjórnarskrárgrein 115, sem krefst 3/4 meirihluta og að 2/3 hlutar þingheims mæti til fundar. 

Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út allmargar reglugerðir til skýringa og áherzluauka við OP3.  Árið 2021 samþykkti Stórþingið 4 þeirra.  Samþykktir ACER á grundvelli þessara reglugerða eiga einnig að fara um Eftirlitsstofnun EFTA-ESA til framkvæmdar hjá Orkumálastjóra, sem gegnir stöðu fulltrúa ACER-Orkustofu ESB á Íslandi (Landsorkureglari).  Framkvæmdir þar á bæ hafa ekki verið áberandi. 

Landsorkureglarinn er óháður innlendum yfirvöldum í gjörðum sínum og ber að fylgja eftir framkvæmd reglna EES-samningsins á orkusviðinu á Íslandi. 

Ennfremur hefur ESB samþykkt OP4  (einnig kallaður "hreinorku" pakkinn), og aðildarlöndin hafa innleitt OP4 í lagasöfn sín.  Hann veitir ACER meiri völd en OP3.  Efni OP4 var þekkt, þegar Stórþingið samþykkti OP3.  Reglugerðirnar 4 í OP4 hafði ESB þegar samþykkt, og Framkvæmdastjórnin hafði  gert tillögu um OP4 til þings og ráðs.  

Hæstiréttur Noregs sagði í greinargerð sinni um 4. járnbrautarlagapakkann frá ESB í marz 2021, að Stórþinginu beri að meta uppsafnað fullveldisframsal, þannig að ekki verði unnt að sniðganga grein 115 með því að búta innleiðingu laga niður.  Þetta sjónarmið hlýtur einnig að ráða hjá ríkisstjórn Íslands og Alþingi.  Munurinn er sá, að aukinn meirihluti er ekki heimilaður í Stjórnarskrá Íslands til að samþykkja meira en "lítið inngrípandi" fullveldisframsal.  Alþingi er einfaldlega slíkt framsal með öllu óheimilt.  Hér er komið að því, sem lagafræðimennirnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson vöruðu þáverandi utanríkisráðherra og Alþingi við í skýrslu sinni í aðdraganda innleiðingar Alþingis á OP3, 02.09.2019.  Grasrót Sjálfstæðisflokksins varaði sumarið 2019 eindregið við þessari innleiðingu, og áhyggjur Landsfundar Sjálfstæðisflokksins komu ljóslega fram í ályktun hans veturinn áður.  Þáverandi utanríkisráðherra hundsaði þá gjörsamlega þessa grasrót, sem hann svo smjaðraði ótæpilega fyrir í aðdraganda og á Landsfundi í nóvemberbyrjun 2022 í ótímabærri tilraun sinni til að velta sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins úr sessi, sem þó ber höfuð og herðar yfir hann, hvernig sem á þá er litið. 

Í Noregi verður sem sagt að líta til alls orkuregluverks ESB á orkusviði, þegar lagt er mat á, hversu inngrípandi fullveldisframsalið er.  Virkni orkuregluverksins og réttarfarið á Innri markaðinum veldur því, að ekki aðeins þarf að taka tillit til lagasetningar fram að samþykktardegi, heldur einnig þekktra og væntra reglugerða og 4. orkupakka. Þetta hefur mikla þýðingu í Noregi vegna umrædds dómsmáls, en einnig þýðingu á Íslandi, ef/þegar ný orkulagasetning frá ESB verður þar til umræðu.   

Hér með lýkur fyrri hluta þessarar umfjöllunar, en síðari hlutinn verður birtur í næsta vefpistli á þessu vefsetri.  


Vindmyllur leysa engan vanda

Danmörk er langmesta vindmylluland Norðurlandanna, og þar er raforkuverðið langhæst.  Danir hafa fjárfest gríðarlega í vindmyllum og auðvitað framleitt þær og selt út um allar jarðir. Hár fjárfestingarkostnaður, stuttur endingartími, tiltölulega hár rekstrarkostnaður og slitróttur rekstur veldur því, að vinnslukostnaður rafmagns er hár með vindmyllum, og á sama má segja, að aflið frá þeim sé annars flokks vegna óvissunnar, sem gætir um afhendingu þess.  Viðskiptavinur getur ekki reitt sig á þetta afl, og þess vegna hefur vindmylluaflið afar lítið gildi hjá viðskiptavini, sem verður fyrir tilfinnanlegu tjóni, ef hann fær ekki umsamið afl. 

 

 

Erlendis er þetta leyst með því, að seljandi vindmylluorku semur við seljanda orku frá annars konar orkuveri, yfirleitt gaskyntu orkuveri, um að hlaupa fyrir sig í skarðið.  Hérlendis vill varla nokkur borga forgangsorkuverð fyrir vindmylluorku, nema seljandi vindorkunnar geti tryggt umsamda afhendingu.  Þannig nemur verðmæti einangraðrar vindmylluorku hérlendis aðeins verðmæti ótryggðrar raforku, sem er e.t.v. þriðjungur af verðmæti forgangsorkunnar. Þannig er vandkvæðum háð að gera samning við seljanda vindmylluorku til lengri tíma en nemur sæmilega öruggri veðurspá. 

Hins vegar gætu vindmyllur orðið verðráðandi hér á væntanlegum uppboðsmarkaði til eins sólarhrings, því að þar mun gilda, að fyrir öll viðskiptin ráði hæsta verðtilboð, sem tekið er.  Þetta fyrirkomulag Evrópusambandsins og annarra hefur nú komið Evrópumönnum hrottalega í koll á orkuskortstímum, og hefur forseti framkvæmdastjórnar ESB sagt fyrirkomulagið ekki vera á vetur setjandi. 

Nú væri hægt að láta alla þessa ókosti vindmylluraforkunnar liggja á milli hluta í nafni endurnýjanlegrar orkulindar og athafnafrelsis í landinu innan marka laganna, ef ekki fylgdi sá böggull skammrifi, að vindmyllur eru landfrekar, uppsetning þeirra kallar á tiltölulega umfangsmikil landspjöll og af þeim stafar ýmiss konar mengun. 

Haukur Ágústsson hefur skrifað greinar í Morgunblaðið, sem veigur er í.  Ein birtist 26. október 2022 undir fyrirsögninni:

   "Viðbrögð við vindmyllum":

"Samkvæm vorut samtökunum "StopTheseThings" (Stöðvið þetta) voru yfir 30 k vindmyllur í Þýzkalandi árið 2019.  [M.v. höfðatölu svarar þetta þó aðeins til 140 stk á Íslandi, en hérlendis hafa verið birt áform um mörg hundruð vindmyllur-innsk. BJo.] Margar þeirra eru svo bærri byggðu bóli, að mikið ónæði hlýzt af.  Því hafa fasteignir í nágrenni þeirra lækkað í verði og jafnvel orðið óseljanlegar, auk þess sem almenn andúð á þeim hefur vaxið.  Nú er svo komið, að sem næst engar nýjar vindmyllur eru reistar í Þýzkalandi, heldur horfa þýzkir fjárfestar til annarra landa og þá einkum Noregs."

Þýzkaland er 62 sinnum þéttbýlla en Ísland og þess vegna engin furða, þótt fórnarkostnaður af uppsetningu og rekstri vindmylla sé hár.  Þjóðverjar hafa á seinni árum verið afar seinheppnir með orkustefnu sína, sem nú á ófriðartímum hefur leitt þá í algerar ógöngur, eins og kunnugt er.  Höfuðsök þar ber fyrrverandi formaður CDU og kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, sem árið 2011 beitti sér fyrir lokun kjarnorkuvera og um 2015 fyrir banni við vökvaknúinni gasvinnslu úr jarðlögum (e. fracking) ásamt niðurgreiðslum á raforkukostnaði frá vindmyllum.  Afleiðingin er sú, að Þjóðverjar eru ósjálfbjarga, þegar kemur að öflun orku, og færðu Rússum lykilstöðu um orkuútvegun.  Þetta var svo mikill barnaskapur, ef ekki eitthvað verra, að engu tali tekur.

  "Samkvæmt vefsíðunni "The Local (Nágrennið) berjast menn víða gegn þessum framkvæmdum, t.d. í Norður-Noregi og Svíþjóð, þar sem Samar búa með hreindýra hjarðir sínar og segja dýrin fælast myllurnar, ef þær hafa verið byggðar [reistar] á haglendi þeirra.

Að sögn Energifakta Norge (Orkutölur Noregs) voru 53 vindmyllugarðar í Noregi í upphafi ársins 2021.  Árið 2019 voru stofnuð þar í landi samtök, sem fengu heitið "MotVind (Gegn vindorku).  Hliðstæð samtök eru til víðar, s.s. í Svíþjóð og öðrum Evrópulöndum.  Öll berjast þau gegn útbreiðslu vindmylla og telja þær skaðlegar náttúrulegu umhverfi og dýra- og mannlífi, auk þess sem þær dugi alls ekki til þess að koma í veg fyrir þær loftslagsbreytingar, sem ætlað er, að maðurinn valdi.  Barátta þessara samtaka hefur víða borið verulegan árangur og hefur í ýmsum tilvikum komið í veg fyrir uppsetningu vindmyllugarða."

Þess er skemmst að minnast, að fumbyggjar í Norður-Noregi unnu dómsmál í réttarkerfi Noregs gegn vindmyllueigendum og yfirvöldum, sem veitt höfðu framkvæmdaleyfi á hefðbundnum beitarsvæðum hreindýra. Þessi dómur gefur til kynna, að yfirvöldum sé að norskum rétti óheimilt að leyfa framkvæmdar, sem rýra umtalsvert hefðbundin lífsskilyrði íbúanna á svæðin.  Dómurinn kann að verða leiðbeinandi um meðferð dómsmála, ef sveitarstjórnir, t.d. á Vesturlandi, leyfa, að reistar verði vindmyllur í grennd (í áberandi sjónlínu) við íbúa eða jafnvel frístundabyggð, sem fallnar séu til að rýra lífsgæði íbúanna með einhverjum þeim hætti, sem hægt sé að færa sönnur á fyrir rétti.

Það er illskiljanlegt, að yfirvöld hérlendis skuli ljá vindmyllufyrirtækjum eyra í ljósi þess, að hérlendis verður alls engin þörf fyrir þessa dýru raforku, ef yfirvöld á borð við Orkustofnun og útgefendur framkvæmdaleyfa í héraði slá nú í nára truntunnar og keyra hana úr sporunum til að flýta virkjanaleyfum fyrir hefðbundnar íslenzkar virkjanir, sem almennt eru taldar sjálfbærar, og er þar auðvitað átt við vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir.

Að lokum skrifaði Haukur Ágústsson:

"Þegar Kárahnjúkavirkjun var í byggingu, voru umhverfissinnar ötulir við að mótmæla virkjuninni.  Menn komu meira að segja erlendis frá til þátttöku í aðgerðunum, sem fólust m.a. í því að stöðva verk með því að setjast niður fyrir framan vinnuvélar.  Nú er rætt um yfir 30 vindmyllugarða á Íslandi.  Afar lítið, ef nokkuð, ber á mótmælum vegna þessara áætlana.  Þó eru umhverfisáhrifin sízt minni en af vatnsvirkjunum og miklu meira áberandi vegna afar hárra, gnæfandi turna og víðfeðmra spaða.  Ekki er heldur minnzt á áhrifin í högum sauðfjár og hreindýra [sbr téð norsk dómsniðurstaða - innsk. BJo] eða á þann skaða, sem áreiðanlega verður á fuglum og smærri flugdýrum [skordýrum - innsk. BJo] - hvað þá áhrifin á ferðamannageirann.  

Við Íslendingar búum enn við sæmilega óspillta náttúru.  Er mikið vit í því að skaða hana í þágu gróðafíknar fáeinna manna, sem hyggjast græða á því að fordjarfa hana - og virðast ýmsir auk þess vera á mála erlendra aðila, eins og í Noregi."

Þetta er vel skrifuð grein hjá kennaranum fyrrverandi með þörfum ábendingum og viðvörunum.  Án þess að gera vindmylluforkólfum upp hvatir (þeir ofmeta einfaldlega ávinninginn m.v. fórnarkostnaðinn) þá ber að beita sér einarðlega gegn leyfisveitingum fyrir vindmyllum á Íslandi um leið og yfirvöld eru hvött til að beita sér gegn þeirri vá, sem yfirvofandi raforkuskortur í landinu er fyrir hag landsmanna, með því að ýta undir nýjar hefðbundnar íslenzkar virkjanir.  Þær eru bæði nauðsynlegar og þjóðhagslega hagkvæmar, en vindmylluþyrpingar eru hvorugt.  

Ímynd vatnsorkuvera erlendis er dálítið lituð af því, að víða hefur þurft að beita fólk nauðungarflutningum af athafnasvæðum slíkra virkjana.  Það hefur ekki þurft í seinni tíð á Íslandi.  Þá er beizlun vindorkunnar erlendis einn af fáum endurnýjanlegum virkjanakostum víða.  Þetta hefur kallað fram ofstæki gegn vatnsaflsvirkjunum og doða gagnvart vindorkuverum, sem kann að hafa smitazt hingað. Þannig gera hvorki vindmylluforkólfar né virkjanaandstæðingar á Íslandi sér grein fyrir raunverulegum aðstæðum í landinu.  

 

    

 


Gjaldþrota kratísk hugmyndafræði á fjármálamarkaði

Um 20. október 2022 beindust sjónir manna að herfilegum kratískum fjármálagjörningum Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra 1998, og síðan töfrabrögðum Framsóknarmanna á borð við Guðmund Bjarnason, sem annar Framsóknarmaður seldi fjölmiðlum undir heitinu "allir græða".  Hér er auðvitað átt við Íbúðalánasjóð, sem um tíma var umsvifamikið ríkisapparat á fjármálamarkaði. 

Raunar eru persónur og leikendur aukaatriði í þessu máli.  Aðalatriðið er að draga þann lærdóm af því, að ríkisvaldið er ófært um að reka fjármálastarfsemi á heilbrigðan hátt á samkeppnismarkaði og ætti að draga sig að mestu út af þeim markaði, þótt fallast megi á til málamiðlunar að halda 35 % - 55 % eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, ef ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, samþykkir slíka þátttöku ríkisins á samkeppnismarkaði.  M.ö.o. á að selja Íslandsbanka allan, þegar aðstæður þykja heppilegar, enda hefur ríkissjóður hagnazt á þeim sölum, sem þegar hafa farið fram á hlutum í bankanum, og ríkissjóð bráðvantar fé til að fjárfesta í innviðum landsins, sem gefa meiri arðsemi en ríkisbankar að jafnaði. 

Íbúðalánasjóður kom í heiminn sem kosningaloforð, yfirboð, og er það afleit byrjun fyrir fjármálastofnun.  Stjórnendur og ráðgjafar þar á bæ litu stórt á sig, en voru raunverulega algerlega utan gátta um hlutverk og stöðu þessarar fjármálastofnunar ríkisins, eins og eftirfarandi bútur úr bréfi (alger steypa) Íbúðalánasjóðs til Ríkisendurskoðunar sýnir:

"Útgáfa fjármögnunarbréfa sjóðsins hefur um árabil verið ráðandi um langtímavaxtastig í landinu, og ríkið stendur ábyrgt fyrir öllum skuldbindingum hans.  Við slíkar aðstæður var algerlega fráleitt fyrir Íbúðalánasjóð að hætta útgáfu íbúðabréfa.  Slíkt hefði leitt til hruns vaxtamyndunar á markaði og gert sjóðinn ósamkeppnishæfan um ný útlán.  Lánshæfismat sjóðsins hefði hrunið í kjölfarið og hagsmunum ríkissjóðs verið teflt í voða.  Þetta hefði verið skýrt brot á lagaskyldum stjórnar og framkvæmdastjóra og óhugsandi út frá því hlutverki, sem sjóðnum er að lögum falið."

Stjórnendur sjóðsins reiddu ekki fjármálavitið í þverpokum, og þarna er óhönduglega farið með lögin.  Á markaði ber engum aðila skylda til þess að lögum að stjórna "langtímavaxtastigi" í landinu. Þarna á sér stað "skapandi lagatúlkun" á ábyrgð forstjóra Íbúðalánasjóðs í samkeppni við bankana.  Bæði fjármálaþekkingu og lagaþekkingu var ábótavant hjá þessari ríkisstofnun, og það er dæmigert, þegar um gæluverkefni stjórnmálamanna er að ræða. Þeir eiga ekki að koma nálægt samkeppnisrekstri á neinu sviði í samfélaginu.   


Reginhneyksli ríkisrekstrar á fjármálastofnun

Af einhverjum undarlegum ástæðum er hópur manna í þjóðfélaginu á þeirri skoðun, að ríkisrekstur á fjármálakerfinu eða drjúgum hluta þess sé heppilegasta rekstrarformið fyrir hag almennings.  Ekkert er fjær sanni en stjórnmálamenn séu öðrum hæfari til að móta  fjármálastofnanir og stjórna þeim. Dæmin þessu til staðfestingar eru mýmörg, en nýjasta dæmið er af Íbúðalánasjóði, sem stjórnmálamenn og embættismenn komu á laggirnar til að keppa við almenna bankakerfið um hylli húsbyggjenda og húsnæðiskaupenda.  Þar tókst ekki betur til en svo, að gjaldþrot blasir við með um mrdISK 450 tjóni fyrir ríkissjóð [reiknað til núvirðis mrdISK 200].  Fjármála- og efnahagsráðherra ætlar að koma í veg fyrir þetta mikla tjón með viðræðum við lánadrottnana og viðeigandi aðgerðum í kjölfarið. 

 Margir hafa fundið sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka allt til foráttu.  Ýmist er það aðferðin, sem Bankasýslan mælti með, eða tímasetningin, sem látið er steyta á.  Allt er þetta þó skálkaskjól fyrir þau, sem eru með sem mest ríkisafskipti og ríkisrekstur sem einhvers konar trúarsetningu í lífi sínu, alveg sama hversu misheppnað þetta fyrirkomulag er í raun, hvað sem heimspekingar segja um það á pappírnum. 

Kaffihúsasnatinn Karl Marx var enginn mannþekkjari, heldur draumóramaður og "fúll á móti", sem hélt hann hefði fengið bráðsnjalla hugmynd, sem kölluð hefur verið kommúnismi.  Kommúnisminn í einhverri mynd hefur alls staðar leitt til kollsteypu, og þarf ekki að tíunda það frekar. 

Ríkisrekin fjármálafyrirtæki eru þar engin undantekning, eins og hrakfallasaga Íbúðalánasjóðs er gott dæmi um. Hætta ber vífilengjum og staðfesta  síðasta söluferli Íslandsbanka og bjóða það, sem eftir er af ríkiseign í bankanum, til sölu. Það er afleitt, að ríkisfyrirtæki séu á samkeppnismarkaði og að ríkissjóður standi fjárhagslega ábyrgur fyrir glappaskotum stjórnmálamanna og ríkisstarfsmanna í bankageiranum. 

Þóra Birna Ingvarsdóttir birti fróðlega baksviðsumfjöllun í Morgunblaðinu 24. október 2022 undir fyrirsögninni: 

"Svarti sauðurinn, Íbúðalánasjóður".

Þar stóð þetta m.a.:

"Árið 2011 beindi eftirlitsstofnun [EFTA] ESA tilmælum að íslenzkum stjórnvöldum, þar sem lánsfyrirkomulag Íbúðalánasjóðs samrýmdist ekki reglum EES-samningsins um bann við ríkisaðstoð á samkeppnismarkaði.  Í tilmælunum fólst, að breyta þyrfti lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs þannig, að hann byði ekki lán til kaupa á dýrara húsnæði, takmarka þyrfti lán til leigufélaga og aðgreina þyrfti hina ríkisstyrktu starfsemi frá öðrum þáttum starfseminnar."

EES-samningurinn er ekki alslæmur, því að hann veitir ríkisrekstrarsinnuðum stjórnmálamönnum aðhald, eins og í þessu tilviki, þótt Samkeppniseftirlitið mundi geta tekið í taumana, ef það væri virkt til annars en að þvælast fyrir lúkningu stórsamninga og valda eigendum (hluthöfum) stórtjóni, eins og í tilviki sölu Símans á Mílu.  Þar er ekki hægt að sjá, að nokkurt vit hafi verið í tafaleikjum og kröfum Samkeppniseftirlitsins um breytingar á sölusamningi, en hluthafar Símans misstu af of mörgum milljörðum ISK vegna óhæfni embættismanna.

Í lokin sagði í téðri baksviðsfrétt:

"Ríkið ber ábyrgð á skuldbindingum ÍL-sjóðsins.  Um er að ræða einfalda ábyrgð, en ekki sjálfskuldarábyrgð.  Í einfaldri ábyrgð felst, að ríkissjóður tryggir endurgreiðslur á nafnvirði skulda auk áfallinna vaxta og verðbóta til uppgjörsdags. Hefði verið um sjálfskuldarábyrgð að ræða, hefði ábyrgð ríkisins gagnvart kröfuhöfum í megindráttum verið sú sama og ábyrgð sjóðsins.

Til þess að reka sjóðinn út líftíma skulda [hans] þarf ríkissjóður að leggja til um mrdISK 450 eða um mrdISK 200 á núvirði.  Ef sjóðnum yrði aftur á móti slitið nú og eignir seldar og ráðstafað til greiðslu á skuldum, myndi neikvæð staða hans nema mrdISK 47."

Þetta sýnir í hnotskurn, hversu glórulaust fyrirkomulag það var að láta fólk á vegum ríkisins, sem var vitsmunalega og þekkingarlega alls ekki í stakkinn búið til að móta og reka fjármálastofnun, bauka við það viðfangsefni með baktryggingu ríkissjóðs Íslands á fjármálagjörningum sínum.  Það á að láta einkaframtakinu þetta eftir á samkeppnismarkaði, þar sem hluthafarnir standa sjálfir fjárhagslega ábyrgir fyrir gjörningunum og veita stjórnendum fyrirtækisins aðhald. Að ímynda sér, að viðvaningar úr stjórnmálastétt og embættismannastétt geti á einhvern hátt staðið betur að þessum málum, er draumsýn, sem fyrir löngu hefur orðið sér til skammar, og almenningur má þá borga brúsann fyrir óhæfnina.  Í þessum sósíalisma felst hvorki skynsemi né réttlæti.   

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband