Eignarhald á orkulindunum

Orkulindir Íslands eru mestu auðævi þjóðarinnar. Þegar er raforkunotkun landsmanna sú mesta á mann, og nú bíða orkuskiptin handan við hornið, þar sem ríkisstjórnin hefur lagt fram draumsýn sína.  Til að framkalla þá draumsýn í raunveruleikanum þarf að virkja mikið meira, sennilega sem nemur a.m.k. helmingi þess afls, sem þegar hefur verið virkjað, til að leysa allt jarðefnaeldsneyti af hólmi. 

Hérlendis er umframorka í kerfinu sáralítil, og Íslendingar eru þess vegna í ósambærilegri stöðu við Norðmenn, sem í venjulegu vatnsári búa megnið af árinu við umframafl og afgangsorku, sem þeir höfðu ekki markað fyrir innanlands.  Þetta er nú að breytast í Noregi með vaxandi fjölda utanlandstenginga, og með s.k. Northconnect sæstreng til Skotlands búast Norðmenn við, að öll umframorka í kerfinu gangi til þurrðar.

Þar sem bæði löndin eru vatnsorkulönd, má spyrja, hverju þessi munur sæti.  Svarið er jarðhitanýting hérlendis til húshitunar.  Í Noregi er megnið af húsnæðinu hitað með rafmagni, og virkjanir og allt rafkerfi landsins er sniðið við hámarksálag kaldasta tímabilsins.  Utan þess er aflgeta til reiðu í norska kerfinu fyrir útflutning um sæstrengi eða loftlínur.  Á Íslandi er hins vegar tiltölulega jafnt álag  á stofnkerfinu og jöfn nýting mannvirkja árið um kring vegna yfirgnæfandi þáttar stóriðjuálags.  Hér eru þess vegna engar "náttúrulegar" aðstæður fyrir hendi til útflutnings á rafmagni með sambærilegum hætti og í Noregi. Þess vegna er út í hött  hérlendis að vísa til fordæmis Norðmanna í þessum efnum. 

Orkulindir á Íslandi í nýtingarflokki eru um 30 TWh/ár, og þegar hafa um 2/3 verið virkjaðar.  Verðmæti þessara "virkjanlegu" orkulinda nema a.m.k. 200 mrðISK/ár, og verðmætasköpun með þessari raforku nemur miklu hærri upphæð.  Það er þess vegna mörgum hugleikið, hvernig eignarhaldinu á auðlindinni er og verður háttað.

Nýtingarrétturinn er bundinn virkjuninni hérlendis.  Eigandi virkjunarinnar er þannig handhafi nýtingarréttarins.  Það þýðir t.d., að verði hluti Landsvirkjunar seldur, t.d. vegna kvörtunar ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) út af yfirgnæfandi markaðshlutdeild fyrirtækisins hér, þá eignast nýir eigendur virkjanir og meðfylgjandi nýtingarrétt hinnar endurnýjanlegu orku.

Þann 17. september 2018 birtist skýrsla eftir Birgi Tjörva Pétursson, lögmann, BTP, sem iðnaðarráðuneytið keypti til að réttlæta baráttu sína fyrir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  Skýrsla BTP, lögmanns, ber heitið:

"Greinargerð um ýmis álitaefni sem tengjast þriðja orkupakka ESB og innleiðingu hans í íslenskan rétt".

Lagaprófessor við Háskólann í Tromsö, Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, tók að sér að rýna þessa skýrslu og fylgir skýrsla hans á norsku með þessum pistli.  Hann gagnrýnir skýrslu BTP og telur hana ekki standast, m.a. vegna þess, að BTP virðist ekkert hafa kynnt sér dómaframkvæmd ESB-dómstólsins, en túlkun hans á ESB-lögunum er mikilvægari en lagabókstafurinn sjálfur, því að dómum ESB-dómstólsins verður ekki áfrýjað.  

Þetta á t.d. við um eignarréttinn og þar með eignarhaldið á orkulindunum.  Prófessor Peter Örebech tók saman örstutt yfirlit um gagnrýni sína og fylgir það hér á eftir í þýðingu pistilhöfundar:

"Niðurstaða mín er, að BTP, lögmaður, dragi ótækar ályktanir.  Þetta á við þann skilning lögmannsins, að EES-samningurinn gildi ekki um orkugeirann, því að, í fyrsta lagi, kafli 125 í EES-samninginum - reglan um eignarréttinn, sem alfarið sé á valdi hvers ríkis - að sögn - ætti að útiloka það.  Í öðru lagi sú afstaða lögmannsins, að kaflar 11, 12 og 13 í EES-samninginum um magntakmarkanir á viðskiptum gildi ekki fyrir Ísland, af því að landið er núna án utanlandstenginga rafkerfisins.  

Sá, sem hefur kynnt sér réttarvenjur, kemst auðveldlega að því, að kafli 125 á við - andstætt fullyrðingum BTP, lögmanns, eignarréttarmálefni á Íslandi, því að ESB-dómstóllinn hefur slegið föstu, að þessi málefni verði ekki almennt undanþegin, hvorki frá Innri markaðinum eða "frelsunum fjórum".  Einnig er þessu slegið föstu fyrir orkugeirann, sbr EFTA-dómstólinn 2007 um eignarhaldsflutning orkuvera frá einkafyrirtækjum til norska ríkisins ["Hjemfall"-heimkvaðning].

Það er ennfremur á misskilningi reist, þegar BTP, lögmaður, með einfaldri vísun til þess, að rafkerfi Íslands er ótengt við útlönd, slær föstu, að Ísland sé þar með undanþegið grundvallar ákvæðum í EES-samninginum, köflum 11, 12 og 13.  Þetta stangast á við EES-samninginn sjálfan, sbr "Viðauka IV orka" (kafla 24) og EES-kafla 2a. Hið sama má leiða af formála nýrra gerða og tilskipana innan orkugeirans, sbr orðalagið, "EES-viðeigandi texti".

Öll ákvæði í EES-aðalsamninginum eiga sér - með framvindu samþykktra mismunandi "orkupakka" - ótakmarkað notkunarsvið á Íslandi.  Þetta þýðir t.d., að íslenzkt bann gegn utanlandstengingu við rafkerfið mun verða í andstöðu við kafla 12 í EES-samninginum." 

Þarna er í lokin í raun skrifað, að áform iðnaðarráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð, um að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um, að tengingarumsókn eiganda millilandasæstrengs við íslenzka rafkerfið skuli hljóta lokaafgreiðslu Alþingis, sé út í hött, því að bann við slíkri tengingu mundi jafngilda broti á EES-samninginum.  Þetta er svo augljóst, að leikmaður, sem aðeins nusar af málinu, áttar sig strax á, að Peter Örebech hefur hér að lög að mæla.  Það er verulegt áhyggjuefni,ef lögfræðingurinn í stóli iðnaðarráðherra er ekki betur að sér um EES-samninginn en svo, að hún ætli að beita sér fyrir lagasetningu á Alþingi, sem brýtur í bága við þennan umdeilda samning. 

Það er ljóst, að eftirfarandi orð BTP, lögmanns, í umræddri greinargerð hans, og gagnrýni Peters Örebech, prófessors, geta ekki samtímis verið sönn.  Lesendum verður eftirlátið að meta, hvor þeirra er líklegri til að hafa rétt fyrir sér.  Í greinargerð BTP stendur m.a.:

"Þá varða reglur þriðja orkupakkans eða samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar um aðlögun hans að samningnum ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkulindum á Íslandi.  Hvergi er að finna neitt í reglunum, sem um ræðir, sem gefur tilefni til að draga slíka ályktun.  Í því sambandi er líka rétt að minna á 125. gr. EES-samningsins, þar sem segir:"Samningur þessi hefur engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar.""

Það er með öðrum orðum engin vörn í þessari klausu gegn því, að erlend orkufyrirtæki geti ekki eignazt íslenzkar virkjanir og þar með öðlazt afnotarétt af orkulindunum, ef Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn verður samþykktur á Alþingi.   

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Verður engin krafa um einkavæðingu ?

Kristín Haraldsdóttir, lektor við Lagadeild HR, hélt því fram í viðtali á Morgunvakt Gufunnar, 13.09.2018, að með samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB muni engin krafa koma fram um einkavæðingu raforkugeirans á Íslandi.  Þetta er skrýtin kenning.

Lítum fyrst á raforkumarkaðinn sjálfan.  Með samþykkt "pakkans" yfirtaka reglur Innri markaðarins raforkumarkaðinn á Íslandi, óháð lagningu aflsæstrengs til landsins.  Orkan verður andlag 5. frelsins á Innri markaðinum.  Með öðrum orðum verður rafmagnið skilgreint sem vara, og um þessa vöru skal ríkja óheft samkeppni.  Til að koma slíkri óheftri samkeppni við með þessa "vöru" hafa verið stofnaðar orkukauphallir, og engum blöðum er um það að fletta, að fyrir viðskipti með rafmagn verður fljótlega komið upp slíkum "börsi" hérlendis eftir innleiðingu "pakkans", t.d. með norska "börsinn" sem fyrirmynd, enda hefur Landsnet undirbúið hann um hríð.  Landsreglarinn mun yfirtaka umsjón með þessari markaðsstarfsemi, þegar embætti hans hefur verið stofnað, og sjá til þess, að markaðsreglum Evrópusambandsins, ESB, verði framfylgt hér í hvívetna.

Í viku 37/2018 varð stórt gjaldþrot eins þátttakandans á norska orkubörsinum í Ósló. Einar Aas, einn ríkasti maður Noregs, hafði auðgazt á viðskiptum með orku, m.a. á afleiðuviðskiptum (e. derivatives, futures) með raforku í orkukauphöllinni í Ósló.  Í þetta skipti hafði hann veðjað á minnkandi raforkuverðmun í Þýzkalandi og Noregi nú á haustdögum.  Þá gerðist hið óvænta, sem varð hinum klóka kaupsýslumanni að falli; það tók að rigna ákaflega í Noregi, svo að yfirborð miðlunarlónanna hækkaði, sem leiddi til lækkunar raforkuverðs í Noregi.  Samtímis hækkaði koltvíildisskattur í Þýzkalandi, sem orsakaði verðhækkun á rafmagni þar.  Saman leiddi þetta til þveröfugrar verðþróunar í raun á við þá, sem Einar Aas, kaupsýslumaður, hafði veðjað á með afleiðuviðskiptum sínum, þ.e. mismunur á raforkuverði í Þýzkalandi og Noregi jókst.  Orkan, sem undir var í veðmáli Einars Aas nam ársnotkun alls Óslóarsvæðisins, og gjaldþrotsupphæðin nam mrdNOK 1,3 eða tæplega mrdISK 20.  Kostnaðurinn af þessu gjaldþroti lenti í fyrsta umgangi á varasjóði kauphallarinnar, en orkufyrirtækin þar þurfa að bæta honum þessi útgjöld upp.

Með því að gera rafmagn að vöru, eins og ESB og margir aðrir hafa gert, er búið að breyta viðskiptum með þessa auðlindaafurð í hreinræktað spilavíti, þar sem gríðarleg áhætta er tekin og gróðinn getur orðið feiknarlegur.  Erfitt er að sjá, að þessir viðskiptahættir geti gagnazt hag raforkunotendanna. Þeir verða leiksoppar örlaganna. Allir peningarnir í þessu spilavíti koma úr vasa orkukaupendanna.  Frá þeirra bæjardyrum séð, t.d. almennings á Íslandi, getur þetta engan veginn talizt æskilegt viðskiptafyrirkomulag með orku.  Eftir samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB verður það ekki lengur dregið að innleiða þetta kerfi hérlendis, svo geðslegt sem það er, með verðsveiflum og að öllum líkindum hærra meðalverði til almennings sem afleiðingu, algerlega óháð sæstrengslögn til landsins. 

Þegar búið verður að innleiða hér orkukauphöll, munu allar samkeppnisreglur Innri markaðarins verða í fullu gildi.  Þar tíðkast að sjálfsögðu hvergi, að ríkisfyrirtæki hafi 80 % markaðshlutdeild.  Það er þess vegna útilokað, að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) muni láta það óátalið, að Landsvirkjun verði í óbreyttri mynd starfandi á samkeppnismarkaði. 

Þetta er varla hægt að leysa öðruvísi en með því að skipta Landsvirkjun upp í tvennt eða þrennt og selja einn eða tvo hluta á markaði. Þetta breytir áætlunum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um þjóðarsjóð, fjármagnaðan með arðgreiðslum raforkufyrirtækja. Ekki verða margir hérlendis hrifnir af þessari þróun, þótt væntanlega muni koma tekjuskattur af hinum nýju einkafyrirtækjum í ríkissjóð.  

Statkraft, systurfyrirtæki Landsvirkjunar í Noregi, hefur t.d. þriðjungs markaðshlutdeild og er væntanlega við efri mörk leyfilegrar markaðshlutdeildar at mati ESA.  Þessi sala á a.m.k. helmingi Landsvirkjunar verður að fara fram á opnum markaði samkvæmt reglum EES, og þar með gætu öflug orkufyrirtæki á hinum Norðurlöndunum eða í Þýzkalandi, svo að líkleg lönd séu nefnd, eignazt ráðandi hlut í íslenzkum fyrirtækjum. 

Auðlind verður ekki skilin frá virkjun á Íslandi, svo að þar með mun EES-aðildin geta leitt til mikils nýtingarréttar fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu, EES, á íslenzkum orkulindum, nokkuð, sem hingað til hefur tekizt að girða fyrir í sjávarútveginum.

Samverkandi löggjöf ESB um raforkumarkað og frjálsa samkeppni á Innri markaðinum mun þannig leiða til einkavæðingar raforkugeirans að hluta.  Það er sem sagt ófullnægjandi að horfa á Þriðja orkumarkaðslagabálkinn einangraðan, heldur verður að skoða hann í samhengi við samkeppnisreglur Innri markaðarins.

Peter Örebech, norskur lagaprófessor og sérfræðingur í Evrópurétti, hefur rýnt greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, og komizt að þeirri niðurstöðu, að fullyrðingar lögmannsins um, að eignarhald á orkulindum séu á valdi hvers ríkis, standist ekki að Evrópurétti.  Verður skýrsla prófessors Örebechs, sem enn er aðeins til á norsku, birt hér á vefsíðunni ásamt úrdrætti hans sjálfs, sem þýddur hefur verið á íslenzku.  Er rýni norska lagaprófessorsins hin fróðlegasta, og virðist hann fella helztu stoðirnar undan þessari keyptu skýrslu iðnaðarráðherra, sem ætlað var að sýna fram á meinleysi innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.    

 

 


"... brýtur ekki blað í EES"

Að beiðni iðnaðarráðherra hefur verið samin skýrsla um lagalegar hliðar Þriðja orkumarkaðslagabálksins í íslenzku umhverfi, og sagði Morgunblaðið lauslega frá henni 18. september 2018 undir fyrirsögninni:

"Innleiðing orkupakka brýtur ekki blað í EES". 

Af þessu getur lesandinn ályktað, að hér sé á ferðinni "business as usual", þ.e. ósköp venjuleg innleiðing á Evrópugerð, þótt í stærri kantinum sé, í EES-samninginn og í íslenzka lagasafnið þar með. Rýni skýrslunnar bíður betra tóms, en niðurstöðurnar, eins og þær birtast í Morgunblaðsfréttinni, sýna, að mjög mikið vantar á, að öll sagan sé sögð.  Hér er ekki um léttvægt mál að ræða, eins og iðnaðarráðherra kappkostar að telja fólki trú um, heldur stórmál með geigvænlegum afleiðingum fyrir stjórn orkumálanna í landinu.  

Elías B. Elíasson, verkfræðingur, vann um áratugaskeið við orkumarkaðsmál hjá Landsvirkjun og hefur krufið Þriðja orkumarkaðslagabálkinn einna bezt hérlendra manna.  Segja má, að Elías hafi reifað áhættugreiningu sína um þennan Þriðja orkupakka á Fésbókarþræði þessa pistilhöfundar sunnudaginn 16. september 2018, og hefur hann veitt leyfi fyrir birtingu hennar hér:

  1. "Eins og málin standa, þá telja margir, að Alþingi eigi síðasta orðið. [Lagaprófessor og Evrópufræðingur við háskólann í Tromsö, Peter Örebech, hefur hrakið það í gagnrýni á greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, sem birt verður innan tíðar, að Alþingi hafi lokaorðið um sæstrengstengingu eftir samþykkt Þriðja orkupakkans-innsk. BJo.] Það að fá hingað sæstreng er þó ekki flóknara en það að bíða eftir heppilegum meirihluta.
  2. Það er rétt hjá Bjarna [Jónssyni], að Landsreglarinn mun hafa vald til að láta Landsnet styrkja kerfi sitt, svo að hægt sé að tengja slíkan streng.  
  3. Ef strengurinn er lagður sem einkaframkvæmd, koma fleiri lög til álita en orkupakkinn, enda skulu viðskipti með vöru og þjónustu vera frjáls innan ESB. [Prófmál um valdmörk norskra yfirvalda gagnvart einkaframtakssæstreng er nú í uppsiglingu í Noregi - innsk. BJo.]
  4. ESB getur hvenær sem er breytt lögum, svo að það verði skylda okkar að taka við sæstreng.  Það mun vera búið að skrifa 4. orkupakkann, og efalaust er sá 5. á leiðinni.  Það mun varla reynast erfiðara að koma þeim pökkum í gegnum Alþingi en þeim 3.
  5. ESB hefur enga hagsmuni af, að við tökum upp 3. orkupakkann, nema hingað komi sæstrengur, og er þess vegna ósveigjanlegri en ella.
  6. Ef sæstrengur kemur, er raforkuöryggi landsins í hættu vegna almennra ákvæða í lögum ESB, sem einnig gilda á EES-svæðinu með viðskipti með vöru milli landa. [Hér má nefna kafla 11,12 og 13 um hömlur á magntakmarkanir í viðskiptum-innsk. BJo.] Rafmagn er samkvæmt ESB og EES vara. Enn hefur engin leið fundizt framhjá þessum lögum.  Tjón okkar, ef það versta kemur upp í þessu máli, mælist ekki í milljörðum, heldur billjónum [þúsundum milljarða. Við bilun í sæstreng og lága stöðu í miðlunarlónum á óheppilegum tíma getur þurft að grípa til rafmagnsskömmtunar með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir framleiðsluferli landsins - innsk. BJo.].  
Niðurstaða: það er beinlínis kjánalegt að gera ekki ráð fyrir sæstreng, þegar möguleg áhrif 3. orkupakkans á íslenzka þjóð og efnahag eru metin, og með tilliti til alvarleika málsins ber stjórnvöldum skylda til að tryggja okkur fullkomlega gegn lagningu sæstrengs.  Eina örugga leiðin virðist sem stendur vera sú að fella orkupakkann og koma okkur út úr hinum sameiginlega innri markaði.  Hins vegar eru nægar ástæður til að fella pakkann, þótt sæstrengur komi ekki." 
 
Iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra ættu að huga rækilega að þessum varnaðarorðum Elíasar B. Elíassonar, verkfræðings.  Alveg sérstaklega ættu ráðherrar og aðrir þingmenn að gefa gaum að niðurstöðu hans, kostnaðarmati á tjóni og skyldum stjórnvalda gagnvart þjóðinni.  Skoðun Elíasar á þessu máli er reist á áratuga reynslu hans af að fást við raforkumarkað og nákvæmum athugunum hans á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Ábyrgðarhluti þeirra þingmanna, sem hundsa vel rökstudd varnaðarorð, verður mikill.  Þeir munu ekki geta afsakað sig með því, að þeir hafi ekki vitað betur, því að þeir máttu vita betur.  
 
Hvernig bregzt iðnaðarráðherra við gagnrýni á hana fyrir eindreginn stuðning hennar við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi, þvert gegn vilja yfirgnæfandi meirihluta kjósenda hennar og flokks hennar ?  Hún fær lögfræðing án sérþekkingar á raforkumarkaði og án mikillar reynslu af Evrópurétti, svo að vitað sé, til að semja eintóna greinargerð og skrifa um sáralitlar breytingar á íslenzkri lagaumgjörð, sem téður orkulagabálkur hefði í för með sér, og nánast engar breytingar fyrir landið og hag þess.  Lagaprófessor og sérfræðingur í Evrópurétti við háskólann í Tromsö í Noregi hefur rýnt greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, vegið hana og fundið léttvæga.  Skýrsla prófessors Peters Örebech verður birt bráðlega.
 
 Niðurstaða greinargerðar Birgis Tjörva til ráðherrans stingur algerlega í stúf við tilvitnuð orð Elíasar B. Elíassonar, sérfræðings um orkumarkaði, og báðir geta þeir Elías og Birgir Tjörvi Pétursson ómögulega haft á réttu að standa í þessu máli.  
Höfundur þessa pistils fullyrðir, að fyrir þing og þjóð er ofangreint mat Peters Örebechs og Elíasar Elíassonar meira virði og mikilvægara en greinargerð Birgis, enda sýnir prófessor Örebech, að túlkanir Birgis Tjörva á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum  stangast á við dóma ESB-dómstólsins.    
 
Samt leyfir iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð, sér að fullyrða við Morgunblaðið 18.09.2018 um hina keyptu greinargerð, að hún sé mikilvægt innlegg í umræðu um málið.  Er eitthvað nýtt þar, eða eru þar bara "selvfölgeligheder", gamlar tuggur og vafasamar ályktanir ?
 
Orðrétt vitnar Morgunblaðið í ráðherrann á vef ráðuneytis hennar:
 
"Á grundvelli þess, sem hefur komið fram um málið, er ekki að sjá, að innleiðing þess [Þriðja orkumarkaðslagabálksins] í íslenzk lög fæli í sér meiriháttar frávik frá fyrri stefnumótun stjórnvalda í þessum málaflokki, en almennt myndi ég telja, að það þurfi afar sterk rök til að hafna með öllu upptöku ESB-gerðar í EES-samninginn, sem talin er varða innri markaðinn.  Það væri í fyrsta skipti frá upphafi, sem við gerum það, og ekki ljóst, hvert það myndi leiða."
 
Það er engu líkara en þessi ráðherra og þingmaður sé pólitískt bæði heyrnarlaus og sjónlaus.  Hún var á fundi í Valhöll í Reykjavík 30.08.2018 og hlýddi þar á 4 framsöguerindi og umræður í kjölfarið.  Framsöguerindin fluttu fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, prófessor emeritus í lögum og sérfræðingur í Evrópurétti ásamt tveimur verkfræðingum, sem greint hafa innihald Þriðja orkupakkans og afleiðingar innleiðingar hans hérlendis og afleiðingar synjunar hans.  Allir lýstu þessir fjórmenningar yfir andstöðu sinni við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Íslandi og vöruðu við innleiðingu hans.  Allir aðrir, sem þátt tóku í umræðum, höfðu miklar efasemdir um nytsemi þessarar orkulöggjafar fyrir Ísland.
 
 
Þrátt fyrir þetta og allar aðrar umræður um þetta mál, leyfir iðnaðarráðherra sér "að hrauna yfir" þá, sem eru á öndverðum meiði við hana í þessu máli.  Það hlýtur að hafa pólitískar afleiðingar fyrir hana.  Hverra hagsmunum er ráðherrann að þjóna ?  Það er óhjákvæmilegt að spyrja slíkra spurninga í ljósi þess, að eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins hérlendis verður raforkan skilgreind sem vara að hætti ESB.  Þá verður stofnuð orkukauphöll, og þar verða leyfðar afleiður.  Þar með er búið að breyta íslenzkum orkumarkaði í spilavíti, þar sem gríðarlegar upphæðir verða undir, áhættan geisileg og gróðavon mikil.
Þetta er kerfið, sem núverandi iðnaðarráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð, berst fyrir innleiðingu á.  Eru kjósendur hennar í NV-kjördæmi, og þeir, sem studdu hana til varaformennsku í Sjálfstæðisflokkinum á síðasta Landsfundi, sammála henni um þetta, eða verður þetta mál frágangssök, þegar afstaða verður tekin til frammistöðu hennar í fyllingu tímans ?
 
 
 

Hver ræður sæstrengstengingu eftir innleiðingu "pakkans" ?

Á Morgunvakt gömlu Gufunnar 13.09.2018 var viðtal við Kristínu Haraldsdóttur, lektor við Lagadeild HR.  Sama Kristín hélt erindi á ráðstefnu Lagadeildar HR 13.08.2018.  Þetta var nokkuð áferðarfallegt viðtal á Gufunni að morgni dags, en mikilvægum atriðum var þar sleppt, e.t.v. vegna tímaskorts.  Tvö atriði, sem fram komu hjá lektornum, þarfnast nánari umfjöllunar:

Hún hélt því fram, að íslenzk stjórnvöld réðu því, hvort umsókn fjárfestis um lagningu sæstrengs og tengingu við íslenzka raforkukerfið yrði samþykkt eða henni hafnað, og hún hélt því fram, að engin krafa væri um einkavæðingu innan raforkugeirans með Þriðja orkupakka ESB. Hvort tveggja orkar tvímælis hjá henni. Hér verður fyrra atriðið gert að umfjöllunarefni.  

Nú hafa veður skipazt svo í lofti, að iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð, hefur boðað lagafrumvarp á Alþingi um, að Alþingi skuli að lokum fjalla um það, hvort leyfa skuli eða hafna lagningu aflsæstrengs til landsins og tengingu hans við stofnkerfi landsins. Hún, sem er lögfræðingur að mennt, mundi varla hafa fyrir þessu umstangi, ef hún væri sannfærð um, að íslenzk stjórnvöld réðu því í raun, hvort af sæstrengstengingu verður eða ekki. Þannig eru skiptar skoðanir um þetta á meðal íslenzkra lögfræðinga, og enn meiri lögfræðilegar efasemdir eru um þetta í Noregi, en þar eru nú risnar deilur um leyfisumsókn einkafyrirtækisins Northconnect um aflsæstreng til Skotlands.   

Hér skal reyndar draga í efa, að lög þessi um lokaorð Alþingis gagnvart leyfisumsókn sæstrengs verði í augum ESA og EFTA-dómstólsins talin rétthærri en ákvæði í Vetrarpakkanum (væntanlegum Fjórða orkumarkaðslagabálki), þar sem enn aukin völd verða væntanlega færð í hendur ACER (Orkustofnun ESB), þótt enn sé ágreiningur um það á milli Framkvæmdastjórnarinnar og ESB-þingsins annars vegar og Ráðherraráðsins hins vegar.

Lögfræðingum hérlendis hættir til að líta á Þriðja orkumarkaðslagabálkinn sem endanlegt plagg, sem er fjarri lagi.  Það á eftir að bæta við hann fjölmörgum Evrópugerðum, sem komið hafa út á tímabilinu 2010-2018, og Vetrarbálkurinn, sem verður Fjórði orkumarkaðslagabálkur ESB, mun leysa þann þriðja af hólmi.  Sá nýi felur að öllum líkindum í sér enn meira valdaframsal þjóðríkjanna til hinnar yfirþjóðlegu stofnunar, ACER, sem er beint undir Framkvæmdastjórn ESB.  Enn munu lögfræðingar iðnaðarráðuneytisins og aðkeyptir lögfræðingar þess komast að þeirri niðurstöðu, að nýtt fullveldisframsal sé svo lítið, að ekki þurfi að hafa áhyggjur út af Stjórnarskránni, enda bítur hún ekki frá sér, á meðan enginn kærir lögbrotin.   

Það er rétt, að formlega hefur Orkustofnun valdið til að samþykkja eða hafna umsókn, en það er ekki endanleg afgreiðsla, því að bæði Landsreglari og leyfisumsækjandi munu geta kvartað undan þeirri afgreiðslu til ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA).  Ef ESA kemst að því, að umsóknin uppfylli öll skilyrði Landsreglarans, mun hún fara þess á leit við iðnaðarráðherra, yfirmann Orkumálastjóra, að leyfið verði veitt.  Ef ráðherrann þrjózkast við, verður fullt tilefni til að kæra höfnunina fyrir EFTA-dómstólinum. Íslenzk lög víkja fyrir Evrópurétti samkvæmt EES-samninginum, þannig að engin réttaróvissa ríkir um þetta mál. Það er þannig alls ekki rétt, að íslenzk stjórnvöld muni á endanum ráða því, hvort hingað verður lagður aflsæstrengur að utan eða ekki.  Það verður nánast útilokað, ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.

Þarna virðist Kristín Haraldsdóttir, lögfræðingur, aðeins líta til hins formlega fyrirkomulags um afgreiðslu Orkustofnunar (OS) á leyfisumsóknum, en lítur framhjá því, að raforkumál hafa frá upphafi EES-samningsins verið hluti af honum, en með innleiðingu Þriðja orkupakkans aukast skuldbindingar Íslands mikið, og slík sæstrengsumsókn verður borin saman við Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER.  Sé strengurinn í samræmi við hana, er næsta víst, hver úrskurður ESA og dómur EFTA-dómstólsins verður.    

Með hinu óvænta útspili iðnaðarráðherra að boða framlagningu frumvarps á Alþingi um innblöndun Alþingis á málefnasvið framkvæmdavaldsins er hún að  að klóra í bakkann í þessu máli, en lögfræðilega er það sennilega algerlega út í loftið.  Það er mikilvægt að greina það lögfræðilega, hvort eitthvert hald er í slíkri lagasetningu.  Prófessor í lögum og sérfræðingur í Evrópurétti hefur tekið að sér þessa greiningu, og verður hún birt opinberlega hérlendis í haust.  Höfundur þessa vefpistils yrði ekki hissa, þótt í ljós kæmi, að umrædd hugmynd um bann við lagningu aflsæstrengs til Íslands hafi einvörðungu blekkingarþýðingu, en eftir sem áður muni koma til kasta EFTA-dómstólsins að úrskurða um afdrif umsóknar fjárfestis um leyfi til sæstrengslagnar. Iðnaðarráðherra er hollt að hafa í huga, að hún starfar ekki í umboði Sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem 5. maí 2017 samþykkti innleiðingu þessa stórhættulega lagabálks, heldur í umboði sjálfstæðismanna í NV-kjördæmi á Íslandi og sem varaformaður í umboði Landsfundar Sjálfstæðisflokksins.  Yfir 90 % sjálfstæðismanna í úrtaki Maskínu sumarið 2018 lýstu yfir andstöðu við það, sem felst í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, þ.e. framsal valds á orkumálasviði til yfirþjóðlegrar stofnunar.  Heldur ráðherrann og þingmaðurinn, Þórdís Kolbrún Reykfjörð, að sjálfstæðisfólk muni láta baráttu hennar og ráðuneytis hennar fyrir innleiðingu Þriðja orkupakkans yfir sig ganga, og það meira að segja í kjördæmi Jóns Hreggviðssonar ?  

Höfundur þessa pistils hefur oft vísað til Evrópugerðar nr 347/2013 um Kerfisþróunaráætlun ESB frá 17.04.2013.  Hún er sem sagt yngri en Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn og með henni eru gerðar breytingar á hluta regluverksins í téðum bálki, t.d. á 713/2009, 714/2009 um ACER, og 715/2009.  ESB mun þess vegna tvímælalaust krefjast þess, að þessi nýja Evrópugerð ásamt flaumi annarra, sem bíða, verði innleiddar hérlendis, ef/þegar Alþingi hefur samþykkt Þriðja orkupakkann.  

Aðalatriðið í þessu sambandi er þó, að í Þriðja orkupakkanum fær ACER umboð til að vakta og hafa eftirlit með fylgni aðildarríkjanna við Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, þar sem millilandatengingarnar koma fram og "Icelink" sæstrengurinn er á meðal verkefna á "hagkvæmniathugunarstigi". ACER er þarna ekki einvörðungu í ráðgjafarhlutverki, heldur "geymir hrísvönd á bak við spegilinn", sem endað getur hjá EFTA-dómstólinum í tilviki EFTA-ríkjanna í EES-samstarfinu. 

Í ACER-gerðinni, kafla 6, grein 8, stendur:

"ACER [Orkustofnun ESB] skal vakta framkvæmd Kerfisþróunaráætlunar fyrir Evrópusambandið.  Ef ACER finnur misræmi á milli framkvæmdar og áætlunar, á ACER að rannsaka orsakir misræmisins og gefa rekstraraðilum flutningskerfanna [Landsneti á Íslandi] leiðbeiningar ásamt Landsreglurum eða öðrum, sem málið varðar, í því augnamiði, að fjárfest verði í samræmi við Kerfisþróunaráætlunina fyrir Evrópusambandið."  

Ef þessar leiðbeiningar falla í grýtta jörð, getur orðið úr því mál, sem farið verður með áfram til Framkvæmdastjórnar ESB/ESA og, ef allt um þrýtur, til EFTA-dómstólsins. Aðildarlöndin eru þannig formlega séð í fyrstu atrennu ekki bundin af að fara eftir Kerfisþróunaráætluninni strax, en þrjózkist þau við, eru næg úrræði fyrir hendi til að láta þau fara að vilja ESB/ACER.  EFTA löndin hafa engin önnur úrræði til að forðast að lenda fyrir EFTA-dómstólinum en að fara að vilja ACER. 

Því fer þess vegna fjarri lagi, að Landsnet eða iðnaðarráðherra hafi sjálfdæmi um það, hvort Landsnet reisir háspennulínur til að flytja orku frá íslenzka stofnkerfinu og niður að lendingarstað sæstrengs, sem er núna á forgangsverkefnaskrá ENTSO-E, sambands rafmagnsflutningsfyrirtækja Evrópu. Hann er nú í hagkvæmniathugun og verður þar hugsanlega tekinn upp á hönnunar og framkvæmdastig. Þess má geta hér, að náttúruvernd er að Evrópurétti ekki næg ástæða til að ganga á svig við samþykktir yfirþjóðlegra stofnana, og Evrópuréttur verður allsráðandi um málefni flutningskerfis landsins og sæstrengstengingu eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins. 

Það skýtur þess vegna skökku við að standa á því fastar en fótunum, að íslenzk stjórnvöld hafi um það síðasta orðið, hvort hingað verði lagður aflsæstrengur eða ekki.  Æðsta valdið í þeim efnum verður EFTA-dómstóllinn.

Nú vill svo til, að Norðmenn kunna að fá smjörþefinn af þessari ráðsmennsku ESB/ACER með millilandatengingar.  Ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, tekur hann einnig gildi í Noregi og í Liechtenstein, en fyrr ekki.  Við gildistökuna mun reyna á 8 fyrirvara Stórþingsins frá marz 2018 við samþykkt Þriðja orkupakkans.  Þar á meðal var einn, sem Verkamannaflokkurinn lagði ríka áherzlu á, þ.e. að allar millilandatengingar skyldu vera áfram í eigu ríkisfyrirtækisins Statnetts, eins og verið hefur.  Á þetta mun reyna með NorthConnect, aflsæstreng á milli Noregs og Skotlands, sem einkafyrirtækið Northconnect hefur sótt um að fá að leggja á milli rafkerfa Noregs og Skotlands.  

  Norðmenn óttast þennan sæstreng, því að um hann verða fluttar út 9 TWh/ár, en heildarflutningsgeta hans verður 12 TWh/ár, og hann mun "þurrka up" alla umframraforku í landinu.  Á hinum endanum hefur raforkuverðið að jafnaði verið 60 % hærra undanfarin ár, svo að rafmagnið í Noregi gæti hækkað um allt að 60 % eftir tengingu þessa strengs.  

Statnett, norska Landsnet hefur varað Orkustofnun Noregs, NVE, við því að samþykkja þessa umsókn að svo stöddu, og nú velta Norðmenn fyrir sér, hvort þeir hafi vald til að hafna leyfisumsókn um þennan streng.  Ein af vangaveltunum er í stuttu máli á þessa leið:

"Höfnun þarf að rökstyðja.  Að þetta verður sæstrengur í einkaeigu er varla röksemd. Slíkt yrði túlkað sem brot á grundvallarreglu um athafnafrelsi, og slíkt yrði brot á norskum lögum. Banni með vísun til samkeppnishæfni norsks atvinnulífs verður strax vísað á bug sem brot á ríkisstuðningsreglum ESB.  Þegar flutningsgeta á milli landa hefur aukizt svo mjög, að kominn verður á innri markaður með rafmagn, gilda allar almennar reglur ESB um slíkan markað.

Höfnun verður að reisa á þungavigtarrökum um samfélagslega hagsmuni.  Hvorki einkaeign, tillit til samkeppnishæfni eða náttúru teljast til slíkra í ESB-rétti.  Stjórnvöld munu hafa hið raunverulega framkvæmdavald á móti sér í þessu máli.  Landsreglaranum ber að gefa skýrslu um höfnun til ESA og ACER sem brot gegn Kerfisþróunaráætlun ESB og fara þess formlega á leit við NVE (OS á Íslandi), að áætlunin sé virt.  

 ESB mun þrýsta mjög á stjórnmálaleiðtogana, að þeir beiti sér fyrir því, að leyfi fyrir sæstrengnum verði veitt.  Ef þeir neita samt, og umsækjendurnir kæra málið til ESA, geta Norðmenn þá komið í veg fyrir, að málið fari fyrir EFTA-dómstólinn sem úrskurðaraðila ?  Þá verða þeir að halda því fram, að þetta sé viðfangsefni, sem falli utan EES-samningsins.  Það er ómögulegt.  

Þessi atburðarás á við núverandi reglur í Orkupakka 3.  Nú eru ESB-löndin að semja um Vetrarpakkann, sem auka mun völd ESB og ACER.  Hið eina, sem veitir okkur öryggi um, að við getum beitt ákvörðunarrétti okkar sem fullvalda þjóð, er að hafna þeirri viðamiklu ESB-aðlögun, sem ríkisstjórnin hefur lagt til."

Þessi sviðsmynd Norðmanna er mjög lærdómsrík fyrir okkur Íslendinga.  Iðnaðarráðherra Íslands ætlar að leggja til við Alþingi, að þingmenn hafi síðasta orðið gagnvart umsókn um aflsæstreng frá útlöndum.  Ráðherrann gerir þetta væntanlega af illri nauðsyn.  Hún treystir því ekki almennilega, að höfnun Orkustofnunar, OS, haldi fyrir EFTA-dómstólinum.  Hvaða rökum er ætlunin að beita í þessum lögum til að réttlæta lagasetninguna ?  Það verður fróðlegt að sjá, en líklegast er, að lög, samin í iðnaðarráðuneytinu, þvert á Evrópurétt, muni engin áhrif hafa á dómsuppkvaðningu EFTA-dómstólsins.  Lagasetningin gæti orðið vita gagnslaus og nánast hlægileg í augum umheimsins.  Um þetta munu Evrópuréttarsérfræðingar vafalaust fjalla af mikilli þekkingu á næstunni.  

 

 


Er vit í að banna sæstrengslögn til útlanda ?

Nú er leitað logandi ljósi að ráðum til að fá meirihlutastuðning á Alþingi við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Það er mikið haft við, því að sumir embættismenn trúa því og dreifa þeim hræðsluáróðri til stjórnmálamanna og annarra, að sjálfur EES-samningurinn sé í húfi og þar með snurðulaust aðgengi að Innri markaði ESB/EFTA (nema Sviss). Hvergi er þó stafkrókur, sem styður martraðarkenndan söguburð af þessu tagi. Þvert á móti er gert ráð fyrir þeim möguleika í EES-samninginum, að þetta geti gerzt, enda talinn nauðsynlegur neyðarhemill, þegar Alþingi samþykkti samninginn árið 1993. Fyrirvarar við samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálksins eru að öllum líkindum vita haldlausir, eins og sjá má í viðhengjum með þessari færslu.  

Þótt Alþingi kunni á nefndarfundi árið 2016 að hafa gefið leyfi til að halda áfram með Þriðja orkumarkaðslagabálkinn á vettvangi EES, þá var málið fullkomlega vanreifað á þeim tíma, og Alþingiskosningar hafa farið fram síðan. Núverandi þing er algerlega óbundið, þegar það tekur afstöðu til Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  

Það skal þó taka fram, að í utanríkismálanefnd hreyfði einn maður andmælum og hafði uppi varnaðarorð á þessum tíma.  Sá var Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og kveikti hann manna fyrstur hérlendis á hættunum, sem þessu máli eru samfara.  Mikilsverðir vanreifaðir þættir voru t.d., hvort innleiðingin færi yfir mörk leyfilegs framsals ríkisvalds, og hvaða áhrif uppboðskerfi raforku að hætti ESB hefði á auðlindastjórnun Íslendinga, raforkuverð í landinu og afhendingaröryggi raforku. Það er hægt að rústa gersamlega íslenzka raforkumarkaðinum, sem er einstakur í Evrópu, með því að beita á hann aðferðarfræði, sem sniðin er við gjörólíkar aðstæður að öllu leyti.  Hér er of mikið í húfi, til að flaustursleg málsmeðferð eða einvörðungu lögfræðilegt mat sé landsmönnum boðleg. Það er ekki með réttu hægt að halda því fram, að við lokaafgreiðslu málsins verði Alþingi bundið af fyrri ákvörðun um að leyfa Sameiginlegu EES-nefndinni að halda áfram með málið, en auðvitað hefði verið betra, að þingið á þessum tíma hefði gert sínar athugasemdar og sett sín skilyrði.  Það var ekki gert þrátt fyrir viðvörunarorð Frosta, og er það mjög ámælisvert.  

Samkvæmt ákvæðum EES-samningsins hafa þjóðþing EFTA-landanna í EES fulla heimild til að grípa í neyðarhemil við lokaafgreiðslu málsins, ef þeim býður svo við að horfa, og synja tilskipunum og lagabálkum ESB-staðfestingar.  Hefst þá samningaferli, og samkvæmt EES-samninginum má ESB ekki grípa til annarra gagnráðstafana en ógildingar samkynja gerða og hafnað var, þ.e.a.s. í þessu tilviki 1. og 2. orkumarkaðslagabálksins. Nú er nauðsynlegt að spyrna við fótum, og áhættan af því er hverfandi m.v. tjónið, sem hlýzt af því að leggja núverandi auðlindastjórnun fyrir róða og taka upp hreinræktaða spákaupmennsku með raforkuna, sem leiðir til slæmrar auðlindanýtingar, sveiflukennds raforkuverðs og aukinnar hættu á orkuskorti í landinu.    

 Iðnaðarráðherra hefur nú tilkynnt, að lagt verði fram á Alþingi í október 2018 frumvarp til laga um, að Alþingi skuli hafa síðasta orðið um lagningu sæstrengs frá útlöndum og tengingu hans við íslenzka raforkukerfið.  Þetta mun vera hugsað sem ráð til að gera Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB heldur kræsilegri í augum Alþingis og almennings, en hér skal vara við svo ótraustri girðingu.  Hún mun ekki halda túnrollum ESB réttum megin. 

Þessi gjörningur er ekki til annars hæfur en að slá ryki í augu landsmanna.  Bæði er óvíst, að þessi lagasetning verði nokkur  vörn gegn sæstreng, er fram í sækir, vegna samsetningar þingsins og hins vegar mun umsækjandi um leyfi fyrir sæstreng vafalítið kæra höfnun þingsins fyrir ESA og ágreiningurinn hafna hjá EFTA-dómstólinum.  Þá er það órökrétt, að löggjafarsamkoman troði sér með þessum hætti inn á verksvið framkvæmdavaldsins, en leyfisveitingar eiga skilyrðislaust þar heima.

Þá skellir iðnaðarráðherra skollaeyrum við vel ígrunduðum röksemdum um alvarlegar afleiðingar markaðsvæðingar raforkugerans á Íslandi án sæstrengs.  Almenningur skynjar hættuna, framkvæmdavaldið er úti á þekju, einblínir á lögfræðileg formsatriði, en hugar lítt að raunverulegu innihaldi eða geigvænlegum fjárhagsafleiðingum, sem af rústun raforkumarkaðarins leiða.  Hvort löggjafinn er með á nótunum, veit enginn enn. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð, iðnaðarráðherra, er þeirrar hyggju, eins og höfundar allra orkumarkaðslagabálkanna þriggja og þess fjórða, sem er á leiðinni, að rafmagn sé vara, sem ganga eigi kaupum og sölum til hæstbjóðanda á uppboðsmarkaði.  Þetta er öndvert við viðtekin sjónarmið á Íslandi og í Noregi um, að raforkan sé afurð náttúruauðlindar og að viðskipti með afurðina verði ekki aðgreind frá nýtingu náttúruauðlindarinnar.  Með öðrum orðum verða viðskipti með rafmagn á Íslandi að tengjast auðlindastjórnun, ef ekki á illa að fara. Þetta á við íslenzkar og norskar endurnýjanlegar orkulindir, en hins vegar ekki eldsneytisorkuverin í ESB-löndunum. Á Íslandi er uppi alveg einstök staða í Evrópu, þar sem er viðkvæmt samspil vatnsorkuvera og jarðgufuvera.  Það þarf að stjórna þessu samspili af natni, og uppboðsmarkaður raforku í anda ESB er ófær um það, af því að kostnaðarmynztur þessara orkuvera er ólíkt.  Ráðuneytisfólk og þingmenn verða að íhuga þann reginmun, sem er á sjálfbæru raforkukerfi Íslands og ósjálfbæru raforkukerfi ESB-landanna. Ætla þingmenn að fórna íslenzkri auðlindastjórnun á altari vezlunarhugmyndar ESB um rafmagn sem vöru.  Rafmagn er ekki vara á Íslandi, og þess vegna á frjáls samkeppnismarkaður ekki við rafmagn hérlendis.  Ef iðnaðarráðherra ekki viðurkennir þessa staðreynd, þá mun hún lenda í miklum ógöngum, bæði með orkumál landsins og pólitíska bakhjarla sína.

Þetta er nauðsynlegt að skýra með dæmum:

Nú eru um 70 % raforkunnar á Íslandi framleidd í vatnsorkuverum og um 30 % í jarðgufuverum.  Vatnsorkuverin hafa markaðslega yfirburði, því að auðvelt er að breyta raforkuvinnslu þar á víðu sviði á skömmum tíma, en miklu meiri vinnslubreytingatregða er í jarðgufuverum.  Vinnslukostnaður vatnsorkuvera er þar að auki umtalsvert lægri en í jarðgufuverum.  

Landsvirkjun er langstærsta virkjunarfyrirtækið með um 80 % markaðshlutdeild.  Með núverandi fyrirkomulagi raforkuviðskipta, hér kallað gjaldskrárkerfi, hefur Landsvirkjun vegna stærðar sinnar tekið að sér auðlindastjórnunina til að hámarka nýtingu og endingu vatns í meginmiðlunarlónum landsins með samkeyrslu vatnsorkuvirkjana og jarðgufuvirkjana.  Þegar hækkar í miðlunarlónum er sett mikið álag á vatnsorkuverin og það haft í hámarki, þegar lónin nálgast fyllingu, en á móti dregið úr álagi jarðgufuvera.  Öfugt er farið að við lækkun í lónum og við lágmark þar mæðir mest á jarðgufuverum. Þannig nýtist vatnið bezt.

Í góðum vatnsárum var áður búinn til markaður notenda, sem gátu nýtt sér ótryggða raforku á mun lægra verði en s.k. forgangsorku, sem aldrei má bresta. Þannig var framkölluð aukin raforkunotkun, þegar hún var þjóðhagslega hagkvæm. Þetta var margri starfseminni til hagsbóta, s.s. kyndistöðvum, fiskimjölsverksmiðjum og ylrækt.  Nú hefur Landsvirkjun af dularfullum ástæðum dregið úr eða jafnvel lagt þessa þjónustu af. Það er ekki til þess fallið að bæta vatnsnýtinguna. Er það aðlögun að því, sem koma skal ? 

Landsreglarinn, sem verður reglusetningararmur ACER (Orkustofnunar ESB) á Íslandi, mun hafa það hlutverk m.a. að markaðsvæða viðskipti með raforku og koma hér á uppboðskerfi.  Hann hefur samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum ekki vald til að skipa fyrir um, að þetta skuli gera, en með þessum orkubálki leggst sú kvöð á stjórnvöld að koma á kerfinu, sem framkvæmdastjórn ESB telur skilvirkast og koma neytendum bezt. Það er sem sagt uppboðskerfi raforku, sem hérlendis getur valdið stórtjóni vegna straumleysis af völdum óleyfilegrar samstýringar virkjana og mun örugglega valda sveiflukenndu raforkuverði yfir árið og sennilega hærra meðalverði en nú er við lýði.  

Vítin eru til þess að varast þau, og ættu stjórnvöld að kanna afleiðingar fyrir neytendur af markaðsvæðingunni í vatnsorkulöndum á borð við Noreg, Nýja-Sjáland og Kaliforníu.  Það, sem mun gerast hérlendis á uppboðsmarkaði er, að vatnsorkuverin munu ryðja jarðgufuvirkjunum af markaði, á meðan eitthvað er til að selja af rafmagni frá vatnsorkuverum.  Þetta mun leiða til ofnýtingar á vatnsauðlindinni og vannýtingar á jarðgufunni, og afleiðingin verður tiltölulega lág staða í miðlunarlónum lungann úr árinu og mikil hætta á vatnsskorti og þar með rafmagnsskorti e.t.v. þriðjung úr árinu, janúar-apríl.  

Þetta skapar auðvitað óviðunandi afhendingaróöryggi raforku, og Landsreglarinn og ACER munu benda á hina augljósu lausn á vandanum, tengingu undir hafinu við rafkerfi annarra landa.

Aftur að hugsanlegu banni  Alþingis á sæstreng.  Slík lagasetning stenzt á yfirborðinu að Evrópurétti, því að í orði kveðnu á ekki að koma á nýjum millilandatengingum án samþykkis réttra yfirvalda í viðkomandi löndum. Með samþykki Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins ganga yfirvöld landsins undir það jarðarmen að styðja framkvæmd kerfisþróunaráætlunar ESB/ACER með ráðum og dáð.  Með því að stofna til embættis Landsreglara í landinu, sem verður á íslenzku fjárlögunum, en að öðru leyti algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum, staðfestir framkvæmdavaldið þennan stuðning við kerfisþróunaráætlunina, því að eitt meginhlutverk Landsreglarans verður að hafa eftirlit með fylgni kerfisáætlunar Landsnets við kerfisþróunaráætlun ESB/ACER.  Það myndast þar af leiðandi óviðunandi mótsetning á milli höfnunar Alþingis á sæstreng og innleiðingar Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Á þessu verður hamrað af Landsreglaranum, ESA, ACER og framkvæmdastjórn ESB.  Ef Alþingi ekki breytir ákvörðun sinni, mun ágreiningurinn enda hjá EFTA-dómstólinum, og þar þarf ekki að spyrja að leikslokum.   

Er frá líður og tímabundinn raforkuskortur verður árviss viðburður á Íslandi, mun þrýstingur aukast mjög á Alþingi að afnema þessi undarlegu lög, sem grípa fram fyrir hendur framkvæmdavaldsins. Hlutverk Landsreglarans um að sjá til þess, að Ísland framfylgi að sínu leyti kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, mun rekast á við slík lög, og á meðan "Icelink" sæstrengurinn á milli Íslands og Bretlands er í þessari kerfisþróunaráætlun, ber Landsreglaranum að sjá til þess, að kerfisáætlun Landsnets geri kleift að tengja slíkan sæstreng Íslandsmegin.  Það er  líklegt, að Vetrarpakkinn, sem er á leiðinni frá ESB og er Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn þaðan og væntanlega ekki sá síðasti, muni innihalda enn ríkari valdheimildir handa ACER og Landsreglaranum og heimildir framkvæmdastjórnar og ESB-dómstólsins og þá ESA og EFTA-dómstólsins í EFTA-löndunum til að víkja landslögum til hliðar fyrir Evrópurétti (lögum ESB).  Hvað sem Vetrarpakkanum líður, mun Landsreglarinn geta látið reyna á sæstrengsbann Alþingis fyrir EFTA-dómstólinum.  Það er þess vegna mjög lítið hald í og fullkomlega falskt öryggi fólgið í hugsanlegu banni Alþingis við tengingu íslenzka raforkukerfisins við útlönd.

Íslenzk stjórnvöld virðast ekki vera í færum til að greina þær hættur, sem felast í Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB fyrir starfsemi íslenzka raforkumarkaðarins í þágu almannahags.  Þá virðast þau heldur ekki ná að átta sig á þýðingu kerfisþróunaráætlunar ESB/ACER né skuldbindingunni um stuðning við hana, sem felst í samþykki Alþingis á téðum lagabálki og stofnsetningu embættis Landsreglara. Ný greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögfræðings, handa iðnaðarráðherra er ekki þess eðlis, að hún hjálpi stjórnvöldum við að ná áttum.  Hún er áróðursplagg fyrir skoðanir starfsmanna iðnaðarráðuneytis og utanríkisráðuneytis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum og afleiðingum af innleiðingu hans hérlendis.  

Að öllu þessu metnu er eina skynsamlega afstaða ríkisstjórnarinnar sú að sýna fyllstu aðgát, tilkynna samstarfsaðilum Íslands innan EES um, að þar sem orkukerfi Íslands sé gjörólíkt orkukerfum ESB-landanna, sé hætta á, að markaðskerfi ESB henti ekki hér og að Íslendingar muni þurfa á allri sinni orku í nýtingarhluta Rammaáætlunar að halda fyrir orkuskipti og til að standa undir hagvexti vaxandi þjóðar.  Af þessum sökum áskilji landið sér rétt til að hafna Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vita þau, hvað þau gera ?

Megineinkenni EES-samningsins er, að hann framkallar stríðan straum s.k. Evrópugerða, laga og tilskipana, frá stofnunum Evrópusambandsins og til þjóðþinga EFTA-ríkjanna, sem í þessari EES-spennitreyju eru.  Ætlazt er til, að þjóðþingin stimpli gjörningana sem góð og gild fyrir sitt fólk, þótt það hafi í fæstum tilvikum nokkurs staðar komið nærri tilurð gjörninganna.  Þetta er eins ólýðræðislegt og hugsazt getur, enda afrakstur embættismanna sem biðleikur fáeinna landa inn í Evrópusambandið.  Það er löngu orðið ljóst, að hvorki Ísland né Noregur eru á leið inn í Evrópusambandið, og þess vegna er þessi EES-vist orðin tímaskekkja á þessum BREXIT-tímum.  

Um hina lagalegu hlið þessara óskapa var ritað í forystugrein Morgunblaðsins 4. september 2018:

"Gamalt og gallað þá og gallað nú":

"Einhverjir virðast hafa gælt við, að hægt yrði að lauma þingsályktunum og síðar lagafrumvörpum í gegnum Alþingi, þótt um næsta ótvíræð stjórnarskrárbrot sé að ræða, þar sem málið [Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn-innsk. BJo] væri í senn flókið og fráhrindandi fyrir almenning.

Það var upplýst á fundi í Valhöll sl. fimmtudag [30.08.2018 - innsk. BJo], að yfirgnæfandi líkindi eru til þess, að þannig hafi fjöldi afgreiðslna verið færður inn í íslenzka lagasafnið, sem stendur vart mikið lengur undir því nafni.  Það hafi verið gert gegn betri vitund, og afsökunin hafi gjarnan verið sú, að löggerningarnir tækju hver og einn til tiltölulega smávægilegra þátta, og því væru stjórnarskrárbrotin afsakanlegri eða að minnsta kosti ólíklegra, að einhverjir rækju hornin í þau.  

En eins og sérfræðingurinn í þessum fræðum minnti á, þá hljóta menn ekki aðeins að horfa á hvert mál fyrir sig, heldur einnig á heildaráhrifin á stöðu EES-samningsins gagnvart stjórnarskránni."

Þetta er nokkuð augljóst og jafnframt það, að rökleysa er að verja upptöku nýrra gjörninga með því, að þeir séu á vel afmörkuðu sviði. Það eru engin rök hér, þótt þeim sé hægt að beita í Noregi, því að aðferðin við upphaflega lögleiðingu EES-samningsins þar var öðru vísi en hér vegna þess, að stjórnarskrár þjóðanna tveggja eru ekki eins.  Þar er gert ráð fyrir, að aukinn meirihluti Stórþingsmanna, þ.e. 75 % mættra þingmanna (og að lágmarki 2/3 séu mættir við atkvæðagreiðslu) þurfi til að samþykkja lög, sem fela í sér afmarkað framsal fullveldis til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Noregur ekki er aðili.

Síðan þá segja menn sem svo í Noregi, að upptaka Evrópugerða af öllu tagi sé samt mun minni gjörningur en samþykkt EES-samningsins, og þess vegna dugi einfaldur meirihluti Stórþingsins.  Þetta hefur þó ekki verið undantekningalarlaust í Noregi, og nú hefur kæra verið lögð fyrir Hæstarétt landsins vegna málsmeðferðar á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB í marz 2018, þar sem forsætisnefnd þingsins ákvað að láta einfaldan meirihluta duga, þótt um fullveldisframsal í viðamiklum og þjóðhagslega mikilvægum geira væri að ræða.   

Á Íslandi horfir hins vegar málið þannig við, að þegar í upphafi, þ.e. í janúar 1993, var teflt á tæpasta vaðið og þolmörk Stjórnarskrárinnar reynd til hins ýtrasta við samþykkt EES-samningsins.  Síðan er búið að bæta um 12´000 lögum og tilskipunum ESB við EES-samninginn, svo að lögfræðileg skoðun á samninginum í heild hlýtur óhjákvæmilega að leiða í ljós, að núverandi EES-samningur brjóti gegn Stjórnarskrá.  

Síðan vitnar höfundur forystugreinarinnar í Morgunblaðsgrein fyrrverandi Alþingismanns og iðnaðarráðherra, Sighvats Björgvinssonar, sem einnig hafa verið gerð skil hér á vefsetrinu, og skrifar:

"Það er auðvitað hárrétt hjá Sighvati Björgvinssyni, að efnislegu rökin, sem liggja þegar á borðinu, horfa öll til þeirrar niðurstöðu, að þessum fráleitu hugmyndum hljóti menn að hafna þegar í stað og leiða ekki huga að þeim framar. Og engar forsendur, sem halda, liggja til þess að þvinga Ísland til slíkra aðgerða.

En hitt er svo til viðbótar og er úrslitaatriði.  

Jafnvel þótt þannig stæði á, að efnislegu rökin væru ekki til þess fallin að blása þetta mál út af borðinu með svo afgerandi hætti, þá væri ekki hægt að samþykkja væntanleg frumvörp, þar sem sjálf íslenzka stjórnarskráin stendur gegn því."

Á fundi Heimssýnar o.fl. í Háskóla Íslands 10. september 2018 voru 5 Alþingismenn með framsögu.  Það vakti athygli pistilhöfundar, hversu litla beina athygli þingmennirnir veittu Stjórnarskránni í framsöguerindum, þótt hún hafi kannski mótað afstöðu sumra óbeint, enda er búið að venja þá við að samþykkja stórar Evrópugerðir, sem greinilega fela í sér framsal ríkissvalds um málefni lögaðila og einstaklinga, hvað þá um málefni ríkisvaldsins.  Síðust slíkra innleiðinga var hin alræmda persónuverndarlöggjöf, sem reynist mörgu fyrirtækinu óþægur ljár í þúfu og mun reynast þeim öllum dýr á fóðrum.

Segja má, að Miðflokksþingmaðurinn, Sigurður Páll Jónsson, hafi mætt ákveðnastur til leiks á Háskólatorg, en hann lýsti því yfir, að "allir þingmenn Miðflokksins væru á einu máli um afstöðuna", þ.e. að greiða atkvæði gegn Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Það voru mjög mikilvægar og ánægjulegar upplýsingar fyrir áheyrendur á þessum fundi Heimssýnar o.fl.

Fullyrða má, að það hafi ráðið miklu um afstöðu margra þingmanna í janúar 1993, þegar atkvæði voru greidd á Alþingi um EES-samninginn í upphafi, að í honum var neitunarvald gegn viðbótum við samninginn afhent þjóðþingum EFTA-landanna.  Hegðun sumra þingmanna nú skýtur þess vegna mjög skökku við, þegar þeir láta, eins og himinn og jörð muni farast, og EES-samningurinn verði í uppnámi, ef Alþingi notfærir sér synjunarrétt sinn í fyrsta skipta til að hafna Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Þetta er þeim mun undarlegra sem það er nákvæmlega tilgreint í EES-samninginum sjálfum, til hvaða aðgerða ESB er heimilt að grípa, ef svo ber undir. ESB má í mesta lagi fella burt gerðir og tilskipanir af sama málefnasviði og hafnað var.  Í þessu tilviki er það Orkumarkaðslagabálkur 1 og 2.  Það væri nánast marklaus aðgerð að hálfu ESB, svo að langlíklegast er eftir sáttaferli, sem fara á af stað, að málið verði úr sögunni og Norðmenn og Liechtensteinar geri sérsamninga um snurðulaus raforkuviðskipti við ESB.

Það er nánast sorglegt að horfa upp á þingmenn gera því skóna, að aðgangur Íslands að Innri markaði ESB verði í húfi og jafnvel allur EES-samningurinn í uppnámi.  Þetta er einskær hræðsluáróður, sem varð alræmdur á Icesave-tímanum.  Ef samstarfsaðilar okkar í EES á ESB-hlið ætla að grípa til slíkra óþverrabragða, þá eru það ólögleg viðbrögð og sýna, að slíkum mönnum er bezt að halda í hæfilegri fjarlægð.   

 

 


ESA og raforkuverðið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sér hið fyrirheitna land Íslendinga innan "Festung Europa", þ.e. í náðarfaðmi embættis- og stjórnmálamanna Evrópusambandsins, ESB, sem er risi á brauðfótum, þar sem hagsmunir 0,35 M manna þjóðar á eyju langt norður í Atlantshafi yrðu ekki hátt skrifaðir.  Það er rislág framtíðarsýn að deila fullveldi smáþjóðar með hátt í 30 öðrum þjóðum og um hálfum milljarði manna.  Hins vegar er sjálfsagt að rækta heilbrigð tengsl við hinar Evrópuþjóðirnar.  

Þorgerður kynnti áherzlur flokks síns fyrir þingveturinn 2018-2019, sem er mjög eðlilegt af henni.  Hún virðist hins vegar hafa verið undarlega valvís í þeirri kynningu, því að ekki verður séð af meðfylgjandi veffrétt Morgunblaðsins, að hún minnist þar á eitt örlagaríkasta málið, sem kynnt hefur verið til sögunnar í vetur, þ.e. Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB. 

Það er líklega út af því, að henni finnst sjálfsagt, að Alþingi kokgleypi gagnrýnislaust alla Evrópugerninga, sem þangað berast.  Það sé nánast guðlast að athuga með gagnrýnum hætti, hvernig gerningurinn fellur að Stjórnarskrá lýðveldisins, eða hvernig hann fellur að auðlindastjórnun, sem samstaða hefur verið um að viðhafa í landinu og sem nauðsynleg er til að nýta orkulindirnar með hagkvæmasta hætti fyrir alla raforkunotendur í landinu.  Það blasir samt við og stendur upp úr tali sérfræðinga á sviði Evrópuréttar og stjórnlaga, að í heildina séð er EES-samningurinn með öllum sínum viðaukum og viðbótum kominn út yfir þau mörk, sem Stjórnarskráin leyfir.  

Viðreisn svipar að þessu leyti til trúflokks.  Spurningar um sannleiksgildi kenninganna eru óviðeigandi og allt, sem kemur frá fulltrúum almættisins í Brüssel, er óskeikult.  Hugarfar af þessu tagi er lágkúrulegt, gamaldags og með öllu óviðeigandi í stjórnmálum nútímans, enda fjarar nú mjög undan stjórnmálaflokkum í Evrópu, sem fórna vilja fullveldi þjóða sinna á altari ríkjasambands, hvað þá sambandsríkis Evrópu. Eru örlög krataflokkanna til vitnis um það. 

Eftir Þorgerði Katrínu var þessi speki höfð um orkumálin á blaðamannafundi Viðreisnar 08.09.2018:

"Við höfum m.a. fengið hærra orkuverð í gegnum EES-samstarfið, og því eru álfyrirtækin og aðrir að greiða hærra verð en áður ... ."

Hvað hefur formaður Viðreisnar fyrir sér um þetta ?  Ekkert handfast.  Þetta er tóm ímyndun.  ESA hefur samþykkt alla raforkusamninga, sem þessi Eftirlitsstofnun EFTA hefur rýnt, án athugasemda um orkuverðið sjálft, enda ekki hlutverk hennar að taka afstöðu með öðrum samningsaðilanum og á móti hinum.  ESA hefur í þessu viðfangi aðeins eitt hlutverk.  Að gæta þess, að orkusamningarnir feli ekki í sér ríkisstuðning, sem styrki samkeppnisstöðu viðsemjandans á kostnað annarra í sömu grein, t.d. innan áliðnaðarins, sem ekki verða aðnjótandi ríkisstuðnings.  ESA hefur aldrei komizt að slíkri niðurstöðu um orkusamninga á Íslandi. 

Það er viðurkennd staðreynd, að raforkuverð á Íslandi er einn af þáttunum, sem draga erlendar fjárfestingar hingað, og þótt flestu sé hægt að trúa upp á ESA, hefur hún aldrei dirfzt að setja sand í tannhjól samninga á milli íslenzkra orkuseljenda og orkukræfs iðnaðar.  

Það er dauðans vitleysa, að ESA (eða tilvera ESA) hafi hækkað verð í langtímasamningum um raforku á Íslandi, enda mætti líta á slíkt sem tilraun til að fæla fjárfesta frá Íslandi, en íslenzk stjórnvöld hafa í áraraðir reynt að laða erlenda fjárfesta til landsins, enda eru erlendar fjárfestingar hvarvetna í þróuðum ríkjum taldar eftirsóknarverðar, hagvaxtarskapandi og færandi með sér nýjustu þekkingu, t.d. á sviði framleiðsluiðnaðar.  Alveg ný og öflug umhverfis- og öryggisstjórnun hefur t.d. borizt um samfélagið frá álverunum.  

Þetta er hálmstrá Þorgerðar Katrínar til að bera í bætifláka fyrir samning, sem setur Íslendinga í þá aumkvunarverðu stöðu að vera undir þrýstingi að innleiða Evrópugerninga í lagasafn sitt, sem þeir ekkert hafa komið nálægt að semja og eru sniðnir við allt aðrar aðstæður en hér ríkja, og síðast en ekki sízt eru í trássi við Stjórnarskrá landsins að mati glöggra lagasérfræðinga.  Þetta hálmstrá hjálpar ekki slæmum málstað, sem er innlimun Íslands í Evrópusambandið sneið eftir sneið.  Þetta heitir að höggva úr launsátri eða að læðast aftan að saklausu fólki. Af hverju ekki að segja sannleikann umbúðalaust: EES-aðildin jafngildir aðlögunarferli að sjálfu Evrópusambandinu ?  Enginn ber brigður á mikilvægi tollabandalags við ESB, en má kannski halda því og sníða af alvarlega galla EES-samningsins með tvíhliða fríverzlunarsamningi ? 

 


mbl.is Væri „gríðarlegt tjón“ að ganga úr EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður sprettur Sighvats

Þeir virðast vera sárafáir, sem opinberlega taka upp hanzkann fyrir Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB hér á landi. Skyldi starfsvettvangur þeirra flestra vera í myndarlega hlaðna steinhúsinu við Austurvöll í Reykjavík ?  Það væri hneyksli aldarinnar.  

Nú hefur einn fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra kveðið sér hljóðs um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.  Sá heitir Sighvatur Björgvinsson og má líklega flokka til eðalkrata að fornum flokkunarhætti, ef þeir þá hafa einhverntíma verið til, og hann er líka fyrrverandi iðnaðarráðherra.  Sighvatur skrifaði góða grein í Morgunblaðið 3. september 2018:

"Ísland og orkupakkinn".

Þar fær hann ekki séð, að sú forsending eigi nokkurt erindi við Íslendinga, á meðan þeir eru enn ótengdir við raforkukerfi ESB-landanna, og slík tenging yrði hið mesta óráð að hans mati og sérfræðinga hans á sinni tíð.

"Skoðun málsins [raforkusala til Evrópu um sæstreng-innsk. BJo] lauk á minni tíð.  Frá lagningu sæstrengsins var alfarið horfið.  Ástæðurnar voru einkum og sér í lagi þessar:

1) Mjög mikill kostnaður var talinn verða við lagningu strengsins. Langt umfram getu íslenzku þjóðarinnar. [Það dettur varla nokkrum heilvita manni í hug, að Landsnet muni standa fjárhagslegan straum af aflsæstreng til útlanda, þótt ríkisfyrirtækið Statnett í Noregi eigi alla utanlandsaflstrengi frá Noregi - innsk. BJo.]  

2) Svo langur jarðstrengur hafði aldrei verið lagður og meira en vafasamt, að þáverandi tækni fengi við það ráðið.  [Það er enn svo, að yfir 1000 km aflsæstrengslengd er um tvöföld núverandi lengsta lengd án viðkomu á landi.  Mesta dýpi mun vera 1200 m, en aflsæstrengir hafa nú verið lagðir á meira dýpi. Líklega er veðurhamur og ölduhæð ekki meiri annars staðar yfir legu aflsæstrengja en á milli Íslands og Bretlands.  Þetta gerir viðgerðarskipum afar óhægt um vik, svo að bilun slíks sæstrengs getur hæglega varað 6-12 mánuði.  Þetta kallar á 2 sæstrengi, ef kröfur verða settar um afhendingaröryggi-innsk. BJo.]

3) Virðisauki af orkusölunni yrði ekki til staðar á Íslandi, eins og verið hefur, heldur í landi kaupanda. [Þetta er hárrétt og vegur mjög þungt gegn lagningu aflsæstrengs til útlanda, ef leggja á þjóðarhag til grundvallar.  Verðið, sem fæst fyrir orkuna hérlendis inn á þennan sæstreng, verður fyrirsjáanlega ekki hærra en verð til stóriðju vegna gríðarlegs flutningskostnaðar-innsk. BJo.]

4) Orkutap yrði feikilega mikið á hinni löngu leið, og kæmi það fram sem tekjutap við hlið kostnaðar við lagningu strengsins.  [Búast má við 10 % töpum alls í endabúnaði strengs (spennar, afriðlar og áriðlar) og í strengnum sjálfum.  Einhver þarf að bera kostnaðinn af orkunni, sem send er inn á endabúnað öðrum megin, en skilar sér ekki út hinum megin.  Í þessum pistli verður reiknað með, að strengeigandinn beri þennan kostnað-innsk. BJo]

5) Raforkuverð á Íslandi myndi gerbreytast í samræmi við reglur hins evrópska markaðar.  Raforkuverð til almennings myndi þannig hækka til mikilla muna.  Fordæmið: reynsla Norðmanna. [Það gefur auga leið, að með tengingu við raforkukerfi Evrópu með flutningsgetu, sem nemur allt að 40 % af uppsettu afli í virkjunum landsins, þá mun raforkuverð hér innanlands draga mjög dám af raforkuverðinu á "Nord Pool" orkukauphöllinni, þar sem Landsreglarinn og ACER-Orkustofnun ESB að öllum líkindum munu staðsetja viðskipti með raforku til og frá Íslandi. Þetta getur  valdið 60 % hækkun á rafmagnsreikningi heimilanna m.v. núverandi raforkuverð á Englandi og á Íslandi-innsk. BJo.]

Áfram hélt Sighvatur í þessari þörfu grein:

"Einnig virðist líklegra nú en þá, að útlendir fjárfestar fengjust til þess að kosta línulögnina, sem nú mun talin kosta 800 þúsund milljónir króna.  Varla gera þeir það nú ókeypis.  Hver skyldi orkusendingarkostnaðurinn verða um þá feikidýru sjólínu  - og hver á að borga sendingarkostnaðinn annar en sendandinn ?"

Það er rétt hjá Sighvati, að markaðurinn greiðir fyrir summuna af vinnslukostnaði á Íslandi og flutningskostnaði á markaðinn, sem þýðir, að orkuseljandi á Íslandi fær sem nemur markaðsverð á Englandi að frádregnum flutningskostnaði.  Í þessu tilviki nemur flutningskostnaðurinn 11,3 ISK/kWh, en markaðsverðið er um þessar mundir um 60 GBP/MWh eða um 8,9 ISK/kWh (1 GBP = 149 ISK).  E.t.v. fengist álag greitt ofan á markaðsverðið, af því að raforkan er græn, en það fengist eftir sem áður ekkert eða sáralítið núna fyrir raforku, sem framleidd er á Íslandi og send inn á sæstreng til Bretlands. 

Það verður annaðhvort að koma til stórfelldra opinberra styrkja við þessa fjárfestingu, eða raforkuverð á Englandi verður að hækka um a.m.k. 80 % til að einhver glóra verði í þessum viðskiptum.  Hvorugt er sennilegt, en þó er ekki útilokað, að ESB mundi vilja styrkja þetta verkefni myndarlega til að fá meiri raforku inn á Nord Pool markaðinn úr endurnýjanlegum orkulindum.  Ennfremur getur orðið lækkun á stofnkostnaði sæstrengs vegna tækniframfara. 

Miðað við þann kostnað, sem Sighvatur nefnir til sögunnar, getur varla orðið mikill áhugi hjá fjárfestum, nema ESB styrki verkefnið myndarlega til að fá meira ef raforku úr endurnýjanlegum orkulindum inn á sinn markað, eða þá að einhver stórfelld tæknileg framför verði við hönnun og/eða framleiðslu sæstrengja.  Nú er verið að hagkvæmnimeta "Icelink", aflsæstreng á milli Íslands og Skotlands, sem færður hefur verið inn á forgangsverkefnaskrá ACER um samtengiverkefni orkukerfa á milli landa, sem stuðla að því að ná markmiði ACER um 30 % flutningsgetu á milli landa miðað við heildarorkuvinnslu árið 2030.  Þessi verkefni eru jafnframt liður í því að auka hlut endurnýjanlegrar orku í ESB og að jafna orkuverðið á milli ESB-landanna.  Gangsetningartími "Icelink" er áætlaður árið 2027, svo að hjá ACER er líklega búizt við bæði hækkun raforkuverðs á Bretlandi og lækkun tilkostnaðar við sæstreng og endabúnað hans á næsta áratugi.  Litlu skiptir í þessu sambandi, þótt Bretar standi þá utan ESB.  Viðskipti þeirra með rafmagn við ESB-löndin munu halda áfram, og þeir munu jafnvel verða áfram í Orkusambandi ESB og Orkustofnuninni, ACER, þá með áheyrnarfulltrúa, eins og EFTA-ríkjunum er ætlað. 

Í lokahluta greinar Sighvats Björgvinssonar skriplar hann þó á skötunni eftir góðan sprett framanaf:

"Ásakanir um, að þessi orkupakki neyði okkur til lagningar sæstrengs eða sé fyrsta skrefið í átt til þess, að ESB leggi undir sig íslenzkar orkulindir eiga sér enga stoð í veruleikanum.  Þær eru hreinn tilbúningur.  En andmælendur þurfa ekki að búa sér til svona falsrök.  Rökin gegn innleiðingu orkupakkans, sem höggvin eru í stein og rakin hafa verið hér, eru nægileg til þess, að við stöndum á rétti okkar, sem skapast af því, að við stöndum utan evrópsks orkumarkaðar.  En þeir, sem vilja gangast undir þann markað og þá í hagnaðarskyni, verða líka að horfast í augu við, um hvað þeir eru að biðja.  En þeir um það !"

Eins og rakið er að ofan, verður það í raun ekki lengur í höndum íslenzka ríkisvaldsins að ákveða, hvort hingað verður lagður aflsæstrengur, ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.  Hins vegar getur ACER ekki þvingað Landsnet eða ríkissjóð til að taka þátt á fjármögnun strengsins.  Landsnet verður hins vegar að fylgja Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER og hefja vinnu við undirbúning að flutningi raforkunnar frá íslenzka stofnkerfinu og niður að lendingarstað sæstrengsins, þegar hann hefur verið ákveðinn. 

Það er mjög líklegt, að þáttur í styrkingu flutningskerfisins innanlands vegna aflsæstrengs verði jafnstraumsjarðstrengur á Sprengisandi með flutningsgetu um 500 MW.  Hann mun kosta um miaISK 40.  Til að flytja 1200 MW að sæstrengnum þarf líklega tvær 400 kV línur, sem gætu kostað miaISK 60.  Þannig munu fjárhagsbyrðar Landsnets nema um miaISK 100 af sæstrengnum, sem jafngilda a.m.k. 1,1 ISK/kWh eða tæplega 60 % hækkun á flutningsgjaldi raforku til notenda á Íslandi.  Ef þetta gengur eftir, verða Íslendingar þannig skyldaðir af ESB til að greiða niður flutningskostnað raforku til útlanda.  Það er ekki snefill af viðskiptaviti í þessari viðskiptahugmynd fyrir hérlandsmenn.  

Orkuauðlindarstýring Íslendinga snýst um að samnýta jarðgufu og vatnsafl með hagkvæmasta hætti.  Sú samstýrða nýting verður óleyfileg undir uppboðskerfi ESB, og raforkan mun einfaldlega flæða til hæstbjóðanda.  Verði sæstrengur lagður, er væntanlega rekstrargrundvöllur fyrir honum, og þá mun ásókn í rannsóknar- og virkjanaleyfi aukast.  Á EES-markaðinum má ekki mismuna t.d. Landsvirkjun og Vattenfall í leyfisveitingum.  Á Íslandi er ekki hægt að aðgreina auðlind og virkjun.  Er þá fjarri lagi að segja í þessari stöðu, "að ESB leggi undir sig íslenzkar orkulindir", þótt Sighvatur Björgvinsson telji það fráleitt ?

 

 

 

 

  


Lágt raforkuverð er undirstaða samkeppnishæfni atvinnulífsins

Valhallarfundurinn 30. ágúst 2018 kastaði ljósi á það, hversu varasamt er fyrir fullveldi landsins, Stjórnarskrána og raforkumarkaðinn á Íslandi, að Alþingi samþykki innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn og þar með inn í lagasafn Íslands.  Jafnframt er ljóst, að afleiðingar höfnunar eru mjög léttvægar í samanburði við áhættuna fyrir stjórnskipun landsins og samkeppnishæfni þess um fólk og fyrirtæki. Tal um, að EES-samningurinn og markaðsaðgengi Íslendinga að Innri markaðinum verði í uppnámi eftir höfnun, eru hugarórar einir og/eða hræðsluáróður.

Það má hiklaust líkja téðum orkulagabálki við Trójuhest ESB inn fyrir múra íslenzka stjórnkerfisins, því að embættið, sem komið verður á fót í kjölfarið, Landsreglarinn, verður einstætt í sögunni, hæstráðandi yfir mikilvægum þáttum þjóðlífsins, raforkuflutningi og raforkumarkaði, en algerlega óháð rétt kjörnum og rétt skipuðum yfirvöldum landsins samkvæmt Stjórnarskrá.  Með leikmannsaugum verður alls ekki séð, að embætti Landsreglara samræmist Stjórnarskrá Íslands.

Landsreglarinn fær ekki heimildir til að koma hér á uppboðsmarkaði raforku fyrr en samningar hafa verið gerðir við aflsæstrengsfjárfesta um lagningu slíks strengs frá Íslandi til Bretlands eða annars lands í Orkusambandi ESB. Hann mun þó áreiðanlega hvetja til þess frá fyrsta degi.  Landsreglarinn hefur sæstrengsumsókn í hendi sér, því að hann semur skilmálana fyrir strengnum, þótt Orkustofnun veiti leyfið.  ESA og EFTA-dómstóllinn eru svo úrskurðaraðilar um deilumál á milli leyfisumsækjanda og leyfisveitanda.  Einhverjir gæla við hugmyndina um, að Alþingi banni lagningu aflsæstrengs.  Þeir hinir sömu þurfa að sýna fram á, að eitthvert hald verði í slíkri lagasetningu.  Það er skoðun þessa pistilhöfundar eftir lauslega athugun, að svo verði  ekki, ef bannið stangast á við samþykkta Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER og hlutverk Landsreglarans að vinna að framkvæmd hennar.

Deilur um þetta munu hafna hjá ESA/EFTA-dómstólinum til úrskurðar, sem leggja mun Evrópurétt til grundvallar úrskurðum sínum.  Enn fjarstæðukenndari eru hugmyndir um fyrirvara við samþykkt téðs orkulagabálks í þá veru, að endanlegt dómsvald um ágreining vegna þessa orkulagabálks verði í höndum íslenzkra dómstóla.   

 Að kröfu norska Verkamannaflokksins var það á meðal 8 krafna norska Stórþingsins til framkvæmdastjórnar ESB við samþykkt Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, að allir aflsæstrengir frá Noregi yrðu í eigu Statnett, norska Landsnets, sem er í eigu norska ríkisins,en  aflsæstrengir til Íslands verða vafalítið alfarið í einkaeigu, hugsanlega styrktir af ESB. Þessi 8 norsku skilyrði voru ekki lögfest, og þau hafa ekkert gildi að Evrópurétti.  Framkvæmdastjórn ESB hefur það í hendi sér að sniðganga þessar kröfur Stórþingsins og mun að öllum líkindum gera það.  Annaðhvort beygja Norðmenn sig þá í duftið, eða þeir grípa til róttækra aðgerða varðandi EES-samninginn í heild, því að orkumarkaðslagabálkinum geta EFTA-ríkin ekki sagt upp einum og sér.  

Uppboðskerfi á raforku á mjög illa við íslenzkar orkulindir vegna þess, að við nýtingu þeirra þarf að beita auðlindastýringu, ef kostnaðurinn við nýtinguna á ekki að rjúka upp og þær að þverra, svo að þær gefi aðeins af sér skertar afurðir um tíma (tímabundin lág vatnsstaða í miðlunarlónum).  Á skammtímamarkaði geta jarðgufuvirkjanir ekki keppt við vatnsaflsvirkjanir.  Það er ekki hægt að sveifla raforkuvinnslu jarðgufuvirkjana mikið frá einni klst til annarrar, en það er hægt með vatnsaflsvirkjanir, og jarðgufuvirkjanir geta ekki keppt um orkuverð, þegar nóg vatn er í miðlunarlónum.  Til að koma í veg fyrir sóun orkulindanna og orkuskort er auðlindastýring nauðsynleg, þ.e.a.s. samstýra þarf hæð í miðlunarlónum, draga úr jarðgufuvinnslunni, þegar hratt hækkar í miðlunarlónum og auka jarðgufuvinnsluna, þegar hratt lækkar í miðlunarlónum.  Þetta er stýrð auðlindanýting í íslenzka raforkukerfinu í hnotskurn. Hún rúmast ekki innan markaðskerfis ESB og verður óleyfileg undir Landsreglara, þegar hann verður búinn að koma hér á frjálsri samkeppni um raforku að fyrirmynd Evrópusambandsins.

Uppboðsmarkaðurinn mun af þessum sökum leiða til hraðrar tæmingar lóna, og þau eru þá við lágmark e.t.v. í 3 mánuði ársins.  Orkustofnun ESB-ACER og fulltrúi hennar ("kongens befalingsmand") á Íslandi, Landsreglarinn, munu sjá aflsæstreng sem lausn á þessu vandamáli.  Þá geta Íslendingar flutt inn á veturna raforku, sem skortir upp á getu vatnsaflsvirkjananna.  Þetta mundi hækka raforkukostnað heimilanna um a.m.k. 50 % á ári, og "græna vottorðið" færi fyrir lítið.  

Hvað gerist í þessari stöðu, ef sæstrengurinn bilar ?  Viðgerðartími hans getur hæglega orðið 9 mánuðir.  Þann vetur verður neyðarástand á Íslandi vegna raforkuleysis sem leiða mun til skömmtunar og taps útflutningsverðmæta, sem gæti numið fjórðungi útflutningstekna í venjulegu árferði.  Að stefna landinu inn í þessa ófæru er fullkomið glapræði, þótt annað og sterkara orð ætti betur við þessa stöðu mála.   

 

 

  

 


Sumir pakkar eru forsendingar

Það er ljóst, að fundur nokkurra hverfafélaga í Reykjavík markar tímamót í baráttu sjálfstæðismanna gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB, í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, EES.  Engum vafa er undirorpið, að fleiri félög á landinu munu fylgja í kjölfarið og leita eftir afstöðu þingmanna flokksins í sínum kjördæmum.  

Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, dags. 31.08.2018, gerði þennan vatnaskilafund að umræðuefni með mjög jákvæðum og áhugaverðum hætti, enda gat hann trútt um talað, mættur sjálfur á svæðið.  Höfundur Reykjavíkurbréfsins er alfarið mótfallinn innleiðingu þessa "orkupakka" í íslenzka löggjöf vegna Stjórnarskrárbrota, sem í henni felast, og vegna þess, að "efnislega væri þessi innleiðing þess utan frámunalega óhagstæð hinni íslenzku þjóð, og dæmin, sem nefnd voru, tóku af öll tvímæli í þeim efnum".

Þá verður ekki betur séð en höfundurinn lýsi yfir vantrausti á nýlegri nefndarskipan utanríkisráðherra um reynsluna af EES, er hann skrifar:

"Varla dettur nokkrum manni í hug, að þeir, sem hafa staðið með svo óboðlegum hætti að málum, séu færir um að leggja mat á framvinduna fram að þessu."

Undir þetta skal taka og bæta við með hliðsjón af þessu Reykjavíkurbréfi, að meiri þörf er á skipan hæfileikafólks um valkostina, sem Íslendingar eiga við EES, því að öllum öðrum en nauðhyggjumönnum má ljóst vera, að rannsaka þarf þessa kosti og leggja mat á þá raunhæfustu og hagkvæmustu.  Þetta hafa Norðmenn þegar gert og gefið út 188 bls. skýrslu í A4-broti.  Þessa skýrslu geta Íslendingar reyndar tekið sér til fyrirmyndar og hagnýtt sér að breyttu breytanda.  

Verður nú aftur vikið að hinu ágæta Reykjavíkurbréfi. Um hegðun stjórnmálamanna og embættismanna þeirra í trássi við vilja yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnun Maskínu í vor skrifaði höfundurinn:

"Embættiskerfið ber enga ábyrgð, en stjórnmálamenn gera það, og sjálf stjórnarskráin mælir fyrir um, að þannig skuli það vera.

En fundarsóknin í kjölfar einnar blaðaauglýsingar samdægurs svarar því til, að þessu máli verður ekki svo auðveldlega svindlað í gegn, þótt brotaviljinn virðist óþægilega einbeittur."

Höfundur lýsti síðan, hvernig þessi ókræsilegi pakki var opnaður af framsögumönnum fundarins:

"Fjórir prýðilegir framsögumenn voru á fundinum um orkumálapakkann.  Þeir voru hver með sinn þátt undir, og var það gagnlegt.  Um sumt virtist málið flókið, en á daginn kom, að það, sem skiptir máli, var einfalt.  Erindin voru ítarleg og vönduð og fundarmenn virkir, og því teygðist verulega á fundinum án þess að þynntist á bekkjunum."

Höfundur Reykjavíkurbréfsins tengdi "orkupakkamálið" mjög sterklega við Stjórnarskrána og minnti á stefnumörkun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í marz 2018 um, að ekki skyldi verða um að ræða frekara valdframsal til erlendra stofnana yfir orkumarkaðsmálum Íslands:

"Fréttir af "formannafundi í Þingvallabæ" báru allar með sér, að tilgangurinn var ekki annar en sá að læðast aftan að íslenzku fullveldi.  Og nú virðist þessi orkupakki orðinn að bögglingi Sjálfstæðisflokksins !  

Landsfundur hefur þegar afgreitt málið með þunga.  Það var m.a. gert á sama fundi og núverandi iðnaðarráðherra var kjörinn varaformaður.  

Þess vegna er erfitt að horfa upp á þann ráðherra láta rugla sig í ríminu.  Rökin, sem helzt eru nefnd, eru ekki beysin.   "Það myndi eitthvað mjög alvarlegt koma fyrir, ef við hlýðum ekki skrifstofumönnum í Brüssel, eins og við gerum alltaf."

Þetta var reyndar inntakið í gerningaveðri áróðursins vegna Icesave.  

Og því er gjarnan bætt við, að Brüsselvaldið gæti tekið upp á að refsa okkur, ef við hlýddum ekki fyrirmælum þess."

Á téðum Valhallarfundi mátti ráða það af erindi Stefáns Más Stefánssonar, sérfræðings í Evrópurétti, að fulltrúar Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni og/eða yfirmenn þeirra í utanríkisráðuneytinu hafi hlaupið á sig með því að gera ekki fyrirvara við atriði Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB, sem greinilega brjóta í bága við íslenzku Stjórnarskrána.  Stefán Már ráðlagði að hafna þessum lagabálki ESB að svo komnu máli.  Vönduð greiningarvinna yrði að fara fram, enda væri þanþol Stjórnarskrárinnar raunverulega brostið, þegar á upphaflega EES-samninginn og allar viðbæturnar við hann væri litið.

"Á þetta [synjun Evrópugerða] hefur aldrei reynt, því að Ísland kyngir jafnan öllu.  En Brusselliðið, sem litla fólkið í ráðuneytunum umgengst, eins og börn umgangast leikskólakennara, hefði enga stöðu til að yggla sig í þessum efnum.  Það á ekki við, eins og hefur legið fyrir frá fyrsta degi og mátti lesa úr þessum fína fundi í Valhöll.

ESB er sem stofnun fullkomlega ljóst, eða ætti að vera það, að Ísland mætti aldrei og myndi aldrei lögtaka reglugerðir eða tilskipanir, sem því væri óheimilt í stjórnarskrá.  

Frá fyrsta degi samningaviðræðna um EES var viðsemjandanum gerð grein fyrir þessari staðreynd.  Ríkisstjórnin fékk vandaðan hóp fræðimanna til að fara yfir það, hvort EES-samningurinn stæðist Stjórnarskrá, enda hafði í átökum um hann verið fullyrt, að svo væri ekki.  Andstæðingarnir nutu lögfræðiaðstoðar að sínu leyti og fengu þá niðurstöðu, að EES-samningurinn færi út fyrir mörkin, sem stjórnarskráin leyfði.  Ríkisstjórnin og aukinn meirihluti Alþingis féllst hins vegar á það mat, sem hin opinbera laganefnd hafði í sinni niðurstöðu.  En það fór aldrei á milli mála og var viðurkennt og ítrekað á fundinum á fimmtudag, að þar var farið að yztu mörkum."

Alvarlegast og hættulegast við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi er, að samkvæmt honum verður stofnað til embættis í landinu, sem verður algerlega utan lýðræðislegs, innlends aðhalds, þannig að hvorki löggjafarvald, framkvæmdavald né dómsvald geta haft áhrif á gjörðir þessa embættis.  Embættinu er ætlað eftirlits- og stjórnunarhlutverk með flutningskerfi raforku í landinu og tekur þannig við núverandi hlutverkum Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytis á þessu sviði, rýnir og samþykkir netmála (tæknilega tengiskilmála) Landsnets og dreifiveitna og gjaldskrár þessara fyrirtækja.  Embættinu er jafnframt ætlað æðsta eftirlitshlutverk með raforkumarkaðsmálum landsins.  Þótt það hafi ekki vald til að skipa fyrir um fyrirkomulag markaðarins fyrr en tenging við rafkerfi í Orkusambandi ESB er komin á framkvæmdastig, þá má fastlega gera ráð fyrir, að embætti þetta, Landsreglarinn, muni hvetja til upptöku uppboðskerfis raforku að hætti ESB frá fyrsta degi.  

Í tveggja stoða kerfi EES á ESA-Eftirlitsstofnun EFTA að gegna hlutverki framkvæmdastjórnar ESB gagnvart EFTA-löndunum.  Í samningum innan EES, væntanlega í Sameiginlegu EES-nefndinni, var hins vegar ESA-svipt sjálfstæði sínu gagnvart ACER og verður að taka við úrskurðum, tilmælum og fyrirmælum frá framkvæmdastjórn ESB og Orkustofnun ESB-ACER og framsenda slíkt til Landsreglarans.  Þarna eru hagsmunir Íslands algerlega bornir fyrir borð, landið er nánast innlimað í ESB á raforkusviðinu. Þetta er á meðal grófustu Stjórnarskrárbrota, sem sézt hafa. 

Lýsingu á samningum EFTA og ESB um þetta er að finna í frumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar nr 4 S (2017-2018): 

"Samþykki á ákvörðun EES-nefndarinnar nr 93/2017 frá 5. maí 2017 um innleiðingu réttarfarsáhrifanna í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum í EES-samninginn",

og er á þessa leið í þýðingu pistilhöfundar:

"Eftirlitsstofnun EFTA skal, þegar hún gerir slíkar samþykktir [er fara til Landsreglarans - innsk. BJo], reisa samþykktina á drögum frá ACER.  Slík drög eru ekki lagalega bindandi fyrir Eftirlitsstofnun EFTA.  Það er grundvallar forsenda fyrir fyrirkomulaginu, sem samið hefur verið um, að Eftirlitsstofnun EFTA muni, skömmu eftir móttöku slíkra draga frá ACER, gera samhljóða eða næstum samhljóða samþykkt."

Þar með er íslenzki raforkumarkaðurinn og flutnings- og dreifikerfin komin undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB um nokkra milliliði.  Það er m.a. þetta, sem átt er við,þegar rætt er um hættuna, sem fullveldi landsins og sjálfstæði stafar af þessum lagabálki. Eftir samkeppnismarkaðsvæðingu íslenzka raforkumarkaðarins getur orðið stutt í kvörtun ESA til íslenzku ríkisstjórnarinnar út af því, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skekki mjög samkeppnisstöðuna á markaðinum, sjá Valhallarræðu, 30.08.2018 í viðhengi.  Þar með er ESB komið með klærnar í alla 4 geira raforkukerfisins.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband