Heilbrigðiskerfi í andþröng

Það má flestum vera alveg ljóst, að heilbrigðiskerfið á Íslandi á við verulega erfiðleika að etja, svo að ekki sé nú dýpra í árinni tekið.  Ekki þarf að vera tíður viðskiptavinur þessa risakerfis til að gera sér þetta ljóst, heldur er nóg að lesa yfirlýsingar heilbrigðisstarfsfólks, sem innan þess starfar, en það er sumt hvert að þrotum komið.  Ástandið á Landsspítalanum er ósamboðið háskólasjúkrahúsi og gæti ekki komið upp með réttri verkaskiptingu ríkisspítalans og einkageirans í heilbrigðiskerfinu og meiri valddreifingu innan spítalans. Þar eru nú þverbrestir að boði heittrúaðs heilbrigðisráðherra og því er nú ófremdarástand á háskólasjúkrahúsinu, svo að læknar hafa varað við, að öryggi sjúklinga geti orðið í uppnámi. 

Það er líka ljóst, að ekki er við mannauðinn að sakast.  Hann er fær um að leysa flókin og vandasöm verkefni og faglega einfaldari verkefni, sem útheimta góða skipulagshæfni og öguð vinnubrögð.  Dæmi um hið síðara  er frábær frammistaða sjúkrahúsa landsins og heilsugæzlustöðva í C-19 faraldrinum og við bólusetningu landsmanna, sem í júní 2021 náði því langþráða takmarki að framkalla hjarðónæmi hérlendis gegn leiðinda kórónuveiru SARS-CoV-2, sem í mörgum tilbrigðum veldur C-19 sjúkdóminum, sem reyndar yfirleitt olli aðeins vægum flensueinkennum, en hefur leitt 30 manns til dauða hérlendis. 

Því verður þó að halda til haga, að 20-30 manns hafa látizt í kjölfar bólusetningar, flestir þeirra í sömu áhættuhópum og gagnvart C-19.  Það er einnig þannig, að bólusettir geta sýkzt og smitað aðra, en með vægari hætti en ella. 

Hlutfallslegur fjöldi dauðsfalla hérlendis af völdum C-19 er aðeins um 80 ppm (af milljón), sem eru lítil dánarlíkindi gagnvart faraldri og sennilega þau lægstu í heimi gagnvart C-19.  Orsakir eru lágur meðalaldur þjóðarinnar, tiltölulega gott heilsufar hennar þrátt fyrir alls konar "skavanka", og góð þjónusta heilbrigðisstarfsfólks við þá veiku.

Í kjölfar hjarðónæmis innanlands aflétti ríkisstjórnin öllum samkomu- og nándarhömlum á miðnætti aðfararnótt 26. júní 2021 við mikinn fögnuð, en áfram er strangt eftirlit á landamærunum, þótt ferðamannastraumurinn hafi aukizt mjög og eru nú lendingar farþegaflugvéla á Keflavíkurflugvelli um 25 á sólarhring.  

Það, sem hrjáir heilbrigðiskerfið, er framar öðru heilbrigðisráðuneytið. Þar situr nú og stjórnar aðgerðum ríkisvaldsins á heilbrigðissviði fólk, sem fórnar hagsmunum skjólstæðinganna og starfsfólksins fyrir úreltar stjórnmálalegar kreddur um nauðsyn miðstýringar ríkisvaldsins, þ.e. stjórnmálamanna og embættismanna, á stóru og smáu, og valddreifing og einkaframtak eru bannfærð þar.  Þetta er beinlínis stórhættuleg stefnumörkun, því að hún framkallar stjórnleysi, öngþveiti og gríðarlega óánægju skjólstæðinga og starfsfólks auk sóunar á fjármunum almennings. Þetta var staðfest í yfirlýsingu 985 lækna nýverið, sem er í raun "rautt spjald" á ráðherra.  

Þetta kom t.d. hastarlega í ljós, þegar heilbrigðisráðherra ákvað með einu pennastriki að færa krabbameinsskimanir kvenna frá Krabbameinsfélaginu til hins opinbera.  Þarna var um að ræða skrifborðsákvörðun af verstu sort, sem sýnir, að ráðherrann er utan gátta og fer illa með vald sitt, og í því er stórhætta fólgin fyrir skjólstæðingana. 

Landið ber aðeins eitt háskólasjúkrahús.  Það er óumdeilt, en þar er nú hins vegar alls konar starfsemi, sem ekki á heima á háskólasjúkrahúsi og þarf að létta af Landsspítalanum með því að útvista henni til sjúkrahúsa á landsbyggðinni, og einnig er vel hægt að útvista margs konar starfsemi Landsspítalans til einkarekinna læknastofa.  Valddreifing og verkaskipting ólíkra staða og stjórnunarfyrirkomulags geta létt álagi af yfirkeyrðum Landsspítala og skapað heilbrigðan samanburð á milli fagfólks og fyrirkomulags, bætt þjónustuna við skjólstæðingana og auðveldað kerfinu að laða til sín íslenzkt starfsfólk, sem lokið hefur námi sínu hérlendis og/eða erlendis.  Þetta er vandamál núna, og þarf engan að undra. Starfólkið þarf að geta valið á milli fleiri vinnustaða og vinnuveitenda.  Mönnunin mun þá reynast mun auðveldari viðfangs. 

Hin dauða hönd heilbrigðisráðuneytisins (ríkisins) er búin að ýta heilbrigðiskerfinu fram á heljarþrömina, og það er nú bara seigla og þrautseigja starfsfólksins, sem heldur því gangandi frá degi til dags, en við svo búið má ekki standa.  Það verður strax að stokka spilin upp, hætta að stjórna samkvæmt úreltri og löngu fallinni hugmyndafræði og hleypa heilbrigðri skynsemi á sviði rekstrar að, sem er fordómalaus og nýtir allar góðar leiðir til úrbóta.  Ein slík leið er að hlíta ráðum starfsfólksins.  Morgunblaðið birti 28. júní 2021 viðtal við dr Theódór Skúla Sigurðsson, lækni, undir fyrirsögninni:

"Þurfum svigrúm til að mæta stórslysi".

Það hófst svona:

""Sjónarmið okkar lækna eru ákall úr grasrótinni", segir Theódór Skúli Sigurðsson, svæfingalæknir á Landspítalanum.  Hann er í forsvari þeirra 985 lækna, sem í síðustu viku afhentu fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins undirskriftir sínar, þar sem skorað er "á stjórnvöld að axla ábyrgð á stöðunni í heilbrigðiskerfinu", eins og komizt var að orði.

Læknar telja mikilvægt, að gefin fyrirheit um aukið fjármagn til alls heilbrigðiskerfisins verði efnd.  Mikilvægt sé að koma með varanlegar lausnir á öldrunarþjónustu, sbr að á hverjum tíma dvelst á Landspítalanum fólk, sem lokið hefur læknismeðferð, en ekki er hægt að útskrifa, því [að] ekki er í önnur hús að venda.  Í raun stífli þetta allt gangvirki spítalans."

Það er í raun og veru að fara í geitarhús að leita ullar að senda bænaskrá til silkihúfanna í heilbrigðisráðuneytinu og biðja þær um að "axla ábyrgð" á því, að undir yfirumsjón sama ráðuneytis er búið að ofkeyra Landsspítalann með nýjum verkefnum, sumpart verkefnum, sem einkaframtakið hefur sinnt fram til þessa, án þess að ganga úr skugga um, að spítalinn sé í stakk búinn til að leysa ný verkefni sómasamlega.  Það er tómt mál að ætlast til aukinnar þjónustu Landsspítalans fyrr en hann kemst í nýtt húsnæði.  Starfsemi hans er komin yfir þolmörk húsnæðis og starfsfólks.  Ríkisvæðingarstefna Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á heilbrigðiskerfinu er óboðleg, enda er hún dæmd til að mistakast.  Kerfi ráðstjórnarinnar er vanhugsað og reist á þekkingarleysi og ranghugmyndum. Ríkisvæðingin er ein meinloka og gengur þar af leiðandi hvergi upp. Það mun leiða til verri og dýrari þjónustu og sennilega til tvöfalds heilbrigðiskerfis, þar sem hægt verður að snara út úr eigin vasa til að fá framúrskarandi þjónustu strax.

Sjálfstæðisflokkurinn vill allt annað fyrirkomulag.  Háskólasjúkrahúsið verður áfram ríkisrekið og á þess vegum verður áfram bráðadeildin og verkefni, sem hefðbundið er að hafa á háskólasjúkrahúsum.  Hins vegar er hægt að nýta kosti einkaframtaksins til að létta byrðar háskólasjúkrahússins, svo að það geti betur sinnt sínu hlutverki.  Læknastofur sérfræðinga fái greiðslusamning við Sjúkratryggingar Íslands, enda geta þær veitt ódýrari gæðaþjónustu en opinberar stofnanir.  Til að leysa fráflæðisvanda Landspítalans verður ríkisvaldið að horfast í augu við hækkun verðlags í landinu, aðallega vegna kjarasamninga, svo að eftirsóknarvert verði að reka hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir aldraða. 

""Þó [að] fjárveitingar til Landspítalans séu auknar, sjáum við þess ekki stað. Því teljum við, að hugarfarsbreytingu þurfi um rekstur spítalans.  Læknar eru leiðtogar með hugmyndir og mikilvægt er að virkja þá til meiri áhrifa.  Læknar eru langþreyttir og tilfinningin sú, að ekki sé hlustað á sjónarmið okkar, þegar varað er við hættulegu ástandi", segir Theódór Skúli og áfram:

Ýmis mál eru í ólestri, s.s. leghálsskimanir og rannsóknir á þeim, sem voru fluttar til Danmerkur með slæmum afleiðingum.  Því miður virðist stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum vera sú, að gefnar eru út tilskipanir á efstu stöðum; skilaboð, sem virðist eiga að fylgja umyrðalaust.  Sjónarmið lækna hafa ekki skilað sér til stjórnvalda.  Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. 

Erfið staða á bráðadeild Landspítala s.s. mannekla og langur biðtími sjúklinga eftir þjónustu hefur verið til umfjöllunar að undanförnu.  Í þeim efnum bendir Theódór á, að í heilbrigðiskerfinu haldist allt í hendur.  Engin heildstæð framtíðarstefna sé í öldrunarmálum, þrátt fyrir mikla fjölgun eldra fólks, sem alltaf þarf margvíslega þjónustu heilsugæzlu og sjúkrahúsa."

Læknirinn lýsir þarna afleiðingum skefjalausrar miðstýringar og ríkisrekstrar.  Reksturinn er orðinn svo umsvifamikill, að æðstu stjórnendur hafa mjög ófullkomnar upplýsingar um stöðuna, þar sem þjónustan er veitt, enda fjöldi stjórnunarlaga á milli, og framlínufólkið er vonsvikið og uppgefið.  Stefna vinstri grænna í heilbrigðismálum býður hættunni heim í þessum efnum.  Það verður að draga úr þessari ráðstjórnarlegu miðstýringu, útvista verkefnum og minnka þannig umfangið, svo að hægt sé að sinna betur þeim verkefnum, sem háskólasjúkrahúsið á að sinna.  

Í lokin kom hörð ádrepa á stjórnendur Landspítalans, en undirstrika verður, að um kerfisvandamál er að ræða, þannig að ábyrgðin liggur í heilbrigðisráðuneytinu:

"Núverandi stjórnendur Landspítalans hafa setið lengi, hið bezta fólk, sem vill vel, en nær ekki þeim árangri, sem þarf.  Maður fær á tilfinninguna núna, að þeir séu algjörlega ráðþrota gagnvart vandanum og finni ekki neinar alvöru lausnir, sem haldi til langframa.  Sé staðan þannig, að ekki verði komizt lengra í sparnaði, þyrftu stjórnendur að koma þeirri staðreynd til stjórnvalda.  Nái þau skilaboð ekki í gegn, ætti stjórn Landspítalans að íhuga að segja sig frá verkinu til að undirstrika mikla alvöru málsins."

Þegar svona er komið, þ.e. starfsfólkinu finnst stjórnendur spítalans vera búnir að gefast upp gagnvart viðfangsefnunum, þá er komið að leiðarenda þess ríkisbákns, sem hér er um að ræða.  Það verður að stokka spilin upp í samráði við starfsmenn, fá einkaframtak heilbrigðisstarfsfólks til að létta undir og sníða Landsspítalanum stakk eftir vexti. 

 Núverandi heilbrigðisráðuneyti mun aldrei grípa til þeirra róttæku úrræða, sem nú er þörf á, enda skilar það auðu í yfirlýsingu vegna ofangreinds neyðarkalls læknanna. Þar skilur fólk ekki rót vandans, enda hefur það skapað hann með forstokkaðri ríkisrekstrarafstöðu sinni og beinni fjandsemi við einkaframtak á þessu sviði.  Morgunblaðið tíundar eftirfarandi viðbrögð ráðuneytisins, sem greinilega kemur af fjöllum:

"Skilaboð lækna um erfið starfsskilyrði eru grafalvarleg, sé litið til aðstöðu starfsfólks og þess, að núverandi ástand veldur stöðnun og jafnvel afturför.  Þetta segir í yfirlýsingu heilbrigðisráðuneytisins um yfirlýsingu og undirskriftir læknanna.  Sjónarmið læknanna eru sögð tekin alvarlega, þótt þau séu ekki algild lýsing á heilbrigðiskerfinu."

Heilbrigðisráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur fær falleinkunn.  Lifi Landsspítalinn !

 

 


Úrgangsstjórnun í skötulíki

Í síðasta pistli á þessu vefsetri (24.06.2021-Jónsmessu) var gerð grein fyrir þeim ógöngum, sem stjórn Sorpu hefur ratað í með sína nýju jarð- og gasgerðarstöð, GAJA.  Borgin er aðaleigandi Sorpu, og núverandi borgarstjórnarmeirihluta eru mjög mislagðar hendur í verklegum efnum, svo mjög, að í fljótu bragði mætti ætla, að allt, sem borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboð, Píratahreyfingarinnar og Viðreisnar, kemur nálægt, endi með klúðri.

Því miður virðist GAJA vera enn eitt dæmið í þetta safn fúsks og óhæfni. Stjórnmálamenn, sem ánetjazt hafa forsjárhyggjunni, þykjast þess einfaldlega umkomnir að hafa vit fyrir öðrum, þótt þá skorti bæði til þess vit og þekkingu, þegar kemur að tæknilegum verkefnum.

Þeirri aðferð að virkja markaðsöflin til að koma fram með hagkvæma framtíðarlausn á viðfangsefnum í frjálsri samkeppni er hafnað, af því að markaðsöflin eru knúin áfram af hagnaðarvon, sem er ljótt og ófélagslegt hugarfar í huga draumóravingla á vinstri kantinum.  Þessir stjórnmálamenn gerir þess vegna hverja skyssuna á fætur annarri til stórfellds tjóns fyrir almenning, sem fær reikninginn, og varla nokkur stjórnmálamaður axlar sín skinn út af óráðsíunni.

Í forystugrein Bændablaðsins, 24. júní 2021, fær vonlaus, pólitísk hugmyndafræði í umhverfismálum ærlega á baukinn og var kominn tími til slíkrar gagnrýninnar umræðu um viðfangsefni, sem er í raun tæknilegt, fjárhagslegt og lagalegt úrlausnarefni, hafið yfir sérvizku og hugmyndafræði sérlundaðra stjórnmálamanna, sem hafa tafið fyrir eðlilegri þróun sorpeyðingarmála hérlendis (eins og þeir núna tefja fyrir eðlilegri þróun umferðarmannvirkja í Reykjavík með hrapallegum afleiðingum).

"Eftir áratuga eyðimerkurgöngu í meðhöndlun sorps á Íslandi berast nú þau tíðindi, að fara eigi að taka til hendi við að "undirbyggja ákvarðanir" um tæknilausnir, staðarval og kostnað við byggingu á 100 kt/ár sorporkustöð, sem væntanlega verður byggð á Suðurnesjum. 

Að undirbúningi ákvarðanatöku, sem á að taka 4 mánuði, standa 4 byggðasamlög, þ.e. Sorpa, Kalka á Suðurnesjum, Sorpurðun Vesturlands og Sorpstöð Suðurlands auk umhverfisráðuneytisins.  Á starfssvæði byggðasamlaganna fellur til nærri 85 % alls úrgangs á landinu.

Eins og margoft hefur verið fjallað um hér í Bændablaðinu, þá hefur ríkt ótrúlegt úrræðaleysi í sorpmálum Íslendinga líkt og skolpmálum um áratuga skeið. Vandræðagangurinn í sorpmálunum er einkum tilkominn vegna kreddufullrar pólitískrar afstöðu þeirra, sem ráðið hafa ferðinni í umhverfismálum bæði á landsvísu sem og í sveitastjórnarpólitík, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Þar á bæ vildi fólk hreinlega ekki taka mark á þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í sorpbrennslumálum á Norðurlöndum og víðar um heim á liðnum áratugum.  Gilti þá einu, þó [að] sýnt hafi verið fram á með vísindalegum gögnum og útreikningum ágæti þess að umbreyta sorpi í orku.  Þess í stað hefur verið haldið dauðahaldi í þá afstöðu, að öll brennsla á sorpi sé alslæm og ekki í takti við þá hugmyndafræði, sem rekin hefur verið í loftslagsmálum."    (Undirstr. BJo.)

Þessi texti sýnir, að stjórnmálamenn með einkennilegar skoðanir, sem illa fylgjast með á þessu sviði og lítt kunna til verka á sviði nútímalegrar meðhöndlunar sorps, hafa vélað um málin með arfaslæmum árangri á höfuðborgarsvæðinu, þar sem Sorpa er í djúpum skít með misheppnaða meira en mrdISK 6 fjárfestingu á bakinu undir formennsku vinstri græningja í borgarstjórnarmeirihluta undir forystu Samfylkingarinnar.

Það verður að snúa af þessari vonlausu braut með því að draga kunnáttumenn á sviði tækni og verkefnastjórnunar að undirbúningi verkefnisins "Sorpknúið orkuver fyrir landið allt", sem finni hagkvæma staðsetningu, helzt þar sem þörf er á orkunni), bjóði verkið út, uppsetningu og rekstur, og velji birgi og semji við hann.  Það er að líkindum hagkvæmasta og áhættuminnsta leiðin fyrir skattgreiðendur.  Stjórnmálamenn hafa ekki ráðið við verkefnið nútímaleg sorpeyðing hingað til, og með núverandi meirihluta í Reykjavík er algerlega borin von, að þeir finni hagkvæmustu og umhverfisvænstu leiðina í þessu máli.

Halldór Kristjánsson, ritstjóri Bbl., hélt áfram:

"Með þessa sérkennilegu hugmyndafræði að leiðarljósi var m.a. farið út í botnlausan fjáraustur við uppbyggingu á jarðgerðar- og gasstöð í Álfsnesi, sem kostaði skatt- og útsvarsgreiðendur á 7. mrd ISK. Sú stöð getur samt ekki annazt förgun á plasti og ýmsum efnum, sem áfram hefur orðið að urða.  Þá hefur verið upplýst, að önnur meginframleiðsluafurð stöðvarinnar, molta, er algjörlega ónothæf vegna mengandi efna, sem í henni eru." 

Það er ekki að ófyrirsynju, að varað er við áframhaldi þeirra vinnubragða, sem Sorpustjórnin hefur viðhaft, því að GAJA-verkefnið er alveg dæmigert um afleiðingar fúsks óráðþægra stjórnmálamanna, sem troðið hafa sér í stjórnunarstöður fyrirtækja hins opinbera, sem þeir ráða ekkert við.  Umhverfisráðherra er í lykilstöðu til að beina undirbúningi sorporkuversins í réttan farveg, en þar sem hann er af sama sauðahúsi og téð Líf, er borin von, að hann geri það.  Þess vegna stefnir í hreint óefni með um mrdISK 30 fjárfestingu.  Í stað þess að skuldbinda útsvarsgreiðendur fyrir risaupphæðum í verkefni, sem e.t.v. verður bara til vandræða í höndum óhæfra stjórnmálamanna, á að fela einkaframtakinu verkefnið á grundvelli útboðs, sem vandað verkfræðiteymi með lögfræðinga sér til aðstoðar hefur undirbúið og síðan metið tilboð og samið við hagstæðasta birginn í nafni "sorpsamlags Íslands" um alverk og rekstur. Vonandi nunu sorpflutningar í nýju stöðina verða sjóleiðis, því að 100-200 kt/ár sorpflutningar eru ekki leggjandi á vanbúið vegakerfið.  

"Nú segir borgarfulltrúi VG og formaður stjórnar Sorpu [Líf Magneudóttir], sem á og rekur jarðgerðar- og gasstöðina GAJA, í viðtali í Morgunblaðinu sl. þriðjudag [22.06.2021], að þar sé "verið að ná tökum á lífrænum úrgangi".  Einnig segir: "Næsta stóra verkefnið er að afsetja brennanlegan úrgang".  Fram kemur í þessu viðtali, að nú eigi loks að fara að skoða málin.  Allt verði skoðað, m.a. flutningur sorpsins, sótspor þess og staðarval sorporkustöðvar sem og nýting "glatvarma". 

 

"Nýta "fiskeldismykju", mannaseyru, moltu, brennistein og fleira sem áburð".

"Jónas Baldursson og Ragnhildur Friðriksdóttir, starfsmenn Matís, að vinna með moltu.  Matís fékk 3 tegundir af moltu til að prófa, m.a. frá gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA, sem er í eigu Sorpu.  Sú molta reyndist ónothæf vegna aukaefna, sem í henni eru.  Þurfti reyndar undanþágu frá reglum til að gera prófanir með notkun hennar á afmörkuðu svæði."

(Undirstr. BJo.)

 Samkvæmt þessu heldur stjórnmálamaðurinn, sem ber höfuðábyrgð á GAJA gagnvart eigendum Sorpu, fram blekkingavaðli til að breiða yfir misheppnaða fjárfestingu byggðasamlagsins Sorpu, sem stjórnmálamenn, aðallega í meirihluta borgarstjórnar, stjórna.  Þetta hlýtur að hafa stjórnmálalegar afleiðingar í borginni og ætti, ef allt væri með felldu, að leiða huga stjórnvalda að nauðsyn breyttrar aðferðarfræði við stjórnun úrgangsmála landsins.  Á því sviði, eins og öðrum, leiðir fúsk til falls fyrr en seinna. 

Forsætisráðherra virðist hafa gert loftslagsmálin að aðalmáli sínu fyrir Alþingiskosningarnar 2021, þótt ekki verði séð, að þau geti orðið VG til framdráttar.  Hún sagði t.d. nýlega, að sorphirðumálin væru mikilvæg fyrir árangur okkar í baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.  Er það svo, eða heldur hún það bara ?

Í nýjustu skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda stendur þetta m.a.: 

"Meðhöndlun úrgangs var uppspretta 5 % af losun Íslands árið 2019 (LULUCF)." 

Þessi losun nam aðeins 224 kt (4,7 %) CO2íg 2019 og hafði þá minnkað um 2,2 % síðan 1990 og um 12 % frá 2018.  Miklar fjárfestingar í sorpeyðingu er ekki hægt að réttlæta með minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda.  Aðrar og mikilvægari ástæður gera nútímavæðingu þessara mála nauðsynlega hérlendis.  Evrópusambandið hefur bannað urðun, og sú ESB-löggjöf hefur verið innleidd í EFTA-löndum EES.  Það er ekki lengur verjanleg landnotkun út frá landnýtingarsjónarmiðum og mengun, sem getur verið lífríkinu skaðleg, að urða sorp.  Urðun þýðir þar að auki myndun metans í mun meiri mæli en þörf er á hérlendis, og metan er meira en tuttugufalt öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi, sem stígur upp af sorpknúnum orkuverum.  Þetta koltvíldi gæti verið hagkvæmt að fanga og selja gróðurhúsabændum og lífeldsneytisframleiðendum. 

 

 

 

 


Sorpeyðing í ólestri - verkefnastjórn í soranum

Ætla mætti að óreyndu, að umhverfisráðherra landsins liti á það sem eitt sinna höfuðviðfangsefna að fást við meðhöndlun úrgangs með nútímalegum hætti.  Því virðist ekki vera að heilsa, því að hann svarar ekki bréfum, sem til ráðuneytis hans berast um samstarf við innleiðingu á gjörbreyttu verklagi í þessum efnum.  Þess í stað lætur hann undirsáta sína hringja út á land og spyrja, hvort þar þekki menn ekki svæði, sem hann gæti friðlýst.

Þess á milli er hann aðallega upptekinn af losun gróðurhúsalofttegunda, þótt hún sé svo lítil frá Íslandi, að áhrif hennar á hlýnun jarðar eru ómælanleg. Samt reynir hann, ásamt forsætisráðherranum, að setja "Ísland í fremstu röð" með nýjum, ótímabærum og rándýrum markmiðum um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Þannig hafa "erroribus" nokkuð að iðja. 

Í Bændablaðinu 10. júní 2021 birtist átakanleg frásögn Harðar Kristjánssonar af molbúahætti íslenzkrar stjórnsýslu.  Fyrirsögn fréttaskýringarinnar var svohljóðandi:

"Bauðst til að hanna, fjármagna, byggja og reka hátæknisorporkustöð á Íslandi."

Hún hófst þannig: 

"Opnuð var rúmlega mrdISK 6 gas- og jarðgerðarstöðin GAJA í Álfsnesi á árinu 2020. Nú hefur komið í ljós, að moltan, sem er annað meginhráefnið, sem stöðin framleiðir, er með öllu ónothæf. Hugmyndir um að leysa málið með því að reisa sorporkustöð af fullkomnustu gerð hafa enn ekki fengið hljómgrunn, jafnvel þótt norskir rekstraraðilar slíkra stöðva hafi boðizt til að fjármagna, byggja og reka slíka stöð.

Bændablaðið hefur undir höndum bréf, sem John Ragnar Tveit, viðskiptaþróunarstjóri Daimyo AS í Ósló í Noregi, sendi Jóni Viggó Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Sorpu, þann 22. janúar 2021.  Þar er óskað eftir samstarfi við Sorpu um byggingu á 80-100 kt/ár hátæknisorporkustöð (Waste-to-energy - WTE).  Samkvæmt heimildum blaðsins hefur boðinu enn ekki verið svarað." [Undirstr. BJo.]

Vinstri græningjarnir, umhverfisráðherrann og stjórnarformaður Sorpu, hafa af hugmyndafræðilegum ástæðum ekki áhuga á að virkja einkaframtakið til að fást við þetta tæknilega viðfangsefni, heldur ætla þau að búa svo um hnútana, að hið opinbera vaði hér á foraðið, reynslulaust á þessu sviði, og stjórnmálamenn haldi um alla spotta verkefnisins og rekstrarins, þótt þeir hafi jafnvel enga þekkingu á verkefnastjórnun né innviðum nútímalegrar sorporkustöðvar.  Hætt er við, að þessi gatslitna hugmyndafræði vinstri grænna muni reynast landsmönnum mjög illa í þessu máli. 

Það er grafalvarlegt, ef hárri fjárfestingarupphæð úr vösum íbúa sveitarfélaganna, sem að byggðasamlaginu Sorpu standa, hefur verið ráðstafað þannig, að um kák eitt, fúsk og bruðl með skattpeninga hefur verið að ræða.  Fyrst fór verkefnið GAJA langt fram úr fjárhagsáætlun, og síðan kemur í ljós, að meginhluti afurðanna, moltan, er ónothæf, ef satt er hjá Bb, og markað skortir fyrir hitt, þ.e. metangasið.  

Þetta stafar varla af því, að tæknimenn, sem að undirbúninginum voru fengnir, hafi ekki reynzt vera starfi sínu vaxnir, heldur af því, að stjórnmálamenn ákváðu að sinna sjálfir verkefnastjórn og síðan  rekstri framleiðslufyrirtækis.  Hugmyndafræði vinstri manna, hér undir stjórn Samfylkingar í borginni, gengur ekki upp. Miklu vænlegra er að fela markaðinum verkefni af þessu tagi. Þá hefði þessi sorpeyðingar- og jarðgerðarstöð einfaldlega verið sett í útboð á Evrópska efnahagssvæðinu, og hagstæðasta tilboðinu um hönnun, byggingu og rekstur, út frá hagsmunum íbúanna, verið tekið. Ef það hefði verið gert, sætu íbúarnir ekki núna uppi með algerlega misheppnaða fjárfestingu.  Sennilega hefði heldur ekki átt að stefna á moltu- og gasgerð, heldur "hátæknisorporkustöð" fyrir allt landið, eins og frásögn Halldórs Kristjánssonar fjallar aðallega um. Fjárfesting Sorpu í þessari nýju stöð sinni virðist byggðasamlagið nú þurfa að afskrifa, ef aðalafurðin er með öllu ónothæf. 

Þá er kominn tími fyrir ríkið að hafa forgöngu án fjárhagsskuldbindinga til framtíðar að stofnun undirbúningsfélags um "state of the art" orkuver, sem safnar sorpi hvaðanæva að af landinu sjóleiðina og selur orku, sem verið vinnur úr sorpinu.  Sennilega verður þetta hagkvæmasta og umhverfisvænsta leiðin í krafti stærðarinnar til að losna við sorpið.  Skip þyrfti að safna sorpinu saman eftir endilangri strandlengjunni, því að þessir flutningar, 100-200 kt/ár, eru ekki leggjandi á þjóðvegakerfið, og sjóleiðin er sennilega umhverfisvænst og öruggust.

"Samhljóða bréf var sent til umhverfisráðherra.  Hann hefur heldur ekki séð ástæðu til þess að svara því samkvæmt upplýsingum blaðsins.

Ljóst má vera, að þetta verkefni varðar öll sveitarfélög í landinu.  Ef það á ekki einvörðungu að leysa þarfir sveitarfélaganna á suðvesturhorninu, þá kallar þetta á sjóflutninga á sorpi til stöðvarinnar af landsbyggðinni.  Því þarf umhverisráðherra væntanlega að sýna eitthvert frumkvæði, ef ætlunin væri að koma þessu á koppinn .  E.t.v. þarf ríkisvaldið líka að koma að rekstri eða niðurgreiðslum á flutningi sorps sjóleiðina til slíkrar stöðvar, ef af yrði. Annars er hætta á, að sveitarfélög úti á landi, fjarri suðvesturhorninu, verði áfram í miklum erfiðleikum með að losa sig við óendurvinnanlegan úrgang án urðunar."

 Auðvitað þarf umhverfisráðherrann að koma að þessu verkefni, því að líklega er þjóðhagslega hagkvæmast að veita öllum sveitarfélögum landsins aðgang að flutningum að stöð fyrir allt landið með jöfnun flutningskostnaðar, vonandi sjóleiðina, á milli þeirra.  Slíkt á þó ekki að vera skylda, enda virðast fleiri slík orkuver knúin úrgangi vera í deiglunni, t.d. í Vestmannaeyjum. Undirbúningsfélag landsstöðvar þarf að skilgreina orkustöðina og bjóða hana út á EES-markaðinum, bæði stofnsetningu og rekstur, og sá sem býðst til að annast verkið fyrir lægst gjald fyrir sorp inn í stöðina, ætti að fá verkið. Hann selur síðan orkuna frá verinu á markaðsverði. Hugsanlega þarf ríkissjóður að taka þátt með sveitarfélögunum í greiðslum fyrir sorp inn í orkuverið. Það mun koma í ljós, þegar tilboðin verða opnuð. Orkuverið selur orkuna á markaðsverði, og má hugsanlega tengja sorpgjaldið við orkuverðið. 

Halldór Kristjánsson vitnaði í innihald bréfsins frá téðu norsku fyrirtæki.  Þar stóð m.a.:

"Við höfum trú á, að Daimyo með sína góðu viðskiptasögu og samkeppnishæft viðskiptanet geti boðið fjármögnun og byggingu á fullkomnustu gerð af sorporkustöð, sem völ er á í Evrópu."

Það er sjálfsagt að ræða við þetta fyrirtæki, eins og önnur á þessum markaði, og leyfa því að taka þátt í þessu útboði, en ekki kemur til mála að veita því einhvern forgang að markaðinum hér vegna þess, hvernig í pottinn er búið með hann.

Áfram vitnaði HKr í þetta bréf, sem ekki hefur notið þeirrar lágmarkskurteisi að vera svarað innan eðlilegra tímamarka af íslenzkum yfirvöldum. Þótt þau hafi ekki vit á málinu, er sjálfsagt að hefja samtalið og viða að sér upplýsingum fyrir umhverfismatið og útboðið:

"Hér með er lýst yfir áhuga Daimyo á að stofna fyrirtæki á Íslandi, annaðhvort sem einkahlutafélag eða fyrirtæki í samvinnu við Sorporku, sem hafi það að markmiði að reisa og reka sorporkustöð á Íslandi. Við höfum trú á, að slík samvinna, sem byggi á öflugum bakgrunni og reynslu Daimyo í WTE geiranum og með aðkomu og þekkingu Sorporku, geti leitt til byggingar og rekstrar stórrar hátæknilegrar sorporkustöðvar á Íslandi í beggja þágu. Þar sem SORPA er stærsta félagið í meðhöndlun á sorpi á Íslandi, viljum við gjarna bjóða félaginu þátttöku í þessu verkefni, svo og öðrum sorphirðufyrirtækjum."

Það er eðlilegt, að umhverfisráðuneytið hafi forystu um þetta þjóðþrifamál á landsvísu, en ráðherrann virðist ekki hafa burði til þess, enda vanari því að þvælast fyrir verkefnum en að leiða þau til farsælla lykta. Málssóknir hans í nafni Landverndar og ýmsir tafaleikir, t.d. á orkusviðinu, hafa valdið þjóðinni búsifjum.  

"Þá segist Daimyo tilbúið til að sjá um áætlanir, hönnun, fjármögnun, byggingu og rekstur sorporkustöðvar í náinni samvinnu við SORPU, íslenzk yfirvöld og fyrirtæki gegn því, að tryggt sé, að stöðin fái nægt hráefni til starfseminnar í 25 ár.  M.v. umhverfisrannsóknir og annan undirbúning geti það tekið 5 ár frá undirritun samkomulags, sem byggi á þessu tilboði. Þar muni Daimyo sjá um að meta allan kostnað á framkvæmdatíma, framkvæmdatímann sjálfan, bjóða fjármögnun og alla nauðsynlega tæknilega aðstoð í öllu ferlinu, sem og að finna samstarfsaðila við ýmsa þætti í byggingu sorporkuversins. Ætla má, að slík stöð muni kosta mrdISK 25-30 samkvæmt upplýsingum frá Daimyo.  Þá segist Daimyo hafa í hyggju að leita til íslenzkra fyrirtækja, eins og kostur er við alla framkvæmdina, einkum byggingarverktaka.  Með því myndi skapast reynsla og þekking hjá íslenzkum fyrirtækjum til að sinna verkefnum á þessu sviði.  Eigi að síður myndi tæknibúnaður, er lýtur að umhverfisvernd og orkuframleiðslu, að mestu vera í höndum Daimyo og samstarfsfyrirtækja þess.  M.ö.o. Daimyo myndi sjá um verkið frá A til Ö, peningahliðina og allt annað."  

Það eru ýmsar fallgryfjur á leiðinni að lyktum þessa máls. Verkefnisstjórn GAJA í Álfsnesi er víti til varnaðar.  Undirbúningsfélag þessa verkefnis, sem er 5 sinnum stærra, þarf að vera með þátttöku ríkisins og e.t.v. Sambands íslenzkra sveitarfélaga.  Undirbúningsfélagið þarf að finna út, hvert er líklegasta sorpmagnið í byrjun og áfram, og bjóðendur bjóða verð á viðteknu sorpi samkvæmt því, en gefi jafnframt upp reiknireglu fyrir einingarverðið upp og niður samkvæmt innvigtuðum massa og orkuverði yfir árið. 

Í Morgunblaðinu sólstöðudaginn 22. júní 2021 var baksviðsfrétt á bls. 11 með fyrirsögninni:

"Undirbúa sameiginlega sorpbrennslu". 

Hún hófst þannig:

"Sorpsamlögin á Suðvesturlandi og umhverfisráðuneytið hafa hafið undirbúning að því að koma upp sorpbrennslu fyrir allt svæðið.  Á brennslan að lágmarka þörf fyrir urðun úrgangs.  Forverkefni samlaganna gengur út á að undirbyggja ákvarðanir um tæknilausnir, staðarval og kostnað, og á sú vinna að taka 4 mánuði.  Að vinnunni standa Sorpa, Kalka á Suðurnesjum, Sorpurðun Vesturlands og Sorpstöð Suðurlands auk umhverfisráðuneytisins.  Á starfssvæði þessara 4 byggðasamlega fellur til um 83-85 % alls úrgangs á landinu."  

Það virðist af þessu að dæma ekki hafa verið hugað að því að reisa eina stöð fyrir landið allt, því að öll sorpsamlög landsins eru ekki þátttakendur á undirbúningsstigi.  Hér er um svo mikla fjárfestingu að ræða að kappkosta verður að ná þeirri stærðarhagkvæmni, sem unnt er.  Þó er skiljanlegt, að Vestmannaeyingar vilji reisa sína sorporkustöð. Getur ekki sorporkustöð fyrir landið allt verið í Vestmannaeyjum og veitt Vestmannaeyingum bæði birtu og yl, ef þeir vilja hýsa hana ? 

""Þessir aðilar eru að taka höndum saman um að innleiða hringrásarhagkerfið.  Við erum núna að ná tökum á lífrænum úrgangi með gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA, sem er stórt verkfæri í þessu verkefni og mikilvægt í loftslagsmálum.  Næsta stóra verkefnið er að afsetja brennanlegan úrgang", segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG og formaður stjórnar Sorpu."

Það er alls ekki affarasælt að láta stjórnmálamann á borð við téða Líf, sem væntanlega ber höfuðábyrgð á óförum GAJA-verkefnisins, kostnaðarlega og tæknilega, véla um hið nýja stórverkefni á umhverfissviði. Hugmyndafræði hennar er þó sú, að einmitt stjórnmálamenn eigi að troða sér að í verkefnastjórnum og síðan rekstrarstjórnum opinberra framkvæmda og fyrirtækja.  Eðlilegast er, að umhverfisráðuneytið stofni undirbúningsfélag um þetta verkefni á faglegum forsendum, sem auðvitað hefur samráð við sorpsamlög landsins, þar sem kjörnir fulltrúar sjálfsagt sitja, en undirbúningsfélagið hafi það meginhlutverk að staðsetja stöðina og semja útboðslýsingu fyrir byggingu og rekstur. Þar með er tryggt, eins og kostur er, að landsmenn njóti beztu fáanlegrar þjónustu á þessu sviði með lágmarks kostnaði m.v. gæði frá einkafyrirtæki, sem kann til verka.  Að öðrum kosti er stórhætta á tæknilegu klúðri og allt of dýru verkefni. 

 

 

 

 

  

   

 

 


Svipull er sjávarafli

Ráðlegging Hafrannsóknarstofnunar um afla í íslenzku fiskveiðilögsögunni fiskveiðiárið 2021/2022 kom sem skrattinn úr sauðarleggnum til almennings í landinu. Því hefur verið haldið að almenningi, að með rannsóknum og tölfræðilegum greiningum á mæliniðurstöðum og 20 % aflareglu úr viðmiðunarstofni væri verið að byggja upp vaxandi hrygningarstofn, svo að veiðarnar mundu aukast, þar til stofninn hefði náð þolmörkum umhverfisins, fæðuframboðs o.þ.h. Menn töldu þeim mörkum enn ekki vera náð, en er það svo ?  

Nú hefur annað komið á daginn.  Vísindamenn telja sig nú hafa ofmetið þorskstofninn um 267 kt eða 28 %.  Er það svo, eða er þorskurinn farinn annað, varanlega ?  Vísindamenn hafa ekki svör við því, og úr því verður að bæta fljótlega.  Þótt Hafrannsóknarstofnun starfi undir rýni alþjóðlegs vísindasamfélags, hefur henni orðið alvarlega á í messunni.  Hún verður í sumar að gera raunhæfa áætlun um úrbætur með viðeigandi kostnaðaráætlun, sem ráðuneytin og fjárlaganefnd Alþingis geta þá tekið afstöðu til í haust.  Ekki er ólíklegt, að setja þurfi samþykkta kostnaðaráætlun á fjármálaáætlun ríkisins, því að við svo búið má ekki standa.

Sama hvernig á þessa sviðsmynd er litið, er málið grafalvarlegt, því að afar gloppótt þekking fiskifræðinganna á ástandi fiskimiðanna við landið blasir nú við. Hins vegar varaði enginn spekingur utan stofnunarinnar við þessu, og enginn ráðlagði minni veiðar, nema síður sé.  Sé gert ráð fyrir, að endurskoðun viðmiðunarstærðar þorskstofnsins frá maí 2021 sé "rétt", blasir við ofmat stofns um 28 %.  Samkvæmt aflareglunni minnkar þessi áætlun leyfilegar þorskveiðar á fiskveiðiárinu 2021/2022 niður í um 188 kt eða um 70 kt, sem gæti jafngilt tekjutapi um mrdISK 40.  Þetta er höggið, sem sjávarútvegurinn og þjóðarbúið standa frammi fyrir á fiskveiðiárunum 2021/2022-2022/2023 vegna óvænts mats á verðmætasta stofninum, en vegna dempunarreglu helmingast höggið á hvort fiskveiðiárið, og nokkrir aðrir stofnar virðast vera að hjarna við. 

Í gamla daga hefðu þessi tíðindi haft í för með sér gengisfellingu ISK, en enn stendur hún alveg pallstöðug, þótt hún hafi hækkað talsvert, eftir að hagur strympu glæddist á málmmörkuðum og í ferðageiranum og þótt Seðlabankinn hafi látið af sölu gjaldeyris. Bæði er, að sjávarútvegurinn er nú stöndugur og sveigjanlegur með mikinn aðlögunarþrótt og þjóðarbúinu hefur nú vaxið fiskur um hrygg með fleiri öflugum gjaldeyrislindum.

Það sýnir sig nú svart á hvítu, að engin glóra er í, að stjórnvöld fari að ráðum sérvitringa og óvita um sjávarútveg og taki að spila einhvers konar rússneska rúllettu með stórhækkun veiðigjalda eða uppboði á þjóðnýttum aflaheimildum.  Slíkt er hreinræktuð dilla þröngsýnna pólitískra hugmyndafræðinga og skemmdarverkastarfsemi á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. 

Ferðageirinn mun taka vel við sér, þegar sóttkví óbólusettra linnir með viðunandi hjarðónæmi hér, vonandi 01.07.2021, og þá hlýtur að verða nóg að skima aðeins þá, sem ekki eru með ónæmis- eða bólusetningarvottorð. Árið 2021 verður líklega, þrátt fyrir höggið, ár sæmilegs hagvaxtar, eins og annars staðar á Vesturlöndum, enda varð rýrnun þjóðartekna meiri hér árið 2020 en víðast hvar annars staðar eða 6 %-7 %. Samt hækkaði kaupmáttur launa.  Það er líklega einsdæmi, en jók örugglega atvinnuleysið.  Verkalýðshreyfingin stakk hausnum í sandinn og fórnaði langtímahagsmunum launþeganna fyrir skammtímaávinning þeirra, sem eru í öruggri vinnu.  Það er ótraustvekjandi afstaða, enda bera sumar yfirlýsingar forseta ASÍ o.fl. vott um stéttastríðshugarfar, sem reynslan og samanburður við hin Norðurlöndin hefur sýnt, að getur ekki gagnazt launþegum til lengdar.  Það, sem gagnast launþegum bezt, er að vinna að hámörkun verðmætasköpunar í friði við vinnuveitendur. 

Önnur grein, sem nú getur komið til hjálpar, er fiskeldið, bæði í sjókvíum innan marka áhættugreininga og burðarþolsmats Hafrannsóknarstofnunar, og í landeldiskerum. Eftirlitsstofnanir mega hvorki draga lappirnar né flaustra, heldur skulu þær halda sig innan lögboðinna tímamarka. 

Viðbrögð forystu SÍF, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, við leiðréttingu á mistökum Hafró, voru rétt.  Það er skárst í stöðunni að fylgja ráðum beztu fáanlegu þekkingar á sviði haf- og fiskifræði, þótt henni sé ábótavant, enda gæti hundsun slíkra ráðlegginga haft slæmar afleiðingar fyrir markaðsstöðu íslenzkrar framleiðslu sjávarútvegsins erlendis, þar sem samkeppnin er hörð.  Vonandi dregur nú úr útflutningi óunnins fiskjar, svo að framleiðendur geti haldið markaðsstöðu sinni fyrir unna vöru. Nú er ástæða fyrir utanríkisráðuneytið til að juða í Bretum um lækkun tolla á slíkum vörum.

Gunnlaugur Snær Ólafsson birti frétt í Morgunblaðinu 16. júní 2021 um þessi slæmu tíðindi:

"Gera ráð fyrir samdrætti í útvegi".

Þar stóð m.a.:

""Ég verð bara að segja það, að þetta eru mikil vonbrigði og þungbær tíðindi.  Þetta er svo mikill niðurskurður og mjög óvænt.  Þetta mun valda tekjusamdrætti hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og ljóst, að menn verða að grípa til aðgerða í sínum rekstri til að mæta þessu. 

Ég sé samt ekkert annað í stöðunni en við fylgjum ráðgjöf Hafró.  Við verðum að taka á þessu af ábyrgð og fylgja þessari vísindalegu ráðgjöf með langtímahagsmuni í huga", segir Ólafur H. Marteinsson, forstjóri Ramma hf og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi."

Af sömu ástæðum og Ólafur tilgreinir, mun sjávarútvegsráðherra að öllum líkindum fylgja þessari ráðgjöf Hafró í meginatriðum.  Skaðinn er orðinn, og hann verður ekki bættur með hókus-pókus aðferðum. 

Um þetta er þó ekki eining, og annan pól í hæðina tók Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, en félagsmenn hans eru mjög háðir þorskveiðum:

"Hann kveðst binda vonir við, að ráðherra sjávarútvegsmála fari út fyrir ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar til að lina höggið, sem fylgir skerðingunni.  "Ég held það sé alveg hægt.  13 % niðurskurður í okkar helztu tegund er bara allt of mikið.  Smábátarnir eru alveg háðir þorskinum.""

Það er innbyggð dempun á breytingum í ráðgjöf Hafró, því að skerðingin væri 27 %, ef hún kæmi að fullu fram á einu fiskveiðiári.  Það er ekki nóg, að hagsmunaaðilar haldi, að óhætt sé að veiða meira, ef viðtekin aflaregla segir allt annað. 

Það er eðlilegt og skiljanlegt, að sjávarútvegsfyrirtæki leiti leiða til að vaxa yfir í skylda starfsemi, sem veitir meiri stöðugleika.  Það hafa þau gert með því að gjörnýta fiskinn og framleiða úr honum eftirsóttar vörur á grundvelli rannsókna og þróunar.  Stórtækastar eru þó fjárfestingarnar á sviði fiskeldis.  Samherji kannaði fýsileika þess að kaupa Norðurálshúsin í Helguvík undir landeldi, en hvarf frá því vegna skorts á ferskvatni.  Nú hefur fyrirtækið kynnt áform í samstarfi við HS Orku við Reykjanesvirkjun. Morgunblaðið greindi frá þessu 17. júní 2021 í frétt undir fyrirsögninni: 

"Ylsjórinn dró Samherja á Reykjanes".

Hún hófst þannig:

"Aðstæður til landeldis á laxi eru góðar í Auðlindagarðinum á Reykjanesi, en þar áformar Samherji fiskeldi ehf að reisa risastóra eldisstöð.  Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis, segir, að ylsjórinn geri þessa staðsetningu sérstaka. Ylsjórinn er affall frá kælingu Reykjanesvirkjunar.  Jón Kjartan segir, að aðgangur að miklum ylsjó sé forsenda þess, að hægt sé að koma upp hagkvæmu landeldi á stórum skala."

Hér er ætlunin að mynda nýtt lokastig nýtingar varmans úr jarðgufunni og þar með að gjörnýta orkuna úr jarðgufunni til að flýta vexti eldisfiskjarins.  Þessi flýting ásamt hagkvæmni stærðarinnar mun sennilega gera þetta fyrirhugaða landeldi samkeppnishæft við sjókvíaeldi, en hár fjármagnskostnaður og rekstrarkostnaður hefur verið Akkilesarhæll landeldisins.  

"Áformað er að byggja allt að 40 kt/ár laxeldi á landi í þremur áföngum á næstu 11 árum.  Byggð verður seiðastöð og ker fyrir áframeldi.  Jón Kjartan segir gert ráð fyrir, að komið verði upp aðstöðu til slátrunar á laxi, en frekari vinnsla og pökkun verði annars staðar á Suðurnesjum. Af því tilefni segir hann, að Samherji vinni afurðir sínar yfirleitt meira en minna. Því verði hluti laxaframleiðslunnar flakaður fyrir útflutning, en hann segir ekki ljóst nú, hversu stór hluti það verði. 

Í 1. áfanga stöðvarinnar er gert ráð fyrir 10 kt/ár framleiðslu.  Frumvinnsla á laxi og pökkun er mannaflsfrek starfsemi.  Þannig er gert ráð fyrir, að bein störf við eldi og frumvinnslu í 1. áfanga verði um 100 og annað eins í afleiddum störfum.  Þá muni fjölmörg störf verða við uppbygginguna." 

Þetta verkefni Samherja er ekkert minna en hvalreki fyrir Suðurnesjamenn og landið allt.  Þarna verða allt að 800 störf til 2032, bein og óbein, heildarfjárfesting verður líklega mrdISK 45 - mrdISK 50, og á verkstað gæti þurft um 1400 mannár á 11 ára skeiði.  Þetta er þess vegna stórverkefni, sem er einmitt það, sem íslenzka hagkerfið þarf endilega á að halda núna, því að í landinu ríkir ládeyða í atvinnulífinu.  Á sama tíma og umsvif sjávarútvegs minnka vegna niðursveiflu í lífríki hafsins, þá leggur Samherji grunn að hagrænum stöðugleika og vaxandi tekjustreymi til framtíðar, sem verður öllum landsmönnum til góðs.  Þetta eru gleðitíðindi.  

Fiskeldið er sannarlegur vaxtarbroddur hagkerfisins um þessar mundir.  Árið 2020 var slátrað 40,6 kt af eldisfiski í landinu, og útflutningsverðmæti þess nam mrdISK 29,3.  Verðmæti útfluttra sjávarafurða nam þá mrdISK 270, svo að hlutfallið var þá orðið 11 % og 5 % af heildarvöruútflutningi.  Árið 2032 gæti fiskeldið numið 200 kt alls og hlutfall þess af heildarvöruútflutningi landsins numið 22 %.  Það mun þess vegna mynda eina af meginstoðum íslenzka hagkerfisins. 

Þann 14. apríl 2021 ritaði væntanlegur 1. þingmaður NA-kjördæmis, Njáll Trausti Friðbertsson, mjög fróðlega grein í Markað Fréttablaðsins:

"Drifkraftur og byggðafesta fiskeldisins".

Þar kom m.a. eftirfarandi fram:

"Nýsamþykkt tillaga Hafrannsóknarstofnunar um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar laxeldis, gerir ráð fyrir, að heimilt sé eldi 106 kt/ár í sjó.  Vaxi það [sjóeldið - innsk. BJo] nærri gildandi áhættumati fiskeldisins, gæti útflutningsverðmæti sjóeldisins orðið nærri 80 mrdISK/ár.  M.v. 800 ISK/kg greiðslu fyrir útflutninginn.  Auk þess verðmætis í sjóeldi er á næstu árum stefnt á landeldi á laxi, bleikju og öðru fiskeldi fyrir um 15 mrdISK/ár. [Þarna voru tíðindin af verkefni Samherja á Reykjanesi ekki komin fram - innsk. BJo.]  Það lætur því nærri, að útflutningsverðmæti fiskeldis geti orðið tæplega 100 mrdISK/ár á næstu árum.  Gangi þetta eftir, verður fiskeldið stór hluti útflutningsverðmæta íslenzkra sjávarafurða." 

Njáll Trausti Friðbertsson hefur öðlazt ríkan skilning á atvinnulífinu og heilbrigðu samspili innlendra og erlendra fjárfestinga þar og í seinni tíð innkomu Kauphallar Íslands við miðlun fjárfestingarfjár frá sparendum til fiskeldisfyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja.  Kveður þar við annan og heilbrigðari tón en heyra má úr ranni sumra annarra á stjórnmálavettvangi, hverra ær og kýr eru niðurrif á trausti almennings til fyrirtækja og að kynda undir stéttastríði launþega og launagreiðenda.  Slíkur forheimskandi áróður getur engum orðið til hagsbóta.  Ágætri grein sinni í Markaðinum lauk NTF þannig:

"Þrátt fyrir að stór hluti Íslands hafi verið lokaður fyrir fiskeldi [í sjó] frá 2004 og stjórnvöld setji eldinu æ strangari kröfur, óttast menn umhverfisáhrif og vöxt fiskeldisins. 

Við skulum gera ríkar kröfur um uppbyggingu eldis í sátt við umhverfið.  Innan eldisfyrirtækja er sterk umhverfisvitund, enda sjálfra þeirra hagsmunir að ganga vel um náttúruna.  Kröfur alþjóðlegra umhverfisvottana aga einnig starfsemina. 

Ótti um aðkomu erlendra fyrirtækja í fiskeldi er ástæðulaus.  Þau miðla íslenzku eldi mikilli reynslu og þekkingu og dreifa fjárhagslegri áhættu af innlendri uppbyggingu.  Áhugavert er, að flest laxeldisfyrirtæki eru nú skráð á hlutabréfamörkuðum, og íslenzkir fjárfestar, þ.m.t. lífeyrissjóðir, hafa fjárfest í þessari vaxandi atvinnugrein.  Óháð eignaraðild er fiskeldið að skilja mikið eftir sig í hinum dreifðu byggðum. 

Efnahagsleg hagsæld mun áfram byggja á vexti útflutningsgreina.  Þar verður fiskeldið æ mikilvægari drifkraftur atvinnusköpunar og byggðafestu, ekki sízt á Austfjörðum."   

20100925_usp001

 

 

 

 

 

 

     

 


Vetnisvæntingar og virkjanaþörf

Við og við berast almenningi fregnir af miklum vetnisáformum. Síðast var það með forsíðuuppslætti forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarsonar, um samstarfsverkefni Landsvirkjunar og Rotterdam-hafnar um flutninga á vetni, framleiddu á Íslandi, til Rotterdam. Lesandinn var þó skilinn eftir í þoku með það, hvort þetta samstarfsverkefni spanni einnig vetnisverksmiðju. Aðrar fregnir herma, að Landsvirkjun vilji reisa vetnisverksmiðju við Ljósafossvirkjun.  Sú hugmynd er algerlega út í hött.  Á hvaða vegferð er þetta stóra og mikilvæga ríkisfyrirtæki eiginlega ?  Hafa menn algerlega tapað áttum ? Það eru fleiri, sem eru að rannsaka fýsileika þess að reisa hér vetnisverksmiðjur, og þeir hafa sumir áhyggjur af því, að raforkuverðið, sem slíkum vetnisverksmiðjum býðst, sé ósamkeppnishæft. Landsvirkjun er að villast út í bullandi hagsmunaárekstra ("conflict of interests"). 

Hvað sem því líður samkeppnishæfninni, verður að telja mjög óeðlilegt, að afskipti Landsvirkjunar af vetnisframleiðslu hérlendis séu nokkur önnur en að selja raforku til slíkrar framleiðslu.  Þetta ríkisraforkufyrirtæki, sem er risinn á fákeppnismarkaði stórsölu á rafmagni í landinu, verður að gæta "arms lengdar" við mögulega viðskiptavini sína, til að önnur vetnisfélög eða hvaða annar kaupandi þeirra takmörkuðu gæða, sem íslenzk raforka er, hafi ekki rökstudda ástæðu til að væna Landsvirkjun um mismunun.

Hafa fulltrúar eigenda Landsvirkjunar, Alþingismenn, rætt þessa útvíkkun á starfsemi Landsvirkjunar ?  Það hefur þá farið mjög lágt.  Þetta er grundvallarbreyting á hlutverki Landsvirkjunar, og slík stefnumörkun þarf að koma með lagasetningu eða a.m.k. þingsályktun frá Alþingi.  Það gengur ekki, að fyrirtækið vaði út um víðan völl með þessum hætti. Alþingismenn þurfa að skerpa á hlutverki Landsvirkjunar og bæta við orkulögin lagagrein um, að það sé á ábyrgð Landsvirkjunar að sjá til þess, að aldrei komi til forgangsorkuskorts í landinu, nema náttúruhamfarir hamli raforkuvinnslu.    

Í Morgunblaðinu 15. júní 2021 var forsíðufrétt um Rotterdam-ævintýri Landsvirkjunar og síðan frétt á bls. 4 undir fyrirsögninni:

"Grænt ljós á útflutning á grænu vetni".

Hún hófst þannig:

""Þessar niðurstöður eru mjög uppörvandi, og við hjá Landsvirkjun höfum trú á þessu samstarfi við Rotterdamhöfn", segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.  

Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam hafa lokið við forskoðun varðandi möguleika á að flytja grænt vetni frá Íslandi til Rotterdam.  Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun sýna niðurstöðurnar, að tæknin er fyrir hendi jafnframt því, sem verkefnið er fjárhagslega ábatavænt.  Eins telur Landsvirkjun, að verkefnið yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun, þegar hagkerfi heimsins skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orku á komandi áratugum."

Þetta er óttalega innantómt hjá forstjóranum, enda auðvelt að verða sér úti um upplýsingar, sem með smáútreikningum sýna, að hagkvæmt muni á allra næstu árum verða að virkja vatnsföll og jarðgufu og jafnvel vind á Íslandi til að framleiða vetni með rafgreiningu (klofnun vatns).  Hins vegar yrði framboð vetnis frá Ísland alltaf hverfandi lítill hluti af heildarframboðinu til orkuskipta, og þess vegna mjög ofmælt og villandi, raunar tóm vitleysa, að halda því fram, "að verkefnið yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun".  Réttara er, að það skiptir engu máli í því stóra samhengi.  Það sést á því, að Landsvirkjun áformar að virkja 2-4 TWh/ár í þetta verkefni eða 200-500 MW að eigin sögn, sem gefur mjög háan nýtingartíma á ári, miklu hærri en mögulegur er með vindmyllum. Til samanburðar ætla Þjóðverjar fyrir árið 2030 að nýta vetni frá 80 GW uppsettu afli og miða þá við vindmyllur úti fyrir ströndum með nýtingartíma um 45 %.  Það þýðir, að þetta framlag Landsvirkjunar til vetnisvæðingar Þýzkalands yrði innan við 1 % árið 2030.  "Miklir menn erum við Hrólfur minn."

Fréttin í þessari frásögn er hins vegar sú, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, sem gæti fengið fyrirspurnir frá nokkrum vetnisframleiðendum um sölu raforku til nokkurra vetnsisverksmiðja á landinu, sé að blanda sér inn í fýsileikakönnun eins aðila um vetnisverksmiðju og vetnisflutninga.  Þar er Landsvirkjun hreint út sagt komin út fyrir heimildir sínar og siðlega framgöngu í viðskiptum út frá samkeppnissjónarmiði.  Hún gefur höggstað á sér gagnvart Samkeppniseftirlitinu og ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sem líklega telja hér um óeðlilega og samkeppnisskekkjandi ríkisaðstoð að ræða.  Þetta er dómgreindarleysi af hálfu stjórnar Landsvirkjunar. 

Afar áhugaverð grein birtist í Bændablaðinu 27. maí 2021 eftir Herrn Dietrich Becker, sendiherra Þýzkalands á Íslandi.  Hann varpar fram aðlaðandi samstarfsgrundvelli Íslendinga og Þjóðverja á sviði vetnistækni.  Greinin hét:

"Tækifæri fyrir Ísland og Þýzkaland".

Þar stóð í innganginum m.a.:

"Þýzkaland hefur náð miklum árangri í að byggja upp vind- og nýlega sólarorku.  Þegar árið 2020 var meira en helmingur þýzkrar raforkuframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum: 247 TWh/ár samtals (þar af vindorka 131 TWh/ár, sólarorka 51 TWh/ár, lífmassi 45 TWh/ár, vatnsorka 18 TWh/ár).  Heildar raforkuframleiðsla Íslendinga nam [þá] 19 TWh/ár [og var öll úr "endurnýjanlegum" orkulindum]."

Þetta er frábær árangur Þjóðverja, en dýrkeyptur sem mikil landfórn undir vindmyllur í þéttbýlu landi og hefur valdið háu raforkuverði.  Á næsta ári á að loka öllum starfræktum kjarnorkuverum í Þýzkalandi, og mun sá pólitíski gjörningur auka á losun koltvíildis, og er þess vegna furðuleg friðþæging fráfarandi kanzlara í garð græningja.  Framboðsgapið, ef af verður, verður fyllt með aukinni raforkuvinnslu gasorkuvera, kolakyntra orkuvera og innflutningi rafmagns.  Aðgerðin er þess vegna allsendis ótímabær. 

Nú stendur fyrir dyrum hjá Þjóðverjum að draga úr eldsneytisnotkun á fleiri sviðum en við raforkuvinnslu, og þá horfa þeir til vetnis og vetnisafleiða, s.s. ammoníaks.  Sú aðgerð er raforkukræf, því að þeir einblína á "grænt" vetni, og til að fullnægja áætlaðri vetnisþörf 2030 þarf um 30 % meiri raforku en nú nemur allri raforku Þjóðverja úr endurnýjanlegum orkugjöfum.  Þjóðverjar búast við að geta aðeins annað um 15 % þeirrar raforkuþarfar sjálfir eða um 50 TWh/ár, sem væri þá um 20 % aukning "grænnar" raforku í Þýzkalandi.  Það, sem á vantar af grænu vetni, verða þeir að flytja inn, og þeir hafa nú þegar samið um það við Portúgal, Marokkó og Síle.  Norðmenn hyggja líka gott til glóðarinnar.  Má líta á tilvitnaða grein þýzka sendiherrans sem lið í undirbúningi slíks samnings við Íslendinga.  Í þessu ljósi er afar óskynsamlegt af Landsvirkjun að binda hendur íslenzka ríkisins við samstarf við hollenzkan kaupanda.  Við eigum að hafa frjálsar hendur til þessara viðskipta, og benda má á, að stór markaður er að opnast fyrir grænt vetni á Norður-Englandi líka.

"Frá sjónarmiði þýzkra stjórnvalda og þýzks iðnaðar er greiningin ótvíræð.  Mikilvægasti þáttur umskipta í þýzkum iðnaði verður grænt vetni, vetni framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum.  Rafmagnsþörfin mun aukast mjög mikið vegna vetnisframleiðslu og samgangna með rafmagni.  Frekari uppbygging nálgast efnisleg og pólitísk endimörk.  Þýzkaland heldur áfram að byggja upp endurnýjanlegar orkulindir, en verður árið 2050 að treysta eftir sem áður á umtalsverðan innflutning á orku í formi rafmagns, vetnis og afleiðum þeirra."

Þýzkaland ræður varla við alger orkuskipti með núverandi tækni, þótt landið flytji inn "grænt" rafmagn, t.d. frá Noregi um sæstreng, sem trúlega kemst í gagnið á þessu eða á næsta ári, og "grænt" vetni, jafnvel alla leið frá vatnsorkulöndum Suður-Ameríku.  Árið 2030 verður vafalítið komin til skjalanna ný, umhverfisvæn tækni til raforkuvinnslu, líklega kjarnorkutækni með mun minna geislavirkum úrgangi og styttri helmingunartíma en frá núverandi úraníum-verum.  Hvers vegna taka íslenzk stjórnvöld ekki þýzk stjórnvöld á orðinu og fá þýzkan vetnisframleiðanda til að stofna vetnisfélag á Íslandi með íslenzkri þátttöku áhugasamra, sem mundi semja um raforkukaup við íslenzka orkubirgja og framleiða "rafeldsneyti" hér til útflutnings til Þýzkalands ?

Þann 10. marz 2021 birtist í Morgunblaðinu viðtal við Hafstein Helgason, verkfræðing hjá Verkfræðistofunni EFLU.  Viðtalið bar fyrirsögnina:

"Áform um vetnisgarða á Íslandi".

Þar sagði Hafsteinn Helgason m.a.:

"Með þetta [fyrirhuguð vindorkuver á Íslandi - innsk. BJo] í huga er verið að undirbúa fundarhöld milli Íslands og Þýzkalands, en Þjóðverjar eru farnir að sýna Íslandi áhuga [sem hreinorkulandi - innsk. BJo]. Þeim hefur fundizt sem ekki sé hægt að framleiða nógu mikið af raforku á Íslandi.  Við getum hins vegar vel framleitt 5-8 GW af vindorku án þess að þrengja að ferðaþjónustu eða vera lífríkinu til ama." 

 

""Annað verkefnið snýst um að virkja allt að 1,0 GW á NA-horni landsins og reisa vetnisverksmiðju í Finnafirði.  Við höfum unnið það með Þjóðverjum, en innlendir og erlendir aðilar tengjast þessu verkefni.  M.v. að hvert MW með vindorku kosti MISK 180, þá kosta 1000 MW mrdISK 180.  Þetta er aðeins vindorkuþátturinn.  Svo er vetnisþátturinn eftir.  Í þessu tiltekna verkefni er horft til þess að gera ammoníak úr vetninu, því [að] vetnisgasið er svo rúmfrekt; það kostar töluvert mikið að vökvagera það [kæling undir þrýstingi - innsk. BJo]. Rúmmetrinn af fljótandi vetni vegur aðeins 71 kg, en rúmmetrinn af ammoníaki 600 kg", segir Hafsteinn og leggur áherzlu á, að bezt sé að nýta ammoníakið beint sem orkugjafa [orkubera - innsk. BJo]. 

   Hér er um gríðarlegar fjárfestingar að ræða, sennilega yfir mrdISK 500 í orkuveri, vetnisverksmiðju og ammoníakverksmiðju, hafnargerð og hafnaraðstöðu. Hagsmunir landshlutans og landsins alls af þessu verkefni eru gríðarlegir.  Það er stórskrýtið, að ekki heyrist bofs um stefnumörkun iðnaðarráðuneytisins í málinu.  Hins vegar býst ég við, að tilvonandi 1. þingmaður NA-kjördæmis verði þessu meðmæltur.  Það mun samt verða nóg af andmælendum.  Afturhaldið í landinu hefur allt á hornum sér, þegar verðmætasköpun í dreifbýlinu er á döfinni. 

Það er mjög áhugaverð aukabúgrein, sem af þessu stórverkefni getur spunnizt:

""Svæðið er þar að auki einstaklega hentugt til uppbyggingar á laxeldi, staðsettu á landi.  Jafnvel tugi þúsunda tonna árlega.  Súrefnið við vetnisframleiðsluna færi til íblöndunar við eldissjóinn til að minnka dælingarþörfina [í orkusparnaðarskyni og til að draga úr viðhaldsþörf - innsk. BJo].  Glatvarminn frá iðnferlunum færi í að hita sjóinn til eldisins í kjörhitastig", segir Hafsteinn um hinn gagnkvæma ávinning.  Þá muni vindorkuverin skapa landeigendum tekjur og ammoníakið skapa tækifæri "fyrir hröð orkuskipti fiskiskipaflotans."  

Þetta er mjög áhugaverð viðskiptahugmynd, sem þarna er kynnt til sögunnar.  Byrjunarumfangið nægir til samkeppnishæfs rekstrar, landrými er líklega nægt, og staðsetningin truflar vonandi fáa, og aðstæður fyrir hafnargerð eru fyrir hendi.  Tækniþekking samstarfsaðilanna er væntanlega næg fyrir hönnun, uppsetningu og rekstur alls verkefnisins, og síðast en ekki sízt eru Þjóðverjarnir væntanlega fúsir til að fjármagna öll herlegheitin. 

Hið sama verður ekki sagt um áform Landsvirkjunar.  Fyrirtækið hefur beðið Grímsnes- og Grafningshrepp um aðalskipulagsbreytingu á lóð Ljósafossvirkjunar til að hola þar niður örlítilli vetnisverksmiðju, sem aldrei getur borið sig sökum smæðar og á alls ekki heima í þessu umhverfi.  Verkefnið kallar á vetnisflutninga eftir þröngum vegum, þar sem ferðamannaumferð er mikil.  Þetta virðist algerlega þarflaust verkefni og algerlega utan við verksvið Landsvirkjunar.  Þessi hugmynd er sem út úr kú.

Í baksviðsfrétt Morgunblaðsins 17. júní 2021:

"Vetni framleitt við Ljósafoss",

stóð þetta m.a.:

"Í fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir, að íbúðasvæði vestan við Ljósafossvirkjun, sem er í núverandi aðalskipulagi skilgreint sem íbúðabyggð, verði breytt í iðnaðarsvæði.  Við Ljósafossstöð áformar Landsvirkjun að hefja vetnisvinnslu, og því er þessi breyting á skipulaginu nauðsynleg.  Uppsett afl virkjunarinnar er 16 MW, og Landsvirkjun áformar, að uppsett afl rafgreinis verði 10 MW.  Stærð vetnisstöðvarinnar verður nálægt 700 m2."

 Sveitarstjórnin ætti að hafna þessari ósk um skipulagsbreytingu.  Vatnsorkuverið Ljósafoss er heimsótt af fjölda manns árlega og nær væri að efla þjónustu við ferðamenn á þessum fagra stað en að fæla ferðamenn frá með vetnisframleiðslu, vetnistönkum og vetnisflutningum.  

 

 

 

 


Forgangur ESB-löggjafar í EFTA-löndunum er viðkvæmt mál

Alþýðusamband Noregs, LO (=Landsorganisasjonen), krefst þess, að norsk löggjöf um vinnumarkaðsmál sé æðri ESB-löggjöf um atvinnulífið, sem leidd er í norsk lög samkvæmt EES-samninginum. LO telur hallað á norskt verkafólk með innleiðingu ESB-löggjafarinnar og sættir sig ekki við lögþvingaða rýrnun réttinda sinna félagsmanna. Vaxandi óánægja innan LO með EES-samstarfið getur leitt til, að LO álykti um nauðsyn endurskoðunar á EES-samninginum.  Þá kann að verða stutt í sams konar sinnaskipti stærsta stjórnmálaflokks Noregs, Verkamannaflokksins, sem líklega mun leiða nýja ríkisstjórn að afloknum Stórþingskosningum í september 2021.

Spyrja má, hvers vegna Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hafi ekki viðrað áhyggjur sínar með svipuðum og áberandi hætti af ráðandi stöðu ESB-réttar í íslenzkri löggjöf samkvæmt EES-samninginum.  Svarið kann að nokkru leyti að vera að finna í þeim mun, sem er á viðkomandi lagasetningu þessara tveggja bræðralanda, sem bæði þurfa þó að hlíta bókun 35 við EES-samninginn, sem fjallar um skyldu EFTA-landanna að lögleiða forgang ESB-löggjafar umfram landslög.

Íslenzka innleiðingin á forgangi ESB-löggjafar var skilyrt og veitti dómstólum þannig ráðrúm til að meta hvert mál fyrir sig.  Líklega teygir íslenzka löggjöfin um forganginn sig eins langt í átt að EES-samninginum og íslenzka stjórnarskráin leyfir.  Það er hins vegar ekki nóg fyrir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA), sem hefur kvartað undan dómsuppkvaðningum hérlendis, þar sem innlend löggjöf var látin ráða, sjá viðhengi með þessum pistli. ESA sakaði Ísland árið 2017 um samningsbrot vegna rangrar lögfestingar um forgang ESB-réttar samkvæmt bókun 35. Íslenzka ríkisstjórnin svaraði ESA 10. september 2020 með vísun til Weiss-málsins, þar sem þýzki stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe taldi rökstuðning Evrubankans í Frankfurt am Main fyrir kaupum bankans á ríkisskuldabréfum evrulandanna ófullnægjandi.  Evrópusambandið væri ekki sambandsríki, heldur ríkjasamband, og þess vegna væri stjórnarskrá Sambandslýðveldisins Þýzkalands æðri Evrópurétti.  

  ESA hefur nú sent Íslandi lokaviðvörun vegna téðs samningsbrotamáls, og gangi ESA alla leið og kæri íslenzka ríkið fyrir samningsbrot, má búast við, að áhugaverðar umræður spinnist um EES-samninginn hérlendis, sérstaklega ef kæra ESA birtist fyrir haustkosningarnar 2021. 

Framkvæmdastjórnin er ekki af baki dottin, heldur hyggst brjóta rauðhempurnar í Karlsruhe á bak aftur.  Hún hóf þann 9. júní 2021 samningsbrotsmál gegn Þýzkalandi fyrir að fótumtroða grundvallarreglur ESB-réttarins, með því að rauðhempurnar efuðust um heimildir Evrubankans til að kaupa ríkisskuldabréf, þrátt fyrir að ESB-dómstóllinn hefði þá þegar úrskurðað, að slík kaup væru í samræmi við ESB-réttinn.  Þýzka þingið í Reichstag-byggingunni hefur fyrir sitt leyti samþykkt þessar stuðningsaðgerðir Evrubankans, en Framkvæmdastjórnin velur samt þá herskáu leið að höfða mál gegn Þýzkalandi til að geirnegla, að ESB-dómstóllinn sé æðstur allra dómstóla innan ESB og þá raunar einnig EES, því að EFTA-dómstólinum ber að hlíta dómafordæmum hans.  Þetta er þess vegna stórmál fyrir EFTA-löndin líka, utan Svisslands, sem skákar í skjóli tvíhliða viðskipta- og menningarsamninga við ESB.   

Það var í maí 2020, sem Stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe kvað upp úr með, að sá úrskurður ESB-dómstólsins, að Evrubankinn hefði téðar heimildir samkvæmt ESB-rétti, væri "ultra vires", þ.e.a.s. utan heimildasviðs hans.  Framkvæmdastjórnin skrifar í fréttatilkynningu af þessu tilefni, að þýzki stjórnlagadómstóllinn hafi ómerkt réttaráhrif ESB-dómstólsins í Þýzkalandi og véki til hliðar grunnreglunni um forgang ESB-réttar.  Framkvæmdastjórnin telur þetta munu hafa alvarleg fordæmisáhrif, bæði fyrir úrskurði og dóma þýzka stjórnlagadómstólsins og fyrir æðstu dómstóla og stjórnlagadómstóla annarra aðildarlanda. 

Prófessor Halvard Haukeland Fredriksen við Háskólann í Bergen sagði í sambandi við dóm þýzka stjórnlagadómstólsins:

"Vandamálið við dóminn er eiginlega ekki, að stjórnlagadómstóllinn telur á valdsviði sínu að sannreyna, hvort ESB-dómstóllinn hafi haldið sig innan marka fullveldisframsals Þýzkalands til ESB, heldur að þröskuldurinn fyrir þessi inngrip hans virðist allt of lágur.  Í fyrri málum hefur stjórnlagadómstóllinn alltaf látið ESB-dómstólinn njóta vafans og í því samhengi einnig lýst því yfir, að m.t.t. einingar um ESB-réttinn skuli veita ESB-dómstólinum visst "villuumburðarlyndi" ("Fehlertoleranz")."

ESA sendi Íslandi lokaaðvörun vegna samningsbrota út af löggjöf landsins um forgang ESB-réttar á Íslandi 30. september 2020.  Svar íslenzku ríkisstjórnarinnar, sem barst ESA fyrir skömmu, er trúnaðarmál.  Hvers vegna í ósköpunum þolir þetta svar ekki dagsljósið ?  Hagsmunir hverra mundu skaðast við það að upplýsa um efnislegt inntak afstöðu íslenzka ríkisins til máls, sem á sér víðtæka skírskotun innan EES ?  Það verður að leysa úr þessu deilumáli EFTA-ríkjanna við ESB með samningaviðræðum á milli EFTA og ESB. Að því kemur vonandi eftir þingkosningarnar í Noregi og á Íslandi í september 2021. 

 

 

    


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þráhyggjan er þeirra einkenni

Þegar kommúnisminn hrundi sem siðferðislega og fjárhagslega gjaldþrota þjóðskipulag, þá misstu sósíalistar (sameignarsinnar) hvarvetna fótanna og hafa átt í mesta basli við að fóta sig síðan. Boðskapur þeirra um forræði stjórnmálamanna yfir atvinnurekstri og flestum eignum hefur alls staðar endað með ósköpum og afnámi einstaklingsfrelsis, þar sem þeir hafa komizt í aðstöðu til að láta að sér kveða.

Í kjölfar þessa og þjóðfélagsbreytinga á Vesturlöndum með enn meiri eflingu miðstéttarinnar hefur fylgið einnig reytzt af sósíaldemókrötum (jafnaðarmönnum) á Vesturlöndum, og nægir að minna á niðurlægingu brezka Verkamannaflokksins (Labour) og þýzka Jafnaðarmannaflokksins (SPD), en í fylkiskosningum 6. júní 2021 í Sachsen-Anhalt hlaut hann aðeins 8 % atkvæða. Boðskapur þeirra passar ekki við tíðarandann (Zeitgeist). Græningjar hafa hafa "Zeitgeist" með sér.

Það er ljóst, að íslenzkir vinstri menn þjást einnig af uppdráttarsýki, því að þeir hafa ekki lengur neinar rætur til verkalýðshreyfingarinnar. Í staðinn er blásið um mikilvægi þess, að Íslendingar verði "kolefnishlutlausir". Það mun þó engin mælanleg áhrif hafa á hitastig andrúmslofts jarðar. Sérvizkulegar kreddur, sem lítið sem ekkert höfða til daglegrar lífsbaráttu fólks, einkenna málflutninginn, og nú er að koma í ljós, að tvö mál ætla vinstri menn að halda dauðahaldi í í komandi kosningabaráttu af einskærri þráhyggju og málefnafátækt, fyrir utan loftslagsumræðuna, en það er endurskoðun stjórnarskrárinnar frá grunni, þ.e. ný stjórnarskrá, og umbylting fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Þegar hér er komið sögu, verður að átta sig á því, hverjir þessir vinstri flokkar eru.  Það eru t.d. þeir flokkar, sem sameinazt hafa um meirihlutamyndun til að stjórna Reykjavík, en stjórnun borgarinnar er, eins og sorgarleikur trúða, þar sem þekking á öllum málum, frá umferðartækni til fjármála, er fótum troðin, en fullkomnir fúskarar fá að traðka niður matjurtabeðin.

Eftir að varadekkið Viðreisn gekk til samstarfs við fallistana í Píratahreyfingunni og Vinstri hreyfingunni grænu framboði undir stjórn Samfylkingar, stendur ekki steinn yfir steini í borginni. Það hefur keyrt um þverbak í hænsnabúinu.  Bragginn með sínum dönsku stráum að annars gagnslausu, en risastóru sóunarverkefni, Borgarlínunni, eru á meðal ömurlegra minnisvarða samvizkulausra sérvitringa og bruðlara með almannafé, og hnífurinn hefur ekki gengið á milli þeirra, svo að öllu þessu ásamt Flokki fólksins og Sósíalistaflokkinum má kemba með einum kambi.

Um Lýðveldisstjórnarskrána með áorðnum breytingum er það að segja, að fullveldistrygging hennar, sem ESB-sinnarnir vilja feiga, reyndist sverð og skjöldur þjóðarinnar, þegar hæst þurfti að hóa og mest reið á í ólgusjó fjármálahrunsins 2008-2010. Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, rakti þetta og ósvífna aðför vinstri stjórnarinnar 2009-2013 að Lýðveldisstjórnarskránni í nýjasta hefti Tímarits lögfræðinga.  Morgunblaðið gerði rækilega grein fyrir þessu og ónothæfum drögum Stjórnlagaráðs í forystugrein 7. júní 2021:

"Vegið að undirstöðu".

Því er m.a. haldið fram af áhangendum þessa Stjórnlagaráðs, að þjóðin hafi samþykkt tillögu þess í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Þetta er alveg fráleit ályktun.  Lagðar voru fyrir kjósendur nokkrar spurningar og spurt eitthvað á þá leið, hvort leggja ætti tilgreindan texta til grundvallar nýrri stjórnarskrá.  Spurningarnar voru bæði loðnar og leiðandi og fullnægðu engan veginn þeim gæðakröfum, sem gera verður til spurninga í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þar að auki er þessi spurningavaðall ótækur í atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá.  Atkvæðagreiðslan var þess vegna ómarktæk sem slík.  Þegar fá á skoðun þjóðar á nýrri stjórnarskrá, ber að leggja hana fyrir þjóðina í heild sinni frágengna með góðum fyrirvara og spyrja síðan, hvort kjósandinn samþykki hana eða hafni henni.  Allt annað er kukl og fúsk. 

Miklar breytingar á stjórnarskrá skapa réttarfarslega óvissu í landinu, hvað þá alger endurnýjun.  Breytingar eiga að stuðla að auknum skýrleika fyrir almenning og dómara.  Sá kafli Stjórnarskrárinnar, sem er einna óskýrastur, jafnvel úreltur, er um forseta lýðveldisins.  Alþingi ætti að fela stjórnlagafræðingum að endursemja hann og fela forseta skýrt vald við stjórnarskipti og þingrof, svo og að setja inn ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Slíkt er í anda nútímalegra lýðræðishugmynda.  Að buxnast við að setja inn alls kyns óþarfa í stjórnarskrá lýðveldisins, er tímasóun og misskilningur.  Það er t.d. alger óþarfi að setja í stjórnarskrá einhver gjaldtökuákvæði fyrir afnotarétt af auðlindum.  Þessum málum getur Alþingi hagað að vild sinni með lagasetningu án atbeina Stjórnarskrár.

Verður nú vitnað í téðan Morgunblaðsleiðara:

"Kristrún [Heimisdóttir, lögfræðingur] rekur þann dapurlega og löglausa farsa, sem í hönd fór, allt í boði vinstri stjórnarinnar, og að auki, hvernig þetta stjórnlagaráð "fór út fyrir umboð sitt, eins og það var ákveðið í þingsályktun".  Þá tók við kosning um "tillögur stjórnlagaráðs", sem Kristrún bendir á, að hafi ekki einu sinni verið tillögur stjórnlagaráðs, enda hafi þær ekki verið fullbúnar "til þinglegrar meðferðar, hvað þá þjóðaratkvæðis".  Mjög var svo óljóst um hvað var kosið í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012, sem Kristrún segir, að hafi orðið til á "hrossakaupamarkaði" stjórnmálanna og kjósendur hafi verið látnir halda, að þeir væru að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs, sem hafi ekki verið raunin.  Og hún talar um, að "orðræða um frumvarp stjórnlagaráðs" og "tillögur stjórnlagaráðs" hafi í meðförum Alþingis orðið "völundarhús hálfsannleikans".  

Í ljósi þessarar úttektar Kristrúnar Heimisdóttur, lögfræðings, blasir við, að sú stjórnarskráræfing, sem þarna fór fram, var slys, og það er tímasóun og rangfærsla að fjalla um hana sem eitthvað, sem Alþingi skuldi þjóðinni. Þeir, sem það gera enn, fiska í gruggugu vatni fórnarlambstilfinningarinnar.  Þetta slys hefur verið afskrifað og bezt er, að það falli í gleymskunnar dá.

Núverandi Stjórnarskrá bjargaði Íslandi frá gjaldþroti 2008-2009 með sínum ótvíræðu fullveldisákvæðum, sem t.d. áhangendur ESB-aðildar vilja nú þynna út.  Með hliðsjón af úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslnanna um "Icesave" er harla ósennilegt, að þjóðin muni samþykkja nokkra útþynningu ákvæða, sem nú tryggja óskorað fullveldi ríkisins.  

Mogginn hélt áfram:

"Í grein sinni lýsir Kristrún því, hve fjarstæðukennt það sé að telja, að stjórnarskráin hafi haft eitthvað með bankahrunið að gera.  Þvert á móti fer hún yfir það, að stjórnarskráin hafi auðveldað Íslandi að komast út úr þeirri orrahríð, sem það lenti í. Um þetta segir í greininni:

"Ísland gat með engu móti bjargað of stóru fjármálakerfi frá þroti haustið 2008.  Því varð lagasetning innan ramma stjórnarskrár, sem sætti endurskoðunarvaldi dómstóla m.t.t. sömu stjórnarskrár, eina bjargræði þjóðfélagsins.  Aðgerðir Íslands skáru sig úr í alþjóðlegu fjármálakreppunni, og hvergi annars staðar var fullveldisrétti beitt á sambærilegan hátt í kreppunni.  Stjórnarskrá Íslands var í eldlínu alþjóðlegra átaka við erlendar ríkisstjórnir, alþjóðastofnanir og erlenda kröfuhafa, því [að] í krafti hennar og í íslenzkri lögsögu breytti Ísland reglum með neyðarlögum, forseti Íslands beitti málskotsrétti til þjóðaratkvæðis tvisvar [þegar honum og tugþúsundum kjósenda ofbauð gjörðir Alþingis - innsk. BJo], og allir ytri aðilar höfðu virt þessar aðgerðir, þegar upp var staðið. Vegna þess að útilokað var stöðva hrunið með íslenzku fjármagni eða lánstrausti að utan, voru stjórnarskráin og fullveldisréttur, byggður á henni, einu úrræðin til að stöðva hrunið. Og það gekk.  Stjórnarskráin stöðvaði hrunið, og íslenzka réttarríkið var nógu sterkt andspænis umheiminum." 

Þráhyggjumenn eru og að sönnu iðnir við kolann að níða skóinn ofan af útgerðarfélögum.  Sagt er, að útgerðarmenn valsi í auðlind þjóðarinnar, á meðan aðrir komist ekki þar að, og greiði allt of lágt gjald fyrir þennan aðgang.  Þeir ættu að greiða markaðsgjald, svo að þjóðin fái sitt og réttlætinu sé fullnægt.  Halda þessir niðurrifsmenn því fram, að leiguverðið, sem er yfir 200 ISK/kg, sýni markaðsverð aflahlutdeildanna.  Þetta sýnir, að þessir spekingar vita ekkert, hvað þeir eru að tala um.  Leiguverðið er s.k. jaðarverð, þ.e. verð á viðbótum við kvóta, sem útgerðarmenn hafa fjárfest í.  Þessi viðbót þarf ekki að standa undir neinum fastakostnaði, heldur aðeins breytilegum kostnaði.

Til að fá fram markaðsverð aflahlutdeilda er sagt, að  þurfi að bjóða þær upp á markaði, og sú útgerð, sem byði jaðarverðið, færi lóðbeint á hausinn á því sama fiskveiðistjórnunarári. Hvort er um fáfræði eða illskeytta rangfærslu að ræða ?  Uppboðskerfið er fyrirskrifað í hvítbók ESB um fiskveiðistefnuna, en á meðan útgerðir ESB-landanna eru niðurgreiddar úr ríkissjóðum landanna, ríkir ekki frjáls samkeppni á þessum markaði, og þess vegna hefur ESB ekki enn sett þetta kerfi á.  Hins vegar hafa einstök lönd gert það, t.d. Eistland, en þau hafa fljótlega horfið frá uppboðskerfinu, af því að það gaf skelfilega raun, gjaldþrot minni útgerða og söfnun aflahlutdeilda til stórútgerða.  Stórútgerðir í ESB og í Noregi eru miklu stærri en þær íslenzku. Það gefur líka auga leið, að með uppboðskerfi er innleidd skammtímahugsun í útveginn, sem leiðir alls staðar til verri umgengni við auðlindina. Til að hvetja útgerðarfélög til skráningar í kauphöll Íslands, svo að þau geti orðið almenningshlutafélög, mætti hækka kvótaþak einstakra tegunda úr 12 % í t.d. 18 % hjá slíkum félögum.  Þá mundi skapast svigrúm til enn meiri hagræðingar, sem mundi styrkja samkeppnishæfni þeirra um fjármagn og um erlenda markaði. 

Um 95 % afla íslenzkra útgerða fer á erlenda markaði, þar sem þær eiga í höggi við niðurgreiddar útgerðir.  Íslenzkar útgerðir eru þær einu í Evrópu, sem þurfa að greiða veiðigjöld, utan þær færeysku.  Samkeppnisstaðan er því nú þegar skökk, því að íslenzkar útgerðir greiða hátt hlutfall hagnaðar í veiðigjöld, en erlendum er bættur upp tapreksturinn.

Íslenzkur sjávarútvegur hefur fjárfest mrdISK 250 á undanförnum 10 árum í veiðum og vinnslu.  Samkeppnin knýr þau til að lækka kostnaðinn per kg, og það hefur þeim tekizt frábærlega. Þjóðhagslega hagkvæmasta fiskveiðistjórnunarkerfið er kerfi, sem hámarkar sjálfbærar veiðar, hámarkar verð á kg og lágmarkar kostnað á kg. Þar með verður mest til skiptanna, sem allir njóta góðs af. Þetta gerir einmitt núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem samþættir veiðar, vinnslu og markaðssetningu. Það væri óheillaskref aftur á bak fyrir hagsmuni þjóðarinnar, eiganda sjávarauðlindarinnar, að hrófla nú við kerfi, sem gefur henni hámarksarðsemi af auðlindinni í aðra hönd.

Að stórhækka veiðigjöld með einum eða öðrum hætti virkar eins og að hækka skattheimtu á fyrirtækin.  Fjárfestingargeta þeirra minnkar, og þau neyðast til að draga úr fjárveitingum til rannsókna og þróunar, sem hefur gert þeim kleift að gjörnýta hráefnið og stækka þar með enn kökuna, sem er til skiptanna fyrir alla þjóðina. 

Því hefur verið haldið fram, að óeðlilegar arðgreiðslur eigi sér stað í sjávarútvegi.  Samanburður talna um hlutfallslegar arðgreiðslur til fjármagnseigenda í sjávarútvegi og í öðrum fyrirtækjum sýnir þó, að þetta er hreinn uppspuni.  Sjávarútvegurinn er fjármagnsfrekur, og kostar t.d. góður togari nú um mrdISK 6.  Það er þess vegna eðlilegt og ánægjulegt, að sjávarútvegsfyrirtækin eru nú í auknum mæli skráð í Kauphöll Íslands og almenningi boðin þátttaka í eignarhaldinu og þar með að sjálfsögðu einnig arðgreiðslunum til eigenda.  Að tengja saman hagsmuni almennings og sjávarútvegsins með beinum hætti mun vonandi leiða til aukinnar ánægju almennt með góðan árangur í þessari grein, svo að áróður, reistur á öfund og illvilja, koðni niður.  Arður af eigin fé fyrirtækja hefur verið gerður að skotspæni öfundarmanna einkaframtaksins, en arður eru einfaldlega vextir af því áhættufé, sem lagt er í fyrirtækjastarfsemi.  Án arðsvonar verða engar fjárfestingar í einkageiranum.  Þá mun hagkerfið von bráðar skreppa saman öllum til tjóns. 

Í öllum atvinnugreinum á Íslandi hefur orðið góð framleiðniaukning, einkum í vöruframleiðslugeirunum, á undanförnum árum.  Tækniþróun í krafti öflugra fjárfestinga er undirstaða þessarar tilhneigingar.  Ávinninginum af framleiðniaukningunni er í flestum samfélögum, ekki sízt í lýðræðisríkjum, skipt á milli fjármagnseigenda og launþega.  Hvergi er hlutur launþega í skiptingu verðmætasköpunarinnar stærri en á Íslandi.  Það er þess vegna ljóst, að launþegar hafa mestra hagsmuna að gæta, að fjárfestingar í atvinnulífinu séu sem mestar og skynsamlegastar. Það verður bezt í pottinn búið fyrir fjárfestingar með pólitískum og efnahagslegum stöðugleika og lækkun opinberra gjalda.  Enn meiri hækkun veiðigjalda eða uppboðskerfi aflaheimilda mundi vinna þvert gegn þessum hagsmunum launþega. Það eru falsspámenn, sem fóðra sjúklegar skattheimtuhugmyndir sínar með gluggaskrauti á borð við, að þjóðinni beri að fá eðlilegan arð af auðlind sinni.  Í raun eru þessir falsspámenn að boða þjóðnýtingu sjávarútvegsins.  Bein afskipti stjórnmálamanna af atvinnurekstri leiða alls staðar og alltaf til ófarnaðar.  Ríkisrekstur stenzt einkaframtakinu ekki snúning, og þess vegna bregða stjórnmálamenn ríkisvæðingarinnar alltaf á ráð kúgunarinnar. 

Gott dæmi um framleiðniaukningu undanfarið í sjávarútvegi gat að líta í Viðskiptamogganum 2. júní 2021 undir fyrirsögninni:

 "Síldarvinnslan stefnir á nýja markaði".

 "Gunnþór [Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar] segir fyrirtækið hafa náð fram mikilli hagræðingu í rekstri.  Um það vitni t.d. fækkun fiskimjölsverksmiðja úr 8 í 2, og stóraukin framleiðni í loðnufrystingu á hvern starfsmann.  Afkastagetan farið úr 2 t/dag í 24 t/dag.  Þá geti 1 skip afkastað jafnmiklu á veiðum og 2-3 áður."

 Hér skal fullyrða, að taki stjórnmálamenn upp á því á næsta kjörtímabili, eins og hugur þeirra sumra virðist standa til, að fara að hræra í gildandi stjórnkerfi fiskveiða, þá verður sambærileg framleiðniaukning liðin tíð, og þar með mun sóknarþungi landsmanna til meiri velferðar koðna niður.  Hvernig mun þá fara fyrir þjóð, sem þarf að standa undir stöðugt vaxandi útgjöldum til heilbrigðis- og öldrunarmála, þótt hægi á fjölgun á vinnumarkaði ?  Kukl er enginn kostur.  

 

 

 

 

 


Alþjóðamál í deiglunni

Uppgangur Kína og tilhneiging til yfirgangs við nágranna sína á Suður-Kínahafi og Austur-Kínahafi, og vaxandi ógn, sem Taiwan stafar af Rauða-Kína, hefur ekki farið framhjá neinum, sem fylgjast dálítið með.  Þá hafa tök Kínverja á hrávöruöflun og vinnslu sjaldgæfra málma valdið áhyggjum iðnaðarþjóða frá Japan um Evrópu til Bandaríkjanna.

Framboð kínverskra málma í Evrópu og Bandaríkjunum hefur minnkað frá miðju ári 2020, líklega vegna minni raforkuvinnslu í gömlum og mengandi kolaorkuverum og mikillar málmeftirspurnar í Kína sjálfu.  Olíuverð og hrávöruverð almennt hefur hækkað mikið frá lágmarkinu í Kófinu, og má orsakanna að miklu leyti leita í Kína, þessu gríðarlega vöruframleiðslulandi. Eins og Huawei-málið sýndi, þarf nú að fara að meta viðskiptin við Kína í ljósi þjóðaröryggis.  

Á austurlandamærum Evrópusambandsins (ESB) eru væringar við Rússa og vopnuð átök á milli Úkraínu og Rússlands.  Í gildi er viðskiptabann á vissum vörum á milli Rússlands, EES og BNA.  Við áttum ekkert erindi í það viðskiptabann, því að Vesturveldin einskorðuðu það við tæknivörur, sem hægt væri að nýta við smíði hergagna.  Fyrir vikið misstum við mikilvægan matvælamarkað í Rússlandi.  Á fundi í Reykjavík nýlega óskaði utanríkisráðherra Rússlands eftir því, að Ísland væri dregið út úr þessu viðskiptabanni.  Við eigum að leita samninga um það við bandamenn okkar, enda taka t.d. Færeyingar ekki þátt í því.

Í Vestur-Evrópu hafa miklir atburðir gerzt, þar sem Bretar hafa rifið sig lausa frá ólýðræðislegu skrifræðisbákni meginlands Evrópu.  Engar af dómsdagsspánum hafa rætzt í því sambandi.  Bretar eru langt á undan Evrópusambandinu (ESB) í bólusetningum og hagvöxturinn er á hraðari uppleið á Bretlandi en í ESB. Bretar gera nú hvern fríverzlunarsamninginn á fætur öðrum við lönd um allan heim.  EFTA-ríkið Svissland með sína öflugu utanríkisþjónustu reið á vaðið á meðal EFTA-ríkjanna fjögurra og gerði víðtækan fríverzlunarsamning við Bretland fyrr á þessu ári.  Í kjölfarið sigldu hinar EFTA-þjóðirnar 3, Ísland, Noregur og Liechtenstein, og höfðu samflot, en EES-kom ekkert við sögu.  Íslenzkir hagsmunir voru greinilega ekki hafðir í neinu fyrirrúmi í þessari samningalotu, þannig að viðskiptakjör fiskverkenda hérlendis hafa ekkert batnað, þótt vonir stæðu til þess. Því miður hefur íslenzka utanríkisráðuneytið enn valdið vonbrigðum.  

Kvótinn fyrir innflutning brezks svínakjöts, kjúklinga, eggja, ávaxta og grænmetis er anzi ríflegur og gæta verður þess að draga úr kvóta ESB að sama skapi til að hagsmuna íslenzks landbúnaðar og gæða á markaði verði gætt. Þarna er vonandi fyrirmynd komin að fleiri fríverzlunarsamningum EFTA. Fríverzlunarsamningur þessi sýnir, að það er hægt að ná fríverzlunarsamningi við Evrópuríki, sem er a.m.k. jafnhagstæður EES-samninginum, hvað viðskiptakjör varðar.

Samskipti hinnar hlutlausu EFTA-þjóðar Svisslendinga við framkvæmdastjórn hins Frakkahalla Þjóðverja Úrsúlu von der Layen hafa kólnað verulega undanfarnar vikur.  Framkvæmdastjórnin er óánægð með, að löggjöf Sviss skuli ekki taka "sjálfkrafa" breytingum í takti við þróun Evrópuréttar, þótt Svisslendingar hafi aðgang að Innri markaði EES í krafti um 120 tvíhliða samninga á milli ríkisstjórnarinnar í Bern og framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel.  Svisslendingar fallast einfaldlega ekki á það ólýðræðislega fyrirkomulag, sem felst í að afhenda Brüssel þannig  löggjafarvaldið að nokkru leyti. 

Á Íslandi er skeleggasti gagnrýnandi slíkrar ólýðræðislegrar þróunar á Íslandi nú í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi, þar sem hann býður sig fram í 2.-3. sæti. Arnar Þór Jónsson er ekki andstæðingur EES-samningsins, en hann er talsmaður þess að nota allt svigrúm samningsins og innbyggða varnagla þar af þekkingu og rökfestu til að verja hagsmuni Íslands og stjórnarskrá landsins, þegar á þarf að halda.

Ef rétt er skilið, hefur Miðflokkurinn nú tekið gagnrýna afstöðu gegn þessum samningi og Schengen.  Í Noregi er líka mikil gerjun á þessu sviði í aðdraganda Stórþingskosninga í september 2021. Alþýðusamband Noregs hefur lagzt gegn innleiðingu "gerða" ESB um lágmarkslaun og réttindi verkafólks, sem Alþýðusambandið telur rýra kjör verkafólks í Noregi.  Eftir kosningar til þjóðþinga Íslands og Noregs kunna að verða ný sjónarmið uppi á teninginum á meðal stjórnarmeirihlutans á þingi í hvoru landi.  Hann mun þó stíga varfærnislega til jarðar, en að hjakka í sömu sporunum er varla fær leið lengur.  

Hér er við hæfi að vitna í Arnar Þór (Mbl. 03.04.2021):

"Klassískt frjálslyndi byggist á því, að menn njóti frelsis, en séu um leið kallaðir til ábyrgðar.  Það byggir á því, að menn hugsi sjálfstætt, en láti ekki aðra hugsa fyrir sig - ofurselji sig ekki tilbúinni hugmyndafræði."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði stjórnarskrár um lýðræði og klassískt frjálslyndi."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði alþjóðlegra sáttmála um neitunarvald Íslands og sjálfstæði gagnvart öðrum þjóðum."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - lýðræðislegan grunn íslenzkra laga um skilyrði aðildar Íslands að EES og Mannréttindasáttmála Evrópu."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði laga um frelsi einstaklingsins og ábyrgð í siðmenntuðu samfélagi."

"Embættismenn hafa ekkert umboð til þess að ganga gegn eða breyta þeim lýðræðislegu forsendum, sem að framan eru nefndar.  Sú freisting er ávallt til staðar og því rétt og skylt að viðhalda vökulli varðstöðu gegn því, að menn seilist ótilhlýðilega til valds og áhrifa."

Í forystugrein Morgunblaðsins 31.05.2021, "Swexit ?" , sagði m.a.:

"Samningarnir [við ESB-innsk. BJo] breyta löggjöf Sviss ekki með sömu sjálfvirkni og gerzt hefur t.d. hér á landi, en þar skiptir einnig máli, að hér á landi hafa stjórnmálamenn ekki verið á varðbergi gagnvart þróun ESB í seinni tíð, þó að full ástæða hafi verið til, þar sem sambandið tekur stöðugum breytingum í átt að auknum samruna og ásælni yfirþjóðlega valdsins."

 Þessi varnaðarorð Morgunblaðsins og gagnrýni í garð stjórnmálamanna, þ.e. þingmanna á núverandi kjörtímabili og á nokkrum fyrri kjörtímabilum, beinist mjög í sama farveg og málflutningur Arnars Þórs Jónssonar.  Hann er ekki einn á báti með sín viðhorf, hvorki hérlendis né í hinum EFTA-löndunum. Það er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að vera með á nótunum gagnvart þróun samskipta hinna EFTA-landanna við ESB.

  Í Noregi er að myndast samstaða á meðal stjórnarandstöðuflokkanna gegn Orkupökkum 3 og 4 (OP3, OP4).  Sú andstaða kann að verða stjórnarstefna nýrrar norskrar ríkisstjórnar að afloknum Stórþingskosningum í haust.  Þá verður ómetanlegt að hafa á Alþingi víðsýnan, vel lesinn, grandvaran, nákvæman og vel máli farinn mann á íslenzku sem erlendum tungum til að leggja orð í belg við mótun utanríkisstefnu Íslands í breyttum heimi eftir Kóf.

Morgunblaðið tefldi í téðri forystugrein jafnvel fram Carl I. Baudenbacher, sem utanríkisráðherra fékk til að skrifa rándýra greinargerð með innleiðingu OP3 og mæta fyrir utanríkismálanefnd þingsins og kannski fleiri nefndir til að vitna um, að ESB gæti farið í baklás gagnvart EES-samninginum, ef Alþingi hafnaði OP3.  Nú er þessi fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins orðinn gagnrýninn í garð ESB:

"Baudenbacher segir, að það sé í anda spunavéla Brussel að kenna Sviss um, hvernig fór, en málið sé ekki svo einfalt. Hann segir, að bæði stjórnvöld í Sviss og Brussel hafi reynt að þoka landinu bakdyramegin inn í ESB, en vanmetið hafi verið, hve mikil andstaða sé við slíkt í Sviss. Þar vilji fólk efnahagslega samvinnu, en ekki stjórnmálalegan samruna.  Þegar fólk hafi fundið, að reynt hafi verið að ýta því svo langt inn í ESB, að ekki yrði aftur snúið, hafi það spyrnt við fæti."

Í ljósi ótrúlega slæmrar stöðu í samskiptum Sviss og ESB og vaxandi gagnrýni á stjórnskipulega íþyngjandi  hliðar EES-samningsins m.t.t. stjórnarskrár, fullveldis og alvöru lýðræðis, í Noregi og á Íslandi, er tímabært fyrir allar EFTA-þjóðirnar í sameiningu að freista þess að ná frambúðar lausn á samskiptunum við ESB á viðskipta- og menningarsviðunum.  Þetta gæti orðið einhvers konar nýtt fyrirkomulag á EES-samninginum, þar sem gætt yrði aðlögunar að Innri markaðinum án þess að ógna fullveldi og lýðræði í EFTA-ríkjunum. Augljóslega ekki auðvelt, en ætti þó að vera viðráðanlegt verkefni fyrir hæft fólk með góðan vilja.

Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var enskt viðhorf til ESB reifað:

"Fleiri hafa bent á, t.a.m. Ambrose Evans-Pritchard, yfirmaður alþjóðlegra viðskiptafrétta Telegraph, hve hart Evrópusambandið gengur fram gegn nágrönnum sínum, ólíkt t.d. Bandaríkjunum, sem eiga farsæl samskipti við fullvalda nágranna sinn Kanada.  Hann bendir á, að ESB sé stöðugt að reyna að útvíkka regluverk sitt og dómsvald og þvinga hugmyndum sínum upp á aðra.  Nú hafi Sviss hafnað þessari leið og ESB, sem hafi nýlega misst Bretland úr sambandinu, geti einnig verið að ýta Sviss frá sér."

Þetta er lýsing á sífellt víðtækari völdum, sem safnað er til Framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel og veldur einnig EFTA-ríkjunum vandræðum. ESB er í eðli sínu tollabandalag, sem ver sinn Innri markað gegn utan að komandi samkeppni með viðamiklu regluverki, sem er íþyngjandi að uppfylla.  ESB er hemill á frjáls viðskipti í Evrópu, en við verðum hins vegar hagsmuna okkar vegna að aðlaga okkur honum.  Við, eins og Svisslendingar, hljótum að stefna á að gera það í sátt við Stjórnarskrána, fullveldi þjóðarinnar og raunverulegt lýðræði í landinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

  


Orkumál í öngstræti

Þann 3. júní 2021 birtist forsíðufrétt í Morgunblaðinu:"Raforkuverð tekur kipp".  Tilefnið var mikil verðhækkun á náttúruafurð Landsvirkjunar (LV), þar sem heildsölugjaldskrá LV hafði nýlega verið hækkuð um 7,5 %-15,0 % eftir flokkum.  Þetta er birtingarmynd óstjórnar orkumálanna, sem lengi hefur verið gagnrýnd á þessu vefsetri, þar sem einn þáttur gagnrýninnar snýst um fullkomið fyrirhyggjuleysi um öflun nýrrar og nægilegrar orku til að verða við óskum viðskiptavina um aukin raforkukaup, jafnvel þegar illa árar í vatnsbúskapinum, eins og nú.

Gildandi orkulöggjöf landsins einkennist af Orkupakka 3 (OP3), og samkvæmt honum á markaðurinn að ráða framboði raforku, og ekki má gera neitt fyrirtæki ábyrgt fyrir því að koma í veg fyrir orkuskort, því að það gæti skekkt samkeppnisstöðuna. Nú hefur komið í ljós, eins og ítrekað var varað við, að þetta framandi fyrirkomulag í vatnsorkulandi býður hættunni á alvarlegum orkuskorti heim og er sannarlega mjög andsnúið hagsmunum neytenda og atvinnustarfsemi vegna hærra raforkuverðs en nokkur þörf er á, sem af þessu leiðir. 

Ef hér væri nú komið uppboðskerfi raforku, eins og orkustjóra ACER á Íslandi ber að koma á laggirnar hér, og er í undirbúningi, þá hefði heildsöluverð á markaði í byrjun júní 2021 ekki hækkað um 7,5 %-15,0 %, heldur að öllum líkindum tvöfalt meira og færi enn hækkandi, þegar nálgast haustið meira, ef vatnsbúskapurinn braggast ekki í sumar. Þetta má marka af verðþróuninni í Noregi. 

Markaðurinn hér getur ekki brugðizt við með auknu framboði fyrr en eftir nokkur ár vegna langs aðdraganda nýrra virkjana á Íslandi. Þess vegna er þetta kerfi stórslys hérlendis, þar sem engrar fyrirhyggju gætir.  Á framboðshlið eru örfá fyrirtæki, og eitt þeirra gnæfir yfir önnur.  Það hefur markaðinn í greip sinni og hefur nú gengið á lagið.  Þessi staða mála sýnir, að það er vitlaust gefið og að OP3 hentar ekki hér, heldur gerir illt verra. Hvað segir iðnaðarráðherra nú, sem barðist fyrir innleiðingu OP3 á þeim grundvelli, að hann leiddi til aukinnar samkeppni, neytendum til hagsbóta ? Raunveruleikinn getur reyndar orðið verri en nokkurn grunaði þá, ef Murphys-lögmálið fer að gilda um þessi mál.

Það eru fá rök fyrir því, að ríkisvaldið eigi hér ríkjandi fyrirtæki á raforkumarkaði, nema það beri jafnframt ábyrgð á raforkuöryggi landsmanna ásamt flutningsfyrirtækinu Landsneti að sínu leyti og sérleyfisfyrirtækjunum í dreifingu að þeirra leyti. Réttast væri að setja lög, hvað þetta varðar strax, og láta reyna á þau fyrir EFTA-dómstólinum, ef ESA   (Eftirlitsstofnun EFTA) gerir athugasemd.  Um er að ræða nauðsynlega lagasetningu vegna sérstöðu Íslands.  Almannahagsmunir liggja við. 

Þessi hækkun Landsvirkjunar er bæði óþörf og þjóðhagslega illa ígrunduð.  Landsvirkjun er spáð 14 % tekjuaukningu árið 2021 m.v. árið á undan, og lánshæfismat fyrirtækisins var nýlega hækkað af einu matsfyrirtækjanna.  Þessi hækkun kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum og er atlaga að samkeppnishæfni fyrirtækjanna, sem þessi hækkun bitnar á og hafa verið að krafla sig upp úr öldudalnum.  Það er líklegt, að hinir birgjarnir á heildsölumarkaði raforku fylgi í kjölfarið, og þannig mun hækkunin bitna á öllum heimilum landsins.  Hækkunin mun kynda undir verðbólgu, sem þegar er utan við ytri viðmiðunarmörk Seðlabankans.  Það er svo mikil efnahagsleg áhætta tekin með hækkuninni, að fulltrúi eigandans, fjármála- og efnahagsráðherra, ætti að beita sér fyrir afturköllun hennar, því að hún vinnur gegn efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og peningastefnu Seðlabankans.  Hlutdeild þessa heildölumarkaðar er svo lítill af heildarraforkumarkaðinum, að minni raforkunotkun af völdum þessarar hækkunar mun vart hafa mælanleg áhrif á stöðu miðlunarlónanna auk þess, sem það er fjarri því öll nótt úti um fyllingu þeirra, þótt útlitið sé slæmt núna, einkum með Þórisvatn.

Staðan í Blöndulóni er yfir meðaltali, en miðlunargeta þess er lítil.  Hálslón er 40 m neðan yfirfalls og undir meðaltali.  Þórisvatn er 13 m neðan yfirfalls og nálægt lágmarksstöðu árstímans. 

Morgunblaðið reyndi að leita skýringa á stöðunni, en fékk ekki góð svör:

"Sérfræðingur, sem Morgunblaðið ræddi við, sagði afar óvanalegt, að Landsvirkjun hækkaði raforkuverð á þessum tíma árs og að það væri helzt til marks um, að fyrirtækið teldi hættu á, að framboðshlið markaðarins stefndi í ranga átt.  [Loðið orðalag um minnkandi framboð, en 50 MW brottfall í jarðgufuvirkjun í 3 vikur hefur lítil áhrif, þótt sú orka verði tekin úr miðlunarlónum, og er ekki meira en búast má við vegna venjulegs viðhalds - innsk. BJo.]  Annar sérfræðingur, sem blaðið ræddi við, sagði stöðu lónanna, auk erfiðleikanna í Reykjanesvirkjun, vekja spurningar um, hvort orkufyrirtækin gætu lent í vandræðum með að afhenda ótryggða orku til kaupenda á komandi mánuðum.  Horfa menn þar sértaklega til fiskimjölsverksmiðja, sem hafa verið rafvæddar á síðustu árum, en geta einnig gengið fyrir jarðefnaeldsneyti, ef í harðbakkann slær."

Ekki eru allar fiskimjölsverksmiðjurnar búnar varakötlum fyrir olíu, gas eða kol.  Samningar þeirra um ótryggða orku eru smáræði hjá samningum álveranna þriggja og kísilverksmiðjanna tveggja um ótryggða orku.

Þessi slæma staða orkumálanna var fyrirsjánleg að skella mundi á í nánustu framtíð vegna sleifarlags orkufyrirtækjanna við orkuöflun, og ef vatnsbúskapur þessa árs verður undir meðallagi, þá mun verða orkuskortur og stórtap fyrir atvinnuvegina í vetur.  Vonandi fer þetta ekki á versta veg, svo að skerða þurfi forgangsorkuafhendingu, jafnvel til heimila.  

Hver svarar til saka fyrir þetta ?  Að nokkru er sökudólgurinn Orkupakki 1 frá ESB, en með orkulögunum 2004 í kjölfar hans var afnumin skylda Landsvirkjunar til að sjá þjóðinni fyrir nægri raforku á hverjum tíma.  Það var réttlætt með innleiðingu samkeppni á milli virkjanafyrirtækjanna og smásölufyrirtækjanna.  Það eru ekki góð rök af ástæðum, sem blasa við. Ekkert virkjanafyrirtækjanna virðist vilja reyna að ná stærri markaðshlutdeild með því að virkja.  Það sýnir betur en nokkur orð, að samkeppnin, sem orkupakkarnir áttu að koma á á milli birgjanna, virkar ekki við núverandi aðstæður á Íslandi.  Það eru ekki tíðindi fyrir alla, þótt fólk kunni að vera hissa í iðnaðarráðuneytinu.  

 

 

 

 

 


Sýn iðnaðarráðherra

Þann 16.05.2021 birtist pistill eftir ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar á sunnudagsvettvangi Morgunblaðsins.  Þar reit Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir um tengsl orkumála og loftslagsmála.  Þessi pistill ráðherrans er athyglisverður í ljósi Morgunblaðsgreinar forstjóra Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins 10 dögum áður, og gerð er grein fyrir í pistlinum á undan þessum á þessu vefsetri, en þar kvarta þeir undan því, að stjórnvöld hafi ekki skapað forsendur fyrir grænni atvinnubyltingu með því að ryðja hindrunum úr vegi á sviði skipulagsmála, umhverfismála, skattamála eða varðandi "hvert annað atriði, sem snertir rekstur fyrirtækjanna". Túlka mátti greinina þannig, að stöðnun sú, sem nú ríkir á sviði nýrrar atvinnusköpunar í krafti grænnar orku Íslands væri sinnuleysi stjórnvalda að kenna og væri grein tvímenninganna ákall um "að ryðja brautina".

Pistill ráðherrans,

"Orka - lykillinn að árangri í loftslagsmálum",

hófst þannig:

"Fyrir nokkrum dögum skoruðu náttúruverndarsamtök á stjórnvöld að standa sig betur í því að ná loftslagsmarkmiðum.  Í yfirlýsingu þeirra var þó ekki vikið neitt að því, sem skiptir einna mestu máli í því sambandi." 

Hvað knýr náttúruverndarsamtök til slíkrar áskorunar á íslenzk stjórnvöld ?  Umhyggja fyrir umhverfinu ?  Ef sú umhyggja er ástæðan, er hún reist á fölskum forsendum, því að það er ekki nokkur leið fyrir íslenzk stjórnvöld eða landsmenn alla að hafa nokkur mælanleg áhrif á hlýnun jarðar.  Þess vegna yrði mjög misráðið af stjórnvöldum að fara nú að beita þjóðina enn frekari þvingunarráðstöfunum á formi t.d. hækkunar gjalds á jarðefnaeldsneyti til ríkisins eða hækkunar aðflutningsgjalda á benzín- og dísilbílum, eins og eru ær og kýr slíkra samtaka.  (Taka skal fram, að pistilhöfundur ekur hreinum rafmagnsbíl síðan 2020.) Hins vegar er sjálfsagt að veita áfram jákvæða hvata til orkuskiptanna.  Frumatvinnuvegirnir sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður, hafa allir staðið sig með prýði á alþjóðlegan mælikvarða við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á hvert tonn framleiðslu sinnar, og það er aðalatriðið.  Tækni orkuskiptanna er í hraðfara þróun núna, svo að það er allsendis ótímabært að verða við beiðni téðra náttúruverndarsamtaka.  Þó verður að hvetja stjórnvöld til að vera kröfuharðari en nú er um vísindalegan grundvöll aðgerða, sem styrktar eru af ríkisfé, og trónir þar endurmyndun mýra með mokstri ofan í skurði efst á blaði.

"Til að ná raunverulegum árangri í að minnka losun og breyta hlutum þarf endurnýjanlega raforku og meiri háttar tækniþróun og nýsköpun.  Ekki bara landverndarverkefni - heldur loftslagsverkefni. Og fjölga þannig stoðum verðmætasköpunar.  

Ég fagna því auðvitað, að minnt sé á nauðsyn þess að draga meira úr losun gróðurhúsalofttegunda.  En til að ná þeim árangri, sem þetta ákall snýst um, þurfum við að verða óháð jarðefnaeldsneyti, eins og segir í nýrri Orkustefnu.  

Til að verða óháð jarðefnaeldsneyti þurfum við nýja græna orkugjafa á borð við rafeldsneyti og fleira.  Og til að framleiða þessa orkugjafa [orkubera-innsk. BJo], þurfum við að framleiða meira af grænni orku [virkja meira - innsk. BJo].

Þeir, sem kjósa að líta framhjá þessu, hafa ekki svörin, sem duga."

Þetta er góður málflutningur hjá iðnaðarráðherra, og það er eðlilegt, að hún taki ekki mark á málflutningi um, að tímabundin umframorka í kerfinu árið 2020 og dökkar horfur um framhald stóriðnaðar í landinu, valdi því, að ekkert þurfi að virkja á næstunni, eins og t.d. forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hélt fram í fyrra.  Nú hefur hagur strympu vænkazt og endurskoðun raforkusamnings Landsvirkjunar og ISAL/Rio Tinto er í höfn.  Árið 2010 heimtaði forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, að álverðstenging við raforkuverðið yrði afnumin.  Með semingi var það látið eftir honum, og samningurinn frá 2011 innihélt einvörðungu tengingu við neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum, svo gáfulegt sem það nú er.  Við endurskoðun þessa raforkusamnings 2019-2021 þvældist Landsvirkjun lengi vel fyrir tillögu ISAL/Rio Tinto um endurupptöku álverðstengingar, þótt í breyttri mynd yrði, en söðlaði svo skyndilega um síðla árs 2020. 

Strax og raforkuverðið til ISAL skreið yfir verðið samkvæmt eldri samningi, 39 USD/MWh, birtust trúnaðarupplýsingar um verðútreikning eftir endurskoðun í Markaði Fréttablaðsins, 19. maí 2021, og stutt viðtal við Hörð.  Hvaðan komu þessar upplýsingar ?  Það er furðulegt, að forstjóri Landsvirkjunar skuli ekki hafa þvertekið með öllu að ræða um hinn endurskoðaða raforkusamning á grundvelli trúnaðarupplýsinga í höndum Markaðar Fréttablaðsins.

Þar er hann þó enn við sama heygarðshornið og kveður "fast" verð áfram vera fyrsta val Landsvirkjunar, sem er skrýtið í ljósi þess, að lágmarksverðið í þessu tilviki er hátt eða um 30 USD/MWh  (þar fer hann ekki nákvæmlega með).  Fari álverð yfir 1800 USD/MWh, deila ISAL og Landsvirkjun hagnaðinum með sér.

"Ótal fjárfestingarverkefni eru á teikniborðinu, sem snúast um að ná árangri í loftsalgamálum.  Þar má nefna fjölnýtingu orkustrauma (með tilheyrandi orkusparnaði), föngun kolefnis, förgun kolefnis og framleiðsla á rafeldsneyti."  

Þetta er rýrt í roðinu hjá iðnaðarráðherra, nema hið síðast nefnda.  Nú hafa Þjóðverjar boðið Íslendingum upp í dans á sviði vetnistækni. Sjálfsagt er að stíga þann dans undir ljúfri þýzkri "Tanzmusik".  Þetta varð ljóst við lestur greinar sendiherra Sambandslýðveldisins, Herrn Dietrich Becker, í Bændablaðinu 27. maí 2021.  Það er eðlilegt að stofna með þeim þróunar- og framleiðslufélag hérlendis, sem framleiði hér vetni með rafgreiningu og flytji megnið út, en aðstoði hér við að nýta vetnisafurðir á vinnuvélar, skip og flugvélar. Skrýtið, að iðnaðarráðherra skuli ekki geta um þessa þróunarmöguleika í téðri orku- og loftslagsgrein sinni. 

Auðvitað útheimtir verkefnið nýjar virkjanir.  Getur verið, að heimóttarleg afstaða vinstri grænna til þeirra setji landsmönnum stólinn fyrir dyrnar við raunhæft verkefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu. Þá yrði Vinsri-hreyfingin grænt framboð heimaskítsmát í loftslagsskákinni, eins og sumir áttu von á. Reyndar hefur nú Landsvirkjun dregið lappirnar svo lengi að hefja nýjar virkjanaframkvæmdir, t.d. í Neðri-Þjórsá, að nú stefnir í alvarlegan orkuskort næsta vetur, sem getur þýtt tap útflutningstekna upp á tugi milljarða ISK.  Sleifarlag ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar er óviðunandi.  Hneykslanlegt útspil fyrirtækisins, sem fram kom á forsíðu Morgunblaðsins 03.06.2021 (allt að 15 % gjaldskrárhækkun) er efni í annan pistil. 

Síðan heldur iðnaðarráðherra áfram í tengslum við ótilgreind græn verkefni:

"Ef þessi viðleitni á að geta blómstrað, megum við ekki kæfa hana í fæðingu með sköttum og skrifræði.  Við eigum þvert á móti að greiða götu hennar með einföldu regluverki og jafnvel styrkjum og ívilnunum.  Skref í þá átt hafa þegar verið stigin með verkefninu "Græni dregillinn", nýjum áherzlum og auknum fjárheimildum Orkusjóðs og nýjum lögum um ívilnanir til grænna fjárfestinga.  Auk þess hef ég nýlega hafið frumathugun á því, hvort raunhæft sé að ganga lengra með því að verja a.m.k. hluta af tekjum ríkissjóðs af losunarkvótum til að styðja við fjárfestingarverkefni, sem þjóna loftslagsmarkmiðum okkar."  

Græn verkefni á borð við vetnisverksmiðju og verksmiðjur vetnisafurða á borð við ammoníak, metanól, etanól o.fl. verða arðberandi verksmiðjur, sem nýta þróaða tækni, og þurfa þess vegna ekki styrki úr ríkissjóði, heldur aðeins samkeppnishæft raforkuverð, væntanlega 25-35 USD/MWh.  Þeir, sem lifa í hugmyndaheimi afdankaðs sósíalisma, munu vilja háa skattheimtu af arðgreiðslum þessara félaga sem annarra.  Þeir horfa fram hjá því, að fjármagn kostar, og ef ekki er aðsvon af fjárfestingu í fyrirtækjum, þá verður ekkert af fjárfestingunum, nema ríkissjóður slái lán til áhættufjárfestinga, en ríkisvaldið stenzt einkafyrirtækjum ekki snúning, hvað rekstur varðar, og er þá nánast sama, hvað um ræðir. Iðnaðarráðherra hefur rétt fyrir sér um skattana, en vanmetur e.t.v. vilja einkafjárfesta til fjárfestinga á þessu sviði alfarið á viðskiptalegum grundvelli.  Sjálfsagt er að beina opinberum tekjum af sölu koltvíildiskvóta til þróunar á mörkuðum fyrir vetnisafurðir, skógræktar o.fl.

Síðan kemur iðnaðarráðherra á óþarflega almennan hátt að nauðsyn nýrra virkja: 

"Ef við ætlum að tryggja, að bæði núverandi og nýir notendur grænnar orku geti fengið hana á samkeppnishæfu verði, þurfum við að huga miklu betur að framboðshlið orkunnar og sjá til þess, að hér verði framleidd meiri orka.  Það ætti að öllu jöfnu að stuðla að lægra verði, þó að auðvitað komi samkeppnin þar líka við sögu."

Þetta er rétt hjá iðnaðarráðherra og orð í tíma töluð.  Halda mætti, að einhver valdalaus skrifari úti í bæ hefði párað þetta, því að stjórn stærsta orkufyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, sem alfarið er í eigu ríkisins, virðist vera annarrar skoðunar en ritarinn, því að Landsvirkjun er alls ekkert í virkjunarhugleiðingum þessa stundina.  Hvernig í ósköpunum má þetta vera ?  Orkuskortir blasir við næsta vetur. Ef allir núverandi viðskiptavinir Landsvirkjunar hefðu síðastliðinn vetur nýtt samninga sína til hins ýtrasta, sem þeir voru fjarri því að gera vegna deilna við Landsvirkjun og markaðsaðstæðna, hefði komið til stöðvunar á afhendingu allrar orku, nema forgangsorku, frá orkuverum Landsvirkjunar.  Þetta ásamt mjög lágri vatnsstöðu Þórisvatns núna, sýnir, að yfirvofandi er orkuskortur í landinu.  Hvers vegna skipar eigandinn ekki Landsvirkjun að hefjast handa strax til að forða stórfelldu efnahagstjóni árum saman (nokkur ár tekur að reisa virkjun, þótt fullhönnuð sé nú) ?  Þykist ríkisstjórnin ekki hafa til þess vald vegna lagaákvæða Orkupakka 3, sem að forminu gætu virzt draga völd úr höndum ráðherra og til Orkustjóra ACER á Íslandi, sem einnig stjórnar Orkustofnun Íslands, eða svífur andi vinstri grænna yfir vötnunum ? Hvort tveggja er afleitt. "Something is rotten in the state of Danemark", var einu sinni skrifað.  Eru orkumálin í lamasessi vegna stjórnmálaástandsins ?  Það er of dýrt til að vera satt.

Iðnaðarráðherra hélt áfram hugleiðingum sínum um orkumálin:

"Því miður hefur hagkvæmni orkukosta nánast horfið út úr ferli rammaáætlunar, því að þetta grundvallaratriði hefur fallið í skuggann af flóknari spurningum um þjóðhagslega hagkvæmni - spurningum, sem ekki er hægt að svara, þegar ekki er vitað, hver muni kaupa orkuna.  Þetta ferli þarf augljóslega að laga, og ég hef áður sagt, að svo virðist sem skynsamlegt væri að stíga skref til baka og huga betur að kostnaðarverði nýrra orkukosta, eins og gert var á fyrstu árum rammaáætlunar."

 Í ljósi alvarlegrar stöðu orkumálanna er þetta tilþrifalítið hjá iðnaðarráðherra í lok kjörtímabils hennar.  Það er alveg sama, hvaða virkjanakost menn velja núna - hann verður þjóðhagslega hagkvæmur vegna þeirrar einföldu ástæðu, að hann mun koma í veg fyrir orkuskort, og hver megawattstund, sem raforkubirgjar ekki geta afhent, kostar viðskiptavini á bilinu 100-1000 USD/MWh (12-120 ISK/kWh).  Þótt ekki stafaði bráðavandi að núna, þá eru horfur á orkumarkaði hér nú þannig, að núvirði hagnaðar af hverri ISK í líklega öllum virkjanakostum í framkvæmdaflokki gildandi Rammaáætlunar er að líkindum hærra en af öðrum fjárfestingarkostum, sem eigendum virkjanafyrirtækjanna standa til boða.  Þess vegna eru þessi skrif iðnaðarráðherra um flóknar spurningar um þjóðhagslega hagkvæmni virkjana torskiljanlegar. Við þurfum ekki flækjufætur, við þurfum framkvæmdafólk. Það hvílir óþarflega mikil þoka yfir iðnaðarráðuneytinu. 

Næst víkur hún sér að vindorkunni:

 "Vindorkan er síðan annar og mjög þýðingarmikill kapítuli, en hún hefur á fáum árum orðið sífellt ódýrari og er núna farin að veita okkar hefðbundnu orkulindum, vatnsafli og jarðvarma, mjög harða samkeppni.  Þar eru tækifæri, sem við eigum að nýta."

Hefur iðnaðarráðherra séð einhverja samanburðarútreikninga, sem skjóta stoðum undir þessa fullyrðingu hennar um samkeppnihæfni vindorku á Íslandi, eða er þetta bara enn eitt dæmið um, að hver étur þessa fráleitu fullyrðingu upp eftir öðrum ?  Vindorkuverin þurfa tiltölulega mikið landrými á hvert uppsett MW, og kostnaður landsins hefur áhrif á vinnslukostnað vindmylluversins.  Gríðarlegir steypuflutningar kosta sitt.  Niðurtekt og eyðingu þarf einnig að taka með í reikninginn.  Dreifing trefjaplasts frá spöðunum, sem slitna í regni og sandbyljum, þarf að taka með í umhverfiskostnaðinn. 

Kolefnisspor vindmyllna á framleiddar megawattstundir endingartímans, sem er styttri en hefðbundinna íslenzkra virkjana, er tiltölulega stórt, þegar allt er tekið með í reikninginn.  Í íslenzku samhengi eru vindmyllur þess vegna ekki svo fýsilegar, að ástæða sé fyrir iðnaðarráðherra að hvetja til þeirra. 

Lokatilvitnun í ráðherrann:

 "Loks höfum við nú þegar gert gangskör að því að greina tækifæri til að lækka flutningskostnað raforku.  Þær tillögur voru unnar hratt, en þó faglega og birtust í frumvarpi mínu til nýrra raforkulaga, sem miðar ótvírætt að því að lækka flutningskostnað með breyttum forsendum um útreikning á gjaldskrám eða nánar tiltekið tekjumörkum."

Þetta brýna mál fyrir allan atvinnurekstur í landinu hefur tekið ráðherrann allt of langan tíma.  Hún hefði átt að vinda sér í málið á fyrsta ári ráðherradóms síns yfir orkumálunum, og á hvaða vegi er jöfnun flutningsgjalds á milli þéttbýlis og dreifbýlis statt, það brýna réttlætismál til að jafna stöðu íbúa í þéttbýli og dreifbýli m.t.t. þjónustu sérleyfisfyrirtækja ? 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband